Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ólafur Ragnar flýgur um heiminn í boði auðmanna

Ólafur Ragnar Það virðist vera orðin hefð hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að fljúga um heiminn í boði auðmanna ef hann þarf að ferðast vegna embættiserinda, ef marka má nýjustu fréttir. Það er stutt síðan að Eyjan birti fréttir um að hann hefði flogið til Englands í boði Eimskip og nú fer hann til Kína í boði Glitnis. Þetta hlýtur að leiða til umræðu um það hvort að forseti Íslands sé eins og umrenningur að dóla um heiminn í embættiserindum sínum og þurfi hjálp hinna ríku til að komast um.

Mér finnst þetta ekki eðlileg þróun og finnst þetta til skammar fyrir forsetaembættið. Ef forsetinn getur ekki ferðast í almennu millilandaflugi á hann að óska eftir því að ríkisstjórnin kaupi einkaflugvél handa honum til að geta sinnt sínum verkum. Það er mun skárra heldur en að vera að fylgja eftir hinum ríku með þessum hætti. Það er reyndar mjög kaldhæðnislegt að fyrrum formaður Alþýðubandalagsins ferðist með þessum hætti og er dæmi um það hvernig tímarnir eru sífellt að breytast.

Það eru vissulega nýjir tímar víða, en það er samt sem áður einum of að forsetinn sé að snapa sér far með auðmönnum til að geta mætt á fundi með þjóðhöfðingjum og eða sinnt öðrum mikilvægum verkum. Þetta er ný sýn á veruleikann sem blasir þarna við og eðlilegt að við spyrjum okkur að því á hvaða leið þessi forseti er að fara með embættið.

mbl.is Ólafur Ragnar flaug til Kína í boði Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Guðni gera upp við Halldór í ævisögu sinni?

Halldór og Guðni Það eru fleiri að rita ævisögu sína þessa dagana en Ólafur Ragnar Grímsson. Brátt mun ævisaga Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, koma út. Guðni hefur verið í stjórnmálum mjög lengi og hefur vissulega litríka sögu að segja eftir tvo áratugi á þingi, tæpan áratug í ríkisstjórn, sex ár sem varaformaður Framsóknarflokksins og nokkra mánuði í forystu flokks á krossgötum.

Áhugaverðast verður, að mínu mati, að lesa þar um love/hate-samband Guðna og Halldórs Ásgrímssonar innan Framsóknarflokksins árum saman. Fyrir nokkrum mánuðum gerði Guðni það upp í DV með flennifyrirsögninni: "Halldór vildi mig ekki". Gremja Guðna yfir atburðarásinni sumarið 2006 þar sem greinilega var reynt að koma í veg fyrir að Guðni tæki við flokknum af Halldóri Ásgrímssyni situr enn þungt í honum samkvæmt því og varla verður ævisaga þessa manns rituð án þess að þar verði talað tæpitungulaust um Halldór, sem var formaður Framsóknarflokksins í tólf ár.

Orðrétt sagði Guðni í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson um samskiptin við Halldór í Fréttablaðinu í maí 2007 (þar sem vikið er að pólitískum endalokum Halldórs): "Halldór taldi mig ekki þann réttborna arftaka sem Framsóknarflokkurinn ætti að fá. Ég veit ekki hvers vegna það var, hvort hann treysti mér ekki fyrir flokknum eða hvort andstaða mín við þessa Evrópusambandshugsun hans réði því." Ískuldi var orðinn í samskiptum Halldórs og Guðna er þarna var komið sögu og ekki var hægt að leyna innri átökum þeirra.

Guðni hefur jafnan talað tæpitungulaust í stjórnmálum og verið maður margra hnyttinna orða. Það hvernig Guðni gerir upp við Halldórsarminn, sem ætlaði að gera hann upp pólitískt sumarið 2006 með Halldóri verður áhugavert að lesa um í ævisögunni fyrir jólin. Það er eflaust enn litríkari saga í heild en þær slitrur sem við höfum heyrt til þessa.

mbl.is Ævisaga Guðna Ágústssonar gefin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alfreð kemur Vilhjálmi til varnar á erfiðum tímum

Alfreð Þorsteinsson Það vekur athygli að eini maðurinn sem virkilega leggur sig fram um að verja Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson vegna REI-málsins er Alfreð Þorsteinsson, fyrrum stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Það getur varla talist gott fyrir gamla "góða" Villa að hafa þann stuðning einan fram að færa. Júlíus Vífill Ingvarsson kom reyndar einmana í fjölmiðla í gær sem borgarfulltrúiNN er vildi verja að einhverju leyti verklag borgarstjórans. Aðspurður um af hverju hinir borgarfulltrúarnir vildu ekki tjá sig sagði Júlíus Vífill vandræðalega vonast eftir að þeir færu að gera það.

Ég held að það sé óhætt að segja að Vilhjálmur sleiki harðan botninn í borgarmálunum þegar að eini maðurinn sem fer í fjölmiðla og leggur honum lið sé Alfreð Þorsteinsson, sem í tólf ár vann með umdeildum hætti innan OR. Mér finnst þetta REI-mál vera risarækjuskandall í sparifötunum og er því ekki hissa þó að Alfreð sé einn manna mættur til varnar. Ég sé að Björn Bjarnason hugleiðir sitt vegna ummæla Alfreðs í Kastljósinu í gær. Það er eðlilegt.

Eftir allt sem gekk á í valdatíð R-listans er afleitt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík taki upp sama verklag, t.d. innan Orkuveitunnar. Það voru að ég tel mikil pólitísk mistök að borgarfulltrúi var ekki settur yfir Orkuveituna og svo er stórundarlegt að borgarstjórinn sjálfur sitji þarna inni. Það að kjörnir fulltrúar séu ekki hafðir með í ráðum er alvarlegt mál. Þetta mál allt er afleitt og ég finn það víða að fólk hefur fengið nóg af verklagi Vilhjálms.

Gordon Brown þorir ekki að boða til kosninga

Gordon BrownEftir margra vikna daður við möguleikann um kosningar fyrir jól blasir nú við að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þorir ekki að leggja í slaginn og boða til þeirra. Kannanir voru Brown góðar og stefndi flest í að hann léti vaða, enda var forysta Verkamannaflokksins allt upp í tíu til ellefu prósentustig þegar að mest var. En það má segja að hann hafi daðrað við þennan möguleika of lengi og ákvörðun um að hætta við mun veikja forsætisráðherrann, allavega fyrsta kastið á eftir.

100 dagar voru í vikunni liðnir frá því að Gordon Brown varð forsætisráðherra, eftir þrettán ára bið eftir völdunum. Tony Blair var orðinn rúinn trausti meðal flokksmanna og almennings og Brown kom sterkur til leiks. Flokkurinn náði aftur góðum mælingum í skoðanakönnunum. En hveitibrauðsdagar forsætisráðherrans eru liðnir og komið að alvöru leiksins. Íhaldsmenn, sem leitt höfðu kannanir mánuðum saman, misstu forystuna til forsætisráðherrans nýja og fóru til flokksþings í Blackpool með kosningar yfirvofandi og þurftu nauðsynlega að ná athyglinni með áberandi hætti.

David Cameron, sem kom sem riddarinn á hvíta hestinum fyrir tveim árum í forystu íhaldsmanna, hafði misst aðeins fótanna í niðursveiflunni sem blasti við eftir að Brown varð forsætisráðherra. Hann þurfti að gera allt sitt besta til að snúa taflinu við, snúa vörn í sókn. Cameron tók mikla áhættu á flokksþinginu - ákvað að ávarpa þingið blaðalaust og án þess að hafa punkta meðferðis. Hann flutti klukkustundarlanga ræðu frá hjartanu um málefni samtímans, framtíðina og þau málefni sem mestu skipta í aðdraganda kosninga. Þetta var gríðarlega áhætta en reyndist vera það sem hann þurfti á að halda.

Ræðan var vel heppnuð. Cameron lék eftir það sem hann gerði í sama sal fyrir tveim árum er hann talaði sig upp sem leiðtogaefni í flokknum. Hann barðist um leiðtogahlutverkið eftir Michael Howard við reynda flokkshesta. Flestir töldu á þeim tímapunkti David Davis nær öruggan um leiðtogastólinn. Svo fór að Cameron varð maður nýrra tíma, kom með eitthvað ferskt í umræðuna og hann varð alvöru keppinautur Davis. Er yfir lauk í baráttu þeirra hlaut Cameron 2/3 greiddra atkvæða og það sem flestir kalla krýningu þó einvígi sé. Síðan hefur hann upplifað hæðir og lægðir á leiðtogaferlinum og þurfti á sterkri endurkomu að halda. Það tókst honum í Blackpool.

Fyrir nokkrum dögum blöstu kosningar við þann 1. nóvember. Brown var innst inni búinn að ákveða að taka áhættuna, ætlaði að láta vaða. Hann vissi að það var áhætta. Tap í kosningunum hefði þýtt að hann væri sá maður sem skemmst hefði setið á forsætisráðherrastóli Bretlands, sigur myndi færa honum fimm ár, nýtt umboð fyrir nýja tíma undir hans leiðsögn. En íhaldsmönnum tókst það sem þeir ætluðu sér að gera í Blackpool. Cameron náði eyrum fólks, talaði af krafti og vindarnir hafa snúist aftur. Kannanir hafa sýnt að annaðhvort eru flokkarnir jafnir eða Verkamannaflokkurinn hefur naumt forskot.

Það er of naumt til að Gordon Brown taki áhættuna. Það er rétt sem William Hague sagði á flokksþingi íhaldsmanna að Brown er calculation-stjórnmálamaður en ekki hugsjónastjórnmálamaður. Hann veit að áhættan er mikil, niðurstaðan gæti orðið sigur íhaldsmanna í kosningunum sem hann ætlaði að boða til (kannanir sýna að hægrimenn eru líklegri nú en vinstrimenn að fara á kjörstað t.d.) eða að meirihluti kratanna gæti minnkað. Það er á of mikið að tefla, sérstaklega í ljósi þess að hann getur setið í tæp þrjú ár án þess að boða til kosninga.

Niðurstaðan er því að Gordon Brown hopar. Það er vandræðalegt eftir allt sem sagt hefur verið. Enda var vinnan hafin á fullu innan Verkamannaflokksins við kosningastarfið og strategían var komin á fullt. Það sást vel af ferð Browns til Íraks á meðan að flokksþingi íhaldsmanna stóð og tilkynningu um fækkun hermanna í landinu. Væntanlega brosa íhaldsmenn breitt í dag yfir því að hafa tekist að setja Gordon Brown út af laginu og lagt áætlanir hans í rúst.


mbl.is Brown sagður útiloka kosningar í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hriktir í stoðum sjálfstæðismanna í Reykjavík

Gísli Marteinn, Hanna Birna og Vilhjálmur Þ. Það segir allt sem segja þarf um ástandið milli aðila innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að borgarfulltrúar sitji fundi vegna REI-málsins með Geir H. Haarde og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en það gerðist í morgun samkvæmt fréttum. Þetta kemur sannarlega ekki að óvörum, en það hefur sést langar leiðir frá því að tilkynnt var um samruna orkufyrirtækjanna að borgarfulltrúar voru ekki hafðir með í ráðum.

Það er skiljanlegt að kjörnir fulltrúar nenni ekki að sætta sig við svona verklag og gusti milli kjörinna fulltrúa. Það er auðvitað algjörlega afleitt verklag að borgarstjórinn, þó leiðtogi hópsins sé, taki svona stórar ákvarðanir án samráðs við samstarfsmenn sína innan borgarstjórnarflokksins og telji sig vera kóng í ríkinu þar sem ekkert skipti máli nema hans boð og bönn. Þetta virðist vera alvarlegur trúnaðarbrestur og ekki við öðru að búast svosem eins og komið er málum en að vinna þurfi sig úr málinu með aðkomu forystu Sjálfstæðisflokksins.

Það er til marks um veika stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að enginn borgarfulltrúa vill fara í fjölmiðla til að verja hann, nema Júlíus Vífill Ingvarsson. Þögnin er það eina sem kemur frá Gísla Marteini Baldurssyni, formanni borgarstjórnarflokksins, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar. Sú þögn er hróplega áberandi eins og staða mála er orðin. Ef marka má fréttir er andstaðan leidd af fjórum borgarfulltrúum, auk fyrrnefndra tveggja, þeirra Jórunnar Frímannsdóttur, formanns velferðarráðs, og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs.

Það verður áhugavert að sjá hver lausnin á átökunum verður. Verður hún kannski sú að Vilhjálmi og Hauki Leóssyni verði skipt út sem fulltrúum flokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur? Stórt er spurt vissulega, en varla of stórt enda hefur sá orðrómur verið uppi síðan í gær að þeir sem ósáttastir eru við verklagið vilji algjörlega nýtt upphaf með nýjum fulltrúum. En það verður varla flokkað öðruvísi en sem vantraust yfir borgarstjóranum verði honum skipt út úr stjórninni eftir allt sem á undan er gengið.

Það hriktir altént í stoðum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og þýðir ekkert að afneita þeirri krísu sem uppi er. Hún sést vel orðalaust í fjölmiðlunum þegar að enginn borgarfulltrúi vill bakka upp ákvarðanir borgarstjórans og tekist er á innan hópsins með þeim hætti sem fjallað hefur verið um. Þessi átök hafa verið að mestu utan kastljóss fjölmiðla, en samt vakið athygli, enda virðist borgarstjórinn standa einn eftir.

Það boðar auðvitað viss tímamót og hlýtur að leiða til þess að kjaftasögur grasseri um pólitíska framtíð borgarstjórans í Reykjavík. Það er alveg ljóst að hann mætir meiri mótspyrnu innan sinna raða en áður hefur gerst og ekki undrunarefni eins og allt er í pottinn búið í þessu REI-máli.

mbl.is Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins á fund Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleitt verklag - fundurinn dæmdur ólöglegur?

VÞV Það er ekki hægt að segja annað en að það verklag sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hefur viðhaft í REI-málinu sé í senn afleitt og gamaldags. Gamli góði Villi virðist í það djúpum skít að geta ekki einu sinni mætt í sjónvarpssal og tekist heiðarlega á við Svandísi Svavarsdóttur, borgarfulltrúa - sem hefur komið fram af miklu öryggi í þessu máli í fjölmiðlum og styrkst sem stjórnmálamaður. Er hún langöflugasti borgarfulltrúi minnihlutans að mínu mati og er að tala máli sem blasir við að sé rétt.

Heimdallur hefur nú sent frá sér góða ályktun um þetta mál - gert sitt af krafti og öryggi. Ungliðahreyfingin á að vera samviska flokksins og það gerist sannarlega í þessu máli. Þetta er rödd sem hlustað er á og á að skipta máli í flokksstarfinu. Það sem svíður mest í þessu máli er hversu mjög verklagið sem Alfreð Þorsteinsson beitti innan Orkuveitunnar er yfirfært yfir á daginn í dag en nú undir verkstjórn og forystu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sendir borgarstjóranum beitta pillu á vef sínum þar sem hann spyr sig upphátt að því hvort menn hafi ekki lært neitt í áranna rás.

Það hefur blasað við frá því að samruninn var tilkynntur að deilt er um hann bæði hugmyndafræðilega og efnislega innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Kjaftasagan segir að borgarstjórinn sé svo til einn á báti í málflutningi sínum. Það kemur ekki á óvart. Þetta verklag og áhættufjárfestingin sem þessu fylgir minnir svo mjög á risarækjueldið og annað ruglið sem frá Alfreð Þorsteinssyni kom að almennum sjálfstæðismönnum blöskrar. Þetta minnir á byltingarhöfðingjann sem barðist gegn hinu illa hjá stjórnarherrunum og steypti stjórninni. Þegar að hann komst til valda gekk hann ósómanum á hönd og var ekki hótinu skárri í spillingunni.

Það sem er verst af öllu í þessu máli er vafinn á lögmæti fundarins. Það er algjörlega ljóst að mjög deildar meiningar eru um stöðu hans og stefnir allt í það að farið verði með það fyrir dóm. Er eðlilegt að lögmætið verði kannað til fulls. Það verður ekki forystu Sjálfstæðisflokksins til sóma fari svo að þetta verklag verði dæmt ólöglegt og fundurinn strikaður út. Það er greinilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson virðist ekkert hafa lært á minnihlutasetu árum saman og sest við kjötkatlana með sama brag og R-listaflokkarnir gerðu í denn innan veggja Orkuveitunnar.

Það er greinilegt að trúnaðarbrestur hefur átt sér stað í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Ólgan er meira að segja það mikil að talað er um það af fullri alvöru bakvið tjöldin að borgarstjóranum mistæka verði sparkað úr stjórn Orkuveitunnar við fyrsta tækifæri. Ekki eykst hróður gamla góða Villa við það að missa tiltrú samstarfsmanna sinna vegna þessa verklags.

mbl.is Vilja fara með Orkuveitufund fyrir dómstóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigrún Björk svarar ályktun Varðar með skætingi

Sigrún Björk JakobsdóttirÞað vekur mikla athygli að Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, svarar ályktun Varðar með skætingi og gerir lítið úr Verði enn eina ferðina. Er það ekki nýtt verklag frá þeim slóðum. Það þarf ekki mikla pólitíska innsýn til að sjá að þessi ályktun félagsins kemur eftir mjög brösótt samstarf milli aðila og umfram allt samskiptaleysi um marga þætti. Það má vel vera að talað hafi verið þar með áberandi hætti, en ég tel ályktunina fjarri því orðum aukna og ég styð hana.

Sjálfur kynntist ég sem formaður Varðar ýmsu verklagi sem vel gæti verið að fjallað yrði um síðar. Hafði ég ekki hugsað mér að opinbera marga þætti þess, en ég get ekki sagt annað en ég skilji vel hvernig þessi mál horfi við stjórn Varðar. Sjálfur var ég þar formaður um nokkurt skeið og tók þátt í innsta starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Það var mjög líflegt starf, en hinsvegar fann ég vel fyrir því er á hólminn kom að ekki var ætlast til þess að fólk sem leiddi starf félagsins sæktist eftir fleiru en helst að sópa gólfin eftir fundina og hella upp á kaffið fyrir þá.

Það var verklag sem ég nennti ekki að sætta mig við og ég get mun frekar þá mætt í annan félagsskap og uppbyggilegri en þennan. Held ég að margir hafi gefist upp á þessum félagsskap af sömu ástæðum. Hef ég dregið mig verulega út úr pólitísku starfi hér á Akureyri og tel óhætt að fullyrða að stór þáttur þess sé einmitt það sem núverandi stjórn Varðar hefur kvartað yfir. Varla þarf að fjölyrða um skoðun mína á ályktuninni. Ég held að þetta sé vandamál til fjölda ára sem kvartað er yfir. Það að binda það einni skipan í eitt ráð eins og bæjarstjórinn talar um er algjör fjarstæða og henni ekki til sóma.

Mér finnst sum verk Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur sem bæjarstjóra ekki lofa góðu. Eitt þessara mála er klúðrið varðandi tjaldsvæðamálin um verslunarmannahelgina síðustu, þar sem 23 ára aldurstakmark var sett. Það var verklag sem ég get ekki stutt og ég mun ekki styðja stjórnmálamenn af þeim toga sem taka slíkar ákvarðanir ef fram heldur sem horfir. Það er greinilegt að verk SBJ eru umdeild og margt í fari þess sem gerist á hennar vakt farið að fara í pirrurnar á fjölda fólks.

Ólga meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík

Meirihluti myndaður í maí 2006 Það er greinilegt að miklar deilur eru innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins vegna sameiningar Reykjavík Energy Invest og Geysir Green. Það að ekki sé full þögn og staðfest samþykki um verklagið segir að málið sé í raun allt upp í loft og reynt að ná lendingu í málinu. Það að talað sé jafnvel um það sem möguleika að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, víki úr stjórn Orkuveitunnar, segir margt um stöðuna.

Það blasir við að ekkert samráð hefur verið haft við óbreytta borgarfulltrúa vegna þessarar sameiningar, staðið var frammi fyrir orðnum hlut og ákvörðunum sem tveir menn virðast hafa tekið á lokuðum fundi sín á milli. Það er verklag sem stundum getur orðið traust, sé samstaða fyrir hendi innan meirihlutaflokka, en getur æ oftar orðið fleinn í samskiptum milli fólks, dregið úr því að flokkar geti keyrt samstillt til verka. Foringjaræði í stjórnmálum getur verið sterkt sé unnið heiðarlega og vel en getur líka grafið undan leiðtogum sé ekki unnið almennilega og með samráð að leiðarljósi milli fólks, enda getur aldrei einn maður í sjálfu sér tekið ákvarðanir á öllum stigum ákvarðanaferils.

Það verður áhugavert að sjá hvaða eftirmálar þetta mál hafi, hvort þessi sameining verði að veruleika og meirihlutinn standi heill að þessari ákvörðun. Lekinn sem sýnir vafann á því vekur mikla athygli og hlýtur að vekja spurningar um samstöðu meðal fólks. Þetta gæti verið prófsteinn á það hversu sterkur foringi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, er í sínum hópi. Það að talað sé um að skipta honum jafnvel út úr stjórn Orkuveitunnar eru stórtíðindi, sé vilji fyrir því á meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Mér finnst Vilhjálmur Þ. hafa sýnt það mjög vel síðustu mánuði að hann er gamaldags útbrunninn stjórnmálamaður með lítinn sans fyrir því hvað fólk vill eða samstöðu meðal hópsins. Nokkur fyrri mál hafa skaðað hann verulega og greinilegt að hópurinn fylgir ekki leiðsögn hans í þessu máli. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með forystu Vilhjálms Þ. og tel fróðlegt að sjá hvort hann muni leiða flokkinn í næstu kosningum eftir allt klúðrið sem hefur gerst á hans vakt.

Fyrir nokkrum vikum birtist fróðlegur pistill á Andríki um útrás Orkuveitu Reykjavíkur á erlendan markað. Vert að benda á þau skrif hér. Það eru 99,9% líkur á því að sjálfstæðismaður hafi haldið þar á penna og fróðlegt að sjá hversu mikil samstaða verði með þessar útrásarhugmyndir sem Orkuveitan stendur í.

Hversu mikil sátt er meðal sjálfstæðismanna með verklag leiðtoganna tveggja sem tekið hafa þessa ákvörðun? Varla er við því að búast að Björn Ingi rífist við sjálfan sig í borgarstjórnarflokki Framsóknarflokksins en þess þá meiri líkur á að gusti meðal sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

mbl.is Sjálfstæðismenn ósáttir við sameiningu REI og Geysir Green Energy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strokufangar frá Litla-Hrauni finnast

Litla Hraun Öryggismál á Litla-Hrauni hljóta að verða til umræðu eftir að tveir fangar struku þaðan. Virðist flótti fanganna tveggja hafa verið á stolnum bíl er þeir komu af AA-fundi. Það má vel vera að það geti verið auðvelt að strjúka úr fangelsinu, en það getur varla verið eðlilegt. Það hlýtur að kalla á uppstokkun málefna fangelsisins þegar að fangar eru farnir að geta látið sig hvarfa með skipulögðum hætti af svæðinu.

Vissulega á fangelsi að vera betrunarvist. Það eru samt sem áður deildar meiningar um það. Dauðsfall tveggja fanga nýlega hefur kallað á umræðu um aðbúnað þar og eins hlýtur að vera rætt um öryggismálin núna. Veit ekki betur en að þar hafi verið hert á verkferlum, svo að það geti hreinlega ekki gerst að fangar flýi eða komist undan. Eitthvað virðist að í því. Það má vel vera að einhverjar glufur séu í öryggismálum og verður að taka á því.

Það er þó ánægjulegt að fangarnir hafi fundist, enda er flestum ljóst að fangar geta ekki falist lengi eftir flótta sinn alla jafna. En það hlýtur að vera spurt að því hversu stórar glufurnar á Litla-Hrauni eru fyrir fanga sem eru í þeim hug að láta sig hverfa.

mbl.is Strokufangarnir fundnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir Ólafur Ragnar á fjórða kjörtímabilið?

Ólafur Ragnar Grímsson Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gaf eins og kunnugt er enga yfirlýsingu um framtíð sína á forsetastóli við þingsetningu. Er ekki við öðru að búast en að þetta gefi sögusögnum um að hann stefni að vist á Bessastöðum fjórða kjörtímabilið í röð byr undir báða vængi. Þar sem að Ólafur Ragnar var alþingismaður til fjölda ára var ekki undarlegt að margir töldu að ræðustóll Alþingis yrði vettvangur yfirlýsingar af einhverju tagi.

Eins og vel er kunnugt er von á ævisögu Ólafs Ragnars á næstu vikum, sem er færð til bókar af Guðjóni Friðrikssyni. Verður áhugavert að sjá hvaða bragur verði á þeirri bók. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins var því velt fyrir sér hvort að Ólafur Ragnar tilkynnti um fyrirætlanir sínar af friðarstóli á Bessastöðum í ávarpi á nýársdag. Það má vissulega vel vera að þar muni Ólafur Ragnar tilkynna að hann ætli að hætta, eða jafnvel gefa kost á sér aftur. Kristján Eldjárn og Ásgeir Ásgeirsson tilkynntu báðir ákvörðun sína um að hætta í nýársávarpinu en Vigdís gerði það í þingsal á þingsetningardegi.

Það má búast við því að ævisaga Ólafs Ragnars verði ein vinsælasta bókin fyrir þessi jól. Stíllinn á bókinni mun vekja athygli; verður þetta settleg yfirferð yfir hæðir og lægðir Ólafs Ragnars á áratugulöngum ferli hans sem umdeilds stjórnmálamanns og þjóðhöfðingjans á Álftanesi, eða bók þar sem engin tæpitunga er töluð um átakamál - uppgjörsmál á það sem gerst hefur á síðustu árum sérstaklega; t.d. fjölmiðlamálið þar sem ÓRG beitti 26. grein stjórnarskrár í beinni útsendingu fjölmiðla? Þetta eru spurningar sem velt verður fyrir sér vissulega.

Framganga Ólafs Ragnars á alþjóðavettvangi síðustu mánuði hefur vakið athygli. Hefur þar frekar virst maður í leit að nýju verkefni í fjarlægri heimsborg heldur en þjóðhöfðingi sem talar með sannfæringu fyrir hönd heillar þjóðar. Sérstaklega vakti ferð hans til Washington nýlega mikla athygli og hann hefur fundað með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og fleiri aðilum í bandarísku þingstarfi. Það væri ekki undarlegt þó því væri velt fyrir sér að Ólafur Ragnar horfði annað en vildi halda þeim möguleika enn opnum að fara fram.

Það er ekki óeðlilegt að því sé velt fyrir sér hvert hugur Ólafs Ragnars stefndi og víst er að flestir fylgdust vel með ræðunni, enda vel vitað að brátt verði ljóst hvað hann ætlast fyrir. Mér fannst glott vera á andliti hans við lok ræðunnar í þingsal í gær, enda vissi hann vel að með hverju orði væri fylgst. Það varð fljótt ljóst að þetta yrði ekki ræða stórtíðinda á forsetaferli hans, þó að vissulega hafi ÓRG flutt góða ræðu í gær, sérstaklega hvað varðar þann hluta sem tengdist íslenskunni, okkar mesta djásni.

Ólafur Ragnar hefur oft kunnað á tímasetningar á forsetaferli sínum og er vel fókuseraður. Hann er mjög líklegur til að vilja tilkynna ákvörðun sína um framtíðina í þjóðhöfðingjahlutverkinu og vilji ekki feta í fótspor annarra í þeim efnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. En hitt er víst að kjaftasagan um fjórða kjörtímabilið lifir betra lífi nú en sú að hann ætli sér að hætta að vori.

Ætli að ævisagan margnefnda verði ekki bara settlegt spjall yfir kaffibolla, frekar en uppgjör manns sem er með sigg á sálinni eftir pólitísk átök fortíðarinnar? Fróðlegt verður að sjá annars.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband