Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.10.2007 | 17:10
Átakafundur í borgarstjórn Reykjavíkur
Vilhjálmur Þ. svaraði í upphafi í ítarlegri ræðu stöðu málsins. Það vakti þó athygli að þar var í engu vikið að innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum að undanförnu og trúnaðarbresti milli kjörinna fulltrúa innan sjálfs meirihlutans. Samskiptaleysi við minnihlutafulltrúa er vissulega annar kapítuli en afleitur engu síður en við meirihlutafulltrúa. Þetta er afleitt verklag, verklag liðinna tíma sem er engum hlutaðeigandi til sóma.
Það er eðlilegt að ólga sé vegna þessa máls. Flestir þættir þessa máls eru meirihlutaflokkunum til skammar. Það er mjög einfaldlega þannig. Málið flækist þó er tekið er inn í myndina þá staðreynd að tveir menn tóku stórar ákvarðanir án þess að færa þær inn í bakland sitt. Það veikir ákvörðunina umtalsvert. Þess vegna þarf að fá lögmæti hluthafafundar í síðustu viku á hreint. Það hefur fengið flýtimeðferð í Héraðsdómi og vonandi mun á næstu dögum fást niðurstaða í það mál. Það er mikilvægt atriði að úrskurða um lögmæti fundarins.
Framganga borgarstjórans hefur vakið athygli. Það er alveg ljóst að hann hefur veikst mjög. Þýðir ekkert að neita því. Það er erfitt að trúa því að hann hafi ekki vitað um kaupréttarsamningana og mikilvægustu þætti hans. Það stendur margt eftir ósvarað. Í heildina er lykilatriði að kjörnir fulltrúar taki þetta mál til umræðu. Það eru mörg spurningamerki uppi. Sem sjálfstæðismaður er ég fjarri því sáttur við forystu leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn í þessu máli.
Nú reynir á trúverðugleika og styrk meirihlutans í Reykjavík. Ef marka má stemmninguna á fundinum sem nú stendur er málinu ekki lokið og skal engan undra. En það þarf að opna málið upp á gátt, birta öll gögn og fara yfir lögmæti ákvarðana. Það eru margar glufur í þessu máli sem fara þarf í saumana á. Í þeim efnum dugar enginn kattaþvottur.
![]() |
Aukafundur hafinn í borgarstjórn Reykjavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2007 | 14:58
Dagar Guðmundar hjá Orkuveitunni taldir?

Það er einfaldlega mjög ósennilegt að Guðmundur hafi traust áfram. Það er greinilegt á orðum Gísla Marteins Baldurssonar í garð Guðmundar að kergja er meðal borgarfulltrúa til lykilstjórnenda hjá OR og REI. Það er auðvitað stóralvarlegt mál að borgarfulltrúar séu ekki upplýstir um hvað sé að gerast í fyrirtæki sem er rekið af borginni sjálfri. Það virðist vera sem að þarna hafi sama verklag og var í valdatíð Alfreðs Þorsteinssonar haldið áfram undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, hlutirnir voru illa kynntir meira að segja fyrir borgarfulltrúum meirihlutans og minnihlutinn var í kuldanum. Þetta er afleitt verkalg.
Staða Vilhjálms er stórt spurningamerki. Ég er sammála mati Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðings, þess efnis að borgarstjórinn sjálfur er stórlega skaddaður. Staða hans sem leiðtoga hefur gufað að verulega miklu leyti upp. Eftir tólf ára minnihlutasetu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn er með ólíkindum hversu illa borgarstjórinn hefur staðið sig æ ofan í æ. Tel blasa við að hann muni ekki leiða flokkinn í gegnum næstu kosningar, honum skortir allan kjarnastuðning til þess. Hann hefur misst stuðning og traust samherja sinna, þó einhver sátt að nafninu til hafi náðst. Eftir eru brestir sem erfitt er að sparsla í, nema þá bara fyrsta kastið á eftir.
Ég sé að margir líkja vandræðum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og veikri stöðu við það sem blasti við Þórólfi Árnasyni fyrir þrem árum, er hann sagði af sér embætti borgarstjóra. Það er fjarstæðukennt að líkja þessum tveim mönnum saman. Annar hefur pólitískt umboð úr prófkjöri og hefur verið borgarfulltrúi í hálfan þriðja áratug (var ennfremur formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í nafni Sjálfstæðisflokksins í 16 ár) - hinn var embættismaður ráðinn á örlagastundu af átta borgarfulltrúum þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð að hrökklast frá vegna svika á loforðum við samherja sína. Þórólfur hafði kusk á hvítflibbanum úr fortíðinni, ótengt borgarmálunum.
Þetta eru tvö óskyld mál að mínu mati. En samt vissulega eru þetta tveir menn í vanda staddir. Sé ekkert annað líkt með vanda þessara manna. Vilhjálmur Þ. hefur farið mjög illa að ráði sínu. Alvarlegast var trúnaðarbrestur við samherja sína. Hvað svo sem öðru líður er bakland hans mjög skaddað. Fólk hefur einfaldlega ekki trú á honum lengur og að því mun koma fyrr en síðar að hann verði að víkja. Sé ekki að hann sé líklegur til að fara í gegnum aðrar kosningar. Kannski tórir hann eitthvað áfram, vel má vera. Einhver sátt hefur náðst á milli fólks, líklegt er þó að það sé sátt um að halda eitthvað áfram að óbreyttu.
Staða meirihlutans er að ráðast þessa stundina á fundi í Ráðhúsinu. Meirihlutinn þarf að vinna úr sínum málum fyrir borgarstjórnarfund kl. 16:00. Það verður hitafundur. Erfitt að spá um hvað sé að fara að gerast. Sé ekki betur en að óvissan yfir Ráðhúsinu sé algjör. Það eru spennandi tímar sannarlega framundan.
![]() |
Vissi um kauprétt starfsmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2007 | 00:06
Hver er að segja ósatt í REI-málinu?

Þetta mál snýst orðið um trúverðugleika borgarstjórans. Þessir tveir lykilmenn málsins tala í tvær áttir. Annar er að ljúga og hinn er að segja satt. Sé það rétt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sé að segja borgarbúum og öllum aðilum málsins opinberlega ósatt í þessu máli á hann að hafa vit á því að segja af sér embætti og víkja úr borgarmálunum og rýma til fyrir nýju upphafi í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Svo alvarlegt er málið. Sé Guðmundur að segja ósatt er honum ekki sætt lengur. Með öðrum orðum, það getur ekki gengið að þessir tveir menn sitji báðir á sínum stólum eftir svo alvarlegan krossgötumálflutning.
Ég taldi í gær það mögulega geta gerst að hægt væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda áfram eftir sættir milli borgarfulltrúa. Ég er farinn að efast um að það sé hægt. Tel að þetta mál sé orðið stærra en við blasti. Þetta snýst fyrst og fremst um trúverðugleika. Ofan á allt annað er með ólíkindum að heyra af því í Kastljósi í kvöld að tölurnar í kaupréttarsamningunum hafi upphaflega verið enn hærri en raun ber vitni. Þetta mál ber sterkan keim pólitískrar spillingar að mínu mati og er engum hlutaðeigandi til sóma, síst af öllum borgarstjóranum í Reykjavík og formanni borgarráðs.
Staða þeirra er orðin veik og ég get ekki betur séð en að staða þeirra innan eigin flokkskjarna hafi veikst umtalsvert. Vilhjálmur var sem eyland áður en viss sátt náðist. Það er vandséð að sú sátt haldi. Borgarbúum er skiljanlega nóg boðið. Það er ekki óeðlilegt að kallað sé eftir pólitískri ábyrgð þeirra sem leiddu málið. Staða mála er eldfim.
Á morgun verður athyglisverður fundur í borgarstjórn. Það verður hitafundur án nokkurs vafa. Þessu máli er fjarri lokið og áhugavert að sjá hvað tekur næst við. Þetta er eins og spennusaga sem enn sér ekki fyrir endann á, hver kafli er spennandi og kallar á að sagan haldi áfram. Það er enn enginn endir kominn á málið.
![]() |
Vilhjálmur segist ekki hafa séð lista yfir kaupréttarhafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2007 | 22:38
Dorrit og Baugsmiðlarnir takast á af mikilli hörku

Þetta vakti nokkra athygli mína í dag, enda hefur DV löngum verið blað sem hefur horft með virðingu og aðdáun til alls þess sem frá Ólafi Ragnari Grímssyni hefur komið, fyrir og eftir fjölmiðlamálið margfræga. Dorrit (eða forsetaembættið sem slíkt með sérfræðinginn og eða forsetaritarann Örnólf Thorsson í broddi fylkingar) beið ekki lengi boðanna og svaraði fyrir sig í beittri yfirlýsingu þar sem segir í nafni Dorritar að fréttin hafi verið röng og særandi fyrir hjónin á Bessastöðum, svona sérstaklega á miðju ferðalagi um heimsins höf. Sú yfirlýsing er mjög hvöss og greinilegt að andar köldu milli aðila eftir þessa frétt.
Flestir muna væntanlega eftir fjölmiðlamálinu, sem fyrr er nefnt. Á örlagastundu fyrir þrem árum í því harki öllu birtust í DV ítarlegar fréttir af því að forsetinn, sem staddur var í Mexíkó og átti að lokinni heimsókn sinni þangað að fara í brúðkaup Friðriks, krónprins Danmerkur, ætti að halda þegar í stað heim og minna á stöðu sína og taka afstöðu með því að sýna nærveru sína meðan á þingumræðunni stæði. Það tók afstöðu með forsetanum og því að hann kæmi heim og sýndi hver réði nú eiginlega, hvort þetta væri bara valdalaus fígúra eður ei. Ólafur beið ekki boðanna og hélt heim á leið undir hvatningarorðum DV.
Flaug hann í 14 tíma frá Mexíkó til Parísar og loks til Keflavíkur. Enginn vafi lék á því að hann vildi með þessu minna á bæði sig og sína nærveru meðan þingið væri að vinna að málinu. Kom forseti heim í kastljósi fjölmiðla og varð heimkoma hans aðalfréttaefni fjölmiðla. Greinilegt var að fréttamönnum hafði verið tilkynnt beint um heimkomu forsetans, þegar fréttamenn fengu upplýsingar um að forsetinn væri farinn úr Leifsstöð, eltu þeir forsetabílinn til Bessastaða í von um að fá viðtal þar. Þegar nálgaðist Bessastaði vék forsetabíllinn út í kant, í þeim tilgangi einum að fréttamennirnir kæmust á undan til Bessastaða.
En þetta er önnur saga. Það eru aðrir andar sem eru sýnilegir nú. Nú lætur DV í sér heyra og þorir að hjóla í forsetann. Það eru breyttir tímar. Er þetta ástæðan fyrir því að forsetinn var svona fúll í kvöldfréttunum? Hann var rauður af reiði og sendi skot í allar áttir. Það er kannski varla furða að karlgreyið verði argur þegar að þeir fjölmiðlar sem þó hafa varið hann út í eitt snúa við blaðinu og láta í sér heyra. Það er greinilegt að menn eru ekkert hræddir lengur við að vaða í Ólaf, ekki einu sinni þeir sem helst hafa horft til hans af virðingu.
![]() |
Dorrit segir frétt DV móðgandi og særandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2007 | 21:15
Munu sárin á milli borgarfulltrúanna gróa?
Stóra spurningin í borgarmálunum nú er hvort og þá hversu hratt sárin á milli borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins muni gróa eftir átök síðustu daga í REI-málinu. Sættirnar lægja öldur en greinilegt er að átökin voru mjög djúpstæð miðað við þann orðróm að vilji hafi verið fyrir myndun nýs meirihluta, t.d. með VG. Niðurstaðan er samt sem áður augljóst merki um að borgarfulltrúarnir ætli að vinna sig frá átökunum.
Það er greinilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur orðið undir í málinu og hann virkaði eins og barinn hundur á milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Gísla Marteins Baldurssonar á blaðamannafundi í dag. Það verður erfitt fyrir hann að halda áfram fyrstu skrefin eftir þessi sýnilegu átök. Stærstu átökin innan Sjálfstæðisflokksins voru um hugmyndafræðina á bakvið útrásina í orkugeiranum og upplýsingaskort til almennra borgarfulltrúa. Virðist hafa verið gengið að þeim kröfum borgarfulltrúanna að taka á því með sölu á hlut borgarinnar í REI og því að borgarfulltrúi verði stjórnarformaður.
Hart var sótt að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni vissulega. Hann á að baki langan feril í stjórnmálum en var rúinn trausti meðal hópsins. Hann hefur veikst umtalsvert í REI-málinu og vandséð hvernig að hann verði aftur sterkur leiðtogi alls hópsins eftir þær sögusagnir og fréttir sem borist hafa um átök milli Vilhjálms við alla hina borgarfulltrúana. Hann var orðinn eyland í málinu og beygir sig undir vilja hinna. Það verður erfitt fyrir hópinn að halda áfram eins og ekkert hafi gerst. Þetta mál hefur viss áhrif og áhugavert að sjá hvernig að þeim gangi að halda samstarfi sínu áfram og ekki síður hvort borgarstjóri hafi styrk til að halda áfram.
Eitt atriði dagsins sem vakti mesta athygli mína voru ummæli Gísla Marteins Baldurssonar þess efnis að málefni REI hefðu aldrei verið rædd í borgarstjórnarflokknum áður en þau voru samþykkt innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Þau hafi fyrst heyrt af stofnun fyrirtækisins í fjölmiðlum. Þetta er mikil frétt ein og sér. Eins og flestir vita sátu þá af hálfu Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, og Haukur Leósson. Hvorugur var borgarfulltrúi. Gremja sitjandi borgarfulltrúa yfir þessu máli verður sífellt skiljanlegri. Þau voru utan allrar beinnar ákvarðanatöku.
Þó að þessu máli virðist lokið og öldur hafi lægt milli aðila verður fylgst með stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar áfram, enda hefur hann veikst það mjög að vandséð verður hvort hann leiði flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum og hafi áfram þann kjarnastuðning sem þarf til að leiða hópinn til verka. Hann hefur misst mikið traust en nú reynir á styrk hans eftir þetta mál. Þó að allt hafi virst slétt og fellt á yfirborðinu á þessum blaðamannafundi skilur þetta mál eftir mikil sár og áhugavert að sjá hvernig gangi að láta þau gróa.
![]() |
Sátt meðal sjálfstæðismanna þrátt fyrir trúnaðarbrest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2007 | 16:09
Borgarfulltrúar sættast - farsæl niðurstaða

Það er auðvitað sérstaklega gott mál að borgin muni selja hlut sinn í REI. Þetta er sterk vísbending í þá átt að svona verklag eins og stefndi í með REI sé ekki liðið innan Sjálfstæðisflokksins og greinilegt að borgarfulltrúarnir hafi náð sínu fram um að svona verði ekki staðið að verkum. Það var nógu ömurlegt að fylgjast með verklaginu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í valdatíð Alfreðs Þorsteinssonar þó að sjálfstæðismenn fari ekki að apa þá vitleysu eftir alveg hráa. Þetta var mikilvægasti þáttur málsins. Í gær kallaði ég eftir sölu og ég fann ekki betur en að fjölmargir sjálfstæðismenn um allt land væru sama sinnis.
Það voru efasemdir um það í dag hvort að borgarstjórinn myndi fórna Hauki Leóssyni sem stjórnarformanni. Hann stóð varla frammi fyrir öðrum kosti betri en að gera það tel ég. Þetta er farsæl lending og það er auðvitað eðlilegt að snúið verði af leið þess sem gert hefur verið í Orkuveitunni og vonandi verður þetta fyrsta skrefið á þeirri leið. Mikil ólga var á bakvið tjöldin innan Sjálfstæðisflokksins í upphafi kjörtímabilsins við val á stjórnarmönnum í OR. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir var sett úr stjórnarsæti eins og flestir muna og í staðinn settir tveir menn til formennsku sem voru utan borgarstjórnar. Það er gott að tekið verði á því.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur brugðist við þeim vanda sem uppi var. Vonandi hefur hann lært eitthvað á þessu klúðri sínu síðustu dagana og vonandi geta sjálfstæðismenn í Reykjavík horft framhjá þessum átökum og leiðindum og haldið áfram sínum verkum. Það má þó búast við að sá orðrómur verði lífseigur úr þessu að borgarstjórinn sé orðinn einangraður. Þetta mál hefur verið vont fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mestu skiptir þó að því sé lokið með farsælum hætti. Framhald mála verður svo að ráðast í kjölfarið.
![]() |
Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2007 | 12:37
Vilhjálmur Þ. bregst trausti samherja sinna

Það verður freistandi fyrir stjórnmálaskýrendur að átta sig á því hvað fór úrskeiðis hjá Vilhjálmi Þ. Eftir áralanga setu í borgarstjórn, reynslu af bæði meiri- og minnihlutasetu og sextán ára starf sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga átti maður varla von á því að hann myndi vinna með þeim hætti sem raunin hefur orðið. Það er stóralvarlegt mál að hann hafi unnið á bakvið samherja sína í Sjálfstæðisflokknum að því sem gert var í REI og þessi uppljóstrun um að fyrst hafi borgarfulltrúarnir heyrt af þessu með kynningu á glærushowi segir ansi margt um það hvernig unnið var.
Það er alveg ljóst að staða Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem borgarstjóra hefur veikst umtalsvert. Hann er stórlega skaddað flak á eftir að mínu mati. Vandséð er að hann leiði flokkinn í gegnum aðrar kosningar og hann ætti sjálfs síns vegna að hugleiða sín skref vel. Hann er sem eyland í hópnum eftir afspyrnuslaka frammistöðu sína. En líklegra er að einhverra sátta verði leitað til að vinna sig úr þessum ágreiningi og átökum. Ég tel þó að blasi við að Vilhjálmur hefur á mjög skömmum tíma misst styrkleika sinn og hann er mjög veikur á valdastóli á eftir.
Þetta mál er skólabókardæmi um það hvernig leiðtogar eigi ekki að vinna. Kannski er stærsta vandamálið í þessu máli að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hagaði sér eins og þeir sem hann steypti af stóli og tók upp verklag sem sjálfstæðismenn sjálfir höfðu gagnrýnt svo mjög. Það er afleitt. Mér finnst Vilhjálmur Þ. hafa farið illa með tækifæri sín, enda náði hann stórum prófkjörssigri og var um margt með pálmann í höndunum. Hann hefur klúðrað sínu stórt og á að gjalda þess með einum hætti eða öðrum.
![]() |
Átti að vaða yfir okkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2007 | 01:12
Er Þorsteinn Pálsson að fara í forsetaframboð?

Hverjum hefði annars órað fyrir því fyrir tveim áratugum þegar að Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson hentu Þorsteini út úr forsætisráðuneytinu með kostulegum hætti (í beinni sjónvarpsútsendingu) og hann tapaði formannsembættinu í Sjálfstæðisflokknum til Davíðs Oddssonar með eftirminnilegum hætti að hann yrði einskonar grand old man í stjórnmálapælingum. Mér fannst hann líta þannig út að eitthvað væri í spilunum. Þorsteinn talar um málin með úthugsuðum og fræðilegum hætti og einhvernveginn er maður sem ég held að flestir gætu náð að treysta þrátt fyrir allt.
Það voru margir undrandi þegar að Þorsteinn varð ritstjóri Fréttablaðsins, flaggskips Baugsmiðlanna hjá 365-prentmiðlum. Þorsteinn hafði þá fyrir stuttu lokið störfum í utanríkisþjónustunni en hann var á sex árum sínum sem sendiherra starfandi sem slíkur í London og Kaupmannahöfn. Í þau verkefni fór hann að stjórnmálaferlinum loknum en hann var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi 1983-1999, forsætisráðherra 1987-1988 og formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991. Hann gegndi á þeim ferli sínum fjölda ráðherraembætta auk forsætisráðherraembættis, en hann var fjármálaráðherra 1985-1987, iðnaðarráðherra 1987 og sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra 1991-1999.
Þorsteinn var ekki nema 52 ára gamall er hann vék af hinu pólitíska sviði og hélt út til sendiherrastarfa. Hann var aðeins 58 ára er hann hætti þeim störfum og margir veltu þá vöngum yfir því hvað tæki þá við, enda bjuggust fáir við að hann myndi setjast með hendur í skaut með mörg herrans ár enn eftir af virkum starfsárum. Lengi var spáð í það hvort að hann yrði ritstjóri Morgunblaðsins og væri ætlað að taka við blaðinu er Styrmir Gunnarsson myndi fara á eftirlaun. Svo fór þó ekki og niðurstaðan sú að hann settist að við Skaftahlíð og tók við Fréttablaðinu. Það var útspil sem fáir hefðu séð fyrir.
Mér hefur vissulega fundist fróðlegt að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála.
Enn er ekki vitað hvað gerist með Ólaf Ragnar en Þorsteinn sýndi á sér allan brag þess í viðtalinu við Egil að hann hefði áhuga á Bessastöðum. Hann einfaldlega lúkkaði þannig hreint út sagt.
7.10.2007 | 20:21
Borgin á að selja - hvað verður um Vilhjálm?

Vilhjálmur hefur beðið mikinn hnekki í REI-málinu og ætti alvarlega að íhuga afsögn að mínu mati, enda rúinn öllu trausti. Mér finnst satt best að segja enginn munur vera á verklagi Vilhjálms innan Orkuveitunnar og þess sem einkenndi verk Alfreðs Þorsteinssonar þar árum saman. Ég gagnrýndi harkalega verk Alfreðs og dettur ekki í hug að bera blak af gamla "góða" Villa, enda er hann að gera nákvæmlega sömu hlutina finnst mér. Þetta er auðvitað afleitt með öllu og ég get ekki séð að Vilhjálmur geti risið úr þessu máli sem sterkur leiðtogi. Þetta er dropinn sem fyllir mælinn. Nógu slæmt var bjór- og vínkælismálið nýlega.
Það er mikið talað um kaupréttarsamningana og gert mikið úr því. Það er auðvitað gleðiefni að tekið hafi verið á því að hluta, en eftir stendur að ekki hefur verið gengið nógu langt. Enn er talað um kaup Bjarna Ármannssonar og Jóns Diðriks Jónssonar á hlutum í félaginu. Ég er sammála skrifum Bjarna Harðarsonar, alþingismanns, í dag hvað það varðar að stjórn REI gekk góð skref en ekki nægjanlega góð til að ljúka þessum þætti málsins. En ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst þetta fjarri því aðalatriði þessa stóra og vonda máls fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík.
Lykilpunktur málsins er auðvitað að borgin átti aldrei undir pólitískri forystu Sjálfstæðisflokksins að setja fé í þennan rekstur. Í mínum augum er þetta hugmyndafræðilegt mál í aðalatriðum. Þar reynir á hvernig Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík stendur í málinu. Borgin á að selja sinn hlut sem fyrst. Annað kemur ekki til greina. Það verður að binda enda á þetta mál sem fyrst með trúverðugum hætti. Ella get ég ekki séð annað en að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sé orðin framlengingarsnúra á verklag Alfreðs Þorsteinssonar í fortíðinni.
Hvað varðar pólitíska stöðu borgarstjórans verður hún auðvitað að ráðast. En það þarf ekki skarpan stjórnmálaskýranda til að sjá að hann hefur veikst mjög og er rúinn trausti innan hópsins vegna verklags síns. Það verður áhugavert að sjá hver örlög hans verða, hvort honum takist að vinna sig úr þessu klúðri sínu.
![]() |
Þorgerður Katrín: Of geyst farið í samruna GGE og REI |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2007 | 14:40
Gordon Brown missir kjarkinn á örlagastundu

Það blasir við öllum að nánustu samherjar forsætisráðherrans voru að undirbúa kosningar á næstu vikum og strategían var komin á fullt á bakvið tjöldin. Stóra ástæða þess að Brown hættir við allt saman á elleftu stundu er að David Cameron og Íhaldsflokknum tókst að komast vel frá flokksþinginu í Blackpool og náði að byggja upp stemmningu í kringum sig. Það sýna nýjustu kannanir. Annaðhvort eru flokkarnir á pari eða að Íhaldsflokkurinn mælist ívið stærri. Í lykilkjördæmum eru íhaldsmenn að ná nokkru forskoti og þegar að við bætist að íhaldsmenn eru líklegri til að kjósa er skiljanlegt að Brown hafi ekki þorað í slaginn.
Eftir allt sem á undan er gengið lítur mjög illa út fyrir Gordon Brown að hopa af velli. Hann hafði upplifað 100 sæludaga í Downingstræti og hafði á sér ímynd hins ósigrandi keisara í bardaganum yfirvofandi. Á nokkrum dögum hefur forsætisráðherranum og ráðgjöfum hans tekist að snúa taflinu við og klúðra þeirri ímynd með mjög áberandi hætti. Eftir stendur beygður forsætisráðherra sem þorði ekki að fara til þjóðarinnar og biðja um endurnýjað umboð. Það er eðlilegt að horft hafi verið til kosninga. Forsætisráðherrann Tony Blair sem bað um endurnýjað umboð til starfa árið 2005 gat ekki staðið við loforðið um að sitja tímabilið á enda og var sparkað út af Brown og lykilmönnum hans. Brown tekur við embættinu út á umboð Blairs.
Það var líka vandræðalegt hvernig að Brown tilkynnti endalok kosningadaðursins sem stóð of lengi. Hann bauð einum fréttamanni BBC til viðtals sem átti að birtast á sunnudegi. Fréttir af því láku út og íhaldsmenn náðu að komast á snoðir um hvað væri að gerast og skúbbuðu fréttinni miklu. BBC ákvað við svo búið að birta fréttina og allt lak út á laugardeginum, rúmum tólf tímum áður en viðtalið var sýnt í heild sinni. Um leið og BBC birti klippuna með yfirlýsingu forsætisráðherrans var David Cameron kominn í alla fjölmiðla og svaraði lið fyrir lið vandræðagangi Gordons Browns. Hann fékk því sviðsljósið svo um munaði.
Það er skiljanlegt að ólga sé innan Verkamannaflokksins. Þetta er ævintýralegt klúður fyrir forsætisráðherrann eftir draumabyrjun, þetta er heimatilbúið klúður nánustu fylgismanna Gordons Browns - hópsins sem hann valdi til að byggja undir sig sem sterkan leiðtoga sem gæti fært Verkamannaflokknum fjórða kjörtímabilið með kraftmiklum hætti. Strategían mikla sprakk framan í Gordon Brown. Vandræðagangur einkennir þessa ákvörðun og andstæðingarnir standa eftir sem sigurvegarar helgarinnar. Það eru þungir þankar í Downingstræti.
100 dögum eftir brotthvarf Tony Blair af hinu pólitíska sviði lítur eftirmaður hans út sem kjarklaus klúðrari örskömmu eftir að hann var með pálmann í höndunum. Hversu harkalegt áfall fyrir Gordon Brown verður þetta misheppnaða kosningadaður metið og hversu lengi mun skuggi þess elta hann? Það er stóra spurning helgarinnar. Eftir stendur leiðtogi sem hefur á nokkrum sólarhringum séð unnið tafl snúast gegn sér.
![]() |
Brown sakaður um að koma fram við Breta eins og bjána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |