Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.9.2007 | 12:11
Sigríður Lillý tekur við af Karli Steinari

Ráðning Karls Steinars fyrir fjórtán árum bar á sér brag þess að vera pólitísk ráðning, enda hafði hann verið alþingismaður Alþýðuflokksins árum saman og hann tók við embættinu af öðrum þingmanni og ráðherra Alþýðuflokksins á fyrri tímum, Eggert G. Þorsteinssyni.
Eins og flestum er í fersku minni var Sigríður Lillý varaþingmaður Kvennalistans kjörtímabilið 1987-1991. Það er hið eina rétta að ráða starfsmann innan TR til verksins en nota ekki forstjórastólinn til pólitískra bitlinga eins og svo oft hefur verið gert áður.
![]() |
Sigríður Lillý Baldursdóttir nýr forstjóri TR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.9.2007 | 21:19
Pólitískt teboð fyrir tvo í Downingstræti 10

Það verður ekki um það deilt að Margaret Thatcher gjörbreytti bresku stjórnmálalandslagi á ellefu ára forsætisráðherraferli sínum. Ekki aðeins hafði hún víðtæk áhrif innan Íhaldsflokksins í stefnumótun og áhrifum á breskt samfélag með því, hún breytti líka hugsjónum og stefnumarkmiðum innan forystusveitar Verkamannaflokksins. Tony Blair sótti mjög afgerandi í smiðju Thatchers eftir að hann varð leiðtogi flokksins árið 1994 og tók við keflinu af John Smith, sem síðustu tvö ár ævi sinnar markaði Verkamannaflokknum aðra sýn á leiðtogastóli. Báðir færðu þeir flokkinn til hægri.
Thatcher fór ekki leynt með að hún taldi Tony Blair merkasta leiðtoga Verkamannaflokksins frá því er Hugh Gaitskell var og hét. Blair stóð enda undir nafni sem hægrikrati og var að margra mati aldrei sannur vinstrimaður á árunum sem hann ríkti í Downingstræti 10. Enda voru verkalýðsgarmarnir í flokknum ánægðastir allra þegar að þeir losnuðu við hann. Púað var á Blair á síðasta TUC-fundinum sem hann sat sem flokksleiðtogi. Teboð Brown-hjónanna fyrir Margaret Thatcher, sterkasta leiðtoga breskra hægrimanna frá dögum stríðskempunnar Churchills, er því staðfesting á því hversu sterkan sess járnfrúin hefur. Hún markaði spor á fimmtán ára leiðtogaferli og árunum ellefu í eldlínunni sem fylgir vistinni í Downingstræti.
Ekki aðeins var frú Thatcher boðið í te. Sarah Brown og Margaret Vaughan, eiginkona Alastair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, buðu henni að skoða sig um á efri hæðum Downingstræti 10, þar sem Thatcher-hjónin bjuggu á árunum ellefu sem hún var við völd. Forsætisráðherrann bauð henni í skoðunarferð um skrifstofur sínar og vistarverur og munu þau hafa drukkið te í Thatcher-stofunni svokölluðu og hún hitti börn hans. Það er merkilegt að leiðtogi Verkamannaflokksins skuli bjóða sigursælasta breskra íhaldsmanna í aldir í slíka heimsókn og umfram allt sýnir það sess Margaret Thatcher í breskum stjórnmálum sautján árum eftir að hún lét af embætti.
Það væri fróðlegt að heyra hvernig þetta teboð hefur farið í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Á nærri sömu stund og teboðið stóð var kynnt stefnumótun flokksins í umhverfismálum. Skoðanakannanir hafa verið að sýna sterka stöðu Browns og Verkamannaflokksins. Áður en Tony Blair lét af embætti í sumar þótti allt stefna í að Cameron yrði forsætisráðherra og Íhaldsflokkurinn hafði tíu prósentustiga forskot í könnunum. Taflið hefur snúist við á skömmum tíma og þeir eru mun færri sem leggja peningana sína undir á það að Íhaldsflokkurinn vinni næstu kosningar. Hveitibrauðsdögum Browns er þó að ljúka og stefnir í spennandi þingvetur.
Það er vissulega mjög ánægjulegt að Thatcher sé sýnd slík virðing á ævikvöldi sínu. Hún markaði spor á löngum stjórnmálaferli. Hún hafði áhrif á báða stærstu flokkana á lykilskeiði sínu er hún ríkti í Downingstræti 10. Má nú varla á milli sjá hvor flokkurinn fylgir meira grunnstefnu hennar og áherslum á löngum valdaferli.
Það er í sjálfu sér sterk arfleifð sem allir stjórnmálamenn geta sannarlega verið stoltir af - það að geta haft megináhrif á andstæðing sinn eftir svo langan tíma vekur athygli. Þann sess hefur Margaret Thatcher og það staðfestist með teboðinu í Downingstræti og aðdáun húsbóndans þar á henni.
![]() |
Thatcher mætir í teboð í Downing stræti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2007 | 12:55
Forysta Frjálslyndra svíkur loforð við Sigurjón

Enn hefur ekki verið tilkynnt opinberlega af hálfu Frjálslynda flokksins um þá ákvörðun að ráða Magnús Reyni sem framkvæmdastjóra og þar með svíkja loforðið við Sigurjón. Sögur herma að gengið hafi verið frá því samhliða ákvörðun um þingframboð Sigurjóns hér í Norðausturkjördæmi, sem var vonlítið alla tíð, að hann yrði framkvæmdastjóri flokksins næði hann ekki endurkjöri á Alþingi. Í kjölfarið var ákveðið að Kristinn H. Gunnarsson, sem verið hafði alþingismaður Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, tæki sæti Sigurjóns, annað sætið á eftir Guðjóni Arnari, í Norðvesturkjördæmi.
Ólga ríkir vegna málsins innan Frjálslynda flokksins samkvæmt mínum heimildum. Grasrót Frjálslynda flokksins mun styðja Sigurjón til verka og vill að honum verði tryggður sess innan forystu flokksins á þessu kjörtímabili, fyrst að hann er ekki í þingflokki Frjálslynda flokksins. Að margra mati hefur Sigurjón alla tíð verið áberandi í innra starfinu, unnið verkin sem hefur þurft að vinna. Eftir því sem heimildir segja er innra starf Frjálslynda flokksins í molum eftir alþingiskosningarnar í vor. Þar sé mikið verk framundan og deildar meiningar eru um ágæti framkvæmdastjórans, sem þykir nátengdur formanni flokksins, enda að vestan.
Staða Frjálslynda flokksins er mjög sérstök eftir þingkosningarnar í vor. Þingflokknum var hent fyrir borð, að formanninum frátöldum, og eftir stóð undarleg blanda af þingflokk. Á meðan að Sigurjón og varaformaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson féllu náðu Kristinn H. Gunnarsson (sem var þingmaður Framsóknarflokksins þangað til rétt fyrir kosningar), Jón Magnússon (sem var formaður Nýs afls) og Grétar Mar Jónsson (varaþingmaður Magnúsar Þórs á síðasta kjörtímabili) kjöri sem þingmenn flokksins. Varaformaðurinn var utangarðs og líka ritari flokksins, Kolbrún Stefánsdóttir, sem mistókst naumlega að verða fyrsta konan á þingi fyrir flokkinn.
Það virðast vera spennandi tímar framundan enn eina ferðina í Frjálslynda flokknum. Ólga og sundurþykkja hafa einkennt flokkinn alla tíð. Flestum er í fersku minni að á fyrsta kjörtímabili flokksins gengu Valdimar Jóhannesson (sem nærri var því að ná kjöri á Alþingi sem jöfnunarmaður í kosningunum 1999) og Gunnar Ingi Gunnarsson, sem hafði verið varaþingmaður Sverris Hermannssonar, úr flokknum og Gunnar Ingi hleypti Margréti Sverrisdóttur ekki inn á þing. Auk þess gekk Gunnar Örlygsson úr flokknum með hvelli og allir muna eftir því þegar að Margrét yfirgaf flokkinn í kastljósi fjölmiðla í janúar.
Er enn ein krísan í uppsiglingu með svikum á loforðinu við Sigurjón? Er grasrótin fúl út í forystu flokksins, sérstaklega formanninn, fyrir að svíkja þetta loforð? Það er ekki nema von að áhorfendur sápuóperunnar um völd og áhrif í Frjálslynda flokknum spyrji.
8.9.2007 | 00:10
Skuggabaldur minnir á sig eftir langa fjarveru

Það eru að verða þrjú ár liðin frá því að Osama bin Laden birtist síðast á myndbandi við blálok kosningabaráttunnar fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2004 þar sem George W. Bush og John Kerry áttust við í hnífjafnri baráttu. Þá hafði hann ekki sést í ár og notaði tækifærið þá til að senda boðskapinn út á þeirri stundu sem óákveðnu kjósendurnir í lykilfylkjunum voru að taka afstöðu. Margir hafa fullyrt að tjáning bin Laden á þeirri pólitísku ögurstund hafi tryggt Bush forseta endurkjör á forsetastól, önnur fjögur ár í Hvíta húsinu. Það verður sennilega um það deilt alla tíð en orðrómurinn er afgerandi.
Þegar að bin Laden lét í sér heyra fyrir þrem árum gekk hann mjög langt í orðavali. Þá kom hann reyndar í fyrsta skipti með afdráttarlausa yfirlýsingu þess efnis að hann hefði staðið að hryðjuverkunum í Bandaríkjunum haustið 2001. Sagðist hann þá geta útlistað bestu leiðina fyrir Bandaríkin til að "forðast annað Manhattan". Bin Laden sagði þá einnig að árásin á Bandaríkin hefði verið nauðsynleg til að endurheimta frelsi og kenna Bandaríkjamönnum lexíu, hann hefði unnið að henni allt frá árinu 1982. Sagði hann þá ennfremur að varast skyldi að reita Araba til reiði. Ávarpið þótti stuðningstal fyrir hönd Kerrys en það var ekki beint vel þegið í þeim herbúðum.
Þetta var á föstudeginum fyrir forsetakjörið. Þá sagði Bush í viðbrögðum: "Let me make this very clear to the terrorists! Americans will not be intimidated or influenced by an enemy of our country. I'm sure Senator Kerry agrees with this." Sagðist hann treysta því að bandarískir kjósendur létu hótanir hryðjuverkamanns ekki hafa áhrif á dómgreind sína. Kerry svaraði að bragði: "Let me just make it crystal clear, as Americans we are absolutely united in our determination to hunt down and destroy Osama bin Laden and the terrorists. They are barbarians. I will stop at absolutely nothing to hunt down, capture and kill the terrorists wherever they are and whatever it takes".
Þetta var þá. Nú er tal hryðjuverkamannsins lágstemmdara svo sannarlega. Þrem árum síðar birtist bin Laden með dökkt skegg en var með grátt fyrir þrem árum. Það er ágætt að vita að skuggabaldur sjálfur notar litarefni til að halda sér ferskum. Hann er fjarri því dauður eins og margir töldu eftir þriggja ára fjarveru, enda talar hann um Sarkozy og Brown - hann er greinilega það vel lifandi að vita að Tony Blair og Jacques Chirac eru farnir að gera annað - sá fyrrnefndi er reyndar orðinn friðarins maður í Mið-Austurlöndum.
Eins og flestir vita styttist óðum í að George W. Bush láti af embætti. Eftirmaður hans verður kjörinn eftir aðeins fjórtán mánuði í líflegum forsetakosningum. Þar koma saman tveir nýjir fulltrúar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að hryðjuverkamaðurinn beitir áhrifum sínum og myndbandsspólum þegar að þeim spennandi kosningum kemur og Bush hverfur af hinu pólitíska sjónarsviði.
Hatur bin Laden á vesturveldunum var enda löngu komið til áður en George W. Bush varð forseti, hvað þá ríkisstjóri í Texas og kjör nýs forseta breytir varla miklu í þessum efnum.
![]() |
Al-Jazeera sýndi myndband með bin Laden |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2007 | 00:58
Góð byrjun hjá nýjum heilbrigðisráðherra

Ennfremur mætti nefna þær ákvarðanir að skipa Benedikt Jóhannesson, stærðfræðing, sem stjórnarformann Tryggingastofnunar ríkisins, Steingrím Ara Arason sem formann samninganefndar heilbrigðisráðherra (hins sama Steingríms Ara sem sagði sig reyndar úr einkavæðingarnefnd með þeim orðum að "hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum"), Þórólf Þórlindsson sem forstjóra Lýðheilsustofnunar og Rúnu Hauksdóttur Hvannberg sem formann lyfjaverðsnefndar í stað Höllustaðabóndans margfræga.
Nú nýlega var Davíð Á. Gunnarsson færður úr starfi ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins og settur í sérverkefni undir utanríkisráðherranum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég held að sú tilfærsla sé mjög gott skref, hið rétta í stöðunni, og ekki er verra að til verka í staðinn sé valin Berglind Ásgeirsdóttir, sem er mjög vönduð og hæf kona sem hefur víða unnið gott starf. Ráðherrann er að marka sér sess sem manns með hreint borð sem vill gera hlutina með sínu lagi en ekki annarra og hefur stokkað spilin vel upp.
Guðlaugur Þór Þórðarson hefur því farið vel af stað og fyrstu 100 dagarnir lofa góðu um verk hans. Það sem væri heiðarlegast og best núna fyrir hann væri að stokka upp málefni hátæknisjúkrahússins margfræga, skipta um formann í bygginganefnd þess og velja nýju sjúkrahúsi annan stað en þann sem nú hefur verið rætt um. Það yrði rós í hnappagat ráðherrans. En ég vil semsagt hrósa Gulla fyrir góða byrjun og vona að næstu hundrað dagar verði jafnvel heppnaðir og þeir hinir fyrstu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.9.2007 | 23:58
Mun Fred Thompson feta í fótspor Reagans?

Mér líst mjög vel á það að Thompson gefi kost á sér. Ég held að það sé mun opnari barátta um útnefninguna framundan hjá Repúblikanaflokknum fyrir þessar forsetakosningar en Demókrataflokknum, þar sem flest bendir nú til að Hillary Rodham Clinton, fyrrum samstarfsmaður Thompsons í öldungadeildinni, fái jafnvel allt að því krýningu. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, getur ekki gefið kost á sér til endurkjörs og Dick Cheney, varaforseti, fer ekki fram, svo að staðan er galopin hjá repúblikunum og gott að vænlegum valkostum fjölgi. Það blasir við að baráttan muni standi á milli Thompson, Mitt Romney og Rudy Giuliani. John McCain virðist heillum horfinn.
Það eru að verða þrír áratugir liðnir frá því að Ronald Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna, tæplega sjötugur að aldri, elstur til þessa. Að baki átti Reagan leikferil og hafði verið í kjörnu pólitísku embætti áður sem ríkisstjóri í Kaliforníu. Reagan var þó aldrei talinn úrvalsleikari og myndir hans þóttu misjafnar. Það verður allavega seint sagt um Reagan að hann hafi verið einn stórleikaranna í bransanum. Það verður sennilega hið sama sagt um Thompson. Hann var aldrei aðalleikari en þess þá frekar sem trausti maðurinn inni í misjafnlega sterkum myndum, sumum þeirra stórmyndum og lék jafnan mann sem þurfti að horfast í augu við stórt verkefni sem takast þurfti á við án hiks.
Gott dæmi um þetta eru tvenn hlutverk Thompsons; flugumferðarstjórans staðfasta í Die Hard 2 og starfsmannastjóra Hvíta hússins sem horfist í augu við þann veruleika að geðsjúkur maður er með vinnuveitanda hans, sjálfan forsetann, í sigtinu í In the Line of Fire. Fred Thompson hefur oft sagt að hann hafi endað sem leikari tilviljana vegna. Hann hafi aldrei ætlað sér það hlutskipti. Enda varð Thompson ekki leikari fyrr en á seinni hluta níunda áratugarins og hafði fram að því verið lögmaður og vakti til dæmis athygli í lagateyminu í Watergate-málinu á áttunda áratugnum, sem varð pólitískur banabiti Richards Nixons, sem neyddist til að segja af sér forsetaembættinu eftir mikil átök við þing og hæstarétt.
Thompson hefur reyndar leikið forseta, allavega tvisvar að mig minnir. Hann lék Grant, 18. forsetann, í sjónvarpsmyndinni Bury My Heart at Wounded Knee nýlega og í annarri mynd fyrir nokkrum árum líka, man þó ekki nafnið á henni í svipinn. Thompson hefur oft leikið lögreglumann, saksóknara eða þingmann - sem átti vel við, bæði áður og eftir að hann sat í öldungadeildinni. Hann hefur verið bæði í gamanmyndum og dramatískum myndum með spennuívafi. Fyrrnefndar tvær myndir standa þar eflaust fremst en hann var líka í Feds, endurgerð Born Yesterday, Cape Fear, Class Action og Days of Thunder. Svo lék hann í nokkrum þáttum af Sex and the City, ekki amalegur ferill fyrir forsetaefni.
Fred Thompson sóttist eftir sæti í öldungadeildinni í Tennessee í kjölfar þess að Al Gore varð varaforseti árið 1992. Kosið var um sæti Gore árið 1994 til tveggja ára, til að klára kjörtímabil hans. Thompson vann frambjóðanda demókrata með allavega 20% mun og náði þar með sæti af demókrötum. Hann lék það eftir í kosningunum 1996 er hann sóttist eftir eigin sex ára tímabili. Thompson tilkynnti strax í upphafi að hann myndi aðeins fara fram tvisvar og stóð við það loforð með því að hætta í öldungadeildinni í ársbyrjun 2003, eftir átta ára þingmennsku.
Thompson tókst að ná kjöri í fylki sem Clinton hafði unnið nokkuð afgerandi bæði í forsetakosningunum 1992 og 1996 og var sögulega tengt demókrötum vegna þess að Gore var þaðan. Hann átti stóran þátt í sigri George W. Bush í Tennessee árið 2000. Sá sigur varð sögulegur og mjög áberandi, enda hefði Al Gore orðið forseti Bandaríkjanna ef honum hefði tekist að sigra í heimafylkinu sínu. Þá hefði Flórída aldrei skipt máli fyrir Gore. Kaldhæðnislegt og sennilega var tapið þar mun sárara fyrir Gore en að ná ekki að hafa sigur í sólskinsfylkinu Flórída.
Thompson hóf aftur leik þegar að hann hætti í öldungadeildinni. Það vakti athygli að hann hóf leik í sjónvarpsþáttaröðinni Law and Order árið 2002, nokkrum mánuðum áður en kjörtímabili hans lauk formlega. Með því varð hann fyrsti þingmaður Bandaríkjanna sem starfaði við leik samhliða þingmennskunni. Hann var í leikarahópi Law and Order í fimm ár, í hlutverki saksóknarans Branch. Law and Order hefur alla tíð verið einn af mínum uppáhaldsþáttum og það var eftirsjá af Thompson úr leikaraliðinu fyrr á árinu er hann hóf undirbúning forsetaframboðsins.
Það munu margir fagna forsetaframboði Thompsons. Það hefur vantað afgerandi fulltrúa íhaldsmanna til framboðs í bandarísku forsetakosningunum og hann fyllir visst tómarúm sem þótti áberandi meðal frambjóðenda repúblikana. Hann kemur með ekki síðri stjörnuljóma í framboðið og Rudy Giuliani og getur höfðað til breiðs hóps landsmanna ef hann heldur rétt á spilunum. Beðið hefur verið lengi eftir framboðinu og ljóst að viss eftirvænting hefur verið eftir því hvaða tóna hann muni leggja með forsetaframboði sínu.
Það verður sérstaklega horft til þess hvernig að Thompson muni leggja framboðið upp hvað varðar tengsl við Bush forseta. Eins og flestum er í fersku minni hélt Thompson utan um útnefningaferli John Roberts og Samuel Alito sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna og dómara við réttinn á nokkurra mánaða skeiði 2005-2006 er sæti Williams Rehnquists og Söndru Day O´Connor losnuðu og þótti þar koma vel fram hversu vel Bush forseti treystir honum. Það verður því fylgst með því hvort að forsetinni leiki hlutverk í framboðinu.
Fyrst og fremst er með framboði Thompsons tryggt að enn meiri fjör verður í útnefningaslag repúblikana um það hver verði fulltrúi flokksins í kosningunum sem marka endalok stjórnmálaferils George W. Bush. Vegna óvinsælda forsetans verður fylgst með afstöðu frambjóðendanna til forsetans og verka hans og verður þar væntanlega helst litið til Thompsons, sem sterks frambjóðanda úr suðurríkjunum og með tengsl í þau svæði sem helst hafa markað lykilstöðu Bush í stjórnmálum.
Það stefnir í spennandi forsetakosningar að ári. Flestir eru komnir á fullt fyrir löngu og sumir verið í framboði í um eitt ár. Það er til marks um djörfung og kraft Thompsons að leggja í baráttuna svo seint og verður sérstaklega áhugavert að sjá hvort að repúblikanar ákveði að velja leikara til að leiða baráttuna um Hvíta húsið af þeirra hálfu, rétt eins og fyrir þrem áratugum þegar að annar lífsreyndur leikari náði að vinna sinn eftirminnilegasta og raunverulegasta leiksigur á ferlinum.
![]() |
Thompson tilkynnir framboð sitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2007 | 00:55
Fjölmiðlavæn skoðanaskipti á stjórnarheimilinu

Það var mjög áhugavert að sjá Geir H. Haarde, forsætisráðherra, lýsa sig ósammála ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um að kalla eina íslenska friðargæsluliðann heim frá Írak í Kastljósi í kvöld. Bætti hann um betur með því að segja að hann hefði ekki tekið þessa ákvörðun sem utanríkisráðherra, en eins og flestir vita hefur hann gegnt því embætti. Þetta er merkileg yfirlýsing, enda sýnir hún skoðanamun leiðtoga stjórnarflokkanna í nokkuð áberandi máli að mínu mati.
Þarna kveður vægast sagt við nýjan tón. Það er orðið verulega langt síðan að leiðtogar stjórnarflokkanna hafa talað niður ákvarðanir hvors annars í fjölmiðlum og beint spjótum sínum að þeim beint í svörum við spurningum fjölmiðlamanna. Þetta gerði Ingibjörg Sólrún líka fannst mér með áberandi hætti er hún talaði um að of litlu hefði eiginlega verið varið til kosningabaráttunnar um öryggisráðssætið af hálfu utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili, sem eru eins og flestir vita þeir Geir sjálfur og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri.
Ég held að það sé ekki orðum aukið að þetta veki mikla athygli, enda er um að ræða nokkuð nýmæli í samskiptum leiðtoga stjórnarflokka hérna heima sem blasir þarna við. Við sem fylgjumst með stjórnmálum vorum ekki beinlínis vön svona í löngu og farsælu samstarfi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar í áratug. Þar voru ólíkar skoðanir gerðar samstíga á lokuðum fundum og niðurstaðan varð samhent ákvörðun beggja aðila, þó eflaust hefði eitthvað verið tekist á í lokuðum herbergjum bak við tjöldin. Svona áberandi skoðanamunur og afgerandi talsmáti leiðtoga stjórnarflokkanna um ágæti ákvarðana hvors annars vekur því auðvitað enn meiri athygli en ella vegna þess.
Þessi skoðanamunur hlýtur að kalla á spurningar um hversu sterk ríkisstjórnin sé í raun og veru - hvort að veglegur þingmeirihluti hennar verði einfaldlega ekki svo veglegur vegna átaka milli manna er á hólminn muni koma. Það hefur í sjálfu sér ekki reynt mikið á ríkisstjórnina á fyrstu 100 dögum hennar. Hún hefur siglt frekar lygnan sjó og ekki tekist á við mörg lykilmál í sjálfu sér. Mörgum finnst ákvörðun hafa verið tekin um samstarfið og mörg stór mál sett til hliðar og sú stefna tekin að reynt verði að snúa skoðanir saman síðar. Það vakti mikla athygli mína allavega í kvöld að heyra forsætisráðherrann tala um að samstarfið hefði gengið vel en menn ættu þó enn eftir að finna taktinn saman.
Eitt mál enn vekur athygli þar sem ólíkar skoðanir lykilráðherra ríkisstjórnarinnar koma fram með áberandi hætti. Það eru málefni krónunnar og hugsanleg upptaka Evru. Í kvöld sagðist forsætisráðherrann ekki finna fyrir þrýstingi í þeim efnum að Evran verði tekin upp og talaði máli krónunnar. Þrátt fyrir það hafði sjálfur viðskiptaráðherrann sagt það í fjölmiðlum fyrr um daginn að horfa yrði raunhæft á þessi mál og ekki yrði umflúið að tala um stöðu krónunnar. Klikkti hann út með því að tala um aðild að myntbandalagi Evrópu. Þetta eru ráðherrar í sömu stjórninni og þeir virðast ekki vera á sömu blaðsíðu hvað þá í sama kafla í þessu máli. Þessar ólíku skoðanir eru hróplega áberandi.
Um eitt eru menn þó áberandi sammála auðvitað. Það er að Grímseyjarferjumálið sé klúður. Allir vilja þá Lilju kveðið hafa nú, enda er klúðrið svo augljóst og áberandi að enginn leggur í að neita því. Forsætisráðherrann talaði hreint út um það í kvöld. Samt vill enginn taka ábyrgð á því og mörgum finnst óhugsandi að sú ábyrgð verði á endanum pólitísk. Persónulega finnst mér afleitt að það verði ekki gert upp almennilega og tel óhugsandi annað en að það verði gert að lokum. Þrátt fyrir allt vekur mikla athygli að samgönguráðherrann hefur enn ekki beðið skipaverkfræðinginn afsökunar á að hafa lýst því yfir í bríaríi að hann vilji að hann tæki skellinn. Kristján er á hröðum flótta undan því blaðri.
Ég held miðað við yfirlýsingar frá stjórnarheimilinu á þessum haustdögum að við séum að horfa fram á líflegan þingvetur. Það eru nokkrar vikur í þingsetningu og fjörið virðist vera hafið á fullum hraða. Það sem vekur þó mesta athygli er að stjórnarandstæðingar geta slappað af - eins og fólk leggst upp í lazy boy-stólinn til að horfa á sjónvarpið - og horft á stjórnarsinna, og það meira að segja sjálfa ráðherra ríkisstjórnarinnar, tala gegn hvor öðrum á prime sjónvarpstíma. Ætli að ólgan verði mest milli stjórnarsinnanna á þessum vetri?
![]() |
Geir: Hefði ekki kallað starfsmanninn heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2007 | 13:06
Löng bið frjálslyndra eftir framkvæmdastjóra

Þessi farsi frjálslyndra um valdasessa innan flokksins hafa vakið athygli. Hann hefur staðið lengi og náði sennilega hámarki fyrir tæpu ári er Margréti Sverrisdóttur var sagt upp sem framkvæmdastjóra flokksins. Eftir að Sigurjón missti þingsætið eftir að hafa tapað þingbaráttu sinni fyrir endurkjöri hér í Norðausturkjördæmi hefur hann verið í lausu lofti, en það hafa fleiri fyrrum þingmenn þeirra verið líka, en Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins, er ennfremur án pólitísks hlutverks, hafandi misst þingsæti sitt.
Það hefur verið athyglisvert að heyra umræðuna um þetta mánuðum saman og skiljanlegt að ekki sé rólegt yfir, hafi Sigurjóni verið lofað fyrir löngu starfinu. Reyndar hef ég heyrt margar sögur um að allt flokksstarf Frjálslynda flokksins hafi verið sett á pásu eftir kosningarnar í vor. Þingflokkurinn var endurnýjaður þar fyrir utan formanninn Guðjón Arnar Kristjánsson og lykilmenn í fyrri þingflokki féllu af þingi. Enn hefur ekki verið haldinn miðstjórnarfundur í flokknum og virðist óvissa yfir því hver fari með völdin í flokknum fyrst að formaður flokksins hafi ekki boðað slíkan fund til að stokka upp kapal flokksins og efna að því er virðist þetta loforð.
Reyndar finnst mér athyglisvert að heyra að Sigurjóni hafi verið lofað þessu embætti fyrir kosningar þar sem baráttan hér hafi verið talin vonlaus. Það sáu allir hér í vor að Sigurjón barðist á hæl og hnakka fyrir endurkjöri, hann keyrði kjördæmið fram og til baka, hélt fundi og var mjög virkur. Barátta hans fyrir endurkjöri var mjög einbeitt og hann ætlaði sér virkilega að verja sætið. Samt sem áður hefði mátt segja honum strax að baráttan væri nær vonlaust. Enda fór það svo. Hann var giska fjarri endurkjöri og í raun var lítil von á því alla tíð. Flokkurinn hlaut aðeins 0,3% meira en í kosningunum 2003 er Brynjar Sigurðsson leiddi listann.
Það hafa verið kjaftasögur um að Sigurjón hafi þurft að bíða svo lengi eftir stöðunni því að hann hafi þurft að klára biðlaunatíma sinn. Frjálslyndir bera þó mjög á móti því. Ef svo er ekki virðist formaðurinn ekki hafa sterk tök á flokknum. Ef hann getur ekki komið fram með val sitt á framkvæmdastjóra og óskað eftir stuðningi æðstu stofnana flokksins við það val getur staða hans varla verið beysin. Þingflokkur Frjálslynda flokksins breyttist mikið í vor og þar varð athyglisverð blanda í mannvali og eflaust voru ekki allir á eitt sáttir um hvernig það raðaðist upp.
Margir hljóta að velta fyrir sér stöðu varaformannsins sem er mjög veik, verandi utan þings næstu fjögur árin og það yrðu varla stórfréttir þó einhverra þingmanna flokksins myndu vilja þá stöðu. Enda getur margt gerst í stjórnmálum á fjórum árum. Það verður þó mest spennandi hversu lengi bið frjálslyndra eftir framkvæmdastjóra verði - hversu lengi þó sérstaklega Sigurjón Þórðarson verði að bíða.
![]() |
Ráðning framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins ekki frágengin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.9.2007 | 23:19
Ófögur saga af pólitísku hneykslismáli
Það er mjög ámælisvert að heyra af þessu verklagi sem þetta tveggja ára gamla bréf sýnir. Það dúkkar nú upp, seint og um síðir, þegar að þetta skrapatól sem sumir vitringar ætla sér að kalla ferju, er að verða tilbúið. Ef marka má myndir í kvöldfréttum Sjónvarps er ekki beint útséð með að ferjan verði tilbúin á áætluðum tíma og virðist enn hlaðast við það sem gera þarf fyrir hana. Þetta er ekki glæsilegt mál og það virðist ekki beint ætla að birta yfir því ef marka má það verklag sem er að afhjúpast þessa dagana í þessu ferli öllu. Þetta er hreint og klárt pólitískt hneyksli.
Það er auðvitað mjög athyglisvert að nú birtist bréf sem sýnir að fjármálaráðuneytið hafi heimilað yfirdrátt til handa Vegagerðinni til að ljúka breytingum á þessum ryðkláfi dugi ónotaðar fjárheimildir ekki til. Þetta er verklag sem kallar á umræðu að mínu mati og það þarf að fara í saumana á þessu máli og kanna hvers eðlis það er. Þetta bréf sem þingmaður stjórnarandstöðunnar hefur í fórum sínum kallar á svör frá stjórnsýslunni, enda er svona verklag auðvitað fyrir neðan allar hellur.
Það hefur verið spurt eftir því hvort einhver eigi að bera pólitíska ábyrgð vegna þessa máls. Mér finnst ekki annað koma til greina sé það rétt að svona hafi verið unnið. Þetta er verklag sem ekki er hægt að líta framhjá.
![]() |
Yfirdráttur vegna Grímseyjarferju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.9.2007 | 13:50
Hveitibrauðsdögum vinsællar ríkisstjórnar lokið

Skv. nýjustu könnun Gallups styðja 80% landsmanna ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þetta er einn mesti stuðningur við ríkisstjórn hérlendis í skoðanakönnunum til þessa og greinilegt að hún hefur afgerandi umboð til verka og stuðningur landsmanna við hana er afdráttarlaus, altént á þessum tímapunkti. Hún hefur gott veganesti til verkanna. Vald hennar er mikið og t.d. er hún svo sterk á Alþingi að hún getur veitt afbrigði við þingmál án liðsinnis frá stjórnarandstöðunni.
Ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens mældist með um 80% stuðning í upphafi er hún var mynduð fyrir tæpum þrem áratugum, í febrúar 1980, en síðar seig mjög á ógæfuhliðina. Telst sá stuðningur sá mesti við ríkisstjórn í sögu landsins fram að þessu, en taka skal þó fram að sú mæling var í könnunum Dagblaðsins á þeim tíma og áður en Gallup-kannanir voru komnar til sögunnar í þeirri mynd sem nú þekkist hérlendis. Sú stjórn var mynduð við mjög umdeildar aðstæður og eftir langvinna stjórnarkreppu. Vinsælustu stjórnir til þessa í mælingum Gallups eru ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar á tíunda áratugnum.
Staða ríkisstjórnarinnar er eins og fyrr segir mjög afgerandi og þessi mæling segir allt sem segja þarf um hversu góðan byr hún hefur frá landsmönnum. Það er ekki öfundsvert að vera í stjórnarandstöðu við þessar aðstæður og óhætt að segja að reyna muni á stjórnarandstöðuflokkanna í þeirri erfiðu stöðu sem uppi er fyrir þá og sést afgerandi með þessari Gallup-könnun. Stjórnin er svo voldug að hún hefur þingið algjörlega í hendi sér. Best sást það skömmu fyrir þinglok með kosningum í landskjörstjórn og kjörstjórnir í kjördæmum, en af fimm sætum hefur stjórnarmeirihlutinn fjögur til ráðstöfunar.
Stjórnarandstaðan er því vissulega að vakna upp við hlutskipti sitt. Samt sem áður mun hún eflaust bíta vel frá sér á næsta þingvetri þó staða flokkanna sem hana mynda sé veik. Við öll sem fylgjumst með stjórnmálum vonumst auðvitað eftir því, enda er ekkert gaman af stjórnmálum ef stjórnarandstaðan er veik og máttlaus og hún verður því að stíga vel í lappirnar og sanna sig. Þar tekur við erfið vinna við að yfirstíga gremju milli aðila og fróðlegt að sjá hvernig það gengur.
Reyndar fylgir könnun frá Gallup með þessari mælingu á stjórnina. Þar kemur fátt að óvörum. Stjórnarflokkarnir halda sínu og eru að mælast með 70% fylgi, ótrúlega sterk staða sem kemur ekki að óvörum sé litið á sterka stöðu ríkisstjórnarinnar. Stóru tíðindin eru þau að Framsóknarflokkurinn er ekkert að græða milli mánaða, þrátt fyrir formannsskipti og kjör nýs varaformanns. Hann mælist innan við 10%. Þar eru framundan erfiðir tímar við uppbyggingu, svo mikið er ljóst.
Finnst reyndar fréttamat mbl.is stórundarlegt þegar kemur að þessari könnun. Þar stendur í fyrirsögn að stuðningur við stjórnina dali. Vissulega minnkar mælingin um 3% á milli mánaða, en það virkar hjákátlegt sem fyrirsagnaefni þegar á það er litið að stjórnin mælist með 80% stuðning, sem er söguleg mæling í okkar stjórnmálasögu. Fyrirsögnin hefði því auðvitað átt að snúast að því að aðeins 20% landsmanna styðja ekki stjórnina.
Það væri hvaða stjórn sem er hreykin af því í lýðræðisríki að njóta 80% stuðnings kjósenda í könnun. Það sýnir sterka stöðu stjórnvalda. En nú er hveitibrauðsdögunum lokið og alvaran tekur við. Það er spennandi þingvetur framundan og nú reynir á ríkisstjórnina og verk hennar.
![]() |
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2007 kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)