Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fimm vinstri grænir töluðu í 45 tíma á þingi

AlþingiÞað er alltaf jafnáhugavert að kynna sér tímamælingar á ræðuhöldum á Alþingi. Sá frétt um þetta núna í kvöld sem vakti nokkra athygli mína. Þar kemur m.a. fram að fimm manna þingflokkur VG talar mest allra þingflokka í þingsal. 5 vinstri grænir töluðu semsagt í 44 klukkustundir og 55 mínútur en 23 manna þingflokkur Sjálfstæðisflokkins kemur næstur með 35 klukkustundir og 22 mínútur.

Aldrei þessu vant er Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ekki ræðukóngur í þinginu. Jón Bjarnason, þingmaður vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, talaði manna mest og lét einn móðinn mása í rúman hálfan sólarhring samtals, eða 13 klukkustundir og 40 mínútur. Steingrímur kom næstur með 10 klukkustundir og 37 mínútur. Enginn kemst nálægt þeim félögum í að geta talað lengi greinilega.

Minnst töluðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Sigurrós Þorgrímsdóttir í Suðvesturkjördæmi og Kjartan Ólafsson í Suðurkjördæmi. Kjartan talaði aðeins í átta mínútur í ræðustóli á haustþinginu en Sigurrós hélt aðeins eina ræðu allt haustmisserið og þá í tvær mínútur um aðgerðir gegn ofsaakstri í umferðinni. Þess má geta að Sigurrós er í 22. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum eftir fall í prófkjöri og er því á útleið af þingi.


Endist meirihlutinn út kjörtímabilið?

Hermann Jón, Kristján Þór og Sigrún Björk Þáttaskil eru framundan í bæjarmálum á Akureyri. Níu ára bæjarstjóraferli Kristjáns Þórs Júlíussonar lýkur senn og Sigrún Björk Jakobsdóttir verður bæjarstjóri næstu 30 mánuðina, eða þar til að Samfylkingin fær embætti bæjarstjóra síðasta árið fyrir næstu kosningar. Í pistli á bæjarmálavefritinu Pollinum í kjölfar formlegrar tilkynningar um bæjarstjóraskipti spurði ég sjálfan mig að því hvort að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar myndi endast út kjörtímabilið.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að mér finnist þessi meirihluti fara illa af stað og hafa verið frekar svifaseinn og vandræðalegur í verkum. Það má vissulega skrifa það eitthvað á það að allir bæjarfulltrúar meirihlutans, nema Kristján og Sigrún, eru nýliðar í bæjarstjórn og t.d. hafði Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, ekki verið aðalmaður áður, enda hleypti Fía (Oktavía Jóhannesdóttir) honum mjög sjaldan inn í bæjarstjórn, og auðvitað alls ekki eftir að hún sagði skilið við Samfylkinguna hálfu ári fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en í aðdraganda þeirra hafði allt logað í óeiningu innan flokksins. Þetta er því upp til hópa meirihluti nýliða, sem er í sumum tilvikum gott en í fleiri tilvikum afleitt.

Ég efast ekki um að bæjarfulltrúar meirihlutans séu vinnusamir. Það sem mér finnst vera mjög áberandi er að erfitt er að ná samstöðu um mál og keyra samstíg til verka. Það gæti alveg farið svo að það yrði banabiti þessa meirihluta fyrr en síðar, en vonandi geta menn hafið sig yfir innri ágreining um viss lykilmál og stjórnað bænum með samhentum og öflugum hætti. Þegar að hálft ár er liðið frá síðustu kosningum finnst mér hafa vantað verulega upp á festu og kraft við stjórn bæjarins. Þetta er atriði sem mér finnst mjög áberandi og hafa komið vel fram á bæjarstjórnarfundum og að mér skilst líka sést inni í nefndum bæjarins, þar sem talað er í ólíkar áttir.

Mér telst til að meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hér sé fyrsta samstarf þessara flokka eftir að Samfylkingin kom til sögunnar árið 2000. Í kosningunum komu fram ólíkar áherslur þessara flokka til fjölda mála. Það gekk ágætlega að koma á samstarfi flokkanna eftir kosningar. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í kosningunum og við tóku fyrst meirihlutaviðræður minnihlutaaflanna kjörtímabilið 2002-2006 sem náðu saman sex bæjarfulltrúum. Þær viðræður runnu út í sandinn. Síðan hófust viðræður þessara tveggja flokka. Það lá fyrir strax að kosningum loknum að þetta væri sterkasti samstarfskosturinn í stöðunni og í raun vilji bæjarbúa að þau ynnu saman.

Deila má um hvernig samið var um málin eftir kosningar. Strax í þeim samningum sást merki þess að tveir bæjarstjórar yrðu á kjörtímabilinu, enda náðist ekkert samkomulag um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið. Ég taldi allt frá kosningum stöðuna með þeim hætti að bæjarstjórarnir yrðu þrír, enda ekki óeðlilegt í stöðunni sem uppi var að Kristján Þór Júlíusson sæktist eftir að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu myndi Halldór Blöndal, farsæll kjördæmaleiðtogi, draga sig í hlé eftir litríkan stjórnmálaferil. Það fór enda svo að Kristján Þór gaf kost á sér við ákvörðun Halldórs um að hætta og hann vann góðan sigur í prófkjöri meðal flokksmanna.

Stöðugleiki hefur einkennt níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs. Það hefur verið öflugt tímabil, sem ég sem sjálfstæðismaður er mjög stoltur af. Mér finnst blikur á lofti á þessu kjörtímabili og finnst staðan breytt. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta muni ganga en ég yrði ekki hissa þó að þessi meirihluti myndi springa fyrir lok kjörtímabilsins.

Sorglegt ár í umferðinni á Íslandi

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar Enn eitt banaslysið varð í umferðinni í gær. Árið 2006 hefur verið mjög erfitt í umferðinni. 29 hafa nú látið lífið í umferðarslysum, fjöldi alvarlegra slysa verið með ólíkindum mikill og fjöldi fólks í sárum vegna banaslysa í umferðinni. Ég verð að viðurkenna að það er alveg gríðarlega erfitt og nístir inn að beini að heyra fréttir af þessu tagi, hafandi upplifað sjálfur sorgina sem fylgir alvarlegu umferðarslysi og láti einhvers sem stendur manni nærri.

Það sem mér fannst sorglegast að lesa um varðandi þetta slys í gær er að fólk sýnir ekki biðlund er hlúð er að slösuðu fólki. Það er ömurlegt að lesa að fólk sem er á vettvangi slyss af þessu tagi sýnir ekki fólkinu þá virðingu að bíða meðan að hlúð er slösuðum. Þetta nísti mig inn að beini, satt best að segja og maður fer að hugsa um úr hverju fólk er eiginlega gert. Þetta er skelfilegt um að lesa og til skammar fyrir fólk að geta ekki beðið einhverja stund meðan að lögregla og sjúkrabíll geta athafnað sig á svæðinu. Það er enda svo í tilfelli af þessu tagi að þeir sem koma að svona slysi verða að geta unnið sín verk án þess að verða fyrir því að bílar reyni að fara fram úr, eins og sagt er. Sorglegt alveg.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Það blasir við að þetta ár er að verða eitt það sorglegasta í umferðinni hérlendis. Árið 2000 létust 33 í umferðarslysum hér á Íslandi, og er það hið versta síðustu áratugina. Það stefnir því í að þetta ár standi næst því hvað sorgleg slys viðvíkur. Það er nöpur staðreynd. Oft heyrum við sorglegar tölur um lát fólks í bílslysum og ýmsa tölfræði á bakvið það. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja.

Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.

mbl.is Einn maður lést í hörðum árekstri á Vesturlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan hittir naglann á höfuðið

ISG Ég var að horfa á Spaugstofuna frá í gærkvöldi, enda missti ég af henni þar sem ég fór þá í bíó. Þetta var frábær þáttur þar sem þeir félagar hittu naglann á höfuðið hvað varðar Samfylkinguna og Frjálslynda flokkinn. Sérstaklega var gaman að sjá atriðið þar sem Samfylkingarfólkið var saman í hópmeðferð til að reyna að ná einhverri samstöðu sín á milli. Skemmtilegur húmor og frábærlega kaldhæðnislegur. Hitti algjörlega í mark.

Ekki var síðra að sjá senuna um Frjálslynda flokkinn. Þar var sögusviðið yfirfært á Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson. Átti vel við í ljósi stöðunnar innan flokksins. Pálmi Gestsson og Edda Björg voru þar alveg frábær. Skemmtileg yfirfærsla yfir á stöðuna hjá Frjálslyndum og kómíkin alveg mögnuð. Þetta var einn besti þáttur vetrarins hjá þeim félögum fannst mér.

Tímamót í Chile - eðalmyndin Missing

Augusto Pinochet Mikil tímamót eru í Chile á þessum degi, í kjölfar andláts einræðisherrans Augusto Pinochet. Væntanlega er þungu fargi létt af landsmönnum. Það undrast enginn að gleði eru viðbrögðin þar nú við dauða þessa harðskeytta og grimmdarlega einræðisherra. Skv. fréttum dansa íbúar í Santiago nú á götum úti - gleði ríkir í hugum flestra íbúa landsins að losna við þá byrði sem Pinochet hefur verið síðustu áratugina.

Eins og fyrr sagði hér í kvöld kom aldrei til þess að Pinochet myndi svara til saka fyrir verk sín á valdastóli, grimmdarlega stjórn sína á landinu og aftökur á pólitískum andstæðingum. Það var oft reynt, en mistókst alltaf. Það var vissulega dapurt að ekki tókst að rétta yfir honum í kjölfar atburðanna 1998, en svo fór sem fór. Mér sýnist fólk um allan heim gráta það mest á þessum degi. Dauði Pinochets kemur auðvitað engum á óvart og léttir einkennir skrif fólks og pælingar á stöðunni. Nú ætti að vera hægt að horfa fram á veg án skugga valdaferils Pinochets.

Margt gott efni lýsir vel stöðunni sem var í Chile eftir valdaránið 1973 þegar að Salvador Allende var drepinn og herstjórn Pinochets tók völdin. Það var upphaf valdaferils sem enn setur mark á stjórnmálin í S-Ameríku. Fyrst nú geta vonandi íbúar Chile horft fram á veginn. Það féllu margir í valinn í þeim hildarleik. Um þetta hafa verið samdar bækur og gerðar kvikmyndir sem áhugavert er að kynna sér.

Jack Lemmon í Missing Svipmesta myndin um það sem tók við eftir valdaránið er að mínu mati hiklaust Missing, byggð á sögu Costa-Gavras frá árinu 1982. Í Missing leikur Jack Lemmon miðaldra, íhaldssaman föður sem fer til Chile í leit að syni sínum sem hefur horfið í kjölfar valdaránsins. Ed Horman efast í fyrstu ekki um bandarísk gildi en hann lærir fljótt að vantreysta samlöndum sínum og ráðamönnum í Santiago.

Eins og Terry Gunnel hefur bent á nýtir Costa-Gavras hæfileika Lemmons sem gamanleikara með því að setja hann í harmrænt hlutverk. Samúð okkar með Horman vex jafnt og þétt og verður að djúpri vorkunnsemi sem við fylgjumst með honum tapa sakleysi sínu og ganga á hönd örvæntingarinnar.

Svipmikil og vönduð mynd - ein af allra bestu kvikmyndatúlkunum Jack Lemmon, sem þarna sýndi ekta dramatískan leik af mikilli snilld. Ég ætla mér að horfa á hana nú á eftir og hvet sem flesta til að líta á hana sem það geta.

mbl.is Íbúar í Santiago dansa á götum úti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augusto Pinochet látinn

Augusto Pinochet Augusto Pinochet, fyrrum forseti Chile, er látinn í Santiago, 91 árs að aldri. Dauði Pinochet eru vissulega tímamót. Það er leitt að aldrei var réttað yfir honum vegna þeirra glæpa sem framdir voru í valdatíð hans, einkum þeirra er framdir voru í fangelsum ríkisins á fyrri hluta valdatímans. Það verður seint sagt að valdaferill Pinochet, sem ríkti frá blóðugu valdaráni hersins í september 1973 til þess að hann vék af valdastóli árið 1990, sé glæsilegur. Þar rann blóðið með skelfilegum hætti.

Á þeim tveim áratugum sem hann var leiðtogi herstjórnarinnar og hersins í Chile létu stjórnvöld drepa um 3.000 pólitíska andstæðinga sína, samkvæmt opinberum tölum frá Chile. Sérstaklega var hin svokallaða Kondór-áætlun illræmd en henni var framfylgt í Chile og í fleiri löndum í Suður-Ameríku. Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita/elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum.

Pinochet var margoft formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 manns sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet tókst alla tíð að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill og hrumur hin síðari ár. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999.

Frægt varð er Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann hinsvegar niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var allt ótrúlega kómískt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. Undir lok ævi hans þótti flest stefna í stundina sem flestir biðu eftir en tækifærið rann að lokum út í sandinn í Chile.

Umdeild pólitísk endurkoma Árna Johnsen

Árni Johnsen Skv. fréttum ber enn á úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum í kjölfar prófkjörssigurs Árna Johnsen og umdeildra ummæla hans í kjölfarið fyrir mánuði. Ég hef í skrifum hér ekki dregið úr því að þetta er hið mesta leiðindamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mínar skoðanir hafa þar vel komið fram. Ég tel heiðarlegt að fjalla um málið og segja sínar skoðanir á því. Það er minn stíll og fátt meira um það hægt að segja. Mér varð verulega misboðið eftir ummæli Árna og ég hef fundið það vel almennt á fólki að sú gremja nær ekki aðeins inn í raðir Sjálfstæðisflokksins, þó hún kraumi langmest þar.

Það hefur komið vel fram í fréttum að andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins við Árna hefur verið til staðar. Ályktanir LS og SUS segja sína sögu og skrif almennra flokksmanna. Tek ég undir það sem stjórnmálafræðiprófessor segir að þetta sé óþægindamál sem verði að komast botn í sem fyrst. Framhjá því verður ekki litið að Árni fékk umboð í prófkjöri, stuðning fólks til verka. Það virðist ekki bera á minna fylgi í Suðurkjördæmi, en í öllum öðrum kjördæmum. Það segir sína sögu að mínu mati. Ég tel einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga erfitt vegna þessa máls um allt land nema einmitt þar. Nöpur staða það.

Það leikur enginn vafi á því að Sjálfstæðisflokkurinn mun lenda í verulegum vandræðum í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi vegna Árna. Það er því miður bara þannig. Það verður erfitt fyrir flokksmenn um allt land að bera þetta mál inn í kosningabaráttuna. Mín skrif hér hafa fyrst og fremst verið til að staðfesta að ég muni ekki gera það. Það hefur of mikið gerst og staðan orðin of heit til að ég og eflaust einhverjir fleiri geti talað máli Árna í þeirri kosningabaráttu. Ég finn það á viðbrögðum þeirra sem hafa haft samband við mig að ég er ekki einn um þessa skoðun.

Ég tek undir það sem einn benti mér á að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi velur sinn framboðslista. Sá listi er ekki enn kominn fram. Kjördæmisþing er þar eftir. Það er enginn framboðslisti kominn í Suðurkjördæmi fyrr en kjördæmisþing hefur staðfest listann og alla þætti þess. Það er þó ekki endastöð. Miðstjórn verður að staðfesta alla framboðslista. Muni miðstjórn staðfesta listann með efstu sætum í þeirri röð sem liggur fyrir nú er miðstjórn að leggja blessun sína á framboð Árna. Hún verður þá að bera þann kross sem því fylgir að mínu mati, fari illa.

Mín skrif hafa fyrst og fremst verið til að sýna það með afgerandi hætti að ég get ekki stutt pólitíska endurkomu Árna, eins og staða mála er. Þó að ég sé sjálfstæðismaður get ég ekki kvittað undir allt sem í flokknum er og hefur gerst. Það er mjög einfalt mál. Þetta er of heit kartafla til að ég leggi í að bjóða fram krafta mína til varnar stöðunni. Það er bara þannig og heiðarlegt að það liggi bara fyrir.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu máli muni ljúka. Mér er ekki akkur svosem að neinu en að því ljúki svo sómi sé að fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Forysta flokksins verður að sætta ólík sjónarmið og reyna að stýra þessu vel og sómasamlega fyrir alla aðila. Það er alveg ljóst að tekist er á um þetta mál og verður væntanlega þar til að ljóst er hvernig listinn í Suðurkjördæmi verður endanlega.

Lengja þarf starfstíma Alþingis

Alþingi Alþingi er nú farið í jólaleyfi fram til 15. janúar, en þá hefst síðasti fundasprettur þingmanna á þessu kjörtímabili. Alþingiskosningar verða laugardaginn 12. maí nk. Fjöldi þingmanna situr nú sitt síðasta þing, m.a. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og fleiri þaulreyndir þingmenn sem lengi hafa verið áberandi í stjórnmálum. Búast má við að vel yfir 20 nýjir alþingismenn taki sæti þar að vori.

Starfstími Alþingis hefur lengi verið mjög umdeildur. Hann hefur í áratugi verið eins. Þingið kemur fyrst saman þann 1. október, eða næsta virka dag og fundað er til um 10. desember. Svo hefjast fundir aftur um eða eftir 20. janúar og fundað fram í maíbyrjun. Það verður auðvitað ekki nú, enda lýkur þingstörfum í mars, þar sem kosningabaráttan til Alþingis hefst bráðlega af vaxandi þunga og skiljanlega þarf hún sinn tíma.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að lengja verði starfstíma Alþingis og fundir í þingsalnum eigi að verða lengur en bara þessa nokkra mánuði ársins. Það hefur alltaf verið skoðun mín að þingið eigi að koma saman í lok ágúst eða fyrstu viku september, funda til svona um 20. desember, hefja störf á nýju ári í kringum 5. janúar, funda fram að páskum og svo út maímánuð hið minnsta. Starfstími þingsins okkar einkennist af liðnu ráðslagi og úreltum tímum. Það á að sitja lengur við störf í þingsalnum. Með því má koma í veg fyrir örvæntingafullt verklag þar sem mál renna eins og á færibandi í niðursuðuverksmiðju gegnum þingið.

Sum mál þurfa lengri tíma en önnur. Athyglisvert er að sjá lög um fjármál stjórnmálaflokkanna renna í gegn með skelfilegum hraða. Ég er algjörlega á móti svona vinnubrögðum og tel mikilvægt að krefjast betri vinnuferlis og mál fái lengri og betri tíma til vinnslu, í umræðum og yfirferð. Þetta með fjármál flokkanna er sérstaklega ömurlegt vinnuferli og þinginu að mínu mati til skammar. En það var rétt hjá okkur í SUS að koma með mótmæli og fara yfir frumvarpið. Það hvernig það rann í gegn með kóuðum hætti með óvönduðum hætti er ekki þinginu til sóma.

Þetta verður að bæta og lengja þarf starfstíma þingsins. Mér finnst þetta grunnkrafa frá þeim sem vilja að þingið fari betur yfir mál og leggi lengri tíma til verka.

mbl.is Þingfundum á Alþingi frestað til 15. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með alla neyslustýringu

KókEf það er eitthvað sem ég gjörsamlega þoli ekki er það forræðishyggja af öllu tagi. Tal um neyslustýringu landans fer alltaf jafn mikið í pirrurnar á mér. Enn einu sinni hefur nú Lýðheilsustöð minnt á sig og úrelt hlutverk sitt við að reyna að hafa vit fyrir fólki. Nú er hún að gagnrýna að í frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts á matvælum verði virðisaukaskattur á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum lækkaður úr 24,5% í 7% og einnig falli vörugjald á þeim niður. Athyglisvert innlegg.

Með öðrum orðum: Lýðheilsustöð kvartar yfir að þessar vörur muni lækka hlutfallslega mest allra matvara þegar lögin taka gildi. Mér finnst mat Samtaka verslunar og þjónustu miklu raunsærra. Þau lýsa yfir vonbrigðum með að enn verði lögð vörugjöld á ákveðnar fæðutegundir, þ.e. sykur og sætindi. Það er eðlilegt að menn láti svosem í sér heyra. En hvert er hlutverk Lýðheilsustöðvar? Er það hlutverk hennar að miðstýra því að allir hugsi um sig og heilsu sína? Er það hægt? Getur bákn af því toga stýrt hugsunum og gjörðum annarra?

Ég er sammála Pétri Blöndal um það sem hann sagði á þingi í dag að það á að henda út í hafsauga öllum neyslustýringum. Hvað á ríkið annars með að skipta sér af því hvað ég og aðrir borða. Okkur á að vera treyst fyrir því að vega og meta sjálf hvað við látum ofan í okkur. Það getur enginn miðstýrt því hvað ég og þú borðar til fulls. Hversvegna er það þá reynt, spyr maður kæruleysislega? Muna menn annars eftir því þegar að Samfylkingin kom inn á þing með tillögu þess efnis að banna auglýsingar á óhollum matvörum í fjölmiðlum á vissum tíma dags. Þetta var dómadagsvitleysa af áður óþekktum kalíber. Hversvegna á ríkið að rétta upp hendina til að hafa áhrif á þessi mál?

HamborgariFólk verður að standa sjálft vörð um heilsu sína, það er út í hött að ríkið geri það með lagarömmum. Hvað er annars að frétta af nefndinni sem Halldór Ásgrímsson, þáv. forsætisráðherra, skipaði í október 2005 til að vinna að neylustýringu. Muna menn annars ekki eftir henni? Um var að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina átti vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það var ekkert annað.

Hvernig átti nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei.

Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka. Burt með neyslustýringu eða aðra forræðishyggju af þessu tagi!


mbl.is Lýðheilsustöð gagnrýnir væntanlega verðlækkun á gosdrykkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SUS mótmælir frumvarpi um fjármál flokkanna

SUS

Framkvæmdastjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur nú tekið saman greinargerð, sem lögð hefur verið fyrir allsherjarnefnd Alþingis, vegna frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu um fjármál stjórnmálaflokka. Það er skýr afstaða SUS að frumvarpið sé meingallað og varað er við þeim grundvallarsjónarmiðum sem ráðið hafa för við gerð þess.

Að mati SUS er vítavert ef Alþingi hleypir þessu vanhugsaða máli í gegn í flýtimeðferð eins og nú stendur til. Málið varðar grunnþætti í framkvæmd lýðræðisins. Að mati ungra sjálfstæðismanna á lýðræðið skilið meiri virðingu en svo að reglum um það sé gjörbylt í offorsi og án málefnalegrar umræðu þar sem aðrir en atvinnustjórnmálamenn taka þátt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir stórauknum framlögum ríkisins til þeirra stjórnmálaflokka sem þegar eiga sæti á Alþingi, þ.e. núverandi valdhafa. Einnig sé reist hindrun við því að nýjar hugmyndir og nýtt fólk hljóti hljómgrunn með með því að takmarka framlög einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

Þetta er nauðsynlegt innlegg í umræðuna, sem verður að koma fram og þetta er góð leið til að koma henni á framfæri. Ég fjallaði nýlega um þetta frumvarp í pistli og bendi hérmeð á hann.


mbl.is SUS segir segir lagafrumvarp um fjármál stjórnmálaflokka meingallað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband