Fjórir ráðherrar á landinu - fjarvera forsetans

Björn Bjarnason Það er ekki oft sem það gerist að fjórir eða færri ráðherrar landsins sinni störfum sínum hér heima. Til dæmis verður Björn Bjarnason starfandi forsætisráðherra næstu dagana og gegnir öllum ráðherraembættum Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma. Aðeins tveir ráðherrar Samfylkingarinnar eru heima; þau Jóhanna Sigurðardóttir og Kristján L. Möller. Ástæðan er auðvitað Norðurlandaráðsþingið í Osló og þinghald Sameinuðu þjóðanna, en hið minnsta fimm varaþingmenn eru á þingi þessa dagana fyrir ráðherra og alþingismenn.

Fjarverur ráðherra og kjörinna fulltrúa hafa vakið athygli síðustu dagana. Sérstaklega hefur tal um hlutverk handhafa forsetavalds verið í umræðunni vegna tíðra ferðalaga Ólafs Ragnars Grímssonar sem er skv. fréttum erlendis í rúmlega 100 daga á ári hverju, sem hlýtur að teljast mikið fyrir kjörinn þjóðhöfðingja með engin raunveruleg pólitísk völd. Hlutverk handhafa forsetavalds er rætt. Það er löngu liðinn sá tími að þurfi þrjá handhafa til verksins á meðan að forsetinn er ekki heima til að sinna verkum sínum. Nóg væri að hafa einn; þingforsetann.

Launakjör handhafa forsetavalds á meðan að Ólafur Ragnar Grímsson vísiterar heiminn án pólitískra valda vekja athygli. Þau eru út úr öllu korti og hljóta að leiða til þess að þessu skipulagi verði breytt. Þó forsetinn sé staddur erlendis er hann ekki aftengdur sem slíkur. Við lifum jú á tímum internets, farsíma, faxins, SMS-skilaboða og tölvupósts; svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf að breyta stjórnarskrá til að stokka þessa þætti handhafa forsetavalds upp.

Það þarf að leggja áherslu á það í vinnu stjórnarskrárnefndar sem hlýtur að fara brátt af stað og leysa af hólmi nefnd sem skilaði engu af sér þrátt fyrir áralanga vinnu. Það þarf að kanna líka betur hlutverk íslenska forsetaembættisins og stokka upp stöðu hans þykir mér. Þetta er vinna sem er mikilvæg, en hefur einhverra hluta vegna verið sleppt.

mbl.is Fámennt á þingfundi vegna Norðurlandaráðsþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband