Tony Blair skrifar um árin í Downingstræti 10

Tony BlairÞað kemur engum að óvörum að Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, vilji rita pólitíska ævisögu sína, sögu áranna í Downingstræti 10. Fetar hann þar í fótspor Margaret Thatcher sem ritaði eftirminnilega minningasögu um árin ellefu í Downingstræti. Bók hennar The Downing Street Years varð metsölubók, enda opinská og einlæg í senn, og er ofarlega í hillunni minni allavega. Algjörlega ómetanleg heimild um litríkan stjórnmálamann í innsta hring eftirminnilegra ákvarðana sem markaði spor í sögu eins öflugasta ríkis heims, um leið heimsmyndarinnar.

Eðlilega er slegist um útgáfuréttinn á þessari minningasögu Teflon-Tony, rétt eins og Thatchers áður. Þrátt fyrir hæðir og lægðir áranna tíu í Downingstræti er Tony Blair hiklaust einn sigursælasti stjórnmálaleiðtogi breskrar stjórnmálasögu. Hann er sterkasti leiðtogi breskra vinstrimanna í Bretlandi til þessa, stýrði flokki sínum til þriggja kosningasigra, þar af þeim stærsta í stjórnmálasögu Bretlands, og hefur því sannarlega sögu að segja. Ég hef á tilfinningunni að Tony Blair ætli að vera mjög opinskár í þessari bók sinni, sem hann ætlar að rita sjálfur eins og Thatcher gerði forðum. Tímasetning útgáfunnar er varla tilviljun en hún kemur væntanlega út eftir næstu þingkosningar í Bretlandi. Þetta verður tæpitungulaus saga.

Þannig tel ég að Tony ætli sér að tala af alvöru um hitamálin sem skiptu máli á þessum tíu árum og vonandi allt annað hið litla sem í raun skiptir varla minna máli. Tony Blair kom til valda á ótrúlegri bylgju stuðnings á vordögum fyrir áratug og var sem risi á vettvangi breskra stjórnmála mjög lengi. Honum entist ótrúlega vel á pólitísku lífunum níu og átti jafnvel til staðar fleiri en bara þau. Hann kom sem ferskur vindblær vorið 1997 og gerði stöðuna að sinni. Hann varð táknmynd nýrra tíma og persónugerði þreytuna í garð Íhaldsflokksins að sinni og var augljóst mótvægi nýrra tíma við þá eldri. Íhaldsflokkurinn átti aldrei séns þetta vor breytinganna. Það var bara þannig.

Ég dáðist mjög að hlutverki hans í kjölfar dauða Díönu. Hann lét gamlar hefðir og venjur lönd og leið og lagði til verka við að minnast hennar, þó að greinileg kergja væri bakvið tjöldin. Ég fer aldrei ofan af því að glæstasta stund Tonys var þegar að hann ávarpaði bresku þjóðina í Sedgefield að morgni 31. ágúst 1997. Sú ræða súmmaði algjörlega upp stöðuna. Hún var örlagavaldur. Hún kom af stað bylgjunni miklu sem síðar var nærri búin að taka með sér Elísabetu II og granda lykilstöðu hennar, í ljósi þess að hún lét ekki segjast og hélt til London til að halda utan um þjóð í sorg. Hún áttaði sig seint og um síðir. Ég er þess fullviss að ef Blair hefði ekki leiðbeint hinni lífsreyndu drottningu þessa haustdaga hefðu gullnu dagar hennar liðið undir lok.

Margir hafa spurt sig hvort að Tony Blair hafi verið að reyna að leika Margaret Thatcher allan sinn stjórnmálaferil. Að vissu marki má segja það. Hann auðvitað gjörbreytti Verkamannaflokknum. Hann á þó ekki heiðurinn af því einn. Þar átti John Smith lykilþátt ennfremur en honum entust ekki lífsins dagar til að koma því í framkvæmd. Blair gerði stefnuna að sinni og fullkomnaði hana. New Labour var skothelt plagg í kosningunum 1997 og það var grunnur nýrra tíma. Þó gengið hafi svona og svona er öllum ljóst hvaða áhrif breytingarnar vorið 1997 höfðu. Blair var auðvitað aldrei verkalýðskrati eða kommi. Hann var hægrikrati sem hélt flokknum á miðju og gat höfðað til hægrimanna. Þar lá stærsta farsæld flokksins.

Tony Blair ríkti lengi. Sama hversu molnaði undan honum var komið í veg fyrir hrapið á þeim stað sem hættulegastur var og hann náði alltaf að bjarga sér. Undir lokin varð staðan vissulega mjög erfið en það er auðvitað aðdáunarvert hversu vel honum tókst að halda lykilstöðu. Meira að segja tókst honum, þvert á flestar spár, að bjarga sér frá nöprum endalokum eftir sjálfsmorð dr. Davids Kelly, sem var auðvitað hreinn harmleikur pólitískt og persónulega, Cash-for-honours fíaskóið og síðast en ekki síst tapið auðmýkjandi í þinginu í nóvember 2005. Í síðastnefnda tilfellinu stóð hann tæpast, enda var naumur þingmeirihluti skaðlegur enda höfðu andstæðingarnir í flokknum hann í spennitreyju og það flýtti fyrir endalokunum.

Í ósigri eða endalokum getur mesti sigurinn falist. Þetta kom vel fram þegar að Margaret Thatcher var í raun sett af sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Það voru nöpur endalok. Daginn sem hún sagði af sér leiftraði hún af fjöri og orðfimi sem aldrei fyrr í þingumræðum. Flestir sem upplifðu að sjá þann dag muna eftir henni berjast af fimi við Neil Kinnock, í bláu dragtinni sinni og sennilega með flottustu hárgreiðsluna. Þrátt fyrir niðurlægjandi endalok gat hún gert stund endalokanna að sínum og náði að bægja frá mestu gagnrýni. Þetta tókst líka Tony Blair á stund endaloka. Hann stjórnaði þeim og var klappaður upp eins og leikari eftir sinn glæstasta leiksigur.

Flestir munu horfa til uppgjörs Blairs við eftirmanninn Gordon Brown; hvernig þeim verði lýst. Margar sögur hafa gengið af erfiðum samskiptum og tímasetning útgáfunnar er sérlega heppileg til að tala hreint út án þess að skaða. Árin tíu í Downingstræti frá sjónarhóli húsbóndans Tony Blair verður áhugaverð lesning, hvaða skoðun sem stjórnmálaáhugamenn hafa á Tony Blair og verkum hans. Það má gefa sér að pólitískt uppgjör hans verði spennandi súmmering á lykilmálum áranna fyrir og eftir forsætisráðherraferilinn.


mbl.is Hart barist um útgáfuréttinn á endurminningum Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband