Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Björn Ingi vildi staðfesta verklagið þó ólöglegt væri

Björn Ingi glottir Það er ekki að sjá að hitinn í REI-málinu sé að minnka með myndun nýs meirihluta. Þar er margt sem kraumar undir af miklum þunga. Það kemur einhvern veginn ekki að óvörum að heyra að Björn Ingi hafi viljað staðfesta verklag hins umdeilda hluthafafundar innan Orkuveitunnar síðar þó hann yrði dæmdur ólöglegur. Það er ekki undrunarefni að heyra af því að sjálfstæðismenn hefðu ekki getað skrifað upp á það.

Þetta er mjög gott dæmi um hversu mikla áherslu framsóknarmenn lögðu á ákvörðunina og skipti þá einu hvort verklagið yrði löglegt eður ei. Þetta minnisblað Björns Inga finnst mér athyglisverð viðbót við þetta umdeilda mál. Mér finnst allt þetta svokallaða REI-mál vera mjög skítugt og það virðist sífellt koma upp skítugri hliðar mála eftir því sem meira er skyggnst í það.

Í sjálfu sér þarf þetta varla að koma að óvörum. Þungi framsóknarmanna yfir því að staðfesta fyrri ákvarðanir og hitinn yfir því að ekki hafi verið vilji til að samþykkja efni þessa minnisblaðs færir endalok þessa meirihluta í sífellt betri heildarmynd.

mbl.is Vildi styðja samrunann aftur þó fundur yrði dæmdur ólöglegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í umboði hverra mun Margrét Sverrisdóttir sitja?

Margrét Sverrisdóttir

Að óbreyttu mun Margrét Sverrisdóttir, varaformaður Íslandshreyfingarinnar, verða kjörin forseti borgarstjórnar Reykjavíkurborgar á þriðjudag. Hún er varafulltrúi framboðs tengdu flokki sem hún vill í dag ekki kannast við og klauf til að ganga í annan er yfir lauk. Þetta er athyglisverð flétta og ég held að engin dæmi séu um það úr seinni tíma stjórnmálasögu að varafulltrúi hafi verið kjörinn forseti borgarstjórnar og að auki fulltrúi í nafni flokks sem viðkomandi vill ekki kannast lengur við.

Eins og vel er kunnugt var Margrét svo hneyksluð þegar að Gunnar Örn Örlygsson, þáverandi alþingismaður, fór úr Frjálslynda flokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn vorið 2005 að hún sendi í eigin persónu kæru um málið inn til umboðsmanns Alþingis þar sem hún taldi gersamlega ótækt að stjórnmálamaður kosinn fyrir einn lista gæti síðan skipt um á miðju kjörtímabili og gengið í raðir annars lista.

Margrét mun vonandi upplýsa fjölmiðla og stjórnmálaáhugamenn um þessa margfrægu kæru og í leiðinni velta því fyrir sér hvort hún ætti að fá yfir sig samskonar kæru.


mbl.is Getur setið sem forseti borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihluti tekur við völdum án málefnasamnings

Leiðtogar nýs meirihluta með rónunum Það var greinilegt í gær að nýr vinstrimeirihluti í Reykjavík var myndaður án málefnagrunns, þar var bitlingum aðeins skipt. Nú er ljóst að sami meirihluti mun taka við völdum án málefnasamnings á þriðjudag. Er það eftir því sem ég best veit einsdæmi í sögu Reykjavíkurborgar að valdaskipti eigi sér stað án þess að sameiginlegur málefnasamningur meirihlutastjórnar, eða heildstæð málefnayfirlýsing, liggi ekki á borðinu við valdaskipti.

Ég hélt í sakleysi mínu að sérstaklega Vinstrihreyfingin - grænt framboð væri að vinna af hugsjónum í stjórnmálum en stundaði ekki bitlingapólitík. Það hefur svo margoft verið sagt nefnilega af þeim sjálfum. Annað er upp á döfinni í Reykjavík. Þeir ætla sér að taka við völdum í borgarstjórn án þess að vera með málefnasamning og heildstæða samninga um lykilmál. Þetta vekur mikla athygli og verður kannski meginstef fyrir fjögurra framboða meirihlutann. Þetta verður kyrrstöðustjórn þar sem allt snýst um veikar málamiðlanir og reynt verður að sigla rólega í gegn, enda geta minnstu átök gengið frá því sem nógu veikt er fyrir.

Það er ekki undrunarefni að spurt sé um hvaða stefnu eigi að samtvinna fyrir þessi fjögur öfl um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, málefni Örfiriseyjar, einkaskólana og svona mætti lengi telja. Það vantar svosem varla hitamálið næstu 30 mánuði. Mér finnst samt skilaboðin sem felast í þeim stórfregnum að setjast eigi að völdum án þess að hafa samið um málefnin segja allt sem segja þarf um hvað sé aflið á bakvið meirihlutann. Þar er öllu fórnað fyrir völdin og svo á að sjá til síðar hvort að þetta reddist ekki. Þetta eru sterk skilaboð, sérstaklega þar sem þau gerast á vakt vinstri grænna sem hafa verið svo miklir hugsjónamenn að eigin sögn.

Svandís Svavarsdóttir er að fara mikinn á fundi félaga sinna við að tala illa um Sjálfstæðisflokkinn og talar þar um að Valhöll geti ekki tekið á málum. Þetta er fyndinn boðskapur sem hún er að flytja yfir samherjum sínum. Af hverju talar hún ekki um málefnin sín, þau lykilþemu sem hún ætlar að standa vörð um innan REI-listans og þann málefnagrunn sem unnið er að? Vegna þess að málefnavinnan er annaðhvort ekki hafin eða á svo miklu frumstigi að þau geta ekki tekið helgina og mánudaginn í að setja saman málefnagrunn eða samning til verka.

Þetta er fyndin pólitík, en eitthvað segir mér að þetta verði pólitíkin sem REI-listans verður minnst fyrir að leiðarlokum. Þetta er bitlingapólitík sem Svandís er að standa fyrir í sinni raunverulegustu mynd.

mbl.is Svandís: „Valhöll getulaus í erfiðum málum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Björn Ingi að ganga erinda auðmanna?

Björn Ingi
Enn hefur Björn Ingi Hrafnsson ekki komið með neinar trúverðugar skýringar á því af hverju hann ákvað að láta REI-málið verða örlagamál meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það hafði blasað við síðustu daga að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vildi láta reyna á að ná samkomulagi og gekk heill til þess verks. Þess vegna höfðu engar formlegar viðræður hafist við neinn annan flokk og þess vegna biðu sjálfstæðismenn eftir Birni Inga. Heilindin réðu för. Kannski var það vitlaus pólitík en það er heiðarlegra að falla með þeim hætti.

Það eru aðeins lélegar útskýringar sem komu frá fundi framsóknarmanna. Bingi talar um að þreifingar hafi verið í gangi. Var hann ekki sjálfur í formlegum viðræðum við leiðtoga hinna flokkanna áður en meirihlutanum var slitið? Voru mögulegar viðræður einhverra sjálfstæðismanna formlegar samningaviðræður um meirihluta? Ef svo er væri gott að Bingi kæmi fram og segði betur frá því. Staðreyndin er sú að hefði slíkt verið í gangi hefðu sjálfstæðismenn ekki haldið heiðarlega til viðræðna um að leysa mál eins og þeir gerðu.

Ég held að óheilindi Björns Inga Hrafnssonar verði lengi í minnum höfð. Svona eftirminnileg svik vekja athygli, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að ekki höfðu farið fram kosningar og samstarfinu er slitið á mjög undarlegum forsendum á miðju kjörtímabili. Það er mjög óvarlegt að jafna þessu saman við endalok stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í vor, en þar höfðu farið fram kosningar og Framsókn hafði þar misst tæplega helming þingflokks síns og stóð veikur eftir, að vilja kjósenda. Það voru ekki sjálfstæðismenn sem veiktu Framsókn, landsmenn gerðu það með atkvæði sínu.

Í raun má hugleiða hvort að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hafi sterkt umboð. Bingi var úti nær alla kosningabaráttuna en halaðist inn á lokadögunum með miklum auglýsingum kostuðum af auðmönnum sem dældu peningum í framsóknarleiðtogann. Eins og auðmenn voru örlagavaldar í að tryggja kjör Binga má spyrja hvort að auðmenn hafi líka leikið lykilhlutverk í slitum meirihlutans í Reykjavík. Enn vantar alvöru skýringar á slitum meirihlutans og verklaginu. Svör Binga í dag eru loðin og ósannfærandi.

Í 16 mánuði hafa vinstriflokkarnir í Reykjavík barið á Birni Inga Hrafnssyni og Framsóknarflokknum æ ofan í æ, ekki bara í landsmálum heldur líka í borgarmálunum. Það er frekar fyndið að heyra þá mæra upp Binga núna og bjarga honum úr skítnum sem hann var kominn í. Fyrir þá sem standa utan flokkshitanna í borginni verður áhugavert að sjá þá hjónabandssælu sem fylgir meirihluta þessara fjögurra flokka.

Menn tala um hvort að Bingi hafi gengið erinda auðmanna, sérstakra sérhagsmuna. Það er freistandi að halda það í grunninn. En við lok alls þessa sjónarspils er ekki undrunarefni að menn hafi teiknað upp Björn Inga Hrafnsson sem Glanna glæp. Svo mikið er víst.

mbl.is Björn Ingi: Þreifingar fóru fram af hálfu sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gore fær friðarverðlaunin - fer hann í framboð?

Al Gore Það er enginn vafi á því að Nóbelsnefndin hefur veitt Al Gore pólitíska uppreisn æru af slíkum toga með því að velja hann friðarverðlaunahafa ársins að talað verður nú um af mikilli alvöru hvort að hann muni gefa kost á sér sem forseti Bandaríkjanna í komandi forsetakosningum. Persónulega skil ég ekki valið á Gore, hefði talið mun eðlilegra að heiðra friðarmál með áberandi hætti, t.d. hefði Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands, átt að fá verðlaunin vegna verka sinna í Kósóvó.

Það hefði fáum órað fyrir því þegar að Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu fyrir tæpum sjö árum, beygður og sár, eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins að hann myndi hljóta friðarverðlaun Nóbels og yrði ein af stjörnunum við afhendingu óskarsverðlaunanna í Los Angeles. Allt þetta hefur honum tekist á innan við einu ári. Gore hafði vissulega stuðning fræga fólksins og peningafólksins í borg englanna á sínum tíma og safnaði miklum fjárhæðum í kosningabaráttuna árið 2000 og vann Kaliforníu þá með nokkrum yfirburðum, en hann var þó aldrei með stjörnuljóma á við leikarana.

Það leikur enginn vafi á því að Al Gore varð fyrir þungu áfalli í forsetakosningunum 2000. Hann vann.... en tapaði samt. Hann er enn að vinna við að byggja sig upp eftir þann þunga skell en virðist hafa tekist það með undraskjótum hætti. Hann er orðinn gúrú í umhverfismálum og hefur markað sér sess sem mikilvægur postuli í umræðunni um loftslagsmálin. Á sama tíma og sól Bush forseta hnígur hratt til viðar hefur Gore tekist að halda sviðsljósinu og ljómanum af fyrri frægð og áhrifum. Hann hefur byggt upp áhrif sín á öðrum vettvangi - vettvangi sem honum hefur tekist nokkurn veginn að gera að sínum, algjörlega í gegn.

Al Gore náði aldrei að heilla mig í forsetakosningunum 2000. Mér fannst hann grobbinn og fjarlægur. Það er alveg ljóst að með þessari ímynd sem hann hefur nú hefði hann unnið forsetakosningarnar vestan hafs þá. Nú er reyndar talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast brátt, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni. Það er ekki fjarlægur möguleiki. Persónulega myndi ég telja hann sterkasta valkost demókrata nú.

Ég tel að Gore sé lífsreyndari og sterkari nú en áður. Hann virðist hafa farið í algjöra endurnýjun, það er öllum mönnum hollt. Mér finnst Gore allavega sterkari karakter nú en fyrir átta árum. Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála.

Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og varð forseti átta árum eftir tapið sögufræga. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála, sem féllu öll í skugga Watergate.

Al Gore hefur endurnýjað sig. Mér finnst hann sterkari nú en fyrir átta árum. Hann hefur helgað sig málstað, málstað sem ég tel að sé þverpólitískur. Fyrir vikið er hann sterkari leiðtogaímynd. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að hann snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn. Hann hefur neitað því æ ofan í æ en það hlýtur að kitla hann, sérstaklega eftir þennan alþjóðlega norræna heiður sem friðarverðlaun Nóbels óneitanlega eru. Það er allavega ljóst að Gore hefur meiri stjörnuljóma. Maður sem hefur bakgrunn stjórnmálamannsins sem hefur risið upp úr erfiðum öldudal en hefur samt eftir það stjörnuljóma á kvikmyndahátíðum er fjarri því dauður úr öllum æðum.

mbl.is Al Gore og loftslagsnefnd SÞ hljóta friðarverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk atburðarás í borgarmálunum

Dagur, Svandís og Bingi Dramatíkin hefur verið í aðalhlutverki í borgarmálum síðasta sólarhringinn. Atburðarásin á bakvið það sem enginn átti von á, en mátti þó jafnvel ljóst vera eftir borgarstjórnarfundinn á miðvikudag, er óðum að skýrast og bitarnir að ná saman. Lykilþáttur Alfreðs Þorsteinssonar í meirihlutasamstarfinu nýja verður líka sífellt skýrari, hann var þar maðurinn sem lék hjúskaparmiðlarann með glott á vör, sá þar tækifæri til hefnda.

Heilt yfir blasir við hversu mjög sjálfstæðismenn voru heiðarlegir við Framsókn, meira að segja eftir mjög loðna ræðu Björns Inga Hrafnssonar í borgarstjórn, þar sem þegar mátti sjá merki þess að hann horfði á önnur mið. Sjálfstæðismenn reyndu að leysa málin með heiðarlegum hætti á meðan að Björn Ingi sat á svikráðum með öðrum aðilum. Það hlýtur að teljast sómi sjálfstæðismanna að falla á sannfæringu sinni en um leið hefur Björn Ingi Hrafnsson styrkt stöðu sína til fullra metorða innan Framsóknarflokksins með ómerkilegum klækjum af áður óþekktri gráðu. Hann fylgir leiðsögn læriföðurins sem leiddi brotin fjögur til sex saman.

Það virðist enginn innan nýs meirihluta geta sagt hvað standa margir flokkar að honum. Þeir eru allt frá því að vera fjórir til sex, eftir því hvað heiðarlegt mat nær langt í sjálfu sér. Það vekur líka athygli að í þessu einstæða andrúmslofti þar sem aldrei hefur verið myndaður meirihluti í Reykjavík án kosninga er slitið á undarlegum forsendum. Það er ekki undrunarefni að sá orðrómur vakni að Björn Ingi Hrafnsson sé að ganga erinda auðmanna og undarlegra sérhagsmuna. Öll atburðarásin kallar á að sá orðrómur vakni og verði eitthvað meira en eiginlega orðrómur í sjálfu sér.

Þegar eru ungliðar vinstri grænna farnir að láta í sér heyra. Þeir spyrja eðlilega tveggja lykilspurninga; hversvegna studdi Dagur B. Eggertsson að völdum aðilum yrðu veittir umdeildir kaupréttarsamningar? - og - muni Björn Ingi gera hreint fyrir sínum dyrum í orkumálunum?. Seinni spurningin vekur mikla athygli. Ég held að margir til vinstri séu með óbragð í munni yfir að taka upp samstarf við Björn Inga. Öllu er þar fórnað fyrir völdin og sérstaka athygli vekur hversu allt er fljótt fallið í ljúfa löð þar. Eftir öll stóru orðin gegn Birni Inga er öllu gleymt.

Ekki aðeins er Bjarni Harðarson orðinn eins og bráðið smjör gagnvart honum heldur líka vinstriöflin. Þar talar enginn lengur um að hann eigi að segja af sér vegna REI-málsins. Þvert á móti, nú ætla vinstriöflin að stjórna með honum. Mjög merkilegt. Reyndar mátti þegar sjá fléttu þess á miðvikudag að vinstrimenn ætluðu að gleypa stóru orðin þar sem aðeins var ráðist að borgarstjóranum en ekki Birna Inga, sem þó sat í stjórn REI og var í miðri atburðarás allra þeirra ákvarðana sem vinstrimenn voru svo ósáttir með. Öll stóru orðin gegn Binga gleymdust til að eygja von um völd.

Hversu heilt verður samstarf þeirra sem leiða öflin fjögur? Það verður stærsta spurning næstu 30 mánaða. Björn Ingi er í mjög undarlegri stöðu. Nú þarf hann að fara að semja við þá sem harðast hafa gagnrýnt hann og leita þess að koma sínum málum á dagskrá þar. Sum þeirra hafa verið hörð átakamál í borgarstjórn. Er pólitískt mannorð Björns Inga ekki stórlega skaddað? Hversu sterkur forystumaður er Margrét Sverrisdóttir? Fornir félagar hennar á meðal frjálslyndra gremjast sárlega yfir vegtyllum hennar. Henni hefur verið bjargað, þeim til sárra vonbrigða.

Þessi meirihluti er skrýtinn grautur í sjálfu sér. Margt í kringum hann orkar tvímælis. Hann er málefnalega tómlegur að sjá, fulltrúar aflanna gátu engum spurningum svarað í gær nema sem snerust um það hvernig gekk að skipta embættum og horfa eitthvað áfram með REI. Öll grunnatriði málanna standa eftir hálfkláruð utan garðs. Þar verða alvöru viðfangsefni og fróðlegt verður að sjá hvernig að Binga gangi að vinna með þrem framboðum, sumum með óljósan grunn, fyrst hann strandaði á samstarfi við einn.


mbl.is Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alfreð Þorsteinsson er guðfaðir nýja meirihlutans

Alfreð Þorsteinsson Það kemur sannarlega ekki að óvörum að heyra fregnir af því að Alfreð Þorsteinsson sé guðfaðir nýja meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. Með því er hann væntanlega að kippa í spottana til að tryggja að ekki verði hróflað við neinu í gamla konungsríkinu hans í Royal Alfreð Hall á Bæjarhálsinum. Þetta er í sjálfu sér skiljanlegt, enda er Alfreð margkalinn á hjarta vegna örlaga R-listans, endalokum sínum í stjórnmálum sem fengust með spítalagæluverkefni sem honum var svo um síðir sparkað út úr.

Upp er tekið gamla R-listamódelið með óskiljanlegum leifum úr margklofnum Frjálslynda flokknum, afl með tengingar í tvo flokka en vill þó opinberlega kannast við hvorugt þeirra. Margrét Sverrisdóttir sagði fyrir stundu að Frjálslynda flokknum hefði verið rænt í ársbyrjun en vill ekki kenna sig við floppframboðið frá í vor, Íslandshreyfinguna. Eftir stendur nýstofnaður meirihluti með stífnuðum brosum. Svandís er skyndilega búin að hvítþvo Björn Inga af spillingarstimplinum en getur þó ekki sagst ætla að styðja samruna REI og GGE.

Það er ekki óeðlilegt að sjálfstæðismenn séu óánægðir með þennan lélega kokkteil sem hrist var saman, enda hefur aldrei farið miklum frægðarsögum af pólitískum hræringi með tengingar í fjórar til sex áttir eins og það sem blasir við. Þetta er meirihluti sem margir velta fyrir sér hvernig muni verða. Það verður áhugavert að sjá hvernig að rúmlega 30 mánuðir af þessum kokkteil muni endast. Vissulega er spurt um stöðu mála innan Sjálfstæðisflokksins en enn fróðlegra verður að sjá hvernig að Birni Inga gangi að vinna með þrem framboðum fyrst að hann gat ekki unnið með einu.

Glottið á Alfreð Þorsteinssyni hlýtur að vera öflugt og gott á sama tíma og R-listinn er endurreistur á brauðfótunum undir pólitískri tilveru Margrétar Sverrisdóttur. Það verður áhugavert að sjá hvort að leiðsögn Alfreðs innan Orkuveitunnar verði áfram með sama hætti og hvort meirihlutinn er verndargrunnur fyrir þá stefnu fyrst og fremst. Ég held að spottateygingar Alfreðs hafi þar skipt sköpum enda svíður honum að horfa eigi framhjá verklaginu sem einkenndi hann svo lengi.

mbl.is Dapurlegt að endurreistur R-listi sé kominn til valda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr meirihluti í Reykjavík án málefnagrunns

Leiðtogar nýs meirihlutaÞað er öllum ljóst að nýr meirihluti fjögurra stjórnmálaflokka í borgarstjórn Reykjavíkur er án málefnagrunns. Hið eina sem fram kom á blaðamannafundi fyrir stundu var það hver af fjórum forystumönnum ætti að skipa stóru embættin og síðan ætti bara að sjá til með framhaldið. Þetta er auðvitað mjög veikur meirihluti, enda veit t.d. enginn hvaða pólitíska umboð Margrét Sverrisdóttir hefur.

Í sjálfu sér eru þetta tímamót fyrir alla aðila. En hinsvegar vekur mikla athygli hversu mikill vinur minnihlutaflokkanna Björn Ingi Hrafnsson er orðinn eftir öll átökin í REI-málinu. Eftir öll stóru orðin um kaupréttarsamningana og bitlinginn til kosningastjóra Binga er allt fallið í ljúfa löð milli þessara aðila. Heilt yfir tel ég að þetta verði veikur meirihluti. Þetta eru fulltrúar fjögurra ólíkra framboða, eitt þeirra er reyndar algjörlega blankó eftir að Margrét Sverrisdóttir yfirgaf Frjálslynda flokkinn, svo ekki er hún fulltrúi hans í þessum meirihluta. Og hvar er Ólafur F. Magnússon, réttkjörinn borgarfulltrúi? Er hann orðinn ósýnilegur?

Það er vonandi að Magnús Þór Hafsteinsson og Guðjón Arnar Kristjánsson séu ánægðir með að stjórnmálaferli Margrétar Sverrisdóttur hafi verið bjargað, enda er hún að verða forseti borgarstjórnar í Reykjavík, svo skömmu eftir að hún yfirgaf þá. Hún fær fljúgandi start í fjölmiðlaathygli og verður einn valdamesti forystumaður borgarinnar, hefur t.d. líf meirihluta í höndum sér rétt eins og Björn Ingi Hrafnsson hafði áður. Það var ekki undrunarefni að Margrét væri spurð í hverra umboði hún sæti. Það verður að ráðast.

Fulltrúar flokkanna sem mynda nýjan meirihluta eru farnir að éta upp í sig öll stóru orðin. Bjarni Harðarson, alþingismaður, leit t.d. mjög kjánalega út í þinginu áðan þar sem hann át ofan í sig öll stóru orðin um að Bingi ætti að segja af sér. Guðjón Arnar Kristjánsson leit út eins og fyrrum eiginmaður maka sem hefur gift sig öðrum og er spurður um hvernig honum líki hjónaband makans fyrrverandi; semsagt mjög hlægilegur. En þetta verður bara að ráðast.

Ég held að þessi meirihluti verði mjög óstöndugur og hlakka sérstaklega til að sjá hvernig Margrét Sverrisdóttir standi að verki umboðslaus í meirihluta. Fjölmiðlar spyrja um stöðu hennar og eðlilegt að aðrir gera það. Björn Ingi Hrafnsson verður að eiga við sig sín óheilindi. Mér finnst þau ekki honum til sóma, enda greinilega prinsipplaus maður þar á ferð.

En nú verður spurt að því hvernig þessum fjórum flokkum gangi að sjóða saman málefnin, eitthvað sem við heyrðum ekkert um í dag. Það lyktar víða af óheilindum og fróðlegt að heyra hvernig gangi að bæta brunarústum Frjálslynda flokksins við R-listann.


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn springur - Dagur B. borgarstjóri

Meirihluti myndaður í maí 2006 Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík er sprunginn. Myndaður hefur verið nýr meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar, VG og F-listans og mun Dagur B. Eggertsson verða nýr borgarstjóri í Reykjavík. Skjótt skipast veður í lofti. Innan við sólarhring eftir átakafund í borgarstjórn þar sem augljóst var að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var einangraður hefur honum verið sparkað úr embætti.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík svaf gjörsamlega á verðinum. Það var augljóst í gær að þreifingar voru hafnar á milli minnihlutaaflanna, sérstaklega Dags B. Eggertssonar og Björns Inga Hrafnssonar og greinilega var allt sett upp með þeim hætti að allt væri galopið. Þannig talaði altént Björn Ingi svo eftir var tekið. Sjálfstæðismenn sem hefðu getað stokkað stöðu mála upp og hefðu getað verið með pálmann í höndunum misstu málið úr höndum sér.

Heldur er þetta háðugleg endalok á stjórnmálaferli hins svokallaða gamla góða Villa. Það var orðið vel ljóst á síðustu dögum að grundvöllur hans væri brostinn í embætti borgarstjóra og það hefði verið heiðarlegast og best fyrir sjálfstæðismennina sex að halda í aðrar áttir þegar á því var tækifæri. Þetta spil hefur allt undið mjög hratt upp á sig og hlýtur að vera gríðarlegt áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn.

Eftir tólf ára minnihlutasetu hafði Sjálfstæðisflokkurinn öll tækifæri til að standa sig vel og vinna af krafti. Hann missti þau spil algjörlega úr höndunum og þarf að endurvinna sér styrk og trúverðugleika. Þetta hlýtur að teljast háðugleg útreið fyrir nánustu stuðningsmenn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem trúðu því að hann gæti leitt flokkinn út úr þessari krísu.

mbl.is Nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beitti Davíð sér fyrir nýjum meirihluta í Reykjavík?

Davíð Oddsson Það er ekki hægt að segja annað en að það sé stórmerkileg kjaftasaga að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, hafi beitt sér fyrir nýjum meirihluta Sjálfstæðisflokks og VG í borgarstjórn Reykjavíkur. Orðrómur var um það um síðustu helgi að þreifingar væru í gangi milli aðila og hugmyndir um að borgarfulltrúarnir sex sem voru ósáttir við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson myndu taka upp samstarf við VG, þá án Vilhjálms borgarstjóra.

Talað var um þennan kost sérstaklega í fréttaskýringu Péturs Blöndals í Morgunblaðinu á mánudag. Eftir blaðamannafund borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og sættirnar við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson (sem virðast að mestu vera á yfirborðinu) hefur róast yfir allavega á meðal borgarfulltrúanna sem hafa sameinast um að lægja öldur. En það væri fróðlegt að vita hversu miklar þreifingar átti sér stað og hverjir tóku þátt í þeim hafi slíkt átt sér stað.

Það að Davíð Oddsson sé orðaður við slíkt vekur athygli. Orðrómur hefur verið um að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi verið ósátt við slíkar þreifingar og hugleiðingar á meðal hóps sjálfstæðismanna og varla undrunarefni enda hefur stuðningur Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og stuðningsmanna hans við Vilhjálm Þ. ekki farið framhjá neinum, en Inga Jóna Þórðardóttir flutti sem kunnugt er ávarp við opnun kosningaskrifstofu gamla góða Villa í prófkjörinu 2005, þar sem VÞV og GMB tókust á.

Það virðist vera að þeir sem hafa lengst af stutt Davíð Oddsson og verið í innsta kjarna hans sé ekki sérstaklega umhugað um Vilhjálm Þ. og hafi viljað stokka upp stöðu mála. Það að nafn Davíðs sé nefnt í því samhengi skiptir miklu máli og hvort sem aðeins um kjaftasögu eða staðreynd sé að ræða er ljóst að þetta opnar frekari hugleiðingar um stöðu mála innan kjarnans í Reykjavík og hversu mjög ósáttir menn séu við verklag Vilhjálms Þ.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband