Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.1.2008 | 19:49
Hvað vill meirihlutinn í Reykjavík gera við húsin?

Það eru reyndar fá teikn á lofti um það að meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík sé það sterkur að geta leyst þetta mál eða myndað sér skoðun á því og treysti á að Húsafriðunarnefnd eða menntamálaráðherra leysi það fyrir hann. Það eru enda þrjár eða fjórar skoðanir hjá leiðtogum framboðanna fjögurra sem mynda meirihlutann. Ekki er það traustverðugt eða til þess að gera málið einfaldara. Í raun væri ágætt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, myndi óska eftir að fá eina afgerandi skoðun frá þessum veikburða meirihluta sem innlegg í málið.
Þetta mál hefur farið fyrir þrjá meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og hann hefur verið einhuga í því þar til að vinstrimeirihlutinn veikbyggði tók við völdum í haust. R-listi vinstrimanna ákvað að húsin skyldu víkja og meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók undir þá afstöðu. Nú er komið að alvöru málsins. Húsin hefðu sennilega verið rifin á morgun eða miðvikudag ef ekkert hefði verið gert. Eðlilegt er að bíða með niðurrifið og fá alvöru niðurstöðu í málið.
Hver er afstaða Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra? Ekki hefur hann sagt mikið og í raun finnst manni það áberandi hvað hann er veikur leiðtogi. Gárungarnir segja að þegar að hann komi fram þurfi helst túlk við hliðina á honum til að hægt sé að skilja eina setningu frá honum. Það er margt til í því.
![]() |
Skyndifriðun beitt á Laugavegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2008 | 18:39
Er meirihlutinn í bæjarstjórn Dalvíkur að springa?

Hef heyrt ýmsar sögusagnir um þessi mál síðustu dagana, eftir að ég skrifaði pistil um málið hér á vefinn. J-listinn vann stóran sigur í kosningunum 2006 og var nærri hreinum meirihluta. Velti ég því fyrir mér eftir kosningarnar, þá þegar, í pistli af hverju J-listinn samþykkti að skipta tímabilinu og ljá máls á þessu fyrir það fyrsta. Það mátti reyndar sjá það strax að skiptin yrðu umdeild, þ.e.a.s. ef Svanfríður stæði sig vel sem bæjarstjóri, sem hefur orðið reyndin.
Það verður áhugavert að sjá hvað gerist, en reyndar má velta því fyrir sér hvort samstaða hafi virkilega verið í meirihlutanum um forystu Svanfríðar fyrst að samið var svona í upphafi og framsóknarmenn treystu henni ekki til að taka allt tímabilið.
12.1.2008 | 18:19
Ingibjörg Sólrún skautar lauflétt yfir ráðningarnar

Ég sé að Reynir Traustason, ritstjóri DV, er harðorður í garð Ingibjargar Sólrúnar í skrifum á vef blaðsins í dag. Það er greinilega mikil beiskja í garð þeirra sem helst hafa staðið vörð um Samfylkinguna og þar er talað um að Ingibjörg Sólrún og hennar fólk sé komið á bólakaf í fenið. Vissulega hlægilegt að fylgjast með þessu. Enn fyndnara fannst mér þó að sjá utanríkisráðherrann með flóttamannasvip forðast að svara spurningum og segjast ekki hafa lesið örstuttan rökstuðning fjármálaráðherra. Ætli að þetta sé ekki vandræðalegasta pólitíska augnablik Ingibjargar síðan að henni var sparkað af borgarstjórastóli?
Ég hef síðustu daga heyrt í mörgum sem kusu Samfylkinguna og eru ósáttir með verklag sinna manna í ríkisstjórn. Eflaust áttu þeir von á því að þeir væru að kjósa einhvern siðbótarflokk. Finnst staðan nú minna okkur þó mun frekar á gamla Alþýðuflokkinn sem raðaði á jötuna fram og til baka uns þeir höfðu grafið svo undan sér að þeir fóru fram fyrir ætternisstapann. Vonbrigðin á þeim bænum virðast mikil. Össur Skarphéðinsson virðist svo reyna allt til að blikka sjálfstæðismenn til að fá þá til að verja skipanir sínar í embætti orkumála- og ferðamálastjóra. Enda varla furða, þar sem hann virðist í miklum vandræðum.
Sá að Egill B. Hreinsson hefur óskað eftir sundurliðuðum rökstuðningi. Fróðlegt verður að sjá svarið. Finnst þó að bjartsýnin eigi sér engin takmörk ef að Össur heldur að sjálfstæðismenn fari að rétta honum hjálparhönd í vandræðum sínum. Hann verður að standa og falla með sínum verkum fari aðstoðarorkumálastjóri í jafnréttismál við hann eða þá að hæfir ferðamálamenntaðir menn sætti sig ekki við það að líffræðingur án sérmenntunar hafi orðið ferðamálastjóri. Hvernig verður annars ásýnd Samfylkingarinnar tapi ráðherra flokksins jafnréttismáli? Ætlar sá flokkur að skreyta sig með jafnrétti framvegis?
Ingibjörgu Sólrúnu er vorkunn. Hún er að reyna að segja eitthvað en segir samt ekki neitt með ræðu sinni í dag. Þeir hljóta að vera mjög sorrý í dag þeir sem kusu hana til valda og töldu sig vera að fá siðbótarmanneskju í kaupbæti.
![]() |
Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2008 | 14:17
Mac is back - fetar McCain í fótspor Reagans?
Fyrir nokkrum mánuðum höfðu flestir afskrifað John McCain sem alvöru forsetaefni; töldu hann of gamlan til að verða valdamesti maður heims - missti starfsfólk og átti erfitt með að safna peningum. Hann hefur nú náð forystunni í kapphlaupinu um útnefningu Repúblikanaflokksins í skoðanakönnunum eftir sigurinn í New Hampshire og virðist líklegur til að fara alla leið. Sigri hann í forkosningum í Michigan og Suður-Karólínu verður erfitt að stöðva hann. Segja má að reynsla McCain af því að vera í slagnum sé að reynast honum besta lexían á mikilvægasta hjallanum.
John McCain mun marka söguna nái hann útnefningu repúblikana og verði frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum í nóvember. Hann verður 72 ára í ágúst og yrði elsti forseti Bandaríkjanna ef hann næði kjöri í kosningunum. Ronald Reagan, 40. forseti Bandaríkjanna, var 69 ára er hann náði kjöri á forsetastól í nóvember 1980 og var að verða 78 ára er hann yfirgaf Hvíta húsið í janúar 1989. Svo virðist sem að McCain sé á þessu stigi baráttunnar að marka sig sem manninn með reynsluna og ætli sér að reyna að vinna útnefninguna með því þema. Það var honum mjög mikilvægt að vinna New Hampshire og það hefur gefið honum betra forskot í að halda í næstu fylkin.
Sögusagnir hafa verið um það hvort að McCain myndi aðeins sitja á forsetastóli í eitt kjörtímabil yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann yrði áttræður ef hann myndi sitja á forsetastóli í átta ár, til ársins 2017. Það varð umræðuefni fyrir rúmri viku hvort að hann færi ekki fram aftur og athygli vakti að hann útilokaði ekki þann möguleika í viðtali. Síðar var þeim möguleika þó neitað formlega af starfsmanni framboðs hans. Kjaftasagan lifir góðu lífi. Það var reyndar mjög merkilegt að sjá McCain fagna sigri í New Hampshire. Allt yfirbragð hans og frasar minntu mjög á Ronald Reagan. Hann virðist ætla að fara fram á því að vera trausti gamli maðurinn með yfirsýnina, rétt eins og Reagan var í baráttunni um útnefningu repúblikana fyrir þrem áratugum.
Það virkaði fyrir hann, þó gamall væri og McCain virðist á sigurbraut. Og nú verður leikurinn virkilega spennandi. Það hefur ekki fækkað mikið í hópi repúblikana í framboði, en nú fer hringurinn að þrengjast. Flestir búast við að Fred Thompson muni draga sig í hlé eftir forkosningarnar í Suður-Karólínu, en litlar líkur eru á því að hann vinni fylkið og geti markað sig sem alvöru frambjóðanda. Mitt Romney er í raun búinn að vera tapi hann í Michigan, en McCain ætlar sér sigur þar. Ég tel að Romney hafi í raun klárast í New Hampshire. Hann ætlaði sér að fá byr í seglin með sigri þar og í Iowa. Það mistókst og ég tel að það sé aðeins tímaspursmál hvenær að hann dregur sig í hlé.
Að mínu mati eru aðeins þrír eftir sem alvöru keppinautar um útnefningu repúblikana; John McCain, Mike Huckabee og Rudy Giuliani. Huckabee varð alvöru keppinautur með sigrinum í Iowa og það var mikilvægt fyrir hann að vera þriðji í New Hampshire, fá betri útkomu en Giuliani. Hann hefur allavega sterkan grunn til að haldast áfram í slagnum og gæti verið í honum fram að ofur-þriðjudegi 5. febrúar. Giuliani þarf að sigra í Flórída eftir hálfan mánuð til að haldast í slagnum; hann hefur veðjað á stóru fylkin. Það gæti þó farið svo að hann hellist úr lestinni taki McCain næstu fylki og nái þar með meira forskoti en raunin er nú.
Það er vissulega pólitískt kraftaverk að John McCain hafi tekist að eiga endurkomu í þessum forkosningaslag. Hann var talinn dauðadæmdur fyrir nokkrum mánuðum en hefur skyndilega alla möguleika á að ná alla leið í baráttunni um Hvíta húsið. Með sigrinum í New Hampshire hefur hann sýnt að möguleikarnir eru alveg fyrir hendi um að hann verði frambjóðandi flokksins á eftir George W. Bush, sem hann sigraði í fylkinu fyrir átta árum en tapaði fyrir síðar meir í baráttunni. Það væru merkileg tíðindi. Og yrði hann frambjóðandinn yrði afsannað að stjórnmálamenn á áttræðisaldri séu úr leik.
Samkvæmt könnunum nú eru John McCain og Hillary Rodham Clinton líklegust til að berjast um Hvíta húsið í árslok. Bæði eru þrautreyndir stjórnmálamenn sem myndu sækja af kappi inn á miðjuna í forsetakosningum. Það yrði spennandi barátta fyrir áhugamenn um stjórnmál. En þau hafa nýlega unnið forkosningar og hafa bylgjuna með sér um stundarsakir. Það reynir fyrr en síðar á það hvort að þau hafa kraftinn til að halda þeirri bylgju og ná alla leið í baráttunni.
Það yrði vissulega áhugavert að sjá slag þessara reyndu pólitísku bragðarefa, sem bæði hafa mikla reynslu. McCain hefur verið í öldungadeildinni fyrir Arizona í tvo áratugi, frá því að pólitíski klækjarefurinn Barry Goldwater hætti, og Hillary hefur verið í pólitík í yfir þrjá áratugi - lengst af konan við hlið mannsins á valdastóli en síðar sem pólitíkusinn; sem ríkisstjórafrú í Arkansas, forsetafrú og að lokum öldungadeildarþingmaður fyrir New York.
Það verður líflegur slagur muni þessir þrautreyndu vinnufélagar í öldungadeildinni takast á. Það yrði slagur um breytingar, enda bæði úr öðrum áttum en Bush Bandaríkjaforseti. En samt yrði það barátta um aðrar áherslur. En það hefur svosem verið vitað lengi að þetta yrðu kosningar breytinganna, þar sem þetta eru fyrstu kosningarnar frá 1928 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í forkosningaferlinu.
![]() |
Skoðanakannanir staðfesta breytta stöðu McCains og Clinton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2008 | 12:29
Hillary laðar að sér karlremburnar

Hillary tæklaði alla þrjá mennina með sömu orðum um karlrembu og talaði um að þarna væru nú síðustu leifar hennar að finna. Margir stjórnmálaskýrendur vilja meina að atvikið í Salem í New Hampshire hafi fengið margar konur í fylkinu til að styðja Hillary og styrkt stöðu hennar á lokasprettinum þar. Það er reyndar ljóst af fréttamyndum að Hillary brá mjög, sérstaklega við ummæli mannsins í Kaliforníu, en hún var þó fljót upp á lagið og svara með þeim hætti að fjölmiðlar vitna í og vakið hefur athygli.
Það er alveg ljóst að það eru mikil þáttaskil í bandarískum stjórnmálum. Aðeins einu sinni fram til þessa hefur kona verið í forystu forsetaframboðs í Bandaríkjunum, en Geraldine Ferraro var varaforsetaefni Walter Mondale í forsetakosningunum 1984. Þau töpuðu stórt fyrir Ronald Reagan og George H. W. Bush, sem unnu sigur í öllum fylkjum í kosningunum nema heimafylki Mondale, Minnesota, en það var einn sterkasti persónulegi sigur frambjóðanda í forsetakosningum í rúmlega 200 ára sögu Bandaríkjanna. Síðan hefur frambjóðandi ekki valið konu sér við hlið og engin kona hefur fyrr komist eins langt og Hillary Rodham Clinton hefur náð.
Það verður áhugavert að sjá hvort að Bandaríkjamenn eru í ljósi þessarar sögu tilbúnir í að fá konu sem alvöru keppinaut um Hvíta húsið, sem eigi raunhæfa möguleika á að vinna Hvíta húsið. Demókratar virðast vera að marka söguna hvernig sem fer, en John Edwards virðist ekki eiga möguleika gegn sögulegum valkostum flokksins; fyrstu konunni sem gæti orðið forseti og fyrsta blökkumanninum sem gæti orðið forseti.
Það verður áhugavert að sjá hvort að baráttan öll fær á sig sömu ummæli og Hillary valdi ungu mönnunum sem ætluðu að slá hana út af laginu. Því ef hún tapar útnefningunni, eftir glæsilegan stjórnmálaferil, mun hún eflaust nefna þennan slag karlrembukosningarnar, þar sem konu var hafnað fyrir karlmenn.
![]() |
Viltu giftast mér Hillary? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.1.2008 | 00:20
Góð skilaboð frá SUS um Laugavegsmálið

Helst virðist vera deilt um það hver eigi að taka upp veskið og borga brúsann af öllu klúðrinu verði þessir hjallar friðaðir; á að demba þeim kostnaði á skattborgara á landsvísu eða bara í Reykjavík? Það virðist vera stóra spurningin. Ég segi nei takk við því að þessir hjallar verði sameign þjóðarinnar þar sem skattborgarar gera þetta upp. Vilji vinstrimeirihlutinn í Reykjavík standa vörð um það verður hann að taka það á sig.
Mér finnst orðið of seint að snúa málinu við og skil ekki hversvegna Húsafriðunarnefnd kemur með úrskurð sinn þegar að vinna við að rífa húsin er eiginlega farin af stað. Af hverju er þetta ekki unnið almennilega og faglega en ekki svona seint og um síðir? R-listinn samþykkti að rífa hjallana, það var staðfest af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og vinna við niðurrif var allt að því komin á fullt í valdatíð REI-meirihlutans málefnalausa.
Annars sýnist manni þessi meirihluti vinstrimanna vera aðeins valdapotsbandalag, þar hefur ekki verið tekið á neinum málefnum nema þeim hver eigi að fylla upp í hvaða stól. Aumari meirihluti hefur ekki sést í pólitík lengi - fari svo að hann geispi golunni á þessum hjöllum verður háðung þess fólks mikil.
![]() |
SUS: Laugavegshúsin verði ekki friðuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.1.2008 | 15:40
Átök í ÖBÍ - Sigursteinn segir af sér formennsku
Ekki er langt síðan að ÖBÍ skalf vegna þess að Arnþóri Helgasyni var sagt upp sem framkvæmdastjóra, en hann hafði verið í því starfi síðan að móðurbróðir minn, Helgi Seljan, fór á eftirlaun. Flestir muna eftir hitafundi í kjölfar uppsagnar Arnþórs þar sem tekist var á en öldur lægði þó um stundarsakir. Það virðist allavega mikið ganga á ef formanninum er ekki treyst í stjórn hússjóðs á vegum þess og hann í raun rúinn trausti.
Það er eflaust svo að í forystu samtaka af þessu tagi getur verið stormasamt. Verst er þó ef innri sátt er ekki í lagi og hlýtur að skemma fyrir styrk þess og mætti í alvöru hagsmunabaráttu. Það er vonandi að þarna verði öldur lægðar og byggt á góðum verkum, en ekki eytt tíma í innri hnútuköst og leiðindi. Það má kannski segja að það hafi verið að sár í kjölfar uppsagnar Arnþórs hafi aldrei verið lægð af alvöru og hvort að Sigursteinn hafi verið sterkur formaður, fyrst að svo fór svo fór.
![]() |
Sigursteinn segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2008 | 12:43
Ólöglegt samráð - fyrirtækin sleppa billega

Nú er það svo að ólöglegt samráð er alvarlegt mál, sama hversu mikið það sé á annað borð. Enda á að taka á þeim sem brjóta samkeppnislögin, en ekki breiða yfir verk þeirra. Þetta hlýtur að teljast ótrúlega vel sloppið hjá fyrirtækjunum og í sannleika sagt finnst mér það eiginlega stórmerkilegt hvað díllinn er þeim góður miðað við eðli brotsins. Hef varla heyrt annað í morgun eftir að fregnir af sektargreiðslu og niðurstöðu málsins bárust, í kjölfar tilkynningarinnar um samráðið sjálft. Reyndar eru greiðslur fyrir brot á samkeppnislögum merkilega lágar, miðað við eðli brotsins.
Eflaust kemur samráðið fáum að óvörum, enda verið pískrað um það árum saman. Sá að Kortaþjónustan er að undirbúa skaðabótamál gegn þessum þrem fyrirtækjum. Það verður áhugavert að sjá hver dómur þjóðarinnar verður yfir þessu samráði, einkum þeirra sem skipta við þessi fyrirtæki, en þau virðast hafa haldið uppi markaðnum með því að kóa saman. Það er ekki eðlilegt og ber að fordæma án hiks.
![]() |
Viðurkenna ólöglegt samráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 20:43
Heyrir kvótakerfið sögunni til?

Það er víst óhætt að segja að nú reyni á hvernig að ríkisstjórnin lítur á kvótakerfið og það sem talað er um í þessum úrskurði. Verð að viðurkenna að ég er ekki sérfræðingur í að túlka þennan úrskurð en skynja að hér séu stórfregnir um að ræða, sem hafa áhrif á stöðu kerfisins. Uppi eru álitaefni sem þarf altént að skýra sem fyrst og fara yfir af alvöru.
Þessi úrskurður ætti að hrista upp í pólitískri umræðu, sem hefur satt best að segja verið frekar lítilfjörleg, þar sem helst er tekist á um eldgamla hjalla á Laugaveginum. Fátt hefur gerst sem reynir á þessa ríkisstjórn en eitthvað segir mér að þessi úrskurður muni hrista upp í henni og ládeyðu stjórnmálanna svo um munar.
![]() |
Útfærsla kvótakerfis gagnrýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 15:25
Kerry styður Obama og gengur frá Edwards

Eftir lélega útkomu í New Hampshire og tap í Iowa má heita svo að Edwards eigi ekki lengur séns á útnefningu flokksins og eiginlega bara tímaspursmál hvenær að hann dragi sig í hlé. Hann mun haldast í slagnum fram að forkosningum í Suður Karólínu, en tap þar myndi ganga endanlega frá framboði hans. Ofan á stöðuna er stuðningsyfirlýsing Kerrys við Obama á þessum tímapunkti sligandi fyrir John Edwards. Þeir þóttu ná góðum takti saman í þeim kosningum og ákvað Edwards að fórna öldungadeildarsæti sínu fyrir varaforsetaframboðið með Kerry, eins og flestum er kunnugt. Frægar voru myndirnar af nánu sambandi þeirra, sérstaklega fyrstu dagana, en þeir þóttu einum of kammó saman.
Þó að John Kerry og Hillary Rodham Clinton hafi verið starfsfélagar í öldungadeildinni í um áratug, og hann unnið mun skemur með Obama, þarf ekki að koma að óvörum að hann velji frekar að styðja hann. Það fór ekki framhjá neinum að Kerry mislíkaði mjög að þurfa að deila sviðsljósinu með Clinton-hjónunum á flokksþinginu í Boston sumarið 2004 og vildi framan af ekki að þau kæmu fram þar. Þau skyggðu mjög á hann og þrátt fyrir að passað væri upp á að Clinton-hjónin kæmu aðeins fram saman fyrsta þingdaginn að þá var stjörnuljómi þeirra yfir þinginu allt frá upphafi til enda. Það hefur ekki farið framhjá neinum að miklir núansar hafa verið milli Clinton-hjónanna og Kerrys.
Þó að John Kerry hafi verið forsetaefni demókrata fyrir aðeins fjórum árum hefur ljómi hans minnkað umtalsvert og hann ákvað að leggja ekki í slaginn nú, en velti þeim valkosti mjög lengi fyrir sér. Kerry átti reyndar rfitt með að leyna löngun sinni í að reyna á framboð nú, en hann hafði ekki baklandið í það. Það er ekki víst hvaða áhrif þessi stuðningsyfirlýsing hafi, önnur en þau þá að ganga nærri endanlega frá forsetaframboði Johns Edwards.
![]() |
Kerry styður Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)