Ingibjörg Sólrún skautar lauflétt yfir ráðningarnar

ISG Það vekur athygli hvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, skautar lauflétt yfir nýlegar umdeildar ráðningar ráðherra ríkisstjórnarinnar. Eflaust getur hún ekki sagt mikið um skipan Þorsteins Davíðssonar af ótta við að fá það allt í hausinn aftur þar sem Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur ekki beinlínis verið að standa sig vel í þeim málum á vakt sinni í ráðuneytinu. Með því að ráðast gegn Árna M. Mathiesen væri Ingibjörg Sólrún enda um leið að kveikja undir ráðherrastóli Össurar.

Ég sé að Reynir Traustason, ritstjóri DV, er harðorður í garð Ingibjargar Sólrúnar í skrifum á vef blaðsins í dag. Það er greinilega mikil beiskja í garð þeirra sem helst hafa staðið vörð um Samfylkinguna og þar er talað um að Ingibjörg Sólrún og hennar fólk sé komið á bólakaf í fenið. Vissulega hlægilegt að fylgjast með þessu. Enn fyndnara fannst mér þó að sjá utanríkisráðherrann með flóttamannasvip forðast að svara spurningum og segjast ekki hafa lesið örstuttan rökstuðning fjármálaráðherra. Ætli að þetta sé ekki vandræðalegasta pólitíska augnablik Ingibjargar síðan að henni var sparkað af borgarstjórastóli?

Ég hef síðustu daga heyrt í mörgum sem kusu Samfylkinguna og eru ósáttir með verklag sinna manna í ríkisstjórn. Eflaust áttu þeir von á því að þeir væru að kjósa einhvern siðbótarflokk. Finnst staðan nú minna okkur þó mun frekar á gamla Alþýðuflokkinn sem raðaði á jötuna fram og til baka uns þeir höfðu grafið svo undan sér að þeir fóru fram fyrir ætternisstapann. Vonbrigðin á þeim bænum virðast mikil. Össur Skarphéðinsson virðist svo reyna allt til að blikka sjálfstæðismenn til að fá þá til að verja skipanir sínar í embætti orkumála- og ferðamálastjóra. Enda varla furða, þar sem hann virðist í miklum vandræðum.

Sá að Egill B. Hreinsson hefur óskað eftir sundurliðuðum rökstuðningi. Fróðlegt verður að sjá svarið. Finnst þó að bjartsýnin eigi sér engin takmörk ef að Össur heldur að sjálfstæðismenn fari að rétta honum hjálparhönd í vandræðum sínum. Hann verður að standa og falla með sínum verkum fari aðstoðarorkumálastjóri í jafnréttismál við hann eða þá að hæfir ferðamálamenntaðir menn sætti sig ekki við það að líffræðingur án sérmenntunar hafi orðið ferðamálastjóri. Hvernig verður annars ásýnd Samfylkingarinnar tapi ráðherra flokksins jafnréttismáli? Ætlar sá flokkur að skreyta sig með jafnrétti framvegis?

Ingibjörgu Sólrúnu er vorkunn. Hún er að reyna að segja eitthvað en segir samt ekki neitt með ræðu sinni í dag. Þeir hljóta að vera mjög sorrý í dag þeir sem kusu hana til valda og töldu sig vera að fá siðbótarmanneskju í kaupbæti.

mbl.is Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband