Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kristján Þór leiðir - Ólöf fer upp fyrir Þorvald

Sjálfstæðisflokkurinn Þegar að talin hafa verið 2500 atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er orðið ljóst að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, er nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu. Nú hefur Ólöf Nordal komist upp fyrir Þorvald Ingvarsson í þriðja sætið.

Röð efstu sex er 2500 atkvæði hafa verið talin:

1. Kristján Þór Júlíusson
2. Arnbjörg Sveinsdóttir
3. Ólöf Nordal
4. Þorvaldur Ingvarsson
5. Sigríður Ingvarsdóttir
6. Steinþór Þorsteinsson

Lokatölur liggja fyrir fljótlega.

mbl.is Kristján Þór efstur í prófkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór leiðir í fyrstu tölum - Arnbjörg önnur

Sjálfstæðisflokkurinn Fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi liggja nú fyrir. Talin hafa nú verið 1500 atkvæði af 3.032. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, leiðir í fyrstu tölum, en Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, er önnur.

Röð efstu sex í fyrstu tölum

1. Kristján Þór Júlíusson
2. Arnbjörg Sveinsdóttir
3. Þorvaldur Ingvarsson
4. Ólöf Nordal
5. Sigríður Ingvarsdóttir
6. Steinþór Þorsteinsson

Næstu tölur liggja fyrir fljótlega.

Talning atkvæða hafin á Akureyri

Sjálfstæðisflokkurinn Talning á atkvæðaseðlum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem fram fór í gær, hófst nú eftir hádegið og hefur farið vel af stað. Fyrstu tölur í prófkjörinu liggja formlega fyrir kl. 18:00 og verða lesnar upp á Hótel KEA af Önnu Þóru Baldursdóttur, formanni kjörstjórnar. Þar verða frambjóðendur og munu fjölmiðlar væntanlega gera tölum góð skil.

Fyrstu tölur verða lesnar upp í kvöldfréttatíma Útvarps og á Stöð 2 og Sjónvarpinu verða fréttamenn með beina útsendingu. Það verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur og stöðu mála skýrast hægt og rólega. Ekki gekk illa að koma kjörgögnum til Akureyrar og talning hófst á tilsettum tíma í dag. Kjörsókn var mjög góð, 3.032 greiddu atkvæði en 3.289 voru á kjörskrá.

Við flokksmenn og þau sem höfum verið að vinna í þessu prófkjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn með einum eða öðrum hætti erum því auðvitað mjög sátt með stöðuna og teljum þetta gefa okkur góð sóknarfæri fyrir vorið í væntanlegri kosningabaráttu. En það eru spennandi klukkutímar framundan hér á Akureyri og brátt ræðst hverjir flokksmenn völdu til forystu hér.

Góð skrif Björns - pólitísk sáluskil í Framsókn

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skrifar ítarlegan pistil um ummæli Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra og formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi um Íraksmálið. Þar vék Jón klárlega af braut yfirlýsinga Halldórs Ásgrímssonar, verðandi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, sem var utanríkisráðherra á árunum 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006, í þeim málum.

Virðist það einna helst líta út sem örvænting vegna stöðu flokksins, enda hefur Jón áður ekki tekið svo sterkt til orða og í frægu viðtali við Helga frænda minn Seljan á Stöð 2 í sumar vildi hann ekki taka svona til orða og fór í mikla og augljósa vörn fyrir Halldór í þessu máli, en segja má að Íraksmálið hafi mála mest sett mark á forsætisráðherraferil Halldórs og skaðað hann pólitískt gríðarlega mikið. Deilur um þetta mál voru innan flokksins en Halldór gerði það ekki upp áður en hann hætti.

Mér finnst Björn skrifa um þetta mál mjög vel, eins og hans er von og vísa. Enda löngu ljóst að Björn er sá þingmanna flokksins sem mesta þekkingu hefur á utanríkis- og varnarmálum. Er ég sammála Birni í því að það veki mikla athygli að nýr formaður annars stjórnarflokksins, sem að auki á engan pólitískan bakgrunn í forystusveit íslenskra stjórnmála, ræði um fjögurra ára gamla atburði sem meginpunkt pólitískrar stefnuræðu á vettvangi flokksins og skilji við slóð og forystu Halldórs Ásgrímssonar, svo skömmu áður en hann heldur til starfa í Kaupmannahöfn. Það er öllum ljóst að Jón telur þetta mál vera steinbarn fyrir flokkinn og slítur á tengsl fyrri tíma.

Jón Sig Mér finnst það vera orðið átakanlegt fyrir Framsóknarflokkinn hversu tómur formaður þeirra er í raun. Þar vantar alvöru pólitískt bit við að greina mál dagsins í dag. Það er svolítill blanko-svipur yfir Jóni, það er bara þannig. Hann er mikill heiðursmaður tel ég og vandaður í alla staði, en mér finnst pólitík hans vera mjög ósýnileg. Það er orðið mjög áberandi.

Ég hélt þegar að Jón var kjörinn formaður á flokksþinginu í ágúst, eftir snarpan slag við Siv Friðleifsdóttur, að hann myndi þá þegar hefjast handa við að kynna sig og sína pólitík. Síðan hefur hann haldið spilum sínum mjög fast að sér. Staða flokksins hefur ekki skánað hætishót eftir kjör hans og fyrri væringar og sundrung lama enn innviði flokksins. Enn er ekki heldur vitað hvaða áhrif fall Sleggjunnar í Norðvestri hefur og enn veit enginn hver þessi formaður er pólitískt.

Stjórnmálamaðurinn Jón Sigurðsson flutti sína fyrstu alvöruræðu í stjórnmálum sem sáluskil yfir síðustu misserum stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar og hreinsaði loft væringa og óeiningar innan flokksins. Þar sáum við enga framtíð, enga stefnu né grunnpunkta þess sem Jón ætlar að verða flokknum. Þar var litið í baksýnisspegil átakanna og þau vissulega greind. Vel má vera að það gagnist eitthvað þessum flokki sem hefur upplifað annus horribilis ekki bara síðasta árið heldur öll ár kjörtímabilsins til þessa. Sorgarsaga er rétta orðið. Í ræðunni sáum við ekki neitt nýtt til framtíðar.

Hver er Jón Sigurðsson? spurði ég í pistli í ágúst eftir formannskjör. Í nóvember er þeirri spurningu enn ósvarað. Er Framsóknarflokknum á vetur setjandi með blanko formann? Stórt spurt, svörin vantar.

Hver er Jón Sigurðsson? - pistill í ágúst 2006

mbl.is Björn: Ríkisstjórn Íslands bar enga ábyrgð á innrásinni í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög ánægður með prófkjörið okkar

SjálfstæðisflokkurinnÉg verð að segja það alveg eins og er að ég er mjög ánægður með prófkjörið okkar hér í Norðausturkjördæmi. Það kusu yfir 3000 í þessu prófkjöri, mun fleiri en t.d. í prófkjöri Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Mér fannst þessi dagur ganga virkilega vel og við erum sátt hér. Nú bíðum við bara úrslitanna, sem verða ljós eftir rúma tólf tíma. Biðin er svo sannarlega spennandi.

Ég skellti mér einmitt í bæinn í kvöld og ræddi þar við fjölda fólks og fórum við einmitt sérstaklega yfir stjórnmálin. Mikið og gott spjall. En nú bíðum við sjálfstæðismenn úrslitanna. Þeirra er að vænta á morgun. Ég var nokkuð spurður um þetta allt í kvöld. Flestir bíða úrslitanna með áhuga. Það verða því allra augu á fyrstu tölum.

Nú höfum við ákveðið að lesa fyrstu tölur á Hótel KEA en ekki í Kaupangi. Líst vel á það, enda tryggir það meiri stemmningu og gott andrúmsloft þar meðan að talningin fer fram í Kaupangi. Talningin hefst innan nokkurra klukkutíma er allir atkvæðaseðlar hafa skilað sér hingað til Akureyrar. Fyrir dagslok hefur nýr leiðtogi tekið við forystu flokksins í kjördæminu. Það verður fróðlegt að sjá hvern flokksmenn völdu í prófkjörinu.


mbl.is 3.032 greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson Það stefnir í erfiða tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Fylgi hans virðist að festast undir 10 prósentustigum og það jókst ekki þrátt fyrir að Halldór Ásgrímsson yfirgæfi hið pólitíska svið. Kjör Jóns Sigurðssonar í formannsstól flokksins síðsumars efldi ekki flokkinn og staðan hefur verið að versna enn frekar. Flokkinn leiða tveir menn um eða yfir sextugt. Flokkurinn virðist vera í tilvistarkreppu og verulegum vandræðum.

Í ljósi alls þessa er skiljanlegt að formaður Framsóknarflokksins segi skilið við verk forvera hans á formannsstóli sem utanríkis- og forsætisráðherra í Íraksmálinu. Þetta eru athyglisverð ummæli og þau sýna vel örvæntinguna sem er að verða innan flokksins með viðvarandi vont gengi Framsóknarflokksins og brostnar vonir og væntingar flokksmanna með forystuna. Hún hefur ekki aflað flokknum meira fylgis og formaðurinn hefur ekki mikið sýnt af öflugri stjórnmálaforystu.

Það er greinilegt að hræðsla er innan flokksins vegna komandi kosninga. Það er skiljanlegt með stöðuna svona innan við hálfu ári fyrir þingkosningar.

mbl.is Ákvarðanir stjórnvalda um Írak byggðust á röngum upplýsingum og voru því rangar eða mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi lokið

Sjálfstæðisflokkurinn Kjörfundi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi er lokið. Rúmlega 3000 manns kusu í prófkjörinu á bæði kjörfundi sem fram fór á milli kl. 9:00 og 18:00 og utan kjörfundar síðustu tvær vikur. Allan þann tíma var ég staddur á kjörstað hér á Akureyri í Oddeyrarskóla. Það var góð stemmning þar og skemmtileg vinna í gangi. Mesti þunginn í kjörsókninni var á milli kl. 13:00 og 15:00, en þá mynduðust biðraðir hér í skólanum en þetta var annars jöfn kjörsókn í gegnum þessa 9 klukkutíma sem kjörfundur stóð hér á Akureyri.

Vinna við frágang hér er nú lokið. Nú taka atkvæði um allt kjördæmið að streyma til Akureyrar. Atkvæði verða væntanlega öll komin til Akureyrar í nótt eða fyrramálið. Talning atkvæða hefst kl. 14:00 á morgun og fyrstu tölur verða lesnar upp kl. 18:00. Nú tekur því biðin langa við fyrir okkur flokksmenn. Teningunum hefur verið kastað og aðeins þess beðið sem verða vill á morgun. Þá mun dómur kjósenda í prófkjörinu liggja fyrir og ný forysta á framboðslistanum og af hálfu flokksins í kjördæminu liggja fyrir. Það verður fróðlegt að sjá skiptingu atkvæða í fyrstu tölum eftir sólarhring.

Við áttum góðan dag saman hér í Oddeyrarskóla. Gott og öflugt fólk að vinna, gaman að hitta flokksmenn að kjósa og eiga gott spjall saman um stöðu mála. Var virkilega ánægjulegt að vera í kjördeildinni með þeim Oktavíu Jóhannesdóttur, Birnu Sigurbjörnsdóttur, Ragnheiði Jakobsdóttur, Jóni Oddgeiri Guðmundssyni og Maríu H. Marinósdóttur, en við fylgdumst að í gegnum daginn þar sem við vorum. Þar sem ég sat í miðju borðsins allan daginn var það mitt að fylgjast með kjörtölum og er nú lokafrágangur minnar kjördeildar frá. Nú tekur biðin við.

Það verða kaflaskil í flokksstarfinu hér á morgun, hvernig sem fer. Þá liggur fyrir hver leiði lista flokksins að vori og taki við leiðtogahlutverkinu hér í kjördæminu af Halldóri Blöndal, sem hefur setið á þingi frá 1979 og leitt lista hér á svæðinu frá 1984. Nýr leiðtogi verður fulltrúi nýrra tíma. Flokksmenn völdu í dag þennan fulltrúa sem við viljum að sjálfsögðu að verði ráðherra að vori og leiði flokkinn til sigurs þann 12. maí hér í kjördæminu.

mbl.is 2261 hefur kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi hafið

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er hafið. Kjörstaðir opnuðu hér á Akureyri nú kl. 9:00 og verða opnir þar til kl. 18:00 og á 20 öðrum stöðum um kjördæmið. Í þessu prófkjöri verður nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi kjörinn. Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, hefur ákveðið að segja skilið við stjórnmálaþátttöku að loknu þessu kjörtímabili og nú er það í höndum sjálfstæðismanna um allt kjördæmið hver leiðir framboðslista flokksins að vori.

Ég verð á kjörstað í Oddeyrarskóla í allan dag, enda er ég í kjörstjórn og það eru því næg verkefni sem við blasa um helgina. Það er þó ekki þannig að úrslit verði ljós og nýr kjördæmaleiðtogi formlega ljós fyrir dagslok. Við lok kjörfundar kl. 18:00 um allt kjördæmið tekur við það verkefni að safna saman öllum kjörgögnum. Það mun taka þónokkurn tíma. Atkvæði í þessu prófkjöri verða formlega talin því á morgun. Við búum í gríðarlega stóru kjördæmi, sem spannar fleiri hundruðir kílómetra. Öll atkvæði verða komin í húsnæði Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir hádegi á morgun. Þar mun talning hefjast formlega kl. 14:00 og fyrstu tölur liggja fyrir kl. 18:00. Úrslit verða kunn fyrir 21:00 væntanlega.

Þeir sem hafa lesið þessa bloggsíðu hafa séð lágstemmda umfjöllun um þetta prófkjör á vef mínum. Mér fannst ekki viðeigandi að skrifa mikið um frambjóðendur og hliðar þeirra í ljósi þess að ég vann í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni í Kaupangi. Henni lauk í gær, en gærdagurinn var auðvitað þar annasamastur og gekk á ýmsu. Þetta hefur verið lifandi og góð kosning sem hefur vel fram og góð kjörsókn verið. Nú er komið að aðaldeginum og nú ráðast örlögin. Fyrir dagslok á morgun verða úrslit kunn. Í ljósi minnar stöðu í þessu ferli hef ég ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við neinn frambjóðanda, né verið áberandi í starfi eins né neins. Það er fyrir bestu.

Ég kaus einn með sjálfum mér í salnum upp í Kaupangi á síðdegi fimmtudags skömmu fyrir framboðsfundinn á Hótel KEA. Ég hafði myndað mér mínar skoðanir mjög vel þónokkru fyrir þá stund. Ákvað að bíða ekki eftir framboðsfundinum, en staða mála á þeim fundi breytti engu um mína afstöðu til þess hver ætti að leiða þennan framboðslista og hverjir myndu sóma sér best með því leiðtogaefni sem mér líst best á. Í mínu vali koma saman reynsla, þekking og nýtt blóð til verka. Það er öllum fyrir bestu að hafa góða samblöndu kynjanna og ég stuðlaði að því. Ég tel að mitt val hafi einnig staðið vörð um hagsmuni ólíkra svæða.

Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna síðdegis á morgun. Það verður hinsvegar gott að losa um mestu spennuna er yfir lýkur í Oddeyrarskóla í dag og við þolum öll biðina mjög vel. Framundan eru þáttaskil. Það verður fróðlegt að sjá hver mun fá umboð flokksmanna til leiðtogasetu nú við pólitíska kveðjustund Halldórs og hvernig liðsheildin skipast. Það eru spennandi tímar framundan.

Sjálfstæðiskonur álykta gegn Árna Johnsen

Árni Johnsen Ég vil lýsa yfir fullum stuðningi mínum við ályktun stjórnar Landssambands sjálfstæðiskvenna um Árna Johnsen, sem send var til forystu Sjálfstæðisflokksins nú síðdegis. Það er hið eina rétta að flokksmenn tali hreint út um afleita endurkomu Árna í stjórnmálin í ljósi alls sem gerst hefur. Ég persónulega sé mér ekki fært að tala máli þessa manns sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þingframboði eftir afleitt klúður hans í orðavali í síðustu viku.

Það er mitt mat að Árni Johnsen hafi orðið sjálfum sér til skammar með þeim ummælum sínum um að afbrot hans á árinu 2001 hefði verið tæknileg mistök. Þar klúðraði Árni hinu gullna tækifæri til að sýna marktæka iðrun á afbrotum sínum og sýna að hann hefði bætt rétt í hugsun, sem og gjörðum. Greinilegt var að Árni sér ekki eftir því sem hann gerði. Það er engin iðrun að mínu mati að kalla fjárdrátt og tengd brot tæknileg mistök. Aumingjalegt yfirklór Árna í Fréttablaðinu í dag er máttlaust og breytir engu. Það er greinilegt að Árni getur ekki beðið flokksmenn afsökunar á klúðri sínu.

Það er alveg greinilegt að þetta klúður í Árna Johnsen er ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og innkoma hans aftur í stjórnmálin mun ekki efla flokkinn. Í síðustu viku ályktaði SUS með afgerandi hætti um málefni Árna Johnsen eftir þessi heimskulegu ummæli sem hann lét falla. Það var nauðsynlegt að senda þá ályktun frá sér og hún hefði orðið harðari hefði ég einn samið hana. Mér fannst Árni gjörsamlega klúðra góðu tækifæri til að endurheimta virðingu flokksmanna og stuðning þeirra eftir þetta prófkjör.

Það er greinilega engin iðrun frá syndaranum í þessu máli og það er engin eftirsjá eða neitt sem þar stendur eftir. Það er ekki bara óheppilegt fyrir Árna Johnsen heldur líka Sjálfstæðisflokkinn, sem þarf að sætta sig við endurkomu Árna eftir að sunnlenskir sjálfstæðismenn kusu hann þar aftur inn. Nú er orðið ljóst að borið hefur á úrsögnum úr flokknum vegna kosningar Árna í annað sætið í Suðurkjördæmi. Þetta hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum.

Það var kannski varla við öðru að búast en að almennum flokksmönnum myndi blöskra framganga Árna Johnsen og sérstaklega hin dæmalausu ummæli hans, sem voru algjörlega afleit og ekki viðunandi. Þau ein og sér gera manninn ekki tækan fyrir Sjálfstæðisflokkinn til framboðs. Ég styð því ályktun sjálfstæðiskvenna heilshugar og vonast til þess að yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins grípi til sinna ráða við að koma í veg fyrir að Árni verði í framboði fyrir flokkinn að vori. Ég tel framboð hans afleitt fyrir flokkinn úr því sem komið er.

mbl.is Óttast að framboð Árna dragi úr fylgi Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Sjálfstæðisflokkurinn Það var notaleg og góð stemmning á Hótel KEA í kvöld á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var af okkur í stjórn málfundafélagsins Sleipnis. Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundasalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, heiðraði fundinn með nærveru sinni. Hófst framboðsfundurinn með þriggja mínútna framsögum frambjóðendanna níu og að því loknu drógu þau spurningu sem samdar voru af okkur í stjórninni. Höfðu frambjóðendurnir ekki séð spurningarnar fyrirfram og var því áhugavert að sjá viðbrögð þeirra við spurningunni og heyra svo auðvitað svarið. Sumir frambjóðendurnir voru heppnir með spurningar, aðrir ekki eins og gengur. Flestir komu þó vel frá aðstæðum, en flestir þurftu að sýna á sér nýja hlið.

Flestir frambjóðendur tjáðu sig um mál sem þeir hafa lítið fjallað um og það tryggði líflegt fundaform og fjarri því hefðbundið. Þessi fundur var því vel heppnaður og hressilegur. Það var einmitt markmið okkar stjórnarmanna í Sleipni að tryggja lifandi og léttan fund. Fengum við fréttamanninn Sigrúnu Vésteinsdóttur á bæjarsjónvarpsstöðinni N4 einmitt til að verða fundarstjóra til að tryggja lifandi og ferska fundarstjórn. Hún spurði beinskeytt meira út í málið sem frambjóðandinn var spurður um eftir svarið og því var haldið áfram og gengið eftir betri svörum kæmu þau ekki hjá frambjóðandanum á tilsettum tíma. Kom nokkrum sinnum til þess.

Fundurinn var tveir tímar að lengd. Greinilegt var að fundargestum leist vel á fundinn og snarpt og létt form hans. Engin dauð stund og við kynntumst öll bestu hliðum frambjóðendanna held ég, hreint út sagt. Við erum með virkilega góðan hóp fólks í boði og fróðlegt að sjá hvernig raðast. Voru fundarmenn ánægðir og heyrðum við góða umsögn um allar hliðar kvöldsins hjá þeim sem sátu fundinn og frambjóðendum leist vel á. Það var því góð stemmning á Hótel KEA.

Spennan magnast vegna prófkjörsins. Lokadagur baráttunnar er á morgun og á laugardagsmorgun opna kjörstaðir um allt kjördæmið. Á sunnudagskvöldið liggja úrslitin fyrir og þá hefur nýr kjördæmaleiðtogi verið formlega valinn af flokksmönnum. Það eru spennandi tímar framundan hér hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi. Þetta verður spennandi helgi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband