Prófkjör á laugardaginn - nýr leiðtogi kjörinn

Sjálfstæðisflokkurinn Nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verður kjörinn í prófkjöri flokksins á laugardag. Það líður að lokum prófkjörsbaráttunnar. Hún hefur verið lífleg; leiðtogaframbjóðendurnir þrír hafa verið mjög áberandi, opnað kosningaskrifstofur og heimasíðu og auglýst talsvert. Það er því mikið lagt í baráttuna og mikil vinna sem frambjóðendurnir leggja á sig. Það er skiljanlegt, enda hefur hér ekki verið prófkjör hjá flokknum í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 er Halldór Blöndal vann prófkjör.

Þetta eru því lífleg en um leið heiðarleg prófkjörsbarátta, eftir því sem ég heyri allavega. Það sem gerir baráttuna líflegri hér en ella eru einmitt prófkjörsskrifstofurnar, sem er nýbreytni í svona prófkjörsbaráttu hér um slóðir. Sjö frambjóðendur af níu hafa opnað heimasíður og í bréfalúgur okkar hafa safnast saman dreifirit frambjóðenda og kynningarefni. Þetta er því ekta prófkjörsslagur að hætti þess sem gerist og gengur í Reykjavík. Það er svosem ekkert nema gott um það. En fyrir leiðtogaefnin er þetta greinilega mjög dýr barátta og mikið lagt í verkefnið. Það er engin furða, enda gæti leiðtogastóllinn verið ráðherrastóll að vori.

Mikið er spáð og spekúlerað í prófkjörsúrslitin. Mér finnst vera nokkur óvissa yfir. Flokksmenn hér halda hver með sínum kandidat, en flestir telja þó fjarri því öruggt hvernig fari. Það eru tveir frambjóðendur frá Akureyri sem gefa kost á sér til forystu og einn Austfirðingur. Að því gefnu ætti þetta hvergi nærri öruggt að vera, enda skiptast atkvæði á Akureyri á þessa tvo en fátt er vitað svosem að austan, þó flestir gefi sér að Arnbjörg njóti þar mikils stuðnings til forystu. Örlögin ráðast hér á Akureyri. Það hafa allir leiðtogaframbjóðendurnir sýnt með afgerandi hætti með þeim þunga sem lagt er í kosningabaráttuna þar. Þar eru enda flest atkvæðin í pottinum.

Það stefnir í spennandi helgi. Á laugardaginn er kjörfundur í Oddeyrarskóla hér á Akureyri frá 09:00-18:00 og á 21 kjörstað öðrum vítt og breitt um kjördæmið. Fyrstu tölur verða lesnar upp á talningarstað í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri af Önnu Þóru Baldursdóttir, formanni kjörnefndar, kl. 18:00 á sunnudagskvöldið. Þá er sólarhringur liðinn frá lokun kjörstaðar, en tíma tekur að safna öllum kjörgögnum saman og hefst talning kl. 14:00 á sunnudaginn. Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna.

Á morgun gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur á framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Við í stjórn málfundafélagsins Sleipnis stöndum fyrir þessum fundi og verður Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, fundarstjóri. Hvet alla Akureyringa til að mæta á fundinn annaðkvöld og heyra í frambjóðendunum níu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband