Frjálslyndar konur lýsa yfir vantrausti á Margréti

Margrét Sverrisdóttir Síðar í dag verður Margrét Sverrisdóttir kjörin forseti borgarstjórnar er nýr vinstrimeirihluti tekur við völdum í Reykjavík. Nú hafa konur í Frjálslynda flokknum, sem Margrét var í árum saman og gegndi starfi framkvæmdastjóra í ályktað gegn henni með harðorðum hætti og greinilega gera mjög lítið úr umboði hennar til verka. Þarna er engin tæpitunga töluð og greinileg ólga innan Frjálslynda flokksins með nýjan meirihluta í borgarstjórn með lykilstöðu Margrétar sem oddamanns.

Ég hef vikið nokkrum sinnum hér að stöðu Margrétar Sverrisdóttur. Í gær vék Ómar Ragnarsson sérstaklega að stöðu Margrétar innan  nýs meirihluta í fjölmiðlum og fannst mér þar allt tal um að hún yrði óháður borgarfulltrúi fljúga út um gluggann. Það er varla óvarlegt að telja að hún vinni í nafni Íslandshreyfingarinnar í borgarstjórn, verandi varaformaður þess flokks. Kjör Margrétar á forsetastól borgarstjórnar verður sögulegt, ekki aðeins er hún varafulltrúi heldur hefur yfirgefið flokkinn sem hún var fulltrúi fyrir á F-listanum í kosningunum 2006.

Í þessum efnum hefur verið talað mjög um bréf Margrétar Sverrisdóttur til umboðsmanns Alþingis fyrir tveim árum vegna brotthvarfs Gunnars Örlygssonar, þáverandi alþingismanns, úr Frjálslynda flokknum. Það er vert að birta það bréf hér í heild sinni og svo verður hver og einn að meta þann boðskap miðað við stöðu Margrétar sjálfrar í dag.


Bréf Margrétar Sverrisdóttur

"Umboðsmaður Alþingis,
Hr. Tryggvi Gunnarsson,
Álftamýri 7
108 Reykjavík

Alþingi, 29. sept. 2005

Spurning um fulltrúalýðræðið á Íslandi

Á þingfundi á síðasta starfsdegi Alþingis sl. vor, tilkynnti Gunnar Örn Örlygsson alþingismaður að hann hefði sagt sig úr þingflokki Frjálslynda flokksins og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokk.

Með vistaskiptum þingmannsins jókst meirihluti ríkisstjórnarflokkanna. Stjórnarliðar urðu 35 en stjórnarandstæðingar 28. Þetta þýðir að fjóra stjórnarþingmenn þarf til að fella þingmál ríkisstjórnarinnar, en áður þurfti þrjá.
Þess má þó geta að varamaður þingmannsins, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, er í Frjálslynda flokknum og engar breytingar verða á stöðu hennar. Þurfi hann fjarvistarleyfi á þingi, kemur hún inn í hans stað og þar með eykst hlutur stjórnarandstöðunnar að nýju.

Þingmaðurinn var efsti maður á lista Frjálslynda flokksins í Suðvesturkjördæmi. Fyrst hann vildi yfirgefa það sæti hefði undirrituð álitið að næsta manni á þeim lista bæri að taka við og ef sá vildi ekki taka við sætinu bæri að leita til næsta manns á sama lista o.s.frv.

Þingmaðurinn tilkynnti formanni flokksins, Guðjóni A. Kristjánssyni, að hann hygðist ekki styðja flokk Frjálslyndra og sagði sig þar með úr flokknum.

Það er mat undirritaðrar að það væri þá í hendi formannsins að ráðstafa sæti þingmannsins til þess manns sem næstur er á listanum. Annað væri svik við kjósendur listans. Þingmaðurinn ákvað að segja af sér þingmennsku á vegum Frjálslynda flokksins en sætið er áfram sæti Frjálslyndra.

Ég undirrituð, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, vil hér með óska eftir rökstuddu áliti Umboðsmanns Alþingis á því hvort Gunnari Örlygssyni hafi verið heimilt að fara eins og hann gerði með það umboð sem kjósendur Frjálslynda flokksins veittu honum í síðustu alþingiskosningum. Gæti kjörinn þingmaður t.d. skipt um flokk um leið og hann hefur móttekið kjörbréf sitt? Sé það heimilt, er þá opin leið fyrir tækifærissinna að fara í framboð fyrir einn flokk, ákveðnir í að skipta um flokk strax að loknum kosningum? Er sú leið opin og lögmæt að mati háttvirts umboðsmanns?

Virðingarfyllst,

Margrét Sverrisdóttir
framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins
(sign.)"

mbl.is Vantrausti lýst á Margréti Sverrisdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Sæll Stefán Friðrik.  Þú fellur í sömu gryfjuna og margir aðrir.  Af hverju birtir enginn svarið frá Umboðsmanni Alþingis?  Og af hverju eru allir búnir að gleyma því að Frjálslyndir tóku fagnandi við Kristni H. Gunnarssyni rétt fyrir þinglok á liðnu vori........?  Ég á ekki von á öðru, þekkjandi Margéti að hún komi til með að starfa af fullum heilindum í borgarstjórn, og minni líka á það að Íslandshreyfingin á ekki aðild þar að.  Ég veit ekki betur en það sé félagafrelsi á Íslandi, og Margréti, líkt og mér og þér sé heimilt að starfa í hvaða félagsskap sem hún kýs.

Sigríður Jósefsdóttir, 16.10.2007 kl. 14:14

2 Smámynd: Halla Rut

Mjög vel lagt fram hjá þér Stefán.
Ég er sammála Inga. Hún er á móti því að þingmaður haldi sæti sínu ef hann yfirgefur flokk sinn þar til hún er sjálf í þeirri sömu stöðu, en þá er það allt í lagi og breytis þá setja hennar í persónulega kostningu. Vill einhver benda mér á hver kaus hana persónulega. Ef þetta er ekki að vera tækisfærissinni þá veit ég ekki hvað fellur undir það heiti.  
Sigríður. Auðvitað má Margrét þvælast á milli flokka og samtaka sem hún vill. Hún fer væntanlega í Samfylkinguna næst, vittu til. En þarna er hún í nafni flokks sem hún hefur sagt skilið við af því að hún fékk ekki það sem hún var ekki kosin í það sæti sem hún vildi. 
Ekki bara tækisfæris sinni heldur svo frek að hún fer ef flokkurinn kýs hana ekki í þau sæti sem hún kýs.

Halla Rut , 16.10.2007 kl. 14:41

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Ingi: Það er alveg ljóst að hún fylgir allavega ekki sjálf þeim boðskap sem hún setti fram fyrir tveim árum í garð Gunnars Örlygssonar.

Sigríður: Hvaða vitleysa er þetta. Margrét setur fram sjálf í eigin nafni bréf með einföldum útskýringum. Sömu skýringar eiga við um hana sjálfa núna. Það gildir ekkert annað í þeim efnum. Hún fer ekki sjálf eftir eigin siðagjörðum fyrir tveim árum. Það blasir bara við. Hvað varðar frjálslynda er vissulega hræsni þar. Þeir tóku sjálfir við Valdimar Leó, varamanni kjörins þingmanns Samfylkingarinnar, og Kristni H, kjörnum þingmanni Framsóknarflokks. En það fegrar ekkert stöðu Margrétar.

Halla Rut: Þakka gott og vel skrifað innlegg.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.10.2007 kl. 15:48

4 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Stefán! Það er að sjálfsögðu engin hræsni af hálfu frjálslyndra að taka við þingmönnunum Valdimar og Kristni H , í ljósi þess að búið var að blessa yfir að þetta væri löglegur gjörningur að Gunnar færi til Íhaldsins. 

Manni finnst þetta óneitanlega svolítið á skjön við eðlilegt siðferði, en spyrja má , hversvegna löggjafinn sér ekki ástæðu til að kveða ákveðið á um þetta atriði.  Það er að sjálfsögðu eðlilegt að menn séu aðeins bundnir af eigin sannfæringu þegar þeir taka afstöðu til mála á alþingi sem og í sveitarstjórnum, og að ekki sé hægt að henda fulltrúum út fyrir það eitt að hlýða ekki einhverri flokkslínu ef hún stangast á við sannfæringu þeirra.  Hitt er annað mál ef menn ganga úr flokknum sem þeir buðu sig fram fyrir í upphafi, þá hlýtur að taljast óeðlilegt að þeir haldi sæti sínu á vegum þess framboðs!

Kristján H Theódórsson, 16.10.2007 kl. 16:08

5 identicon

Margrét hefur, því miður enga vörn, í þessu máli annan en þann útúrsnúning sem hér má líta. Lögin voru augljós og á hreinu þegar Margrét skrifaði Umboðsmanni Alþingis. Svör hans voru fyrirfram augljós þeim er lögt höfðu á sig það lítilræði að glugga í lagasafnið.

Henni fannst þetta hinsvegar ámælisverð hegðun. Það sem oft er kallað ,,löglegt en siðlaust.'' Eða það fannst henni þegar það hentaði, því núna er þetta lagaleg skylda hennar að eigin sögn, en ekki vitund siðlaust.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 06:12

6 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Allt rétt sem síðasti viðmælandi segir, en í því tilviki var þar um að ræða yfirklór framkvæmdastjóra flokks sem að mínu áliti var í fýlu yfir því að ná ekki kjöri til þings, þá, þegar viðkomandi aðili sem yfir var kvartað hafði náð kosningu í öðru kjördæmi upphaflega.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 18.10.2007 kl. 02:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband