Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Magnús og Herdís í forystu í talningu

Magnús Stefánsson Þegar talin hafa verið 750 atkvæði í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi er Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, í fyrsta sæti og Herdís Á. Sæmundardóttir, varaþingmaður á Sauðárkróki, í öðru sætinu. Þriðji er Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður. Ótalin eru innan við 1000 atkvæði í kjörinu og getur enn dregið til tíðinda. Staðan hefur þó verið óbreytt frá fyrstu tölum kl. 22:00.

Talningin fer fram að Borðeyri í Hrútafirði. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Ef úrslitin verða með þessum hætti og staðan segir til um nú telst það væntanlega stórtíðindi og með því hefði Kristni H. Gunnarssyni verið úthýst úr öruggu þingsæti. Kristinn hefur verið áberandi innan flokksins um nokkuð skeið, allt frá því að hann gekk til liðs við flokkinn í Vestfjarðakjördæmi í aðdraganda alþingiskosninganna árið 1999.

Greinilegt er að Magnús og Herdís hafa myndað bandalag gegn Kristni H. Hvort það heldur til loka talningarinnar verður merkilegt að fylgjast með, en væntanlega munu úrslitin liggja fyrir kl. 2:00 í nótt.

mbl.is Magnús Stefánsson í fyrsta sæti Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi eftir að fyrstu tölur voru birtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talning í póstkosningu Framsóknar í Norðvestri

Framsókn Talning hefst innan skamms á atkvæðaseðlum í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Rúmlega 1.600 manns skiluðu inn kjörseðlum eða um 65% þeirra sem höfðu atkvæðisrétt. Talið er að Borðeyri við Hrútafjörð og munu úrslit póstkosningarinnar liggja fyrir öðru hvoru megin við miðnættið. Póstkosningin hófst 3. nóvember sl. og lauk síðdegis í dag er skilafresti á atkvæðaseðlum lauk. Mikið mun hafa verið um nýskráningar að ræða og ríkir spenna um úrslitin.

Kosið er í fimm efstu sæti listans. Baráttan um efsta sætið er á milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður á Sauðárkróki, er sú eina sem sækist eingöngu eftir öðru sætinu. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Magnús leiddi listann í síðustu alþingiskosningum og vann átakakosningu milli þeirra um leiðtogastólinn á kjördæmisþingi í nóvember 2002. Síðan hefur allt að því ríkt kalt stríð þeirra á milli.

Það þótti mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi, eins og lagt var upp með. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar á kjördæmisþingi í september. Með þessu er auðvitað ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003, en þó er skilyrt að kona þurfi að vera í þrem efstu sætum.

Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð, eins og fyrr segir. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn. Fyrst og fremst hefur vakið mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er ekki alveg upp á sitt besta. Þar eru átök bakvið tjöldin.

Spenna verður því á Borðeyri í kvöld þar sem talningin fer fram og úrslitanna er beðið með miklum áhuga innan Framsóknarflokksins. Þar ráðast pólitísk örlög þingmannanna tveggja og innri átök í þeim þráðum sem þeim tengjast innan flokkins. Mikla athygli vekur svo sannarlega að talið sé á svo fjarlægum stað og á þessum tíma sérstaklega. Það er engu líkara en verið sé að reyna að fela sem mest innri átökin sem fylgja kjörinu. En já, þetta verður sannkallað spennukvöld innan Framsóknarflokksins.

mbl.is Fyrstu tölur hjá framsókn í NV-kjördæmi birtar um kl. 22
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óveður í nóvember - frambjóðendur í háska

Sjálfstæðisflokkurinn Það hefur verið rosalegt veður hér á svæðinu að undanförnu. Hér á Akureyri hefur verið vonskuveður alla vikuna og ekki ferðaveður. Við erum svo sannarlega minnt á náttúruöflin. Það eru nú aðeins átta dagar í prófkjör Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Utankjörfundarkosning hófst hér á Akureyri á mánudaginn og hef ég verið að fylgjast með henni. Veðrið hefur auðvitað haft áhrif á prófkjörsbaráttuna og orðið til þess að framboðsfundum hefur verið aflýst.

Spáin fyrir næstu viku lofar ekki góðu. Það mun vonandi ekki fara svo að veðrið hafi áhrif á kjördaginn 25. nóvember. Ef svo verður mun tefjast að fá úrslit og þetta taka lengri tíma en ella. Við erum í mjög stóru kjördæmi, sem nær yfir Siglufjörð í norðri til Djúpavogs í austri. Veður hefur því úrslitaáhrif um það hvernig að prófkjörið gengur fyrir sig. Við verðum með 20 kjörstaði þann 25. nóvember, svo að allt stendur og fellur með veðrinu. Eins og fyrr segir hafa frambjóðendurnir verið einstaklega óheppnir með veðrið og fundir fallið niður. Þetta hefur því gengið brösuglega og verið einstaklega erfitt að lenda í svona aðstæðum.

Einnig hafa frambjóðendur lent í háska. Ólöf Nordal lenti í bílslysi við Reyðarfjörð í gær og var stórheppin að sleppa lítið sem ekkert slösuð í mjög vondu slysi. Ég vil senda Ólöfu mínar bestu kveðjur og vona að hún nái sér sem allra fyrst. Kristján Þór og fleiri frambjóðendur eru veðurtepptir á Egilsstöðum, eins og fram kemur í dagbókarfærslu á vef hans. Fundarhöldum þar var auðvitað aflýst og greinilegt að ekki mun ganga að funda á öllum stöðum eins og lagt var upp með í upphafi. Veðrið gerir alveg út af við þá hlið mála.

En vonandi fer veðrið að skána og þetta geti gengið vel fyrir sig. Ef marka má þó veðurspár stefnir ekki í að svo muni fara.

Segolene Royal forsetaefni franskra sósíalista

Segolene Royal Segolene Royal hefur verið kjörin forsetaefni franskra sósíalista. Hún er fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á því að verða forseti Frakklands. Skv. skoðanakönnunum nú er líklegast að helsti andstæðingur hennar í kosningunum verði innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy. Jacques Chirac, núverandi forseti Frakklands, hefur enn ekki tekið formlega ákvörðun um hvort að hann gefi kost á sér til endurkjörs, en hann hefur verið forseti frá árinu 1995. Forsetakosingar fara fram 22. apríl og 6. maí nk. í tveim umferðum, ef þess þarf.

Segolene Royal hlaut yfir 60% atkvæða í forvali franskra sósíalista. Það hefur blasað við nú um mjög langt skeið að hún væri langlíklegasti frambjóðandi sósíalista. Sigur hennar á Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra, og Dominique Strauss-Kahn, fyrrum fjármálaráðherra, var því heldur betur afgerandi. Þeir voru fulltrúar hins gamla valdatíma franskra sósíalista á valdatíma Francois Mitterrand sem forseta 1981-1995 og Lionel Jospin sem forsætisráðherra 1997-2002. Sá tími er greinilega liðinn og niðurlægjandi ósigur þessara lykilmanna boðar nýja tíma meðal franskra sósíalista.

Segolene Royal er 53 ára og er í sambúð Francois Hollande, leiðtoga franska Sósíalistaflokksins. Orðrómur var lengi uppi um forsetaframboð hans, en hann ákvað að styðja frekar Segolene heldur en að gera út af við möguleika hennar. Royal vann í tæpan áratug sem ráðgjafi Francois Mitterrand, forseta Frakklands, í Elysée-höll á sviði félagsmála. Árið 1988 var hún kjörin á franska þingið. Hún var til skamms tíma umhverfisráðherra Frakklands og ennfremur aðstoðarráðherra á sviði menntamála og málefna fjölskyldu og barna. Hún var kjörin forseti héraðsstjórnarinnar í Poitou-Charentes í vesturhluta Frakklands í vinstribylgjunni í apríl 2004.

Bretar áttu Margaret Thatcher, þjóðverjar eiga Angelu Merkel og bæði Chile og Finnland hafa kjörið kvenforseta á síðustu tólf mánuðum. Það stefnir í sögulegar forsetakosningar í Frakklandi með vorinu. Í fyrsta skipti á kona raunhæfa möguleika á að verða húsbóndi í Elysée-höll. Það má búast við spennandi og líflegum átökum um forsetaembættið í þessum kosningum. Það bíða nú flestir eftir formlegri ákvörðun Jacques Chirac, forseta, um hvort hann fari fram eður ei.

mbl.is Segolene Royal valin forsetaefni franska Sósíalistaflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur Valdimar Leó til liðs við Frjálslynda?

Valdimar Leó Friðriksson Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, liggur nú undir feldi og íhugar pólitíska framtíð sína. Laust fyrir hádegið í dag skrifaði ég hér á vefinn um þær sögusagnir að hann gengi til liðs við Frjálslynda flokkinn og segði skilið við Samfylkinguna. Nú hefur Steingrímur Sævarr Ólafsson skrifað um þessar hugleiðingar ennfremur á bloggvef sinn. Hann bætir um betur og bendir á að Valdimar Leó hafi verið viðstaddur stofnfund Frjálslyndra í Mosfellsbæ nýlega.

Valdimar Leó hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá haustinu 2005 er Guðmundur Árni Stefánsson varð sendiherra. Í þættinum Morgunhaninn á Útvarpi Sögu í gærmorgun sagðist Valdimar Leó íhuga sína pólitísku stöðu og velta fyrir sér næstu skrefum sínum eftir prófkjör flokksins í Kraganum fyrr í þessum mánuði. Sagði hann þó aðspurður að ekki kæmi til greina að hætta þátttöku í stjórnmálum. Greinilegt er að hann hugsar til Frjálslynda flokksins þessa dagana. Þeim vantar sárlega leiðtoga í Kragann í komandi kosningum og sjá sér væntanlega leik á borði að fá til sín Valdimar Leó, sem kemur úr Mosfellsbæ.

Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örn Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing í hans stað. Frá flokkaskiptunum hefur Gunnar Örn ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum í Kraganum inn í sinn stað.

En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði núverandi alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. En tilkynning um ákvörðun Valdimars Leós mun liggja fyrir á sunnudag eftir því sem hann sjálfur hefur sagt og kjaftasagan segir líka. Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmenn Frjálslynda flokksins verði aftur orðnir fjórir innan viku.

Sögulegt kjör Pelosi - pólitískt áfall í leiðtogakjöri

Nancy Pelosi Nancy Pelosi var í dag formlega kjörin sem forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings af þingflokki demókrata í deildinni, en flokkurinn vann þar kosningasigur í fyrsta skipti í tólf ár í síðustu viku. Pelosi verður fyrsta konan sem stýrir fulltrúadeildinni og mun taka við embættinu af repúblikanum Dennis Hastert, sem verið hefur forseti fulltrúadeildarinnar allt frá árinu 1999. Hastert hefur verið hefur einn þaulsetnasti forseti deildarinnar.

Kjör Pelosi markar því nokkur þáttaskil. Hún hefur setið í þingdeildinni fyrir Kaliforníu allt frá árinu 1987 og verið leiðtogi demókrata þar frá 2003, er Dick Gephardt steig til hliðar. Pelosi, sem kjörin var einróma þingforseti, varð þó síðar í dag fyrir nokkru pólitísku áfalli er valkostur hennar til að taka við af henni sem þingleiðtogi, John Murtha, sem hefur verið mikill og áberandi andstæðingur Íraksstríðsins, varð undir í leiðtogakjöri innan þinghópsins.

Þess í stað var Steny Hoyer, fulltrúadeildarþingmaður frá Maryland, kjörinn leiðtogi demókrata í þingdeildinni. Verður hann þar með næst valdamesti fulltrúi demókrata í fulltrúadeildinni. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1981 og verið þar framarlega, t.d. var hann næstvaldamestur á eftir Pelosi innan þingsins. Það kom mörgum á óvart er Pelosi studdi Murtha opinberlega sem þingleiðtogaefni og lagði honum afgerandi lið. Stuðningur hennar hafði mjög lítið að segja, enda tapaði Murtha með 86 atkvæðum gegn 149 atkvæðum Hoyer.

Munurinn er því mjög svo afgerandi og er pólitískt áfall fyrir hinn nýkjörna þingforseta. Það varpar óneitanlega skugga á sögulegt kjör hennar að hafa tilnefnt sjálf Murtha innan þinghópsins og geta ekki tryggt honum kjör, heldur bíða verulegan ósigur. Það voru reyndar margir hissa á að Hoyer skyldi ekki verða þingleiðtogi án kosninga, enda hefur hann verið varaskeifa Pelosi og talsmaður demókrata innan þingsins með áberandi hætti. Svo fór ekki, en sigur hans er alveg afgerandi og umboð hans öruggt.

Það veikir stöðu Nancy Pelosi að hafa lagt sig eftir því að John Murtha yrði þingleiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni en ná kjöri hans ekki í gegn. Hún tók vissa áhættu með afgerandi stuðningi við Murtha. Hún kom t.d. með Murtha til fundarins í þinghúsinu í Washington og fylkti liði með honum með afgerandi hætti. Þessi ósigur er því ekki aðeins áfall fyrir Murtha, heldur hinn nýja þingforseta.

Spennandi tvö ár eru annars framundan í bandaríska þinginu. Formleg valdaskipti verða á fyrstu dögum nýs árs. Munu stjórnmálaáhugamenn um allan heim fylgjast vel með valdasambúð demókrata og repúblikana, fram að næstu forsetakosningum.

mbl.is Fyrsta konan í embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdimar Leó á leið úr Samfylkingunni?

Valdimar Leó FriðrikssonValdimar Leó Friðriksson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, íhugar nú pólitíska framtíð sína í kjölfar prófkjörs flokksins í kjördæminu þar sem hann varð undir. Miklar líkur virðast benda til að hann yfirgefi flokkinn og fari í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn. Færi svo að Valdimar Leó segði sig úr Samfylkingunni myndi þingmannatala flokksins verða 19, en Valdimar Leó er fjórði þingmaður flokksins í Kraganum.

Hann tók sæti á Alþingi við afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar, sendiherra, af þingi í september 2005. Það yrðu nokkur tíðindi ef að Valdimar Leó yfirgæfi Samfylkinguna og færi í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn eftir allt sem á undan er gengið. Það yrði áfall fyrir Samfylkinguna að missa þingsæti í aðdraganda kosninganna og rýrna með þessum hætti.

Það yrði reyndar athyglisvert ef að Valdimar Leó yrði frjálslyndur eftir alla þá gagnrýni sem að forystumenn Frjálslyndra beindu til Gunnars Örlygssonar fyrir einu og hálfu ári er hann sagði skilið við Frjálslynda og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Valdimar undir feldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn SUS ályktar um Árna Johnsen

Árni Johnsen Við í stjórn SUS samþykktum síðdegis í dag eftirfarandi ályktun um málefni Árna Johnsen, fyrrum alþingismanns, sem varð í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um helgina:

"Að gefnu tilefni gerir stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna þá kröfu til Árna Johnsen sem hugsanlegs þingmanns Sjálfstæðisflokksins að hann sýni auðmýkt þegar hann ræðir um þau brot sem hann var sakfelldur fyrir í starfi sínu sem þingmaður. Háttsemi sú sem Árni var dæmdur fyrir var ekki „tæknileg mistök" heldur alvarleg og mjög ámælisverð afbrot.

Þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hafa nú veitt Árna Johnsen annað tækifæri til að sýna að hann geti staðið undir því trausti sem kjósendur sýna kjörnum fulltrúum. Fyrsta skrefið í að endurvinna traust flokksmanna og almennings í landinu er að iðrast fyrri mistaka af einlægni og koma fram af auðmýkt og virðingu.

Ef Árni Johnsen tekur sæti á Alþingi munu fjölmiðlar og aðrir fylgjast vandlega með störfum hans þar. Ætla má að embættisstörf hans verði í meira mæli undir smásjánni en gildir um aðra þingmenn. Standi Árni Johnsen undir þeim auknu kröfum sem til hans verða gerðar hefur hann nýtt tækifærið og lagt grunninn að því að endurheimta það traust sem hann glataði við áðurnefnd afbrot."

Málefni Akureyrarflugvallar rædd á Alþingi

Akureyrarflugvöllur Ég fagna því að málefni Akureyrarflugvallar hafi verið rædd á Alþingi í dag. Það var svo sannarlega þörf á því eftir nýjustu ákvarðanir um flug til Akureyrar, en Iceland Express hefur nú ákveðið að hætta vetrarflugi milli Kaupmannahafnar og Akureyrar vegna þess að völlurinn hefur ekki enn verið lengdur og aðstaðan stenst ekki þeirra grunnmarkmið varðandi þjónustu að vetri.

Það er mikilvægt að framkvæmdir tali í stað gagnslausra orða. Það hefur verið talað um lengingu Akureyrarflugvallar um þónokkuð skeið, en ekkert gerst í þeim efnum. Nú hafa Akureyrarbær og KEA boðið flýtifjármögnun til að hægt sé að lengja brautina á vellinum, eins og fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar. Það eru mikil vonbrigði að aðstæður séu með þeim hætti að Iceland Express treystir sér ekki lengur til að halda úti vetrarmillilandaflugi til bæjarins. Grunnforsenda þess að hafa millilandaflug er að lengja brautina.

Það er gleðiefni að þverpólitísk samstaða sé um stöðu mála. En orð megna sín mjög lítils ef þeim fylgja ekki sýnilegar efndir. Þeirra hefur verið beðið lengi frá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra. Það er vonandi að þessi ráðherra sé þess megnugur að standa við stóru orðin og koma þessu máli úr umræðugírnum og á vegferð framkvæmda. Það er það sem skiptir máli, ekki innihaldslaust blaður.

mbl.is Lenging flugbrautar á Akureyrarflugvelli rædd á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer Jacques Chirac fram í þriðja skiptið?

Jacques Chirac Jacques Chirac hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið í eldlínu pólitískra átaka í áratugi. Rúmur áratugur er nú liðinn frá því að Chirac hlaut kjör sem forseti Frakklands og hann var endurkjörinn fyrir nokkrum árum. Nú líður að lokum annars kjörtímabilsins. Flestir hafa talið ólíklegt að hann myndi fara fram í forsetakjöri að vori, enda er hann að verða 75 ára gamall og er tekinn að reskjast. Auk þess hafa óvinsældir hans aukist til muna og hallað undan fæti.

Nú hefur hið merkilega gerst að Bernadette, eiginkona forsetans, hefur lýst því yfir að ekki sé útilokað að forsetinn fari fram þriðja sinni. Það var gert með mjög áberandi hætti í Nouvel Observateur. Greinilegt er að verið að reyna að kanna stöðu forsetans með áþreifanlegum hætti. Chirac er gamall pólitískur refur og veit að með því að láta eiginkonu sína vera boðbera tíðindanna getur hann betur skannað landslagið og viðbrögð landsmanna. Það kemur þó á óvart að hann taki þessa afstöðu.

Það er samt ljóst að forsetinn á undir högg að sækja. Frekar litlar líkur verða að teljast á því að hann fari fram aftur í forsetakjöri eins og staða mála er þessar vikurnar. En með þessu er greinilegt að forsetinn hefur ekki enn tekið formlega ákvörðun um að hætta, eins og svo víða hefur verið talað um. Það er greinilegt að ákvörðunin er handan við hornið, enda fer að líða að hörku kosningabaráttunnar, en forsetakjörið fer fram í tveim umferðum í apríl og maí, ef forseti er ekki kjörinn í fyrri umferð, sem sjaldan hefur gerst.

Mikið er talað um forsetaframboð Segolene Royal og Nicolas Sarkozy. Heldur verður nú að teljast líklegt að það verði þau sem berjist um lyklavöldin í Elysée-höll, embættisbústað franska forsetaembættinsins, að vori. Chirac verður varla persóna í þeim kosningaslag. En þetta er merkilegt útspil sem við verðum vitni að með viðtalinu við Bernadette Chirac og mjög til vitnis um að forsetinn hefur ekki enn slegið formlega á framboð sitt.

Það verða þó að teljast hverfandi líkur að hann leggi í framboð til annarra fimm ára og enn ólíklegra að hann kæmi sem sigurvegari út úr þeim kosningaslag.

mbl.is Eiginkona Chiracs segir hann íhuga framboð þriðja kjörtímabilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband