Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.11.2006 | 17:21
Líður að lokum prófkjörsbaráttunnar

Mér finnst lítið bera á málefnum í þessari prófkjörsbaráttu. Enda er þetta fólk svipaðra áherslna sem takast á. Flokksmenn eru fyrst og fremst að velja forystumann, hvernig týpu þeir vilji sjá við stjórnvölinn í kjördæmastarfinu í þessum kosningum og næstu árin. Það bíður mikið verkefni nýs leiðtoga. Flokkurinn hlaut aðeins tvo þingmenn kjörna í síðustu þingkosningum og verkefni nýs leiðtoga verður að sækja að meira fylgi og efla stöðu flokksins á svæðinu. Kannanir hafa verið að gefa okkur sóknarfæri upp á mikla fylgisaukningu. Eftir sunnudaginn hefst verkefnið fyrir nýjan leiðtoga að sækja þetta fylgi - sækja fram í kosningunum.
Mér finnst eftirsjá af Halldóri Blöndal. Ég verð fúslega að viðurkenna það. Halldór hefur unnið vel fyrir flokkinn hér og fært okkur forystu sem hefur verið gagnleg og góð fyrir okkur öll. Hann hefur á þeim 23 árum sem hann hefur verið kjördæmaleiðtogi hér stýrt af krafti. Það verður ekki auðvelt fyrir nýjan leiðtoga að taka við keflinu. Við höfum notið þess að eiga traustan og öflugan forystumann. Halldór stóð sig vel um daginn er hann skammaði samgönguráðherrann vegna málefna Akureyrarflugvallar. En nú er komið að leiðarlokum. Við munum þó auðvitað njóta reynslu og þekkingar Halldórs í baráttu næstu mánaða. Hann er öflugur liðsmaður.
Það verður mikið um að vera um helgina. Við höfum kjörfund í Oddeyrarskóla á laugardaginn milli kl. 9:00 og 18:00 og á 20 öðrum stöðum í kjördæminu á sama tíma. Talning atkvæða hefst eftir hádegið á sunnudeginum, en það tekur sinn tíma í svo víðfeðmu kjördæmi að safna öllum atkvæðum saman. Fyrstu tölur ættu að liggja fyrir kl. 18:00 á sunnudag, sólarhring eftir að kjörstaðir loka á Akureyri. Það verður spennandi að sjá fyrstu tölur og stöðu mála. Heilt yfir finnst mér þessi prófkjörsslagur vera flokknum til sóma. Veðrið hefur sett sinn strik í reikninginn varðandi fundi frambjóðenda, en nú hefur batnað yfir í því og vonandi mun kosningin ganga vel.
Ég bendi hérmeð á heimasíður þeirra frambjóðenda sem hafa opnað vefgátt
Arnbjörg Sveinsdóttir
Kristinn Pétursson
Kristján Þór Júlíusson
Ólöf Nordal
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigurjón Benediktsson
Þorvaldur Ingvarsson
20.11.2006 | 12:04
Pólitísk fýla Kristins H. Gunnarssonar

Það er mjög stór spurning hvað Kristinn H. Gunnarsson sé að gera í Framsóknarflokknum ef hann er andvígur því stjórnarsamstarfi sem setið hefur við völd síðastliðin ellefu ár, lengur en Kristinn H. hefur sjálfur verið þingmaður Framsóknarflokksins. Andstaða hans við Sjálfstæðisflokkinn er svosem engin ný tíðindi, enda var hann þingmaður Alþýðubandalagsins sáluga 1991-1998 en flúði þaðan með Steingrími J, Hjörleifi, Svavari, Ögmundi og fleiri görpum en þeir fylgdu þó ekki með í kaupbæti yfir í Framsóknarflokkinn reyndar, enda flúðu sumir þeirra yfir í Samfylkinguna áður en þeir enduðu hraktir og kaldir á vinstrivanga í vinstri grænum hjá Steingrími J.
Ég man satt best að segja ekki betur en að Kristinn H. hafi verið þingflokksformaður Framsóknarflokksins 1999-2003, en Davíð Oddsson var forsætisráðherra Íslands allan þann tíma og þá var hann í nánu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, enda leiddi hann þingflokk Framsóknar inni í þinginu. Kristinn H. var reyndar pólitískt ólíkindatól þá rétt eins og núna, en eitthvað bar þá minna á andstöðunni við stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum. Það má reyndar segja um þetta samstarf að Framsóknarflokkurinn hefur fengið völd langt umfram stærðargetu og ég efast um það að Framsókn hefði þessi umfang valda eða meiri áhrif á stjórnarforystu landsins í vinstristjórn fleiri en tveggja stjórnmálaafla.
En Kristinn H. er vonsvikinn núna, það eru sárindi fyrir vestan núna hjá honum. Hver væri það annars ekki, hafandi misst öruggt þingsæti og verandi algjörlega í pólitískri óvissu. Varla fer hann á þing bara á stuðningi Vestfirðinga úr sérframboði. Erfið barátta er framundan fyrir Sleggjuna hvernig sem fer. Það er reyndar með ólíkindum að hann sé enn að barma sér eftir að grasrótin hafnaði honum og telur að fyrst hann gat ekki snúið norðvesturframsóknarmönnum til fylgilags við sig geti hann haft áhrif á þá á landsvísu. Dream on, segir maður eins og hver annar vitiborinn einstaklingur.
![]() |
Kristinn: Áfram valin hægri Framsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 07:40
Afleitt upphaf sænskra hægrimanna við völd

Skv. nýjustu skoðanakönnunum hafa borgaralegu flokkarnir ekki meirihluta á bakvið sig. Það er skiljanlegt svosem eftir allan vandræðaganginn. Kosningar eru nýlega afstaðnar og enn tæp fjögur ár til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þau ganga fyrir sig en ég spái því að ef ekki batni verulega yfir borgaralegu flokkunu og þau fari ekki að sýna alvöru verk og sterka forystu sem þörf er á muni illa fyrir þeim. Byrjunin er afleit en framhaldið veltur á næstu mánuðum og hvernig þá muni ganga.
Það er mjög ömurlegt að sjá hversu veikluleg byrjun borgaralegu flokkanna er við stjórnvölinn. Þessi hneykslismál hafa verið gjörsamlega óverjandi og sýna mikinn siðferðisbrest, sem er ólíðandi að sé til staðar í opinberu embætti að mínu mati. Það er óskiljanlegt hvernig ráðherrarnir sem hrökkluðust frá embættu komust í gegnum smásjá í ráðherrastólinn og þær virðast hafa verið auðveld bráð bloggara, en eins og vel hefur komið fram var það bloggari sem gekk frá ráðherradómi Borelius með einfaldri rannsóknablaðamennsku og þefaði upp vandræðagang hennar með næsta einföldum hætti, sem hefur vissulega vakið athygli.
Ekki virðast skandalarnir aðeins bundnir við hægrimennina. Nú hefur verið ljóstrað upp um að Göran Persson, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins og fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, smeygði sér fremst á tuttugu ára biðlista eftir leiguíbúð í miðborg Stokkhólms með einu símtali nýlega. Persson og eiginkona hans, Anitra Steen, muni fá leiguíbúðina afhenta í byrjun næsta árs, en þurfi ekki að bíða lengi. Dæmi eru um allt að tveggja áratuga bið eftir leiguíbúðum í miðborginni. Mjög merkilegt mál.
En ég dreg enga dul á að þetta hefur verið vond byrjun fyrir borgaralegu flokkana og stjórn þeirra, og mikið pólitískt áfall fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem má ekki við frekari vandræðagangi eigi ekki illa að fara fyrir honum og stjórn hans strax í upphafi.
![]() |
Sænska ríkisstjórnin orðin óvinsælli en stjórnarandstaðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 19:55
Valdimar Leó horfir til Frjálslyndra
Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, kvaddi Samfylkinguna formlega í Skaftahlíðinni í beinni útsendingu hjá Agli í Silfrinu laust eftir hádegið. Það var kómískt þegar að hann tók niður Samfylkingardoppuna sína í barminum og gaf Agli hana. Merkileg sögulok það. Það er greinilegt að Samfylkingarfólk vill sem minnst fjalla um þessi leiðarlok Valdimar Leós í flokknum og gerir lítið úr því. Þetta er skiljanlega ekki umræða sem Samfylkingin og fólk þar innbyrðis vill gera mikið úr.
Það er alltaf tíðindi þegar að sitjandi þingmaður segir skilið við flokkinn sinn og fer þingsæti frá flokknum. Nú hefur þingstyrkur Samfylkingarinnar minnkað og sitja 19 þingmenn nú fyrir flokkinn. Það eru tíðindi, það er nú bara þannig. Ég veit ekkert hvaða styrk þessi maður hefur. Er svosem alveg sama um það. Það er alltaf áfall fyrir flokka þegar að verður klofningur. Það var áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi í aðdraganda kosninganna 2003 er þingmaðurinn Kristján Pálsson sagði sig úr flokknum, varð óháður og fór í framboð á eigin vegum. Það framboð kostaði flokkinn þingsæti í kjördæminu og forystu þar. En Valdimar Leó er vissulega ekki kjörinn þingmaður í kosningum.
Heyrst hefur mjög hátt síðustu dagana að Valdimar Leó færi úr Samfylkingunni og gengi til liðs við Frjálslynda flokkinn. Ég skrifaði fyrst um það hér á vefnum laust fyrir hádegið á fimmtudaginn. Það yrðu svo sannarlega tíðindi ef að Frjálslyndir myndu munstra þennan mann og Jón Magnússon til framboðs á höfuðborgarsvæðinu. Gleymum því ekki að Frjálslyndir mældust með sjö menn í síðustu könnun Fréttablaðsins. Þeir gætu því náð jöfnunarsætum í þeirri stöðu. Vonandi kemur hún þó ekki upp. Gleymum annars ekki því að Frjálslyndir náðu þingsæti í Kraganum síðast út á jöfnunarsæti. Greinilegt er að Valdimar Leó hugsar til Frjálslynda flokksins þessa dagana.
Þeim vantar sárlega leiðtoga í Kragann í komandi kosningum og sjá sér væntanlega leik á borði að fá til sín Valdimar Leó, sem kemur úr Mosfellsbæ. Í þingkosningunum 2003 leiddi Gunnar Örlygsson Frjálslynda flokkinn í Suðvesturkjördæmi. Á miðju kjörtímabili gekk hann til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Þá vændu Frjálslyndir Gunnar Örn um svik og reyndu að beita sér fyrir því að Gunnar afsalaði sér þingmennsku sinni þar sem staða mála væri breytt frá kosningunum og hann ætti að hleypa varaþingmanninum Sigurlín Margréti Sigurðardóttur inn á þing. Frá flokkaskiptum hefur Gunnar ekki hleypt frjálslynda varaþingmanninum sínum inn á þing.
En leiðtogastóll Frjálslyndra í Kraganum er svo sannarlega laus. Það er spurning hvort að Frjálslyndir leiði óháðan alþingismann Samfylkingarinnar til þess sætis í kosningum að vori. Svo segir kjaftasagan. Það er greinilegt að þetta tal um að vera óháður er til málamynda en það líður að kosningum og augljóst eftir þessar tilfærslur að Valdimar stefnir að framboði og að verja þingsætið. Það gerir hann varla með sérframboði. Það sjá allir sem rýna í stöðuna.
Enda hví ætti annars maður í hans stöðu að mæta á bæjarmálafundi hjá Frjálslyndum í Mosó? Dæmið er augljóst fyrir alla með pólitískt nef.
![]() |
Þingmaður Samfylkingar segir sig úr flokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 18:55
Klofnar Frjálslyndi flokkurinn?
Mikil innri átök um stefnumótun Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum virðast vera undir yfirborðinu meðal forystumanna þar. Deilt er um áherslur vegna skoðana þingmanna flokksins í kjölfar skrifa Jóns Magnússonar í Blaðinu um þessi mál. Greinilegt er að ekki eru allir sáttir við þá stefnu sem kennd er nú við flokkinn og virðist fremst í andstöðunni við það fara Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri flokksins og dóttir Sverris Hermannssonar, stofnanda flokksins.
Margrét hefur ekki tjáð sig víða um þessi mál en hún var mjög ákveðin í tjáningu í Fréttablaðinu á föstudag hvað þessi mál varðar og einkum varðandi skoðanir sínar á Jóni Magnússyni og sagðist hún ekki vilja vera í flokki sem markaðist af skoðunum Jóns og jafnaði þeim við þjóðernishyggju. Jón hefur víða farið í stjórnmálum. Hann vildi einu sinni áður ganga til liðs við forystu flokksins við litla hrifningu Sverris, eins og fram kemur í ævisögu hans. Jón stofnaði Nýtt afl með fleirum. Fer fáum frægðarsögum af því sem þar gerðist, en flokkurinn mældist varla í kosningunum 2003.
Sverrir hefur fram til þessa vart sparað Jóni stóru orðin og hefur það ekki breyst. Varla hefur Sverrir glaðst yfir því að sjá nú Jón með merki Frjálslynda flokksins í barmi talandi eins og fulltrúi flokksins væri í spjallþáttum og á víðum opinberum vettvangi. Sverrir segir orðrétt um Jón í Fréttablaðinu: "Ég held nú að þetta verði afgreitt í sátt og samlyndi. Um hvað er deilt? Það er deilt um það að Margrét heldur sig nákvæmlega við málefnaskrá flokksins. Og að halda það að einhver utanveltubesefi eins og Jón Magnússon, sem er ekki einu sinni löglegur félagi í Frjálslynda flokknum, hafi eitthvað um það að segja, kemur ekki til nokkurra greina".
Margrét hefur löngum verið talin einn öflugasti forystumaður Frjálslynda flokksins og verið framkvæmdastjóri flokkins frá stofnun árið 1998, eftir að faðir hennar hrökklaðist úr bankastjórastól í Landsbankanum. Hún skipaði þriðja sæti flokksins í Reykjavík í kosningunum 1999, er faðir hennar náði kjöri, og leiddi lista flokksins í Reykjavík suður í þingkosningunum 2003. Litlu munaði að hún næði kjöri á þing, en svo fór ekki. Hún beið lægri hlut í baráttu við Birgi Ármannsson í kjördæminu er yfir lauk og varð að sætta sig við að ná ekki að komast á þing. Hún hefur verið varaborgarfulltrúi Frjálslyndra frá árinu 2002 og býst nú til að halda aftur í þingframboð.
Mikla athygli vakti að heyra í Margréti Sverrisdóttur í Silfri Egils í dag. Hún var ekki ánægð með umræðuna, en gat mjög lítið gert til að kveða niður orðróminn um ósætti og deilur milli arma í flokknum. Þær sögur ganga fjöllum hærra þessa dagana og hafa magnast frekar en annað. Yfirlýsingar Margrétar breyta engu um að greinilega er talað í tvær áttir og ólíkar grunnskoðanir í innflytjendamálum eru þar uppi. Það er greinileg ólga undir niðri í herbúðum þarna.
Það sanna yfirlýsingar feðginanna mjög vel, enda virðast þau tala með öðrum hætti en þingmenn Frjálslynda flokksins hvað málin varðar. Við hefur enda blasað hversu samhent varaformaðurinn og Jón tala um innflytjendamál. Nú reynir á stöðu mála væntanlega. Það verður fróðlegt að sjá hvaða afstöðu Frjálslyndir taka er yfir lýkur til innflytjendamála, en þar getur aðeins ein skoðun orðið ofan á sem opinber afstaða flokksins. Deilur virðast uppi um hvert skuli stefna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 14:06
Valdimar Leó yfirgefur Samfylkinguna

Valdimar Leó viðurkenndi í þættinum að hann hefði setið stofnfund bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Mosfellsbæ, en vildi ekki staðfesta að hann ætlaði í framboð fyrir flokkinn í væntanlegum þingkosningum að vori. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um það í vikunni að Valdimar Leó ætli í framboð fyrir Frjálslynda. En hann yfirgefur nú þingflokk Samfylkingarinnar og verður óháður alþingismaður. Við það minnkar þingflokkur Samfylkingarinnar og sitja þar 19 alþingismenn eftir úrsögn Valdimars Leós úr flokknum.
Það verður fróðlegt að sjá hvenær að Valdimar Leó gengur formlega í Frjálslynda flokkinn. Kjaftasagan segir að hann muni fara í þá átt, en hann verði nú óháður einhvern örlítinn tíma til aðlögunar fyrir sig og sína, eins og menn segja. En já, hverjum hefði órað fyrir því að þingsæti Guðmundar Árna Stefánssonar, kratahöfðingjans úr Hafnarfirðinum, yrði þingsæti óháðs stjórnmálamanns sem horfir til Frjálslynda flokksins. Já, hlutirnir eru oft ekki lengi að gerast í henni pólitíkinni.
![]() |
Þykknar upp og dregur úr frosti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2006 | 22:00
Pólitískt áfall Kristins H. Gunnarssonar

Hvernig sem það var annars er alveg ljóst að Kristinn tapaði leiðtogaslagnum og því fór sem fór. Það má því segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stendur hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum.
Hann stendur því eftir snupraður. Dómur grasrótar flokksins í Norðvesturkjördæmi er hinsvegar nokkuð afgerandi. Það er varla við því að búast að hann taki þriðja sætið við þessar aðstæður og væntanlega horfir hann til sérframboðs. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Varla vill þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir virka mjög einfaldir fyrir Kristinn H.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.
Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Hann hlýtur að gleðjast með tíðindi gærkvöldsins á Borðeyri þar sem að örlög Kristins H. innan Framsóknarflokksins réðust væntanlega. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú.
Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að öll vötn liggi fyrir Vestfirðinginn í aðrar áttir. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.
![]() |
Kristinn H. hefur ekki ákveðið hvort hann tekur þriðja sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2006 | 17:58
Listi Sjálfstæðisflokksins í Norðvestri samþykktur

Í kosningunum 2003 hlaut flokkurinn þrjá menn kjörna í Norðvesturkjördæmi og er stærstur flokka þar og því er Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Í komandi kosningum fækkar þingmönnum kjördæmisins um einn, úr tíu í níu og því skipa 18 einstaklingar framboðslista flokksins.
Listann skipa:
1. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Stykkishólmi
2. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, Bolungarvík
3. Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, Flateyri
4. Herdís Þórðardóttir, fiskverkandi, Akranesi
5. Guðný Helga Björnsdóttir, bóndi, Húnaþingi vestra
6. Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, Ísafirði
7. Magnea Guðmundsdóttir, húsfreyja, Skagafirði
8. Bergþór Ólason, aðstoðamaður samgönguráðherra, Akranesi
9. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nemi, Akranesi
10. Örvar Már Marteinsson, skipstjóri, Snæfellsbæ
11. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti, Tálknafirði
12. Hjörtur Árnason, hótelstjóri, Borgarbyggð
13. Sigríður Svavarsdóttir, framhaldsskólakennari, Skagafirði.
14. Sunna Gestsdóttir, frjálsíþróttakona, Blönduósi
15. Guðmundur Skúli Halldórsson, formaður Egils FUS, Borgarbyggð
16. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri, Suðureyri
17. Jóhanna Pálmadóttir, bóndi, Akri
18. Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Akranesi
![]() |
Sturla efstur á lista Sjálfstæðisflokks í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.11.2006 | 12:29
Klúðrið í Árna Johnsen

Það er alveg greinilegt að þetta klúður í Árna Johnsen er ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og innkoma hans aftur í stjórnmálin mun ekki efla flokkinn. Í vikunni ályktaði SUS með afgerandi hætti um málefni Árna Johnsen eftir þessi heimskulegu ummæli sem hann lét falla á þriðjudag. Það var nauðsynlegt að senda þá ályktun frá sér og hún hefði orðið harðari hefði ég einn samið hana. Mér fannst Árni gjörsamlega klúðra góðu tækifæri til að endurheimta virðingu flokksmanna og stuðning þeirra eftir þetta prófkjör.
Það er greinilega engin iðrun frá syndaranum í þessu máli og það er engin eftirsjá eða neitt sem þar stendur eftir. Það er ekki bara óheppilegt fyrir Árna Johnsen heldur líka Sjálfstæðisflokkinn, sem þarf að sætta sig við endurkomu Árna eftir að sunnlenskir sjálfstæðismenn kusu hann þar aftur inn. Nú er orðið ljóst að borið hefur á úrsögnum úr flokknum vegna kosningar Árna í annað sætið í Suðurkjördæmi. Þetta hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest í viðtali við Morgunblaðið.
Það var kannski varla við öðru að búast en að almennum flokksmönnum myndi blöskra framganga Árna Johnsen og sérstaklega hin dæmalausu ummæli hans á þriðjudag, sem mér fannst skelfileg í einu orði sagt. Allt tal um að fyrirgefa þessum manni fannst mér algjörlega út úr hött eftir þetta viðtal. Þar sem engin er iðrunin verður engin fyrirgefningin. Það er alveg deginum ljósara í mínum huga.
![]() |
Borið hefur á úrsögnum úr Sjálfstæðisflokknum vegna ummæla Árna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.11.2006 | 02:24
Magnús sigrar - Kristinn H. fellur í þriðja sætið
Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sigraði og Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, féll um sæti og lenti í þriðja sætinu. Herdís Sæmundardóttir, varaþingmaður, varð í öðru sæti og fellir því Kristinn H. niður í sitt gamla sæti. Magnús verður því áfram leiðtogi Framsóknarflokksins í kjördæminu, en hann varð leiðtogi flokksins þar í aðdraganda þingkosninganna 2003 eftir leiðtogarimmu við Kristinn H.
Magnús hlaut 883 atkvæði í fyrsta sætið en Kristinn H. hlaut 672. Herdís hlaut 979 atkvæði í 1. - 2. sætið en Kristinn H. fékk 779 atkvæði í 1. - 2. sætið. Kristinn varð þriðji með 879 atkvæði í 1. - 3. sætið. Fjórði varð Valdimar Sigurjónsson með 1.024 í 1. - 4. sæti. Fimmta varð Inga Ósk Jónsdóttir með 1.172 atkvæði í 1. - 5. sæti. Í næstu sætum urðu G. Valdimar Valdimarsson, Albertína Elíasdóttir og Heiðar Þór Gunnarsson. Þetta eru mjög merkileg úrslit og boða stórtíðindi, enda er Kristinn H. Gunnarsson fallinn úr öruggu sæti. Með þessu gleðjast væntanlega fulltrúar flokkseigendafélagsins sem hafa eldað grátt silfur við Kristinn H. síðustu árin.Magnús var kjörinn fyrst á þing árið 1995. Hann féll af þingi í kosningunum 1999 en tók þar sæti aftur við afsögn Ingibjargar Pálmadóttur árið 2001 og hefur átt þar sæti síðan. Kristinn H. hefur setið á þingi frá árinu 1991, eða í tæp sextán ár, fyrir Alþýðubandalagið 1991-1998 en frá þeim tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Hann ákvað við endalok gömlu vinstriflokkanna að hafa vistaskipti í stjórnmálum. Kristinn H. leiddi lista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum árið 1999.
Kristinn H. var þingflokksformaður Framsóknarflokksins árin 1999-2003 og formaður stjórnar Byggðastofnunar í nokkur ár. Allt frá því að Kristinn H. missti þingflokksformennsku sína að kosningunum loknum hefur hann verið sólóleikari innan flokksins og andmælti t.d. mjög kröftuglega afstöðu flokksins í fjölmiðlamálinu og jafnvel enn frekar í Íraksmálinu. Deilur innan þingflokksins árið 2004 urðu til þess að hann missti allar nefndasetur sínar, en hann var ári síðar tekinn aftur í sátt. Þrátt fyrir sættir á yfirborðinu kraumuðu deilurnar áfram undir niðri og flestum varð ljóst óvildin milli forystu flokksins og Kristins, einkum á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar.
Kristinn H. hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fór í Framsóknarflokknum, sem og í Alþýðubandalaginu. Fræg voru ummæli Svavars Gestssonar, fyrrum formanns Alþýðubandalagsins, er hann fregnaði um ákvörðun Kristins H. um vistaskiptin árið 1998. Hann sagði: "Jæja, þá er nú Ólafs Ragnars fullhefnt". Þóttu þetta skondin ummæli í ljósi þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sem var eftirmaður Svavars á formannsstóli, hafði upphaflega komið úr Framsóknarflokknum. Svavari og hans stuðningsmönnum stóð alla tíð stuggur af Ólafi Ragnari og sárnaði stórsigur hans í formannskjöri árið 1987, enda álitu hann boðflennu í sósíalistaflokki.
Það eru merkileg tíðindi að Kristinn H. hafi orðið undir í þessu prófkjöri; tapað leiðtogaslagnum með rúmlega 200 atkvæða mun og hafi nú fengið varaþingmanninn Herdísi, stjórnarformann Byggðastofnunar á Króknum, yfir sig í annað sætið, sitt gamla sæti, og sitji nú eftir í varaþingsæti fyir flokkinn á næsta kjörtímabili. Það verður mjög fróðlegt að heyra með morgni viðbrögð Kristins H. við því að hafa misst öruggt sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta eru nokkur pólitísk tíðindi, heldur betur.
![]() |
Magnús í 1. sæti þegar helmingur atkvæða var talinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)