Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Breskur dómur yfir Hannesi Hólmsteini ógiltur

Hannes Hólmsteinn Breskur yfirréttur ógildi í dag dóm sem var felldur var sumarið 2005 í meiðyrðamáli Jóns Ólafssonar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor. Hannes hafði krafist ógildingar dómsins og jafnframt mótmælt því að dómurinn yrði fullnustaður hér á landi.

Þetta eru óneitanlega mikil tíðindi. Stutt er síðan að Hannes var sýknaður af öllum kröfum Auðar Sveinsdóttur Laxness, ekkju Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness, en hún og dætur hennar höfðu margoft talið að Halldór hefði brotið gegn höfundarrétti við ritun fyrsta bindis af þrem, sem kom út árið 2003, í röð ævisagna Hannesar um Laxness.

Ég er einmitt að dunda mér þessi kvöldin við að rifja upp annað bindi Hannesar um Laxness, bókina Kiljan, um mótunarár skáldsins. Mér fannst bækur Hannesar um Laxness virkilega vel ritaðar og vandaðar. Það er sérstaklega gaman af Kiljan, en það er besta bókin af þessum þrem að mínu mati.

mbl.is Yfirréttur ógilti dóm sem kveðinn hafði verið upp yfir Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil viðbrögð við skrifum um Árna Johnsen

Árni Johnsen Ég hef síðustu dagana fengið mikil viðbrögð við skrifum mínum um þingframboð Árna Johnsen. Hef ég farið talsvert yfir þau mál hér á vefnum og verið mjög andvígur því að Árni verði í framboði undir merkjum flokksins eftir ummæli hans um tæknileg mistök, þar sem hann vísaði til lögbrota sinna sem leiddu til endaloka þingferils hans árið 2001. Nær allir tölvupóstarnir sem ég hef fengið hafa verið til að lýsa yfir stuðningi við skrif mín um þetta. Met ég þessar kveðjur mikils.

Ég taldi ekki annað hægt en að skrifa hér hreint út, það hafa verið tæpitungulaus skrif. Það er ekki neitt annað hægt í þessari stöðu. Málið er ekki í höndum minna eða fleiri sem mér hafa skrifað, en við getum og eigum að láta skoðun okkar í ljósi. Skoðanakannanir hafa sýnt stöðuna mjög vel og við gerum hið rétta með öflugum og góðum skrifum um þessi mál. En það er gott að fá þessar kveðjur. Ég hreinlega vissi ekki á hverju ég ætti von við skrifunum, en varla þessum mikla fjölda tölvupósta. Mjög ánægjulegt og sannkallað gleðiefni að finna fyrir þessum straumum. Þakka fyrir alla þessa pósta.

Nú er valdið í höndum flokksmanna í Suðurkjördæmi. Kjördæmisþing mun þar taka afstöðu. Að því loknu fer framboðslistinn fyrir miðstjórn flokksins. Vona ég að viðeigandi breytingar verði á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á þessum stöðum muni Árni Johnsen ekki draga framboð sitt til baka. Það er ekki fýsilegt í mínum augum að standa í því á þessum kosningavetri að verja þingframboð Árna Johnsen og það mun ég ekki gera. Ég hef tekið afstöðu í þá átt og mun standa við það.

Frambjóðandi vill sjá úrslit úr prófkjöri

Sjálfstæðisflokkurinn Mikla athygli hefur vakið að hvergi hefur verið birt heildarniðurstaða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi í nóvember. Aðeins var birt atkvæðafjöldi frambjóðenda í það sæti sem þeir fengu beint kjör í. Tafla með heildaratkvæðum, eins og birt voru eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvestur- og Suðurkjördæmi í október og nóvember, hefur ekki enn sem komið er verið birt opinberlega.

Nú hefur Sigurjón Benediktsson, einn frambjóðanda í prófkjörinu, skrifað um þessa merkilegu staðreynd á bloggvef sinn. Hann telur eðlilegt að þessar heildartölur verði birtar opinberlega. Tek ég heilshugar undir þau skrif, enda skil ég ekki að formaður kjörnefndar opinberi ekki að fullu þessar tölur. Sjálfur veit ég að frambjóðendur fengu þessar tölur og einhverjir fleiri og við sem þekkjum til mála vitum stöðuna mjög vel. En þessi tafla hefur enn ekki verið birt opinberlega frá kjörnefnd og þar stendur eitthvað í veginum ef marka má Sigurjón.

Það hlýtur að vera að formaður kjörnefndar láti birta þessar tölur á Íslendingi, vef flokksins í bænum. Annað væri með öllu óeðlilegt að mínu mati, enda er hefð fyrir því að atkvæðatölur í öll sæti sem kosið er um séu birtar opinberlega, allavega á vef Sjálfstæðisflokksins.

Vont vinnulag í málefnum Ríkisútvarpsins

RÚV Enn einu sinni hefur frumvarpinu um Ríkisútvarpið verið frestað. Það fer að verða erfitt að koma tölu á það hversu oft málum RÚV er frestað til að greiða fyrir þinglokum. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta sé ekki til framdráttar fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, sem hefur rembst við það ár eftir ár að stokka upp RÚV, en ekki tekist.

Nú er talað um að geyma frumvarpið fram í janúar. Maður hefur heyrt þennan ansi oft áður og leggur varla peningana sína undir að það fari í gegn innan skamms. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, átti erfitt með að leyna gremju sinn í viðtali á Stöð 2 í hádeginu og skiljanlegt að hann sé að verða frekar pirraður yfir stöðunni. Þetta er enda að verða frekar tuskuleg staða fyrir stjórnarflokkana að mínu mati. Það verður fróðlegt að sjá þriðju umræðu eftir jólin. Má fullyrða að hún verði lífleg, enda eru mjög deildar meiningar um þessa formbreytingu Ríkisútvarpsins.

Ein tíðindi dagsins er blaðamannafundur formanns Samfylkingarinnar með þingflokksformanni og fulltrúa flokksins í menntamálanefnd í morgun. Erindið var þar að tilkynna að Samfylkingin væri andvíg því að almannaútvarp yrði hlutafélagavætt og vildi að það yrði gert að sjálfseignarstofnun. Það eru merkileg tíðindi, svo ekki sé meira sagt. Fetar Samfylkingin þar í fótspor Framsóknarflokksins með athyglisverðum hætti. Það var enda upphaflega hugmynd Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, að það yrði gert.

mbl.is Ráðherra segist sátt við niðurstöðuna um RÚV ohf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðagangur Ingibjargar Sólrúnar

ISGÞað voru mikil tímamót sem urðu hjá Samfylkingunni á fundi í Reykjanesbæ um síðustu helgi. Þar viðurkenndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir opinberlega og heiðarlega stærsta og augljósasta vanda flokksins: þjóðin treystir ekki flokknum fyrir völdum við landsstjórnina. Það er heiðarlegt og rétt mat hafandi farið yfir nýjustu skoðanakönnun Gallups. Þar mælist Samfylkingin með 16 þingsæti.

Eitthvað hefur þessi hreinskilni Ingibjargar Sólrúnar hitt lítið í mark hjá Össuri Skarphéðinssyni, formanni þingflokksins, og skal engan undra í sannleika sagt. Það er enda verið að reyna að brennimerkja stöðu flokksins öðrum en formanninum. Orðin eru vantraust formannsins á sitt lið, einkum þá sem þar hafa lengst verið. Það eru enda fá dæmi um það að flokksformaður hafi talað eins hreinskilið og napurt um samstarfsmenn sína. Það er því varla undur að þessi ummæli hafi níst inn að beini hjá þeim sem lengst þar hafa unnið.

Það er athyglisvert að sjá svona ræðu á galopnum fundi frammi fyrir fjölmiðlum. Vaninn er ef að þú vilt veita þeim sem næst þér standa eitthvað tiltal þá gerirðu það ekki í fjölskylduboði eða vinnustaðafögnuðinum. Vaninn er að það sé gert bakvið tjöldin og með lágstemmdum hætti. En þetta er öðruvísi þarna og vandræðagangurinn verður enn meiri. Ingibjörg Sólrún getur haldið tölu yfir þingflokknum á hverjum degi á fundum með þingmönnum en þarna var talað til þjóðarinnar. Skilaboðin voru skýr. Flokknum hefði mistekist verk sitt, en nú væri hún komin til sögunnar til að bjarga málunum. Meiri vandræðagangurinn.

Ætlar Ingibjörg að kenna þingflokknum um ef illa fer að vori? Ber hún enga ábyrgð á stöðunni nú, eftir eins og hálfs árs formennsku? Egill Helgason var hreinskilinn á Stöð 2 í kvöld. Hann sagði Ingibjörgu Sólrúnu vera orðinn laskaðan stjórnmálamann sem gæti litlu bjargað héðan af. Egill kemur á óvart í túlkun sinni og fær prik fyrir að segja það sem augljóst er. Þetta er auðvitað nokkuð rétt ályktun og mat hjá Agli.

Ingibjörg Sólrún sagði í Reykjanesbæ stöðuna eins og hún er með heiðarlegum hætti: þingflokkur Samfylkingarinnar nýtur ekki trausts landsmanna. Það er brennimerkt á enni flokksins. Kaldhæðnislegt mjög. Fyndnast af öllu var að á þriðjudaginn í þinginu var sami þingflokkur orðinn fínn og flottur að hennar mati. Þvílíkur vandræðagangur.


mbl.is Lífleg umræða um ræðu formanns Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öldungadeildin staðfestir skipan Robert Gates

Robert Gates Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti fyrir stundu skipan Robert Gates sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Stormasömum ráðherraferli Donalds Rumsfelds lýkur senn þegar að Gates mun formlega sverja embættiseið sinn. Robert Gates verður 22. varnarmálaráðherrann í sögu Bandaríkjanna, sá annar í forsetatíð George W. Bush. Það eru tímamót að Donald Rumsfeld yfirgefi nú ríkisstjórn Bandaríkjanna og eflaust gleðjast margir með það nú á þessu kvöldi.

95 þingmenn öldungadeildarinnar staðfestu skipan Gates en tveir þingmenn repúblikana; Rick Santorum og Jim Bunning greiddu atkvæði gegn honum. Gates var staðfestur af hermálanefnd öldungadeildarinnar í gær. Var ekki búist við formlegri staðfestingu þingdeildarinnar fyrr en á morgun en henni var flýtt.

Var þingmönnum beggja flokka eflaust það mjög mikið keppikefli að klára staðfestinguna af svo binda megi enda á ráðherraferil Rumsfelds, sem er einn umdeildasti ráðherrann í ríkisstjórn Bandaríkjanna á síðustu áratugum.

Kristján Þór þiggur biðlaunin

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, hefur ákveðið að þiggja biðlaun, sem hann á rétt á samkvæmt ráðningarsamningi. Í gærkvöldi upplýsti Kristján Þór á heimasíðu sinni að Samfylkingin hefði gert þá kröfu að hann hætti strax sem bæjarstjóri í kjölfar prófkjörssigurs hans hér í kjördæminu í síðasta mánuði. Er greinilegt að hann valdi að taka þessa ákvörðun, enda hefði allt annað þýtt endalok meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar.

Það telst varla óeðlilegt að Kristján Þór þiggi biðlaunin í þeirri stöðu sem uppi var er hann allt að því neyddist vegna krafna Samfylkingarinnar til að afsala sér embætti bæjarstjóra fyrir þingkosningar. Honum var allt að því gert að láta af störfum og tók þá ákvörðun og stendur uppi án þessa embættis sem honum var falið að loknum kosningum.

Samfylkingin tók þá ákvörðun að Kristján Þór gæti ekki verið lengur bæjarstjóri, það þjónaði þeim ekki að horfa upp á það í stöðunni. Það er þeirra val. Það er því varla undrunarefni að hann láti reyna á ákvæði um biðlaun í þeim samningi sem hann hafði sem bæjarstjóri og full samstaða um milli meirihlutaflokkanna.

mbl.is Kristján Þór þiggur biðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í ráðherraskipti í Pentagon

Robert GatesFlest bendir til þess að öldungadeild Bandaríkjaþings muni á morgun staðfesta Robert Gates sem nýjan varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og þá muni formlega ljúka langri ráðherratíð hins umdeilda Donalds Rumsfelds í Pentagon. Hermálanefnd Bandaríkjaþings samþykkti skipan Gates samhljóða í gær og nú fer málið fyrir þingdeildina sjálfa. Er full samstaða meðal beggja flokka um tilnefningu Bush forseta á Gates. Sérstaklega eru demókratar áfjáðir í að staðfesta Gates til að binda enda á ráðherraferil Rumsfelds.

Gates vann stuðning ólíkra afla við tilnefningu sína og hlaut aðdáun landsmanna með afdráttarlausri framkomu og hiklausum svörum í fimm tíma yfirheyrslu fyrir hermálanefndinni í gær. Þar sagði Gates að árás á Íran eða Sýrland kæmi ekki til greina, nema sem algjört neyðarúrræði. Þá sagðist hann ekki telja að Bandaríkin séu á sigurbraut í Írak og þar sé mikið verk óunnið eigi sigur að vinnast í bráð. Sagðist hann vera opinn fyrir nýjum hugmyndum varðandi málefni Íraks. Athygli vakti að hann tók undir staðhæfingar demókrata í nefndinni um að ástandið í Írak væri óásættanlegt og lagði áherslu á uppstokkun á stöðu mála.

Val Bush forseta á Robert Gates í stað Donalds Rumsfelds var til marks um uppstokkun mála og upphaf nýrra tíma, enda er Gates allt annarrar tegundar en Rumsfeld. Brotthvarf Rumsfelds veikir t.d. Dick Cheney í sessi innan ríkisstjórnarinnar, en Cheney, sem varnarmálaráðherra í forsetatíð Bush eldri 1989-1993, og Rumsfeld voru menn sömu áherslna og beittari en t.d. forsetinn sjálfur í raun. Gates hefur mikla reynslu að baki og annan bakgrunn en Rumsfeld. Hann vann innan CIA í þrjá áratugi undir stjórn sex forseta úr báðum flokkum (hann var forstjóri CIA í forsetatíð George H. W. Bush, föður núverandi forseta) og verður nú ráðherra í ríkisstjórn þess sjöunda.

Donald RumsfeldÞað eru svo sannarlega tímamót sem verða nú í valdakerfinu í Washington við brotthvarf Donalds Rumsfelds úr ríkisstjórn Bandaríkjanna. Hann hefur verið varnarmálaráðherra Bandaríkjanna alla forsetatíð George W. Bush og verið við völd í Pentagon því frá 20. janúar 2001. Rumsfeld er elsti maðurinn sem hefur ráðið ríkjum í Pentagon, en jafnframt sá yngsti en hann var varnarmálaráðherra í forsetatíð Gerald Ford 1975-1977. Hann er því með þaulsetnustu varnarmálaráðherrum í sögu Bandaríkjanna.

Herská stefna hans hefur verið gríðarlega umdeild og hann er án nokkurs vafa umdeildasti ráðherrann í forsetatíð Bush og í raun síðustu áratugina í stjórnmálasögu Bandaríkjanna. Hefur staða hans sífellt veikst síðustu tvö árin, í aðdraganda forsetakosninganna 2004 og eftir þær, vegna Abu-Ghraib málsins og stöðunnar í Írak. Honum var ekki sætt lengur eftir þingkosningarnar í nóvember og hefði í raun átt að fara frá eftir kosningarnar 2004.

Brotthvarf hans úr ráðherraembætti og húsbóndaskipti í Pentagon breyta hiklaust mjög svipmóti ríkisstjórnar Bush forseta og tryggir að líklegra sé að repúblikanar og demókratar getið unnið saman með heilsteyptum hætti þann tíma sem þeir verða að deila völdum hið minnsta, eða fram að forsetakosningunum eftir tæp tvö ár, þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn.


mbl.is Gates telur Bandaríkin ekki á sigurbraut í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór hætti vegna þrýstings frá Samfylkingu

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, upplýsir í kvöld á heimasíðu sinni að hann hafi ákveðið að láta af starfi bæjarstjóra í upphafi nýs árs vegna þrýstings frá Samfylkingu, samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar frá því í júní. Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá 9. júní 1998 og var þá gerður við hann ráðningarsamningur sem endurnýjaður var án teljandi breytinga eftir kosningarnar 2002 og 2006. Sú staða var þó breytt eftir kosningarnar í vor að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki embætti bæjarstjóra út kjörtímabilið.

Orðrétt segir Kristján Þór á vef sínum: "Það að ég hætti störfum sem bæjarstjóri fyrr en samningurinn um meirihlutasamstarfið kveður á um, er sameiginleg ákvörðun meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar. Samstarfsflokkur okkar sjálfstæðismanna gerði þá kröfu að ég léti af starfi bæjarstjóra Akureyrar í kjölfar þess að ég hefði sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Samfylkingunni fannst það ekki ásættanlegt að ég gegndi starfi bæjarstjóra á sama tíma og ég leiddi lista sjálfstæðismanna í kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningarnar á komandi vori.

Ég varð með öðrum orðum að afsala mér starfinu sem fyrst í kjölfar prófkjörsins svo meirihlutinn héldi í stað þess að gegna starfinu lengur. Þegar ég nú hyggst láta af störfum, eftir 9 ár í embætti bæjarstjóra er rétt að árétta að samningur minn um kaup og kjör, og þar með talin biðlaun, byggir á samningi sem var undirritaður árið 1998 en framlengdur tvívegis, 2002 og 2006. Slíkur samningur var fyrst undirritaður á Akureyri fyrir meira en 20 árum og ég er síst að fá meira í minn hlut en forverar mínir í embætti eða aðrir einstaklingar sem gegnt hafa hliðstæðu embætti í öðrum lykilsveitarfélögum landsins.

Ég mun láta af embætti sem bæjarstjóri á Akureyri þann 9. janúar n.k. Ég hef uppfyllt öll ákvæði ráðningarsamnings míns og veit að vinnuveitandi minn Akureyrarbær mun gera slíkt hið sama gagnvart mér, eins og hann hefur undantekningalaust gert gagnvart forverum mínum í starfi  svo og öllum öðrum starfsmönnum sínum sem rétt hafa átt til biðlauna."

Skv. þessu má skilja sem svo að Kristján Þór muni þiggja þau sex mánaða biðlaun sem samningur hans segir til um. Í ljósi þess að Samfylkingin gerði kröfu um að hann hætti sem bæjarstjóri og hann gerði það til að tryggja að meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar gæti setið áfram með eðlilegum hætti er ekki óeðlilegt að hann þiggi þessi biðlaun að mínu mati.

Umræðan um biðlaun Kristjáns Þórs

Kristján Þór Um fátt hefur meira verið talað síðustu dagana hér en biðlaun Kristjáns Þórs Júlíussonar, fráfarandi bæjarstjóra. Hann lætur af embætti þann 9. janúar nk. eftir að hafa gegnt embættinu í tæp níu ár. Á hann inni sex mánaða biðlaun. Sitt sýnist hverjum um það. Oddur Helgi Halldórsson, leiðtogi Lista fólksins, hefur haft hátt um þessi starfslok og kallað þau siðleysi og allt þar fram eftir götunum, þó ekki sé einu sinni vitað hvort Kristján Þór þiggi þau.

Um er að ræða starfslok eftir ráðningarsamningi sem báðir meirihlutaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, standa að og kom til sögunnar samhliða samkomulagi þessara flokka um samstarf á kjörtímabilinu í júnímánuði að loknum sveitarstjórnarkosningum. Hafa bæði Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, og Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, sagst samþykk samningnum, enda varla furða þar sem þau sömdu við Kristján Þór fyrir hönd meirihlutans og verða sjálf bæjarstjórar hér á kjörtímabilinu, af hálfu flokka sinna.

Mér finnst merkilegt að heyra minnihluta bæjarstjórnar reyna að tortryggja biðlaunasamning af þessu tagi. Akureyrarbær er ekkert einn um það að semja um biðlaun við sinn bæjarstjóra og við erum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Ég vil nú benda á að valdataka nýs vinstrimeirihluta í Árborg tryggir að þrír bæjarstjórar verða á launum í desember; bæjarstjóri síðasta vinstrimeirihluta, fráfarandi meirihluta og nýr bæjarstjóri vinstrimeirihlutans. Svo að þeir sem nöldra hér um stöðu mála við að bæjarstjóri í tæpan áratug hætti og eigi inni nokkurra mánaða biðlaun ættu að líta til Árborgar og eða annarra sveitarfélaga, enda er hugtakið biðlaun ekki fundið upp hér.

Mér finnst minnihlutafulltrúi á borð við Odd Helga vega með ómaklegum og ódrenglyndum hætti að Kristjáni Þór og persónu hans með orðavalinu sem hann valdi að koma fram með í viðtali við Björn Þorláksson um daginn á N4. Illvild Odds Helga í garð Kristjáns Þórs Júlíussonar er ekki ný af nálinni og þeir sem með bæjarmálum hér fylgjast kippa sér varla upp við það. Skemmst er að minnast að hann var eini bæjarfulltrúinn á Akureyri sem varð fúll með landsmálaframboð Kristjáns Þórs, enda athyglisvert enda hefur Kristján Þór aldrei sótt neitt pólitískt umboð til Lista fólksins né viljað starfa með þeim.

Svona tækifærismennska er ekki ný af nálinni frá Lista fólksins og fáir kippa sér upp við það, í raun, þó vissulega séu biðlaun almennt séð umdeild. En ég endurtek að biðlaun voru ekki fundin upp hér og varla finna menn upphaf þess að sitjandi bæjarstjóri njóti biðlaunaréttar hér á þessum stað, þó einstakur sé að flestu leyti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband