Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nicolas Sarkozy í forsetaframboð

Nicolas Sarkozy Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, hefur nú formlega tilkynnt um forsetaframboð sitt. Forseti Frakklands verður kjörinn í tveim umferðum, ef með þarf, 22. apríl og 6. maí nk. Áhugi Sarkozy á forsetaembættinu er löngu kunnur og þessi yfirlýsing hans kemur engum að óvörum. Það vekur þó mikla athygli að hann lýsi yfir framboði sínu áður en vitað er hvort að Jacques Chirac, núverandi forseti Frakklands, gefi kost á sér eður ei.

Lengi vel var talið útilokað að Chirac færi fram aftur, en það vakti undrun margra er Bernadette, eiginkona hans, lýsti því yfir í mánuðinum að hann hefði ekki enn útilokað þann valkost. Þessi staða mála bendir til þess að ekki verði samstaða um kandidat hægrimanna. Það að frambjóðendur séu farnir að lýsa yfir áhuga á forsetastólnum á hægrivængnum með forsetann enn í hugleiðingum um pólitíska stöðu sína vekur altént verulega athygli og hugleiðinga stjórnmálaáhugamanna. En nú líður væntanlega að því að línur skýrist á hægrivængnum og forsetinn þarf mjög bráðlega að taka ákvörðun um pólitíska framtíð sína og fyrirætlanir.

Flestir ganga þó að því sem gefnu að Chirac hætti. Hann er orðinn veiklulegur og sést hefur á síðustu mánuðum að heilsa hans er tekin að dala. Hann hefur væntanlega hvorki úthald né áhuga á að halda í annað fimm ára kjörtímabil. Ef marka má kannanir hafa Frakkar ennfremur takmarkaðan áhuga á honum nú. Chirac hefur mistekist að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar taps í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2005 um stjórnarskrá ESB. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í fyrra.

Í staðinn var hann gerður að innanríkisráðherra. Töldu bæði Chirac og Dominique de Villepin, forsætisráðherra, að Sarkozy myndi ekki geta staðið undir því. Það minnkaði ekki vinsældir hans að vera þar og hann virðist langvinsælasti stjórnmálamaður Frakka á hægrivængnum nú í upphafi þessa mikilvæga kosningavetrar í frönskum stjórnmálum. Chirac hafði væntingar um að de Villepin gæti notað forsætið í stjórninni sem stökkpall í forsetaframboð en svo fór ekki - hann skaddaðist verulega á því, enda þótt klaufalegur. Sarkozy virðist geta leikandi létt tryggt sér útnefningu og það jafnvel án atbeina forsetans og stuðningsmanna hans.

Sarko, eins og hann er almennt kallaður, telst óskabarn hægrimanna fyrir kosningarnar og mælist langvinsælastur þeirra nú og mun væntanlega takast að verða kandidat hægriblokkarinnar, hvað sem Chirac tautar eða raular. Forkosningar hægrimanna um opinberan kandidat þeirra fer fram í janúar. Þar sem Sarkozy er umdeildur gæti hægriblokkin klofnað upp. Það myndi aðeins styrkja Segolene Royal, frambjóðanda sósíalista, sem tryggði sér útnefningu flokks síns með yfirburðum fyrr í þessum mánuði. Flest bendir til kapphlaups milli Sego og Sarko - gæti það farið á hvorn veginn sem er.

En beðið er nú ákvörðunar Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem væntanlega mun taka af skarið með pólitíska framtíð sína fyrir jólin. Það er mikið hugsað í Elysée-höll þessar vikurnar, er líður að úrslitastund í frönskum stjórnmálum og væntanlega pólitískum leiðarlokum hins umdeilda 74 ára forseta, sem er að upplifa sína endamánuði í embætti með sama beiska hættinum og forveri hans, Francois Mitterrand, gerði er líða tók á árið 1994 og fram undir síðustu mánuðina á árinu 1995.

mbl.is Nicolas Sarkozy býður sig fram til forseta Frakklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreyta í stjórnarsamstarfinu

RíkisstjórninMér finnst greinileg þreyta að verða komin í ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Mér finnst þetta orðið meira áberandi nú eftir að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, burðarásar samstarfsins í áratug, hættu í stjórnmálum. Yfirlýsingar forystumanna Framsóknarflokksins hvað varðar málefni Ríkisútvarpsins og svo varðandi Íraksmálið vekur þær spurningar hvort vandræðagangurinn vegna stöðu flokksins, sé að leiða til þess að þeir skipti örar um skoðanir en áður.

Mér finnst áberandi taktar framsóknarmanna við að vega að ráðherrum og forystumönnum Sjálfstæðisflokksins orðið nokkuð áberandi. RÚV-málið er ekki það eina sem vakið hefur athygli. Mér finnst það ekki leyna sér að margir sjálfstæðismenn séu að verða ansi leiðir á Framsóknarflokknum og óstaðfestunni sem einkennt hefur stöðu mála þar mjög lengi, ekki bara nú eftir formannsskiptin heldur og líka ekki síður undir lokin á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar, er flokkurinn nötraði margoft og það veikti stjórnina, sérstaklega eftir að Halldór varð forsætisráðherra.

Ég sé að Egill Helgason er að spekúlera um þessi mál á vef sínum. Ég er ansi sammála orðinn Agli í þessari greiningu. Mér finnst Framsóknarflokkurinn orðinn ansi veikburða og staða mála hefur veikst yfir, það fer ekki á milli mála. Það munaði reyndar mjög litlu að Sjálfstæðisflokkurinn skildi Framsóknarflokkinn eftir í sumar þegar að Halldór Ásgrímsson rann út úr íslenskri pólitík með litlum glæsibrag. Þá logaði Framsókn stafnanna á milli. Ég tel að mjög naumt hafi staðið í þeim hjaðningavígum að hann yrði skilinn eftir og ekki metinn starfhæfur lengur. Ég skrifaði vel um það á þeim tíma.

Staða mála ræðst mjög vel á næstu vikum. Það styttist í kosningar og eftir því sem hver dagurinn líður eykst taugaveiklun Framsóknarflokksins með fjölda mála. Það er greinilegt að örvænting er innan flokksins. Það er varla furða, með flokkinn að festast um eða rétt yfir 10% fylgi, nýjan formann sem hefur ekki markað sér neinn alvörugrunn í raun og innri væringar undir niðri. Enn veit enginn hvert sleggjan snýst til höggs og óvissan vofir víða yfir. Þeir eru t.d. ekki margir sem leggja peningana sína undir það að formaður flokksins nái inn í Reykjavík. Mikill lífróður framundan þar.

En staða þessarar ríkisstjórnar verður í brennidepli næstu vikur og mánuði. Grunnur þessa samstarfs breyttist með leiðtogaskiptum og þar eru breyttir tímar og líka meiri losung á stöðunni að mínu mati. Þetta verða spennandi tímar eftir jólin og áhugavert fyrir það fyrsta hvort stjórnin heldur velli eður ei. Þar veltur væntanlega mest hvort Framsóknarflokknum tekst að snúa vörn í sókn. Ekki blæs allavega byrlega fyrir í þeim efnum nú. Fróðlegt að sjá Gallup-könnun á föstudag allavega.


mbl.is Ungir framsóknarmenn leggjast gegn RÚV ohf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót í bæjarmálunum á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Mikil tímamót eru í bæjarmálunum á Akureyri í dag. Tilkynnt hefur verið um að Sigrún Björk Jakobsdóttir verði bæjarstjóri í byrjun næsta árs og að Kristján Þór Júlíusson verði forseti bæjarstjórnar frá sama tíma, er hann hættir sem bæjarstjóri eftir tæplega níu ára starf. Í hádeginu var gott viðtal á Stöð 2 við Sigrúnu Björk. Þar fóru hún og Björn Þorláksson yfir væntanlega stöðu mála í bænum samhliða þessum miklu breytingum. Þar heyrðum við um pólitískar áherslur hennar og um persónu hennar.

Við sem höfum unnið með Sigrúnu Björk hér í flokksstarfinu þekkjum hana vel. Hún hefur verið áberandi í stjórnmálunum og þð eru engin stórtíðindi fyrir okkur að hún verði bæjarstjóri. Við sjálfstæðismenn á Akureyri erum stoltir að fyrsta konan sem verður bæjarstjóri sé úr Sjálfstæðisflokknum. Í þessu felast tímamót í bæjarmálunum og jafnframt merkilegt að Kristján Þór verði fyrsti bæjarstjórinn sem taki við embætti forseta bæjarstjórnar. Það er skýr yfirlýsing af hans hálfu um að efna loforð við bæjarbúa um að vinna á þessu kjörtímabili.

Þessi miklu tíðindi voru kynnt á blaðamannafundi Kristjáns Þórs, Sigrúnar Bjarkar og Hermanns Jóns Tómassonar, formanns bæjarráðs og leiðtoga Samfylkingarinnar, laust fyrir hádegið. Það er gleðiefni að full samstaða er um breytingarnar og ánægjulegt að samstarf okkar við Samfylkinguna breytist ekkert þó að þessi uppstokkun verði innan okkar raða. Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri í tæpan áratug, svo að þetta eru miklar breytingar fyrir okkur sjálfstæðismenn og boða aðra tíma innan okkar raða. Athygli vakti að Sigrún Björk var í bleiku á þessum blaðamannafundi og í hádegisviðtalinu hjá Birni Þorlákssyni. Varla tilviljun það.

Ýmsar breytingar fylgja því að Sigrún Björk og Kristján Þór hafi stólaskipti. Uppstokkun verður skiljanlega á nefndum og ráðum. Hjalti Jón Sveinsson, bæjarfulltrúi, tekur sæti Sigrúnar Bjarkar í bæjarráði og Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi, tekur sæti í framkvæmdaráði, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og verður formaður stjórnar Akureyrarstofu, auk þess að gegna formennsku í skólanefnd, hún hefur setið í bæjarráði frá kosningunum í vor. Sigrún Björk verður setufulltrúi í bæjarráði sem bæjarstjóri, eins og Kristján Þór áður. Kristján Þór mun ekki taka sæti í nefndum er hann verður forseti bæjarstjórnar.

En já, þetta er stór dagur í bæjarmálunum. Sigrún Björk Jakobsdóttir verður tíundi bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar, frá árinu 1919, og fyrsta konan. Því fylgja mikil tímamót. Ég vil óska Sigrúnu Björk Jakobsdóttur innilega til hamingju með embættið. Við höfum átt langt samstarf í flokksstarfinu hér og unnið saman í mörgum verkefnum. Ég þekki hana því vel og veit því vel að hún á eftir að verða mjög áberandi og öflug í þessu krefjandi verkefni.

Sigrún Björk bæjarstjóri - Kristján Þór forseti

Sigrún Björk og Kristján Þór Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, tekur við embætti bæjarstjóra á Akureyri, fyrst kvenna, þann 9. janúar 2007 af Kristjáni Þór Júlíussyni, nýkjörnum leiðtoga Sjálfstæðisflokksins i Norðausturkjördæmi og fráfarandi bæjarstjóra. Kristján Þór mun áfram sitja í bæjarstjórn í kjölfar þess að hann lætur af embætti bæjarstjóra í ársbyrjun en verður þó ekki óbreyttur bæjarfulltrúi.

Mikla athygli stjórnmálaáhugamanna hér á Akureyri og almennra flokksmanna vekur að Kristján Þór muni taka við embætti forseta bæjarstjórnar af Sigrúnu Björk og verður því fyrsti bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar sem ennfremur er forseti bæjarstjórnar. Útilokar hann ekki að gegna embættinu með þingmennsku. Hann mun því áfram verða veigamikill hluti bæjarstjórnarfunda og halda áfram sínum verkum fyrir Akureyringa í bæjarmálum út kjörtímabil sitt.

Mikill orðrómur hafði verið um það að Kristján Þór myndi yfirgefa bæjarmálin og halda alfarið til verka í landsmálum. Skv. þessu er ljóst að svo verður ekki og hann mun sinna bæjarmálum með landsmálunum með eftir því sem þurfa þykir. Það eru mikil tíðindi að fráfarandi bæjarstjóri verði forseti bæjarstjórnar og er flétta sem fáir sáu fyrir.

Þetta þýðir að Kristjáni Þór er full alvara með að efna loforð sín við bæjarbúa fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar um að sinna bæjarmálunum af krafti, en með öðrum hætti.

mbl.is Sigrún Björk verður bæjarstjóri á Akureyri í byrjun næsta árs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Þórarinn B. aftur sæti í bæjarstjórn?

Þórarinn B. Jónsson Það er ekki óeðlilegt að þær spurningar vakni nú hvort að Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi bæjarstjóri á Akureyri, muni hætta sem bæjarfulltrúi samhliða því að hann lætur af embætti bæjarstjóra fljótlega. Fyrir liggur enda samkomulag um að Sigrún Björk Jakobsdóttir verði bæjarstjóri á Akureyri innan næstu vikna. Fyrsti varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er Þórarinn B. Jónsson. Hann var bæjarfulltrúi hér á árunum 1994-2006, en náði ekki kjöri í kosningunum í vor úr fimmta sætinu.

Það er ekki óvarlegt að ætla að Þórarinn B. muni nú verða með fast sæti á bæjarstjórnarfundum, enda ólíklegt að Kristján Þór hafi í hyggju að vera fastur hluti bæjarstjórnarfunda sem óbreyttur bæjarfulltrúi. Hvort það verði sem varamaður í fjarveru nýs kjördæmaleiðtoga eða sem fastur bæjarfulltrúi eftir afsögn Kristjáns Þórs mun væntanlega ráðast brátt. Hvernig sem fer er annað óhjákvæmilegt en að Kristján Þór verði lítið áberandi á vettvangi bæjarmálanna á næstunni vegna nýs hlutverks síns.

Fari það svo að Þórarinn B. verði að nýju bæjarfulltrúi hlýtur hann að taka sæti í nefndum með sama þunga og krafti og var á síðasta kjörtímabili, þegar að hann var einn áhrifamesti bæjarfulltrúi meirihlutans, rétt eins og allt frá því að hann kom inn í bæjarstjórn árið 1994. Hann var t.d. mjög áberandi í skipulagsmálunum og fulltrúi flokksins þar mjög lengi.

Það er ekki óvarlegt að ætla að hann muni skipa sæti aftur í valdamiklum nefndum, enda hljóta allir óbreyttir bæjarfulltrúar að fara í nefndir og verða áberandi á þeim vettvangi. Það gerir Kristján Þór varla sem kjördæmaleiðtogi.

Samstaða um Sigrúnu Björk sem bæjarstjóra

Sigrún Björk Jakobsdóttir Samstaða hefur náðst milli meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar um að Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, verði næsti bæjarstjóri á Akureyri. Á morgun verður samkomulag um bæjarstjóraskipti og tímasetningu starfsloka Kristjáns Þórs Júlíussonar, fráfarandi bæjarstjóra, tilkynnt formlega. Í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2006-2010 er þar útlistað að Sjálfstæðisflokkurinn hafi embætti bæjarstjóra 2006-2009 en Samfylkingin 2009-2010.

Kristján Þór lætur því formlega af embætti mjög fljótlega, en mun væntanlega klára fjárhagsáætlun næsta árs. Samfylkingin hefur lagt blessun sína yfir bæjarstjóraskiptin og þar ljóst að full samstaða er um þessa ákvörðun mála, enda er full samstaða innan Sjálfstæðisflokksins að Sigrún Björk sem önnur á lista flokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum taki við þessu embætti. Óvissan nú er um hvort Kristján Þór Júlíusson muni segja sig úr bæjarstjórn eða sitja þar sem óbreyttur bæjarfulltrúi er bæjarstjóraferlinum lýkur og hann tekur nú við leiðtogahlutverkinu í kjördæminu.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri á Akureyri, er fædd 23. maí 1966. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og útskrifaðist úr IHTTI hótelstjórnunarskólanum í Sviss árið 1990. Einnig hefur hún lokið námi í nútímafræðum við Háskólann á Akureyri og stjórnunarnámi á vegum Símenntunar HA. Sigrún hefur starfað sem hótelstjóri á Hótel Austurlandi, í sölu- og markaðsdeild Hótel Íslands, verið hótelstjóri á Hótel Norðurlandi, deildarstjóri hjá Úrvali-Útsýn, verkefnastjóri hjá Menntasmiðjunni á Akureyri og verkefnastjóri hjá Price Waterhouse Coopers. Sigrún Björk hefur verið bæjarfulltrúi á Akureyri frá vorinu 2002.

Við þessar breytingar mun uppstokkun verða á embætti forseta bæjarstjórnar og nefndum og ráðum innan Sjálfstæðisflokksins. Nýr forseti og formaður stjórnar Akureyrarstofu, verða valdir í kjölfarið, enda eru þetta þau embætti sem Sigrún Björk hefur gegnt. Eðlilegast er að Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, taki við áhrifamiklu verkefni á borð við embætti forseta bæjarstjórnar, enda næst á eftir Sigrúnu Björk á framboðslistanum í vor, en nákvæmari ákvarðanir um nefndauppstokkun er væntanlega næsta verkefni nú.

mbl.is Niðurstaða prófkjörsins „er draumauppstilling"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigrún Björk væntanlega næsti bæjarstjóri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, verður væntanlega næsti bæjarstjóri á Akureyri í stað Kristjáns Þórs Júlíussonar, nýkjörins leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem verið hefur bæjarstjóri í tæpan áratug. Ákvörðun um eftirmann Kristjáns Þórs og tímasetningu starfsloka hans í embætti mun liggja fyrir síðar í þessari viku. Kristján Þór hefur sagt, sem eðlilegt er, að bæjarstjóraskipti verði nú og hann einbeiti sér nú alfarið að nýju verkefni sínu, sem er að leiða flokkinn til sigurs hér á kjördæmavísu.

Það má telja nær öruggt að Sigrún Björk verði bæjarstjóri og taki við embættinu innan skamms. Fari það svo verður hún fyrsta konan til að gegna embætti bæjarstjóra hér á Akureyri. Sigrún Björk hefur verið hér bæjarfulltrúi frá árinu 2002, leitt menningarmálanefnd og stjórn Akureyrarstofu og verið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Hún er því okkur öllum kunn hér. Hún er reyndasti sitjandi bæjarfulltrúi flokksins utan Kristjáns Þórs, fráfarandi bæjarstjóra, og stendur þessu því næst að mínu mati. Það liggur því beinast við að hún taki við bæjarstjórastarfinu.

Í meirihlutasamningi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi embætti bæjarstjóra árin 2006-2009 en Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, gegni embættinu síðustu tólf mánuði kjörtímabilsins, 2009-2010. Það er því ljóst að þrír bæjarstjórar verða á Akureyri á kjörtímabilinu. Það er nú ljóst að leiðtogaskipti verða í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Það er því hið eina rétta að röð manna færist upp, eins og ég sagði hér fyrr í dag. Sigrún Björk verði bæjarstjóri og Elín Margrét, sem var þriðja á listanum í vor, verði forseti bæjarstjórnar. Um þetta er að ég tel góð samstaða heilt yfir.

Það verða miklar breytingar hér nú þegar að Kristján Þór lætur senn af embætti bæjarstjóra og heldur í önnur verkefni. Það tryggir uppstokkun í bæjarkerfi flokksins og spennandi tíma. Það er ekkert vandamál fyrir okkur að skipa málum nú með öðrum hætti, enda höfum við hæft og gott fólk í flokksstarfinu og í ábyrgðarmiklum embættum í okkar umboði.

Valla Sverris heldur í heimshornaflakk

Valgerður Sverrisdóttir Það er heldur betur heimsreisan sem að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, er flogin af stað í. Hún er nú farin til Lettlands á leiðtogafund NATO og mun að því loknu halda til Litháens, Sviss, Kína og Japans. Hún mun verða á þessu ferðalagi allt til 10. desember nk. Hún kemur því væntanlega mátulega í jólaundirbúninginn.

Valgerður varð í júní fyrst kvenna á utanríkisráðherrastóli hér. Það var vissulega stór áfangi fyrir konur og vakti athygli. Hún hefur þó verið umdeild sem utanríkisráðherra, þó vissulega ekki nándar nærri eins mikið og sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það verður þó seint sagt að utanríkisráðherraferill hennar hafi markast af beinum og breiðum vegi.

Mér fannst eiginlega átakanlegt þegar að Valgerður fór á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og ávarpaði þar að hún var varla fær til ræðuhalda á ensku. Spaugstofan gerði gott grín af þessu. Það er því alveg ljóst að Valgerður þarf að slípa sig betur til ræðuhalda á ensku. Hún hefur þó alltaf verið dugleg og vinnusöm og það hjálpar henni eitthvað.

Það verður fróðlegt að sjá stöðu Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi að vori. Landsbyggðarþingmaður hefur ekki verið utanríkisráðherra frá því að Halldór Ásgrímsson sat á þeim stóli. Það munaði litlu að hann fengi skell í Austurlandskjördæmi hinu forna í kosningabaráttunni 1999 og hann fór um firðina á Cherokee-jeppanum sínum síðustu vikuna til að bjarga því sem bjargað yrði. Honum tókst það naumlega.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort að fjarvera Valgerðar veiki Framsóknarflokkinn hér líkt og var fyrir austan í tilfelli Halldórs áður.

mbl.is Valgerður á faraldsfæti næstu vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjóraskipti framundan á Akureyri

Sigrún Björk Jakobsdóttir Eftir leiðtogakjör Kristjáns Þórs Júlíussonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi um helgina blasir við öllum að hann muni bráðlega hætta sem bæjarstjóri hér á Akureyri. Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri hér á Akureyri frá því í júní 1998 og leitt okkur sjálfstæðismenn í þrennum kosningum. Nú verða skil þarna á, enda hefur Kristján Þór verið kjörinn kjördæmaleiðtogi okkar hér. Nú heldur hann í landsmálin til annarra verkefna. Með því verða kaflaskil fyrir okkur hér.

Um fátt er meira talað nú en hver eigi að verða næsti bæjarstjóri á Akureyri. Kristján Þór hefur tilkynnt með afgerandi hætti að hann ætli að hætta fyrir upphaf kosningabaráttunnar í viðtali á Morgunvakt Rásar 1 og hádegisviðtalinu á Stöð 2. Þau starfslok hljóta að verða nú um mánðarmótin eða við áramót. Mikið er spurt um hver eigi að taka við embættinu. Áðan var ég í viðtali hjá Andrési Jónssyni á Útvarpi Sögu og þar fórum við yfir þessi mál og fleiri í góðu pólitísku spjalli. Ég er reyndar með kveflumbru en það komst vonandi allt vel til skila hjá mér.

Mér finnst að Sigrún Björk Jakobsdóttir eigi að verða næsti bæjarstjóri hér á Akureyri. Hún hefur setið lengst sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, utan Kristjáns Þórs, og verið formaður nefnda og virk í pólitísku starfi. Í prófkjörinu í febrúar var hún eini frambjóðandinn utan Kristjáns sem hlaut bindandi kosningu í sitt sæti. Hún hefur verið forseti bæjarstjórnar frá kosningunum í vor og tók við af Þóru Ákadóttur.

Það er því hið eina rétta að Sigrún Björk verði bæjarstjóri og Elín Margrét Hallgrímsdóttir verði forseti bæjarstjórnar. Það er glæsilegt fyrir okkur að hafa tvær öflugar konur í forystusveit í bæjarmálunum nú þegar að Kristján Þór hættir sem bæjarstjóri og heldur til verka á öðrum vettvangi. Það eru spennandi tímar hér framundan.

mbl.is Ummæli Þorgerðar voru „afar óheppilegt inngrip"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór nýr leiðtogi - tvær konur í þrem efstu

Kristján Þór Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sigraði í prófkjörinu og er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu - hann hlaut 1.461 atkvæði í leiðtogasætið í baráttu við Arnbjörgu Sveinsdóttur og Þorvald Ingvarsson. Kristján Þór mun því taka við af Halldóri Blöndal, sem setið hefur á þingi í tæpa þrjá áratugi og leitt lista hér í rúma tvo áratugi.

Í öðru sæti varð Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún hlaut 1.596 atkvæði í 1 - 2. sætið. Arnbjörg hefur setið á þingi nær samfellt frá árinu 1995 og það er greinilegur vilji flokksmanna að hún verði áfram í forystusveit flokksins við komandi kosningar. Hún fær góða kosningu í annað sætið greinilega. Ólöf Nordal er án nokkurs vafa stjarna þessa prófkjörs en hún nær þriðja sætinu með 1.426 atkvæðum. Þetta er hennar fyrsta prófkjör og greinilegt að hún stimplar sig inn af miklum krafti. Þær fá góðar mjög gott umboð og staða kvenna mjög glæsileg því hér.

Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri, var í þriðja sætinu í fyrstu tölum en féll svo niður í það fjórða og fékk það sæti að lokum. Hann hlaut 1.635 atkvæði í 1. - 4. sætið. Þorvaldur verður fyrir nokkru áfalli í prófkjörinu, en hann sóttist eftir fyrsta sætinu. Hann skipaði sjötta sætið á lista flokksins hér í kjördæminu í síðustu kosningum, en hann var þá nýliði í stjórnmálum. Það verður vonandi baráttumál okkar allra hér að tryggja kjör Þorvaldar Ingvarssonar inn á þing úr fjórða sætinu. Í fimmta sætinu er svo Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, en hún var þingmaður árin 2001-2003 og er núverandi varaþingmaður. Sjötti er ungliðinn Steinþór Þorsteinsson, sem nær góðum árangri þrátt fyrir stutta veru í flokknum.

Sigur Kristjáns Þórs Júlíussonar er nokkuð afgerandi og glæsilegur. Ég vil óska honum innilega til hamingju með gott kjör. Það verður hans nú að leiða flokkinn að vori og taka við af Halldóri Blöndal. Verkefni næstu mánaða verður að tryggja að Kristján Þór verði fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og ráðherra í næstu ríkisstjórn. Kristján Þór Júlíusson var bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, á Ísafirði 1994-1997 og hefur verið bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri allt frá árinu 1998 og leitt flokkinn hér í bænum í þrennum kosningum. Kristján Þór hefur verið lengi virkur í stjórnmálum og unnið ötullega fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Mér finnst þessi listi sterkur. Þarna eru þrjár konur í sex efstu sætum og þar af tvær konur í þrem efstu. Það er öflugur Akureyringur í leiðtogasæti og tveir Austfirðingar í tveim næstu sætum. Öll svæði ættu því að geta verið ánægð með stöðu mála. Athygli vekur góð kosning kvenna í prófkjörinu. Það er mikið gleðiefni. Þetta er framboðslisti sem gæti fært okkur fjögur þingsæti að vori. Nú er það næsta verkefni. Það verður ánægjulegt að taka þátt í þeirri góðu baráttu.

mbl.is Kristján Þór varð í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband