Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.10.2007 | 15:06
Heiðarlegt mat Hönnu Birnu á borgarmálunum

Þetta mál allt er mjög skítugt og það er vonandi að því verði lokið með almennilegum hætti, en ekki með hvítþvotti eins og margt bendir því miður til. Mér hefur fundist það sérstaklega virðingarvert að Hanna Birna horfir bæði inn á við og út á við í uppgjöri sínu. Það verður ekki hægt að saka hana um að vera ekki heiðarleg í uppgjörinu sem er nauðsynlegt, enda verður þetta mál ekki krufið almennilega nema það sé gert opinskátt og með því að segja hvað fór úrskeiðis inn á við og að öðru leyti. Það gerir Hanna Birna.
Hanna Birna hefur sýnt það og sannað að hún starfar út frá heiðarleika og hugmyndafræði, tók ekki þátt í vafasömu baktjaldamakki og laumuspili með skattpeninga. Þetta er sögulegt mál í borginni sem hefur riðið yfir og eðlilegt að hver geri það upp með sínum hætti. Lýsingar Hönnu Birnu á atburðarásinni er heiðarleg, enda er þar bæði sagt hvað gerðist inni í meirihlutanum og eins til hliðar við atburðarásina þar. Enn og aftur þykir mér Hanna Birna sýna og sanna að hún er sú heppilegasta í leiðtogahlutverk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á komandi árum.
![]() |
Við sinntum störfum okkar vel" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2007 | 18:57
Valgerður ætti að líta sér nær í greiningu
Það vekur athygli að Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, tali um veika stöðu Sjálfstæðisflokksins. Hún ætti að líta sér nær í pólitískri greiningu. Það er ekki hálft ár liðið frá því að þjóðin hafnaði Framsóknarflokknum í þingkosningum - er flokkurinn missti nærri helming þingsæta sinna og missti meðal annars sitjandi ráðherra fyrir borð og formaður flokksins á þeim tíma hlaut ekki stuðning til kjörs á Alþingi.
Sögulegt afhroð Framsóknarflokksins í þingkosningunum í vor ætti að vera henni nær í huga. Það er vissulega alltaf sárt að horfa inn á við og gera upp mál sín en það er uppbyggilegt til lengdar. Það sem er merkilegast reyndar nú er að fylgi Framsóknarflokksins er ekki á uppleið í könnunum. Þar er enn verið að lepja dauðann úr skel í orðsins fyllstu merkingu. Eftir brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar og Jóns Sigurðssonar verður brátt litið í aðrar áttir með skýringar á vondri stöðu flokksins í stjórnarandstöðu. Er þjóðin að hafna leiðsögn hinna reyndu, þeirra Guðna og Valgerðar, í flokknum? Er verið að kalla eftir kynslóðaskiptum í áherslum og uppstokkun forystunnar?
Hvernig ætlar forysta Framsóknarflokksins að dekka það ef kannanir halda áfram að verða svo vondar fyrir flokkinn? Eigum við þá von á greiningu á vefsíðu Valgerðar Sverrisdóttur með þeirri fyrirsögn að staða flokksins sé með eindæmum veik og spilaborgir forystumannanna kunni að hrynja? Held ekki. Stoltið hennar Valgerðar er eflaust stærra en svo. Það er alveg rétt hjá Valgerði að fall meirihlutans í Reykjavík er visst áfall. En þar er atburðarásin flókin og erfið og sögusagnir um óheilindi og fjárhagslega hugsmuni ganga. Það er eðlilegt að endalok samstarfs án kosninga séu sár.
Í vor missti Framsóknarflokkurinn völdin. Það situr enn í Valgerði og hennar fólki. Skiljanlega eflaust. En Framsókn missti ekki völdin vegna ákvarðana flokka - það var þjóðin sem veikti Framsóknarflokkinn og undirstöður hans. Fall flokksins í þær lægðir sem við blasa nú var ekki ákvörðun Geirs Haarde eða annarra forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Umboð flokksins að loknum kosningum var veikt og endalok stjórnarsamstarfs urðu í ljósi veikrar stöðu Framsóknarflokksins út úr kosningum - þar sem landsmenn tóku sjálfir ákvörðun um stöðu mála.
Valgerður ætti að reyna að vera jákvæðari í stjórnarandstöðu og reyna að byggja Framsóknarflokkinn upp en vera ekki að væla yfir öðrum í þessari stöðu. Hafi flokkar og forystumenn ekki það til að bera að byggja upp nánasta umhverfi sitt með jákvæðum áherslumálum og skrifum er varla við því að búast að þeir hækki í verði pólitískt.
![]() |
Valgerður: Staða Sjálfstæðisflokksins með eindæmum veik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2007 | 17:19
Björn Ingi rannsakar sjálfan sig - óverjandi verklag
Það virðist vera sem að pólitískt sjónarspil sé í gangi að hálfu vinstrimeirihlutans í Reykjavík í málefnum Orkuveitunnar. Það hlýtur að teljast súrsætur brandari fyrir borgarbúa að sá maður sem ber eina helstu ábyrgð á málum sé skipaður í starfshóp til að fara yfir verk síns sjálfs og dæma um hvort þau séu rétt eða röng. Sjálfstæðisflokkurinn tók ekki þátt í því verklagi sem vinstrimeirihlutinn stundar og hefur skipað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sinn fulltrúa í starfshópinn en ekki Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, fyrrum borgarstjóra.
Mér finnst upphaf þessa svokallaða starfshóps meirihlutans ekki lofa góðu um hvernig unnið verði á komandi vikum í að gera upp þetta grútskítuga spillingarmál sem ég tel málefni Orkuveitunnar og REI undanfarnar vikur vera í grunninn. Þar þarf allt upp á borðið og heiðarlega yfirferð á málum. Ekki finnst mér líklegt að sú verði raunin með Björn Inga Hrafnsson í broddi fylkingar að hálfu meirihlutans. Innkoma hans lyktar af allt öðru en siðbót eftir spillingarmálin sem hafa riðið yfir.
![]() |
Tvær stjórnir - árekstur strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.10.2007 | 02:39
Hitafundur í Valhöll

Þar hefði átt að tala opinskátt um það sem hefur gerst, fara yfir stöðu mála og klára það í kjölfarið. Þar sem hópur trúnaðarmanna kemur saman á að taka heiðarlega og opinskáa umræðu um stöðuna, til þess eru fulltrúaráðin og stofnanir flokksins þegar eitthvað gerist. Þar á umræðan að fara fram. Það er bara mitt mat. Hinsvegar vona ég að fólk leggi virkilega í að afgreiða málið en vinni ekki með þeim hætti að þar eigi aðeins einn maður að tala og fara yfir málin einvörðungu.
Hvað varðar þennan fund vona ég að hann hafi verið sá uppgjörsfundur þessa lykilmáls að það sé búið. Það er öllum hollt að klára málin hreint út í þessu lykilbaklandi flokksins, enda hlaut að vera boðað til þessa fundar til að tala hreint út en ekki aðeins að hlusta á eina ræðu.
![]() |
Samstarfsslitin útrætt mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.10.2007 | 23:16
Heimkoma Benazir Bhutto breytist í martröð

Það mátti auðvitað búast við því að heimkoma Benazir kveikti ófriðarbál víða - hún er vinsæl meðal landsmanna en gríðarlega umdeild. Yfirvofandi þátttaka hennar í þingkosningunum stuðar marga. Strax heyrist orðrómur um að stjórnvöld standi að baki morðtilræðinu og varla er það undrunarefni að það sé álitið enda stóðu þeir sem nú ráða för í Pakistan að hinni grimmdarlegu aftöku á föður hennar, Zulfikar Ali Bhutto, fyrrum forseta og forsætisráðherra Pakistans, fyrir um þrem áratugum. Öll teikn eru því á lofti um að ógn vofi yfir.
Heimkoma Benazir hefur verið skipulögð á þessum degi í yfir mánuð og því hefur andstæðingum hennar gefist færi á að undirbúa tilræðið. Það voru þó eflaust flestir að vona að ekki kæmi til þessa. Þó að talað sé um samninga milli hennar og Musharraf er það meira í orði en á borði. Atburðir dagsins sýna að framundan eru erfiðar vikur í Pakistan og sér ekki enn fyrir endann á þeirri ólgu sem kallast fram með því að Benazir verður aftur sýnileg í pakistönskum stjórnmálum. Það er greinilegt að lykilöfl ætla sér ekki að deila völdum með henni og greinilega hitatímar framundan.
Fjarvera Benazir frá pakistönskum stjórnmálum hefur verið áberandi. Staða mála í dag sýnir hversu mjög fólk er hrætt við stöðu hennar og vill ekki að hún lifi í gegnum kosningabaráttuna sem framundan er. Öll spjót beinast að því að morðtilræðið sé ættað frá stjórnvöldum sem vilja ekki deila sviðsljósinu með Benazir.
Staðan er brothætt - fyrsti dagur hennar í heimalandinu eftir langa fjarveru endar í skugga morðtilræðis og væntanlega lifir hún í skugga þess að það endurtaki sig næstu vikurnar.
![]() |
125 látnir í sprengjutilræðinu í Karachi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.10.2007 | 20:35
Samstaða í Valhöll - Geir mætir á fund stjórnanna

Það er auðvitað fyrir öllu að flokksfélögin í borginni séu samstíga í verkum og litið verði fram á við í borgarmálunum en ekki aftur. Þetta er umfram allt mál sem verður að kryfja og fara yfir í innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins til enda, þar má ekki láta neina lausa enda flækjast fyrir til lengri tíma litið. Þetta er sögulegt áfall fyrir flokkinn í borginni og í raun á landsvísu. Sjálfur hef ég talið þetta mesta áfall Sjálfstæðisflokksins frá endalokum þriggja flokka stjórnar Þorsteins Pálssonar fyrir tveim áratugum, mun verra áfall en sigur R-listans fyrir þrettán árum. Tel ég að flestir geti verið sammála um það mat innst inni.
Það er alveg ljóst að þetta mál er fyrst og fremst innsta kjarnans í höfuðborginni að vinna úr. Sá hópur verður að vega og meta hversu sterkur forystumaður Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er eftir atburðarás síðustu 30 daga og taka að því loknu af skarið. Það er greinilegt að Geir hefur farið inn á fundinn með þann boðskap að standa beri vörð um Vilhjálm Þ. á þessum erfiðu tímum og virðist það vera niðurstaða fundarins. Það verður að ráðast svosem hverjir eftirmálar þess verði og hvort það verði niðurstaða sem teljist heilsteypt til lengri tíma litið.
Að mínu mati þarf fólk að vinna sig frá þessu erfiða máli og horfa fram á veginn með einum eða öðrum hætti. Það er mikilvægast að staða leiðtogans sé afdráttarlaus meðal flokksmanna, enginn vafi sé þar á málum. Það er alveg kristaltært að Vilhjálmur Þ. hefur veikst og hans bíður nú að vinna sér traust og kraft að nýju vilji hann halda áfram og telji formaður Sjálfstæðisflokksins það réttast í stöðunni eins og við blasir af innkomu hans á þennan fund lykiltrúnaðarmanna flokksins í borginni.
Það er langt í næstu borgarstjórnarkosningar - rúmir 30 mánuðir eru vissulega langur tími en þó ekki það langur að horfa verður fram til næstu kosninga. Í þeim efnum verður að hugleiða hvað sé best með heill og hag flokksins í huga. Leiðtoginn getur ekki verið laskaður á þeirri vegferð sem framundan er og mikilvægt að flokksmenn taki af skarið með hver sá leiðtogi eigi að vera.
Það dugar ekkert að klastra bara upp í sprungur með hagsmuni fárra einstaklinga í huga. Þar verður að hugsa um flokkinn og hvað getur styrkt hann mest og best.
![]() |
Geir H. Haarde mætti á fund Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2007 | 16:15
Skammlífri hjónabandssælu í Elysée-höll lokið

Þau skildu tímabundið meðan að Sarkozy var innanríkisráðherra og það hafði verið stirt þeirra á milli árum saman - kuldaleg samskiptin í sumar og haust í sviðsljósi forsetaembættisins verið mjög áberandi og augljóst að draga myndi til tíðinda. Enda hafa þau ekki sést saman síðan í júlí. Mesta athygli vakti þetta þegar að Cecilia þáði ekki heimboð Bush-hjónanna til Maine er Sarkozy forseti átti leið um Bandaríkin í heimsókn sem markaði upphaf þíðu milli Bandaríkjanna og Frakklands eftir að Jacques Chirac flutti úr Elysée-höll. Fjarvera Ceciliu Sarkozy var æpandi áberandi.
Þó að hjónabandssæla forsetans hafi verið skammlíf í Elysée-höll verður seint sagt að hann hafi átt í erfiðleikum í þessu valdamikla embætti frá því að hann tók við völdum í maíbyrjun eftir afgerandi kosningasigur. Nicolas Sarkozy hefur notið mikils stuðnings, hins mesta sem nýkjörinn franskur forseti frá valdadögum Charles De Gaulle fyrir hálfri öld og ennfremur nýtur stjórn hans, undir forsæti Francois Fillon, náins pólitísks samstarfsmanns hans í áraraðir, umtalsverðs stuðnings landsmanna. Í júní náði hann sigri ennfremur í þingkosningum og fékk afgerandi umboð til verka frá frönsku þjóðinni.
Eftir innan við hálft ár á forsetastóli í Frakklandi er Nicolas Sarkozy orðinn einn á forsetavakt. Cecilia Sarkozy hefur sagt skilið við embættið sem hún vildi aldrei tilheyra. Hún sagðist alla tíð aldrei munu geta fetað í fótspor Bernadette Chirac - gæti aldrei orðið hin eina sanna forsetafrú Frakka og vildi það hreinlega ekki. Nú er Sarkozy einn eftir í Elysée-höll. Væntanlega munu slúðurblöðin bollaleggja vel á næstunni hversu lengi Sarkozy verði einsetumaður í höllu sinni.
![]() |
Skilnaður Sarkozy-hjónanna staðfestur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2007 | 01:10
Besti vinur aðal fylgir Degi í Ráðhúsið

Ég vil annars óska Degi til hamingju með borgarstjórastöðuna. Þó að við séum ekki sammála um öll pólitísk mál finnst mér það vissulega mjög ánægjulegur áfangi að stjórnmálamaður á hans aldri sé orðinn borgarstjóri í Reykjavík. Dagur er yngsti borgarstjórinn frá tímum Davíðs Oddssonar, en hann var að mig minnir 34 ára er hann tók við borgarstjóraembættinu vorið 1982, en Dagur er 35 ára gamall.
Næstu mánuðir verða sannarlega eldskírn fyrir hinn unga borgarstjóra, enda fjögur ólík framboð í meirihluta og það verður erfiðara verkefni fyrir Dag að halda utan um hópinn en fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að halda utan um R-listann í tæpan áratug, þar til að hún reyndar gat ekki lengur ráðið við það verkefni. Í svo erfiðum verkefnum skiptir eflaust máli að hafa traustan vin á kontórnum, besta vin aðal.
![]() |
Nýr aðstoðarmaður borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.10.2007 | 20:16
Kristján stendur vörð um flugvöll í Vatnsmýrinni

Það er reyndar augljóst að ágreiningur er innan vinstrimeirihlutans í Reykjavík um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, eins og birtist í svörum við spurningum DV um málið í dag. Þar eru tvær til þrjár skoðanir hið minnsta. Oddaatkvæðið Margrét Sverrisdóttir, forseti borgarstjórnar, talar mest afgerandi í þessum efnum en hún vill ekki færa völlinn og stendur þar með vörð um stefnu F-listans úr kosningunum 2002 og 2006. Framsókn talar enn um flugvöll á Lönguskerjum og aðrir eru óvissari, þó hinir tali um tilfærslu eitthvað innan borgarmarkanna.
Það er öllum ljóst að landsbyggðarmaðurinn Kristján L. Möller talar afgerandi á vakt sinni í samgönguráðuneytinu rétt eins og forverar hans, Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson. Það gerir hann þó að skoðunin sé mjög áberandi andstæð því sem frá höfuðborgarfulltrúum Samfylkingarinnar kemur, t.d. borgarstjórans og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, alþingismanns og fyrrum borgarstjóra, svo aðeins nokkur séu nefnd. Það vakti athygli að ekki fékkst afgerandi flokksstefna í flugvallarmálum á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar og væntanlega er málið ekki þagnað þar.
![]() |
Samgönguráðherra vill ekki færa Reykjavíkurflugvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2007 | 16:59
Sjálfstæðismenn í Reykjavík fara yfir sín mál

Um er að ræða í senn vonda og erfiða stöðu sem blasir við og sjálfstæðismenn í Reykjavík verða að vinna sig út úr henni. Það er ekki óeðlilegt að við landsbyggðarmenn í flokknum hugleiðum það hvað hafi gerst þar innanborðs síðustu mánuði og eðlilegt fyrir þau að fara yfir það lið fyrir lið. Þetta er of alvarlegt mál fyrir flokkinn á landsvísu til að framhjá því verði litið. Eins og þetta horfir við mér missti leiðtogi hópsins stjórn á honum með vinnubrögðum sínum og í kjölfarið veiktist hópurinn til muna. Þetta er staða sem fá dæmi eru um innan Sjálfstæðisflokksins og því eðlilegt að hún sé bollalögð í grunninn.
Að mínu mati er eðlilegt að gefa flokksmönnum sinn tíma til að fara yfir hvað rétt sé að gera. Það er þó öllum ljóst að leiðtogi borgarstjórnarflokksins hefur tapað stuðningi og tiltrú meðal almennra flokksmanna um allt land, staða hans hefur veikst. Nú verða sjálfstæðismenn í Reykjavík að vega og meta hver styrkur hans sé. Flestir sem ég hef heyrt í telja vonlaust að hann leiði flokkinn í gegnum aðrar kosningar. Er ég sammála því mati. Get ég ekki ímyndað mér annað en að spurt sé um hvenær en ekki hvort hann hætti.
Að mínu mati hafa borgarfulltrúar í öllum flokkum misst tiltrú almennings. Það er gremja í fólki um allt land vegna þess hvernig unnið hefur verið í borgarmálunum. Eftir 16 mánaða forystu í borgarmálunum er það hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að fara aftur í minnihluta. Eftir þau endalok sem við blasa er það umfram allt hlutverk hans nú að endurvinna sér traust og tiltrú almennings.
Sérstaklega hlýtur það að eiga við um leiðtoga hópsins, sem hefur veikst umtalsvert með forystu sinni undanfarnar vikur. Í þeim efnum skiptir engu hvort hann hafi logið að borgarbúum eða hafi ekki unnið vinnuna sína.
![]() |
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funda með stjórnum Sjálfstæðisfélaganna á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)