Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kaupa framsóknarmenn fötin handa Birni Inga?

Björn Ingi Hrafnsson Það er freistandi að telja daga Framsóknarflokksins liðna þegar að heyrist að flokksheildin hafi keypt föt fyrir Björn Inga Hrafnsson fyrir síðustu kosningar. Hvers konar vinnubrögð hafa eiginlega viðgengist í þessum flokki? Er nema von að spurt sé? Skil samt ekki í fjölmiðlum og Guðjóni Ólafi Jónssyni, fyrrum alþingismanni, að tala undir rós um framsóknarmenn þegar að allir vita að Framsókn á aðeins einn borgarfulltrúa. Aðrir koma varla til greina.

Fyrstu viðbrögð mín við þessari frétt í kvöld voru eiginlega hlátur, langt hláturskast. Þessi flokkur þarf ekki andstæðinga tel ég. Hann er að klára sig alveg innbyrðis. Er nokkur furða þó að pólitískir sérfræðingar séu hættir að velta þessum flokki fyrir sér. Hann er nær algjörlega valdalaus orðinn í samfélaginu utan við lykilstöðu Björns Inga í borgarmálunum, sem hann hélt þrátt fyrir að fara í fjögurra framboða meirihluta í Reykjavík og vera mun minni en leifarnar af Frjálslynda flokknum í borgarstjórn. Einu sinni var þetta virtur flokkur valdanna, naut virðingar víða og margir voru hræddir við hann. Nú virðist hann vera á leiðinni fyrir ætternisstapann.

Það virðist vera að Framsóknarflokkurinn sé í sjálfsmorðsherferð þessa dagana. Það er freistandi að halda það sé tekið mið af ásökunum Guðjóns Ólafs í garð Björns Inga Hrafnssonar. Þetta er deyjandi flokkur, hann er að taka síðustu andköfin. Kannski brotnar hann endanlega upp þegar að tekist verður á um formennskuna á næsta flokksþingi. Það vita það allir að það verður harkalegt uppgjör þar, kannski síðasta einvígið, þegar að hjólað verður í Guðna. Það mun gerast rokki Framsókn áfram í tíu prósentum eða minna, sem er söguleg afhroðsmæling fyrir Framsókn, hvað þá verandi í stjórnarandstöðu.

Það vakti athygli mína að Björn Ingi neitaði engu í málflutningi Guðjóns Ólafs. Þetta var svona ámótlegt væl líkt og rétt áður en hann faðmaði Alfreð Þorsteinsson á flokksfundi eftir meirihlutaslitin í Reykjavík. Það virðist vera að hitna undir Birni Inga innan eigin flokks. Það er greinilegt að ólgan með hann er ekki bara bundin við andstæðinga hans, hann ætti kannski að fara að passa sig á því hverjir eru í biðröðinni eftir því að taka í hann innan eigin raða.

Kannski verður það stóra baráttan, eftir allt saman, sem hann á framundan. Ætli hann verði gerður upp innan eigin raða fyrir næstu kosningar, þegar að þetta þingmannslausa flak í borginni ætlar sér að reyna að ná borgarfulltrúasæti aftur? Ja, spennandi verður það að sjá maður minn!

mbl.is Gagnrýnir fatapeninga framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bobby Fischer látinn

Bobby FischerBobby Fischer, fyrrum heimsmeistari í skák, er látinn, 65 ára að aldri. Það verður ekki um það deilt að Bobby var einn fremsti meistarinn í skáksögunni og markaði söguna er hann varð heimsmeistari í skák í Reykjavík á hinu sögulega heimsmeistaramóti gegn Boris Spassky í september 1972, er hann varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna titilinn. Fischer var þó sérlundaður meistari sem fór eigin leiðir og lét aldrei vel að stjórn. 

Fyrst vildi Fischer ekki koma til Íslands og tefla og þurfti atbeina Nixons Bandaríkjaforseta og Henry Kissinger til að hann færi hingað og tæki slaginn. Þetta var litrík saga og eftirminnileg, en henni lauk með sögulegum sigri Fischers. Í seinni tíð var skákmeistarinn upp á kant við bandarísk stjórnvöld. Bandarísk yfirvöld óskuðu eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, þar sem hann átti yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að brjóta viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad haustið 1992. Eftir að þau átök hófust fór hann ekki til Bandaríkjanna.

Deilurnar tóku á sig dramatíska mynd er hann var hnepptur í varðhald í Japan sumarið 2004. Í kjölfarið ákváðu íslensk stjórnvöld að leggja Fischer liðsinni sitt og hlaut hann dvalarleyfi á Íslandi í desember 2004. Það dugði þó ekki til að Fischer væri sleppt úr varðhaldi. Lauk málinu með því að Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, beitti sér sérstaklega fyrir því að Fischer hlyti íslenskan ríkisborgararétt og fór það endanlega í gegn á Alþingi í mars 2005. Í kjölfar þess var Fischer sleppt úr varðhaldi og hann kom til Íslands sem íslenskur ríkisborgari á skírdag, í mars 2005. Frá þeim tíma og til dauðadags dvaldi Fischer í sínu nýja föðurlandi, Íslandi.

Það er kaldhæðnislegt að Bobby Fischer skuli deyja á sama degi og Davíð Oddsson, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, fagnar sextugsafmæli sínu. Fáir menn leiddu betur og af meiri krafti þá ákvörðun í gegnum stjórnkerfið að Fischer yrði íslenskur ríkisborgari og kæmi hingað til lands, yrði hnepptur úr varðhaldi, en Davíð. Í þeim efnum sýndi Davíð eftirminnilega forystu og það má fullyrða að Fischer hefði varla fengið ríkisborgararéttinn með þessum hætti nema að það hefði verið leitt af þeim krafti sem einkenndi forystu Davíðs. 

Var það umdeild ákvörðun, en að mínu mati sú rétta er á hólminn kom. Við getum verið stolt af því að hafa lagt þessum sögufræga skákmanni, þeim besta til þessa að mínu mati, lið á örlagastundu. Það sem var þó til skammar á þeim tímapunkti var fjölmiðlaumgjörðin utan um heimkomu hans en þar var farið einum of langt í markaðssetningu vissra aðila á skákmeistaranum, en honum var flogið hingað heim af eigendum sömu stöðvar. Skrifaði ég langan pistil um það á þeim tíma.


Með Bobby Fischer er fallinn í valinn goðsögn í lifanda lífi - sannur meistari skákheimsins, maður sem markaði söguleg skref á ferli sínum og fetaði eigin leiðir. Hann var eigin herra, vissulega uppreisnarsinni sem lét ekki vel að stjórn. Hann stóð og féll með sannfæringu sinni og krafti og það framlag verður að virða, þó ekki hafi mögulega allir verið sammála honum.

Ég vil votta fjölskyldu og vinum skákmeistarans, þeim sem studdu Bobby Fischer í gegnum síðasta kafla ævi hans - er gaf á bátinn og hann þurfti virkilega á aðstoð að halda, innilega samúð mína við andlát hans. Það er ánægjulegt að Fischer gat dáið hér á Íslandi sem frjáls maður en ekki fangi í fjarlægu fangelsi.

Minningin um mikla goðsögn og meistara skáklistarinnar mun lifa.


mbl.is Bobby Fischer látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð Oddsson sextugur

Davíð OddssonDavíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, er sextugur í dag. Það verður ekki um það deilt að Davíð er einn áhrifamesti forystumaður í íslenskri stjórnmálasögu síðustu áratugina og var t.d. kjörinn stjórnmálamaður 20. aldarinnar í aldamótakönnun Gallups. Hann hefur lengst allra íslenskra stjórnmálamanna gegnt embætti forsætisráðherra, rúm þrettán ár, og var formaður Sjálfstæðisflokksins í einn og hálfan áratug, lengst allra, fyrir utan Ólaf Thors sem var á formannsstóli í hartnær þrjá áratugi.

Það hefur gustað um Davíð Oddsson á litríkum ferli. Hann var umdeildur borgarstjóri - deilt var um fjölda mála í valdatíð hans í borginni og meira að segja um byggingar á borð við Perluna og Ráðhúsið. Davíð var sigursæll stjórnmálamaður. Í 23 ár samfleytt gegndi hann borgarstjóraembætti í Reykjavík og ráðherraembætti. Í hans borgarstjóratíð vann Sjálfstæðisflokkurinn sinn glæsilegasta sigur, er hann hlaut yfir 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa og undir forystu Davíðs Oddssonar sem flokksformanns varð þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stærstur, 26 þingmenn sátu í nafni Sjálfstæðisflokksins á löggjafarþinginu kjörtímabilið 1991-1995.

Davíð Oddsson var allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 til haustdaga 2005, er hann ákvað sjálfur að hætta þátttöku í eldlínu stjórnmálanna, einn af helstu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og var risi í stjórnmálum alla tíð. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækurnar hafa sannarlega staðfest það, enda var hann við völd allan áratuginn. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði stór spor í íslenska stjórnmálasögu. En hann var jafnan umdeildur og oft bæði vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann tjáði óhikað skoðanir sínar og var óhræddur við að tala tæpitungulaust um menn og málefni. Það var að mínu mati helsti styrkleiki og mesta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem sagði til verka og naut virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Það leikur enginn vafi á því að forystuhæfileikar Davíðs og litríkur karakter hans var einn helsti lykilþáttur þess að Sjálfstæðisflokkurinn endurreisti sig sem stórveldi í íslenskum stjórnmálum í upphafi tíunda áratugarins eftir miklar lægðir um nokkra tíð.

Hvaða skoðun sem menn svosem hafa á Davíð Oddssyni og pólitískum verkum hans verður því ekki neitað að hann hefur markað merkileg skref í hinu íslenska samfélagi; er sigursælasti stjórnmálamaður landsins síðustu áratugina og mikill áhrifamaður fyrr og nú. Það staðfestist ávallt sé litið yfir stöðu mála og það hversu mjög hann getur gert alla þjóðfélagsumræðu algjörlega að sinni með því að tjá sig opinskátt um menn og málefni. Það hefur honum tekist meira að segja eftir að stjórnmálin voru kvödd.

Ég vil óska Davíð og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan góða lífsins áfanga sem sextugsafmælið er.


mbl.is Fjölmenni í sextugsafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugslys á Heathrow

Flugslys á Heathrow Brá óneitanlega nokkuð síðdegis þegar að fregnir bárust af flugslysinu á Heathrow-flugvelli. Á vorum tímum þegar að ógnin um hryðjuverk er orðin svo nálæg var eðlilegt að fyrsta hugsunin væri hvort að enn hefðu hryðjuverkaöflin ætlað að senda Bretum skilaboð. Það er þungu fargi af flestum létt að heyra að svo hafi ekki verið og breytir auðvitað strax öllum aðstæðum málsins.

Það er kannski til marks um stöðu alþjóðamálanna að fyrsta hugsun fólks er slíkt slys á sér stað er að þar standi ill öfl að baki og sé að senda skilaboð til fólks. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan að reynt var að drepa norrænan stjórnmálamann, sem ekki tók þátt í upphafi Íraksstríðsins eða hitamála fyrri hluta áratugarins, bara til að senda skilaboð og hræða þjóðir heims. Það fær vonandi alla til að hugsa um stöðuna.

Bretar hafa upplifað hryðjuverk hin síðustu misseri; í lestakerfi London fyrir tæpum þrem árum og í fyrra voru árásir í London og Skotlandi. En það er gott að hryðjuverkaógnin vaknar ekki nú og vonandi mun ganga vel að komast að því hvað gerðist í þessu slysi.

mbl.is Ekki grunur um hryðjuverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líður að valdaskiptum - Bush hreinsar vel til

George W. Bush Á sunnudag er ár þangað til að George W. Bush lætur af embætti forseta Bandaríkjanna og heldur alfarinn til Texas. Það verða auðvitað þáttaskil með forsetaskiptunum, enda blasir við að nýr forseti, hver sem hann verði, muni stokka mikið upp í áherslum. Þegar má sjá merki þess að Bush ætlar að skilja eftir sig hreint borð í Hvíta húsinu þegar að hann fer og skilur ekki eftir sig áberandi minnismerki um forsetaferilinn í formi gagna og upplýsinga um umdeildustu mál valdaferils síns.

Það hefur jafnan verið hefð í Bandaríkjunum að forsetar Bandaríkjanna hafa jafnan hreinsað vel til þegar að þeir yfirgefa Hvíta húsið og skilja ekki mikið af ummerkjum forsetaferilsins eftir í skjölum og gögnum. Þetta á best við þegar að forsetar úr öðrum flokki en forverinn tekur við völdum. Oftar en ekki fara umdeild gögn í forsetabókasafn viðkomandi forseta, sem byggð eru af stuðningsmannahópi hans. Þegar að George W. Bush kom í Hvíta húsið þegar að Clinton-hjónin fóru fyrir sjö árum höfðu þau tekið vel til og tekið með sér gögn um Lewinsky-málið, Whitewater og fleiri umdeildustu mál átta ára forsetaferils Bill Clinton. Sama gerðist þegar að Clinton tók við af föður Bush forseta, í janúar 1993.

Það er alveg ljóst að muni demókrati taka við Hvíta húsinu eftir ár verði vel farið yfir öll gögn úr umdeildustu málum forsetans. Það þarf því varla að koma að óvörum að grisjunin sé þegar hafin og til merkis um að Bush forseti ætlar ekki að skilja eftir sig minnismerki um þessi ár, ekki frekar en margir forsetar. Það var alþekkt að Richard M. Nixon hreinsaði vel til síðustu misseri Watergate-tímans, í aðdraganda þess að hann varð að segja af sér forsetaembættinu fyrstur bandarískra forseta. Hann hélt t.d. dauðahaldi í hinar frægu spólur með samtölum úr forsetaskrifstofunni og skjölum og enn er mikil leynd yfir mörgum gögnum þess tíma.

Það er alveg ljóst að George W. Bush var forseti á umbrotatímum. Hann var umdeildur og tók umdeildar ákvarðanir sem forseti Bandaríkjanna, deilt var um þær þegar að þær voru teknar og deilt er um þær enn. Hann er forseti sem sagnfræðingar framtíðarinnar munu fjalla um og hann verður vinsælt umfjöllunarefni þegar að líður frá og rykið hefur sest - hann er kominn til Texas í sveitasæluna.

Og þá hentar vel að hafa sópað til þeim upplýsingum sem geta orðið verðmætar og jafnvel fyllt upp í heildarmyndina. Þetta er ekki fyrsti forsetinn sem gerir það og ekki sá síðasti. En það má deila um hversu mikið af sögunni á að eyða.

mbl.is Tölvugögnum Hvíta hússins líklega eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mitt Romney sigrar - mjög jafnt hjá repúblikunum

Mitt Romney Ekki varð baráttan jöfn í Michigan eins og kannanir höfðu spáð. Mitt Romney vann nokkuð góðan sigur í forkosningunum í sínu gamla heimafylki, sem hann varð að sigra í til að halda framboði sínu á floti. Sigur hans tryggir enn jafna baráttu um það hver hlýtur útnefningu repúblikana. Þar er allt galopið. Huckabee vann Iowa, McCain vann New Hampshire og Romney vann í Michigan. Nú verður barist um sigurinn í Suður-Karólínu.


Nokkrir punktar um stöðuna:

- Mitt Romney er enn í slagnum um útnefninguna eftir sigurinn í Michigan - fer með byr í seglin til suðurríkjanna og vonast eftir að landa sigri í Suður-Karólínu. Ekki tókst McCain að vinna Michigan á sömu bylgju stuðnings í kjölfar sigurs í New Hampshire, en á móti kemur að Romney var að keppa í fylkinu sem hann fæddist í og tap hefði þýtt að allir hefðu spurt sig að því hvort hann gæti yfir höfuð sigrað. En það er alveg ljóst að þetta er mikilvægur sigur fyrir Romney - hann á enn möguleika eftir allt saman. Margir töldu hann búinn eftir tapið í NH.

- John McCain hefur forskot í landskönnunum en þarf nú nauðsynlega að vinna í Suður-Karólínu til að halda þeim byr sem hann fékk í New Hampshire. Það hlýtur að vera honum gríðarleg vonbrigði að hafa ekki náð óháðum á sitt band í Michigan. Hann fór með Lieberman um fylkið og vonaðist eftir að ná styrk þar með því og laða að sér fólk úr öðrum flokkum, þar sem ekki var alvöru kosning hjá demókrötum. Óháðir voru hans sterkasta von á sigri, það brást og nú þarf hann að verða sigursæll í suðurríkjunum til að halda haus í því sem framundan er. Hann fór illa í leðjuslag gegn Bush í Suður-Karólínu 2000 og tapaði þeim hráskinnaleik og voninni á útnefningu þar. Nú þarf hann að snúa gæfunni við á sama stað. Það gæti orðið snúið og mikið er undir, vægast sagt.

- Rudy Giuliani tók áhættu með að stóla á stóru fylkin og vonast eftir því að baráttan yrði jöfn um fyrstu fylkin og ekkert ljóst fyrir Flórída. Eins og staðan er núna hefur hann veðjað rétt og á enn möguleika. Þrátt fyrir að hann hafi fengið rosalegan skell í Iowa, New Hampshire og Michigan. Tapið í Michigan er reyndar svæsið, enda er hann aðeins með þrjú prósent, sem er suddalega lélegt fyrir mann sem ætlar sér að vera alvöru frambjóðandi og hafa sterkan stuðning um allt land. Gleymum því ekki að hann leiddi nær allar kannanir í fyrra og virkaði ósigrandi. En Suður-Karólína gæti orðið til að breyta grand master plani Giuliani fram að Flórída. Sjáum til.

- Mike Huckabee náði þriðja sætinu með sannfærandi hætti. Það blasti þó við fyrir löngu að hann næði því og enginn ógnaði honum um sætið - væri lítil áhætta í sjálfu sér. Nú þarf hann hinsvegar að fara að verða sigursæll til að haldast á floti og þarf sigur í Suður-Karólínu. Hann er illa staddur ef hann fær skell í fylkinu og treystir að suðrið færi sér byr í seglin, hafandi verið ríkisstjóri í Arkansas, rétt eins og Bill Clinton forðum daga. Ekki dugar bara Iowa þegar að suðrið er annars vegar!

- Ron Paul náði sex prósentum í Michigan, hlaut helmingi meira en Giuliani. Góður árangur og hann nuddar Giuliani upp úr saltinu með því að benda á að hann sé helmingi vinsælli en Giuliani í þessu sterka repúblikanavígi, fylkinu sem Gerald Ford, fyrrum forseti, kemur frá. Fred Thompson mældist varla í Michigan og þarf að ná sigri í Suður-Karólínu. Ella búinn að vera. Verður hann sá fyrsti sem fellur í valinn?


Spennandi slagur - ekkert öruggt. Svona á það að vera. Það stefnir í spennandi baráttu í suðrinu og á laugardag ráðast örlögin í Suður-Karólínu. Það gæti farið svo að ekkert yrði ljóst fyrr en á ofur-þriðjudegi. Þetta er að verða jafnasti og áhugaverðasti forkosningaslagur repúblikana í yfir hálfa öld. Það er spurt sannarlega að leikslokum, enda enginn með alvöru forystu.

mbl.is Romney vann í Michigan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi einvígi McCain og Romney í Michigan

Romney, McCain og HuckabeeBeðið er nú eftir úrslitum í einvígi Mitt Romney og John McCain í forkosningum repúblikana í Michigan. Niðurstaðan verður áhugavert innlegg í hina jöfnu baráttu um útnefningu flokksins í forsetakosningunum í nóvember. McCain fékk byr í seglin með sigrinum í New Hampshire og hefur tekið forystu í baráttunni í nýjustu könnunum. Með sigri í fylkinu getur hann styrkt sig til muna. Romney verður að sigra í Michigan til að blása lífi í framboð sitt, eftir skaðleg töp í Iowa og New Hampshire.

Það má fullyrða að Romney sé í raun búinn að vera sem alvöru frambjóðandi nái hann ekki sigri í þessum forkosningum, enda fæddur og uppalinn í fylkinu. Faðir hans, George W. Romney, var ríkisstjóri í Michigan í fjölda ára og er einn þekktasti stjórnmálamaður fylkisins á síðustu öld, einn pólitísku risanna þar. Auk þess var móðir hans, Lenore Romney, stjórnmálamaður þar og ekki síður áberandi en eiginmaður hennar. Þau hvíla bæði í fylkinu og tengingar frambjóðandans við svæðið eru því mikil. Þrátt fyrir að hafa eytt miklum peningum hefur hann ekki unnið alvöru forkosningaslag til þessa og þarf á sigri að halda.

John McCain getur haldið styrk sínum í slagnum með sigri í Michigan, auk þess að slá Romney út af kortinu. Fyrir nokkrum mánuðum var framboð hans talið dauðadæmt en hann hefur átt magnaða endurkomu og berst fyrir sigri í Michigan, auk þess að reyna að taka Suður-Karólínu. Ef hann tekur bæði fylkin fer hann á bylgju mikils stuðnings í forkosningarnar í Flórída. Þar er Rudy Giuliani að vonast eftir að ná að starta af krafti framboði sínu og ætlar að reyna við stóru fylkin. Það er mikil áhætta, sem gæti reynst dauðadæmd er yfir lýkur. Ef McCain nær miklu forskoti næstu dagana gæti hann orðið óstöðvandi er kemur að stóru fylkjunum.

Síðustu vikur hefur slagur repúblikana verið jafn, jafnasti forkosningaslagur þeirra áratugum saman og er galopinn í raun enn. Enginn sterkur frambjóðandi hefur dregið sig til baka frá því að ferlið hófst í Iowa 3. janúar. Það breytist þó brátt. Flestir búast við að Fred Thompson dragi sig í hlé eftir Suður-Karólínu og alveg er ljóst að Romney stendur og fellur með því sem gerist á næstu klukkutímum. Annað hvort fær hann byr í seglin með stuðningi á heimavelli eða framboð hans fær náðarhöggið þar. Verði Huckabee þriðji í nótt, sem ég tel að blasi við, heldur hann sínum dampi, en það mun skipta hann miklu máli að taka Suður-Karólínu, ekta suðurríkjafylki.

Rudy Giuliani bíður á hliðarlínunni og vonast eftir að slagurinn haldist jafn þar til að kosið verður í Flórída eftir hálfan mánuð. Ef McCain tekur næstu fylkin verður hann helsti keppinautur Giuliani um sigur í Flórída. Sumar kannanir sýna McCain nú þegar með forskot í fylkinu. Taki hann Flórída tel ég hann nokkuð öruggan um útnefninguna. Hann fer þá allavega á mikilli bylgju í slaginn á ofur þriðjudegi viku síðar. En nú fer þetta að skýrast, valkostum fækkar og ljóst verður brátt hverjir eru alvöru keppinautar um útnefninguna.

En fylgst er með stöðunni í Michigan nú. Þar ræðst ekki hver verður frambjóðandi repúblikana, en þar geta þó örlög sumra ráðist. Eins og flestir vita er enginn slagur meðal demókrata. Flokksstofnanir hafa refsað flokksmönnum þar fyrir að flýta forkosningunum með því að taka þingfulltrúana af þeim. Hillary Rodham Clinton er þar ein, af alvöru keppinautum um útnefninguna, á kjörseðlinum. Obama og Edwards eru víðsfjarri. Þannig að það er engin barátta í fylkinu hjá þeim.

Þannig að þetta snýst að segja má bara um hvað gerist hjá repúblikunum í Michigan. Þarna gætu orðið spennandi úrslit. Þarna gæti Romney risið upp sem frambjóðandi með alvöru möguleika eða hann gæti lognast út af pólitískt. Mikil barátta. Og McCain getur haldið bylgjunni eða misst flugið. Hann tók fylkið fyrir átta árum og sigur þar kæmi sér vel fyrir hann. Ella skiptir Suður-Karólína hann miklu máli. Þarna er því margt í húfi fyrir frambjóðendur innan flokksins.

Spái því að þetta verði tæpt. Hallast að því að Romney vinni, enda hefur hann lagt mikla áherslu, skiljanlega, á fylkið - allt er í húfi. McCain hefur staðið sig vel og stólar á óháða, sem mega kjósa í forkosningunum. Enda hefur hann farið um fylkið með Joe Lieberman, varaforsetaefni Gore og óháðan þingmann í Connecticut, sér við hlið. Hann féll í ónáð innan demókrata, en er nú sér á báti og styður McCain. Svo verður Huckabee þriðji.


Ástþór flippar yfir um - forsetaframboð planað

Ástþór Magnússon Það er ekki hægt að túlka ákæru Ástþórs Magnússonar öðruvísi en sem svo að hann ætli sér að gefa kost á sér í forsetakosningunum 28. júní nk. og fara í þriðja skiptið í kosningu gegn Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Hann reyndar ætlaði sér að fara fram árið 2000 en varð þá að hætta við vegna þess að honum tókst ekki að safna meðmælendum í tæka tíð. Segja má því að Ástþór hafi fylgt Ólafi Ragnari eftir sem skugginn alla forsetatíð hans og ætli sér að vera við hlið hans í síðustu kosningunum sem hann mun taka þátt í á sínum ferli.

Þórunn Guðmundsdóttir hafði fullan rétt á því að tjá skoðanir sínar og segja það sem henni fannst. Hún er ekki lengur í yfirkjörstjórn og er ekki bundin af neinum embættisskyldum þar lengur, þó að hún hafi vissulega verið formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík í forsetakosningunum 2004. Eftir stendur þó að hún hefur fullt málfrelsi til að segja skoðanir sínar. Verði hún dæmd fyrir þetta má í raun segja að málfrelsið í þeirri mynd sem við þekkjum það bíði verulegan skaða af. Annars tel ég það fráleitt að hún fái á sig dóm fyrir að segja sínar skoðanir með þessum hætti.

Ástþór hefur alla tíð verið ólíkindatól hið mesta. Yfirvofandi forsetaframboð er af slíkum skala að það er eðlilegt að fólk hafi á því afgerandi skoðanir. Eftir allar fyrri tilraunirnar er ekki nema von að spurt sé um hvað Ástþór sé að hugsa sér að gera með þriðja framboðinu eða telji sig áorka með því. Það er ekkert óeðlilegt við þær pælingar. Það þarf ekki að koma honum að óvörum að fólk hafi sterkar skoðanir og eða leggist gegn þeim áætlunum hans eftir allt sem á undan er gengið. En kannski hefur maðurinn endanlega flippað yfir um.

mbl.is Ástþór kærir Þórunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svanfríður verður áfram bæjarstjóri á Dalvík

Svanfríður JónasdóttirSamkomulag mun nú hafa nást milli J-listans og Framsóknarflokks í Dalvíkurbyggð um að Svanfríður Jónasdóttir, fyrrum alþingismaður, verði bæjarstjóri til loka kjörtímabilsins, en áður hafði verið samið um að hún gegndi embættinu aðeins í tvö ár, en þá fengi Framsókn að ráðstafa embættinu og var í kortunum að auglýsa það en ráðið yrði í það að þeirra tillögu. Mun Framsókn fá í staðinn formennsku í bæjarráði, að mér skilst.

Ætla framboðin að endurmynda samstarf sitt og ganga frá nýjum málefnasamningi í ljósi þessa, en samstarfið hékk á bláþræði því að J-listinn vildi að Svanfríður héldi bæjarstjórastólnum og fyrra samkomulag yrði fellt úr gildi. Hrikti í stoðum þessa meirihluta vegna málsins og við blasti að J-listinn myndi slíta meirihlutanum fengi Svanfríður ekki að halda áfram. Auk þess var vel ljóst að allir aðrir voru vel tilbúnir til að ljá máls á þessu formi til að mynda nýjan meirihluta.

Átti svosem ekki von á öðru en samkomulag myndi nást milli aðila út með firði. Það hefur reyndar komið mér á óvart mjög lengi að J-listinn skyldi sætta sig við að skipta tímabilinu upp. Það hefur blasað við um nokkuð skeið að það yrði erfitt fyrir Svanfríði að hætta í hálfleik og þjálfa svo upp annan bæjarstjóra til að vinna með henni.

Það hljómaði beinlínis absúrd, enda hefur aldrei verið hefð á Dalvík að ráða bæjarstjóra með svo hálfum hug og er var í þessu tilfelli. En eftir stendur að Framsókn varð að bakka og sætta sig við orðinn hlut og bíta í það súra að fórna bæjarstjórastólnum sem þeir höfðu samið um að fá.

Váleg tíðindi frá Kabúl - tilræði við Gahr Støre

Jonas Gahr Støre Það eru váleg tíðindi að reynt hafi verið að drepa jafnaðarmanninn Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, í Kabúl í dag. Þetta sýnir þó vel hvernig staðan er á þessu svæði og líka það að við hér á Norðurlöndum lifum ekki í vernduðu umhverfi. Á þessum tímum eru allir í skotlínunni. Þegar að norrænir stjórnmálamenn eru í skotlínunni, og reynt að drepa þá með svo kuldalegum hætti, er það um leið orðið mál sem við verðum að velta fyrir okkur hér.

Norski blaðamaðurinn sem særðist í árás hryðjuverkaaflanna er nú látinn; Carsten Thomassen, vel þekktur fyrir góð verk í bransanum. Auk hans féllu sex manns í valinn í árásinni á norska utanríkisráðherrann. Það eru vissulega merkileg tíðindi að reynt sé að vega norrænan stjórnmálamann. Man ekki eftir að það hafi verið reynt að drepa þá í beinni árás, nema ef undan er þá skilinn Olof Palme, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, sem var veginn af byssumanni á götuhorni í Stokkhólmi fyrir rúmum tveimur áratugum er hann var að koma úr kvikmyndahúsi. Anna Lindh, fyrrum utanríkisráðherra Svíþjóðar, var svo auðvitað stungin til bana í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi fyrir fimm árum.

Veit ekki hvort önnur dæmi eru um þetta. En það er ný sýn á veruleika stjórnmálanna hér að reynt sé að drepa norrænan stjórnmálamann á erlendri grundu á umbrotasvæði í hryðjuverkaárás. Einhver myndi kannski tala um að þarna væri verið að láta finna fyrir sér gagnvart stjórnmálamanni sem hefði farið í gegnum umbrotatíma Íraksstríðs og innrásarinnar í Afganistan. En á móti kemur að Jonas Gahr Støre hefur aðeins verið utanríkisráðherra í rúm tvö ár og situr í rauðgrænu stjórninni í Noregi, sem kom til valda löngu eftir að Bandaríkin fór inn í Írak og Afganistan og allt sem gerðist eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum.

Það er því ekki hægt að sjá annað en þetta morðtilræði sé bara til að senda skilaboð. Kannski var ekki verið að reyna að drepa Jonas Gahr Støre til að hefna sín á honum eða norskum stjórnmálum. Það er ekki spurt að neinu nema heift og hún beinist að öllum kjörnum fulltrúum virðist vera. Veit ekki hvernig er hægt að túlka þetta öðruvísi þegar að litið er á sögu stjórnmálamannsins og eins þeirrar stjórnar sem hann er hluti af.

Þeir tímar eru liðnir að við hér á Norðurlöndum séum á hliðarlínunni í hitamálum. Þegar að reynt er að drepa norrænan stjórnmálamann í árás af þessu tagi höfum við séð að veruleikinn er allt annar. Hann er fjarri því einfaldur og saklaus í sjálfu sér.

mbl.is Norski blaðamaðurinn látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband