Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.12.2006 | 23:17
Líður að lokum hjá Fidel Castro

Það eru gamalkunn tíðindi að það að vera ráðandi í stjórnmálum snúist að mörgu leyti um það að koma vel fram og vera áberandi leiðtogi sem minnir á nærveru sína. Betur en margir aðrir þjóðarleiðtogar veit Fidel Castro þetta afskaplega vel. Hann hefur stjórnað með sýnilegu valdi á Kúbu í tæpa hálfa öld, þar sem stormandi boðskapur hans hefur skipt sköpum fyrir hann að hafa haldið völdum og getað ríkt þar þetta lengi. Þar hefur enda allt snúist um persónu hans.
Að því kemur á ævi hans sem og allra annarra að halla tekur undan fæti. Það er óhjákvæmilegt, sama hver um er að ræða. Framkoma í stjórnmálum á okkar fjölmiðlatímum snýst oftast nær um það hvernig fólk kemur fram. Komi það ekki fram eða er fjarverandi hlýtur kastljósið að beinast að fjarverunni. Í landi eins og Kúbu snýst allt um að sýna fram á vald sitt. Það hefur Castro gert og gerði margoft meðan að hann var veikur fyrir nokkrum árum er hann féll illa á opinberri samkomu og lærbrotnaði.
Það vekur því auðvitað talsverða athygli að það sem sjáist til Castro nú séu aðeins myndir af honum alvarlegum á svip í adidas jogging-galla (talandi um sannkallaða kaldhæðni) og greinilega fölan á brá að reyna að staulast nokkur skref með dagblaði í hendi sem sýnir tímasetninguna. Þetta er eins og í gíslatöku þegar að gíslinn er sýndur með nýjasta dagblaðið í hendinni, til að sýna að hann sé örugglega enn þessa heims. Þetta er í senn bæði skondið og skemmtilega óraunverulegt í sinni fyndnustu merkingu. Reyndar hafa slíkar myndir ekki birst síðan í endaðan október.
Það þarf ekki þaulreyndan sérfræðing í alþjóðastjórnmálum til að sjá hvert stefnir. Þegar að Castro deyr mun væntanlega Raul, bróðir hans, taka við. Hann er maður sömu kynslóðar og bróðir hans. Það mun lítið breytast stefnulega við valdatöku hans, en því fylgir auðvitað að völd einræðisstjórnarinnar veikjast og einræðisstjórn kommúnista þarna missir með áþreifanlegum hætti krumluna af stöðunni. Það var alltaf óhjákvæmilegt að allt breyttist þegar að Castro myndi deyja og það fer svo, enda er allt byggt á persónu hans og krafti hans sem leiðtoga.
Það gerist nær alltaf þegar að svona sterkur leiðtogi deyr að þá veikist einræðisstjórnin sem á bakvið hann var. Það er enda mjög erfitt að vera yfirgnæfandi í lokuðu samfélagi eins og Kúbu, með einræði og engum alvöru kosningum, þar sem leiðtoginn er heilsuveill og sá sem með völdin á að fara á meðan sést varla heldur. Það er því varla undrunarefni að það gerist fyrr en síðar að reynt sé að loka á orðróminn. Þetta var vandræðalegt í tilfelli Leonid Brezhnev og ekki síður Boris Yeltsin, þegar að reynt var að telja fólki trú um að hann væri heilsuhraustur.
Að því kemur væntanlega fyrr en síðar að þessi staða mála, með leiðtogann greinilega fárveikan, veki kúbverja til meðvitundar í samfélagi sem hefur vanist einræði og einum leiðtoga, án kosninga, til áratuga og þá sem fylgjast með einræðinu fjarri eymd kommúnismans, sem enn ómar í ríki einræðisherrans.
![]() |
Kastró mætti ekki í afmælisveisluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2006 | 20:37
Ingibjörg Sólrún greinir vanda Samfylkingarinnar
Þrátt fyrir minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins vegna Árnamálsins hækkar Samfylkingin ekki milli mánaða og hefur ekki gert lengi. Um þessar mundir eru fjögur ár síðan að borgarstjóraferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lauk snögglega eftir að hún tók fimmta sætið á lista flokksins í Reykjavík. Henni tókst ekki að komast á þing í kosningunum 2003 en varð varaformaður flokksins sama árið, eftir að Margrét Frímannsdóttir steig til hliðar fyrir Ingibjörgu. Hún varð þingmaður við afsögn Bryndísar Hlöðversdóttur og formaður flokksins sama ár.
Það hefur því ekki gengið neitt né rekið pólitískt hjá Ingibjörgu Sólrúnu eftir að hún felldi svila sinn Össur í hörðu formannskjöri fyrir einu og hálfu ári. Nú er staða mála þannig að Samfylkingin mælist með 16 þingsæti. Samfylkingin mælist með 7 þingmenn í Reykjavík, 4 í Kraganum, 1 í Norðvesturkjördæmi og 2 í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Það er ekki beint sú uppskera sem Ingibjörg Sólrún hefur stefnt að. Það virðist óravegur frá þeirri Ingibjörgu Sólrúnu sem var borgarstjóri og svo þeirri sem leiðir Samfylkinguna. Hún hefur aldrei fundið sig í landsmálunum.
Það hefur blasað við um langt skeið að Samfylkingin hefur ekki tiltrú landsmanna og þar hefur hringlandagangur staðið flokknum verulega fyrir þrifum og veikt stöðu hans. Það eru mikil pólitísk tíðindi að Ingibjörg Sólrún gangi hreint til verks og viðurkenni nú loksins þessa stöðu mála fyrir kjósendum.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Ætla að sjá til þess að Samfylkingin vinni ötullega í nýrri ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2006 | 15:00
Framboð Árna mun skaða Sjálfstæðisflokkinn

Ég spáði því þegar að ólgan hófst vegna þessa máls að við myndum tapa fylgi um allt nema einmitt í Suðurkjördæmi. Það er að koma all illilega á daginn og með áþreifanlegum hætti. Tap Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi er sérstaklega sláandi, þykir mér. Í Reykjavík norður missir flokkurinn tíu prósentustig og í Reykjavík suður rétt innan við það. Í Kraganum minnkar fylgið um 10 prósentustig. Þetta hefur aðallega áhrif á konurnar í baráttusætunum. Færi þetta svona myndu hvorki Sigríður Andersen né Ragnheiður Ríkharðsdóttir ná kjöri á þing að vori og Birgir Ármannsson myndi falla af þingi.
Hér í Norðausturkjördæmi mældumst við í síðustu könnun hér með fjóra þingmenn og 37%. Þeir eru þrír núna og fylgistapið er rétt um sjö prósentustig, þó að prófkjör hefði farið fram í mánuðinum. Flokkurinn er aðeins jafnstór og síðast í Norðvesturkjördæmi en mikið fylgistap blasir annars við. Í Suðurkjördæmi hækkar flokkurinn um tvö prósentustig. Athygli vakti að fréttastofa Útvarpsins auglýsti þetta sem svo að Árni Johnsen væri að sópa til sín fylgi. Mér finnst það verulega brenglað fréttamat, enda er hækkunin ekki mikil milli mánaða en hún verður meiri í mönnum talið vegna fylgistaps Samfylkingarinnar þar. En þetta er mikið umhugsunarefni vissulega.
Allir flokkar verða fyrir áfalli í þessari skoðanakönnun nema Frjálslyndir og VG mögulega, þó þeir séu greinilega að byrja að dala á viðkvæmum tímapunkti. Athygli vekur að Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með sjö þingmenn. Það er ekki gleðiefni miðað við helstu áherslur þeirra, t.d. í innflytjendamálum. Þær áherslur virðast reyndar á góðri leið með að kljúfa flokkinn, sbr. uppsögn Margrétar Sverrisdóttur og innri væringar því tengt. Það er annars greinilegt að Samfylkingin á í verulegri krísu. Hún mælist nú aðeins með 16 þingsæti og draumar um stjórnarforystu virðast fjarlægir.
En þessi könnun er fyrst og fremst verulegt áfall Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er þarna í áþekkri stöðu og í kringum síðustu kosningar. Á þessum vanda verður að taka og það fljótlega. Fylgistap Sjálfstæðisflokksins á sér eðlilegar ástæður að mínu mati. Það verður að horfa til Suðurkjördæmis í þeim efnum og á þessu verður að taka, sem fyrst. Það er mjög einfalt mál í mínum huga.
![]() |
Skora á Árna Johnsen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2006 | 17:46
Harðvítug valdabarátta innan Frjálslynda flokksins

Sagði Sverrir að sannleikurinn um uppsögn Margrétar væri sá að forysta flokksins væri að reyna að ryðja henni úr vegi og snúa flokknum til annarrar áttar, t.d. í innflytjendamálum, þar sem Margrét hefur verið málsvari mildari og mannlegri áherslna en t.d. Jón Magnússon og varaformaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson, sem hljóma eins og sálufélagar í þessum málum. Ergja stofnendahóps flokksins, herráðs Sverris, með stjórn flokksins er greinileg og er að ná hámarki.
Er greinilegt að feðginin eru að leggja til atlögu við forystu flokksins eftir þessa augljósu aðför að Margréti og hún svarar þessum vinnubrögðum í viðtali við RÚV með þeim orðum að hún láti ekki hrekja sig úr Frjálslynda flokknum með bolabrögðum. Sverrir er eins og fyrri daginn mun beinskeyttari og sparar ekki stóru orðin nú síðdegis, ekki frekar en í Silfri Egils um síðustu helgi. Tal Guðjóns Arnars í viðtali við Rósu Björk og Heimi í Íslandi í bítið í morgun um uppsögn Margrétar var mjög ósannfærandi og þeirri spurningu fékkst í raun aldrei svarað hversvegna Margréti væri sagt upp með svo kuldalegum hætti ef samstaða væri um störf hennar og virðing borin fyrir þeim.
Sverrir gekk reyndar svo langt í viðtalinu nú klukkan fimm að segja að greinilegt væri að Guðjón Arnar hefði gert Jón Magnússon að ráðningarstjóra sínum og þeir kumpánar vildu skipta um áhöfn á skútunni. Framundan er landsþing Frjálslynda flokksins í næsta mánuði. Þar verður forysta flokksins í kosningabaráttunni kjörin. Heldur verður nú að teljast líklegt að það landsþing verði þing átaka og uppgjörs milli hinna augljósu fylkinga í flokknum. Ekki kæmi það á óvart færi Margrét Sverrisdóttir þar í formanns- eða varaformannsframboð og reyndi að steypa forystumönnum þar. Öllum er allavega ljóst að flokkurinn logar í óeiningu.
Fróðlegt er að sjá skrif Valdimars Jóhannessonar í Fréttablaðinu í dag. Þessi kostulegi maður, sem leiddi framboð Nýs afls hér í Norðausturkjördæmi með litlum árangri, virðist vera kominn þangað inn aftur, en hann leiddi Frjálslynda í Reykjaneskjördæmi hinu forna í kosningunum 1999. Hann yfirgaf flokkinn með Gunnari Inga Gunnarssyni árið 2001 vegna eftirminnilegra átaka við Sverri og Margréti. Hann virðist kominn aftur til að hefna gamalla misklíða ef marka má pistilinn sem ber allt yfirbragð hefndaþorsta í garð tiltekinna aðila.
Það er öllum ljóst að Frjálslyndi flokkurinn logar stafnanna á milli. Uppsögn Margrétar og hörð orð stofnandans í garð formannsins og félaga hans sýnir það svo ekki verði um villst.
![]() |
Guðjón segir Margréti þurfa tíma í aðdraganda kosninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2006 | 16:14
Tvö andlit Jóns Sigurðssonar

"Það er mjög auðvelt fyrir okkur að gagnrýna. Það var kosningabarátta í gangi, þingið var farið heim í kosningabaráttu og svo framvegis. Þeir tóku sína ákvörðun á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir. Og mér finnst það mjög ódýrt að sitja hér í þægindum nokkrum árum síðar og fara að gagnrýna það hvernig að sú ákvörðun var tekin, og ég tek ekki þátt í því."
Jón Sigurðsson, verðandi formaður Framsóknarflokksins (júlí 2006)
"Forsendurnar voru rangar og ákvörðunarferlinu var ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar, eða mistök. Svonefndur listi um staðfastar þjóðir var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás."
![]() |
Mannfall úr röðum óbreyttra borgara í Írak jókst um 43% í nóvember |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 15:28
Beitt svarskrif Þorsteins til Jóns Baldvins

Rannsókn hófst á málinu og stefnir í lok hennar þessa dagana. Viðtal við Jón Baldvin í Fréttablaðinu á miðvikudag um málið vakti verulega athygli lesenda, en þar komu fram dylgjur um að ekki hefði verið hægt að treysta dómsmálaráðuneytinu fyrir rannsókn á málinu þá. Á árunum sem meintar hleranir áttu að hafa farið fram voru þeir ráðherrar í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Þorsteinn dómsmálaráðherra. Hann tekur því ummæli Jóns Baldvins til sín og spyr hreint út hvort þau séu raup eða alvara af hans hálfu.
Það verður seint sagt að miklir kærleikar séu milli þeirra Þorsteins og Jóns Baldvins. Þeir unnu saman í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks 1987-1988 undir forsæti Þorsteins. Það var stormasöm og hvöss sambúð. Lokahrina stjórnarsamstarfsins var erfið fyrir alla leiðtoga samstarfsins og kergjan milli þessara tveggja manna náði nýjum hæðum. Lauk samstarfinu með því að Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur slitu samstarfinu og allt að því hentu Þorsteini og sjálfstæðismönnum frá völdum. Þeir unnu saman í stjórn Davíðs 1991-1995 en ekki var það kærleiksrík sambúð. Um fall stjórnar Þorsteins Pálssonar ritaði ég þennan pistil í haust.
Það hefur verið hiti yfir Þorsteini í Skaftahlíðinni þegar að þessi öflugi leiðari var ritaður. Þetta er skyldulesning, segi ég og skrifa. Fróðlegt verður að heyra svar Jóns Baldvins við þessum öflugu skrifum ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrum samtarfsmanns hans í ríkisstjórn Íslands, sem sat sem forsætisráðherra með stuðningi hans og Alþýðuflokkins í fjórtán stormasama mánuði fyrir tveim áratugum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 07:03
Margréti Sverris sagt upp - ólga hjá Frjálslyndum

Greinileg ólga virðist innan Frjálslynda flokksins um stefnur og áherslur. Fylkingar hafa myndast þar t.d. vegna innflytjendamála og deilur verið milli Margrétar og formanns og varaformanns flokksins um stöðu mála. Hefur henni og föður hennar verið mjög uppsigað við Jón Magnússon, formann Nýs afls, sem nýlega gekk til liðs við flokkinn, en Sverrir kallaði hann utanveltubesefa í Fréttablaðsviðtali nýlega og sagði honum og Magnúsi Þór Hafsteinssyni til syndanna í viðtali í Silfri Egils um síðustu helgi.
Greinileg skil eru að verða innan flokksins vegna innflytjendamálanna. Í viðtali við Morgunblaðið segist hún ekki í vafa um að uppsögn sín stafi af því að hún hafi mótmælt rasískum hugmyndum Jóns Magnússonar og ætlar hún að leggja málið fyrir miðstjórn flokksins. Þess má reyndar geta að Margrét er ritari flokksins og framkvæmdastjóri flokksheildarinnar allrar. Það vekur því athygli að þingflokkurinn treysti ekki flokksframkvæmdastjóranum fyrir stjórn mála hjá Frjálslyndum.
Er Frjálslyndi flokkurinn að klofna? Stórt er spurt, klofningsmyndunum þar verður vart neitað úr þessu altént.
![]() |
Margréti Sverrisdóttur sagt upp hjá Frjálslyndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 00:59
Skaðar Árni Johnsen Sjálfstæðisflokkinn?

Það leikur enginn vafi á því að ergja er meðal flokksmanna um þessi ummæli Árna Johnsen og þau komu af stað reiðiöldu innan Sjálfstæðisflokksins. Ég get sagt það bara hreint út sagt fyrir sjálfan mig að ég get ekki hugsað mér að leggja mikið að mörkum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningabaráttu verði Árni þar í framboði, úr því sem komið er. Allt tal um að veita Árna annað tækifæri er fjarstæðukennt að mínu mati. Síðbúin afsökunarbeiðni hans kom það seint að hún var varla metin trúverðug. Það hafði aldrei áður komið nein alvöru iðrun frá Árna á lögbrotum hans.
Ég finn það alveg á fólki sem ég þekki og flokksmönnum sem ég hef samskipti við að fólk telur Sjálfstæðisflokkinn varla á vetur setjandi með Árna Johnsen sem alvöru þingframbjóðanda. Úrsagnir úr flokknum hafa sagt sína sögu og ályktanir SUS og LS voru mjög afgerandi. Þetta fall Sjálfstæðisflokksins túlka ég varla nema sem fall vegna þessa máls. Ég veit ekki um neitt mál sem hefur orðið erfiðara fyrir flokkinn og umræðan um allt land vegna Árna er öllum ljós sem með fylgjast. Það treystir sér enginn sjálfstæðismaður, nema kannski frá Eyjum, orðið til að verja Árna. Ég sé mér allavega ekki fært að gera það eftir þetta dæmalausa klúður hans í orðavali. Það er mjög einfalt mál.
Það er ekki hægt að meta þessa skoðanakönnun nema líta á mikla umræðu um mál Árna. Fall Sjálfstæðisflokksins milli mánaða er það augljóst að menn verða að vega og meta stöðuna út frá fylgismissinum sem þarna blasir við. Samhengið finnst mér vera augljóst. Ég tel ekki að þetta fylgi sé hrein tilfærsla til Frjálslynda flokksins bara vegna innflytjendaumræðunnar. Ég hef rætt við fjölda fólks um málefni Árna Johnsen og ég heyri alltaf það sama, hvort sem er í hópi flokksmanna eða í hópi fjölskyldu og vina að staðan er metin nær allsstaðar eins. Sjálfstæðisflokkurinn veikist með því að hafa Árna í alvöru sæti. Það er ekki furða að menn innan flokksins séu hugsi yfir stöðunni.
Ég sagði hér fyrir viku að ég gæti ekki séð mér fært að verja að Árni tæki sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og færi á þing í nafni hans eftir það sem gerðist eftir sjálft prófkjörið. Ég var svosem aldrei yfir mig sæll með endurkomu Árna, en hann fékk þó annað tækifæri til að byggja sig upp. Árni mélaði það sjálfur. Talað er um mögulegar breytingar á framboðslista flokksins í Suðrinu á kjördæmisþingi. Ekki kemur það mér á óvart í ljósi alls sem gerst hefur.
Ég ítreka þá skoðun mína að forysta Sjálfstæðisflokksins verður að grípa til sinna ráða verði ekki brugðist við á kjördæmisþingi við þessum málum eða Árni finni það hjá sjálfum sér að framboð hans veiki Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu. Við verðum að hugsa um hag flokksins í þessum efnum. Það blasir við öllum að það mun aðeins veikja Sjálfstæðisflokkinn fari Árni ofarlega á lista úr þessu.
![]() |
Fylgi Frjálslynda flokksins eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2006 | 20:01
Óvinir ríkisins

Í bókinni kemur fram að úrskurðað hafi verið um hleranir hjá fjölda einstaklinga hér á landi sem ekki hafi verið nefndir á nafn til þessa í umfjöllunum um hleranir á tímum kalda stríðsins. Eru þar nefnd til sögunnar leikarahjónin Arnar Jónsson og Þórhildi Þorleifsdóttur, fyrrum alþingismann, Pál Bergþórsson, fyrrum veðurstofustjóra og veðurfræðing, Margréti Indriðadóttur, fyrrum fréttastjóra Ríkisútvarpsins, og Úlf Hjörvar, rithöfund. Ef marka má lýsingar á þetta fólk að hafa verið metið ógn við öryggi ríkisins og sent inn beiðnir fyrir hlerunum í sex skipti á árunum 1949-1968.
Útgáfa bókarinnar kemur nokkrum dögum eftir að upplýst var að sími Hannibals Valdimarssonar, fyrrum ráðherra og forseta ASÍ, var væntanlega hleraður og veitt til þess leyfi. Hefur verið um fátt talað meira síðustu dagana en þá uppljóstrun. Gerðist þetta á árinu 1961, en á þeim tíma sat Hannibal á Alþingi og var forseti Alþýðusambandsins. Nokkrum árum áður hafði Hannibal verið ráðherra og áður verið formaður Alþýðuflokksins og sat á þessum árum á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Síðar varð hann ráðherra aftur og var áhrifamikill forystumaður á vinstrivængnum, allt til loka stjórnmálaferilsins árið 1974.
Það er alveg greinilegt að þessa bók verð ég að lesa fljótlega og ég stefni að því að kaupa mér hana. Ég stefni að því að lesa hana er ég hef lokið við lestur á ævisögu Margrétar Frímannsdóttur, siðasta formanns Alþýðubandalagsins, en hún er þessa dagana í lestri hjá mér. Mér hefur fundist skrif Guðna Th. bæði áhugaverð og fróðleg. Í fyrra gaf hann út vandaða bók, Völundarhús valdsins. Byggðist hún á ítarlegum minnispunktum og dagbókum dr. Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta íslenska lýðveldisins, frá því í forsetatíð hans 1968-1980.
Birtust þar áður óbirtar heimildir úr einkasafni Kristjáns. Var í bókinni sjónum einkum beint að stjórnarmyndunum í forsetatíð hans og því hvernig hann hélt á þeim málum á ferli sínum. Keypti ég mér þá bók um leið og hún kom út og las hana með miklum áhuga og ritaði þennan pistil á svipuðum tíma. Var Völundarhús valdsins að mínu mati ein af best heppnuðu bókum um stjórnmál á seinustu árum og væntanlega er Óvinir ríkisins ekki síður vel heppnuð.
![]() |
Leyfi veitt fyrir símhlerunum hjá fjölda þekktra einstaklinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 01:15
Síðbúin afsökunarbeiðni á tæknilegum mistökum

Ég hef á þessum vef talað hreint út um málefni Árna Johnsen. Það hefur ekki verið nein tæpitunga, eins og allir vita sem lesið hafa. Mér blöskraði afleitt orðalag Árna í fjölmiðlum eftir að hann fékk annað tækifæri til framboðs fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir lögbrot hans á sínum tíma, sem leiddi til þess að hann varð að sitja í fangelsi fyrir. Með orðum sínum mélaði Árni Johnsen þetta gullna tækifæri og gerði að engu þá góðvild sem hann mætti meðal fjölda fólks og gerði forystumönnum Sjálfstæðisflokksins mjög erfitt fyrir. Þetta var alveg skelfilegt klúður hjá þessum manni, svo hreint út sé talað.
Mér fannst þessi grein merkileg í ljósi þess hve langt var liðið frá ummælum Árna um tæknilegu mistökin. Þá voru um tvær vikur liðnar frá þessum dæmalausu ummælum og ekkert heyrst í Árna áður nema máttlaust yfirblaður í Fréttablaðinu nokkrum dögum áður. Ég er einn þeirra sem hefði alveg getað hugsað mér að taka Árna í sátt hefði hann beðist afsökunar á réttum tímapunkti og unnið málið með eðlilegum hætti. Það kaus hann að gera ekki. Ég get því ekki litið á þessa grein með öðrum augum en að þarna komi fram þvinguð afsökunarbeiðni í ljósa hita umræðunnar sem kviknaði vegna orðavals Árna.
Mér fannst merkilegast við að lesa greinina að ég trúði ekki orði af því sem þessi maður var að skrifa. Ég sá aðeins fyrir mér sama mann muldra orðin tæknileg mistök um lögbrot sín, þar sem reynt var að gera lítið úr alvarlegum afbrotum, sem enn eru í minni landsmanna. Mér finnst gríðarleg reiði almennra flokksmanna innan Sjálfstæðisflokksins vegna þessara ummæla hafa komið vel fram í ályktunum Sambands ungra sjálfstæðismanna og Landssambands sjálfstæðiskvenna. Það eru skoðanir forystufólks í stórum landssamböndum innan flokksins. Það er rödd sem skiptir máli, á því leikur enginn vafi í huga fólks. Úrsagnir úr flokknum tala líka sínu máli.
Það er erfitt að snúa úr þessari stöðu. Ég er enn sama sinnis nú og ég var í skrifum hér á föstudagskvöldið. Mér fannst þessi grein skilja lítið eftir sig. Hefði hún komið viku fyrr hefði ég jafnvel getað hugsað mér að segja að þessi maður ætti skilið einhvern séns á því að vera fyrirgefið. Mér varð enda að orði við sessunaut minn í kaffipásunni í Oddeyrarskóla þennan laugardagsmorgun þegar að við ræddum um þetta: Too little - too late. Fá orð en þau segja allt sem ég hef að segja um þessi skrif.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)