Bæjarstjórn Akureyrar enn í sumarleyfi

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Bæjarmálin á Akureyri eru greinilega enn í sumarleyfi. Ég heyrði í dag að ágústfundi bæjarstjórnar Akureyrar, sem átti að fara fram á morgun, hefði verið aflýst af Kristjáni Þór Júlíussyni, alþingismanni og forseta bæjarstjórnar, þar sem engin fundarefni hefðu verið til staðar. Júlífundur var haldinn og var áætlaður fundur á morgun, en aðeins eru tveir fundir skipulagðir í þessum mánuðum. Það er því greinilega rólegt yfir öllu hér.

Vekur þetta vissulega athygli í þessu stóra sveitarfélagi. Fyrir þrem árum var hið sama upp á teningnum, að sumarfundi væri aflýst, og þá ritaði Jón Ingi Cæsarsson, núv. varabæjarfulltrúi og formaður Samfylkingarinnar hér í bæ, á vef flokksins gegn því og sagði: "Það virðist sem hið nýja andlýðræðislega fyrirkomulag meirihlutans sé að létta bæjarfulltrúum, kjörnum fulltrúum Akureyringa, lífið léttara hvað varðar bæjarstjórnafundi." Síðar segir: "Kannski eiga sum vandamál rætur að rekja til þessa tímabils doða og aðgerðaleysis. Mörg mál mega og geta beðið en er það gott að láta alla stjórnsýslu liggja í dvala vikum og jafnvel mánuðum saman?".

Þetta eru umhugsunarverð orð þykir mér innan úr Samfylkingunni þessar síðustu sumarvikurnar og þau fá nýja merkingu með Samfylkingunni í meirihluta. Annars hefði mér ekki fundist óeðlilegt að bæjarstjórn hefði rætt mál sem var í kastljósi fjölmiðla undanfarnar vikur, sjálf tjaldsvæðamálin, þar sem 23 ára aldurstakmark var sett á. Í fréttum um verslunarmannahelgina kom fram að ákvörðunin nyti ekki stuðnings meirihluta bæjarstjórnar, sem vakti athygli vegna þess að ákvörðunin var tekin af bæjarstjóranum sjálfum.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða mál meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar leggi áherslu á í vetur eftir þetta góða sumarfrí þessar vikurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig meirihlutinn bregst við þessum pistli og þá sérstaklega Jón Ingi Cæsarsson.

Sigurjón Þórðarson, 20.8.2007 kl. 22:51

2 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Það eru góð tíðindi að bæjarbúar geti verið á "auto-pilot" svo stóran hluta úr árinu.  Svo taka undirnefndir bæjarstjórnar bara ákvarðanir, líkt og í tjaldstæðamálinu, gegn vilja meirihluta bæjarstjórnar sem ekki einu sinni ræðir málið eftirá. 

Ég velti því fyrir mér hvort ekki er hægt að draga úr kostnaði og draga enn frekar úr fundum bæjarstjórnar eða jafnvel leggja þá af.

Hreiðar Eiríksson, 20.8.2007 kl. 23:29

3 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Hvaða stress er þetta Stefán það var fundur síðast 17. júlí og annar þar á undan 19. júní. Er ekki nóg að hafa fund aftur 4. september þ.e. ef það er eitthvað um að ræða þá. Það gerir einn fund á 10 vikna bili sem ég held að hér á Akureyri sé alveg nóg svona yfir há sumarið.

Gísli Aðalsteinsson , 21.8.2007 kl. 09:19

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Þröstur: Mér finnst þetta mjög óheppilegt mál og skil ekki í bæjaryfirvöldum að reyna ekki að landa því með mýkri hætti en þessum að maðurinn er allt að því borinn út af sínu svæði. Ekki gott mál og ég vona að menn mildi afstöðu sína eitthvað. Það hefði getað leyst mál að bærinn hefði veitt honum hreinlega aðra lóð undir verslunina á þessu svæði eða hliðrað til. Skil ekki þessa miklu hörku. Svo hefði líka verið gott ef hann hefði fengið hreinlega inni í stúdentablokkinni. Getur vel verið að ég skrifi um þetta.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.8.2007 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband