Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gremja sjálfstæðismanna - styrkur Hönnu Birnu

Hanna Birna Kristjánsdóttir Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru hvassir á borgarstjórnarfundi í dag, sem markaði valdaskipti í Reykjavík. Gremja þeirra vegna sviptinga í borgarmálum er skiljanleg, miðað við allar aðstæður. Mér fannst Hanna Birna Kristjánsdóttir flytja bestu ræðu borgarfulltrúanna sjö á þessum fundi. Hún talaði hreint út og var ekki að skafa utan af því í garð Björns Inga Hrafnssonar og ekki síður Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en við öllum blasir að Vilhjálmur hefur unnið einn mörg verk í sínum hópi og án þess að kynna samherjum sínum það.

Að mínu mati er sá trúnaðarbrestur og einfarahlutverk Vilhjálms í lykilmálum stærsta ástæða þess hvernig fór í þessu máli fyrir Sjálfstæðisflokknum. Allt annað kom einfaldlega í kjölfarið. Vilhjálmi varð mjög á í leiðtogahlutverkinu sem slíku og staða hans hefur veikst gríðarlega á skömmum tíma - verður aldrei söm og jöfn og eftir prófkjörssigurinn í nóvember 2005. Þar fékk hann traust flokksmanna sem hann hefur ekki staðið undir. Lýsingar Hönnu Birnu á verklaginu í REI-málinu segja meira en mörg orð um hvernig borgarstjórinn stóð einn og vann einn að mörgum málum sem skiptu máli.

Fannst mér Hanna Birna það hvöss að hún gerir ekki greinarmun á verklagi leiðtoganna tveggja. Niðurstaða mála er að mínu mati mesta áfall Sjálfstæðisflokksins frá því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk fyrir tveim áratugum og honum var sparkað af samstarfsmönnum sínum út úr forsætisráðuneytinu. Mér finnst þessi staða enn verri en blasti við þegar að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði borginni fyrir þrettán árum til R-listans. Þá var tapið viðbúið eftir erfiða kosningabaráttu, sem þó var glettilega nærri því að vinnast undir lokin. Nú tapar flokkurinn völdum án kosninga og vegna atburðarásar sem spilaði sig sjálf áfram án stjórnar.

Ég fer ekki leynt með þá skoðun mína að Hanna Birna er öflugasti borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Hún talar af krafti og sannfæringu - er sannur leiðtogi og kjarnakona í forystu. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist næst í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Hinsvegar tel ég einsýnt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er í raun búinn að vera sem sterkur leiðtogi flokksins í borginni.

Það er eðlilegast að horft verði til Hönnu Birnu sem eftirmanns hans, hversu fljótt sem leiðtogaskipti verða. Tel þó ekki langt í þau, í sannleika sagt. Get ekki séð að "gamla góða Villa" sé sætt miklu lengur eftir atburðarás síðustu daga, sérstaklega síðustu 48 klukkustunda.

mbl.is Hanna Birna upplýsti um hvers vegna borgarstjórnarsamstarfið brast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís þögul - sjálfstæðismenn styðja málssókn

Svandís Það vekur athygli að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi, sem hafði svo stór orð uppi í REI-málinu, flutti ekki ræðu á borgarstjórnarfundi í dag og er alveg þögul vegna stöðu málsins. Það hefði farið vel á því að hún hefði gefið einhverja yfirlýsingu um framhald máls hennar fyrir dómstólum þar sem taka á afstöðu til þess hvort hluthafafundur Orkuveitunnar hafi verið löglegur. Það er mjög merkilegt að Svandís sem talaði svo opinskátt um málið og var svo virk í því að krefjast réttlætis sé þögnuð.

Það er auðvitað mikilvægt að máli hennar verði haldið áfram og úrskurðað um vægi fundarins. Annað er ekki eðlilegt. Þetta hef ég sagt frá því að málið hófst og hef ekki skipt um skoðun. Nú á fundi borgarstjórnar hefur bókun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um að borgarstjórnin styddi við málssókn Svandísar Svavarsdóttur vegna eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur verið felld en þess í stað vísað til borgarráðs. Svandís tók ekki til máls um stöðu málssóknarinnar en lagði fram bókun orðrétt um margfræga nefnd sína en sagði ekkert annað.

Mér finnst þetta mjög athyglisvert að öllu leyti. Af hverju er Svandís Svavarsdóttir allt í einu orðin þögul sem gröfin? Af hverju tekur hún ekki undir þessa fyrrnefndu bókun? Hefur afstaða hennar breyst á eigin máli? Ég taldi Svandísi eflast mjög af framgöngu sinni af málinu í upphafi og hef talað máli þess að hún fari fyrir dóm með sitt mál og undrast þögn hennar á þeirri örlagastundu sem nú er orðin með því að hún er komin í meirihluta borgarstjórnar.

mbl.is Vilhjálmur: Borgarstjórn styðji málssókn Svandísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt sjónarspil í Orkuveitu Reykjavíkur

Bingi glottir við tönn Það vekur athygli að vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að skipta kjörnum fulltrúum sínum út fyrir trúnaðarmenn er nefnd leidd af Svandísi Svavarsdóttur verður að störfum. Hlýtur þetta að teljast pólitískt sjónarspil, enda er þegar tilkynnt með þessari yfirlýsingu að því loknu verði Sigrún Elsa Smáradóttir, starfandi borgarfulltrúi, stjórnarformaður Orkuveitunnar út kjörtímabilið og væntanlega Björn Ingi Hrafnsson aftur varaformaður.

Samkvæmt þessu verður Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrum þingflokksformaður Samfylkingarinnar, stjórnarformaður Orkuveitunnar í stað Hauks Leóssonar, og Jón Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, varaformaður í stað Björns Inga Hrafnssonar. En þetta er auðvitað bara tímabundin ráðstöfun og er varla hægt að lesa þetta út nema sem sjónarspil - tilraun til að kasta vænum skammt af glimmer í augu kjósenda. Eðlilegra hefði verið að skipa þessa fulltrúa án þess að nefna annað í þeirri stöðu. Er þetta ekki bara leiktjaldapólitík? Það er freistandi að líta svo á.

Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessari nefnd undir forystu Svandísar Svavarsdóttur. Þykir mér benda til þess að meirihlutinn hafi fyrirfram ákveðnar niðurstöður tilbúnar til taks, það sést af því að þegar er tilkynnt að stjórnarmenn meirihlutans sem sátu í stjórn Orkuveitunnar er umdeildur samruni var staðfestur með enn umdeildari kaupréttarsamningum og greiddu atkvæði með þeim sitja áfram á þeim stólum. Í sama ljósi og krafið er útskýringa á ummælum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fyrrum borgarstjóra, á einkaréttarsamningum er rétt að leita viðbragða um hvenær það hafi vitað af þeim siðlausa gjörningi til 20 ára.

Það er fá teikn um það að umdeildum málum í Orkuveitunni sé lokið. Í því ljósi vekur athygli að svona sjónarspil sé lagt fram, þar sem trúnaðarmönnum meirihlutaaflanna er stillt sem dúkkum fyrir borgarfulltrúa meirihlutans meðan að rykið í REI-málinu á að setjast.

mbl.is Bryndís Hlöðversdóttir nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndar konur lýsa yfir vantrausti á Margréti

Margrét Sverrisdóttir Síðar í dag verður Margrét Sverrisdóttir kjörin forseti borgarstjórnar er nýr vinstrimeirihluti tekur við völdum í Reykjavík. Nú hafa konur í Frjálslynda flokknum, sem Margrét var í árum saman og gegndi starfi framkvæmdastjóra í ályktað gegn henni með harðorðum hætti og greinilega gera mjög lítið úr umboði hennar til verka. Þarna er engin tæpitunga töluð og greinileg ólga innan Frjálslynda flokksins með nýjan meirihluta í borgarstjórn með lykilstöðu Margrétar sem oddamanns.

Ég hef vikið nokkrum sinnum hér að stöðu Margrétar Sverrisdóttur. Í gær vék Ómar Ragnarsson sérstaklega að stöðu Margrétar innan  nýs meirihluta í fjölmiðlum og fannst mér þar allt tal um að hún yrði óháður borgarfulltrúi fljúga út um gluggann. Það er varla óvarlegt að telja að hún vinni í nafni Íslandshreyfingarinnar í borgarstjórn, verandi varaformaður þess flokks. Kjör Margrétar á forsetastól borgarstjórnar verður sögulegt, ekki aðeins er hún varafulltrúi heldur hefur yfirgefið flokkinn sem hún var fulltrúi fyrir á F-listanum í kosningunum 2006.

Í þessum efnum hefur verið talað mjög um bréf Margrétar Sverrisdóttur til umboðsmanns Alþingis fyrir tveim árum vegna brotthvarfs Gunnars Örlygssonar, þáverandi alþingismanns, úr Frjálslynda flokknum. Það er vert að birta það bréf hér í heild sinni og svo verður hver og einn að meta þann boðskap miðað við stöðu Margrétar sjálfrar í dag.


Bréf Margrétar Sverrisdóttur

"Umboðsmaður Alþingis,
Hr. Tryggvi Gunnarsson,
Álftamýri 7
108 Reykjavík

Alþingi, 29. sept. 2005

Spurning um fulltrúalýðræðið á Íslandi

Á þingfundi á síðasta starfsdegi Alþingis sl. vor, tilkynnti Gunnar Örn Örlygsson alþingismaður að hann hefði sagt sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokk.

Með vistaskiptum þingmannsins jókst meirihluti ríkisstjórnarflokkanna. Stjórnarliðar urðu 35 en stjórnarandstæðingar 28. Þetta þýðir að fjóra stjórnarþingmenn þarf til að fella þingmál ríkisstjórnarinnar, en áður þurfti þrjá.
Þess má þó geta að varamaður þingmannsins, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, er í Frjálslynda flokknum og engar breytingar verða á stöðu hennar. Þurfi hann fjarvistarleyfi á þingi, kemur hún inn í hans stað og þar með eykst hlutur stjórnarandstöðunnar að nýju.

Þingmaðurinn var efsti maður á lista Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi. Fyrst hann vildi yfirgefa það sæti hefði undirrituð álitið að næsta manni á þeim lista bæri að taka við og ef sá vildi ekki taka við sætinu bæri að leita til næsta manns á sama lista o.s.frv.

Þingmaðurinn tilkynnti formanni flokksins, Guðjóni A. Kristjánssyni, að hann hygðist ekki styðja flokk Frjálslyndra og sagði sig þar með úr flokknum.

Það er mat undirritaðrar að það væri þá í hendi formannsins að ráðstafa sæti þingmannsins til þess manns sem næstur er á listanum. Annað væri svik við kjósendur listans. Þingmaðurinn ákvað að segja af sér þingmennsku á vegum Frjálslynda flokksins en sætið er áfram sæti Frjálslyndra.

Ég undirrituð, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, vil hér með óska eftir rökstuddu áliti Umboðsmanns Alþingis á því hvort Gunnari Örlygssyni hafi verið heimilt að fara eins og hann gerði með það umboð sem kjósendur Frjálslynda flokksins veittu honum í síðustu alþingiskosningum. Gæti kjörinn þingmaður t.d. skipt um flokk um leið og hann hefur móttekið kjörbréf sitt? Sé það heimilt, er þá opin leið fyrir tækifærissinna að fara í framboð fyrir einn flokk, ákveðnir í að skipta um flokk strax að loknum kosningum? Er sú leið opin og lögmæt að mati háttvirts umboðsmanns?

Virðingarfyllst,

Margrét Sverrisdóttir
framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins
(sign.)"

mbl.is Vantrausti lýst á Margréti Sverrisdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð gegn orði - pólitísk staða Vilhjálms veikist

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það eru mjög margar spurningar sem standa eftir Kastljósið í kvöld þar sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI, töluðu í tvær áttir um einkaréttarmálið fræga. Það er orð á móti orði og allir spyrja sig um það hvor þeirra sé að ljúga, eða öllu heldur færa hlutina í vitlaust samhengi. Nema þá að báðir séu að segja satt og einhver hafi misskilið hlutina. Erfitt um að segja.

Stærstu tíðindin eru augljós ágreiningur Vilhjálms og Hauks Leóssonar, fráfarandi stjórnarformanns OR, í málinu. Haukur hefur tekið að öllu leyti undir frásögn Bjarna á málinu. Eins og flestir vita er Haukur enginn venjulegur maður úti í bæ heldur lykilpersóna á borgarstjóraferli Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Hann spilaði stórt hlutverk í innsta hring hans í aðdraganda prófkjörsins í nóvember 2005 þar sem VÞV sigraði GMB og hlaut að launum sæti sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR eftir kosningarnar 2006 og varð stjórnarformaður eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson varð heilbrigðisráðherra. Það er alveg ljóst að það að Haukur staðfesti ummæli Bjarna breytir miklu.

Það er ekki hægt að sjá annað en að algjör vinslit hafi orðið með Vilhjálmi og Hauki vegna REI-málsins. Varla staðfesti Haukur frásögn Bjarna ef væri fullur vinskapur á milli þeirra fornu félaga. Staða Vilhjálms Þ. hefur klárlega veikst mjög. Það held ég að sé óhætt að segja. Hann lítur mjög undarlega út í þessu máli eftir atburði dagsins. Annaðhvort er hann að segja satt eða ljúga. Í öllu falli má fullyrða að hann hafi ekki staðið sig í stykkinu, í fyrra lagi ekki kynnt sér gögn í málinu sem voru til staðar eða ella að reyna að firra sig ábyrgð. Hvort tveggja lítur mjög illa út að mínu mati og veikir stöðu hans.

Það er vandséð að Vilhjálmur Þ. verði sterkur leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur úr þessu. Það hefur of margt gerst og gengið á milli aðila til að bætt verði úr. Það má vissulega hugleiða það hvort að allir mennirnir hafi saman fallist á sögu til að ráðast að borgarstjóranum og ganga frá honum í staðinn fyrir að taka sökina á sig. Það má vera, en samt sem áður verður ekki sagt annað en að hafi borgarstjórinn ekki getað fylgst með málinu úr starfi sínu, sitjandi á öllum upplýsingum, hafi hann einfaldlega ekki verið að vinna vinnuna sína. Það verður erfitt fyrir hann að ná styrk eftir þetta.

Mér fannst Vilhjálmur koma mjög illa út úr Kastljósinu í kvöld - hann hafði aldrei yfirhöndina í samtalinu. Það er vissulega ömurlegt að sjá Vilhjálm Þ. í þessari stöðu. En hinsvegar finnst mér hann hafa veikst það mjög að vandséð verði að úr verði bætt. Ég tel að atburðarás dagsins verði örlagarík. Það er í sjálfu sér einfalt mál. Mér finnst persónulega erfitt að trúa því að borgarstjórinn hafi verið eyland í málinu með fornvin sinn og lykilfélaga sem stjórnarformann Orkuveitunnar og alla þræði borgarmálanna í hendi sér.

Það er ekki hægt að segja annað en að Vilhjálmur hafi ekki vitað hvað hann var að gera ef hann var ekki með á atburðarásina. Og í sjálfu sér eru það nógu vond tíðindi fyrir hvaða stjórnmálaflokk að vinna úr með leiðtoga sinn. Ég get ekki séð að Vilhjálmi Þ. sé sætt lengur í sinni stöðu. Því miður, en það er bara þannig.

mbl.is Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúverðugar afsakanir Vilhjálms

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Ég undrast mjög hvernig það getur eiginlega staðist að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hafi ekki vitað um einkaréttarsamningana þegar að grunnur þeirra blasa við í minnisblöðum sem voru lögð fyrir fund með honum þann 23. september sl. Mér finnst það ekki trúverðugt eins og komið er málum að Vilhjálmur neiti að hafa vitað um 20 ára ákvæðið sérstaklega. Það blasir orðrétt við í gögnum að vísað er til slíks samnings.

Mér finnst þetta vægast sagt afleitt mál fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson. Gildir þá satt best að segja einu hvort sem hann er að segja ósatt um að hafa ekki vitað af grunni einkaréttarsamningsins eða hafi ekki lesið gögnin sem eru á borðinu og með því lagt saman tvo og tvo, eins og allir gera sem lesa gögnin. Veit ekki hvort er verra í sannleika sagt. Í báðum tilfellum er ljóst að viðkomandi er varla starfi sínu vaxinn. Þetta mál blasir allavega þannig við mér eins og gögnin segja til um. 

Mér finnst þetta mál allt verulega slæmt fyrir Vilhjálm Þ. Mér finnst það með ólíkindum að maður í hans stöðu og með þær upplýsingar á borðinu er blasa við hafi ekki vitneskju um lykilmál sem það er um ræðir. Það er afskaplega einfalt mál. Ég fæ ekki betur séð en að spurt verði um hvort hann sé nógu trúverðugur til að halda áfram í hlutverki sínu sem leiðtogi flokks síns eftir þessa atburðarás.

mbl.is Vilhjálmur Þ: „Nei, 20 ára ákvæðið var ekki kynnt fyrir mér "
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissi Vilhjálmur Þ. um einkaréttarsamninginn?

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Mér finnst það mjög alvarlegt mál ef það er rétt sem kemur fram í yfirlýsingu Bjarna Ármannssonar, Hauks Leóssonar og Hjörleifs Kvaran að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hafi vitað af ákvæðum einkaréttarsamningsins margumtala. Sjálfur hefur hann neitað með afgerandi hætti í viðtölum um helgina vitneskju um samninginn og lykilþáttum hans.

Það er ljóst að það er ekki rétt ef yfirlýsing þremenninganna og birting minnisblaða færir fram sannleikinn í málinu. Ég verð fúslega að viðurkenna að mér finnst þetta mál hafa farið í marga og óskiljanlega hringi. En eftir stendur að spurt er um trúverðugleika. Hafi borgarstjórinn í Reykjavík verið upplýstur um alla þætti einkaréttarsamnings margumtalaða hefur hann fulla vitneskju málsins. Það er öllum ljóst.

Það má vel vera að eitthvað hafi vantað í heildarmyndina fyrir kjörnum fulltrúum en þessi minnisblöð sýna svo vel stöðu málsins og lykilpunkta þess að það er fjarstæða að halda því fram eftir að hafa vitneskju um þau að ekki sé fyrir hendi þekking eða kunnátta á málinu. Það er mjög einfalt mál.

mbl.is Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið stendur sig vel í REI-málinu

OR Það er ánægjulegt að sjá hversu vel Fjármálaeftirlitið er að standa sig í REI-málinu. Það er mikilvægt að fara vel yfir það mál, en það er auðvitað stóralvarlegt ef rétt er sem Fjármálaeftirlitið grunar að verið sé að fara á svig við lög og reglur um verðbréfaviðskipti með stofnun eignarhaldsfélags sem keypti hlutabréf í REI fyrir hönd starfsmanna OR.

Mér finnst þetta mál verða sífellt skítugra og virðist vera pottur brotinn víða. Fór ég yfir það sem mér fannst helst blasa við í gær. Það verður áhugavert að sjá hvað nýji meirihlutinn, Rei-listinn, muni gera í málefnum REI og Orkuveitunnar. Það vakti t.d. mikla athygli í gær orð Svandísar og Björns Inga um REI en þau töluðu í tvær áttir um hluthafafundinn og hvort skera ætti úr um lögmæti hans með dómsmálinu sem dómtekið var í dag.

Það er ljóst að vandséð verður hvernig sjónarmið allra framboðanna fjögurra í nýjum meirihluta verði sætt í þessu máli og eiginlega leikur forvitni á að vita hversu vel muni ganga að ná þeim saman í eina heildstæða skoðun. Það blasir við öllum að það sem skiptir mestu máli er að ógilda hluthafafundinn fyrir um hálfum mánuði og finna nýtt upphaf í þessu máli sem er fjarri því lokið.

mbl.is Fjármálaeftirlitið gerir athugasemdir við stofnun eignarhaldsfélags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Íslandshreyfingin í oddastöðu í borgarstjórn?

Margrét Sverrisdóttir Það var hlægilegt að sjá Ómar Ragnarsson, formann Íslandshreyfingarinnar, hreykja sér af því í hádegisfréttum Stöðvar 2 að flokkurinn væri kominn í oddastöðu í borgarstjórn er hin sjálfskipaða óháða Margrét Sverrisdóttir verður forseti borgarstjórnar. Það er eiginlega eðlilegt að þessum feluleik með stöðu Margrétar ljúki og fram komi hverjum hún eigi að tilheyra. Það er greinilegt að Ómar telur sig eiga hvert bein í oddamanni hins nýja meirihluta, svosem varla furða enda er hún varaformaður flokksins sem hann leiðir.

Á fimmtudag, er nýji Rei-listinn var myndaður, gat Margrét ekki sagt hverjum hún tilheyrði. Hún sagðist þó vera sem óháð, þrátt fyrir að vera varaformaður í stjórnmálaflokki, og tók sérstaklega fram að Frjálslynda flokknum hefði verið rænt í ársbyrjun. Margrét verður fyrsti forseti borgarstjórnar sem hefur umboð sem enginn skilur. Hún er borgarfulltrúi í nafni flokks, sem hún klauf til að ganga í annan. Það er varla von á að meðaljónar skilji svona pólitík. En Íslandshreyfingin eignar sér Margréti með húð og hár.

Hvaða umboð hefur Íslandshreyfingin annars? Það er ekki nema von að spurt sé. Þeim flokk mistókst að ná þingmanni í Reykjavík (Ómar og Margrét voru allnokkuð frá því að eygja möguleika á þingsæti) en sjá nú fram á oddastöðu í borgarstjórn Reykjavíkur hvorki meira né minna þrátt fyrir að hafa aldrei orðið að nokkru nema fallegu nafni á kosningaskiltum sem höfðu engin áhrif.

Það er ekki nema von að fólk sé gáttað á þessari stórundarlegu stöðu - jú nema kannski Ómar sem glottir vegna áhrifa sinna, án umboðs í kosningum, og Margrét sem að telur eflaust klukkustundirnar í að launaumslagið fitni svo um munar er hún verður einn valdamesti forystumaður Reykjavíkurborgar.

REI-málið verður sífellt skítugra spillingarmál

Bingi glottir við tönn Eftir því sem litið er betur á REI-málið verður það sífellt skítugra spillingarmál að mínu mati. Það er stóralvarlegt mál að kjörnir fulltrúar borgarbúa innan meiri- og minnihluta staðfesti samruna REI og GGE og samning við REI án þess að kynna sér málin eins og virðist nú vera raunin með hinn svokallaða 20 ára samning sem er skuggaleg staðreynd sem kemur alltof seint fram. Það er ekkert annað viðeigandi núna en að ógilda hluthafafundinn og koma málinu á byrjunarreit.

Enn er óskiljanlegt hversu mikill flýtir var í þessu máli. Af hverju lá svona á? Hvaða hagsmunir voru fyrir því að flýta svo málum að ekki var hægt að upplýsa kjörna fulltrúa almennilega um stöðu mála og vinna það almennilega? Það verður sífellt augljósara að kjörnum fulltrúum var ekki færð heildarmyndin á málefnum REI og hvað væri að gerast. Frásagnir af því verða fjarri því áferðarfallegri. Einkaréttarsamningurinn er sérstaklega vont viðbótarinnlegg seint og um síðir. Þetta mál er engum til sóma og það á að klippa á allar gjörðir.

Mér finnst það mjög alvarlegt mál sérstaklega að talað sé um að kjörnir fulltrúar borgarbúa hafi verið inni í umræðu um kaupréttarsamningana. Það er ótrúlegt að það hafi einu sinni verið rætt, hvað þá annað. Það er veruleg skítalykt af öllu þessu máli og það skánar ekkert þó dagarnir líði. Skíturinn verður ekkert minna áberandi þó hann sé látinn í friði, lyktin verður enn verri. Það á sannarlega við í þessu máli. Smátt og smátt koma fram fleiri atriði í þessum ótrúlega farsa sem REI-málið verður að teljast. Risasamningi haldið leyndum og tal um kauprétt handa kjörnum fulltrúum. Þetta er ekki boðlegur verknaður frá a-ö.

Það sem vekur mesta athygli er að fulltrúi Samfylkingarinnar staðfesti verklagið á fundinum, það gerðu flestir flokkar og fulltrúar líka. Mun Sigrún Elsa Smáradóttir verða stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur eftir að hafa ekki kynnt sér málið, þó í minnihluta væri, og skrifað upp á verklagið? Það er von að spurt sé. Og hvað með þá sem héldu á málinu fyrir fundinn, af hverju voru upplýsingar ekki kynntar betur? Geta lykilstjórnendur á þessum bæ setið áfram á sínum feitu stólum eftir þetta klúður?

Tek undir ummæli Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur þess efnis að klippa verði á allt - strika þarf yfir fyrrnefndan fund. Eina leiðin til að koma þessu skítamáli í eðlilegan farveg er að klippa á verklagið sem var til staðar. Það er fjarri því lausn að róa málið eins og Svandís Svavarsdóttir komst að orði með svo mislukkuðum hætti. Það þarf allt upp á borðið og það þarf að velta öllum steinum við í þessu spillingarmáli. Nú þarf að opna málið upp á gátt.

mbl.is Einkaréttarsamningur til 20 ára ekki í tillögum á eigendafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband