Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er Inga Jóna valdamesta kona landsins?

Inga Jóna ÞórðardóttirÞað vekur athygli að Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, hefur verið skipaður formaður bygginganefndar hátæknisjúkrahúss - sem tekur við verksviði nefndar sem Alfreð Þorsteinsson, guðfaðir vinstrimeirihlutans í Reykjavík, stýrði áður með fyrrnefnda Ingu Jónu sem varaformann. Það mun því vera hlutverk Ingu Jónu að leiða verkefnið, sem heldur áfram að því er virðist óbreytt og af sama krafti og áður var en undir verkstjórn sem nýr heilbrigðisráðherra treystir á.

Það hefur verið rætt um það um nokkuð skeið hvort að Inga Jóna Þórðardóttir sé orðin valdamesta kona landsins. Varla er það óvarlegt mat að mínu mati. Það er öllum ljóst að Inga Jóna er ekki settleg eiginkona forsætisráðherra eins og þær hinar fyrri sem hafa staðið við hlið maka síns í blíðu og stríðu í verkunum sem fylgja hinu annasama og krefjandi húsbóndahlutverki í Stjórnarráðinu. Inga Jóna hefur verið formaður útvarpsráðs, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og leitt borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins auk þess sem hún var varaþingmaður fyrir flokkinn um skeið fyrir Vesturlandskjördæmi hið forna.

Inga Jóna er því í senn litrík baráttukona sem hefur sjaldan hikað og verið áberandi í þjóðlífinu sem stjórnmálamaður. Hún gaf leiðtogasætið í borgarstjórn eftir til Björns Bjarnasonar með eftirminnilegum hætti fyrir fimm árum og eftir því sem kjaftasögurnar segja var mikið valdatafl þar bakvið tjöldin. Eftir að Inga Jóna náði ekki kjöri í borgarstjórn úr áttunda sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum hefur hún ekki verið áberandi leikkona á stjórnmálasviðinu. Hún tók ekki sæti í borgarstjórn sem varamaður á síðasta kjörtímabili og fór ekki í nefndir. Hún gaf pólitíkina upp á bátinn.

Eftir að Geir H. Haarde varð eftirmaður Davíðs Oddssonar hefur hún verið við hlið hans sem hin trausta eiginkona. En hlutverk hennar verður seint í huga flestra metið sem þöguls þátttakanda í verkefnum forsætisráðherrans. Hún er hans traustasti ráðgjafi og stendur honum eflaust allra næst. Með því hlutverki er hægt að fullyrða að hún sé valdamesta kona landsins í vissum skilningi þess orðs. Inga Jóna þekkir alla innviði Sjálfstæðisflokksins, hefur jú leitt allt innra starf hans á vissum tíma og verið kjörinn forystumaður innan hans. Það býst enginn við að hún sé ekki lykilpersóna á valdaferli Geirs.

Skipan Ingu Jónu sem yfirmanns byggingar nýja hátæknisjúkrahússins sýnir vel sterka stöðu hennar og gefur frægum orðrómi um að hún sé valdamesta kona landsins byr undir báða vængi. Það var svosem erfitt að afneita honum áður.


mbl.is Nýjar nefndir fjalla um málefni heilbrigðisstofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur Þ. mætir ekki á afmælisfund borgarráðs

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það hefur vakið mikla athygli að hvorki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, né forverar hans á borgarstjórastóli innan Sjálfstæðisflokksins ákváðu að mæta í hóf í kjölfar fimm þúsundasta borgarráðsfunds Reykjavíkurborgar í Höfða í gær. Vilhjálmur Þ. situr í borgarráði nú og hefur setið yfir þúsund borgarráðsfundi, lengst af sem borgarfulltrúi og að auki borgarstjóri í 16 mánuði, og hefur verið í ráðinu stærstan hluta 25 ára ferils síns í borgarstjórn Reykjavíkur.

Í hófið var öllum borgarstjórum Reykjavíkur boðið og þótti áberandi að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrum seðlabankastjóri, Markús Örn Antonsson, sendiherra, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, mættu ekki og fjarvera Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem situr í ráðinu eins og fyrr segir, var hróplega áberandi. Hinsvegar mættu allir borgarstjórar vinstritímans í Reykjavík nema Þórólfur Árnason. Birst hafa myndir af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, Agli Skúla Ingibergssyni, fyrsta vinstrisinnaða borgarstjóranum í Reykjavík, og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, alþingismanni, að ræða á léttu nótunum við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra.

Þarna var líka Alfreð Þorsteinsson, guðfaðir nýja vinstrimeirihlutans í Reykjavík og fyrrum stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta virðist af myndum að dæma fyrst og fremst hafa verið hóf nýju valdhafanna. Þar voru sjálfstæðismenn lítið sýnilegir og virðast hafa sniðgengið afmælisstund borgarráðsins í Höfða.

mbl.is Óvæntar tengingar komu í ljós á hátíðarfundi borgarráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tony Blair skrifar um árin í Downingstræti 10

Tony BlairÞað kemur engum að óvörum að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, vilji rita pólitíska ævisögu sína, sögu áranna í Downingstræti 10. Fetar hann þar í fótspor Margaret Thatcher sem ritaði eftirminnilega minningasögu um árin ellefu í Downingstræti. Bók hennar The Downing Street Years varð metsölubók, enda opinská og einlæg í senn, og er ofarlega í hillunni minni allavega. Algjörlega ómetanleg heimild um litríkan stjórnmálamann í innsta hring eftirminnilegra ákvarðana sem markaði spor í sögu eins öflugasta ríkis heims, um leið heimsmyndarinnar.

Eðlilega er slegist um útgáfuréttinn á þessari minningasögu Teflon-Tony, rétt eins og Thatchers áður. Þrátt fyrir hæðir og lægðir áranna tíu í Downingstræti er Tony Blair hiklaust einn sigursælasti stjórnmálaleiðtogi breskrar stjórnmálasögu. Hann er sterkasti leiðtogi breskra vinstrimanna í Bretlandi til þessa, stýrði flokki sínum til þriggja kosningasigra, þar af þeim stærsta í stjórnmálasögu Bretlands, og hefur því sannarlega sögu að segja. Ég hef á tilfinningunni að Tony Blair ætli að vera mjög opinskár í þessari bók sinni, sem hann ætlar að rita sjálfur eins og Thatcher gerði forðum. Tímasetning útgáfunnar er varla tilviljun en hún kemur væntanlega út eftir næstu þingkosningar í Bretlandi. Þetta verður tæpitungulaus saga.

Þannig tel ég að Tony ætli sér að tala af alvöru um hitamálin sem skiptu máli á þessum tíu árum og vonandi allt annað hið litla sem í raun skiptir varla minna máli. Tony Blair kom til valda á ótrúlegri bylgju stuðnings á vordögum fyrir áratug og var sem risi á vettvangi breskra stjórnmála mjög lengi. Honum entist ótrúlega vel á pólitísku lífunum níu og átti jafnvel til staðar fleiri en bara þau. Hann kom sem ferskur vindblær vorið 1997 og gerði stöðuna að sinni. Hann varð táknmynd nýrra tíma og persónugerði þreytuna í garð Íhaldsflokksins að sinni og var augljóst mótvægi nýrra tíma við þá eldri. Íhaldsflokkurinn átti aldrei séns þetta vor breytinganna. Það var bara þannig.

Ég dáðist mjög að hlutverki hans í kjölfar dauða Díönu. Hann lét gamlar hefðir og venjur lönd og leið og lagði til verka við að minnast hennar, þó að greinileg kergja væri bakvið tjöldin. Ég fer aldrei ofan af því að glæstasta stund Tonys var þegar að hann ávarpaði bresku þjóðina í Sedgefield að morgni 31. ágúst 1997. Sú ræða súmmaði algjörlega upp stöðuna. Hún var örlagavaldur. Hún kom af stað bylgjunni miklu sem síðar var nærri búin að taka með sér Elísabetu II og granda lykilstöðu hennar, í ljósi þess að hún lét ekki segjast og hélt til London til að halda utan um þjóð í sorg. Hún áttaði sig seint og um síðir. Ég er þess fullviss að ef Blair hefði ekki leiðbeint hinni lífsreyndu drottningu þessa haustdaga hefðu gullnu dagar hennar liðið undir lok.

Margir hafa spurt sig hvort að Tony Blair hafi verið að reyna að leika Margaret Thatcher allan sinn stjórnmálaferil. Að vissu marki má segja það. Hann auðvitað gjörbreytti Verkamannaflokknum. Hann á þó ekki heiðurinn af því einn. Þar átti John Smith lykilþátt ennfremur en honum entust ekki lífsins dagar til að koma því í framkvæmd. Blair gerði stefnuna að sinni og fullkomnaði hana. New Labour var skothelt plagg í kosningunum 1997 og það var grunnur nýrra tíma. Þó gengið hafi svona og svona er öllum ljóst hvaða áhrif breytingarnar vorið 1997 höfðu. Blair var auðvitað aldrei verkalýðskrati eða kommi. Hann var hægrikrati sem hélt flokknum á miðju og gat höfðað til hægrimanna. Þar lá stærsta farsæld flokksins.

Tony Blair ríkti lengi. Sama hversu molnaði undan honum var komið í veg fyrir hrapið á þeim stað sem hættulegastur var og hann náði alltaf að bjarga sér. Undir lokin varð staðan vissulega mjög erfið en það er auðvitað aðdáunarvert hversu vel honum tókst að halda lykilstöðu. Meira að segja tókst honum, þvert á flestar spár, að bjarga sér frá nöprum endalokum eftir sjálfsmorð dr. Davids Kelly, sem var auðvitað hreinn harmleikur pólitískt og persónulega, Cash-for-honours fíaskóið og síðast en ekki síst tapið auðmýkjandi í þinginu í nóvember 2005. Í síðastnefnda tilfellinu stóð hann tæpast, enda var naumur þingmeirihluti skaðlegur enda höfðu andstæðingarnir í flokknum hann í spennitreyju og það flýtti fyrir endalokunum.

Í ósigri eða endalokum getur mesti sigurinn falist. Þetta kom vel fram þegar að Margaret Thatcher var í raun sett af sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru nöpur endalok. Daginn sem hún sagði af sér leiftraði hún af fjöri og orðfimi sem aldrei fyrr í þingumræðum. Flestir sem upplifðu að sjá þann dag muna eftir henni berjast af fimi við Neil Kinnock, í bláu dragtinni sinni og sennilega með flottustu hárgreiðsluna. Þrátt fyrir niðurlægjandi endalok gat hún gert stund endalokanna að sínum og náði að bægja frá mestu gagnrýni. Þetta tókst líka Tony Blair á stund endaloka. Hann stjórnaði þeim og var klappaður upp eins og leikari eftir sinn glæstasta leiksigur.

Flestir munu horfa til uppgjörs Blairs við eftirmanninn Gordon Brown; hvernig þeim verði lýst. Margar sögur hafa gengið af erfiðum samskiptum og tímasetning útgáfunnar er sérlega heppileg til að tala hreint út án þess að skaða. Árin tíu í Downingstræti frá sjónarhóli húsbóndans Tony Blair verður áhugaverð lesning, hvaða skoðun sem stjórnmálaáhugamenn hafa á Tony Blair og verkum hans. Það má gefa sér að pólitískt uppgjör hans verði spennandi súmmering á lykilmálum áranna fyrir og eftir forsætisráðherraferilinn.


mbl.is Hart barist um útgáfuréttinn á endurminningum Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun eyrnamergsátið umdeilda skaða Kevin Rudd?

John Howard og Kevin Rudd Eitt mesta hitamálið í Ástralíu þessa dagana er athyglisvert eyrnamergsát Kevin Rudd, leiðtoga Verkamannaflokksins. Hefur myndband af þeirri lítt geðslegu iðju hans farið eins og eldur í sinu um allan heim á netinu. Skoðanakannanir hafa bent til þess nú um nokkuð skeið að hinn fimmtugi Rudd muni verða næsti forsætisráðherra Ástralíu að loknum þingkosningum eftir mánuð og Verkamannaflokkurinn muni vinna stórsigur á hægriblokkinni.

Muni Rudd vinna kosningar markar hann sér sess á spjöldum sögunnar og mun þá endir verða bundinn á ellefu ára valdaferil hægristjórnarinnar sem leidd hefur verið af einum sigursælasta stjórnmálamanni ástralskrar stjórnmálasögu, John Howard, sem hefur unnið fjórar þingkosningar og er orðinn einn þaulsetnasti forsætisráðherra Ástralíu, allt frá því að hann felldi Paul Keating og kratana frá völdum með afgerandi hætti í ársbyrjun 1996 og verið eins og teflon-maður alla tíð síðan.

John Howard hefur verið eins og kötturinn með níu lífin á sínum forsætisráðherraferli. Flestir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 2004 en hann vann að lokum góðan sigur á Mark Latham, sem spáð var forsætisráðherraembættinu um langt skeið. Man ég vel eftir fregnunum af kosningasigri hans í október 2004 en ég var staddur í Washington þá vegna forsetakosninganna, var í leigubíl frá Arlington til hótelsins í miðborginni er fyrstu fregnir heyrðust af sigri hans og hægriblokkarinnar. Það var óvæntur sigur eftir vonda stöðu Howards lengst af.

Það hefur reyndar verið ólga með Howard um nokkuð skeið. Flestir telja tíma hans liðinn og margir vildu að hann rýmdi til fyrir Peter Costello, augljósum arftaka hans allan valdaferilinn, frekar en að sækjast eftir fimmta kjörtímabilinu. Sú ólga hefur nú leitt til þess að Howard hefur tilkynnt um að sigri hann í kosningunum muni hann rýma til fyrir arftakanum Costello fljótlega á næsta kjörtímabili. Hann segist ekki vera heigull og vilji verja verk sín og stjórnarinnar. En fjöldi landsmanna er orðinn hundleiður á Howard og flestir hafa talið að þjóðin myndi refsa honum harkalega.

Nú er Kevin Rudd með öll spil á hendi - allar kannanir benda til þess að hann verði nú örlagavaldur ástralskra stjórnmála, muni fella Howard af stalli sínum. En mun eyrnamergsátið leggja vonir hans um kosningasigurinn í rúst eða veikja hann umtalsvert? Vissulega er þetta frekar ógeðsleg iðja, held að flestum sundli örlítið við myndunum. En nú verður áhugavert að sjá hversu klígjugjarnir Ástralir eru í raun og veru.

mbl.is Eyrnamergsát gæti skaðað stjórnmálaferilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einum of væn búbót fyrir varaborgarfulltrúa

Óskar BergssonÞað er ekki hægt að segja annað en að launakjör varaborgarfulltrúa framboðanna fimm sem náðu kjöri í kosningunum 2006 séu væn. Mér finnst það algjörlega út í hött að stjórnmálamenn geti fengið 300 þúsund krónur fyrir einn fund í viku jafnvel. Get ekki ímyndað mér annað en að þetta verði nokkuð hitamál, enda afleitt verklag á meðan að hinar ýmsu stéttir sitja óbættar hjá garði. Þetta gerir ekkert annað en að hella olíu á það bál sem til staðar er hjá fólki almennt í samfélaginu.

Það virðist reyndar vera að sá varaborgarfulltrúi sem nýtur þessa mest sé Óskar Bergsson, varamaður Björns Inga Hrafnssonar. Það er svosem varla furða enda hafa framsóknarmenn haft vægi í borgarstjórn Reykjavíkur langt umfram kjörfylgi. Þeir höfðu yfir 35% vægi í meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og héldu því í vinstrimeirihlutanum nýja, þó þar séu tvö framboð fleiri. Þeir sem hæst töluðu um of mikið vægi framsóknarmanna áður hafa haldið þeim áfram í sömu hæðum, svo að gagnrýni þeirra var máttlaus er yfir lauk.

Óskar er t.d. formaður framkvæmdaráðs borgarinnar og mjög valdamikill í nefndakerfinu, valdamestur varaborgarfulltrúa ef Margrét Sverrisdóttir, forseti borgarstjórnar, er undanskilin, en hún er ekki kjörinn aðalfulltrúi, enn er Ólafur F. Magnússon þar, en er í óskilgreindu leyfi vegna persónulegra erfiðleika ef marka má Séð og heyrt. Heilt yfir vekja þessi launakjör varaborgarfulltrúa í Reykjavík stórar spurningar um almennt pólitískt siðferði. Almenningi mun blöskra svona verklag og væntanlega verður spurt að því hvort að þetta sé eðlilegt. Það getur varla talist það.

Það verður áhugavert að sjá hvaða afstöðu vinstrimeirihlutinn brothætti tekur til þessa máls, en það yrði ekki undrunarefni ef almennar kröfur færu að heyrast um að þetta yrði stokkað upp.


mbl.is Varaborgarfulltrúar fá 300 þúsund á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg grimmd dauðarefsinga

Susan Sarandon og Sean Penn í Dead Man Walking Ég hef alla tíð verið harður andstæðingur dauðarefsinga og jafnan fundist í þeim felast mesta mannlega grimmd sem til staðar er í tilverunni. Finnst sérstaklega mikil grimmd vera til staðar í þessu máli í Alabama þar sem fársjúkur dauðadæmdur maður (í tvennum skilningi þess orðs) af krabbameini bíður dauðans. Til þess að réttlæti stjórnvalda í Alabama verði ofan á mun vera ætlað að lífláta manninn með sprautunni áður en krabbinn hefur sigur í baráttu sinni.

Mér finnst þetta mikil grimmd og ég tel að við flest í hinum siðmenntaða heimi getum verið sammála um það. Dómur með dauða er engin lausn í sjálfu sér að mínu mati. Það er umdeildasta refsing sem til staðar er, ef fyrir utan aftökur stjórnvalda á fólki án dóms og laga sem eiga sér því miður stað víða í heiminum án þess að nokkur geri neitt í neinu, endist held ég færslan varla til að telja upp þau ríki. Hef oft hugsað mikið um þetta réttlæti sem nokkur ríki Bandaríkjanna hafa valið sér, réttlæti að þeirra mati, sem felst í að binda enda á líf með þessum hætti. Finnst kuldalegheitin reyndar ná einna helst hámarki í málinu í Alabama.

Dauðarefsingar hafa verið við lýði í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og undir stjórn bæði demókrata og repúblikana. Mesta athygli hefur þetta vakið í suðurríkjunum. Þar hafa repúblikanar verið valdamiklir en demókratar ekki síður. Hefur ekki verið hægt að merkja neina breytingu á þessu þegar að demókratar hafa ráðið ferðinni í mörgum þessara ríkja. Oft hefur verið horft til Texas í þessum efnum. Þar voru demókratar á ríkisstjórastóli síst vinsamlegri en repúblikanar. Heilt yfir virðist hitinn í þessum málum ekki fara minnkandi þó komin sé 21. öldin og ákall um nýja tíma þar sem dauðarefsing er enn við lýði ekki svarað.

Mér finnst álitamál dauðarefsinganna sjaldan hafa verið tekin betur fyrir í kvikmynd en í Dead Man Walking, hinni ógleymanlegu mynd leikarans Tim Robbins. Þar segir af nunnunni Helen Prejean sem verður trúnaðarvinur Matthew Poncelet, fanga á dauðadeildinni, rétt áður en hann er líflátinn og baráttu hennar fyrir að honum verði hlíft. Susan Sarandon fékk óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á nunnunni, hlutverk ferilsins án vafa, og Sean Penn var rafmagnaður sem Poncelet.

Þetta er heilsteypt mynd með boðskap sem á vel við, sem horfir á grimmdina frá öllum hliðum en svarar spurningunni um hver sé mesta grimmd slíkra örlaga. Þeir sem hafa ekki séð Dead Man Walking hafa misst af miklu og eru hvattir til að líta á hana. Vissulega er hinn dauðadæmdi Daniel Siebert enginn sómamaður en ég held að mál hans ætti að vekja marga til umhugsunar um mannlegu hliðar allra mála, hversu dökk sem þau virðast vera.

mbl.is Drifið í aftöku áður en fangi deyr úr krabbameini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Tony Blair á leið til Brussel?

Tony Blair Það kemur ekki að óvörum að sögusagnir hermi að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, verði fyrsti forseti Evrópusambandsins. Allt frá því að Blair hvarf af hinu pólitíska sviði í júní eftir áratug í Downingstræti hefur hann verið nær ósýnilegur. Val á honum sem sáttasemjara kvartettsins í Mið-Austurlöndum hefur ekki markað hann sem lykilspilara á alþjóðavettvangi af þeim skala sem stjórnmálaleiðtogar, og væntanlega hann sjálfur, ætluðu sér. Til þess er hann bæði of umdeildur og vald hans einfaldlega ekki nógu mikið í slíku embætti.

Það hefur lengi verið talað um það hvort að Tony Blair myndi enda sem einskonar alþjóðaforseti Evrópusambandsins. Sá orðrómur hefur staðið meira og minna frá árinu 2004, er þess sáust fyrst merki að Blair ætlaði ekki að leiða Verkamannaflokkinn í fjórðu þingkosningarnar í röð. Hann var allan valdaferil sinn mikill talsmaður ESB-samstarfsins og var annt um þann vettvang, mun frekar en Gordon Brown væntanlega. Örlögin höguðu því einmitt svo til að síðasti blaðamannafundur Blairs á valdaferlinum var einmitt í Brussel, rúmum sólarhring áður en hann lét af leiðtogaembætti í flokknum, helgina áður en hann sagði af sér.

Það voru mikil viðbrigði fyrir Tony Blair að hætta sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi, eflaust mun meiri en hann gerði sér grein fyrir. Það hefur verið öllum ljóst að sviðsljós fjölmiðla hefur ekki verið mikið á honum í nýju hlutverki. Staðan sem hann gegnir hefur ekki verið það hlutverk aðalleikara á alþjóðavettvangi sem hann eflaust taldi að fylgdi titlinum. Fjölmiðlar hafa mjög lítið fjallað um verkefni hans og umfram allt skortir honum alvöru völd til að gera eitthvað stórvægilegt. Í ofanálag er Blair of markaður sögulega af miklum hitamálum til að vera einhver allsherjarreddari á þessu svæði. Það hefur umfram allt sést af stöðu mála eftir að Blair tók við embættinu.

Skarð Blairs var mjög mikið fyrir breska fjölmiðla sérstaklega, enda hafa þeir lengi hossað honum, sérstaklega fyrir Íraksstríðið og sumir allt til endalokanna meira en aðrir. Blair hefur verið maður sviðsljóssins, tilbúinn til að gera allt fyrir spinnið, plottið og myndavélablossana. Athyglin hefur líka verið honum mikilvæg. Brown er maður annarrar gerðar, hann er mikill hugsuður en um leið meiri pólitíkus á bakvið tjöldin og er mun litlausari sem persóna en hinn litríki Blair sem sjarmeraði Breta fyrir áratug og var lengi vel dálæti þeirra, stolt og yndi. Eða allt þar til að hans glampi hvarf með sprengjublossunum í Bagdad.

Það er því ekki óeðlilegt að Blair horfi til Brussel til að fá pláss við sitt hæfi, að eigin mati, og flestir þjóðarleiðtogar ESB-landanna kannast vel við Blair, enda hefur hann starfað með þeim flestum. Það verður áhugavert að sjá hvort að Blair muni enda sem allsherjarhöfðingi í Evrópu með aðsetur í Brussel og yfirgefa hið valdalitla embætti sem hann hefur gegnt frá flutningunum úr Downingstræti.

mbl.is Blair kann að verða fyrsti forseti Evrópusambandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Systkinin Björn og Valgerður saman á Alþingi

Valgerður Bjarnadóttir Systkinin Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sitja nú saman á Alþingi. Það gerist ekki á hverjum degi að systkini sitji saman á þingi fyrir tvo flokka. Síðast gerðist það er hálfbræðurnir Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sátu saman á þingi 1999-2005, þá báðir í stjórnarliðinu.

Þar áður held ég að það hafi síðast gerst er systkinin Guðjón Arnar Kristjánsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir voru saman stutt á þingi kjörtímabilið 1991-1995; Guðjón Arnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Jóna Valgerður fyrir Kvennalistann. Í seinni tíð man ég bara eftir tveim systkinum á þingi, en bæði voru þau fyrir sama stjórnmálaflokkinn; í fyrra tilfellinu voru það Ingibjörg Pálmadóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason sem voru á þingi eins og flestir muna fyrir Framsóknarflokkinn, en þau voru samferða á þingi í sex ár, 1995-2001, er Ingibjörg sagði af sér ráðherraembætti og þingsæti.

Í hinu seinna eru það bræðurnir Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnlaugur Stefánsson, sem sátu saman á þingi í tvö ár, 1993-1995, fyrir Alþýðuflokkinn. En það eru sannarlega ekki mörg dæmi um að systkin hafi verið saman á þingi og í tveim ólíkum flokkum, þó vissulega séu Björn og Valgerður bæði í stjórnarliðinu. Valgerður kvæntist árið 1970, Vilmundi Gylfasyni, sem varð einn af litríkustu stjórnmálamönnum á vinstrivæng íslenskra stjórnmála á seinni hluta 20. aldar. Valgerður fylgdi Vilmundi í hans pólitísku verkefnum allt þar til yfir lauk með stofnun Bandalags jafnaðarmanna, en Vilmundur lést í júní 1983, langt um aldur fram.

Framboð Valgerðar í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir tæpu ári vakti nokkra athygli og hún varð þar í tíunda sætinu. Ég verð að viðurkenna að ég hafði beðið lengi eftir því að Valgerður færi í framboð, en ég kynntist henni fyrst sumarið 1996 er hún stýrði forsetaframboði Péturs Kr. Hafsteins en ég var í baklandi hans. Þá sá ég vel sjálfur hversu gríðarleg kjarnakona hún er. Hún er bæði vinnusöm og traust í öllum verkum, en í þeim efnum eru þau lík systkinin Björn og Valgerður svo sannarlega. Eftir áralanga þátttöku Völu í bakgrunni stjórnmálanna verður áhugavert að sjá hana loks á þingi.

Einnig hefur Erla Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Heimdallar, tekið sæti á þingi nú. Fagna ég því að bætist í hóp ungliða Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Verður áhugavert að fylgjast með því hvaða mál Erla Ósk muni leggja fram á þingi á meðan að hún situr á þingi fyrir Birgi Ármannsson.

mbl.is Alþingiskonum fjölgar um þrjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary á sigurbraut - spenna hjá repúblikunum

Hillary Rodham Clinton Það liggur orðið nokkuð ljóst fyrir að Hillary Rodham Clinton verði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eftir tæpt ár. Þrem mánuðum fyrir upphaf forkosninga demókrata er staða Hillary orðin svo sterk að vandséð verður að einhver muni ná að skáka henni. Það þarf þá margt að breytast á þeim vettvangi á þeim tólf vikum sem eru til stefnu. Munurinn á milli hennar og keppinautanna er að aukast frekar en hitt og fáir trúa orðið að Barack Obama eigi séns.

Mesta stuðið hefur verið á milli Hillary og Obama undanfarna mánuði. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að telja að annað þeirra verði frambjóðandi demókrata. Held að möguleikar Edwards séu þó næstir því, hinir eiga einfaldlega ekki séns og það verður áhugavert að sjá hversu hratt byrjar að saxast niður af hópnum þegar að líður á janúarmánuð og harkan hefst fyrir alvöru með forkosningunum. Obama hefur skotið talsvert á Hillary, þó undir rauðri kratarós frekar en hitt en það er að færast harka í leikinn og greinilegt að Obama er dauðhræddur um að Hillary taki þetta með trompi er yfir lýkur.

Margir demókratar líta auðvitað á Hillary og Obama sem draumateymi í forsetakosningunum eftir rúmt ár. Sjálfur hefur Obama þó neitað því alfarið að taka boði um að verða varaforsetaefni Hillary og ég held að enginn hafi lagt í að spyrja Hillary að því hvort hún tæki að sér aukahlutverk með Obama í frontinum. Staðan er einfaldlega þannig núna að það leggur enginn í það, enda eru möguleikar Hillary mun betri og hún myndi ekki taka varaforsetahlutverk að sér. Tapaði hún slagnum úr því sem komið er í stöðunni myndi það tákna endalok stjórnmálaferils hennar. Það er upp á allt eða ekkert að spila fyrir hana í þessari stöðu.

Um helgina sýndu kannanir að helmingur landsmanna getur ekki hugsað sér að kjósa Hillary Rodham Clinton. Þetta gæti orðið sterkasta vopn andstæðinga Hillary í baráttunni síðustu vikurnar. Þeir munu væntanlega klifa æ meir á því að hún geti jafnvel náð að verða frambjóðandi demókrata en eigi ekki séns á forsetaembættinu sem slíku, til þess sé hún of umdeild. Það má allavega sjá það fyrir að það verði það sem þeir muni helst nota til að reyna að klóra í bakkann. En heilt yfir tel ég ekki í spilunum að einhver stoppi Hillary. Um tíma töluðu margir um Obama sem sterka manninn gegn Hillary. Hann er ekki að ná að skáka henni.

Það virðist helst spurt um það í Bandaríkjunum nú hver verði keppinautur Hillary um forsetaembættið. Það verður mikil spenna um það hver verði forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins að þessu sinni. Fjórir frambjóðendur eiga séns að því er virðist; Rudy Giuliani, Fred Thompson, Mitt Romney og John McCain. Er styttist í forkosningarnar hefur Giuliani enn ráðandi stöðu að því er virðist. Forskot hans hefur þó minnkað nokkuð. Enn virðast harðir hægrimenn vera án framlínuframbjóðanda. Helst virðist horft til Romney og Thompson, en í raun virðist ljóst að næsti frambjóðandi flokksins hafi aðra grunnstefnu en Bush.

Skoðanakannanir vestanhafs benda til þess að við fáum að sjá að ári þann pólitíska slag sem stefndi svo lengi vel í að yrði sviðsettur í New York árið 2000; keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani. Þau standa sterkast að vígi. En eins og staðan er núna er alls óvíst hver verði fulltrúi repúblikana í kosningunum. Þar gnæfir enginn einn yfir þó Giuliani leiði vissulega í könnunum. Forskot Hillary meðal demókratanna er það mikið flestir telja hana örugga alla leið í lokabaráttuna. Enda er sótt að henni bæði innan eigin raða sem og annarsstaðar. Hún er umdeild.

Það stefnir í spennandi forsetakosningar á næsta ári. Einn óvinsælasti forseti bandarískrar stjórnmálasögu heldur brátt inn í pólitíska sólsetrið heima í Texas og stefnir í miklar breytingar í Washington hvernig sem fer í baráttunni um Hvíta húsið. Repúblikanar gætu vel stokkað sig hressilega upp með brotthvarfi bæði Bush og Cheney af pólitíska sviðinu. Hverjir svo sem mætast að lokum á örlagadeginum 4. nóvember 2008 má fullyrða að næsti forseti Bandaríkjanna verði harla ólíkur þeim núverandi.

mbl.is Helmingur bandarískra kjósenda vill alls ekki Hillary sem forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg ákvörðun Björns Inga

Björn Ingi glottir Það er skynsamleg ákvörðun hjá Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa, að taka ekki sæti í stýrihóp sem fara á yfir mál OR og REI. Eftir allt sem á undan var gengið í umdeildum hitamálum hefði það talist hvítþvottur meirihlutans á verkum Björns Inga að láta hann setjast í dómarasæti í eigin máli. Það er því eðlilegt að meirihlutinn átti sig á hversu viðkvæm nefndaseta Björns Inga hefði verið, en það væri reyndar fróðlegt að vita hvort ákvörðunin hafi verið hans eða Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Varla þarf svosem að fagna því að fólk sér hlutina rökrétt og lætur ekki þá sem tengjast hitamálum beint vera í aðstöðu til að vega og meta stöðu þess - mál sem það stýrði sjálft með umdeildum hætti. Þetta var mál sem stuðaði almenning um allt land og það dugar enginn hvítþvottur í þeim efnum í sannleika sagt. Sjálfstæðisflokkurinn tók þá afstöðu að tilnefna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í stýrihópinn, enda varla eðlilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, taki þátt í að fara yfir málið. Það á að gerast án aðkomu leiðtoga fyrrum meirihluta, gildir þar einu hvort talað er um Vilhjálm eða Björn Inga.

Það má reyndar íhuga hvort eðlilegt sé að stjórnmálamenn leiði þessa vinnu. Hvort ekki hafi átt að fá utanaðkomandi aðila til verksins. Það verður eflaust rætt um það. Nú fer þetta starf af stað og verður vissulega fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður. Það er alveg ljóst að ekki geta allir gengið brosandi frá þessu máli. Innan meirihlutans verður áhugavert að sjá hver muni þurfa að gleypa stóru orðin, hvort að VG muni fallast á alla umdeildustu þætti málsins, sameiningu REI og GGE og aðra lykilþætti, sem það gagnrýndi svo harkalega, eða hvort að Framsóknarflokkurinn verði beygður til að sætta sig við hluti sem það sætti sig ekki við í fyrri meirihluta.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi, opinberaði í Silfri Egils í dag þau merku orð Björns Inga Hrafnssonar á síðasta meirihlutafundi flokkanna að allt þetta mál snerist um sína pólitísku framtíð. Það hefur ekki komið fram áður og setur málið vissulega enn í nýtt samhengi. Það er öllum ljóst að Björn Ingi hefði aldrei stofnað til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur án þess að hafa samið að fullu um að niðurstaða mála yrði í takt við sínar áherslur, það sem hann steytti á í fyrri meirihluta. Það verður áhugavert að sjá hvort að Svandís gleypi öll hin fyrri stóru orðin.

mbl.is Björn Ingi ekki í stýrihópnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband