Dagar Guðmundar hjá Orkuveitunni taldir?

REI-félagarnir Það er ekki hægt að ímynda sér annað en að dagar Guðmundar Þóroddssonar í forystusveit hjá Orkuveitu Reykjavíkur séu taldir eftir augljós átök á milli hans og borgarstjórans í Reykjavík í fjölmiðlum. Deilt er um trúverðugleika fyrst og fremst. Það er öllum ljóst að það er ekki pláss fyrir báða þessa menn eftir það sem á undan er gengið. Greinilegt er að kallað er eftir því meðal sjálfstæðismanna að Guðmundur víki.

Það er einfaldlega mjög ósennilegt að Guðmundur hafi traust áfram. Það er greinilegt á orðum Gísla Marteins Baldurssonar í garð Guðmundar að kergja er meðal borgarfulltrúa til lykilstjórnenda hjá OR og REI. Það er auðvitað stóralvarlegt mál að borgarfulltrúar séu ekki upplýstir um hvað sé að gerast í fyrirtæki sem er rekið af borginni sjálfri. Það virðist vera sem að þarna hafi sama verklag og var í valdatíð Alfreðs Þorsteinssonar haldið áfram undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, hlutirnir voru illa kynntir meira að segja fyrir borgarfulltrúum meirihlutans og minnihlutinn var í kuldanum. Þetta er afleitt verkalg.

Staða Vilhjálms er stórt spurningamerki. Ég er sammála mati Stefaníu Óskarsdóttur, stjórnmálafræðings, þess efnis að borgarstjórinn sjálfur er stórlega skaddaður. Staða hans sem leiðtoga hefur gufað að verulega miklu leyti upp. Eftir tólf ára minnihlutasetu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn er með ólíkindum hversu illa borgarstjórinn hefur staðið sig æ ofan í æ. Tel blasa við að hann muni ekki leiða flokkinn í gegnum næstu kosningar, honum skortir allan kjarnastuðning til þess. Hann hefur misst stuðning og traust samherja sinna, þó einhver sátt að nafninu til hafi náðst. Eftir eru brestir sem erfitt er að sparsla í, nema þá bara fyrsta kastið á eftir.

Ég sé að margir líkja vandræðum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og veikri stöðu við það sem blasti við Þórólfi Árnasyni fyrir þrem árum, er hann sagði af sér embætti borgarstjóra. Það er fjarstæðukennt að líkja þessum tveim mönnum saman. Annar hefur pólitískt umboð úr prófkjöri og hefur verið borgarfulltrúi í hálfan þriðja áratug (var ennfremur formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í nafni Sjálfstæðisflokksins í 16 ár) - hinn var embættismaður ráðinn á örlagastundu af átta borgarfulltrúum þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð að hrökklast frá vegna svika á loforðum við samherja sína. Þórólfur hafði kusk á hvítflibbanum úr fortíðinni, ótengt borgarmálunum.

Þetta eru tvö óskyld mál að mínu mati. En samt vissulega eru þetta tveir menn í vanda staddir. Sé ekkert annað líkt með vanda þessara manna. Vilhjálmur Þ. hefur farið mjög illa að ráði sínu. Alvarlegast var trúnaðarbrestur við samherja sína. Hvað svo sem öðru líður er bakland hans mjög skaddað. Fólk hefur einfaldlega ekki trú á honum lengur og að því mun koma fyrr en síðar að hann verði að víkja. Sé ekki að hann sé líklegur til að fara í gegnum aðrar kosningar. Kannski tórir hann eitthvað áfram, vel má vera. Einhver sátt hefur náðst á milli fólks, líklegt er þó að það sé sátt um að halda eitthvað áfram að óbreyttu.

Staða meirihlutans er að ráðast þessa stundina á fundi í Ráðhúsinu. Meirihlutinn þarf að vinna úr sínum málum fyrir borgarstjórnarfund kl. 16:00. Það verður hitafundur. Erfitt að spá um hvað sé að fara að gerast. Sé ekki betur en að óvissan yfir Ráðhúsinu sé algjör. Það eru spennandi tímar sannarlega framundan.

mbl.is Vissi um kauprétt starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórbergur Torfason

Stefán, mikið klæjar mig í fingurna að fá að semja um starfslok þeirra beggja, Vilhjálms gamla og () og Guðmundar Þóroddssonar.

Þórbergur Torfason, 10.10.2007 kl. 15:05

2 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Beggi ekki gleyma Framaranum honum Björn Inga ekki get ég séð að staða hans sé neitt betri.

Hallgrímur Guðmundsson, 10.10.2007 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband