Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.11.2006 | 17:39
Framboðsfundur á Akureyri í kvöld

Í kvöld munum við í stjórn Sleipnis, málfundafélags Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, standa fyrir framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Þar gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur og ræða málin. Mun fundaform verða með þeim hætti að frambjóðendur flytja framsögu og svo munu þeir frá sérvaldar spurningar frá okkur í stjórninni og að lokum gefst fundargestum færi á að spyrja þá.
Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, mun verða fundarstjóri á þessum fundi. Þar sem þetta er eini framboðsfundurinn vegna prófkjörsins sem haldinn verður hér á Akureyri hvet ég að sjálfsögðu alla Akureyringa til að mæta á fundinn í kvöld og heyra í frambjóðendunum níu.
23.11.2006 | 14:32
Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna

Meðal grunnniðurstaðna í skýrslunni er að fjárframlög til stjórnmálaflokka og einstaklinga í prófkjörum innan flokkanna mega að hámarki vera 300.000 krónur. Heildarkostnaður frambjóðanda í prófkjöri má ekki vera meira en 1 milljón að viðbættu álagi sem fer eftir fjölda þeirra sem skráður er á kjörskrá, mest auðvitað á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess munu flokkarnir fá 130 milljónir króna á fjárlögum í viðbót við tæpar 300 milljónir sem þeir höfðu áður, til að standa straum af útgjöldum á kosningaári.
Auk þessa sýnist mér að þingflokkar stjórnarandstöðunnar fái hærri framlög en stjórnarflokkarnir til að jafna vissan aðstöðumun fylkinganna. Nú hefur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið í samræmi við þetta verið dreift á Alþingi. Athyglisvert er að Kjartan Gunnarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að þótt þetta hafi ekki verið talið brýnt áður fyrr, þá hafi aðstæður gjörbreyst og þörfin fyrir þetta sé orðin ótvíræð. Bendir hann einkum á líkurnar á því að fjársterkir aðilar geti keypt sér áhrif inn í stjórnmálin séu ríkari nú. Vissulega er meiri hætta á því, en hafa peningaöfl ekki alltaf haft færi á því bakvið tjöldin hingað til? Er hættan meiri nú en áður? Varla.
Mér fannst Sigríður Ásthildur Andersen, vonandi verðandi alþingismaður með vorinu, orða þetta bæði skynsamlega og vel í Kastljósviðtali í gærkvöldi. Ég er sammála henni í þessu máli. Mér finnst þetta óttaleg ríkisvæðing stjórnmálaflokka og flokksstofnana sem þarna er í uppsiglingu. Vissulega er gott að hafa skýran regluramma utan um stöðu mála, en mér finnst ekki alveg nógu gott að dæla meiru inn til flokkanna af almannafé en nú er. Ég hef t.d. afskaplega lítinn áhuga á að fjármagna kostnað við rekstur Samfylkingarinnar og Framsóknarflokkins, svo dæmi séu tekin og sennilega eru fylgismenn þeirra sama sinnis varðandi Sjálfstæðisflokkinn.
En svona er þetta bara. Eflaust er þetta umdeilt víða, enda hef ég heyrt líflegar umræður um þetta í gær og í dag. Það verður fróðlegt að heyra umræður um þetta í þinginu og samfélaginu á næstunni.
![]() |
Takmörk sett á kostnað frambjóðenda í prófkjörum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2006 | 23:35
Hægriöflin lýsa yfir sigri í Hollandi

Ég sé á fréttavefum að mikið er talað um að jafnvel muni erkifjendur kosninganna, CDA og Verkamannaflokkurinn, fara í stjórnarmyndunarviðræður eftir þessar þingkosningar. Það yrði ekki ósvipað eins og var eftir þýsku þingkosningarnar í fyrra, þar sem að vinstristjórnin féll og hægriblokkin myndaði stjórn með jafnaðarmönnum undir forystu dr. Angelu Merkel. Í dag er einmitt ár frá því að stóra samsteypa aflanna tók við völdum.
Skoðanakannanir höfðu sýnt í Hollandi að jafnt væri með fylkingunum en líklegast þó að hægriblokkin héldi velli með naumindum. Svo fór ekki, en nú reynir á samningalipurð forsætisráðherrans.
![]() |
Balkenende lýsir yfir sigri í hollensku kosningunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2006 | 20:07
Prófkjör á laugardaginn - nýr leiðtogi kjörinn

Þetta eru því lífleg en um leið heiðarleg prófkjörsbarátta, eftir því sem ég heyri allavega. Það sem gerir baráttuna líflegri hér en ella eru einmitt prófkjörsskrifstofurnar, sem er nýbreytni í svona prófkjörsbaráttu hér um slóðir. Sjö frambjóðendur af níu hafa opnað heimasíður og í bréfalúgur okkar hafa safnast saman dreifirit frambjóðenda og kynningarefni. Þetta er því ekta prófkjörsslagur að hætti þess sem gerist og gengur í Reykjavík. Það er svosem ekkert nema gott um það. En fyrir leiðtogaefnin er þetta greinilega mjög dýr barátta og mikið lagt í verkefnið. Það er engin furða, enda gæti leiðtogastóllinn verið ráðherrastóll að vori.
Mikið er spáð og spekúlerað í prófkjörsúrslitin. Mér finnst vera nokkur óvissa yfir. Flokksmenn hér halda hver með sínum kandidat, en flestir telja þó fjarri því öruggt hvernig fari. Það eru tveir frambjóðendur frá Akureyri sem gefa kost á sér til forystu og einn Austfirðingur. Að því gefnu ætti þetta hvergi nærri öruggt að vera, enda skiptast atkvæði á Akureyri á þessa tvo en fátt er vitað svosem að austan, þó flestir gefi sér að Arnbjörg njóti þar mikils stuðnings til forystu. Örlögin ráðast hér á Akureyri. Það hafa allir leiðtogaframbjóðendurnir sýnt með afgerandi hætti með þeim þunga sem lagt er í kosningabaráttuna þar. Þar eru enda flest atkvæðin í pottinum.
Það stefnir í spennandi helgi. Á laugardaginn er kjörfundur í Oddeyrarskóla hér á Akureyri frá 09:00-18:00 og á 21 kjörstað öðrum vítt og breitt um kjördæmið. Fyrstu tölur verða lesnar upp á talningarstað í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri af Önnu Þóru Baldursdóttir, formanni kjörnefndar, kl. 18:00 á sunnudagskvöldið. Þá er sólarhringur liðinn frá lokun kjörstaðar, en tíma tekur að safna öllum kjörgögnum saman og hefst talning kl. 14:00 á sunnudaginn. Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna.
Á morgun gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur á framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Við í stjórn málfundafélagsins Sleipnis stöndum fyrir þessum fundi og verður Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, fundarstjóri. Hvet alla Akureyringa til að mæta á fundinn annaðkvöld og heyra í frambjóðendunum níu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 12:24
Sturla boðar stórátak í vegamálum

Það er ánægjulegt að heyra að ráðherra hefur metnað fyrir því að leggja fjögurra akreina veg hingað norður í land. Allir sem fara leiðina Akureyri - Reykjavík sjá vel að leiðin er löngu sprungin og kominn tími til að hugsa stórt í þessum efnum. Okkur hér fyrir norðan hefur fundist leitt að ráðherrann hafi ekki hugsað nógu stórt varðandi styttingu leiðarinnar. En það er eins og það er bara.
Þetta er gott skref og við hljótum að fagna því hér fyrir norðan að heyra af þessum hugmyndum ráðherrans, sem eru stórátak svo sannarlega og boða mikil tíðindi.
![]() |
Samgönguráðherra segir þörf á stórátaki í vegamálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.11.2006 | 09:56
Sala Landsvirkjunar samþykkt í borgarstjórn

Það er greinilegt að þær viðræður voru bara til málamynda, enda er greinilegt að aldrei hefði náðst saman milli borgar og ríkis um söluna í valdatíð R-listans. Það sést sífellt betur af hverju Þórólfi Árnasyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur gekk ekki að ná samkomulagi af hálfu borgarinnar, enda greinilegt að sú von var alltaf byggð á sandi að VG samþykkti málið innan R-listans. Það var æðsta markmið Þórólfs Árnasonar að ná málinu í gegn áður en hann varð að hætta störfum sem borgarstjóri í nóvemberlok 2004 og honum tókst það ekki, eins og allir vita. Málið komst oft í sjálfheldu innan borgarstjórnar vegna oddaatkvæða vinstri grænna og það komst aldrei neitt áfram.
Fyrir tæpum tveim árum undirritaði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáv. borgarstjóri, undir viljayfirlýsingu um söluna af hálfu Reykjavikurborgar ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, og ráðherrunum Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir. Mikla athygli hefur vakið nú hversu lítið sýnileg Steinunn Valdís er í umræðunni um málið. Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur tæklað málið af þeirra hálfu og verið nær algjörlega í fjölmiðlum vegna þess. Það er greinilegt að undirskrift þáverandi borgarstjóra í febrúar 2005 var marklaus enda var ekki stuðningur við hana innan borgarstjórnar. Það skilst æ betur af hverju aldrei tókst að keyra málið í gegnum R-listann.
Vinstri grænir eru alltaf við sama heygarðshornið. Það er nú greinilegt að það hefur verið bjartsýni sögunnar fyrir Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn að halda að fulltrúar þess flokks myndu standa að sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun á valdatíma R-listans, þar sem þeir höfðu oddaatkvæðið. Þeir eru greinilega mjög hræddir við að mögulega verði Landsvirkjun einkavædd. Sömu gömlu dómsdagsspárnar þar á ferð og ávallt áður. Það er ekkert nýtt við þær.
![]() |
Sala á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykkt í borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 22:37
Fer Kristinn H. í framboð fyrir VG?

Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar. Það er mikið spjallað um það á spjallvefunum að Kristinn H. fari jafnvel í framboð fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí þar eins og ástatt er fyrir honum núna.
Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af. Það rann hægt og rólega undan því uns allt komst á kaldan klakann, eins og sagt er.
Tímarnir eru breyttir og mennirnir með, eins og máltækið segir. Nú árar ágætlega hjá Steingrími J. VG hefur verið á uppleið í skoðanakönnunum á kostnað Framsóknar og Samfylkingar sem hafa verið að tapa þónokkru fylgi í skoðanakönnunum frá þingkosningunum 2003 þegar að þessir tveir flokkar voru með þingmeirihluta saman, en kusu ekki að vinna saman. Þeir dagar eru liðnir og þeir eru orðnir fáir spekingarnir sem leggja peningana sína undir það að Framsókn og Samfylking nái þingmeirihluta að vori.
Það telst ekki beinlínis líklegt nú um stundir, með báða flokka undir kjörfylginu í Gallup-könnunum og VG á uppleið. Enda sést vel að Steingrímur J. er orðinn borubrattur með sig. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum eftir prófkjör Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sumir fagna, aðrir harma skell Sleggjunnar. Það var þungt högg sem Sleggjan fékk þar eftir fimmtán ára þingmannsferil. Leiðtogatapið var honum þungt sleggjuhögg en það að verða undir Herdísi á Króknum sínu verra.
Mér finnst vinstri grænir vera einkum þeir sem harma hlut Sleggjunnar vestra nú um stundir. Það er spurning hvort Sleggjan horfir í heimahagana til Steingríms J. og sér þar blóm í haga sinnar gömlu pólitísku trúar. Kristinn H. var eins og fyrr sagði eitt sinn þingflokksformaður Framsóknarflokksins í þessu stjórnarsamstarfi um tíma. Nú blótar hann mjög því samstarfi, sem áður færði honum völd og áhrifin. Það er oft margt skrýtið í henni veröld.
Það verður mjög athyglisvert ef þessi fyrrum þingflokksformaður Framsóknar í þessu stjórnarsamstarfi endar svo núna í þessum þingkosningum sem þingframbjóðandi VG eftir dóm grasrótarinnar í gömlu högunum heima.
21.11.2006 | 13:57
Anna Kristín þiggur þriðja sætið í Norðvestri

Anna Kristín féll með þessu í óöruggt sæti, sæti sem ekki er möguleiki á að vinnist miðað við skoðanakannanir í kjördæminu og sé miðað við þá staðreynd að þingmönnum kjördæmisins mun fækka um einn í væntanlegum alþingiskosningum. Staða mála var því skiljanlega ekki gleðiefni fyrir Önnu Kristínu, en hún tekur þann pólinn í hæðina að taka sætið og berjast fyrir því þó ekki sé það öruggt að neinu leyti.
Anna Kristín hefur ekki verið sýnileg sem þingmaður mikið í fjölmiðlum, en verið dugleg eftir því sem ég hef heyrt víða. Það er því skiljanlegt að hún hafi verið sár með þessa stöðu og að verða allt að því varaskeifa Guðbjarts Hannessonar, nýkjörins kjördæmaleiðtoga, og sr. Karls V. Matthíassonar, sem átti magnaða endurkomu með því að verða annar.
Anna Kristín hefur sagt að það hafi skaðað hana að vera úr Skagafirði og með litlar tengingar um allt kjördæmið. Þau ummæli vekja athygli í ljósi árangurs Herdísar Sæmundardóttur, varaþingmanns úr Skagafirðinum, sem skaust upp fyrir Kristinn H. Gunnarsson í prófkjöri Framsóknarflokksins og slengdi Sleggjunni sjálfri niður í þriðja sætið.
![]() |
Anna Kristín þiggur þriðja sætið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 22:51
Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsókn

Það má segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stóð hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum. Pólitískt áfall er réttnefni fyrir útkomu Kristins H.
Flest stefnir væntanlega í sérframboð hans. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Þessi ákvörðun um að fara ekki fram fyrir Framsókn eru engin tíðindi eins og staðan var. Það á ekki við pólitískan baráttumann eins og Kristinn H. að daga uppi í þriðja sætinu. Varla vildi þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir gátu varla verið einfaldari.
Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.
Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Halldór hlýtur að gleðjast með þessi tíðindi, nú rétt áður en hann heldur til kommisarvistar í Köben. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú. Hægriarmur flokksins er enda laus við Kristinn H.
Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi. Kristinn H. var reiður og fúll í pistli á vef sínum í dag. Hann er sár og beiskur eftir þessa útkomu. Það væru mikil tíðindi ef þetta yrði hans svanasöngur og síðasta pólitíska snerra. Sýnist allir búast við sérframboði þessa baráttumanns sem varla fer sneyptur af sviðinu. Hann mun væntanlega láta fyrrum samherja finna fyrir sér.
Menn eru auk þessa auðvitað mikið að spá í Valdimar Leó, óháða krataþingmanninn í Kraganum, sem tók hatt sinn og staf í Samfylkingunni í gær live on TV og gekk á dyr. Óánægja flokksmanna þar er greinileg og lítil eftirsjá þó sárindin með missi þingsætis sé greinileg. En hvenær ætli Valdimar Leó stígi skrefið til fulls og banki á dyr Guðjóns Arnars?
![]() |
Harma ákvörðun Valdimars um úrsögn úr Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2006 | 22:31
Litið á prófkjörsskrifstofurnar á Akureyri

Mismikið líf var á þessum kosningaskrifstofum greinilega þegar að Björn leit þar við. Lokað var á kosningaskrifstofu Þorvaldar, Kristján Þór var staddur á sinni skrifstofu og nokkrir stuðningsmenn, hjá Ólöfu voru tveir starfsmenn við verkin og hjá Arnbjörgu var nokkur hópur, aðallega að hringja greinilega. Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög lítið farið á þessari skrifstofur, hef hreinlega ekki fundist það við hæfi þar sem ég hef verið í utankjörfundarkosningunni upp í Kaupangi og fylgist því með þessu úr smáfjarlægð, enda hvorki auðvitað í framboði né virkur í störfum fyrir frambjóðanda að þessu sinni.
En við sem höfum gaman af stjórnmálum höfum vissulega áhuga á stúdera í þessu og því var umfjöllun Björns áhugaverð. Það er fínt hjá N4 að kanna kosningaskrifstofurnar og kynna okkur þá stemmningu sem þar er. En kannski er bara rólegt yfir þessu öllu þannig séð, nema maskínuvinnu hreinlega bara bakvið tjöldin, úthringingar og þess háttar vélavinna framboðsins sem ávallt fylgir. Áhugavert að sjá allavega. Fróðlegt. En það er mjög gott mál að frambjóðendur opna kosningaskrifstofu. Það sýnir bara að kraftur er í þessum frambjóðendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)