Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.1.2010 | 18:38
Rétt ákvörðun hjá Ásbirni
Ási hefur viðurkennt lögbrot og það kemur ekki til greina að hann setjist í nefnd til að fjalla um efnahagshrunið og viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Algjör fjarstæða - Ásbjörn og forysta flokksins áttu að vita betur en reyna að verja það.
Þessi ákvörðun kemur seint, of seint. Hún var algjörlega óumflýjanleg eins og staðan er. Pólitísk staða Ásbjörns hefur auðvitað veikst mjög. Mér finnst að hann ætti að hugleiða afsögn af Alþingi eða víkja þaðan tímabundið hið minnsta.
Segir sig úr þingmannanefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2010 | 16:01
Kolsvört skýrsla rannsóknarnefndar í sjónmáli
Ég hef aldrei efast um að rannsóknarnefnd Alþingis vinni heiðarlega og traust að málum. Orðspor þeirra og trúverðugleiki er jú undir. Hef enga ástæðu til að ætla að vandað fólk leggi sig að veði fyrir vonda skýrslu. Enda kallar þjóðin eftir því að hreinsað verði til og stokkað upp - skýrslan verður að gefa fólki trú á að hún sé upphaf nýrra tíma.
Held að þessi skýrsla verði svartari og meira afgerandi en flestir gera sér grein fyrir. Enda gefa ummæli aðstandenda skýrslunnar fullt tilefni til þess að svo verði. En þetta verður svart, svosem ekki tilefni til annars þegar annað eins hrun hefur sligað heila þjóð.
Gráti nær yfir efni skýrslunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2010 | 15:37
Skýrslu rannsóknarnefndar frestað
Enda er augljóst af ummælum Páls Hreinssonar og Tryggva Gunnarssonar að skýrslan verður svört og mun taka á öllum lykilatriðum málsins. Enginn dregur það í efa að hún verði afgerandi, held að enginn eigi von á kattarþvotti eða útúrsnúningum. Slíkt mun aldrei gera sig í þeirri stöðu sem við blasir og töfin er merki um viðbótarferli sem skiptir máli mun frekar en eitthvað annað.
Skýrslan frestast enn lengur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2010 | 13:18
Flottur listi hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík
Júlíus Vífill fær góðan stuðning í annað sætið og græðir á því að Gísli og Tobba börðust bæði um annað sætið. Gísli Marteinn fellur niður listann eftir að hafa tapað naumlega slagnum um annað og þriðja sætið. Slagurinn um annað sætið var barátta þeirra fyrst og fremst, eins og vel sést af tölunum. Mjög hefur verið sótt að Gísla Marteini og fáir sem hafa orðið fyrir harðari pólitískri aðför að persónu sinni á síðustu árum en hann, oftast með mjög ómerkilegum hætti.
Tobba tók talsverða áhættu með að sækjast eftir öðru sætinu og hefði eflaust fengið góða kosningu í þriðja sætið hefði hún tekið þann slag, en hún var djörf í sinni baráttu og hækkar upp listann, þó ég hefði viljað sjá hana ofar. Kjartan hefur eins og áður traust pólitískt bakland og stuðningsmannahóp - hefur setið í borgarstjórn lengst allra sjálfstæðismanna nú þegar Vilhjálmur Þ. hættir eftir 28 ára setu þar.
Geir Sveinsson kemur sterkur inn á framboðslistann, efstur nýliðanna, og getur mjög vel við unað. Mér fannst það talsverður hroki hjá Geir að lýsa óánægju með útkomuna. Eflaust talar þar keppnismaðurinn Geir, sem var handboltafyrirliði árum saman og mikill íþróttakappi með mikið keppnisskap. Hann á hinsvegar ekki að láta svona klaufaleg ummæli og á að vita betur en þetta. Vond byrjun vægast sagt!
Áslaug og Hildur koma sterkar inn í hóp efstu frambjóðenda og munu verða mikilvægur hluti kosningabaráttunnar fyrir sjálfstæðismenn. Í heildina mjög sterkur listi sem á að geta gert góða hluti. Ég óska sjálfstæðismönnum góðs gengis í kosningunum í vor. Þetta er listi sem getur á góðum degi tekið borgina traust.
18 atkvæðum munaði á Kjartani og Gísla í 3. sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2010 | 03:10
Glæsilegur sigur Guðmundar Baldvins
Úrslit prófkjörsins í heildina markast af mikilli uppstokkun. Sitjandi bæjarfulltrúi hættir og nýju fólki er treyst fyrir uppbyggingu flokksstarfsins. Mundi fær afgerandi umboð til að leiða það starf á meðan hinir leiðtogaframbjóðendurnir fá báðir mikinn skell.
Gerður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi 2002-2006, sem féll naumlega úr bæjarstjórn í síðustu kosningum, fær mikinn skell og Hannes Karlsson náði ekki flugi í leiðtogaframboði sínu. Petrea Ósk og Sigfús Karlsson ná bæði settu marki, fá trausta kosningu.
Þetta er framboðslisti sem getur því sótt fram. Er ekki markaður af fortíðinni og hefur talsverð sóknarfæri, ekki ólíkt Samfylkingunni sem vann mikið fylgi í síðustu bæjarstjórnarkosningum, hafði ekki bæjarfulltrúa og gat sótt fram óhikað.
Guðmundur sigraði í prófkjöri Framsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2010 | 21:22
Vandræðalegt klúður hjá Ríkisútvarpinu
Forðum daga var fréttastofa Ríkisútvarpsins rómuð fyrir trúverðugan fréttaflutning, skotheld vinnubrögð og mátti treysta fréttum þar betur en á flestum öðrum fjölmiðlum. Kaldhæðnislegt er að þetta klúður er afsakað á þeim degi er fjölda kvenna er vísað þaðan á dyr og þrengt svo að landsbyggðarfréttum að slagorðið Útvarp allra landsmanna hljómar eins og hver annar ódýr brandari.
Þetta klúður vekur spurningar um hvað er að gerast hjá fréttastofunni á vakt Óðins Jónssonar. Afsökunarbeiðnin breytir ekki því að efast er æ meir um vandaðan fréttaflutning hjá Ríkisútvarpinu. Fréttir þaðan og vinnubrögð verða æ litaðri og frægð hinna fornu daga gleymist mjög hratt.
Bað þingmenn og sendiherra afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2010 | 22:13
Blóðugur niðurskurður hjá RÚV
Ekki stóð það lengi að Sjónvarpið væri með fréttaskýringaþátt. Fréttaaukinn með Elínu Hirst er sleginn af og henni vísað á dyr og flaggskipið í kvölddagskránni veikt gríðarlega í sessi og glamúrinn tekinn úr þættinum auk þess sem svæðisstöðvarnar fá nokkurn skell, rétt eins og í síðustu niðurskurðaráformum.
Auðvitað þarf þetta ekki að koma að óvörum. Niðurskurður hefur verið mikill í fjölmiðlabransanum að undanförnu og ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan Morgunblaðið fór í sársaukafullan niðurskurð og sagði upp fjölmörgum reyndum blaðamönnum, sumum eftir áratugalöng störf.
Auðvitað eru þetta vondar fregnir fyrir þá sem vilja traustar og góðar fréttir, vandaða fréttaumfjöllun. Hún verður illa úti í þessu árferði og auðvitað ömurlegt að það sé ráðist að góðri dagskrárgerð.
Niðurskurður og hagræðing verður einkennisorð fjölmiðla á næstunni, eins og víða annarsstaðar. Með því er auðvitað ljóst að gæði dagskrár minnkar og ekki er sjálfgefið að við fáum sömu góðu þjónustu og áður var.
Margir missa vinnuna á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2010 | 18:04
Ólafur F. gjörsamlega genginn af göflunum
Framganga Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa, á borgarstjórnarfundi í dag í garð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, er til skammar og honum ekki til sóma. Maðurinn virðist gjörsamlega genginn af göflunum ef marka má orðaforða hans í ræðu á borgarstjórnarfundinum og þá níðvísu sem hann las upp gegn Hönnu Birnu. Ætli Ólafur F. að reyna að ná endurkjöri í borgarstjórn á svona trixum er ekki von á málefnalegri og merkilegri kosningabaráttu af hans hálfu.
Eitt af lykilatriðum stjórnmálamanna vilji þeir vera trúverðugir er að vinna af einlægni og trúverðugleika, sýni að þeir séu traustsins verðir. Framganga Ólafs F. á þessum fundi í dag styrkir ekki stöðu hans sem stjórnmálamanns og vekur aðeins spurningar um hvort hann gangi heill til skógar.
Ólafur víttur á borgarstjórnarfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2010 | 15:37
Þórhallur Gunnarsson segir upp hjá RÚV
Ákvörðun Þórhalls vekur spurningar um hvað sé framundan hjá Ríkisútvarpinu, ekki aðeins hvernig dagskrárstefnan breytist þar heldur hvernig sparnaðaráformin verði. Væntanlega verður farið í blóðugan niðurskurð á dagskrárgerð Sjónvarpsins. Þá kemur væntanlega í ljós hvað er höggvið af og hverju er breytt. Væntanlega mun Sjónvarpið finna illilega fyrir þeim niðurskurði og eðlilegt að spurt sé hvort Þórhallur hætti vegna niðurskurðar í Sjónvarpinu.
Kannski á að fara að breyta Kastljósinu og umgjörð þessa flaggskips Sjónvarpsins í dagskrárgerð. Ef svo verður verður ákvörðun Þórhalls örugglega skiljanlegri.
Þórhallur hættir á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2010 | 12:30
Höfnum Icesave-samningnum 6. mars
Þetta er í sjálfu sér ekki flókið mál. Íslenska þjóðin hefur í valdi sínu hvort þessum samningum og skuldbindingum verði hafnað eður ei. Ég tel þetta gullið tækifæri fyrir íslensku þjóðina til að taka málin í sínar hendur og taka af skarið um hver þjóðarviljinn er í málinu.
Kosið 6. mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |