Pólitískt teboð fyrir tvo í Downingstræti 10

Margaret Thatcher og Gordon Brown Það vakti mikla athygli í dag er Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, bauð Margaret Thatcher, þaulsetnasta forsætisráðherra í breskri stjórnmálasögu á síðustu öldum, í teboð í Downingstræti 10. Fyrir nokkrum vikum opinberaði forsætisráðherrann aðdáun sína á henni sem stjórnmálamanni á blaðamannafundi. Með þessu teboði og vinsamlegum orðum Browns í garð Thatchers er staðfest sterk staða hennar í breskri stjórnmálasögu og þau miklu áhrif sem hún hafði á löngum valdaferli sínum á öllum níunda áratugnum.

Það verður ekki um það deilt að Margaret Thatcher gjörbreytti bresku stjórnmálalandslagi á ellefu ára forsætisráðherraferli sínum. Ekki aðeins hafði hún víðtæk áhrif innan Íhaldsflokksins í stefnumótun og áhrifum á breskt samfélag með því, hún breytti líka hugsjónum og stefnumarkmiðum innan forystusveitar Verkamannaflokksins. Tony Blair sótti mjög afgerandi í smiðju Thatchers eftir að hann varð leiðtogi flokksins árið 1994 og tók við keflinu af John Smith, sem síðustu tvö ár ævi sinnar markaði Verkamannaflokknum aðra sýn á leiðtogastóli. Báðir færðu þeir flokkinn til hægri.

Thatcher fór ekki leynt með að hún taldi Tony Blair merkasta leiðtoga Verkamannaflokksins frá því er Hugh Gaitskell var og hét. Blair stóð enda undir nafni sem hægrikrati og var að margra mati aldrei sannur vinstrimaður á árunum sem hann ríkti í Downingstræti 10. Enda voru verkalýðsgarmarnir í flokknum ánægðastir allra þegar að þeir losnuðu við hann. Púað var á Blair á síðasta TUC-fundinum sem hann sat sem flokksleiðtogi. Teboð Brown-hjónanna fyrir Margaret Thatcher, sterkasta leiðtoga breskra hægrimanna frá dögum stríðskempunnar Churchills, er því staðfesting á því hversu sterkan sess járnfrúin hefur. Hún markaði spor á fimmtán ára leiðtogaferli og árunum ellefu í eldlínunni sem fylgir vistinni í Downingstræti.

Ekki aðeins var frú Thatcher boðið í te. Sarah Brown og Margaret Vaughan, eiginkona Alastair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, buðu henni að skoða sig um á efri hæðum Downingstræti 10, þar sem Thatcher-hjónin bjuggu á árunum ellefu sem hún var við völd. Forsætisráðherrann bauð henni í skoðunarferð um skrifstofur sínar og vistarverur og munu þau hafa drukkið te í Thatcher-stofunni svokölluðu og hún hitti börn hans. Það er merkilegt að leiðtogi Verkamannaflokksins skuli bjóða sigursælasta breskra íhaldsmanna í aldir í slíka heimsókn og umfram allt sýnir það sess Margaret Thatcher í breskum stjórnmálum sautján árum eftir að hún lét af embætti.

Það væri fróðlegt að heyra hvernig þetta teboð hefur farið í David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins. Á nærri sömu stund og teboðið stóð var kynnt stefnumótun flokksins í umhverfismálum. Skoðanakannanir hafa verið að sýna sterka stöðu Browns og Verkamannaflokksins. Áður en Tony Blair lét af embætti í sumar þótti allt stefna í að Cameron yrði forsætisráðherra og Íhaldsflokkurinn hafði tíu prósentustiga forskot í könnunum. Taflið hefur snúist við á skömmum tíma og þeir eru mun færri sem leggja peningana sína undir á það að Íhaldsflokkurinn vinni næstu kosningar. Hveitibrauðsdögum Browns er þó að ljúka og stefnir í spennandi þingvetur.

Það er vissulega mjög ánægjulegt að Thatcher sé sýnd slík virðing á ævikvöldi sínu. Hún markaði spor á löngum stjórnmálaferli. Hún hafði áhrif á báða stærstu flokkana á lykilskeiði sínu er hún ríkti í Downingstræti 10. Má nú varla á milli sjá hvor flokkurinn fylgir meira grunnstefnu hennar og áherslum á löngum valdaferli.

Það er í sjálfu sér sterk arfleifð sem allir stjórnmálamenn geta sannarlega verið stoltir af - það að geta haft megináhrif á andstæðing sinn eftir svo langan tíma vekur athygli. Þann sess hefur Margaret Thatcher og það staðfestist með teboðinu í Downingstræti og aðdáun húsbóndans þar á henni.

mbl.is Thatcher mætir í teboð í Downing stræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband