Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mun Gordon Brown flýta kosningum í Bretlandi?

Gordon BrownUm fátt er meira rætt nú, við upphaf fyrsta flokksþings Verkamannaflokksins í leiðtogatíð Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, en hvort þingkosningar séu í nánd í Bretlandi. Það yrði vissulega mjög klókt í stöðunni en um leið mikil áhætta á fyrstu mánuðum valdaferilsins. Hveitibrauðsdögum Browns er ekki enn lokið, en þess sjást þó engin merki um að sælunni á milli Browns og þjóðarinnar yfir að vera laus við Tony Blair sé að ljúka.

Innan við 100 dagar eru liðnir frá því að Gordon Brown tók við völdum í Bretlandi eftir þrettán ára langa og napra bið. Deilt hafði verið um það lengi innan Verkamannaflokksins áður en að valdaskiptum kom hvernig forsætisráðherra hann myndi verða og hvort hann gæti notið lýðhylli, hvort að hann hefði einfaldlega ekki beðið of lengi eftir húsbóndavaldi í Downingstræti 10. Þegar að hveitibrauðsdagar Skotans eru að renna sitt skeið á enda deilir enginn um hversu sterk staða hans er og allir spyrja sig að því hvort hann ætli að reyna á hana á næstu vikum.

Verkamannaflokkurinn hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga við völdin eftir erfiða tíma undir lok forsætisráðherraferils Tony Blair, sem var orðinn verulega skaddaður síðustu misserin og allt að því hataður innan flokks sem utan vegna fjölda mála. Nýr forsætisráðherra hefur tryggt flokknum raunhæfa möguleika á að halda völdum í næstu þingkosningum og slá Íhaldsflokkinn fjórða skiptið í röð út af laginu. Það er því engin furða að sú umræða sé áberandi að kosningum verði hreinlega flýtt og Brown muni reyna að fá afgerandi umboð í eigin nafni. Staðan er allavega vænleg fyrir Gordon Brown.

Meira að segja heimsókn Browns til George W. Bush í Camp David í kastljósi heimspressunnar síðsumars breytti nákvæmlega engu um persónulegar vinsældir hans og flokksins heima fyrir. Breskir stjórnmálaskýrendur höfðu dregið í efa að heimsókn af þessu tagi svo snemma á hveitibrauðsdögunum væri skynsamleg og margir töldu ferðina feigðarflan fyrir mann sem væri á gullnu brautinni. Með ferðinni staðfesti Brown sterk bönd við Bandaríkjastjórn og gaf gagnrýnendum langt nef með því að vera kammó og hress við Bush forseta. Ferðin reyndist ekki feigðarflanið sem spáð var. Forsætisráðherrann þýtur enn upp vinsældalistann og mælist vinsælli sem aldrei fyrr í könnunum helgarinnar eftir 100 daga valdasetu.

En hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Það hefur David Cameron sannreynt að undanförnu. Margir töldu kosningasigur í sjónmáli fyrir hann og íhaldsmenn eftir tíu ára napra pólitíska eyðimerkurgöngu Íhaldsflokksins. Munurinn á flokkunum fór mest í um tíu prósentustig. Nú hefur þetta snúist við. Verkamannaflokkurinn hefur samkvæmt könnun dagsins yfir fimm prósenta forskot, hefur rokkað á milli fimm til tíu prósent. Örvænting er í innstu herbúðum Camerons og hann hefur höktað allverulega til að undanförnu, er að reyna að finna rétta taktinn. Fyrir hann er upp á allt að spila í næstu kosningum. Tap þýðir að enn verður leitað að nýjum leiðtoga. Það blasir við.

Gordon Brown hefur alla tíð verið úthugsandi pólitískur klækjarefur. Það sást best í valdaátökum hans við Tony Blair bakvið tjöldin árum saman. Hann vann þann slag á sálfræðinni og tók helstu andstæðingana á taugum. Svo fór að hann fékk pólitískt ríkidæmi Tony Blair á silfurfati. Helstu Blair-istarnir lögðu niður skottið og sættu sig við orðinn hlut. Pólitísk velgengni hans frá valdaskiptunum þann 27. júní sl. hefur reynst mun meira afgerandi en jafnvel helstu samherjar Skotans þorðu að vona. Sigur er í nánd ef hann spilar taflið rétt. Það segja kannanir.

En pólitísk gæfa getur verið fallvölt. Það sem snýr upp í dag getur fallið niður á morgun. Það eru því spennandi tímar pólitískt í Bretlandi. Um þrjú ár eru eftir af kjörtímabilinu en við öllum blasir að það styttist mjög í kosningar haldi hveitibrauðsmælingar forsætisráðherrans áfram með þessum hætti. Pólitískur klækjarefur sem hefur tök á stöðunni veit að hann hefur allt í hendi sér í svona andrúmslofti.

En nú reynir á Brown, sem hefur tekist að verða mun öflugri og vinsælli en mörgum óraði fyrir, á flokksþinginu næstu dagana. Sögulegir sigrar gætu verið framundan spili hann rétt. Og á meðan heldur orðrómurinn um þingkosningar á næstu vikum áfram að dafna.


mbl.is Brown útilokar ekki kosningar í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm vikna bið Einars eftir afsökunarbeiðni lýkur

Kristján L. Möller Það er ekki hægt að segja að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hafi verið einlægur og iðrandi í afsökunarbeiðni sinni til Einars Hermannssonar, skipaverkfræðings, í sjónvarpsviðtali á Reykjavíkurflugvelli í gær. Eftir fimm vikna bið; japl, jaml og fuður ráðherrans í slagtogi við aðstoðarmann sinn, komust þeir auðvitað að þeirri niðurstöðu að ekki yrði hjá því komist að biðja Einar afsökunar. Annað var ekki í stöðunni.

Kristján gat ekki annað eins og komið var en óskað eftir fundi með Einari og reynt að ljúka málinu með sómasamlegum hætti. Þetta tók samt ráðherrann ótrúlega langan tíma til að klára málið með þessum hætti. Hann virtist fyrst ætla að taka þá nálgun á stöðuna að segja ekki neitt en senda þess í stað aðstoðarmanninn Róbert Marshall á fjölmiðlana. Það skilaði ekki miklum árangri og eftir stóðu þeir félagar skítugir upp fyrir haus. Þetta var þeim hvorugum til mikils sóma og ég held að það sé enginn sem verji framgöngu þeirra þessa fimm vikurnar, ekki einu sinni flokksfélagar þeirra.

En ég get ekki sagt annað en það sé mjög mikilvægt að Kristján biðjist afsökunar. Þetta var bara klúður af hans hálfu og eðlilegt að hann bindi enda á málið með því að snúa til baka og sýna eftirsjá yfir orðavalinu. En mér fannst þetta ekki einlæg iðrun í þessu fréttaviðtali. Þetta virkaði eins og hann hefði verið kominn upp að vegg og svona sagði þetta bara til að losna undan þrýstingi. Hefði Kristján verið einlægari hefði þetta litið enn betur út en ella. Það er alltaf erfitt fyrir reynda stjórnmálamenn að lenda út undir vegg eins og Kristján kom sjálfum sér í óneitanlega í þessu máli.

Það sem mér finnst vanta nú er að Róbert biðji Bjarna Harðarson afsökunar. Mér fannst Róbert ekki koma vel fram gagnvart Bjarna. Hann sýndi af sér lágkúrulega framkomu og greinin sem hann skrifaði í Moggann um daginn var með þeim orðljótari sem sést hefur í pólitískri umræðu. Ég held að Róbert ætti að fylgja fordæmi húsbónda síns.

mbl.is Bætir ekki skaðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary á sigurbraut - baráttan harðnar

Clinton-hjónin Ég fæ ekki betur séð en að Hillary Rodham Clinton sé á sigurbraut í baráttunni um hver verði forsetaefni demókrata á næsta ári. Það þarf ansi margt að breytast á þeim fimmtán vikum sem eru til fyrstu forkosninganna i flokknum til að koma í veg fyrir sigur hennar. Munurinn á milli hennar og keppinautanna sjö er að aukast frekar en hitt og því skiljanlegt að þeir John Edwards og Barack Obama grípi til vopna til að reyna að jafna stöðuna út, áður en baráttan við forsetafrúna fyrrverandi verður óvinnandi.

Mesta stuðið hefur verið á milli Hillary og Obama undanfarna mánuði. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að telja að annað þeirra verði frambjóðandi demókrata. Held að möguleikar Edwards séu þó næstir því, hinir eiga einfaldlega ekki séns og það verður áhugavert að sjá hversu hratt byrjar að saxast niður af hópnum þegar að líður á janúarmánuð og harkan hefst fyrir alvöru með forkosningunum. Obama hefur skotið talsvert á Hillary, þó undir rauðri kratarós frekar en hitt en það er að færast harka í leikinn og greinilegt að Obama er dauðhræddur um að Hillary taki þetta með trompi er yfir lýkur.

Margir demókratar líta auðvitað á Hillary og Obama sem draumateymi í forsetakosningunum eftir rúma þrettán mánuði. Sjálfur hefur Obama þó neitað því alfarið að taka boði um að verða varaforsetaefni Hillary og ég held að enginn hafi lagt í að spyrja Hillary að því hvort hún tæki að sér aukahlutverk með Obama í frontinum. Staðan er einfaldlega þannig núna að það leggur enginn í það, enda eru möguleikar Hillary mun betri og hún myndi ekki taka varaforsetahlutverk að sér. Tapaði hún slagnum úr því sem komið er myndi það tákna endalok stjórnmálaferils hennar. Það er upp á mikið að spila í sjálfu sér.

Hvernig svo sem fer virðist Obama hafa veðjað á rétt. Hann hefur engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem sá er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn í forystusveit flokksins með einum hætti eða öðrum. Sjálfur veit ennfremur Edwards nú að tap núna skaðar hann verulega. Hann fórnaði þingsætinu síðast fyrir aukahlutverk með Kerry og verið án hlutverks eftir að mistókst að landa sigri þá.

Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú. Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það stefnir allt í að sigurganga Hillary sé í spilunum. Allt annað yrðu stórpólitísk tíðindi úr þessu. Baráttan sýnist því vera Hillary vs. rest. Þar eru átakapunktarnir greinilegir og eflaust munu andstæðingar hennar eiga eftir að herða róðurinn gegn henni verulega þær vikur sem eru í að alvaran verði sönn í baráttunni.

Skoðanakannanir vestanhafs benda til þess að við fáum að sjá að ári þann pólitíska slag sem stefndi svo lengi vel í að yrði sviðsettur í New York árið 2000; keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani. Þau standa sterkast að vígi. En eins og staðan er núna er alls óvíst hver verði fulltrúi repúblikana í kosningunum. Þar gnæfir enginn einn yfir þó Giuliani leiði vissulega í könnunum. Forskot Hillary meðal demókratanna er það mikið flestir telja hana örugga alla leið í lokabaráttuna. Enda er sótt að henni bæði innan eigin raða sem og annarsstaðar. Hún er umdeild.

Það stefnir í spennandi forsetakosningar á næsta ári. Einn óvinsælasti forseti bandarískrar stjórnmálasögu heldur brátt inn í pólitíska sólsetrið heima í Texas og stefnir í miklar breytingar í Washington hvernig sem fer í baráttunni um Hvíta húsið. Repúblikanar gætu vel stokkað sig hressilega upp með brotthvarfi bæði Bush og Cheney af pólitíska sviðinu. Hverjir svo sem mætast að lokum á örlagadeginum 4. nóvember 2008 má fullyrða að næsti forseti Bandaríkjanna verði harla ólíkur þeim núverandi.

mbl.is Hillary Clinton sætir vaxandi gagnrýni keppinauta sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján biður skipaverkfræðinginn afsökunar

Kristján L. Möller Það var gríðarlegt pólitískt klúður hjá Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra, að kenna Einari Hermannssyni, skipaverkfræðingi, einum um Grímseyjaferjuklúðrið mikla. Seint og um síðir hefur hann nú beðið Einar afsökunar. Er með ólíkindum hversu mjög Kristján hefur dregið þá afsökunarbeiðni og eiginlega honum til skammar að hafa beðið svo lengi. Með þessu var ráðherrann að hengja bakara fyrir smið. En betra er jú seint en aldrei að átta sig á mistökum sínum.

Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, bætti ekki úr skák fyrir ráðherranum þegar að hann geystist fram á ritvöllinn til að reyna að verja þetta klúður ráðherrans. Hann hafði enga stjórn á orðavali sínu í skrifum til Bjarna Harðarsonar, alþingismanns, og minnti mig á fyllerístal varaformanns Frjálslynda flokksins í garð undirritaðs, Halldórs Blöndals og Björns Bjarnasonar, nótt eina á spjallvef fyrir þrem árum, þar sem hann vildi sprengja okkur til helvítis. Stjórnlaus og ómálefnaleg skrif sem voru engum manni í pólitísku starfi til sóma.

Róbert missti svo enn og aftur stjórn á sér í spjallþætti fyrir viku þar sem hann réðst að Bjarna með skít og skömm. Var svona á tímapunkti varla að maður tryði því að þar færi maður sem hefði verið fréttastjórnandi á einu alíslensku fréttastöðinni í sjónvarpi. Róbert varð sér til skammar og opinberaði sinn innri mann rétt eins og varaformaður Frjálslynda flokksins á sínum tíma. Hann varð sér algjörlega til skammar og gengisfelldi sig svo um munaði. Hann gerði illt verra fyrir Kristján Lúðvík Möller, sem væntanlega vildi reyndan fjölmiðlamann til að aðstoða sig til að ná til pressunnar en ekki draga sig upp úr svaðinu í leiðinni.

Kristján er maður að meiri fyrir að játa á sig mistök sín og leysa þennan hnút sem hann átti svo erfitt með að leysa með aðstoð Róberts Marshalls.

mbl.is Kristján biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón talar hreint út - átakafundur frjálslyndra

Guðjón Arnar Átakafundur stuðningsmanna Frjálslynda flokksins stendur nú yfir á Grand Hótel ef marka má fréttir. Þar mun verða talað hreint út um samskiptavanda almennra flokksmanna við forystuna og ólguna sem skapast hefur vegna ráðningar framkvæmdastjóra. Sigurjón Þórðarson, fyrrum alþingismaður, hefur nú sagt opinberlega að Guðjón Arnar Kristjánsson hafi lofað sér framkvæmdastjórastöðu flokksins í aðdraganda kosninga næði hann ekki endurkjöri hér í Norðausturkjördæmi.

Lengi vel vildi Sigurjón ekki tala um ágreininginn vegna ráðningar framkvæmdastjóra en hefur rofið þögnina vegna þessa máls. Það er nokkuð um liðið frá því að ég fékk frá áreiðanlegum heimildum fregnir um þennan ágreining og sagði frá honum hér á vefsíðunni síðsumars. Allt sem þar var sagt hefur reynst rétt og hefur síðar verið staðfest af Sigurjóni sjálfum í fjölmiðlum. Sögusagnir hafa verið um að framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins hafi gengið frá ráðningu Magnúsar Reynis Guðmundssonar í stöðuna fyrir tíu dögum en flokksforystan hefur ekki viljað opinbera það formlega, sem sýnir ólgu málsins.

Sigurjón Þórðarson hefur gefist upp á þægilegheitum í þessu máli eftir stigmagnandi ólgu milli flokksforystunnar og grasrótar flokksmanna sem styðja Sigurjón. Það er greinilegt að tekist er á, að mestu hefur það verið bakvið tjöldin en ólgan er að koma æ betur upp á yfirborðið og farið er að tala í fjölmiðlum um þessi mál með mun hvassari hætti en áður. Það vekur athygli að Sigurjón tali svo áberandi um stöðu mála, eins og mun hafa verið í Fréttablaðinu í morgun og í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Fundurinn sem fyrr um ræðir átti fyrst að vera á Sægreifanum en þess í stað verður hann á Grand Hótel. Það verður fróðlegt að heyra af honum og ekki síður hvort að forysta flokksins mæti til fundar til að tala við almenna flokksmenn. Frjálslyndi flokkurinn er löngu þekktur fyrir eigin sundurlyndi og innan við ár er síðan að stofnandi flokksins og dóttir hans, Margrét Sverrisdóttir, yfirgáfu hann. Varla virðist horfa til bjartari tíðar ef marka má þessa ólgu sem við blasir.


Guðlaugur Þór sparkar Don Alfredo

Alfreð Þorsteinsson Það er ánægjulegt að heyra að Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hafi ákveðið að sparka Alfreð Þorsteinssyni úr formennsku bygginganefndar hátæknisjúkrahússins og leggja nefndina niður og færa verkefnin annað. Það eru um tvö ár liðin frá því að Jón Kristjánsson skipaði Alfreð til að stýra uppbyggingu sjúkrahússins til að rýma leiðtogastól framsóknarmanna í Reykjavík með athyglisverðum hætti. Eftir alla framúrkeyrsluna með Orkuveituhöllina og annan glamúrinn vakti mikla athygli að sjá þessa dúsuveitingu til Alfreðs.

Í pistli á vef mínum þann 27. maí sl, nokkrum dögum eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson varð heilbrigðisráðherra, spurði ég mig um stöðu Alfreðs Þorsteinssonar í þessari byggingarnefnd og ítrekaði það í öðrum pistli fyrir hálfum mánuði þar sem ég fór yfir fyrstu 100 daga ráðherrans í nokkrum orðum. Þar eiginlega fannst mér vanta að þessi nefnd yrði stokkuð upp og haldið í aðrar áttir. Það er gott að heilbrigðisráðherrann er sama sinnis og snúi hlutum til annars vegar.

Það er kómískt að það skuli vera Guðlaugur Þór Þórðarson sem slái Alfreð af. Eins og flestir vita tók Gulli við af Alfreð sem stjórnarformaður í Orkuveitunni. Það er þó varla undrunarefni sé litið til sögu þeirra saman í stjórnmálum, sérstaklega innan stjórnar Orkuveitunnar þegar að Alfreð vann sem kóngur í ríki sínu í fyrirtækinu og hélt minnihlutafulltrúum Sjálfstæðisflokksins algjörlega í skugganum.

mbl.is Stjórnin tekin af Alfreð Þorsteinssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón staðfestir sögusagnir - frjálslyndur hasar

Sigurjón Þórðarson Nú hefur Sigurjón Þórðarson, fyrrum alþingismaður, staðfest formlega á bloggvef sínum sögusagnir þess efnis að forysta Frjálslynda flokksins hafi lofað honum framkvæmdastjórastöðu flokksins færi hann í framboð í Norðausturkjördæmi og næði ekki endurkjöri þar. Mikið hefur verið skrifað um málið síðustu vikur og sögusagnir ganga um að þegar hafi verið ákveðið, þó ekki hafi það verið tilkynnt og jafnvel neitað, af framkvæmdastjórn að Magnús Reynir Guðmundsson verði áfram framkvæmdastjóri flokksins.

Það virðist vera hasar innan Frjálslynda flokksins vegna málsins, sérstaklega í ljósi loforðsins um stöðuna til Sigurjóns sem væntanlega eigi að svíkja. Það má allavega skilja Sigurjón í bloggskrifunum sem svo að hann bíði eftir efndum loforðsins af hálfu Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins, og telji flest benda til að svíkja eigi hann um það. Á bloggsíðu Jens Guðmundssonar hér á Moggablogginu hefur verið talað opinskátt um málið og hefur Kolbrún Stefánsdóttir, ritari flokksins, átt þar í hörðum orðaskiptum við flokksmenn og greinilegt að ólga ríkir undir yfirborðinu.

Eftir því sem sagan segir mun verða fundur á veitingastaðnum Sægreifanum annað kvöld og stefnir þar í að tekist verði á um þetta mál sem og annað. Þar muni forysta flokksins mæta óbreyttum flokksmönnum og fara yfir stöðu mála, t.d. varðandi loforð til Sigurjóns um framkvæmdastjórastöðuna. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist næst í þessum flokki sem hefur svo lengi verið þjakaður af innri átökum um menn og málefni.

Ungir sjálfstæðismenn segja Vilhjálm og Sigrúnu Björk vinna gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins

Sigrún Björk Jakobsdóttir Það vekur mikla athygli að talað er gegn ákvörðunum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra, og Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, bæjarstjóra hér á Akureyri, í ályktun um innanríkis- og stjórnsýslumál á SUS-þingi, sem haldið var á Seyðisfirði um helgina. SUS telur Vilhjálm hafa unnið gegn sjálfstæðisstefnunni með nokkrum málum, t.d. með afskiptum af ÁTVR, klámráðstefnumálinu svokallaða og spilakassamálinu.

Sigrún Björk fær sinn skell í ályktuninni, en hörmuð er sú ákvörðun hennar að meina ungu fólki um aðgang að tjaldstæðum Akureyrarbæjar um verslunarmannahelgina í síðasta mánuði. Segir orðrétt í fyrrnefndri ályktun að þetta hafi verið óverjandi ákvörðun sem stangist á við grunnhugmyndir sjálfstæðismanna og sjálfstæðisstefnuna.

Þetta er að mínu mati mjög merkileg ályktun - það er ekki á hverjum degi sem SUS sendir svo hvöss skilaboð til kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á sveitarstjórnarstiginu. En með þessu sést að ungir sjálfstæðismenn hika ekki við að senda kjörnum fulltrúum tóninn mislíki þeir verk þeirra.

Þórlindur kjörinn formaður SUS

Þórlindur Kjartansson Þórlindur Kjartansson var í dag kjörinn formaður SUS á sambandsþingi austur á Seyðisfirði með yfir 90% greiddra atkvæða. Hafði hann einn tilkynnt framboð og hlýtur afgerandi stuðning til verka. Teitur Björn Einarsson var kjörinn fyrsti varaformaður SUS sömuleiðis með þorra atkvæða. Báðir hafa verið virkir í ungliðastarfinu í fjöldamörg ár og þeir eru þekktir fyrir að vinna vel og af krafti.

Vil ég óska Þórlindi og Teiti Birni til hamingju með kjörið á þinginu og ennfremur óska þeim góðs í verkum fyrir SUS næstu tvö árin. Sömuleiðis vil ég óska nýrri stjórn SUS sem kjörin var á sambandsþinginu heilla í verkum og vona að þau vinni vel fyrir ungliðahreyfinguna á starfstímanum. Framundan er vonandi öflug vinna milli kosninga, en sá tími skiptir ekki síður máli en hefur verið síðasta starfstímabil þar sem fram fóru tvær kosningar.

Þetta SUS-þing markar endalok virkrar þátttöku minnar í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Ég ákvað fyrir margt löngu að gefa ekki kost á mér aftur í stjórn SUS og hætta, allavega um skeið, virku starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og horfa í aðrar áttir. Ég hef átt mjög góðan tíma í stjórninni og verið mjög virkur í starfinu á þeim tveim kjörtímabilum sem ég hef átt þar sæti. Var ég allan þennan tíma búsettur á Akureyri og það eru fá dæmi á þessum árum um að menn hafi sinnt stjórnarsetu úr slíkri fjarlægð.

Fyrst og fremst vil ég þakka öllum þeim sem ég sat með í stjórn SUS á þessum árum og voru virkir í að skrifa á vef SUS á ritstjóratíma mínum hjá sus.is kærlega fyrir samstarfið. Þetta var virkilega ánægjulegur tími og ég vil þakka fyrir vináttu allra þeirra sem ég hef unnið með á þessu nokkuð langa skeiði sem ég hef verið virkur í ungliðastarfinu með einum eða öðrum hætti. Þetta hafa verið öflug og góð ár - umfram allt skemmtileg.

Ég vil enn og aftur óska nýrri stjórn góðs í þeim verkum sem framundan eru. Nýjir forystumenn njóta greinilega mikils trausts þingfulltrúa á sambandsþinginu og ég lýsi yfir ánægju minni með kjör þeirra. Bind miklar vonir við verk þeirra og nýrrar stjórnar.

mbl.is Þórlindur Kjartansson nýkjörinn formaður SUS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk klókindi bragðarefsins Pútíns

Vladimir Putin Forsætisráðherraskiptin í Rússlandi sýna umfram allt pólitísk klókindi bragðarefsins Vladimirs Pútíns. Hann ætlar sér greinilega að velja forsetaefni að ári til að fylla upp í forsetaferil sinn og ætlar sér að fara fram í kosningunum árið 2012. Þetta blasir við öllum sem sér atburðarásina réttum augum og skynjar hvað er framundan. Pútín hefur á áratug gert rússneska pólitík algjörlega að sinni pólitík og tryggt sér bæði mikil völd og áhrif á forsetastóli.

Fyrir áratug, síðsumars 1999, vissu fáir utan Rússlands hver Vladimir Pútín var þegar að Borís Jeltsín ákvað að skipa hann forsætisráðherra. Hann var vissulega gegnheill leyniþjónustukall frá KGB-tímanum og fáum óraði fyrir að þar færi næsti risi rússneskra stjórnmála, lykilspilari á alþjóðavettvangi. Margir töldu þá að þar væri kominn enn einn forsætisráðherrann sem færi fyrir lok forsetaferils Jeltsíns, sem hafði haft tögl og hagldir allt frá því að hann hafði tekið völdin afgerandi eftir valdaránið misheppnaða árið 1991 og hafði risið upp úr öskustó kommaveldisins. Hann var skapmikill drykkjumaður sem markaði áhrif - og var líka þekktur fyrir að sparka forsætisráðherrum.

Mörgum að óvörum ákvað Jeltsín að segja af sér forsetaembættinu í áramótaávarpi á gamlársdag 1999. Allt í einu var leyniþjónustudulan Pútín orðinn einn valdamesti maður heims sem starfandi forseti landsins fram að kosningum. Hann sigraði forsetakosningarnar í mars 2000 með mjög sannfærandi hætti og var endurkjörinn strax í fyrri umferð árið 2004. Hann er einn vinsælasti stjórnmálamaður í sögu Rússlands, hefur allt að 80% stuðning í könnunum - er með alla fjölmiðla að mestu á bakvið sig og ríkir með járnkrafti eins og fyrrum lykilstjórnmálamenn Sovétríkjanna. Hefur markað sig sem hinn stóra afgerandi drottnara veldis síns.

Staðan í Rússlandi er mikið áhyggjuefni. Mér finnst þar horfa ansi margt til fortíðar og vert að hugsa um framtíðina sem blasir við. Stjórnarskráin meinar Pútín að gefa kost á sér í kosningunum næsta vor og rúmlega átta ára forsetaferli er því að ljúka. Atburðarás vikunnar er þó ekki beinlínis með þeim hætti að Pútín ætli sér að hverfa út í sólarlagið eins og George W. Bush, sem brátt lætur ennfremur af embætti. Hann ætlar sér að stjórna atburðarásinni eins og kvikmyndaleikstjóri úr fjarska, halda um alla spotta og ráða örlögum landsins, jafnt sem stuðningsmannahjörðar sinnar. Hann ætlar sér að vera meginspilari áfram á sviðinu.

Það kæmi mér ekki að óvörum ef að Pútín ætlaði sér að velja þægan eftirmann. Líklegast er að það verði annaðhvort þessi litlausi nýji forsætisráðherra, Viktor Zubkov, eða Sergei Ivanov - menn sem myndu ganga fyrir björg bæði Pútín þá um það. Það á að setja þægan innanbúðarmann inn sem uppfyllingu til fjögurra ára. Ekkert meinar Pútín að fara fram eftir fimm ár í kosningunum þá og væntanlega er plottið að þá komi hann með sinn steinrunna svip eins og riddarinn á hestinum hvíta inn á pólitíska sviðið í Rússlandi.

Á meðan horfum við öll út í gráðið og hugsum okkur um það hvort að Rússland sé að verða sama sjúka einræðisríkið og það var áður en múrinn féll og kommagrýlan var sigruð. Flashbackið til fortíðar í Rússlandi er verulegt áhyggjuefni, segi ég og skrifa.

mbl.is Pútín segir Zúbkov hugsanlegan arftaka sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband