Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vandræðagangur í flokksblaði Framsóknar

FramsóknÞað er ekki hægt að segja annað en að vandræðagangur einkenni blað Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi þar sem frambjóðendur í kjördæmaforvali flokksins í janúar eru kynntir. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri Vikudags hér á Akureyri, sem sækist eftir þriðja sæti á lista flokksins keypti forsíðuauglýsingu blaðsins sem þekur nær alla forsíðuna. Er varla við öðru að búast en að öðrum frambjóðendum misbjóði þetta, enda varla sitja frambjóðendurnir 22 í forvalinu við sama borð. Eftir því sem ég hef heyrt er mikil reiði og gremja með þessa auglýsingu meðal framsóknarmanna.

Það hefði eflaust heyrst eitthvað mjög hátt hljóð úr horni hefði slíkt gerst í frambjóðendablaði okkar sjálfstæðismanna í bæjarprófkjörinu hér á Akureyri í febrúar og eða í frambjóðendablaðinu sem gefið var út fyrir kjördæmisprófkjör Sjálfstæðisflokksins nú í nóvember. Þess var enda sérstaklega gætt innan Sjálfstæðisflokksins og vel stýrt af Önnu Þóru Baldursdóttur, formanni kjörnefndar í báðum prófkjörunum, að allir frambjóðendur hefðu jafnmikið pláss og meira að segja var þess gætt að æviágrip eins frambjóðenda væri ekki lengri en annarra. Vissulega höfðu þó 20 frambjóðendur hér á Akureyri mun minna pláss til umráða en 9 frambjóðendur í kjördæmisprófkjörinu.

Hjörleifur Hallgríms græðir varla mikið á svona vinnubrögðum en enn undarlegra er að blaðstjórn hafi samþykkt þessa auglýsingu. Þetta er eins vandræðalegt og frekast getur verið. Annars er Hjörleifur þekktur af undarlegum vinnubrögðum og kostulegu verklagi. Þegar að hann var ritstjóri Vikudags var hann vanur að láta þá sem ekki vildu dansa eftir duttlungum hans og dyktum fá það óþvegið á síðum Vikudags, en sem betur fer hafa heiðarlegri og betri vinnubrögð verið tekin þar upp eftir að hann hætti að gefa út blaðið og nýjir eigendur tóku við því. Það er allavega allt annað að lesa blaðið eftir þessar breytingar.

Frægt varð þegar að Hjörleifur sendi föðurbróður mínum, Guðmundi Ómari Guðmundssyni, formanni Félags byggingarmanna í Eyjafirði og fyrrum bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins á Akureyri og formanns Framsóknarfélags Akureyrar, kaldar kveðjur í apríllok 2005. Í blaðinu þá átti að vera auglýsing frá fjórum stéttarfélögum vegna verkalýðsdagsins 1. maí. Neðst í auglýsingunni þar sem Félagi byggingamanna var boðið að auglýsa, en afþakkaði pent, stóð orðrétt: "Hér átti að vera kveðja frá félagi byggingamanna, Eyjafirði, en er ekki að sinni því Guðmundur Ómar formaður er í fýlu við ritstjóra Vikudags.".

Það var vissulega svo að félagið auglýsti ekki í blaðinu vel á annað ár í ljósi þess að því þótti umfjöllun blaðsins um visst mál á sínum tíma vera köld kveðja í sinn garð. Það var enda auðvitað þess en ekki annarra hvort það auglýsti í sínu nafni. Þessi vinnubrögð ritstjórans voru mjög barnaleg. Það var enda með hreinum ólíkindum að þau félög sem þó borguðu hlutdeild í verkalýðsauglýsinguna hafi verið boðið upp á svona aðför að Mugga og félaginu sem hann stýrir. Þetta voru ómerkileg og lúaleg vinnubrögð sem ritstjóri þessa blaðs viðhafði og til vitnis vinnubrögðum hans.

Áður hafði þetta blað bæði sent mér persónulega og því flokksfélagi innan Sjálfstæðisflokksins sem ég var formaður í nokkur ár hörð skot og fjallaði með kostulegum hætti almennt um mörg málefni í bæjarlífinu. Ég vona að framsóknarmönnum á Akureyri og víðar beri gæfa til að hafna Hjörleifi og kjósa Höskuld Þórhallsson í þriðja sætið á lista flokksins. Þar fer framtíðarmaður fyrir Framsókn hér á þessu svæði, það mun svo sannarlega Hjörleifur fyrrnefndur ekki verða.


Johnson í lífshættu - demókratar óttast hið versta

Tim Johnson Öldungadeildarþingmaðurinn Tim Johnson liggur milli heims og helju eftir heilaskurðaðgerð á sjúkrahúsi í Washington í morgun. Falli hann frá munu repúblikanar halda völdum í öldungadeild Bandaríkjaþings, enda myndi fráfall hans leiða til þess að repúblikaninn Mike Rhodes, ríkisstjóri í S-Dakóta, myndi velja eftirmann hans í deildinni, sem myndi sitja til næstu kosninga. Búast má við að yfirlýsing verði gefin út frá spítalanum á hverri stundu um eðli veikinda hans, en CNN segir að heilsu hans hafi hrakað mjög síðustu klukkustundirnar.

Demókratar óttast nú hið versta og til marks um það fór Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sem á að öllu eðlilegu að verða meirihlutaleiðtogi í þingdeildinni þann 3. janúar, á sjúkrahúsið síðdegis í gær og var þar langa stund með fjölskyldu þingmannsins. Við öllum blasir að það mun velta á heilsu Johnsons hvort demókratar geta tekið við völdum í öldungadeildinni. Nái hann ekki heilsu mun koma til þess að Dick Cheney, varaforseti, fái oddaatkvæðið í öldungadeildinni þar sem eftir er af forsetaferli George W. Bush, fram til janúarmánaðar 2009.

Það verður mjög fylgst með heilsu Tim Johnsons, enda velta valdahlutföll í valdameiri þingdeild Bandaríkjaþings á því hvort hann heldur heilsu eður ei. Tim Johnson hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1996 og var endurkjörinn í kosningunum 2002. Johnson verður sextugur síðar í þessum mánuði. Hann greindist með krabbamein árið 2004 en náði sér af því. Eiginkona hans hefur tvívegis verið greind með krabbamein.

Svikalogn í Frjálslynda flokknum

Frjálslyndir Forystumenn innan Frjálslynda flokksins hafa samið nokkurra vikna vopnahlé en varla er hægt að kalla það friðartal annað en svikalogn. Það stefnir í harðvítug valdaátök innan flokksins í næsta mánuði. Merkilegustu tíðindi svokallaðs sáttafundar innan miðstjórnar flokksins sem fram fór á Kaffi Reykjavík var að Margrét Sverrisdóttir, tekur sér launað leyfi sem framkvæmdastjóri en sinnir engu að síður undirbúningi flokksþingsins.

Allar líkur eru á því að Margrét gefi kost á sér til formennsku í Frjálslynda flokknum og sögusagnir ganga um að hún hafi jafnvel í hyggju að gefa kost á sér í fyrsta sætið á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi og sækist því eftir að steypa Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, sem leitt hefur flokkinn fyrir vestan allt frá stofnun, fyrst í Vestfjarðakjördæmi árið 1999 og svo í Norðvesturkjördæmi árið 2003. Öruggt er að Margrét gefi bæði kost á sér til formennsku og varaformennsku tapi hún fyrir Guðjóni.

Greinilegt er á öllu að Guðjón Arnar og Magnús Þór Hafsteinsson hafa myndað bandalag sín á milli um að styðja hvorn annan og reyna að verjast atlögu Margrétar Sverrisdóttur að þeim á flokksþinginu. Það stefnir í hörkuátök og þetta svikalogn er aðeins sett á til að settla málin yfir hátíðirnar og reyna að lægja helstu öldur innan flokksins sem stofnunar. Eftir stendur trúnaðarbrestur og hörð átök milli arma í Frjálslynda flokknum. Við öllum blasir að heift er undir niðri og tal Margrétar og Magnúsar Þórs síðustu vikuna sannfæra menn um það umfram allt annað. Sérstaklega vöktu ummæli Magnúsar Þórs athygli í gær, en hann sagðist þar ekki víkja fyrir Margréti.

Margrét er greinilega farin af stað á fullu. Við blasir að eitthvað er plottað bakvið tjöldin. Öllum er ljóst að flokksþing Frjálslyndra í næsta mánuði verður vettvangur lykilátaka um forystusveit flokksins og þar verður kosið um áherslur í starfinu, ekki bara persónur væntanlega. Mesta athygli stjórnmálaáhugamanna nú vekur hvaða tímapunkt Margrét Sverrisdóttir muni velja til að tilkynna formlega um framboð sitt til forystu í flokknum. Sennilega verður það frekar fyrr en seinna, eins og sagt er.

mbl.is Sátt um að Margrét fari í leyfi fram að landsþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ná demókratar ekki völdum í öldungadeildinni?

Tim JohnsonTim Johnson, öldungadeildarþingmaður demókrata í S-Dakóta, liggur lífshættulega veikur á sjúkrahúsi í Washington eftir að hafa veikst snögglega í gær og sögusagnir sem CNN hefur greint frá segja að hann muni gangast undir heilauppskurð eftir örfáa klukkutíma. Geti Johnson ekki tekið sæti á þingi mun Michael Rounds, ríkisstjóri í S-Dakóta, skipa nýjan þingmann fylkisins fram til þingkosninganna 2008. Rounds er repúblikani og myndi því skipa repúblikana í þingsætið.

Mikið er í húfi fyrir demókrata í þessari stöðu í ljósi lífshættulegra veikinda Johnsons. Fjarvera hans frá þingstörfum mun snúa öldungadeildinni aftur yfir til repúblikana, enda hafa repúblikanar 49 þingsæti eftir þingkosningarnar fyrir rúmum mánuði en demókratar og samherjar þeirra hafa 51 þingsæti. Formleg valdaskipti eiga að verða í öldungadeildinni þann 3. janúar nk. er kjörtímabili fráfarandi þings lýkur formlega.

Fari svo að repúblikani myndi taka sæti Johnsons í öldungadeildinni er Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, kominn þar með oddaatkvæðið og Bush-stjórnin heldur því velli í þingdeildinni. Bandarískir fjölmiðlar velta mikið fyrir sér heilsu Johnsons, sem eðlilegt er í ljósi þess að um er að tefla yfirráðin yfir öldungadeildinni. Athygli vekur hvað lítið var sagt um veikindi þingmannsins opinberlega í gærkvöldi en nú hefur verið staðfest að hann berst fyrir lífi sínu.


mbl.is Bandarískur öldungadeildarþingmaður fær heilablóðfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hillary Clinton að missa tökin á stöðunni?

Hillary Rodham Clinton Eftir sigurför þeldökka þingmannsins Barack Obama til New Hampshire er nú um fátt meira rætt vestanhafs en hvort hann fari í forsetaframboð fyrir demókrata í kosningunum 2008. Fram til þessa hefur það verið metið nær öruggt að Hillary Rodham Clinton yrði frambjóðandi flokksins árið 2008 og myndi eiga auðvelt með að næla í útnefninguna í forkosningum Demókrataflokksins. En það er ekki tekið út með sældinni að vera lengi í forystu svona kapphlaups og það getur snúist upp í öndverðu sína er á hólminn kemur að lokum.

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja væri á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.

Það verða mikil tíðindi ef Hillary færi fram eins og staðan er orðin nú og myndi tapa fyrir t.d. Barack Obama eða einhverjum öðrum, enn hefur t.d. Al Gore, varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð Clintons 1993-2001 og forsetaefni flokksins árið 2000, ekki enn gefið upp hvort hann fari fram og hann hefur ekki enn sagt nei við þeim spurningum. Það má telja það svo að Hillary fari ekki fram nema telja sig örugga um útnefninguna og lykilstuðning um allt land. Líkur á því eru að minnka umtalsvert. Fari Obama fram verður útséð um að hún geti unnið stórt. Obama er enda þingmaður Illinois og eins og flestir vita er Hillary fædd þar og uppalin og bjó þar til fjölda ára, en varð síðar ríkisstjórafrú í Arkansas og er nú þingmaður New York.

Eins og ég benti í bloggfærslu hér neðar á síðunni var sigurför Obama til New Hampshire svo áberandi að hún er borin saman við það þegar að John F. Kennedy, 35. forseti Bandaríkjanna, kom þangað fyrir hálfri öld og lagði grunninn að lykilsigri sínum þar sem markaði hann sem forsetaefni demókrata og það sem tók við í sögulegum forsetakosningum sama ár þar sem hann lagði Richard M. Nixon, sitjandi varaforseta, að velli. Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem Kennedy hafði og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma. Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega.

Hillary hlýtur að hugsa málin vel næstu vikurnar um hvort hún fari fram. Varla fara bæði Hillary og Obama fram eins og staðan er. Margir hafa nefnt að sterkt væri að þau yrðu leiðtogapar flokksins. Það hefur hinsvegar breyst, enda hefur staða Obama styrkst mjög síðustu vikurnar og hann virðist geta komist langt án allrar hjálpar. Við þetta hljóta Clinton-hjónin að vera hrædd, enda hefur Hillary verið markaðssett sem stjarna flokksins og með hinn fullkomna pólitíska maka sér við hlið. Þær sögusagnir ganga svo að Clinton forseti gæti orðið varaforsetaefni eiginkonu sinnar. Það er ekkert í lögum sem bannar það, en sögulegt yrði það næði Hillary útnefningunni.

Það eru spennandi forsetakosningar framundan í Bandaríkjunum. Þetta verða fyrstu forsetakosningarnar frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í kjöri og miklar breytingar blasa við Repúblikanaflokknum rétt eins og Demókrataflokknum. Repúblikanamegin stefnir flest í uppgjör Rudolph Giuliani og John McCain og ljóst er að hasar verður hjá demókrötum. Nú eru allra augu á Hillary og Obama, fleiri spá þó væntanlega í stöðu Hillary og fróðlegt að sjá hvernig hún spilar út næstu leiki í stöðunni í kjölfar sterkrar stöðu Barack Obama.

Stefán Jón fer til Namibíu

Stefán Jón Hafstein Það eru mikil tíðindi að Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi, ætli að hvíla sig á pólitíkinni og halda til verka í þróunarmálum í Namibíu. Hefur hann verið ráðinn til verksins í tvö ár og tekur því leyfi frá pólitískum verkefnum fyrir Samfylkinguna og Reykjavíkurborg þann tíma og tekur  Oddný Sturludóttir sæti Stefáns Jóns í borgarstjórn því næstu tvö árin.

Það var mikið áfall fyrir Stefán Jón að verða þriðji í prófkjöri Samfylkingarinnar í febrúar, á eftir Degi B. Eggertssyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, enda var hann leiðtogi Samfylkingarinnar innan R-listans kjörtímabilið 2002-2006 og formaður borgarráðs hluta síðasta kjörtímabils. Það var honum ennfremur áfall að verða ekki borgarstjóri eftir afsögn Þórólfs Árnasonar vegna olíumálsins fyrir tveim árum.

Mér finnst það flott hjá Stefáni Jóni að skipta um gír og verkefni. Það er hressandi fyrir alla að breyta til og stokka upp líf sitt og verkefnin sem þeir sinna. Ég vona að Stefáni Jóni gangi vel í nýjum verkefnum sínum í Namibíu. Það er þarft og gott verkefni sem hann fer út til að sinna og ég held að hann muni standa sig vel þar.

mbl.is Stefán Jón Hafstein ráðinn verkefnastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörkulesning í ákæru á hendur olíuforstjórunum

OlíufélöginÞað er mjög athyglisvert að lesa ákæru Boga Nilssonar, ríkissaksóknara, á hendur olíuforstjórunum þremur á tímum samráðsins margfræga. Það er hörkulesning og athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt. Forstjórarnir eru ákærðir sem persónurnar á forstjórastóli, en ekki olíufélögin sem slík, en mörg þeirra hafa skipt um eigendur á síðustu árum og eigendahópar allt öðruvísi samansettir nú en á þeim tíma sem ákært er fyrir í tilfelli forstjóranna.

Ákært er fyrir samráð við gerð tilboða sem varða meðal annars Innkaupasamband Reykjavíkurborgar, Ríkiskaup og Útgerðarfélag Akureyringa, lögregluna og Vestmannaeyjabæ. Ákæran tekur líka til skiptingar markaðar. Það varðar sölu á eldsneyti á Reykjavíkurflugvelli og til erlendra skipa. Í ákærunni eru tilgreind bréfskipti þar sem starfsmenn félaganna ráða ráðum sínum og úthluta félögunum einstökum svæðum.

Hvet alla lesendur til að lesa ákæruna á hendur forstjórunum þrem. Hörkulesning það.


mbl.is Olíufélögin dæmd til að greiða bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuforstjórar á tímum samráðsins ákærðir

Olíufélög Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, hefur gefið út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim eru stórtíðindi í málinu, en varla neitt sem kemur að óvörum í ljósi þeirra afbrota sem þeir eru sakaðir um að hafa staðið að á sínum ferli í forystu þessara fyrirtækja.

Gögn í málinu virðast mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. Fram hefur komið að forstjórar olíufélaganna hafi hist oft á fundum og hafi þar m.a. rætt um væntanleg útboð. Þar hafi jafnframt verið teknar ákvarðanir um hvernig framlegð af viðskiptum yrði skipt á milli félaganna, þannig að það félag, sem fengi viðskipti, greiddi hinum fyrirtækjunum samkvæmt ákveðnu skiptahlutfalli.

En þetta eru tímamót sem verða í dag og það mun svo sannarlega verða athyglisvert að fylgjast með framhaldi þess.

mbl.is Þrír einstaklingar ákærðir vegna samráðs olíufélaganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurlegar ráðleggingar til Árna Johnsen

Árni Johnsen Árna Johnsen eru sendar föðurlegar ráðleggingar í dag um að draga þingframboð sitt í Suðurkjördæmi til baka í Staksteinum Morgunblaðsins. Allir sem lesið hafa þennan vef hafa tekið eftir skrifum um mál Árna og ég hef farið yfir skoðanir mínar á pólitískri endurkomu Árna, sem ég tel verulega óheppilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ljósi sérstaklega ummæla hans fyrir mánuði þar sem engin iðrun á lögbrotum kom fram. Það leikur enginn vafi á því að þau ummæli og framganga Árna hafi skaðað Sjálfstæðisflokkinn og muni gera enn meir verði af framboði hans.

Enn er ég að fá tölvupóst frá fólki, flestu sem ég hef aldrei hitt eða rætt við augliti til auglitis, sem er að lýsa yfir stuðningi við skrifin hér og minna mig á að ég er ekki einn þeirra skoðana innan Sjálfstæðisflokksins sem ég hef bent á. Það er ánægjulegt, viðbrögðin voru miklu meiri en mig óraði fyrir og það er gleðiefni að heyra skoðanir annarra á skrifunum hér og fara yfir þessi mál. Það er fátt betra en að heyra skoðanir þeirra sem lesa skrifin á því sem þar kemur fram og svo auðvitað fara betur yfir grunn skrifanna. Þetta er mál sem skiptir marga greinilega talsverðu máli.

Ég efast ekki um að Árni eigi margt sér ágætt og ég hef svosem kynnst því að hann hefur margt gott gert fyrir Eyjamenn og ég skil vel að þeir styðji hann. Hinsvegar verðum við að horfa á málin í víðara samhengi en bara því hvað dugar einum manni. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn ekki hafa efni á þessu framboði satt best að segja við þessar aðstæður og stend því auðvitað við fyrri orð. Það er fróðlegt að lesa Staksteina og fara yfir þau ummæli sem þar koma fram. Þau eru sérstaklega athyglisverð í ljósi tengsla Árna Johnsen við Morgunblaðið. Mér órar varla fyrir öðru en að þar haldi Styrmir Gunnarsson sjálfur á penna. Í því ljósi verða þessir Staksteinar enn merkilegri. Ekki má reyndar gleyma veseninu sem Árni kom Mogganum í árið 2001.

Það styttist í að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi velji framboðslista sinn formlega. Vettvangur þess er kjördæmisþing flokksins. Það verður haldið eftir jólin, í janúarmánuði. Þar gætu stór tíðindi orðið. Sögusagnir eru um að fleiri tillögur um skipan listans komi fram á þinginu og jafnvel verði tillaga um að Kjartan Ólafsson, alþingismaður, sem varð þriðji í prófkjörinu verði borinn fram í annað sætið til höfuðs Árna. Fleiri sögur ganga um breytta uppstillingu á þinginu sem í bígerð sé. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á þessu kjördæmisþingi. Þar ræðst vilji hins almenna flokksmanns í kjördæminu um skipan listans.

Verði Árni annar eftir kjördæmisþingið verður listinn að fara fyrir miðstjórn og hún því að staðfesta Árna formlega sem frambjóðanda flokksins. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hlutirnir þróast næstu vikurnar í þessu máli. Skrif Moggans í dag eru allavega athyglisverð, svo ekki sé nú meira sagt.

Mun Barack Obama slá út Hillary Clinton?

Barack Obama Barack Obama kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kjörinn í öldungadeildina. Tveim árum síðar er um fátt meira talað en að hann fari í forsetaframboð. Í vikunni fór Obama til New Hampshire, þar sem fyrstu forkosningar vegna forsetakosninganna 2008 fara fram eftir rúmt ár, og fékk gríðarlega sterkar viðtökur. Margir segja að pólitísk stjarna sé komin til sögunnar.

Segja má að Barack Obama sé að fá mestu viðbrögð sem nokkur mögulegur forsetaframbjóðandi hefur fengið í New Hampshire á þessum tímapunkti fyrir forsetakjör síðan að John F. Kennedy fór af stað með framboð sitt fyrir hálfri öld. Það er ekki undarlegt að þessar sterku viðtökur og kraftur sem einkennir könnunarleiðanur Obama veki honum von í brjósti á sama tíma og uggur hlýtur að einkenna Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmann og fyrrum forsetafrú, og stuðningsmenn hennar.

Síðustu árin hefur Hillary verið afgerandi líklegust meðal demókrata til að verða forsetaefni árið 2008, í kosningunum þar sem eftirmaður George W. Bush verður kjörinn. Sú staða er að breytast og margir horfa sífellt meir og lengur í áttina til Obama. Mörgum demókrötum finnst hann ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði mikil þáttaskil í bandarískum stjórnmálum.

Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki tveggja ára setu í öldungadeildinni. Hann er því talinn reynsluminni og það er einmitt það sem margir nefna sem helstu veikleika hans. Margir segja það ekki skipta máli, hann hafi ferskleikann sem flokkinn vanti og hafi vantað frá gullaldardögum Bill Clinton fyrir einum og hálfum áratug er hann komst í Hvíta húsið á stjörnuljóma, snúnum frösum og gullnum spinntöktum. Það má efast verulega um að Clinton-hjónin deili þeim skoðunum, enda gæti svo farið að Obama myndi stela frá henni pólitísku tækifæri ferils hennar; aðgöngumiða flokksins að Hvíta húsinu.

Fyrir nokkrum misserum hefði fáum órað fyrir að Hillary fengi alvöru samkeppni um útnefningu Demókrataflokksins um forsetaembættið, en menn eru farnir að horfa meira til þess að alvöruhasar verði og þá á milli þeirra tveggja. Spenna virðist komin upp meðal demókrata og núningur virðist orðinn milli Obama og Hillary. Bíða flestir nú eftir formlegri ákvörðun hinnar þeldökku vonarstjörnu, sem enn liggur undir feldi að hugsa málin og ætlar að gefa málinu frest fram yfir jólin og gefa upp ákvörðun í janúar.

Það yrðu stórtíðindi færi hann fram og myndi tryggja líflega baráttu um það hver yrði frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum eftir tvö ár.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband