Mun eyrnamergsátið umdeilda skaða Kevin Rudd?

John Howard og Kevin Rudd Eitt mesta hitamálið í Ástralíu þessa dagana er athyglisvert eyrnamergsát Kevin Rudd, leiðtoga Verkamannaflokksins. Hefur myndband af þeirri lítt geðslegu iðju hans farið eins og eldur í sinu um allan heim á netinu. Skoðanakannanir hafa bent til þess nú um nokkuð skeið að hinn fimmtugi Rudd muni verða næsti forsætisráðherra Ástralíu að loknum þingkosningum eftir mánuð og Verkamannaflokkurinn muni vinna stórsigur á hægriblokkinni.

Muni Rudd vinna kosningar markar hann sér sess á spjöldum sögunnar og mun þá endir verða bundinn á ellefu ára valdaferil hægristjórnarinnar sem leidd hefur verið af einum sigursælasta stjórnmálamanni ástralskrar stjórnmálasögu, John Howard, sem hefur unnið fjórar þingkosningar og er orðinn einn þaulsetnasti forsætisráðherra Ástralíu, allt frá því að hann felldi Paul Keating og kratana frá völdum með afgerandi hætti í ársbyrjun 1996 og verið eins og teflon-maður alla tíð síðan.

John Howard hefur verið eins og kötturinn með níu lífin á sínum forsætisráðherraferli. Flestir töldu hann búinn að vera í aðdraganda kosninganna 2004 en hann vann að lokum góðan sigur á Mark Latham, sem spáð var forsætisráðherraembættinu um langt skeið. Man ég vel eftir fregnunum af kosningasigri hans í október 2004 en ég var staddur í Washington þá vegna forsetakosninganna, var í leigubíl frá Arlington til hótelsins í miðborginni er fyrstu fregnir heyrðust af sigri hans og hægriblokkarinnar. Það var óvæntur sigur eftir vonda stöðu Howards lengst af.

Það hefur reyndar verið ólga með Howard um nokkuð skeið. Flestir telja tíma hans liðinn og margir vildu að hann rýmdi til fyrir Peter Costello, augljósum arftaka hans allan valdaferilinn, frekar en að sækjast eftir fimmta kjörtímabilinu. Sú ólga hefur nú leitt til þess að Howard hefur tilkynnt um að sigri hann í kosningunum muni hann rýma til fyrir arftakanum Costello fljótlega á næsta kjörtímabili. Hann segist ekki vera heigull og vilji verja verk sín og stjórnarinnar. En fjöldi landsmanna er orðinn hundleiður á Howard og flestir hafa talið að þjóðin myndi refsa honum harkalega.

Nú er Kevin Rudd með öll spil á hendi - allar kannanir benda til þess að hann verði nú örlagavaldur ástralskra stjórnmála, muni fella Howard af stalli sínum. En mun eyrnamergsátið leggja vonir hans um kosningasigurinn í rúst eða veikja hann umtalsvert? Vissulega er þetta frekar ógeðsleg iðja, held að flestum sundli örlítið við myndunum. En nú verður áhugavert að sjá hversu klígjugjarnir Ástralir eru í raun og veru.

mbl.is Eyrnamergsát gæti skaðað stjórnmálaferilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband