Bæjarstjóraferli Svanfríðar á Dalvík að ljúka

Svanfríður JónasdóttirBæjarstjóraferli Svanfríðar Ingu Jónasdóttur, fyrrum alþingismanns, á Dalvík lýkur eftir nokkra mánuði, en hún hefur verið bæjarstjóri þar síðan í júní 2006, að loknum kosningum. Samkvæmt meirihlutasamningi Framsóknarflokks og J-lista óháðra mun Svanfríður aðeins gegna embættinu í tvö ár og Framsóknarflokkur fær embættið seinni hluta kjörtímabilsins. Mun vera ætlunin að auglýsa eftir bæjarstjóra í stað Svanfríðar. Miðað við góðan sigur Svanfríðar og hennar fólks vakti athygli að þau gerðu ekki að kröfu að hún fengi allt tímabilið.

Að mörgu leyti finnst mér Svanfríður hafa staðið sig vel sem bæjarstjóri, eiginlega betur en ég átti von á. Staða bæjarins virðist vera góð og haldið vel á málum. Það eru auðvitað blikur á lofti í atvinnumálum á Dalvík, en það er víðar um land vegna kvótaniðurskurðar. Heilt yfir verða eftirmæli Svanfríðar við lok bæjarstjóraferilsins mjög góð myndi ég ætla. Svanfríður hafði oft viljað verða bæjarstjóri og tókst það eftir þessar kosningar, en J-listinn var ekki fjarri hreinum meirihluta undir hennar forystu. Eflaust er þar um að kenna vonbrigðum með fyrri meirihluta, sem fékk mikinn skell í kosningunum 2006.

Var eðlilegt að mínu mati að Svanfríður yrði bæjarstjóri að loknum kosningunum 2006. Framboðslistinn sem hún leiddi hlaut afgerandi flest atkvæði og gott umboð. Það hefði eiginlega verið að fara gegn úrslitum kosninganna hefði hún ekki fengið tækifæri til að gegna embættinu. Það var þó greinilegt að Framsóknarflokkurinn í Dalvíkurbyggð, sem hafnaði henni sem bæjarstjóraefni við slit eldri meirihlutans árið 2004 og leiddi til þess að hann var endurreistur skömmu síðar, treysti henni ekki meira en svo að hún varð aðeins bæjarstjóri hluta kjörtímabilsins, þó algjörlega ný væri í embættinu.

Ég þekki Svanfríði Jónasdóttur mjög vel. Hún var til fjölda ára kennari minn, bæði fyrir og eftir að hún var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu. Ég veit sem er að hún er vinnusöm og metnaðarfull um þau verkefni sem hún vinnur að. Hún var afbragðskennari og ég tel að hennar besta hilla í lífinu hafi verið kennslan enda naut hún sín vel í þeim geira, áður en hún tók sæti á Alþingi. Sem bæjarstjóri hefur hún sýnt vel kosti sína sem persónu.

Framsóknarflokkurinn fær nú bæjarstjórastólinn á Dalvík aftur. Síðast valdi flokkurinn þáverandi leiðtoga sinn, Valdimar Bragason, sem bæjarstjóra, en hann hafði verið bæjarstjóri fyrstur allra á Dalvík 1974-1982. Það verður seint sagt að það hafi verið frægðarferill, enda var tíð fyrri meirihluta mikil vonbrigði fyrir mjög marga sem studdu þá flokka. Það verður áhugavert að sjá hvern framsóknarmenn velja úr hópi umsækjenda.

Það er erfitt um að segja hvort að Svanfríður verði aftur bæjarstjóri á Dalvík. En við þessar aðstæður hlýtur að verða erfitt að verða óbreyttur bæjarfulltrúi aftur og þurfa að æfa nýjan bæjarstjóra til verka aðeins í tvö ár, væntanlega einstakling sem hefur ekki umboð úr kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband