Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.11.2007 | 12:28
Samruna hafnað - skynsamlega tekið á málunum
Það er jákvæð niðurstaða að samruna REI og GGE hafi verið hafnað af borgarráði og þar með sé málið sett á byrjunarreit. Þetta er hið eina rétta fyrsta skref til að vinna úr þeim erfiðu flækjum sem mynduðust í REI-málinu síðustu vikurnar. Nauðsynlegt er að fara ofan í saumana á öllum þáttum málsins, jákvætt er að stjórnsýsluúttekt verði gerð á Orkuveitu Reykjavíkur, enda ljóst að margt hefur þar farið úrskeiðis og samstarf embættismanna og stjórnmálamanna verið mjög ábótavant á þeim vettvangi.
REI-málið var eitt klúður frá upphafi til enda. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt illa á málum og úr varð risavaxið pólitískt klúður sem lyktaði af mikilli spillingu. Í því áttu sér stað ákvarðanir sem ekki var hægt að una við og því er það auðvitað mjög ánægjulegt að bakkað verði með samrunann, einkaréttarsamningarnir blásnir af með áberandi hætti og farið ofan í saumana á vinnuferlum í Orkuveitu Reykjavíkur. Það virkar á fólk sem svo að þar vinni menn eins og fyrirtækið sé ríki í ríkinu, sem lúti ekki ákvörðunum borgaryfirvalda. Það þarf að taka af skarið og bæta úr því.
Heilt yfir er ég ánægður með fyrstu skref þessa starfshóps. Margir voru í heildina mjög efins um að þar yrði þorað að taka á erfiðum málum og reyna að þoka málum fram á við, leiðrétta ruglið og reyna að laga það sem aflaga fór í þessu REI-máli á vakt fyrri meirihluta. Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi, hefur með þessu sýnt að hún ætlar ekki að éta ofan í sig þetta mál og ætlar að taka á því. Eða ég vona það. Þessi fyrstu verk gefa manni von um að tekið verði á hinu ranga og unnið úr vandanum.
Stjórnmálamenn verða að vera með það öflugt bein í nefinu að þora að taka svona stórar ákvarðanir. Heilt yfir er vonandi að tekið verði á þeim vanda sem til staðar er, horfast í augu við mistökin sem gerð voru og laga þau til þess sem eðlilegt á að vera. Þetta skref borgaryfirvalda hlýtur að teljast jákvætt fyrsta skref á þeirri vegferð.
![]() |
Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2007 | 23:27
Fjöldi starfsmanna staðfestir samráðsorðróminn
Það að fjöldi starfsmanna gefi sig fram er lýsandi um málið. Margir þeirra vilja ekki tjá sig á grundvelli þess að þeir óttist þar með um atvinnuöryggi sitt ævilangt, enda við stóra aðila að eiga. Þetta mál er mjög vont fyrir bæði Bónus og Krónuna. Það að margir starfsmenn gefi sig þó fram og taki undir fréttaflutninginn, hringi inn til útvarpsins og gefi upplýsingar um verklagið gefur vægi umfjöllunarinnar meira vægi, það leikur enginn vafi á því.
Heilt yfir er þetta mjög stórt mál, það skiptir neytendur í landinu miklu máli. Það getur ekki endað með hálfkveðnum vísum, við neytendur eigum rétt á því að kafað verði dýpra í málin og reynt að kanna betur hversu mikil fákeppni ríkir á matvörumarkaði hérlendis.
![]() |
Segjast aldrei hafa haft samráð við keppinauta á markaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2007 | 16:12
Karen Hughes kveður Bush og fer heim til Texas

Ekki er langt síðan að Karl Rove, sem var lykilmaður í starfsliði forsetans í áraraðir og einn helsti hugsuðurinn á bakvið pólitískt veldi hans, bæði í Washington og áður í Austin, yfirgaf Hvíta húsið og hélt heim til Texas í önnur verkefni. Hughes og Rove héldu utan um alla þræði í báðum forsetakosningunum sem Bush sigraði og voru mjög afgerandi alla tíð í verkum fyrir forsetann. Rove og Hughes voru hinir sönnu áróðurs- og spunameistarar sem sjaldan klikkuðu á mikilvægum stundum og léku lykilhlutverk í kosningasigri Bush og því sem tók við eftir að völdum var náð. Brotthvarf þeirra er því táknrænt fyrir endalokin sem nálgast.
Þau tíðindi að Hughes yfirgefi sviðið nú koma varla svosem að óvörum. Pólitískum ferli Bush forseta er að ljúka. Það styttist óðum í vaktaskipti í Hvíta húsinu. Það var komið að leiðarlokum í samstarfi þeirra hvernig sem var. Það er rétt rúmt ár þar til að Bush heldur alfarinn til Crawford og fer að njóta sveitasælunnar á eftirlaunum. Það eru engar kosningar framundan og lykilverkefnum á stjórnmálaferli George W. Bush er lokið, eða í það minnsta styttist í endalokin. Bush var framan af forsetaferlinum sigursæll forseti. Hann tók við völdum með mjög naumu umboði, hafði þingið með sér lengi vel, vann eftirminnilega þingsigra árið 2002 og 2004 og hlaut endurkjör í Hvíta húsinu með nokkuð afgerandi hætti árið 2004.
Það hefur syrt í álinn fyrir Bush að undanförnu. Forsetinn hefur upplifað sögulegar fylgislægðir að undanförnu. Segja má að erfitt hafi verið fyrir hann síðasta árið, og væntanlega náðu vandræðin hámarki í nóvember 2006 þegar að repúblikanar töpuðu báðum þingdeildum. Síðan hefur valdabarátta þingdemókrata og forsetans verið háð á opinberum vettvangi og er sennilega rétt að hefjast. Hún mun standa allt þar til að yfir lýkur hjá Bush og hann yfirgefur Washington við lok forsetaferilsins í janúar 2009. Það stefnir í breytta tíma hjá repúblikunum. Ekki er víst hver hreppir hnossið um að berjast af hálfu flokksins um Hvíta húsið en breytingar verða með einum hætti eða öðrum. Það blasir við öllum.
Karen Hughes hefur verið við hlið forsetans frá ríkisstjóraárunum í Texas. Þegar að hann ákvað að taka slaginn í baráttunni um Hvíta húsið fyrir um áratug var Karen allt í öllu við hlið hans og varla veigaminni þátttakandi en Karl Rove. Baráttunni var stýrt af þeim sem höfðu fylgt Bush í gegnum ríkisstjóraferilinn; þeim Karl Rove, Karen Hughes og John Allbaugh. Rove var allt í öllu sem fyrr og markaði grunnlínur kosningaslagsins og beitti öllum brögðum eins og ávallt áður í að tryggja vænlega stöðu Bush. Karen var lykilmanneskja í áróðursmennskunni og hefur verið launað ríkulega það hlutverk eftir það.
Karen Hughes fylgdi George W. Bush til Washington. Hún hreiðraði um sig í Hvíta húsinu og varð lykilmanneskja alls sem gerðist hjá forsetanum, við hlið Rove. Hún hélt á öllum lykiltaugum kosningabaráttunnar 2004 þar sem Bush barðist fyrir endurkjöri. Síðan hefur Hughes litið í aðrar áttir og tekið að sér önnur verkefni en fyrir Hvíta húsið beint og hefur verið í verkefnum fyrir utanríkisráðuneytið.
Forsetaferill George W. Bush hefur verið stormasamur, einkennst bæði af miklum hæðum og lægðum á langri vegferð. Í gegnum öll verkefnin og alla sigrana á langri leið hefur Karen Hughes verið lykilmanneskja. Hlutverk hennar í stjórnmálaferli og sigrum George W. Bush verður talið mikið þegar að ferill hans verður gerður upp síðar meir.
Hún var sterkasta konan á bakvið forsetann, að frátaldri forsetafrúnni og utanríkisráðherranum Rice að sjálfsögðu.
![]() |
Karen Hughes lætur af störfum um áramót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2007 | 11:55
Tvískinnungur í áfengismálum - styðjum frumvarpið
Það er ekki hægt að sjá annað en að helsta röksemd andstæðinga frumvarps um breytingu lagaákvæða er varða sölu áfengis og tóbaks sé fallin. Nú þegar er áfengi selt með matvörum á landsbyggðinni. Þetta hefur gerst án þess að sjálfskipaðir siðapostular hafi gagnrýnt og vekur gagnrýni þeirra á frumvarp þingmanna fjögurra stjórnmálaflokka enn meiri athygli í ljósi þess. Það er ekki óeðlilegt að farið sé yfir stöðu mála á Hellu sérstaklega, þar sem áfengi er selt með matvöru. Hefur fólk skaðast af því?
Hef líka heyrt sögur af því að barnafataverslun í Ólafsvík selji áfengi og þetta sé jafnvel víðar um land. Veit t.d. að á Dalvík er áfengi selt samhliða starfsemi fatahreinsunar. Um landið er þetta ólíkt og margir hafa farið þá leið að samræma áfengissölu öðrum þáttum starfsemi. Enda er áfengi söluvara og á að lúta þeim lögmálum. Það er algjör tímaskekkja að ríkið reki sérstakar verslanir og selji áfengi. Þarf þá ekki að gera það sama með tóbak, fyrst þessi lögmál eiga að gilda að áfengi geti verið hættulegt heilsu fólks.
Það er ljóst að yfirvöldum finnst þegar allt í lagi að fólk kaupi sér áfengi samhliða matvöru. Sumir verja þó gömul lög á þeim grundvelli að fólk sem drekkur vín þurfi ekki að hafa það í sjónmáli er það sækir sér nauðsynjar á borð við matvöru. Í mínum bókum kallast þetta ekkert annað en tvískinnungur. Það þarf að taka á honum.
Mér finnst kominn tími til að við horfum lengra í þessum efnum og styðjum frumvarp þingmannanna sautján. Áfengissala með matvörum er þegar orðin staðreynd - það þarf að horfast í augu við það.
![]() |
Áfengið er komið í matvöruverslanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2007 | 22:41
Verða jafnréttislögin nú ekki lengur barn síns tíma?
Það er ekki langt síðan að sagt var eftirminnilega að jafnréttislögin væru barn síns tíma. Ekki voru allir sáttir við þá túlkun. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, lagt fram ný jafnréttislög, nýjan grunn í þessum lagabálki fyrir þingið. Jóhanna hefur jafnan verið mikill jafnréttissinni og sýnir það með nýju lagatillögunum. Sagt er að Jóhanna vinni frá morgni til kvölds, mæti fyrst í vinnuna og fari jafnvel síðust heim. Sama orð fór af henni er hún gegndi embættinu hér áður fyrr. Nýlega mældist hún vinsælasti ráðherrann.
Meðal allra helstu baráttumála kvenna í dag er launamunur kynjanna. Það er vissulega ólíðandi á okkar tímum að kynin fái ekki sömu laun fyrir sambærileg störf. Varla þarf að taka það fram nógu oft að mikilvægt er að taka á þessum launamun. Það má hinsvegar deila um það hvort að rétta leiðin sé sú sem felst í nýjum lagatillögunum að afnema launaleyndina. Þetta hefur verið baráttumál femínista árum saman og virðist sigur þeirra vera í sjónmáli nú undir forystu Jóhönnu. Þarna er Jóhanna að vinna eftir stjórnarsáttmálanum frá því í vor, en þar var þetta plan grunnlagt.
Ég hef alltaf verið á móti kynjaskiptingu á vinnustöðum eða reglugerðum þar um. Sum fyrirtæki hafa staðið sig vel í þessum efnum þrátt fyrir enga sérstaka reglugerð og ráða hæft fólk til verka, án þess að hugsa um kynferði. Enda á það ekki að vera úrslitaatriði. Það hefur sést vel af því að til eru konur sem vinna algeng karlastörf með sóma og karlmenn hafa unnið kvennastörf. Karlmenn vinna t.d. við umönnunarstörf af ýmsu tagi; á dvalarheimilum og leikskólum t.d. og konur hafa unnið við að keyra vörubíla og svona mætti lengi telja. Tel ég afleitt að neyða fyrirtæki til að setja vissa kvóta vinnuafls. Það verður hvert fyrirtæki að hafa eigin leikreglur. Vil ég ekki forræðishyggju í þessum efnum.
Það verður áhugavert að sjá hvað gerist reyndar nú í málefnum fyrirtækja. Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sett verði lög um að visst hlutfall kvenna verði í stjórnum fyrirtækja, eins og ég hef heyrt suma ráðherra tala fyrir? Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að ráða eigi í stöður eftir hæfni og líka eftir huglægu mati. Það er eitur í mínum beinum þegar farið er að tala um kynjakvóta og staðla þannig tengd. Fólk á að komast áfram á eigin verðleikum en ekki kynjakvótum sem sett eru beinlínis til að breyta mati úr því hver sé hæfastur til starfsins í það hvort um sé að ræða jafnan hlut kynjanna.
Þetta hefur oft birst við val á framboðslistum fyrir kosningar. Þar eru stundum settir kynjakvótar til að velja á listann eftir. Hefur það gerst að kona hafi hækkað um sæti og lækkað um sæti vegna slíkra reglna. Heilt yfir tel ég kynjakvóta fáránlega og tel t.d. að í prófkjörum eigi fólk að standa jafnfætis. Konur hafa t.d. innan Sjálfstæðisflokksins náð góðum árangri í prófkjörum þrátt fyrir enga kynjakvóta. Nægir þar að nefna að í prófkjöri okkar hér í Norðausturkjördæmi í fyrra náðu konur tveim af þrem efstu sætunum. Framboðið okkar var hið eina sem gat státað sig af svo sterkri stöðu kvenna, eftir prófkjör eða forval.
Jafnréttislögin eiga að vera skynsamur grunnur til að vinna eftir en ekki forræðishyggja boða og banna yfir fyrirtækjum. Það er engum til sóma að taka upp forræðishyggju í þessum efnum. Tel ég að flestir séu þeirrar skoðunar að skynsemin sé nógu sterk til að vinna sitt verk ein og sér. Lögin eiga ekki að stuðla að forræðishyggju og því að við lifum í samfélagi boða og banna í þessum efnum.
![]() |
Frumvarpi að nýjum jafnréttislögum dreift á Alþingi í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.10.2007 | 18:03
Fjórir ráðherrar á landinu - fjarvera forsetans
Fjarverur ráðherra og kjörinna fulltrúa hafa vakið athygli síðustu dagana. Sérstaklega hefur tal um hlutverk handhafa forsetavalds verið í umræðunni vegna tíðra ferðalaga Ólafs Ragnars Grímssonar sem er skv. fréttum erlendis í rúmlega 100 daga á ári hverju, sem hlýtur að teljast mikið fyrir kjörinn þjóðhöfðingja með engin raunveruleg pólitísk völd. Hlutverk handhafa forsetavalds er rætt. Það er löngu liðinn sá tími að þurfi þrjá handhafa til verksins á meðan að forsetinn er ekki heima til að sinna verkum sínum. Nóg væri að hafa einn; þingforsetann.
Launakjör handhafa forsetavalds á meðan að Ólafur Ragnar Grímsson vísiterar heiminn án pólitískra valda vekja athygli. Þau eru út úr öllu korti og hljóta að leiða til þess að þessu skipulagi verði breytt. Þó forsetinn sé staddur erlendis er hann ekki aftengdur sem slíkur. Við lifum jú á tímum internets, farsíma, faxins, SMS-skilaboða og tölvupósts; svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf að breyta stjórnarskrá til að stokka þessa þætti handhafa forsetavalds upp.
Það þarf að leggja áherslu á það í vinnu stjórnarskrárnefndar sem hlýtur að fara brátt af stað og leysa af hólmi nefnd sem skilaði engu af sér þrátt fyrir áralanga vinnu. Það þarf að kanna líka betur hlutverk íslenska forsetaembættisins og stokka upp stöðu hans þykir mér. Þetta er vinna sem er mikilvæg, en hefur einhverra hluta vegna verið sleppt.
![]() |
Fámennt á þingfundi vegna Norðurlandaráðsþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 01:21
Aðdáunarverðar hetjur í Sinfóníunni í Írak

Baráttan þar fyrir lýðræði og uppbyggingu er lykilatriði í öllum þrengingum sem þar eiga sér stað. Hvað svo sem okkur finnst um veru Bandaríkjamanna þar á lýðræðisbaráttan að vera lykilatriði í öllu öðru sem gerist í Írak. Vonandi tekst að marka veg til lýðræðisþróunar og farsæls mannlífs í þessu hrjáða landi.
Þrátt fyrir að Írakar hafi í fyrsta skipti í hálfa öld nýlega fengið tækifæri til að kjósa milli flokka í þingkosningum; hafði val til að kjósa og gat kosið án ógnar einræðisafla og ógnarstjórnar sem ríkti með harðri hendi, er staðan lítið breytt. Þar ríkir enn vargöld og ógn. Þrátt fyrir hótanir og sýnileg verk hryðjuverkaafla um að reyna að eyðileggja lýðræðisstarfið í Írak mun það vonandi ekki takast.
Fréttin um hetjurnar í Sinfóníuhljómsveitinni færir okkur notalega sýn á mannlegan kraft þarna og það er vonandi að tónar þessarar hljómsveitar fái að óma út yfir allar hættur og sprengjuskelfingar.
![]() |
Hugrakkasta hljómsveit í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2007 | 18:51
Vel gert hjá Nicolas Sarkozy
Það hefur aldrei farið framhjá nokkrum manni að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, er skapmikill maður, hefur mikla pólitíska nærveru og talar af krafti um mál. Hann hefur sterka pólitíska stöðu fyrst og fremst útfrá þessum lykilþáttum sínum og er sem risi í frönskum stjórnmálum eftir forsetakjör sitt í vor og sigur samherja sinna í þingkosningum skömmu síðar. Hann er óhræddur við að láta finna fyrir sér og sýna skap sitt opinberlega.
Það sást vel er hann stóð upp í miðju viðtali við Lesley Stahl, fréttamann í einum virtasta fréttaskýringarþætti Bandaríkjanna, 60 mínútum á CBS, í Elysée-höll og gekk á dyr með orðin Au Revoir og Merci á vörunum er spurt var um einkalíf hans og hjónabandið við Cesiliu Sarkozy. Viðtalið var tekið nokkrum dögum áður en því lauk opinberlega, en þá höfðu kjaftasögur gengið vikum saman að þau væru að skilja, enda ekki sést saman opinberlega um langt skeið. Hefur hann ekki tjáð sig einu orði um skilnaðinn og vill ekki ræða einkalíf sitt.
Hann var því samkvæmur sjálfum sér í þessu viðtali og var ekki að hjala framan í pressuna sem vildi frekar tala um einkalífið en störf hans á forsetastóli. Þetta hlýtur að vera mjög mikil nýlunda fyrir CBS og um leið mikið áfall, enda lítur stöðin jafnan mjög stórt á sig og telur þáttinn sinn þann besta og einn stærsti aðall hennar að þar tali menn opinskátt um sig - og þar gangi menn ekki á dyr í viðtali. Enda var svipurinn á Stahl lýsandi um áhrifin sem þetta hafði á hana. Hún gapti.
Vel gert hjá Sarkozy, segi ég bara.
Tengd grein um Sarkozy
Skammlífri hjónabandssælu í Elysée-höll lokið
![]() |
Frakklandsforseti stóð upp og fór í miðju sjónvarpsviðtali |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2007 | 00:23
Verður Cristina hin nýja argentínska Evita Peron?

Er ekki undrunarefni að farið er að tala um Cristinu sem hina nýju Evitu og um leið Nestor Kirchner, fráfarandi forseta, sem hinn svokallaða Peron. Meira er það þó í gamni gert með hann, en það leikur enginn vafi á því að Cristina hefur heillað landsmenn í Argentínu upp úr skónum rétt eins og hin áhrifamikla Evita fyrir rúmri hálfri öld. Henni var gerð skil í kvikmyndum og söngleikjum. Hún varð ódauðleg í huga allra heimsbúa en fyrst og fremst íbúa Argentínu fyrir sitt framlag í sögu landsins við hlið Perons. Sama sjarma hefur hinn nýji forseti klárlega, eins og úrslitin sanna mjög vel.
Það er þó sannarlega margt ólíkt með Cristinu og fyrri kvenforseta, Isabel Peron. Isabel Martínez var næturklúbbadansmær í Panama er hún lenti í því athyglisverða hlutskipti að kynnast einum umdeildasta stjórnmálamanni S-Ameríku er hafði verið landflótta þá í áratugi. Í kjölfar þess varð hún fyrsta konan á forsetastóli í heiminum. Þetta er lygileg saga og mjög athyglisverð, hvernig sem á hana er litið. En þrátt fyrir það allt varð Isabel Martinez önnur kona, bæði í heimssögunni og í huga íbúa Argentínu fyrir það að kynnast Juan Peron. Hún sneri með honum úr útlegð árið 1973 og var við hlið hans til hinstu stundar.
Juan Peron hafði öðlast sess í sögunni sem forseti Argentínu fyrr á árum. Hann var orðinn gamall og slitinn maður er hann reyndi aftur að komast til Argentínu og á gamals aldri varð hann aftur forseti landsins árið 1973. Ekki aðeins var hún 35 árum yngri en hann, heldur með aðra fortíð en Evita. Juan Peron gerði næturklúbbadansmeyna, hina pólitískt algjörlega óreyndu, að varaforseta. Með því varð hún ein valdamesta konan í heiminum. Hann gerði hana ódauðlega í huga allra heimsbúa. En hún varð ekki ódauðleg með sama hætti og hin þokkafulla Evita. Þær voru sannarlega ekki úr sama efniviði.
Það kom enn betur í ljós í ágúst 1974 er Juan Peron dó, farinn að heilsu og kröftum. Eftir stóð hin óreynda næturklúbbadansmær sem fyrsti kvenforseti heimsins. Hún tók erfitt hlutskipti í arf eftir mann sinn er hann skildi við. Það varð henni um megn. Árið 1976 steypti herinn henni af stóli og hún flúði landið sem var eiginmanni hennar allt. Þrem áratugum síðar var hún handtekin í útlegð á Spáni, þar sem hún hefur dvalið frá árinu 1981. Saga hennar er mjög merkileg, en það eru litlar líkur á að þessar tvær konur verði samferða meira en svo að hafa náð þessu forsetaembætti, þó með ólíkum hætti.
Cristina fer nú úr hlutverki forsetafrúar og hefur hlutverkaskipti við eiginmanninn. Það verður áhugavert að fylgjast með verkum hennar á valdastóli eftir þetta öfluga kjör, strax í fyrstu umferð.
![]() |
Cristina Fernandez kjörin forseti Argentínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.10.2007 | 17:22
Tengdadóttir og sonur Jónínu Bjartmarz stefna RÚV
Þetta var auðvitað mjög vandræðalegt mál í alla staði, bæði fyrir Luciu og ráðherrann fyrrverandi, tengdamóðurina, og eiginlega fjölskyldu hennar alla í raun. Hitinn var mikill í því og Kastljós gekk mjög ákveðið fram í forystu þess að fjalla um málið og frægt varð rifrildi Helga Seljan og Jónínu í spjallþættinum nokkrum dögum fyrir alþingiskosningar. Er á hólminn kom höfnuðu borgarbúar Jónínu og Framsóknarflokknum í Reykjavík (og á landsvísu) í kosningunum 12. maí, hún missti ekki aðeins ráðherrastólinn, heldur þingsætið eftir átta ára þingferil.
Nokkrum vikum eftir að stjórnmálaferli Jónínu lauk í kjölfar þessa hitamáls úrskurðaði siðanefnd Blaðamannafélags Íslands um að umfjöllun Kastljóss hefði brotið siðareglur BÍ. Deilt var harkalega um þann úrskurð. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að fjalla hafi átt um þetta mál með áberandi hætti. Þá skoðun tjáði ég margoft þegar á málinu stóð rétt fyrir alþingiskosningar og endurtek hana hérmeð. Þetta var svo sannarlega frétt sem vakti athygli, rétt eins og umræðan í kjölfarið sýndi vel.
Kastljós fékk upplýsingar sem sýndi athyglisvert vinnuferli málsins og ákveðið var að birta það. Það má vel vera að deilt sé um hvernig verkið var unnið, en fréttin var stór engu að síður. Margir töldu þetta persónulegt mál Helga. Það er af og frá, enda er á bakvið umfjöllunina umfram allt ritstjóri þáttarins og dagskrárstjóri Sjónvarpsins, Þórhallur Gunnarsson. Enda sýnist mér á öllu að parið beini málinu til æðstu stjórnenda Ríkisútvarpsins fyrst og fremst.Það má deila vissulega um ýmislegt í þessu máli öllu. Hinsvegar finnst mér eðlilegt að þættir af því tagi sem Kastljós er þori að koma fram með afgerandi mál og skapa umræðu um þau. Það má vel vera að það komi við stjórnmálamenn og sé ekki þeim að skapi. Hinsvegar hef ég aldrei litið á fjölmiðla sem halelúja-miðstöð umfjöllunar í stjórnmálum. Ég get ekki betur séð en að allt þetta mál hafi vakið stórar spurningar og málið allt var það stórt að það varð að koma í umræðuna.
Er á hólminn kemur verða fjölmiðlar að þora. Mér finnst þessi umfjöllun mjög léttvæg miðað við margt sem sést hefur á prenti í gegnum tíðina og finnst því þessi tíðindi boða nýja stefnu jafnvel þegar að kemur að því taka alvarleg mál fyrir til umfjöllunar. Það er eðlilegt að parið og ennfremur fyrrum ráðherra og alþingismaður (sem er í bakgrunni þessa dómsmáls) vilji verja heiður sinn, telji þau að ráðist hafi verið að honum.
Það er þá bara dómstóla að fjalla um málið. Það er réttur okkar allra að beina til dómstóla þeim málum er við teljum á okkur brotið með einum eða öðrum hætti. Áhugavert verður að sjá niðurstöðu þess máls, sem mun hafa talsverð áhrif á fjölmiðlaumfjöllun í landinu.
![]() |
Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |