Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bæjarstjórn Akureyrar enn í sumarleyfi

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Bæjarmálin á Akureyri eru greinilega enn í sumarleyfi. Ég heyrði í dag að ágústfundi bæjarstjórnar Akureyrar, sem átti að fara fram á morgun, hefði verið aflýst af Kristjáni Þór Júlíussyni, alþingismanni og forseta bæjarstjórnar, þar sem engin fundarefni hefðu verið til staðar. Júlífundur var haldinn og var áætlaður fundur á morgun, en aðeins eru tveir fundir skipulagðir í þessum mánuðum. Það er því greinilega rólegt yfir öllu hér.

Vekur þetta vissulega athygli í þessu stóra sveitarfélagi. Fyrir þrem árum var hið sama upp á teningnum, að sumarfundi væri aflýst, og þá ritaði Jón Ingi Cæsarsson, núv. varabæjarfulltrúi og formaður Samfylkingarinnar hér í bæ, á vef flokksins gegn því og sagði: "Það virðist sem hið nýja andlýðræðislega fyrirkomulag meirihlutans sé að létta bæjarfulltrúum, kjörnum fulltrúum Akureyringa, lífið léttara hvað varðar bæjarstjórnafundi." Síðar segir: "Kannski eiga sum vandamál rætur að rekja til þessa tímabils doða og aðgerðaleysis. Mörg mál mega og geta beðið en er það gott að láta alla stjórnsýslu liggja í dvala vikum og jafnvel mánuðum saman?".

Þetta eru umhugsunarverð orð þykir mér innan úr Samfylkingunni þessar síðustu sumarvikurnar og þau fá nýja merkingu með Samfylkingunni í meirihluta. Annars hefði mér ekki fundist óeðlilegt að bæjarstjórn hefði rætt mál sem var í kastljósi fjölmiðla undanfarnar vikur, sjálf tjaldsvæðamálin, þar sem 23 ára aldurstakmark var sett á. Í fréttum um verslunarmannahelgina kom fram að ákvörðunin nyti ekki stuðnings meirihluta bæjarstjórnar, sem vakti athygli vegna þess að ákvörðunin var tekin af bæjarstjóranum sjálfum.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða mál meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar leggi áherslu á í vetur eftir þetta góða sumarfrí þessar vikurnar.


Forræðishyggja borgarstjórans í Reykjavík

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er ekki hægt annað en undrast þær kostulegu yfirlýsingar sem komið hafa frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, um vínbúðina í Austurstræti síðustu daga. Er ég algjörlega ósammála borgarstjóranum og satt best að segja hugleiði í hvaða pólitíska átt hann er að feta með því að tjá sig opinberlega með þessum hætti. Er þetta virkilega skoðun Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík? Er leiðtogi flokksins í borginni að tala máli allra sem honum fylgja í borgarstjórninni? Það væri ekki fráleitt að kanna það.

Persónulega finnst mér það ansi ódýrt og eiginlega lélegt að ætla að hengja eitthvað "ástand" í miðborginni á vínbúð sem opin er hluta dags en er ekki beint galopin á háannatíma helgarnætur þegar að fólk skemmtir sér. Það hefur einhvernveginn aldrei fallið vel í geð hjá mér að taka upp forræðishyggju með einum eða öðrum hætti. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja fram jafnmikið rugl og borgarstjórinn hefur sett fram í þessu máli. Það er einu sinni svo að vilji fólk detta í það og skemmta sér verður það sér úti um vín og lætur ekki boð og bönn stjórna sér.

Þegar að ég heyrði fyrst af ummælum borgarstjórans þurfti ég eiginlega virkilega að leita á dagatalinu í tölvunni minni hvort að það væri ekki örugglega ágúst 2007 en ekki ágúst 1987 fyrir bjórbannið. Þvílík finnst mér vitleysan. Það er eins og vinstri grænn forræðishyggjupési sé borgarstjóri í Reykjavík. Skil ekki alveg ummæli Vilhjálms Þ. sé litið á að þetta er leiðtogi hægriflokks í borgarstjórn Reykjavíkur á árinu 2007. Ef þetta er virkilega pólitíkin sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson boðar er von að spurt sé fyrir hvað hann standi í stjórnmálum.

mbl.is Vill vínbúðina burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormasamt ár að baki hjá Framsóknarflokknum

Halldór og Guðni Ár er í dag liðið frá því að Halldór Ásgrímsson lét af formennsku í Framsóknarflokknum og yfirgaf hið pólitíska svið eftir litríkan feril sem í raun lauk með sögulegri afsögn af forsætisráðherrastóli á dramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum nokkrum vikum áður. Óhætt er að segja að þetta hafi verið stormasamt ár hjá Framsóknarflokknum, enda hafa þrír formenn leitt starf flokksins á þessum tíma.

Framsóknarflokkurinn hefur í áratugi verið þekktur sem flokkur valdanna, enda hafði hann setið í ríkisstjórn nær samfellt frá árinu 1971 er hann missti völdin eftir alþingiskosningarnar í vor. Framsókn var aðeins utan stjórnar tvisvar á þessu 36 ára tímabili, er minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sat 1979-1980 og Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar 1991-1995. Framsóknarflokkurinn hefur í raun staðið á krossgötum allt frá því að tólf ára formannsferli Halldórs Ásgrímssonar lauk og horfist nú í augu við stjórnarandstöðuvist og verulega uppstokkun þó að fornir fulltrúar flokksins frá valdaferli Halldórs og Steingríms Hermannssonar innan flokksins leiði nú starf hans eftir kosningarnar.

Jón Sigurðsson, samvinnumaður par excellance, fórnaði seðlabankastjórastöðu, öruggu embætti á þægilegum stað, fyrir óvissu stjórnmálanna sumarið 2006. Hann varð ráðherra við brotthvarf Halldórs og fór svo fram til formennsku í flokknum og sigraði Siv Friðleifsdóttur í kosningu á flokksþingi fyrir ári, upp á dag. Öllum varð ljóst að hann tæki við risavöxnu verkefni er hann varð bæði ráðherra og flokksformaður - það reyndist óvinnandi verkefni er yfir lauk. Ósigri flokksins sem spáð hafði verið oft á síðasta kjörtímabili og glitti í eftir sveitarstjórnarkosningarnar varð ekki umflúinn. Jóni tókst ekki að leiða flokkinn til þeirrar stöðu að verjast miklu fylgistapi. Flokkurinn missti tæplega helming þingflokks síns á kjördag 12. maí sl.

Jón, sem var ráðherra utan þings þann tíma sem hann var flokksformaður, náði sjálfur ekki kjöri í alþingiskosningunum í Reykjavík norður, því kjördæmi þar sem Halldór Ásgrímsson náði kjöri við annan mann árið 2003, þó hart væri barist. Flokkurinn varð fyrir mesta áfalli sínu á höfuðborgarsvæðinu. Eftir kosningarnar 2003 hafði flokkurinn fjögur þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum. Hann missti þrjú þeirra í kosningunum 12. maí sl. Aðeins þingsæti Sivjar Friðleifsdóttur í Kraganum var varið. Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út í Reykjavík, þar sem hann hafði haft þingsæti frá kjördæmabreytingunni árið 1959.

Staða Jóns var vonlaus eftir kosningar eftir að ljóst varð að tólf ára sögulegu samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri lokið og Geir H. Haarde hóf viðræður við Samfylkinguna sem lauk með stjórnarmyndun. Jón stóð eftir sem formaður án pólitísks hlutverks út fyrir flokksstofnanir og án aðkomu að ræðustóli Alþingis. Hann sagði af sér formennsku daginn áður en hann lét af ráðherraembætti, 23. maí sl, og yfirgaf hið pólitíska svið eftir níu mánaða formannsferil, einn þann stysta í íslenskri stjórnmálasögu og svo sannarlega sögulega stuttan innan Framsóknarflokksins þar sem formenn hafa jafnan setið árum saman.

Eftir sat Guðni Ágústsson með pálmann í höndunum. Hann varð flokksformaður án kosningar, sem varaformaður við afsögn formanns, rétt eins og Halldór Ásgrímsson þegar að Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri árið 1994. En ólíkt var hlutskipti þeirra, þó báðir horfðu fram á stjórnarandstöðuvist. Halldór hafði verið krónprins formanns árum saman og horfði fram á að komast í ríkisstjórn skömmu síðar og aukningu fylgis. Guðni tók við formennsku við það að missa völdin og ráðherrastól og horfðist í augu við pólitíska eyðimerkurgöngu eftir niðurlægjandi kosningaósigur. Það er því erfið staða sem blasir við nýjum formanni.

Guðna var ekki treyst fyrir formennsku af Halldóri sumarið 2006 og lagði hann og hópur stuðningsmanna hans lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir kjör hans. Orðrétt sagði Guðni sjálfur í viðtali í vor, þar sem hann vék að pólitískum endalokum Halldórs og augljósum vinnubrögðum í þá átt að hann hætti með honum og þess sem tók við er hann ákvað að halda áfram: "Halldór taldi mig ekki þann réttborna arftaka sem Framsóknarflokkurinn ætti að fá. Ég veit ekki hvers vegna það var, hvort hann treysti mér ekki fyrir flokknum eða hvort andstaða mín við þessa Evrópusambandshugsun hans réði því."

Framsókn er enn einu sinni á krossgötum. Starf flokksins er leitt af Guðna og Valgerði Sverrisdóttur, sem kjörin var varaformaður í júnímánuði. Bæði hafa verið virk í forystu árum saman og hafa setið á þingi í tvo áratugi og voru ráðherrar í síðustu átta ár stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn. Ef marka má skoðanakannanir birtir ekki yfir flokknum og staða hans er verulega slæm. Það sést af pirrelsi forystumanna hans að þau eiga erfitt með að horfa fram á veginn í þessari vondu stöðu.

Það verður áhugavert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og forystu hans. Flestir horfa til þess hver muni taka við honum í fyllingu tímans. Það er öllum ljóst að brátt verður horft til næstu kynslóðar, þeirri sem líklegast er að geti fært flokknum nýtt líf, þ.e.a.s. ef hann þolir langa stjórnarandstöðuvist sem stefnir mjög í að verði hlutskipti flokksins næstu árin.

Nýr þingmaður - styttist í pólitískan átakavetur

Herdís Þórðardóttir Það er um það bil einn og hálfur mánuður þar til að Alþingi kemur saman. Að loknum kosningum í vor tóku 24 nýir þingmenn sæti á Alþingi, þar af höfðu 17 þeirra aldrei fyrr verið þar aðalmenn. Þegar að þing kemur saman í október kemur enn einn nýr þingmaður til starfa í þingsölum. Herdís Þórðardóttir, fiskverkandi á Akranesi og mágkona Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, er orðin alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Norðvesturkjördæmi eftir andlát Einars Odds Kristjánssonar í síðasta mánuði. Hún hefur aldrei setið á þingi áður.

Herdís er eini kvenþingmaðurinn í Norðvesturkjördæmi eins og frægt er orðið. Það var mjög um það rætt eftir kosningarnar í maímánuði að engin kona náði kjöri í kjördæminu. Af níu varaþingmönnum voru átta þeirra þó konur. Á kvenréttindadaginn afhentu kvenréttindasinnar því fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi bleika steina til marks um að hlutur kvenna þyrfti að vera meiri. Á Ísafirði tók Einar Oddur Kristjánsson við steininum í kastljósi fjölmiðla, glaður og hress. Innan við mánuði síðar var þessi einn litríkasti þingmaður landsmanna allur, hafði orðið bráðkvaddur á hæsta tindi Vestfjarða um hásumar.

Eins og ég hef svo margoft bent á er mikið skarð fyrir skildi innan Sjálfstæðisflokksins við sviplegt andlát Einars Odds. Hann var Sjálfstæðisflokknum mikilvægur, talaði máli sem allir skildu svo vel, óháð því hvaða stétt þeir tilheyrðu, og var ófeiminn við að fara eigin leiðir í tali og verkum. Hans er sárt saknað og það er svo margt breytt við hans ótímabæra fráfall. Herdís tekur við þingmennsku við erfiðar aðstæður, það er erfitt að taka við þingsæti Einars Odds en hún fær sína eldskírn í verkum og mun vonandi vinna vel fyrir sitt fólk. Herdís er að ég tel kjarnakona og mun vonandi ná að fóta sig vel í störfum á þessum fyrsta þingvetri sínum. Skarð Einars Odds sem lykilmanns í fjölda málaflokkum og hispurslauss viðmælenda á víðum vettvangi mun þó enginn fylla.

Það er að mörgu leyti áhugaverður þingvetur framundan. Þar reynir enn betur á það hvernig að stjórnarandstaðan muni standa sig. Hún er ekki öfundsverð af hlutverki sínu. Hún mælist ekkert svo vel í skoðanakönnunum, VG og Framsókn hafa tapað fylgi skv. þeim frá kosningum og núverandi ríkisstjórn mælist sú vinsælasta til þessa í íslenskri stjórnmálasögu. Styrkur stjórnarflokkanna er svo mikill að þeir þurfa ekki atbeina andstöðunnar til að fá afbrigði við þingmál, semsagt flýta þeim á dagskrá. Þingið er því algjörlega á valdi stjórnarflokkanna. Sem dæmi um styrkinn er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fimm þingsæti umfram alla stjórnarandstöðuna.

En það má búast við að þeir Guðni Ágústsson og Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna, reyni að verða beittir í vetur í þingsölum. Báðir eru þeir í þeirri stöðu að þurfa að sýna kraft á þessum vetri í veikri stjórnarandstöðu. Ella verður mjög fljótlega efast um mátt þeirra til að leiða flokka sína í þingkosningunum 2011. Flokkar þeirra hafa deilt mjög í gegnum pólitísk verkefni undanfarinna ára og VG vildi alls ekki styðja eða sitja í ríkisstjórn með Framsóknarflokki innanborðs. Nú er það verkefni þeirra að slíðra sverðin og berjast saman í erfiðri stöðu. Það verður fylgst með stöðu þessara leiðtoga sérstaklega í vetur.

Eins og fyrr segir verða 25 nýir þingmenn á Alþingi næsta vetur og flestir þeirra aldrei verið á þingi og hafa því enga þingreynslu nema mögulega sumarþingið stutta í maí og júní. Það verður líka fylgst með því hvernig þau plumma sig í störfum sínum. Þó að línur stjórnmálanna hafi breyst mikið, fornir andstæðingar farnir að vinna saman í stjórn og stjórnarandstöðu og línur fylkinganna hafi breyst gríðarlega eftir þingkosningarnar má búast við spennandi þingvetri, þar sem átök verða mikil milli fylkinga.

Verst er bara hvað þingið hefur seint störf. Þetta er afleitt fyrirkomulag og er löngu kominn tími til að breyta vinnureglum þingsins. Auðvitað á það að koma saman í upphafi septembermánaðar og vinna fram í júní. Ætla að vona að ríkisstjórnin breyti þessu á kjörtímabilinu, helst í vetur eða allavega hefji áberandi vinnu við breytingar, enda úrelt fyrir löngu að þingið byrji verk í október.

Borgar Þór hættir sem formaður SUS

Borgar Þór Einarsson Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur nú tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Borgar var kjörinn formaður á sambandsþingi í Stykkishólmi fyrir tveim árum. Hef ég unnið með honum síðustu tvö árin, en ég hef verið ritstjóri heimasíðu SUS á þessu starfstímabili. Hef ég tekið sömu ákvörðun og fráfarandi formaður, ég mun ekki gefa kost á mér til endurkjörs í stjórnina.

Ég tel mál vera komið að linni núna. Ég hef unnið í ungliðamálunum í Sjálfstæðisflokknum í yfir áratug með einum eða öðrum hætti og lagt mikinn tíma af mörkum til ýmissa verkefna. Þessum tíma í lífi mínu er nú lokið. Það hafa verið mörg spennandi verkefni á þessum fjórum árum sem ég hef verið í stjórn SUS og á þeim árum sem ég leiddi starf Varðar, f.u.s. hér á Akureyri. Það hefur verið ánægjulegt að hafa traust fjöldamargra til þessara verkefna.

Sérstaklega mat ég mikils traust á síðasta SUS-þingi en þá fékk ég flest atkvæði í stjórnarkjöri fyrir þetta kjördæmi. Það hefur áhugavert að vinna með fráfarandi stjórn og þeirri sem ég sat í fyrst, árin 2003-2005. Mikil átök voru í aðdraganda síðasta SUS-þings. Þá íhugaði ég að draga mig í hlé. Svo fór þó ekki. Ég sem formaður Varðar stóð í miðri eldlínu þess sem gerðist í Reykjavík og það var átakanlega erfitt að mjög mörgu leyti. Valkostir voru annaðhvort að hætta eða taka afstöðu. Það fór allt eins og það fór. Hef þó ekki séð eftir neinu í því öllu en þetta voru lærdómsríkir tímar.

Ég kynntist Borgari Þór fyrst í alþingiskosningunum 2003 er við vorum í kosningabaráttuverkefnum. Það voru áhugaverðir tímar líka og segja má að þessi fjögur ár hafi verið áhugaverð. Ég vil þakka Borgari Þór samstarf síðustu ára. Þetta er tími sem hefur verið áhugaverður og skemmtilegur í senn. Það hefur verið ánægjulegt að starfa í ungliðamálunum en nú er annarra að taka við þeim verkefnum sem þar eru.

mbl.is Gefur ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður SUS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að bera ábyrgðina á ferjuklúðrinu?

Kristján Þór Júlíusson Mikið hefur verið rætt og ritað um klúðrið vegna Grímseyjarferjunnar sem opinberast hefur vel í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í kvöld ræddu Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, málið í Kastljósi. Það var fróðlegt spjall og margir góðir punktar sem þar komu fram. Það blasir við öllum sem hafa lesið skýrsluna að einhver verður að axla ábyrgð í málinu. Deilt er um hvort sú ábyrgð eigi að verða pólitísk á endanum og þeir sem leiddu starf fagráðuneytis að bera ábyrgð á klúðrinu.

Mér fannst Kristján Þór tjá sig mjög vel um þetta mál í Kastljósi og er sammála því sem hann sagði þar. Það er alveg ljóst að klúðrið er svo mikið að enginn hluti þessa máls verður varinn með sannfærandi hætti. Um er að ræða klúður sem á að verða lexía til framtíðar litið. Kristján Þór sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur aldrei varið verklagið í málefnum þessarar ferju og byrjar auðvitað ekki á því nýkominn á þing fyrir þetta kjördæmi. Það er vandséð að stjórnmálamenn héðan geti tekið þátt í því að verja þá óráðsíu og rugl sem hefur fylgt ákvörðunum varðandi þessa ferju.

Þau ummæli Kristjáns Þórs í þættinum að allir sem komu nálægt þessu máli beri ábyrgð á því vekja mikla athygli. Ég tel að þau séu rétt. Það er mikilvægt að allt málið verði skýrt enn frekar og öll spil lögð á borðið. Annað er ekki valkostur á þessu stigi. Alvarlegasti hluti málsins er án nokkurs vafa að samgöngu- og fjármálaráðuneyti, ásamt Vegagerðinni, gerðu með sér samkomulag um að fjármagna kaup á þessum dalli, sem á víst að kallast ferja, og endurbæturnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar. Það er ljóst að þarna er farið gegn ákvæðum fjárreiðulaga. Þetta er ekki góð stjórnsýsla. Áfellisdómurinn blasir við og það þarf að skýra hver eigi að bera ábyrgð á klúðrinu, enda ekki annað valkostur í stöðunni.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, hefur ekki tjáð sig um málið. Staða hans er ekki góð í málinu. Velt er fyrir sér pólitískri ábyrgð hans. Ferjan var keypt í ráðherratíð hans og málið gerjaðist á þeim tíma. Ábyrgð Vegagerðarinnar hefur verið viðurkennd af vegamálastjóra en það verður ekki síður litið til þeirra sem voru kjörnir fulltrúar í fagráðuneytum. Eins og flestir vita starfar Ríkisendurskoðun á vegum Alþingis. Það verður velt fyrir sér stöðu Sturlu sem forseta Alþingis komist Ríkisendurskoðun á einhverju stigi að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hafi brugðist í málinu. Það er ómögulegt annað en að upplýsa lykilpunkta þessa máls.

Yfirlýsing Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra, um þetta mál hefur vakið athygli. Þar er talað um að tekið verði með viðeigandi á augljósum brotum á verklagsreglum samgönguráðuneytisins. Það er öllum ljóst að það er grunnmál í þessu klúðri öllu. Einhver verður að bera ábyrgðina, jafnvel hina pólitísku. Undirbúningur alls í þessu ferjumáli virðist hafa verið allsherjar hörmung. Margt af því sem að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sett fram í málinu þarf að athuga og ég er sammála sérstaklega því að stokka verði upp alla ferla mála af þessu tagi. Til dæmis á auðvitað að bjóða svona verkefni út.

Þetta mál er fyrsta flokks dæmi um það hvernig á ekki að vinna hlutina. En til þess að menn læri af því þarf að gera það upp með öllu því sem til þarf.

mbl.is Verklagsreglur samgönguráðuneytisins brotnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegagerðin ber fulla ábyrgð á ferjumálinu

Jón Rögnvaldsson Ég fagna þeirri ákvörðun samgönguráðherra að óska eftir stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni. Það var svosem ekkert annað í stöðunni fyrir hann eftir þá kolbikasvörtu skýrslu sem hefur verið opinberuð varðandi ferjumálið. Það þarf engan sérfræðing í stjórnsýslumálum til að sjá að mikil handvömm hefur orðið. Það þarf að fara yfir málefni Vegagerðarinnar nú. Þetta er hinn eðlilegasti hlutur í sjálfu sér og engum til frægðarauka að horfa framhjá stöðu mála.

Það þarf svosem ekki að leita langt að þeim sem ber ábyrgð á þessu máli að mínu mati. Þar verður horft til Vegagerðarinnar. Það er eitthvað stórlega að þeim sem kennir öðrum um þetta. Mér finnst það t.d. frekar fjarstæðukennt hjá samgönguráðherranum að kenna einhverjum ráðgjafa um skandalinn. Þegar á hólminn kemur er Vegagerðinni um að kenna og þangað verður horft, ekki til ráðgjafa.

Það er Vegagerðarinnar að meta ráðgjöfina sem á borðinu er og hennar er ákvörðunin. Þetta hefur Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, viðurkennt með mjög áberandi hætti, en hann tók sökina á sig og sína stofnun í hádegisviðtalinu á Stöð 2. Það verður spurt um það á næstunni hvort vegamálastjóra sé sætt í þessari stöðu. Væntanlega mun stjórnsýsluúttekt á stofnun hans ráða framtíð hans í starfi.

En mér finnst það ekki nokkur vafi eiga að leika á að einhver verður að taka fulla ábyrgð á þessu mikla klúðri.

mbl.is Vegamálastjóri segir að taka verði aðfinnslur Ríkisendurskoðunar alvarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfelld mistök í málefnum Grímseyjarferjunnar

Kristján Möller og ferjan Það er óhætt að segja að skýrsla Ríkisendurskoðunar um kaup á Grímseyjarferju sé kolsvört. Það er orðið langt síðan að verri áfellisdómur hefur sést í skýrslu frá þeim bænum. Það er ekki hægt að segja annað en staða þessa máls sem fram komi í skýrslunni sé reiðarslag fyrir alla hlutaðeigandi. Öllum er ljóst að pottur er verulega brotinn í málinu frá a-ö.

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að kaupa hafi átt nýja ferju. Sorgarsagan á bakvið kaupin á því skipi sem fyrir valinu varð að lokum er orðin löng og ömurleg í alla staði. Það voru mikil mistök að gera ekki eins og gert var varðandi Baldur á Breiðafirði að kaupa nýja ferju og hafa hana almennilega. Eða íhuga það að nota frekar gamla Sæfara áfram. Það hefði ekki verið verran en þessi aflóga dallur sem valinn var. Þessi ferja sem kom frá Írlandi og var ætluð Grímseyingum var svo illa farin að hún er enn í extreme makeover-meðferð í Hafnarfirði og sér ekki enn fyrir endann á því verklagi.

Það er alveg ljóst að þessi skýrsla er það svört að eftirmálar verða með einum hætti eða öðrum. Það er bara mjög einfalt mál í sjálfu sér. Vont verklag í málinu hlýtur að leiða til uppstokkunar verkferla og vinnulags við slíkar framkvæmdir. Það segir sig sjálft að þegar að endurbætur á ferju fara úr 150 milljóna skipulögðum pakka í yfir 500 milljónir að eitthvað stórfellt sé í raun að. Eðlilegast er að stjórnsýsluúttekt fari fram á þessu máli og það verði rannsakað í hörgul. Annað er ekki verjandi í þessu svarta máli.

mbl.is Vandamálin má rekja til ófullnægjandi undirbúnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl Rove kveður pólitíska tilveru George W. Bush

George W. Bush og Karl Rove Brotthvarf Karl Rove úr lykilstarfsliði George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, sem tilkynnt var um í dag eru stórtíðindi í bandarískum stjórnmálum. Rove hefur verið lykilmaður í starfsliði forsetans í áraraðir og er einn helsti hugsuðurinn á bakvið pólitískt veldi hans, bæði í Washington og áður í Austin. Hann hélt um alla þræði í báðum forsetakosningunum sem Bush sigraði og var óvæginn og afgerandi alla tíð í verkum fyrir forsetann, var hinn sanni spunameistari sem sjaldan klikkaði á mikilvægum stundum.

Þau tíðindi að Rove yfirgefi sviðið nú koma varla svosem að óvörum. Pólitískum ferli Bush forseta er að ljúka. Það styttist óðum í vaktaskipti í Hvíta húsinu. Það var komið að leiðarlokum í samstarfi þeirra hvernig sem var. Það er innan við eitt og hálft ár þar til að Bush heldur alfarinn til Crawford og fer að njóta sveitasælunnar á eftirlaunum. Það eru engar kosningar framundan og lykilverkefnum á stjórnmálaferli George W. Bush er lokið, eða í það minnsta styttist í endalokin. Bush var framan af forsetaferlinum sigursæll forseti. Hann tók við völdum með mjög naumu umboði, hafði þingið með sér lengi vel, vann eftirminnilega þingsigra árið 2002 og 2004 og hlaut endurkjör í Hvíta húsinu með nokkuð afgerandi hætti árið 2004.

Það hefur syrt í álinn fyrir þá fóstbræður Bush og Rove að undanförnu. Forsetinn hefur upplifað sögulegar fylgislægðir að undanförnu. Segja má að erfitt hafi verið fyrir hann síðasta árið, og væntanlega náðu vandræðin hámarki í nóvember 2006 þegar að repúblikanar töpuðu báðum þingdeildum. Síðan hefur valdabarátta þingdemókrata og forsetans verið háð á opinberum vettvangi og er sennilega rétt að hefjast. Hún mun standa allt þar til að yfir lýkur hjá Bush og hann yfirgefur Washington við lok forsetaferilsins í janúar 2009. Það stefnir í breytta tíma hjá repúblikönum. Ekki er víst hver hreppir hnossið um að berjast af hálfu flokksins um Hvíta húsið en breytingar verða með einum hætti eða öðrum. Það blasir við öllum.

Hlutverki Karls Rove í lykilstöðu er lokið. Hann hefur verið forsetanum mikilvægasti maðurinn á langri vegferð valdanna. Rove spilaði lykilrullu í sigri forsetans á Ann Richards í ríkisstjórakosningunum í Texas í nóvember 1994, þar sem hann lagði járnkonuna miklu sem flestir töldu að væri ósigrandi. Rove byggði upp kosningabaráttuna og lagði meginlínurnar í átökunum við Richards. Sigur vannst og forsetasonurinn, sem fram að því hafði verið talinn nokkuð misheppnaður eftir ýmislegt gloppótt og misheppnaðan stjórnmálaferil fram að því komst á pólitíska landakortið í Bandaríkjunum. Hann varð fyrsti ríkisstjórinn í sögu Texas til að vinna endurkjör til fjögurra ára árið 1998, enn og aftur með fulltyngi Rove, sem var lykilmaður í þeim afgerandi sigri (hlaut 70%) sem þá náðist.

George W. Bush ákvað að feta í fótspor föður síns árið 1999 og gaf kost á sér til embættis forseta Bandaríkjanna þegar að litríkum forsetaferli Bill Clinton var að ljúka. Hann náði útnefningu repúblikana eftir harðan slag framan af við John McCain, sem tókst að vinna í New Hampshire. Kosningabaráttu Bush var stýrt, sem fyrr, af lykilráðgjöfum hans í gegnum ríkisstjóraferilinn í Texas: þeim Karl Rove, Karen Hughes og John Allbaugh. Rove var allt í öllu sem fyrr og markaði grunnlínur kosningaslagsins og beitti öllum brögðum eins og ávallt áður í að tryggja vænlega stöðu Bush. Kosningaslagurinn við Al Gore varð gríðarlega harður og náði nýjum hæðum í kvikindislegum skotum milli herbúða aðalkandidatanna.

Strax varð ljóst að kvöldi kjördags að naumt yrði á munum og vakti öll heimsbyggðin alla kosninganóttina eftir að landið skýrðist í baráttunni. Það varð vandræðalegt áfall fyrir allar lykilsjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna er þær breyttu spá sinni í Flórída-fylki um miðja kosningavökuna. Þar hafði Al Gore áður verið spáð sigri og var Bush spáð sigrinum eftir miklar sviptingar. Að lokum fór það svo að Flórída réði úrslitum í kosningunum - sigurvegari fylkisins varð forseti. Undir morgun lýstu sjónvarpsstöðvarnar yfir naumum sigri Bush er Flórída varð hans. Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu þá að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt.

Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum árin 1986-2005, það tímabil sem hann leiddi réttinn. Bush sagði af sér ríkisstjóraembættinu í Texas síðla desembermánaðar 2000 og tók Rick Perry, vararíkisstjóri, við embættinu. Bush sór embættiseið sinn þann 20. janúar 2001. Með því urðu Bush-feðgarnir aðrir feðgarnir í sögu landsins til að gegna forsetaembættinu en John Adams og John Quincy Adams voru þeir fyrri.

Karl Rove fylgdi George W. Bush til Washington. Hann hreiðraði um sig í Hvíta húsinu og varð lykilmaður alls sem gerðist hjá forsetanum. Hann hélt á öllum lykiltaugum kosningabaráttunnar 2004 þar sem Bush barðist fyrir endurkjöri. Svo fór að Bush náði sigri eftir erfiða stöðu um skeið og lagði John Kerry, þrátt fyrir að Michael Moore framleiddi heimsfræga mynd til höfuðs forsetanum á kosningaári. Sögusagnir herma að sá sem hafi brosað breiðast þegar að Kerry viðurkenndi tapið í Ohio og þarmeð í kosningunum hafi verið Rove, sem hefði sagt eftir símtal Kerrys við Bush: "Well then it´s four years to go George" með bros á vör.

Síðustu árin hafa verið mörkuð af hneykslismálum og erfiðleikum. Rove flæktist í frægt hneykslismál þar sem honum var gert að sök að hafa gerst brotlegur við lög vegna uppljóstrana um starfsmann leyniþjónustunnar, CIA. Svo fór að hann var ekki ákærður en hann skaddaðist mjög í stöðu sinni við svo búið. Þau vandræði komu ofan á önnur sem þyngdu stöðu forsetans, t.d. er Harriet Ellan Miers, valkostur Bush sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, náði ekki stuðningi þingrepúblikana til setu í réttinum og strandaði í því markmiði sínu að verða þriðja konan á dómarastóli í Hæstarétti.

Forsetaferill George W. Bush hefur verið stormasamur, einkennst bæði af miklum hæðum og lægðum á langri vegferð. Í gegnum öll verkefnin og alla sigrana á langri leið hefur Karl Rove verið lykilmaður og leitt allt starf hans, smátt sem stórt. Hann hefur verið nefndur maðurinn sem gerði George W. Bush að forseta og fræg bók James Moore og Wayne Slater nefndi hann Bush´s Brain. Nú kveður Karl Rove pólitíska tilveru forsetans eftir langt verk. Það styttist í pólitísk endalok Bush en áður en að því kemur yfirgefur sjálfur handritshöfundur allra sigra Bush og helstu verka hans skipið.

Það styttist nú mjög í sögulok í handritinu. Rove hefur yfirgefið sviðið og einn valdamesti maður heims þarf að halda áfram án fixersins, sem heldur nú aftur heim til Texas nokkru á undan húsbónda sínum. Stóra spurning dagsins er: hvernig mun Bush ganga að feta síðustu metrana úr embættinu og heim í heiðardalinn í Texas? Það verður giska fróðlegt að sjá tel ég.

Tengdir pistlar SFS
George W. Bush sextugur (6. júlí 2006)

mbl.is Rove kvaddi Bush með stolt í hjarta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Gordon Brown flýta kosningum í Bretlandi?

Gordon Brown50 dagar eru liðnir frá því að Gordon Brown tók við völdum í Bretlandi eftir þrettán ára langa og napra bið. Deilt hafði verið um það lengi innan Verkamannaflokksins áður en að valdaskiptum kom hvernig forsætisráðherra hann myndi verða og hvort hann gæti notið lýðhylli, hvort að hann hefði einfaldlega ekki beðið of lengi eftir húsbóndavaldi í Downingstræti 10. Þegar að hveitibrauðsdagar Skotans eru hálfnaðir deilir enginn um hversu sterk staða hans er.

Verkamannaflokkurinn hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga við völdin eftir erfiða tíma undir lok forsætisráðherraferils Tony Blair, sem var orðinn verulega skaddaður síðustu misserin og allt að því hataður innan flokks sem utan vegna fjölda mála. Nýr forsætisráðherra hefur tryggt flokknum raunhæfa möguleika á að halda völdum í næstu þingkosningum og slá Íhaldsflokkinn fjórða skiptið í röð út af laginu. Það er nú rætt um það hvort kosningum verði hreinlega flýtt og Brown muni reyna að fá afgerandi umboð í eigin nafni. Staðan er allavega vænleg fyrir Gordon Brown.

Meira að segja heimsókn Browns til George W. Bush í Camp David í kastljósi heimspressunnar hefur engu breytt um persónulegar vinsældir hans heima fyrir. Breskir stjórnmálaskýrendur höfðu dregið í efa að heimsókn af þessu tagi svo snemma á hveitibrauðsdögunum væri skynsamleg og margir töldu ferðina feigðarflan fyrir mann sem væri á gullnu brautinni. Með ferðinni staðfesti Brown sterk bönd við Bandaríkjastjórn og gaf gagnrýnendum langt nef með því að vera kammó og hress við Bush forseta. Ferðin reyndist ekki feigðarflanið sem spáð var. Forsætisráðherrann þýtur enn upp vinsældalistann og mælist vinsælli sem aldrei fyrr í könnunum helgarinnar.

En hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Það hefur David Cameron sannreynt að undanförnu. Margir töldu kosningasigur í sjónmáli fyrir hann og íhaldsmenn eftir tíu ára napra pólitíska eyðimerkurgöngu Íhaldsflokksins. Munurinn á flokkunum fór mest í um tíu prósentustig. Nú hefur þetta snúist við. Verkamannaflokkurinn hefur samkvæmt YouGov-könnun dagsins tíu prósent umfram íhaldsmenn. Örvænting er í innstu herbúðum Camerons og hann hefur höktað til að undanförnu, er að reyna að finna rétta taktinn. Fyrir hann er upp á allt að spila í næstu kosningum. Tap þýðir að enn verður leitað að nýjum leiðtoga. Það blasir við.

Gordon Brown hefur alla tíð verið úthugsandi pólitískur klækjarefur. Það sást best í valdaátökum hans við Tony Blair bakvið tjöldin árum saman. Hann vann þann slag á sálfræðinni og tók helstu andstæðingana á taugum. Svo fór að hann fékk pólitískt ríkidæmi Tony Blair á silfurfati. Helstu Blair-istarnir lögðu niður skottið og sættu sig við orðinn hlut. Pólitísk velgengni hans frá valdaskiptunum þann 27. júní sl. hefur reynst mun meira afgerandi en jafnvel helstu samherjar Skotans þorðu að vona. Sigur er í nánd ef hann spilar taflið rétt. Það segja kannanir.

En pólitísk gæfa getur verið fallvölt. Það sem snýr upp í dag getur fallið niður á morgun. Það eru því spennandi tímar pólitískt í Bretlandi. Um þrjú ár eru eftir af kjörtímabilinu en við öllum blasir að það styttist mjög í kosningar haldi hveitibrauðsmælingar forsætisráðherrans áfram með þessum hætti. Pólitískur klækjarefur sem hefur tök á stöðunni veit að hann hefur allt í hendi sér í svona andrúmslofti. En nú reynir á Brown, sem hefur tekist að verða mun öflugri og vinsælli en mörgum óraði fyrir. Sögulegir sigrar gætu verið framundan spili hann rétt.


mbl.is Bretland: Verkamannaflokkurinn með gott forskot á Íhaldsflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband