Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Setning Alþingis - forsetinn ver íslenskuna

Forseti Íslands setur Alþingi Alþingi Íslendinga, 135. löggjafarþing, var sett fyrir stundu af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Þingsetningin var með nýjum brag að þessu sinni og hefur verið stokkuð upp. Leikin var tónlist í þinghúsinu og Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, gekk beint til forsetastóls en var ekki kjörinn sérstaklega, í ljósi þess að þingsköpum hefur verið breytt, en Sturla var kjörinn þingforseti eftir kosningar, á þingsetningardegi 31. maí sl.

Í ræðu forseta Íslands talaði hann mjög skynsamlega um íslenska tungu og mikilvægi þess að standa vörð um íslenskt málfar í alla staði. Það veldur miklum vonbrigðum að varaformaður annars stjórnarflokksins hafi tjáð sig með þeim hætti að taka eigi upp tvítyngda stjórnsýslu. Þetta er óttalegt rugl og eðlilegt að fólk tjái sig um þessa skoðun sem stingur mjög í stúf við allt fyrra tal um að standa vörð um íslenskuna í miðju baráttunnar við enskuna hérlendis. Það er því mikilvægt að forseti tali skýrt í þessum efnum nú sem fyrr og ég tek undir skoðun hans á þessu máli.

Það gerðist ekki á þessum þingsetningardegi að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti starfslok sín eins og margir höfðu jafnvel átt von á. Fyrir tólf árum notaði Vigdís Finnbogadóttir þetta tækifæri til að tilkynna þingi og þjóð um starfslok sín á forsetastóli. Morgunblaðið tjáði sig reyndar í gær með þeim hætti hvort að tilkynning Ólafs Ragnars myndi koma á Bessastöðum á nýársdag. Vel má vera, en í ljósi þess að Ólafur Ragnar var alþingismaður árum saman finnst mér líklegra að tilkynning kæmi þar. Þetta hlýtur að gefa kjaftasögum um fjórða kjörtímabilið byr undir báða vængi.

Það var vel við hæfi að Ólafur Ragnar minntist Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, í ræðu sinni. Einar Oddur lést langt um aldur fram á hæsta tindi Vestfjarða á fögrum sumardegi fyrir nokkrum vikum. Mikill sjónarsviptir er af honum. Ólafur Ragnar talaði af virðingu um þennan litríka þingmann sem setti svo sterkan svip á þjóðmálin árum saman, bæði sem atvinnurekandi og alþingismaður á löggjafarsamkundunni. Sturla Böðvarsson flutti ennfremur góð minningarorð um hann síðar er hans var minnst formlega við þingsetninguna.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, tilkynnti í ávarpi við þingsetninguna að breytingar væru framundan á störfum Alþingis. Virðist vera í sjónmáli löngu tímabær uppstokkun á starfstíma þingsins og fundafyrirkomulaginu, t.d. ræðulengd. Sérstaklega er löngu úrelt að þingið komi ekki saman fyrr en í október og væntanlega verður þetta í síðasta skipti sem það verður gert. Sturla hefur þegar gert breytingar sem tekið er eftir og vonandi verður hann forseti verkanna í þessum efnum.

Löngu er kominn tími til að hætta að segja að þetta og hitt þurfi að gera, það sem allir vita að þarf sannarlega að gera, og fara að koma orðum í framkvæmdir. Það er kominn tími til að vinna hlutina markvissar þarna, hætta næturfundunum og losa stífluverklagið sem verður ávallt í desember og í maí og reyna að gera starfið þéttara og traustara.

mbl.is Ólafur Ragnar: Engin efnisrök fyrir því að víkja íslenskunni til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Ólafur Ragnar tilkynna starfslok sín í dag?

Ólafur RagnarAlþingi verður sett eftir hádegið í dag. Þá mun Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flytja ávarp í þingsal. Það er ekki undrunarefni að hugleitt sé hvort hann muni tilkynna þá um hvort hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Hugleiðingar hafa verið um framtíð hans á forsetastóli eftir að ljóst varð fyrir nokkrum mánuðum að hann ætlaði að gefa ævisögu sína út fyrir jólin.

Á þingsetningardegi, 2. október 1995, tilkynnti Vigdís Finnbogadóttir um að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Hún valdi ræðustól Alþingis sem vettvang tilkynningar um ákvörðun sína eftir fjögur kjörtímabil á forsetastóli frekar en friðarstólinn á Bessastöðum á nýársdegi. Orðrómur hefur verið um hvort að Ólafur Ragnar ætlaði að fara fram fjórða kjörtímabilið eða hætta nú. Er því velt fyrir sér hvort hann sé líklegri til að tilkynna starfslok á Bessastöðum eða á Alþingi.

Þar sem að Ólafur Ragnar Grímsson er fyrrum alþingismaður yrði ekki ólíklegt að teljast að hann myndi feta í fótspor Vigdísar og tilkynna starfslok sín í þingsal, þegar að því kemur. Ólafur Ragnar sat á þingi samtals í tíu ár, 1978-1983 og 1991-1996, er hann var kjörinn fimmti forseti lýðveldisins. Í ljósi þess að Ólafur Ragnar tilkynnti sérstaklega í kosningabaráttunni 1996 að heppilegast væri að forseti sæti aðeins tvö kjörtímabil hlýtur að teljast ósennilegt að hann fari fram í fjórða skiptið. Það verður þó að koma í ljós hvort að hann vilji feta í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur. 

Í kvöld horfði ég á gamla fréttaupptöku frá 2. október 1995, deginum er Vigdís lýsti yfir ákvörðun sinni. Þar voru skemmtilegar svipmyndir, í senn frá tilkynningunni, sem kom mörgum að óvörum, blaðamannafundi Vigdísar á Bessastöðum og viðbrögðum stjórnar og stjórnarandstöðu. Þar tjáir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sig um ákvörðun Vigdísar og ennfremur Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var enn formaður Alþýðubandalagsins. Þar segir Ólafur Ragnar orðrétt að það hafi verið heppilegt af forsetanum að tilkynna þingi og þjóð þessa ákvörðun á þessum stað.

Fáum hefði órað fyrir því þá að Ólafur Ragnar yrði eftirmaður Vigdísar og myndi standa í sporum hennar við setningu þings ári síðar. En, í ljósi þessara ummæla verður áhugavert að sjá hvað gerist á morgun. Mun Ólafur Ragnar tilkynna starfslok sín í dag, frammi fyrir þingi og þjóð, eins og Vigdís forðum?


Brotthvarf Maríu

María Egilsdóttir Það er ekki undrunarefni að fjölmiðlar fjalli um ákvörðun Maríu Egilsdóttur, varabæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, þess efnis að láta af öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, nú rúmu ári eftir sveitarstjórnarkosningar. Það hefur hinsvegar nú komið fram í svæðisfréttum Ríkisútvarpsins að María hyggst ekki segja sig úr flokknum, en þar var vitnað í samtal við hana, þó ekki væri leikið viðtal. 

Heimildir mínar í upphafi voru annars eðlis, en ég fagna því að þrátt fyrir þann greinilega trúnaðarbrest sem orðið hefur milli Maríu og forystu flokksins í bænum að hún ætli sér að vera áfram í Sjálfstæðisflokknum. Það er ánægjulegt að svo verður. Þó er ekki hægt að segja annað en að þessi úrsögn varabæjarfulltrúans frá trúnaðarstörfum séu stórfregnir einar og sér, enda man ég satt best að segja ekki eftir svona látum milli aðila í bæjarstjórnarflokknum í seinni tíð.

Það segir sig sjálft og úrsögn Maríu frá trúnaðarstörfum hlýtur að vera áfall fyrir flokkinn, enda er um að ræða annan varabæjarfulltrúa flokksins. Ég ætla ekki að tjá mig um það mál sem virðist hafa leikið lykilhlutverk í ákvörðun hennar, en við öllum blasir að eitthvað mikið hefur gengið þar á áður en þetta endaði svona.

Heilt yfir harma ég brotthvarf Maríu Egilsdóttur úr flokksstarfinu, en það kemur mér þó ekki að óvörum eftir orðróminn sem gengið hefur síðustu vikur. Það er alltaf dapurlegt þegar að öflugt fólk finnur sér ekki lengur farveg í þeim störfum sem það hefur verið kosið til.

mbl.is Varabæjarfulltrúi hættir í Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörður sakar bæjarfulltrúa flokksins um heigulshátt

Sjálfstæðisflokkurinn Á aðalfundi Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri, síðdegis, var samþykkt harðorð ályktun gegn bæjarfulltrúum flokksins í bænum vegna ákvarðana við skipan í nefndir Akureyrarbæjar, sérstaklega í nýlegu tilfelli þar sem ákveðið var að Þóra Ákadóttir, fyrrum forseti bæjarstjórnar, skyldi skipuð í félagsmálaráð í stað Maríu Egilsdóttur, sem hefur látið af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn vegna trúnaðarbrests við forystuna.

Ályktunin er orðrétt svohljóðandi.

"Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir vonbrigðum sínum með starfshætti  flokksins við skipun í ráð og nefndir  á vegum Akureyrarbæjar. Sífellt er litið framhjá ungliðahreyfingunni við skipun nefndarmanna og með því er innra flokksstarf Varðar vanvirt. Það er með ólíkindum að flokkur sem býr við svo stórt og öflugt ungliðafélag skuli ekki treysta unga fólkinu eins og raun ber vitni.

Nýtt hlutverk Þóru Ákadóttur í félagsmálaráði sýnir heigulshátt núverandi bæjarfulltrúa. Með skipun hennar er litið framhjá varamönnum og ungliðahreyfingunni enn og aftur. Það hlýtur að teljast heigulsháttur þegar nýjar og kraftmiklar hugmyndir sem fylgir ungu og óreyndu fólki eru hundsaðar. Eins og staðan er í bæjarmálum á Akureyri nú ætti Sjálfstæðisflokkurinn að kappkosta við að fá nýtt fólk með nýjar hugmyndir á viðkvæmum málum."

Þessi ályktun er harðorð, en hún kemur mér, sem fyrrum formanni Varðar, sannarlega ekki að óvörum. Úrslit prófkjörs flokksins í febrúar 2006 voru skelfileg fyrir ungliðana, þeim var ekki treyst til verka af hálfu forystu flokksins og því er ég ekki undrandi á þeim tón sem þarna kemur fram í ljósi þess sem hefur tekið við síðan.

Varabæjarfulltrúi yfirgefur Sjálfstæðisflokkinn

María Egilsdóttir María Egilsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og varaformaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, hefur sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn og beðist lausnar frá trúnaðarstörfum í nafni flokksins. Þóra Ákadóttir, fyrrum forseti bæjarstjórnar, sem sat í bæjarstjórn 2001-2006, hefur aftur pólitíska þátttöku og mun taka sæti Maríu í félagsmálaráði, en hún átti þar sæti árum saman, allt þar til að hún ákvað að hætta þátttöku í stjórnmálum í aðdraganda kosninganna á síðasta ári.

María skipaði sjötta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2006 og náði því sæti, mörgum að óvörum, í frægu prófkjöri flokksins sem haldið var í febrúar 2006. María segir skilið við flokkinn vegna Sómatúnsmálsins svokallaða, en faðir hennar, Egill Jónsson, tannlæknir, hefur átt í málaferlum við Akureyrarbæ. Það er mál sem snýst um húsbyggingu við Sómatún í Naustahverfi en hús voru þar mishá og deilur hófust vegna þess og munu fara fyrir dómstóla þar sem ekki náðist sátt milli aðila.

María hafði aldrei tekið þátt í stjórnmálum í aðdraganda kosninganna á síðasta ári og hún var ekki þekkt í aðdraganda prófkjörsins fyrir starf innan flokksins. Sumir hafa sagt að það hafi hjálpað henni að eiga ekki að baki mikla sögu innan flokksins og í ljósi þess hafi margir valið hana sem sinn fulltrúa ofarlega á lista. Margar sögur hafa gengið um upphaf stjórnmálaferils hennar og eflaust ekki rétt að fara yfir þær allar hér. Það vekur þó mikla athygli að hún segi skilið við flokkinn og forystumenn hans á þessum tímapunkti, en deilur í þessu máli hafa staðið bakvið tjöldin um skeið.
 
Það hlýtur að teljast áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri að sjá á bak varabæjarfulltrúa á þessum tímapunkti og með þessum hætti. Kannski umfram allt fyrir þá sem töldu mikilvægt að María kæmi ný inn til verka án pólitískrar reynslu ofarlega á lista, framar þeim sem kalla hefði mátt ungliða innan Sjálfstæðisflokksins.

Friður og ró eftir áralöng átök í Heimdalli

Erla Ósk ÁsgeirsdóttirEftir margra ára hjaðningavíg og ólgu milli tveggja þekktra fylkinga virðist friður hafa færst yfir í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Erla Ósk Ásgeirsdóttir er sjálfkjörin sem formaður félagsins og ekki verður kosning í stjórn á aðalfundi nú á sjöunda tímanum. Friður og ró virðast því vera einkunnarorð næsta starfsárs. Vonandi veit þetta á gott og ber þess merki að nú taki fólk úr ólíkum áttum loksins upp það samstarf sem skiptir lykilmáli til að efla starf félagsins og vinna hlutina samhent og vel.

Ekki veitir af eftir öll hörðu átökin sem staðið hafa meira og minna allan þennan fyrsta áratug 21. aldarinnar og verið umfjöllunarefni nær ávallt á þessum tímapunkti ársins. Örlög Heimdallar hafa verið örlög SUS til fjölda ára vegna yfirburða þess í ungliðastarfinu. Af því leiðir að við á landsbyggðinni höfum fylgt með í þeim darraðardansi öllum og það hefur haft sínar hæðir og lægðir. Sennilega var mesti hasarinn í þeim efnum árið 2003, er deilur um aðalfund fóru fyrir miðstjórn, og í átökunum í stjórnarkjöri á aðalfundum 2004 og 2005 þegar að Bolli Thoroddsen var kjörinn formaður og í fyrra er Erla Ósk vann Heiðrúnu Lind. Varla er þörf á að rifja það upp.

Ég held að það hafi ekki gerst í ein sex ár að svona friður hafi ríkt þarna og ég fagna því að fólk hafi náð þeim stað á ferðalaginu að sætta sig við hvort annað. Kannski upp að vissu marki bara, en samt sem áður að geta unnið saman. Það er stór áfangi fyrir vissa aðila þarna. Mér hefur alla tíð fundist þessi fylkingamyndun mjög leiðigjörn og erfið viðfangs, en hún ríkti allan tímann sem ég sat í stjórn SUS og hafði varað mun lengur. Enda eru þetta sögulegar fylkingar sem of langt mál væri að fara yfir hér í stuttri bloggfærslu.

Ég vil óska Erlu Ósk og nýrri stjórn góðs gengis í verkunum á næsta starfsári og vona að þau nái öll góðum takti saman til framtíðar, hvað svo sem fortíðin hefur haft í för með sér fyrir þau og fylkingarnar sem þau tilheyra. Það skiptir Sjálfstæðisflokkinn og Samband ungra sjálfstæðismanna verulega miklu máli í þeim verkefnum sem framundan eru á næstu árum að þetta fólk fari að vinna saman og yfirstíga þær undarlegu deilur sem fortíðin hafði í för með sér.


mbl.is Heimdellingar kjósa nýja stjórn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján biðst afsökunar í skugga málaferla

Kristján L. Möller Það er mjög áhugavert að vita að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, bað Einar Hermannsson, skipaverkfræðing, afsökunar á fimm vikna gömlum ummælum sínum í skugga yfirvofandi málsóknar Einars. Hefði ráðherrann ekki séð að sér hefði Einar einfaldlega sótt sitt mál fyrir dómstólum og viljað fá ummælin dæmd dauð og ómerk. Þetta er merkilegur aukapunktur í málið og skýrir það enn betur.

Kristján kom sér í ótrúlegt klúður með orðavali sínu í þessu máli. Það að ætla að hengja skipaverkfræðinginn fyrir framan alþjóð var ekki boðlegt og varla við því að búast að Einar hafi viljað sitja undir slíkri mannorðsaftöku möglunarlaust. Eins og ég sagði hér í skrifum fyrir nokkrum dögum var Kristján ekki sannfærandi í sjónvarpsviðtali vegna þessa máls um síðustu helgi og hljómaði eins og maður sem kominn var upp að húsvegg í orðsins fyllstu merkingu. Enda er ekki hægt að sjá betur en að talið um málsókn hafi breytt tali ráðherrans og afsökunarbeiðnin sem beðið var svo lengi eftir kom seint og um síðir.

Það hlýtur að vera rannsóknarefni fyrir stjórnmálafræðinga hvernig að Kristján L. Möller kom sjálfum sér í þessar ógöngur með vanan fjölmiðlamann á kontórnum hjá sér. Ég held að Kristján hafi í upphafi ráðið hann til að hjálpa sér, en sú virðist ekki hafa orðið raunin. Bæði Kristján og aðstoðarmaðurinn, Róbert Marshall, standa eftir skítugir upp fyrir haus í miðju feni þessa ævintýralega stórklúðurs sem Grímseyjaferjumálið allt er. Var þetta ráðgjöfin sem Kristján ætlaði sér að fá með valinu á Róbert inn á kontór?

mbl.is Afsökunarbeiðni í skugga málsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirrtur einvaldur fer til Bandaríkjanna

Mahmoud AhmadinejadÞað verður seint sagt að Mahmoud Ahmedinejad, forseta Írans, hafi verið tekið vel í för sinni til Bandaríkjanna. Forsetinn ber enda með sér öll merki þess að vera veruleikafirrtur einvaldur. Ummæli hans á fyrirlestrinum í Columbia-háskólanum í New York segja allt sem segja þarf um hugsanir og persónu þessa manns. Ekki aðeins dregur hann í efa að helförin hafi átt sér stað og að Osama Bin Laden hafi staðið að baki hryðjuverkunum í Bandaríkjunum árið 2001 heldur neitar hann að viðurkenna að samkynhneigðir séu í Íran.

Sú mynd sem heimsbyggðin fær óneitanlega af Mahmoud Ahmedinejad í þessari Bandaríkjaför hans er að þar sé á ferð heimskur einræðisherra sem vill berja niður frjálsa hugsun og almenna skynsemi. Það að hann neiti að samkynhneigðir séu í Íran er þó merki um þá firringu sem mesta athygli vekur í tali þessa manns. Fyrrnefndar skoðanir hans hljóma eins og óraunveruleikavísa. Ummæli hans í viðtalinu við Scott Pelley í 60 mínútum eru líka mjög fjarstæðukennd. Hann svaraði ekki almennum spurningum að mestu leyti heldur blaðraði eintóma vitleysu út í eitt og eða beindi spurningunum að fréttamanninum. Það er varla við því að búast að hann styrki stöðu sína á alþjóðavettvangi með þessu rugli.

Fyrir nokkrum vikum kom dr. Houchang Chehabi, prófessor í alþjóðasamskiptum og sögu við Boston-háskóla, í heimsókn til okkar í Rótarý-klúbbinn sem ég er í hér á Akureyri. Chebabi er frá Íran, en hefur búið vestanhafs um nokkuð skeið og er sérfræðingur í málum Mið-Austurlanda, ritað margar bækur um stöðuna þar - er vel þekktur fyrir ritstörf sín og kennslu víðsvegar um heiminn. Hann flutti þar fræðandi erindi fyrir okkur, fyrst og fremst um málefni Írans og nágrannasvæða og tjáði skoðanir sínar enn frekar í svörum við spurningum okkar. Hann fór frá Íran fyrir klerkabyltinguna árið 1979 og þekkir vel til allra aðstæðna og því enn betra að fara yfir málin.

Chebabi hefur kennt við Harvard, Oxford og UCLA, auk þess að vera handhafi bæði Alexander von Humboldt og Woodrow styrkja. Hann hefur gefið m.a. út bækurnar Iranian Politics and Religious Modernism: The Liberation Movement of Irand under the Shah and Khomeini (1990) og Distant Relations: Iran and Lebanon in the Last 500 years (2006) og hefur skrifað fjölda greina á sviði alþjóðastjórnmála, með áherslu á írönsk stjórnmál. Hann dró upp vægast sagt dökka mynd af Ahmedinejad og kom með sláandi lýsingar á manninum sem bættu enn við þá upplifun sem hægt er að hafa af honum í gegnum fjölmiðla.

Það er ekki beint margt sem hægt er að segja gott um þennan þjóðarleiðtoga. Eftir þær lýsingar og skemmtilegt spjall við Chebabi sannfærðist ég um að sú mynd sem ég hef á Ahmedinejad sé rétt og ágætt að ræða einmitt við fræðimann frá Íran um stöðuna þar. Ummæli þessa vitfirrta einræðisherra í skólanum í New York bæta sannarlega við þá upplifun. Það verður áhugavert að sjá hvort að Ahmedinejad verður endurkjörinn eftir tvö ár. Eftir því sem Chebabi sagði er mikil undirliggandi óánægja meðal klerkanna með Ahmedinejad og fylkingar hafa riðlast á forsetaferli hans.

Það verður sérstaklega spennandi að fylgjast með stöðunni í Íran næstu árin og sér í lagi hvort að vesturveldin láti til skarar skríða gegn stjórn Ahmedinejad. Öllum er ljóst að samskipti vesturveldanna við Íran hafa veikst mjög frá því að Khatami lét af völdum og spenna yfir stöðu mála.


mbl.is Fjandsamlegar móttökur virtust slá Ahmadinejad út af laginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðsfall á Litla Hrauni - staða fangelsismála

Litla HraunÍ annað skiptið á skömmum tíma hefur það gerst að fangi á Litla Hrauni deyi á meðan að afplánunartíma stendur. Ekki virðist vera sem að um sjálfsvíg sé að ræða - sama hverjar aðstæður eru í þessum tilfellum leiðir þetta óneitanlega hugann að stöðu fangelsismála. Ég hef alla tíð litið svo á að fangavist eigi að vera betrunarvist en ekki bara refsivist, þar eigi fólk að læra eitthvað og geta náð að breytast í betri einstaklinga.

Mér finnst staða fangelsismála í og með sorgleg að vissu marki. Húsakostur íslenskra fangelsa er almennt fyrir neðan allt. Það er t.d. með ólíkindum að enn hafi ekki risið almennilegt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir áralangt tal um að bæta húsakost fangelsa hefur lítið í því gerst, nema ef frá er skilin viðbygging á Litla Hrauni í dómsmálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins. Eftir margra ára baráttu fyrir því að bæta húsakost fangelsismála (sem var fyrir löngu orðinn óviðunandi) hér á Akureyri er nú loks unnið að því að byggja þar upp almennilega aðstöðu.

Þegar að hugsað er um fangelsismál finnst mér æði oft vera hugsað til þess að fangar eigi ekki að fá aðstoð til að feta skrefin aftur inn í lífið. Í fangelsi hlýtur lífið sem slíkt að fara á pásu og uppbygging er það sem tekur við að lokum, enda eru fangar að mörgu leyti á byrjunarreit. Staða einstaklinganna sem þar safnast saman er líka æði oft ólík og svo er sálræn staða fanganna mjög misjöfn og erfitt að setja þá alla undir sama þak í orðsins fyllstu merkingu. Hver einstaklingur hefur sínar þarfir og það þarf að vinna með hvert tilfelli áfram. Þetta er vandmeðfarið ferli og hugleiða má hvað best sé að gera í þeim efnum.

Að mörgu leyti finnst mér sá þingmaður sem best hefur talað í þessum málum á undanförnum árum vera Margrét Frímannsdóttir, fyrrum alþingismaður Samfylkingarinnar. Hún bjó um langt skeið í nágrenni fangelsisins á Litla Hrauni og það var því í kjördæmi hennar allan starfstímann á þingi. Hún talaði bæði af þekkingu og viti um þessi mál og það er því eðlilegt að hún hafi verið valin sem formaður nefndar um framtíðaruppbyggingu og skipulag á Litla-Hrauni.

Auk þessa má velta fyrir sér hvort fleira sé að en húsakostur fangelsa, einkum það sem inní húsunum tilheyrir; einkum sálfræðiaðstoð og læknisþjónustu af ýmsu tagi. Öllum er ljóst að sá hluti er mikilvægur og getur skipt sköpum. Þó að sagt sé í fréttum að ekkert bendi til sjálfsvígs í tilfellum sem þessum geta margir samverkandi þættir leitt til þess að fólk missir heilsuna í varðhaldi og getur fengið áfall af ýmsu tagi.

Mál sem þetta leiðir vonandi til þess að hugsað verði enn betur um fangelsismál - helst með öðrum hætti en þeim að þarna eigi fólk helst að vera lokað af með öllu og án þeirrar aðstoðar sem það þarf í sínum erfiðleikum. Hver og einn hefur sína sögu að segja og það verður að taka á hverju og einu máli með fagmennsku og mannlegum hætti.


Mun Ásdís Halla fara til Símans?

Ásdís Halla Bragadóttir Margir hafa velt því fyrir sér hvað Ásdís Halla Bragadóttir muni gera er hún hættir sem forstjóri BYKO í næstu viku. Í ljósi sögusagna um að Brynjólfur Bjarnason sé að hætta sem forstjóri Símans væri áhugavert að velta því fyrir sér hvort að Ásdís Halla yrði eftirmaður hans. Talað hefur verið um að tilkynnt verði um uppstokkun hjá Símanum á næstu dögum og hugleiða margir hver muni taka við Símanum losni forstjórastaðan.

Öllum er ljóst að Ásdís Halla er ekki að fara aftur í stjórnmál eftir tveggja ára hlé heldur er mun líklegra að hún sé að færa sig á milli staða. Ennfremur hefur verið talað um það hvort að Ásdís Halla yrði forstjóri Ríkisspítalanna í stað Magnúsar Péturssonar færi svo að Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, myndi stokka upp mál þar enn frekar en orðið er með því að verkefnastjórn undir forystu Alfreðs Þorsteinssonar hefur verið slegin af.

Svo hafa einhverjir spekingarnir talað um það hvort að Ásdís Halla færi á Morgunblaðið og tæki við af Styrmi Gunnarssyni, en það styttist óðum í starfslok hans eftir áratugalöng störf fyrir blaðið. Svo hafa einhverjir nefnt hvort að hún hefði áhuga á vist á Bessastöðum en forsetakosningar fara fram á næsta ári. Einhvernveginn hljómar nú kenningin um Símann sem allra þessara líklegust, fari svo að Brynjólfur Bjarnason sé að fara að stíga til hliðar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband