Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

5 ára stelpa stungin með eggvopni í Keflavík

Maður er eiginlega alveg orðlaus vegna frétta um að fimm ára stelpa hafi verið stungin með eggvopni í Keflavík.... eggvopnið var aðeins millimetrum frá því að fara í hjarta hennar.

Alveg hræðilegt... hvaða grimmdarhugur er að baki svona fólskuverki? Hvernig getur fullorðin manneskja gert barni þetta.... skelfilegt. Meira en lítið sjúk manneskja.

Á svona stundum er ekki nema von að maður hugsi hvað sé að gerast í þessu samfélagi.

mbl.is Telpan á gjörgæslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Örn Nielsen kjörinn formaður SUS

Ég vil óska Ólafi Erni Nielsen innilega til hamingju með formennskuna í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Er ánægður með að það var kosið um formennskuna og tekist á - tel að það sé gott fyrir flokkinn og ungliðahreyfinguna að það sé líflegur slagur um forystuna.

Sýnir bara styrkleika og karakter fyrir ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Formannsslagur hefur ekki verið síðan í Eyjum 1999 og kominn tími til að það sé ekki beinlínis sjálfkjörið í þetta.

Fyrst og fremst þarf að efla starfið úti á landi og virkja betur tengslin við það sem gerist þar. Of mikið hefur verið af því að teknar séu einhliða ákvarðanir án þess að tala við landsbyggðina.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur á krossgötum. Efla þarf ungliðastarfið til muna og taka til hendinni. Ég treysti Óla og nýrri stjórn til að gera það sem gera þarf.


mbl.is Ólafur Örn kjörinn formaður SUS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífsmark með Össuri í New York

Mikið var að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sýndi einhvern lit og sýndi eitthvað lífsmark í hópi þjóðarleiðtoganna í New York. Alltof lengi hefur vinstristjórnin þagað og sætt sig við framkomu IMF og fjölmargra þjóða við Ísland. Þar hefur gunguhátturinn haft betur ansi lengi... eflaust til að reyna að liðka við Evrópusambandsumsókninni. Ekki hefur mátt anda á neinn til að hafa alla góða.

Ekki hefur verið neinn dugur í þeim sem fara með völd hér á Íslandi að tala hreint út og reyna að tala máli Íslands, þegar þess er mest þörf. Þetta er fyrsta skiptið sem eitthvað heyrist annað en mjálm frá þessum stjórnvöldum. Össur þorði ekki að taka slaginn við Brown á leiðtogafundi NATÓ í vor þegar Jóhanna þorði ekki að fara til að hitta aðra þjóðarleiðtoga.

En þetta er samt allt frekar máttlaust. Össur hefur átt einhver samtöl í New York, enda kominn tími til að gera eitthvað annað en bíða og vona að hlustað sé á Íslendinga. Þegar stjórnvöld þora ekki að taka slaginn er ekki nema von að aðrir gangi á lagið og taki okkur í bóndabeygju.

mbl.is Össur ávarpaði allsherjarþing SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð samkeppni á matvörumarkaði

Ég vil óska Jóni Gerald Sullenberger góðs gengis með nýju verslunina. Okkur vantar alvöru samkeppni á íslenskum matvörumarkaði núna. Góð samkeppni er alltaf mikilvæg fyrir neytendur og skiptir sérstaklega máli núna þegar sjá má merki þess að samkeppnin er meira í orði en í verki.

Heilbrigð og góð samkeppni er eitthvað sem við ættum öll að vilja. Ef Jón Gerald telur sig geta farið í þá samkeppni með alvöru verslun og lág verð er það hið allra besta mál.

Auk þess er ástæða til að hrósa honum fyrir það að ráða eldra fólk til starfa hjá sér - jákvæð og virðingarverð stefna það.

mbl.is Jón Gerald opnar í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-málið á núllpunkti hjá vinstristjórninni

Því fyrr sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, brýtur odd af oflæti sínu og viðurkennir hið augljósa... að Icesave-málið er á núllpunkti hjá þessari vinstristjórn því betra! Augljóst er að málið er strand... erfitt að samræma áherslur svo allir haldi andlitinu í vinstriflokkunum.

Stóri vandinn er sá að vinstristjórnin gerði einn samning við Breta og Hollendinga og svo annan við óánægða þingmenn vinstri grænna... sem höfðu málið í gíslingu í allt sumar og tryggðu ásamt Sjálfstæðisflokknum að það komst í betri farveg fyrir íslensku þjóðina.

Nú þarf að gera þriðja samninginn... samræma báðar áherslur úr þeim fyrri. Ergó... málið er á núllpunkti. Það þarf að vinna upp á nýtt. Jóhanna ætti að viðurkenna þetta. Svona er staða málsins í dag.

Vinstristjórnin hefur setið í átta mánuði.... hún setti sér markmið að fara að vinna... gera eitthvað. Ekki getur hún verið stolt af þessum átta mánuðum. Öll mál eru stopp... það er ekkert að gerast.

Þetta felur feigðina í sér...

mbl.is Ekki séð fyrir enda Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir hafa betur í deilunni um Bakka

Mikil vonbrigði eru að vinstristjórninni hafi tekist að rústa viljayfirlýsingu um álverið á Bakka. Þetta er afrek vinstri grænna, sem aldrei hafa stutt framkvæmdina. Í raun tel ég að mesta skemmdarverkið hafi verið gert í umhverfisráðherratíð Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem var einbeitt í því að eyðileggja sem mest fyrir Þingeyingum, sem vildu byggja upp einhverja framtíð á sínu svæði.

Katrín Júlíusdóttir hefur verið frekar máttlaus í verkum sínum, en þó reynt að þoka málum áfram, halda verkefninu við, en er borin ofurliði af vinstri grænum. Þeir hafa kyngt svo mikið af ógeði frá Samfylkingunni á undanförnum mánuðum, beygt sig í mörgum lykilmálum, að kannski er ekki undarlegt að þeir spyrni við og reyni að drepa álverið á Bakka þegar þeir geta það.

Annars er augljóst að það er engin samstaða um fjölda mála hjá þessari ríkisstjórn. Hún er algjörlega ráðalaus á vaktinni, getur engar ákvarðanir tekið heilstætt. Hver dagurinn er öðrum líkur í aðgerðarleysi hennar. Forsætisráðherrann er úti á túni, getur ekki tilkynnt eitt né neitt og virðist vera eins og leikkona án handrits. Vandræðalegt en dæmigert vinstri ráðaleysi.

En ég vorkenni þeim Þingeyingum sem enn kjósa Samfylkinguna. Þeir höfðu einlæga trú á því að Katrín Júlíusdóttir myndi sem iðnaðarráðherra standa í lappirnar... treystu henni fyrir málinu og trúðu því fram á síðasta dag að orð myndu standa. En vinstri grænir ráða för í þessu síðasta hugsjónamáli sem þeir hafa ekki selt frá sér.

mbl.is Viljayfirlýsing ekki framlengd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfða bjargað

Þegar ég heyrði fyrstu fréttir af eldsvoðanum í Höfða óttaðist ég, eins og flestir, að þetta sögufræga hús, vettvangur leiðtogafundarins sem markaði þáttaskil við lok kalda stríðsins, væri að fara sömu leið og Valhöll á Þingvöllum. En því tókst til allrar lukku að bjarga með samstilltu átaki allra aðila... Þar skipti mestu máli auðvitað öflugt slökkvilið, vel búið af tækjum.

Mér fannst það gott að borgarfulltrúar með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, í broddi fylkingar mættu á svæðið til að hjálpa til með því að bjarga menningarverðmætum úr húsinu. Traust vinnubrögð í alla staði.


mbl.is Viðgerð á Höfða undirbúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti þetta ekki að verða Eftirlitsstofnun ríkisins?

Vinstristjórnin með Katrínu Jakobsdóttur í broddi fylkingar boða eftirlit með fjölmiðlum af hálfu ríkisins... svo öruggt sé að fjölmiðlarnir geri nú örugglega einhverja vitleysu. Þetta er eitthvað svo ekta vinstri að setja á fót svona eftirlitsbatterí... tilgangurinn er auðvitað alveg augljós.

Ætti þetta ekki frekar að heita Eftirlitsstofnun ríkisins en Fjölmiðlastofa... sem er btw lummó nafn....

mbl.is Fjölmiðlastofa hafi eftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannes í Bónus kastar grjóti úr glerhúsi

Jóhannes Jónsson í Bónus ætti ekki að vera að kasta grjóti úr glerhúsi með því að tjá sig sérstaklega um ráðningu Davíðs Oddssonar með þeim ómerkilega hætti sem hann gerir. Orð hans um að Davíð sé óheilbrigður maður eru verulega ósmekkleg og honum ekki sæmandi, vilji hann yfir höfuð að einhver taki mark á honum.

En kannski er það óþarfi að einhver taki mark á Jóhannesi.... eflaust. Eins og staðan er í samfélaginu er það algjör óþarfi.

mbl.is „Fortíðin til framdráttar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átakalínur og dramadrottningar

Ég óska nýjum ritstjórum Morgunblaðsins velgengni í verkefnum sínum. Blaðið er í eldlínunni með þá í frontinum. Allir fjölmiðlar vilja vera í sviðsljósinu.... Mogginn er sannarlega í sviðsljósinu nú. Hef haft eilítið gaman af dramadrottningum af báðum kynjum sem hafa farið af límingunum eftir að tilkynnt var um nýja ritstjóra í Hádegismóum.

Aldrei var hægt að búast við að allir séu sáttir, enda er Davíð Oddsson einn þeirra manna sem eru umdeildir, fyrst og fremst vegna þess að hann hefur skoðanir. Sumir hafa aldrei sætt sig við það.

Mikið væri lífið annars leiðinlegra ef enginn Davíð Oddsson væri til. Þeir eru samt margir sem elska að tjá sig um Davíð Oddsson og munu eflaust hafa gaman af því á næstunni.

Allir hafa skoðun á honum.... sá er lífsins gangur.

mbl.is Nýir ritstjórar til starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband