Obama og Huckabee sigra - áfall fyrir Hillary

Hillary Rodham Clinton og Barack ObamaSigur Barack Obama og Mike Huckabee í forkosningunum í Iowa markar þá sem forystuefni í baráttunni um forsetaembættið og tryggir stöðu þeirra. Úrslitin eru mikið áfall fyrir Mitt Romney og Hillary Rodham Clinton, sem börðust af krafti um sigur í fylkinu og þurftu á honum að halda til að tryggja stöðu sína. Fyrir nokkrum vikum töldu allir Hillary ósigrandi í baráttunni um útnefningu demókrata. Það hefur breyst og hún þarf nú á öllu sínu að halda til að snúa aftur í forystusess einvígisins meðal demókrata.

Afgerandi sigur Huckabee í Iowa er mikið högg fyrir Romney, sem hefur lagt mikla peninga í baráttu sína og fókuseraði sérstaklega á fyrstu fylkin; Iowa og New Hampshire, til að fá byr í seglin. Fyrir mánuði varð alvöru barátta í Iowa er Huckabee tók að bæta við sig og sigur hans nú er högg fyrir Romney, sem gæti orðið til að ganga frá baráttu hans. Örlög hans ráðast fyrst og fremst í New Hampshire en tap þar fyrir John McCain myndi verða örlagaríkt og gæti orðið örlagaríkur skellur fyrir hann. Mitt Romney hefur með miklum peningum byggt maskínu sem þótti líkleg til að taka fyrstu fylkin og marka góða stöðu - hann getur ekki lengur talist öruggur með neitt.

Fyrir nokkrum mánuðum töldu flestir John McCain búinn að vera. Hann átti í miklum erfiðleikum með framboð sitt í fyrrasumar og fram á haustið. Margir afskrifuðu McCain á þeim tímapunkti og töldu hann bæði of gamlan fyrir forsetaframboð og ekki með þann kraft sem þyrfti í forystusess baráttunnar um Hvíta húsið. Hann hefur snúið aftur af krafti og er kominn í alvöru baráttu um útnefningu flokksins. McCain náði eftirminnilegum sigri á George W. Bush í forkosningabaráttunni í New Hampshire fyrir átta árum. Nú stefnir í að hann sé að ná sömu stöðu þar aftur. Sá sigur myndi marka hann sem alvöru forsetaefni, sem á alvöru möguleika á Hvíta húsinu.

Hillary Rodham Clinton er særð eftir útkomuna í Iowa. En hún er sannarlega ekki búin að vera. Hún þarf þó að eiga öfluga endurkomu fljótt til að geta verið sú sterka, eins og hún var talin nærri allt síðasta ár í baráttunni um Hvíta húsið. Að mörgu leyti ræðst staða hennar mjög í New Hampshire, en með sigri þar gleymist Iowa fljótt. Hillary hlaut fleiri landsþingsfulltrúa en Edwards í Iowa og á auðvitað enn talsverða von á útnefningunni. Það er erfitt að afskrifa hana þó hún tapi í Iowa. En Hillary hefur hökt sýnilega síðan í kappræðunum í Philadelphiu. Það var örlagamóment. Það hefur sést vel og hún hefur verið viðkvæm og þessi ósigur er mikið áfall fyrir hana á viðkvæmum tímapunkti.

Ósigur Clinton-hjónanna í Iowa er þeirra fyrsti í mjög mörg ár. Þau eru ekki vön því að tapa. Hillary hefur aldrei tapað kosningum, ef ég man rétt. Arfleifð þeirra í stjórnmálum á alþjóðavettvangi er að mörgu leyti í húfi nú. Tapi hún þessum slag tapa þau hjónin ennfremur lykilstöðu sinni innan flokksins, sem þau hafa haft í einn og hálfan áratug. Það er bara ekki flóknara. Hún virðist hafa slegið ranga tóna í baráttu sinni að undanförnu og það er nú verkefni hennar að bæta úr því. Sláandi hljóta að teljast niðurstöðurnar um að yngri konur hafi frekar kosið Obama. Það staðfestir að innkoma Opruh á viðkvæmum tímapunkti skilaði sér fyrir hann. Það var örlagamóment í Iowa.

Hillary þarf nú að reyna að ná þessum hóp aftur. Þar liggur lykilbarátta hennar nú. Það er mjög líklegt að þessi hópur ráði úrslitum er yfir lýkur, altént fyrir Hillary. Vandi hennar er líka sá að hún er lykilfulltrúi fyrri tíma í bandarískum stjórnmálum, verið á sviðinu lengi. Obama hefur aðeins verið í öldungadeildinni í tvö ár og sigur hans í Iowa sýnir umfram allt fólk vill breytingar. Það eru stóru tíðindin. Það er ástæða þess að forskot Hillary hefur gufað upp. Obama virkar á marga sem framtíðin en Hillary sé fortíðin uppmáluð. Barack Obama talaði eins og alvöru forsetaefni í gærkvöldi. Hann er ferskt andlit - það er hans helsti styrkleiki í baráttunni.

En þetta er bara rétt að byrja. Baráttan um útnefningu repúblikana er sú tvísýnasta í yfir hálfa öld - enginn búinn að vera enn. Thompson og McCain geta ágætlega við unað eftir Iowa, fengu báðir ágætis kosningu miðað við að hafa ekki fókuserað á það. Giuliani fékk aðeins fjögur prósent, en hann horfði aldrei þangað og er ekki mikið að spá í New Hampshire heldur. Það mun ekki reyna að ráði á hann fyrr en kosið verður í Flórída síðla mánaðar. Hann stendur og fellur með góðri útkomu þar. En stóru tíðindin eftir Iowa eru bara tvenn; Huckabee markaði sig sem alvöru frambjóðanda og Romney varð fyrir höggi.

Hjá demókrötum eru Joe Biden og Chris Dodd búnir að blása af framboð sín eftir vonda útkomu í Iowa. Það áttu allir von á því. Stutt er í að Bill Richardson fari sömu leið. Dennis Kucinich á engan séns, er álíka sterkur kandidat og Ástþór Magnússon, en hann lafir í þessu eitthvað lengur. Hjá demókrötum snýst þetta bara um tríóið; Obama, Clinton og Edwards. Hefur verið þannig mánuðum saman og verður þannig. Edwards hefði þurft sigur í Iowa til að virkilega marka stöðu sína sem sigurstranglega. Hann átti von á og þurfti líka betri útkomu en þessa. Eftir stendur að þetta er slagur Obama og Clinton.

Það eru ellefu mánuðir þar til að 44. forseti Bandaríkjanna verður kjörinn. Það er ómögulegt að spá með vissu um það nú hver verði eftirmaður George W. Bush í Hvíta húsinu. Þetta eru tvísýnustu forsetakosningar í Bandaríkjunum í átta áratugi hið minnsta, myndi ég segja. Huckabee og Obama eru þó sigurvegarar fyrstu umferðarinnar í baráttunni og hafa fengið byr í seglin, eftir að hafa verið taldir vonlitlir um útnefningu flokka sinna, eru stjörnur þeirra í Iowa hið minnsta. En enn er mikið eftir og spennandi barátta er framundan.


mbl.is Huckabee og Obama sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alveg augljóst að Hillary Clinton mun taka upp agressívari baráttu. Hún hefur verið frekar róleg hingað til, en gera má ráð fyrir meiri neikvæðni og árásum á lægra plani á næstu dögum, vikum og mánuðum. Obama hefur sýnt það að hann getur sigrað þessa kosningu, en það verður áhugavert að fylgjast með hvað Hillary og félagar munu gera til að ná sér eftir þetta högg sem þau fengu á sig í Iowa.

Barack Obama (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 17:43

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Min skoðun er að Hillary Clinton muni vinna þetta,ekki spurning???Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.1.2008 kl. 01:11

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

BO: Vil fyrir það fyrsta segja að mér líst vel á það að þú opnir Barack Obama-síðu og fjallir um baráttuna. Það sýnir bara að fólk trúir á pólitík og hefur áhuga á henni og vill skrifa af krafti, telur sig hafa vonarneista fyrir pólitískum leiðtoga sem getur markað söguleg skref. Veit ekki hver þú ert sem skrifar, en mér finnst þetta flott hjá þér.

Síðan að ég sá Obama fyrst á flokksþingi demókrata í Boston árið 2004 hef ég verið sannfærður um að þar sé mikill vonarneisti fyrir demókrata og hann er að marka söguna þessa dagana. Það breytir engu hvort hann tapar eður ei núna hann er að marka söguleg skref, sem gleymast ekki.

Auðvitað mun Hillary verða beittari núna. Hún taldi sig lengst af vera á safe siglingu og hafa yfirhöndina og ætlaði að vera einbeitt og ákveðna í þeim efnum vegna einmitt þess. Nú er allt opið og hún verður logandi beitt. Og það er eins gott, enda er alltaf skemmtilegra ef baráttan er jöfn.

Halli: Hillary er ekki búin að vera en þetta hefur jafnast mjög og erfitt að spá um hvað gerist. Það er gott að það verði hasar í þessu.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.1.2008 kl. 02:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband