Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mun vatnið standa í stjórnarflokkunum?

Ingibjörg Sólrún og Geir Hveitibrauðsdögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er að ljúka. Á morgun eru 100 dagar liðnir frá stjórnarskiptum. Mánuður er í að þing komi saman og fjörið hefjist aftur í pólitíkinni. Fróðlegt verður að sjá andrúmsloftið í þinginu á þessum fyrsta þingvetri nýrrar stjórnar. Eitt stóru málanna sem fylgst verður með eru vatnalögin, sem taka eiga gildi í nóvember. Um þau voru miklar deilur á þingi fyrir alþingiskosningar og voru stjórnarflokkarnir meginpólarnir í því máli.

Það er greinilegt að þetta stefnir í að verða átakamál að óbreyttu milli flokkanna. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, hefur sagt uppstokkun laganna í burðarliðnum í ráðuneytinu og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru þegar farnir að svara því vinnulagi fullum hálsi. Svo að þetta gæti hiklaust orðið mál sem gæti staðið í stjórninni. Það féllu mörg stór orð í umræðunum um vatnalögin, á maraþonfundum gengu þingmenn Samfylkingarinnar t.d. mjög langt og væntanlega munu þingmenn stjórnarandstöðunnar fara í sagnfræðilega upprifjun á þeim breyti iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar ekki kúrsinum.

Það hefur mjög einkennt hveitibrauðsdaga ríkisstjórnarinnar hversu allt tal þingmanna og ráðherra stjórnarflokkanna er laust í rásinni og skeiðað um víðan völl. Það leyfa allir sér að segja sitt og núningar hafa átt sér stað með áberandi hætti. Það blasir við öllum að um er að ræða mjög voldugan þingmeirihluta, einn þann stærsta í seinni tíma stjórnmálasögu landsins. Það er því ekki beint að búast við að þurfi sama járnaga á þingmenn þegar að svo horfir við líkt og var áður, t.d. í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áður þar sem nokkrir þingmenn Framsóknarflokks gátu sett mál í gíslingu með andstöðu sinni eða veikt meirihlutann allavega.

Mér finnst mjög áberandi í þessu máli hvað nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru hvassir í garð iðnaðarráðherrans. Það er svosem varla undrunarefni. Lögin hafa verið sett og ekki langur tími í gildistöku þeirra. Flestir sjálfstæðismenn hafa litið svo á að þessi lög séu frágengin og ekki tilefni til uppstokkunar. Á það ber þó að minnast að ekki var samið um þetta mál í stjórnarsáttmála flokkanna og það því í lausu lofti. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður, hefur talað mjög skynsamlega í þessu máli og tek ég undir skoðanir hans, er sammála þeim.

Heilt yfir tel ég að spennandi þingvetur sé framundan. Það verður áhugavert að sjá meginlínur milli nýrra fylkinga í stjórnmálunum skerpast. Fornir fjandvinir hafa hafið stjórnarsamstarf og sitja nú í stjórnarandstöðu. Það verður líflegt vonandi á þingi í vetur. Mér sýnist fyrst og fremst að stormurinn muni standa á Samfylkingunni. Það höfum við t.d. séð af upprifjunum framsóknarmanna á loforðum Samfylkingarinnar um ókeypis skólabækur til nemenda.

Báðir stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir munu hjóla mest í Samfylkinguna á þessum vetri og því er skiljanlegt að iðnaðarráðherra renni til í rásinni örlítið vegna vatnalaganna - laganna sem hann hafði svo stór orð uppi gegn á sínum tíma.

mbl.is Segir Sjálfstæðisflokk varla standa að endurskoðun vatnalaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöf tekur við varaformennsku í samgöngunefnd

Ólöf Nordal Ólöf Nordal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, hefur nú verið kjörin varaformaður samgöngunefndar í stað Einars Odds Kristjánssonar heitins. Það er gleðiefni fyrir okkur í kjördæminu að Ólöf fái varaformennsku í svo öflugri nefnd á þessum tímapunkti og gefur vel til kynna að hún njóti trausts til verka innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Eins og ég hef margoft sagt við Ólöfu síðustu vikur tel ég að hún megi vel við una, enda fékk hún eiginlega setu í þeim nefndum sem hún hafði mestan áhuga á að fá.

Það vekur mikla athygli að Árni Johnsen, alþingismaður, sem var formaður samgöngunefndar árin 1999-2001, áður en hann hrökklaðist af þingi vegna hneykslismála verði ekki varaformaður í stað Einars Odds. Er þetta mjög til merkis um veika stöðu hans innan þingflokksins. Ég held að það hafi veikt hann enn frekar að hjóla í Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með frekar áberandi hætti í orðavali í kjölfar ákvörðunar um að slá hugmyndir um göng milli lands og Eyja af.

Ólöf er að mínu mati mikil framtíðarkona í stjórnmálum. Ég þekkti hana ekki mikið áður en hún ákvað að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi síðasta vetur. Hún hafði þá samband við mig, vildi fá mig í innsta hóp sinn til ráðleggingar og svo fór að ég lagði henni mikla hjálparhönd í mörgum verkefnum þó að ekki hafi ég viljað taka að mér kosningastjórn fyrir hana eða slíkt. Það var mjög skemmtilegt samstarf og þá varð ég sannfærður um að það væri okkur hér nauðsynlegt að fá hana í forystusveit. Hún varð hinn stóri sigurvegari prófkjörsins.

Heilt yfir er ég stoltur af því að hafa lagt Ólöfu lið, stutt hana og talað máli hennar í því prófkjöri. Öll framganga hennar síðan hefur sýnt svo ekki verði um villst að hún á alla möguleika á að fara ofar á lista hér og taka við öflugum verkefnum innan Sjálfstæðisflokksins. Kjör hennar til varaformennsku í samgöngunefnd á þessum tímapunkti er því ánægjulegur áfangi og færir henni tækifæri til að vinna vel í þeim málaflokki sem skiptir okkur í raun mestu máli hér.

Páll Hreinsson skipaður hæstaréttardómari

Páll Hreinsson Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, hefur verið skipaður hæstaréttardómari af Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra. Líst mér mjög vel á þetta val Björns, tel það rétt og óumdeilt, enda er Páll Hreinsson í senn mjög hæfur valkostur til setu í Hæstarétti og hefur langan feril að baki og er virtur fyrir sín störf. Óska ég Páli til hamingju.

Páll verður yngsti dómarinn í Hæstarétti, enda er hann aðeins 44 ára gamall. Hann er tveim árum yngri en Ólafur Börkur Þorvaldsson sem skipaður var í réttinn fyrir fjórum árum. Páll sótti um dómarastöðu við Hæstarétt fyrir ári, er Guðrún Erlendsdóttir hætti eftir tveggja áratuga dómaraferil, en þá var Hjördís Björk Hákonardóttir valin í hennar stað.

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarna daga um skipan í Hæstarétt Íslands og vinnuferli í þeim efnum. Það er jákvætt og eðlilegt að mínu mati. Það er nauðsynlegt að taka það ferli til mikillar umræðu. Þessi umræða hefur nú að mínu mati sýnt vel hversu margir vilja einhverskonar uppstokkun á valinu með einum eða öðrum hætti, hvort sem snýr að því að skera úr um hæfi umsækjenda eða því hvernig dómarinn er skipaður.

Mér finnst sífellt fleiri vera komnir á þá skoðun að það sé afleitt að sitjandi dómarar við Hæstarétt, þar á meðal sá sem lætur af embætti, skeri úr um hæfi umsækjenda og eða raði þeim upp í sérstaka hæfnisröð, sem hefur verið mjög umdeild. Heilt yfir finnst mér fleiri tala fyrir breytingum á dómstólalögum og annað fyrirkomulag tekið upp. Margir hafa t.d. rætt um að nefnd sérfræðinga fari yfir hæfi umsækjenda svipað og gert er varðandi héraðsdómara.

Mér finnst t.d. mjög ákjósanlegt að stokka upp valið sem slíkt. Ráðherrans er auðvitað að koma með tillögu að skipan en það væri ekki úr vegi að stokka það upp með þeim hætti að þingið verði að staðfesta valið. Yrði það raunin finndist mér eðlilegast að þar yrði styðst við aukinn meirihluta þingmanna, 2/3 þeirra.

Þessar hugmyndir og fleiri hafa verið ræddar og eru gott innlegg í þarfa umræðu. En enginn vafi er á því að það er dómsmálaráðherrans að koma með tillögu og nú liggur valið fyrir. Páll verður eftirmaður Hrafns Bragasonar. Þetta er gott val og ég tel að það verði ekki hægt að gagnrýna það, enda er Páll mjög hæfur til verka.

mbl.is Páll Hreinsson skipaður dómari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýska járnfrúin slær í gegn á kanslarastóli

Angela MerkelNú þegar að rétt um tvö ár eru liðin frá því að Angela Merkel varð kanslari Þýskalands fyrst kvenna og fyrst austur-þýskra stjórnmálamanna eftir sameiningu austurs og vesturs árið 1990 virðist hún vera með pálmann í höndunum. Hún nýtur mesta stuðnings sem kanslari hefur haft í embætti frá upphafi fylgismælinga og hægriblokkin stendur mjög vel undir hennar forystu í könnunum. Þegar að hún tók við kanslaraembætti í stóru samsteypu CDU og SPD voru ekki allir sem spáðu vel fyrir henni.

Staða Merkel er þó óumdeilanlega sterk nú þegar að seinni hluti kjörtímabilsins hefst. Merkel hefur tekið starfið föstum tökum og farið sínu fram, verið afgerandi og fumlaus í verkum. Er sennilega réttnefnd járnfrú eins og Margaret Thatcher var árum saman og erfir væntanlega þann hefðartitil hennar. Eins og flestir muna kom upp algjör pattstaða í þýskum stjórnmálum eftir kosningarnar í september 2005. Kristilegir urðu stærstir, vinstristjórnin féll en ekki myndaðist hreinn hægrimeirihluti kristilegra og frjálslyndra. Við tók löng stjórnarkreppa. Eina starfhæfa mynstrið í því erfiða pólitíska tafli var samstarf meginpólanna. Eftir vikulangar samningaviðræður tókst með þeim samstarf í nóvember 2005.

Gerhard Schröder barðist fyrir að halda kanslarastólnum, sem hann hafði þá setið í tæpan áratug eða frá falli hægriaflanna undir forystu Helmut Kohl árið 1998, en varð að gefa eftir að lokum fyrir kristilegum. Angela Merkel varð kanslari sem leiðtogi stærsta þingflokksins og Schröder yfirgaf hið pólitíska svið særður og ósáttur við endalokin og að hafa þurft að lúffa fyrir Merkel. Þau tókust harkalega á í þingkosningunum 2005 og barátta þeirra varð persónuleg og harðskeytt. Fyrirfram var öllum ljóst að ágreiningurinn var svo mikil að það þeirra sem tapaði kanslarabaráttunni gæti ekki sest með hátíðarbros á vör í stjórn hins. Það fór enda svo.

Stóra samsteypa - eða grosse koalition - sem nú er við völd er eins og fyrr segir auðvitað sögulegt stjórnarsamstarf í Þýskalandi. Þegar að samið var milli flokkanna um skiptingu valda og kanslaratign dr. Angelu Merkel hafði grosse koalition ekki setið við völd í Þýskalandi frá því á miðjum sjöunda áratug 20. aldarinnar, eða 1966-1969. Eftir brotthvarf Schröders af pólitíska sviðinu sem pólitískrar prímadonnu kratanna hefur samstarfið gengið vel og virðist vel fara á með Merkel, Müntefering, varakanslara og fyrrum flokksleiðtoga kratanna, og Frank Walter Steinmeyer, sem varð utanríkisráðherra af hálfu kratanna í þessu stjórnarsamstarfi.

Kanslaraembættið í Þýskalandi er ein áhrifamesta stjórnmálastaða í heiminum í dag, allavega í Evrópu, lykilspilari á pólitísku sviði. Merkel er kjarnakona í þýskri pólitík, oft nefnd vinnusami töffarinn. Hún komst til áhrifaembætta innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, 1982-1998, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Það hefði fáum órað fyrir því er hún tók við að henni tekist að skáka hinum pólitískt langlífa og vinsæla læriföður sínum í fylgismælingum en sú er nú orðin raunin.

Staða Merkel er óneitanlega góð. Stóru samsteypu virðist ganga vel. Eftir brotthvarf Schröders hefur henni tekist að byggja sér góða pólitíska stöðu og drottna vel þar yfir á meðan að minni öflin og kratarnir eru svolítið vandræðaleg á hliðarlínunni vegna vinsælda hennar. Merkel svífur á góðum fylgismælingum og stefnir í kosningar á næstu tveim árum sem skera úr um pólitíska framtíð hennar. Meira að segja er hún nú farin að leita eftir pólitískri ráðgjöf læriföðurins Kohls, en upp á vinskap þeirra slettist í frægu hneykslismáli tengdu Kohl fyrir nokkrum árum.

Það verður mjög vel fylgst með því hvort þýsku járnfrúnni takist að ná endurkjöri á valdastóli með sama glans og pólitíska læriföðurnum tókst, sjálfum járnkanslaranum sem ríkti í gegnum súrt og sætt í heil sextán ár.


Alberto Gonzales segir af sér - Chertoff tilnefndur

Alberto GonzalesAlberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér embætti og orðrómur er um að Michael Chertoff, heimavarnarráðherra, verið tilnefndur í hans stað. Afsögn Gonzales kemur engum að óvörum, enda hefur hann verið miðpunktur hneykslismála um nokkuð skeið og mál hans verið til umfjöllunar hjá Bandaríkjaþingi. Hafði hann misst t.d. stuðning fjöldamargra repúblikana á þingi og hafði verið valtur í sessi um langt skeið en hafði stuðning Bush og Cheney ótrúlega lengi í þeim þrengingum.

Gonzales var 80. dómsmálaráðherrann í bandarískri stjórnmálasögu og tók við embættinu af hinum umdeilda John Ashcroft, sem sat sem dómsmálaráðherra fyrra kjörtímabil Bush forseta. Hann varð fyrsti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna af hispönskum ættum og valdamesti stjórnmálamaður Bandaríkjanna til þessa úr þeirra röðum. Deilur urðu strax vegna tilnefningar hans í nóvember 2004 en öldungadeildin staðfesti þó skipan hans í embættið. Var Gonzales þó samþykktur með 60 atkvæðum að mig minnir. Það var með lélegri kosningu sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna hafði fengið fyrir þinginu.

Alberto Gonzales var á þeim tíma er hann var tilnefndur í ráðuneytið einn af lykilmönnum George W. Bush og fylgt honum með einum eða öðrum hætti allan stjórnmálaferil hans. Hann hafði verið dómari við hæstarétt Texas fylkis og einn af helstu lagaspekingum í málum fylkisins á ríkisstjóraferli Bush 1995-2000. Hann varð helsti lögfræðiráðgjafi Bush í Hvíta húsinu fyrra kjörtímabilið. Til marks um sterka stöðu Gonzales framan af ráðherraferlinum var að hann kom til greina sem eftirmaður William H. Rehnquist sem forseta hæstaréttar Bandaríkjanna sumarið 2005 og munaði litlu að hann yrði tilnefndur. Síðar ákvað Bush að tilnefna John G. Roberts.

Það hafði blasað við um nokkuð skeið að hann væri mjög skaddaður pólitískt en verndarhjúpur forsetans yfir honum hélt mjög lengi. Undir lokin var hann orðinn það skaddaður að embættið var orðið skotspónn pólitískra átaka og honum var ekki sætt lengur, en enn eru um eitt og hálft ár í forsetaskipti. Orðrómur um val Bush á tilnefndum eftirmanni Gonzales, Michael Chertoff, kemur ekki að óvörum og nær öruggt að hann verði tilnefndur, þar sem hann gæti verið studdur af báðum flokkum og hefur ekki þá löngu sögu væringa að baki og margir lykilmanna Bush.

Chertoff hefur langan feril að baki og gæti orðið til að lægja öldur eftir átakatíma tengda Gonzales. Hann hefur verið dómari við áfrýjunardómstól Bandaríkjanna og aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna í valdatíð Bush eldri. Hann var tilnefndur heimavarnarráðherra árið 2005 eftir að Bernard Kerik datt úr skaftinu vegna hneykslismála og fékk öll greidd atkvæði í þingkosningu á sínum tíma.


mbl.is Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga dómarar í Hæstarétti að velja eftirmenn sína?

HæstirétturBjörn Bjarnason, dómsmálaráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, í stað Hrafns Bragasonar, sem lætur af embætti um mánaðarmótin eftir tveggja áratuga setu í réttinum. Hrafn er eini dómarinn í réttinum nú sem skipaður var áður en Sjálfstæðisflokkurinn fékk dómsmálaráðuneytið árið 1991, en fjórir ráðherrar hafa setið í nafni flokksins þar á þessum sextán árum; Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson, Sólveig Pétursdóttir og Björn Bjarnason.

Nú hafa starfandi dómarar við Hæstarétt Íslands, þar á meðal Hrafn Bragason, fráfarandi dómari við réttinn, skilað áliti um hæfni umsækjenda. Með þessu verklagi á undanförnum árum hafa dómarar t.d. tekið sér það bessaleyfi að raða umsækjendum í hæfnisröð og stillt þeim upp að eigin hætti. Frægust varð þessi hæfnisröð árið 2004 þegar að eftirmaður Péturs Kr. Hafsteins var skipaður í réttinn og væntanlega urðu deilurnar um hana þá mestar. Hefur mér jafnan fundist það vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda eins og orðrómur var um árið 2004.

Að mínu mati eiga dómarar aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í 4. grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum eða taka þá við af þeim sem eru á útleið úr réttinum.

Hæfnisröð dómara við fyrri skipanir í réttinn hafa vekið upp margar spurningar. Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Annar valkostur er að val ráðherrans fari fyrir þingið til staðfestingar, ekki ósvipað og gerist t.d. í Bandaríkjunum. Með því yrði valið ekki aðeins eins manns hefur löggjafarsamkundunnar allrar.

Það verður væntanlega erfitt verkefni fyrir ráðherra að velja einn af umsækjendum til starfa. Um er að ræða nokkra mjög hæfa einstaklinga sem sækja um og reynda á sínu sviði. Það bætir hinsvegar ekki úr skák, hvorki fyrir umsækjendur né ráðherra sem hefur skipunarvaldið varðandi stöðu dómara, að dómarar við Hæstarétt taki upp á því að raða mönnum í röð eftir geðþótta sínum eða velji út menn sem þeim er ekki að skapi og setji þá aftar í hæfnisröðina en reynsla þeirra segir til um eins og gerðist t.d. árið 2004.

Fagna ég því að Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson hafi skilað séráliti og með því komið með sterk skilaboð í þá átt að þeir taki ekki þátt í þessu hæfnisferli umsækjenda. Það er ekki fjarri lagi að horfa til uppstokkunar á þessu ferli með einum hætti eða öðrum. Annars er öllum ljóst að valdið til að skipa dómara nú er dómsmálaráðherrans, enda er vald réttarins aðeins að skila ráðgefandi umsögnum um hæfi og hæfni umsækjenda.

Það verður fróðlegt að sjá hvern ráðherra muni velja í þetta lausa dómarasæti.


mbl.is Þrír hæfastir í Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deilt um ábyrgð á ferjuklúðri - hjólað í ráðherra

Árni M. Mathiesen Það vakti mikla athygli í vikunni þegar að Ríkisendurskoðun hjólaði í Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og gaf út hvassorða yfirlýsingu vegna ummæla hans um það mikla klúður sem opinberast hefur vegna Grímseyjarferjunnar. Ég man satt best að segja ekki eftir að Rendi hafi hjólað svo harkalega í ráðherra áður, það er þá allavega orðið óralangt síðan. Það var bara gefið trukkinn í þrusubotn. Það leikur enginn vafi á því að þetta er hitamál og það er eins og ég hef áður sagt mikilvægt að einhver taki á því fulla ábyrgð.

Það er auðvitað ekki hægt annað en að líta til fjármála- og samgönguráðherra þessa tíma. Mér finnst það óhugsandi annað en að einhver vitneskja hafi verið í ráðuneytunum með hversu alvarleg staða þessa máls var. Mér finnst það ekki trúverðugt að svo massív framúrkeyrsla og klúður hafi farið framhjá ráðherrum sem eiga að vera starfi sínu vaxnir. Eftir því sem ég heyrði um daginn er talað um að kostnaður við ferjuna fari yfir 600 milljónir og heildarkostnaður því orðinn meiri en ef keypt hefði verið ný ferja handa Grímseyingum. Svo að ekki verður litið framhjá því að um stórhneyksli er að ræða.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, er í því erfiða hlutverki að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi og því á hann erfitt um vik að mörgu leyti með að tjá sig. Hann sendi þó frá sér yfirlýsingu um daginn sem ég gat ekki túlkað öðruvísi en sem óskiljanlega að mörgu leyti. Það var margt sem kallaði á enn frekari spurningar eftir hana. Það er vísað í margar áttir í þessu máli. Hlægilegast fannst mér þegar að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, vísaði boltanum í upphafi til skipaverkfræðingsins eins og hann ætti að vera einhver fallkandídat í þessu máli. Endemis klúður - það var fyrsta hugsun mín þegar að það heyrðist frá ráðherranum sem var fjarri því sannfærandi.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að staða ráðherranna tveggja á þessum tíma er erfið. Staða Sturlu er sérstaklega erfið. Ekki aðeins heyrir Ríkisendurskoðun undir þingið heldur líka fjárveitingavaldið, sem gengið var framhjá með áberandi hætti í þessu máli. Svo að þunginn á honum er síst minni nú en áður í ljósi þess að hann er hættur sem ráðherra málaflokksins. Heilt yfir finnst mér að það verði einhver að taka ábyrgð vegna málsins. Það þarf að leiða alla þætti málsins í ljós. Hversvegna þetta tiltekna skip var keypt og svona mætti lengi telja. Spurningarnar eru eiginlega óteljandi margar við fyrstu sýn.

Sagan mun eflaust dæma málefni nýju Grímseyjarferjunnar sem mjög stórt pólitískt hneykslismál. Það verður fróðlegt að sjá hvort að það verði líka þekkt sem mál sem leiddi til þess að pólitískt kjörnir fulltrúar tóku fulla ábyrgð á klúðrinu.

Volgi borgarstjórinn talar sig frá vínkælinum

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er svolítið kostulegt að sjá hvernig að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, er nú byrjaður að reyna að tala sig frá vandræðaganginum sem fylgdi kælinum í vínbúðinni í Austurstræti, sem hann vildi að yrði fjarlægður. Hann segir nú það vera sér að meinalausu að hann verði settur á sinn stað og í samband. Sennilega eru pólitískir ráðgjafar borgarstjórans farnir að átta sig á því að þetta mál er í alla staði hið vandræðalegasta fyrir mann sem vill kenna sig við leiðtogastöðu í hægriflokki.

Borgarstjórinn í Reykjavík segir nú kælinn vera algjört aukaatriði málsins. Hvers vegna fór hann þá fram á að hann yrði fjarlægður og gekk skrefið lengra með því að krefjast líka að bjór yrði ekki seldur í stykkjatali. Nú er búið að snúa við blaðinu, það er leitað af eftiráskýringum til að koma sér út úr klúðrinu. Þeir eru ekki margir sem leggja í það að verja talanda borgarstjórans og það sem hann kom með upphaflega. Hann er auðvitað bara orðinn algjört aðhlátursefni eins og nakti keisarinn í gamla góða ævintýrinu. Þetta er svona týpískur vandræðagangur, sem vekur enn meiri athygli en ella vegna þess að um er að ræða kjörinn sveitarstjórnarfulltrúa í vel á þriðja áratug og formann sambands sveitarfélaga í hartnær tvo áratugi.

Þetta mál er allt hið kostulegasta. Það að láta sér detta í hug að einn kælir í vínbúð leiki lykilhlutverk í drykkjuvenjum þeirra sem koma til að kaupa sér léttar veigar er eiginlega hlægilegt í besta falli sagt. Eða hvort bjór sé seldur í stykkjatali. Þetta mál með kælinn hefur hinsvegar opnað á margar spurningar um stjórnmálamanninn Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og hvar hann sé staddur á sinni pólitísku vegferð. Í svo miklu klúðri er skiljanlegt að reynt sé að bakka en spurningin er hvort að það sé ekki orðið of seint. Hvort borgarstjórinn sé ekki orðinn of pólitískt volgur til að slá í gegn.

Það er mikið verkefni að vera borgarstjóri. Þar skiptir máli að láta til sín taka og vinna vel. Geirs Hallgrímssonar var minnst fyrir að malbika Reykjavík, Davíðs Oddssonar verður minnst fyrir framkvæmdasemi á mörgum sviðum á valdastóli og Gunnars Thoroddsens fyrir að byggja upp borgarhverfin með myndarbrag. Svona mætti lengi telja. Það verða grátleg örlög fyrir gamla góða Villa ef hans verður minnst fyrir að slökkva á vínkælinum og halda að bjórdrykkja landsmanna standi og falli með því hvort bjórinn sé seldur kaldur.

Ekki er þetta vegleg hægristefna í verki hjá gamalreyndum en þó volgum sveitarstjórnarmanni, segi ég og skrifa.

mbl.is Borgarstjóri: Mín vegna má setja kælinn upp aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kælirinn tekinn úr sambandi í Austurstrætinu

Vilhjálmur Þ. VilhjálmssonÞau þáttaskil hafa nú átt sér stað í áfengismálum landsmanna að kælinum í vínbúðinni í Austurstrætinu hefur verið kippt úr sambandi. Með þessu ætti víst að teljast nokkuð líklegt að helstu vandamálin í miðbæ Reykjavíkur hafi verið leyst og framundan syngjandi sæla í breyttum heimi. Nú geta þeir sem fara í búðina aðeins keypt sér volgan bjór en ekki lifað við þann óþarfa munað að fá sér einn kaldan á hábjörtum degi. Þeir geta þó enn keypt sér bjór í stykkjatali í óþökk borgarstjórans í Reykjavík á grundvelli jafnræðisreglu.

Nei, að öllu gamni slepptu, þetta er allt frekar kostulegt eins og ég benti á hér á síðunni á mánudag. Finnst eiginlega að borgarstjórinn í Reykjavík ætti að fara að fá sér aðra pólitíska ráðgjafa og reyna að bæta stöðu sína eftir þetta ótrúlega klúður sem þetta mál allt hefur verið fyrir hann. Hversu gott telst það PR að standa að því að tala gegn köldum bjór sérstaklega og það að fólk geti keypt hann í stykkjatali? Heldur borgarstjórinn í Reykjavík virkilega að þeim sem langar virkilega í bjór verði fráhverfari að kaupa hann því að hann sé ekki til kældur?

Þetta mál er allt hið hlægilegasta að vissu marki og undarlegt að öðru leyti. Borgarstjórinn í Reykjavík sem vill volgan bjór og hætta að selja hann í stykkjatali og myndi ekki gráta lokun áfengisbúðarinnar í miðbænum telst vera leiðtogi hægriflokks í borgarstjórn Reykjavíkur. Hvar er eiginlega hægrimennskan í þessu blaðri hans? Hversu gott ætli að honum hafi eiginlega þótt þetta PR sitt?


mbl.is Kælirinn fjarlægður úr vínbúðinni í Austurstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prestar vilja staðfesta samvist samkynhneigðra

Frá prestastefnu Ég verð að viðurkenna að það kemur mér nokkuð á óvart hversu afgerandi prestar virðast styðja að veita heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Niðurstaða þessarar skoðanakönnunar hlýtur að teljast afgerandi, enda 2/3 presta skv. henni hlynntir þessu. 

Tekist hefur verið á innan þjóðkirkjunnar um þessi mál árum saman, en eins og flestir vita var tillaga presta og guðfræðinga um að prestum yrði heimilað að annast hjónavígslu samkynhneigðra felld á prestastefnu á Húsavík í apríl.

Þessi niðurstaða segir sína sögu að mörgu leyti. Tímarnir virðast vera að breytast og þunginn í þá átt að horfa fram á veginn virðist ekki síður vera kominn til sögunnar innan stofnana þjóðkirkjunnar en á öðrum stöðum. Það verður fróðlegt að sjá hver staða málsins verður á næstunni.

Eins og sást á prestastefnu í vor var til staðar blokk innan þjóðkirkjunnar sem vildi fara alla leið. Þessi könnun sýnir að þessi skoðun er almennari innan kirkjunnar en mörgum hefði sennilega órað fyrir.

mbl.is Meirihluti presta hlynntur heimild til að staðfesta samvist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband