Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Traust umboð Sigrúnar Bjarkar í leiðtogastólinn

Mikil spenna var í Kaupangi í gærkvöldi þegar Anna Þóra, formaður kjörnefndar, las upp úrslit í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna, enda engar millitölur birtar. Sigur Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur er afgerandi og traustur og hún hefur nú fengið sterkt umboð til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum í vor.

Sigrún Björk fékk góða kosningu í prófkjörinu 2006, fékk þá ein bindandi kosningu með Kristjáni Þór Júlíussyni og varð svo bæjarstjóri þegar hann fór í þingframboð og hefur leitt hópinn síðan, sem bæjarstjóri út þann tíma kjörtímabilsins sem ætlaður var Kristjáni Þór fyrst og leitt meirihlutann með Samfylkingunni.

Traust umboð Sigrúnar Bjarkar í leiðtogasætið gefur til kynna að almennir flokksmenn vilji að hún haldi sínum verkum áfram og fái tækifæri til að leggja verk sín í dóm kjósenda. Umboðið er líka það sterkt að hún verður væntanlega bæjarstjóraefni listans.

Hitt er svo annað mál að Sigrún hefur verið sterki leiðtoginn í bæjarstjórninni síðan Kristján Þór fór. Eftirmaður hennar sem bæjarstjóri hefur ekki slíka stöðu, enda fékk hann tvo þriðju atkvæða í leiðtogaframboði með engan keppinaut.

Sigrún Björk hefur haft afgerandi stöðu í bæjarfulltrúahópnum og í flokkskjarnanum. Úrslitin gefa til kynna að flokksmenn vilji traust akkeri í forystu listans og bjóða fram sterkan pólitískan valkost sem bæjarstjóra, eins og áður með KÞJ.

mbl.is Öruggur sigur Sigrúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæstur sigur fyrir Indefence

Seint og um síðir... eftir endalaus afglöp og sleifarlag vinstristjórnarinnar er Icesave-málið komið í viðunandi ferli fyrir íslensku þjóðina. Eftir að stjórnarandstaðan settist að borðinu með ríkisstjórn sem hafði gjörsamlega klúðrað málinu og sat eftir með tapað tafl og samansafn af heimskupörum virðist samningur í sjónmáli sem sættir aðila og getur leitt til samstöðu.

Indefence hópurinn hefur unnið glæstan sigur ef þetta verður raunin - sigur sem aldrei var sjálfgefinn í baráttu við ríkisstjórnin sem var tilbúin að selja sálu sína fyrir að koma afleitum díl og varpa þungum byrðum yfir á íslensku þjóðina, allt fyrir aðgöngumiða að Evrópusambandinu, höfundi gallaðs regluverks.

Burt með þessa óstjórn.


mbl.is Íslendingar greiði ekki Icesave-vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðalegir eftirmálar vinstri græns prófkjörs

Vandræðagangur og klíkuskapur einkennir eftirmála prófkjörs vinstri grænna í Reykjavík um helgina. Augljóst er að frambjóðendur sátu ekki við sama borð og hliðrað til reglum fyrir vissa aðila eða þá svo illa staðið að umgjörð prófkjörsins að það skilur eftir sig fleiri spurningar en svör. Við bætist að sumir aðilar geta ekki svarað eðlilega fyrir prófkjörið og fara í vandræðalega vörn, sem heldur engu vatni og er algjörlega óskiljanlegt.

Ef þetta er lýðræðisást vinstri grænna í hnotskurn er óþarfi að gefa mikið fyrir það hugtak á þeim bænum. Þegar við bætist að háskólakennari fléttist inn í vandræðalegu vinnubrögðin og sér ekki sóma sinn í að biðjast afsökunar eða allavega beygja af leið er illa komið fyrir viðkomandi. Spurt er ósjálfrátt um sómatilfinningu og heiður þeirra sem í hlut eiga.

Hvað hefði verið sagt ef ónefndur en margfrægur prófessor í stjórnmálafræði sem tengdur er í Sjálfstæðisflokkinn hefði stundað slík vinnubrögð og verið flæktur í prófkjörsvafstur fyrir vini sína með sama hætti? Ekki er greinilega sama hver í hlut á. Ekta vinstri hræsni.

mbl.is Moldviðri vegna þess að róttækur femínisti lagði miðaldra mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarsamstarfið felur feigðina í sér

Stjórnarsamstarf vinstriflokkanna virðist á endastöð eftir aðeins 53 vikur. Öllum má ljóst vera að þegar þeir eru farnir að leita að þriðja hjóli undir vagninn hefur samstarfið ekki gengið upp. Sundurlyndi vinstrimanna er reyndar rómað og margfrægt.

Sumir töldu þó að hreinn þingmeirihluti vinstrimanna myndi færa þeim meiri tækifæri til samstarfs. Öllum var jú talin trú um að fengju þeir þingmeirihluta gætu þeir unnið mál samhent og vel. Þeir hafa ekki staðið undir því trausti landsmanna.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er farin í frí á undarlegasta tíma, þegar stjórnin sligast og vandræðagangur hennar eykst dag frá degi. Hún er orðin örmagna og þreytt, búin með sitt pólitíska kapítal og væntanlega á útleið.

Enn hefur ekkert verið gefið upp um hver gegni embætti forsætisráðherra meðan Jóhanna er í leyfi. Vandræðagangurinn er algjör. Á meðan Jóhanna er úti er reynt að tryggja undirstöður þessarar löskuðu stjórnar.

En þetta stjórnarsamstarf felur feigðina í sér. Allar líkur eru á nýjum kosningum fljótlega. Ef þessi stjórn getur ekki höndlað verkefnin og staðið undir trausti landsmanna á hún að fara frá og rjúfa þing.

mbl.is Biðla til Framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lukkuriðill fyrir KSÍ - spennandi leikir

Deila má um hvort íslenska karlalandsliðið sé heppið með riðilinn sinn í undankeppni EM 2012, en þetta er lukkudráttur fyrir Knattspyrnusamband Íslands peningalega. Það verður eflaust sneisafullt á Laugardalsvelli þegar íslenska liðið mætir því portúgalska og fær Ronaldo, einn vinsælasta knattspyrnumann heims í heimsókn.

Ekki amalegt fyrir íslenska knattspyrnumenn að fá Ronaldo, Riise, Agger og Deco í heimsókn í undankeppninni. Okkur hefur aldrei tekist að vinna Dani í landsleik og kominn tími til. Þetta verður spennandi og KSÍ getur vel við unað peningalega með þennan pakka.

mbl.is Mæta Norðurlöndum og Portúgal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin á flótta frá samningum Svavars

Seint og um síðir hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, loksins lýst yfir efasemdum á valinu á Svavari Gestssyni sem aðalsamningamanni í Icesave-málinu, þó ekki segi hún það vera mistök. Þetta eru mikil tíðindi, eftir margra mánaða vörn stjórnarflokkanna við þann lélega samning sem Svavar og sendifulltrúar vinstri grænna komu með heim. Þetta er kjaftshögg fyrir vinstri græna sem hafa aldrei viljað viðurkenna mistökin með valinu á Svavari.

Þetta kalda mat þarf þó ekki að koma að óvörum, enda blasir við að þjóðin muni henda þessum samningi út í hafsauga í þjóðaratkvæðagreiðslu í næsta mánuði. Samfylkingin er komin á flótta frá samningnum á meðan VG leggur allt púður sitt í að verja læriföður Steingríms - þeirra pólitíska fulltrúa í samningaferlinu.

Þessi samningur er á ábyrgð vinstri grænna, þeir völdu samningamanninn og þeir tóku málið úr því ferli sem það hafði verið. Allt á ábyrgð Samfylkingarinnar sem leyfði þeim að vinna málið áfram. Einhver verður að taka pólitíska ábyrgð á þessum afleita samningi ef tveir þriðju þjóðarinnar synja eins og kannanir sýna.

Nú á þjóðin valið - hún á að henda þessum samningi út í hafsauga. Enda vorum við með lélega samningamenn og klúðruðum málinu með lélegum stjórnmálamönnum á vaktinni og mistökum þeirra. Nóg er komið af þessu rugli. Þjóðin hefur nú valdið og á að senda skýr skilaboð.

mbl.is Skynsamlegt að fá erlendan samningamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur Hermannsson látinn

Steingrímur Hermannsson Við andlát Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, er fallinn í valinn einn litríkasti stjórnmálamaður þjóðarinnar á 20. öld. Hann naut virðingar og stuðnings þjóðarinnar, þó skiptar skoðanir hafi verið um verk hans og pólitíska forystu Framsóknarflokksins gegnum tíðina. Hann ávann sér velvild og virðingu þjóðarinnar með vinnubrögðum sínum og forystu.

Steingrímur Hermannsson var að mínu mati frambærilegasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar, stjórnmálamaður níunda áratugarins án vafa, og ég bar alla tíð mikla virðingu fyrir honum, þó ekki hafi ég alltaf verið sammála honum eða því sem Framsóknarflokkurinn hafði fram að færa í verkstjórn hans.

Ég mat alltaf mjög mikils einlægni hans og hversu traust hann talaði máli íslensku þjóðarinnar. Hann var mannlegur og virðulegur stjórnmálamaður. Ég votta fjölskyldu Steingríms innilega samúð mína.

mbl.is Steingrímur Hermannsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn fyllir upp í pólitískt tómarúm

Enginn vafi leikur á því að forseti Íslands hefur fyllt upp í pólitískt tómarúm á Íslandi með forystu sinni síðustu vikurnar, bæði er hann synjaði Icesave-lögunum og þegar hann tók til við að tala máli Íslands á alþjóðavettvangi í kjölfarið. Forsetinn hefur setið einn að því verkefni, enda hefur vinstristjórnin verið algjörlega máttlaus að öllu leyti, bæði við að verja hagsmuni Íslands og tala máli þjóðarinnar, eða taka á nokkrum þeim verkefnum sem við henni blasa. Þessi vandræðagemlingur er víst ársgamall í dag, hefur ekkert afrekað á heilu ári, er enn að bisa við að klúðra málum.

Vinstrimenn töldu sig eiga hvert bein í forsetanum og hann myndi aldrei þora að leggjast gegn málum þeirra, hugsa öðruvísi eða vinna gegn þeirra málum. Því eru þeir mjög ráðalausir að horfa á Ólaf Ragnar taka forystuna af máttlausri ríkisstjórn þeirra, t.d. á fundinum í Davos. Með framgöngu sinni hefur Ólafur Ragnar styrkt stöðu sína, styrkt stöðu forsetaembættisins enda er augljóst að meirihluti þjóðarinnar hefur viljað að einhver talaði máli Íslands.

Ólafur Ragnar er kamelljón, öll framganga hans síðustu áratugi sannar það svo ekki verður um villst. Hann er nú í hlutverki þess sem ræður för á Íslandi - hann er maðurinn sem fyllti upp í pólitískt tómarúm í glundroðanum sem einkennir íslensk stjórnmál. Vinstriflokkarnir stóðu ekki undir því trausti sem þjóðin veitti þeim í síðustu þingkosningum og horfir í aðrar áttir eftir forystu.

mbl.is „Taktu leikhlé, herra forseti"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eiga ekki að láta tudda níðast á sér

Breski fréttaskýrandinn Max Keiser átti stjörnuframmistöðu í Silfri Egils. Auðvitað hefur hann rétt fyrir sér: við Íslendingar eigum ekki að láta breska tudda í Downingstræti níðast á okkur. Við eigum að taka slaginn og svara fyrir okkur, hefðum betur gert það haustið 2008 þegar durturinn Gordon Brown hjólaði í íslensku þjóðina, fyrst og fremst til að hefna fyrir þorskastríðin og bæta stöðu sína í skoðanakönnunum.

Sú spurning er áleitin hvers vegna íslensk stjórnvöld tóku ekki slaginn við Bretland í upphafi málsins, þegar einhver vörn var í boði. Auðvitað áttu stjórnmálamenn hér heima að fara með mál sitt fyrir NATÓ - ekki átti að sætta sig við að eitt NATÓ-ríki beitti hryðjuverkalögum gegn bandalagsþjóð. Í staðinn var hummað og hóstað máttleysislega. Ekkert af viti var gert.

Íslenskir ráðamenn horfðu þegjandi á Gordon Brown vega að Íslandi og veita því mikið og þungt högg með orðum sínum á SKY 9. október 2008. Kippt var í einhverja diplómatíska spotta með því að kalla sendiherrann til forsætis- og utanríkisráðherra en ekkert meira var gert. Íslenskir ráðamenn höfðu ekki það í sér að taka til sinna ráða, ekki einu sinni tala við bresku pressuna.

Sumum fannst ég djarfur þegar ég sagði í bloggfærslu 9. október 2008, eftir viðtalið við durtinn Brown á Sky þar sem hann jós skít og skömmum yfir Ísland, að Ísland ætti að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Æ betur sést að það hefðum við átt að gera. Íslensk stjórnvöld áttu að svara fullum hálsi og taka málið föstum tökum frá fyrsta degi í stað þess að lympast niður.

Við höfum með þögn og aðgerðarleysi okkar í alþjóðasamfélaginu, t.d. með því að mótmæla ekki harðlega á leiðtogafundi NATÓ fyrr á þessu ári, vanið Bretana á að sparka í okkur án þess að svara í sömu mynt. Ég held að síðar meir verði þetta hik og aðgerðarleysi metið sem mikil og taktísk mistök. Slíkt blasir reyndar við öllum sem sjá þessa sögu nú ári síðar.

Þegar ein þjóð í NATÓ-samstarfinu beitir annarri hryðjuverkalögum og reynir að sparka henni til helvítis með því að eyðileggja orðspor hennar með vísvitandi hætti á slíkt heima innan NATÓ til umræðu.

Íslendingar hafa nú fengið nóg af yfirgangi Breta og ég tel að þeir eigi að tjá það hreint út í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars og hafna Icesave með afgerandi hætti. Fyrst íslensk stjórnvöld sofa á verðinum verður þjóðin að taka málin í sínar hendur.


mbl.is Segir Darling og Brown vera hryðjuverkamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin situr hjá í samningaviðræðum

Því ber að fagna að fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu fari til fundahalda við Hollendinga og Breta. Því var ekki farið í svona ferðir fyrir löngu síðan? Vegna þess að það hentaði ekki vinstristjórninni? Er þetta bara vegna þess að hún hefur klúðrað málinu svo feitt og raun ber vitni? Ekki ólíklegt...

Stóru tíðindin eru þau að Samfylkingin, stærsti flokkur þjóðarinnar í þingkosningunum 2009, á engan fulltrúa í þessari ferð. Forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir fer ekki og enginn staðgengill hennar, hvorki Össur, sem hefur verið vanur slíku hlutverki mjög lengi, né varaformaðurinn Dagur. Vandræðalegt...

Samfylkingin ætlar sumsé ekki að skipta sér af þessum samningaviðræðum, treystir Steingrími J. fyrir þessu einfaldlega. Merkileg tíðindi það. Þetta er væntanlega gott dæmi um hversu mikil leiðtogakrísa blasir við Samfylkingunni, nú þegar ljóst er að líður mjög að endalokum stjórnmálaferils Jóhönnu Sigurðardóttur.

Samfylkingin hefur illa staðið undir því hlutverki að vera stærsti flokkur þjóðarinnar... hefur samið gegn hagsmunum þjóðarinnar æ ofan í æ síðustu mánuði til að reyna að halda blautum ESB-draumi sínum á lífi, frekar viljað borga meira en þarf vegna Icesave og ekki viljað vinna hag Íslands sem mestan.

Besta dæmið um vandræðagang Samfylkingarinnar er að hann situr hjá í þessum samningaviðræðum. Hverjum hefði órað fyrir að Davíð Oddsson hefði sent Halldór Ásgrímsson til viðræðna af þessu tagi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins á forsætisráðherraferli sínum. Slíkt hefði aldrei gerst.

Við höfum veikburða forsætisráðherra, sem hefur aldrei staðið undir því verkefni sem henni var falið. Það sést einna best af þessum vandræðagangi. Og Samfylkingin er sumpart þegar orðin leiðtogalaus og er mjög veikburða, stólar bara á Steingrím Jóhann. Pínlegt...

mbl.is Allra augu á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband