Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Alvarlegt mál

Manni er nokkuð brugðið við að heyra fregnir af því að Akureyringi hafi verið haldið föngnum og beittur líkamsmeiðingum. Þetta er nýr og skuggalegur veruleiki í samfélaginu okkar, sem við viljum helst ekki trúa að geti verið staðreynd. Mikilvægt er að taka á þessu máli og upplýsa það, svo vitað sé hvað gerðist og við séum viss um að við lifum í traustu samfélagi þar sem tekið er á alvarlegum afbrotum.

mbl.is Héldu manni föngnum í íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hranaleg vinnubrögð - erfið staða Borghildar

Segja verður alveg eins og er að framkoman við Borghildi Guðmundsdóttur er vægast sagt ömurleg... þetta mál einkennist af hranalegum vinnubrögðum enda augljóst að hún muni eiga erfitt að fóta sig í Bandaríkjunum á þröngum tímaramma.

Enginn er að tala um að hún vinni einhvern fullnaðarsigur í málinu eða sitji ein af forræði barnanna. Eðlilegast hefði verið að þetta mál gæti klárast með skynsamlegum hætti og mannsæmandi vinnubrögðum.

Borghildur hefur komið vel fyrir við að tala sínum málstað... ekki talað í upphrópunum og haldið sinni stillingu við erfiðar aðstæður. Held að hún hafi fengið mikinn stuðning meðal landsmanna.


mbl.is Fékk sms: Hæstiréttur staðfesti dóminn, sorry
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer talsmaður Björgólfsfeðga til starfa fyrir ríkið?

Mér finnst það merkileg kjaftasaga að Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga, hafi hitt Árna Pál Árnason, félagsmálaráðherra, á fundi í dag í félagsmálaráðuneytinu. Hvað voru þeir að ræða? Er Ásgeir, fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar, kannski að fara til starfa í ráðuneytinu eða fyrir Samfylkinguna í stjórnkerfinu? Ekki nema von að spurt sé.

Eðlilegt er að velta því fyrir sér af fullri alvöru hvort það sé möguleiki að talsmaður þessara umdeildu viðskiptajöfra, sem stóðu fyrir hinu margfræga Icesave, sé að verða pólitískur starfsmaður í stjórnkerfinu.

Eins og flestir vita var Ásgeir Friðgeirsson í þingframboði fyrir Samfylkinguna í kosningunum 2003 og hefði orðið þingmaður flokksins eftir afsögn Guðmundar Árna Stefánssonar árið 2005 hefði hann viljað.

Hann ákvað frekar að verða talsmaður Björgólfsfeðga. Er hann nú að fara aftur í pólitísk verkefni fyrir Samfylkinguna?


Umferðarslys og Hvalfjarðargöng

Mikil mildi er að vel fór í Hvalfjarðargöngunum áðan í þriggja bíla árekstri. Ég man vel eftir því að áður en göngin voru vígð var mikil talað um að þau yrðu slysagildra og varla treystandi að keyra þar um. Hrakspárnar voru miklar.

Eftir áratug hafa fá alvarleg slys verið þar og meira að segja þeir sem vöruðu við göngunum keyra þau frekar en fara Hvalfjörðinn. Þau hafa reynst trygg og traust - góður samgöngumáti.

Eflaust munu þau verða enn traustari samgöngumáti þegar hliðargöng verða komin í fyllingu tímans.

mbl.is Umferð beint um Hvalfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður sannfæring Ögmundar snarbeygð?

Brátt ræðst hvort Ögmundur Jónasson verði hetja þeirra sem vilja jarðsyngja afleitan Icesave-samning Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar eða snarbeygður kokgleypir Samfylkingarinnar, sem þarf að gefa eftir sannfæringu sína í einu mesta hitamáli síðustu áratuga, væntanlega lýðveldissögunnar allrar. Ögmundur hefur lagt margt undir með því að taka slaginn. Falli hann á sverðið til að bjarga ríkisstjórninni, bjarga andliti Samfylkingarinnar og heilagrar Jóhönnu frá niðurlægjandi ósigri verður lítið eftir af hugrekki eða pólitískum sannfæringartóni Ögmundar.

Sífellt betur kemur klofningur vinstri grænna í þessu mikla hitamáli í ljós, fyrst og fremst átök Ögmundar við Steingrím J. Sigfússon og helstu stuðningsmenn hans, sem hafa kokgleypt pólitíska sannfæringu sína fyrir völdin og bitlinga. Örlög þeirrar baráttu fylgir með í þeim slag um sannfæringu þingmanna sem fram fer bakvið tjöldin. Ögmundur og fleiri þingmenn vinstri grænna beygðu sig í ESB-málinu en eiga augljóslega erfitt með að sætta sig við ofurefli Samfylkingarinnar í þessu máli, máli sem ræður örlögum flokka og stjórnmálamanna um árabil, tel ég.

Vinstri grænir eru lemstraðir eftir þetta samstarf. Þegar eitthvað bjátar á kemur Jóhanna fram og hótar, eftir fylgir svo Össur yfirformaður og talsmaður Samfylkingarinnar þegar hinn ósýnilegi forsætisráðherra er ekki til staðar. Þetta eru undarleg vinnubrögð og minna frekar á farsa en alvöru stjórnmál á örlagatímum.

Ögmundur á eflaust erfitt val fyrir höndum; hvort valdastólar eða sannfæring sé heiðarlegra hnoss í pólitísku lífi hvers stolts manns.


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylda rifin upp með rótum

Borghildur Guðmundsdóttir stóð sig mjög vel í Kastljósi kvöldsins þegar hún talaði um þá afarkosti sem blasa við henni, að þurfa að rífa börn sín upp með rótum úr íslensku samfélagi og halda til Bandaríkjanna - án þess að hafa atvinnu- eða dvalarleyfi.

Hef mikla samúð með henni, enda eru aðstæðurnar mjög vondar og eiginlega verið að rífa fjölskylduna alla upp og haldið út í algjöra óvissu, sérstaklega fyrir hana þar sem alls óvíst er hvað gerist þegar hún þarf að fara úr landi eftir 90 daga.

Mér finnst þetta svolítið hranaleg vinnubrögð, enda er fjarri því augljóst að hún geti náð að koma undir sig fótfestu í Bandaríkjunum í þeim þrönga tímaramma, þegar hún hefur ekki einu sinni efni á farseðlunum.

Þetta var gott viðtal og ég tel að Borghildur hafi staðið sig vel. Vona að henni takist að klára þetta mál vel miðað við þessar erfiðu aðstæður.

mbl.is Íslenskri fjölskyldu vísað úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring Jóhönnu

Erfiðlega ætlar að ganga fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að átta sig á því að Icesave-málið fer ekki í gegnum þingið að óbreyttu. Málið er fallið í höndum ríkisstjórnarinnar. Enginn þingmeirihluti er fyrir málinu í þeirra röðum. Veruleikafirringin er samt algjör. Enn er talað um að hægt sé að setja einhliða fyrirvara við samning, fyrirvara sem Bretar og Hollendingar munu aldrei sætta sig við.

Tvennt er í stöðunni; annað hvort flautar ríkisstjórnin þennan samning af og reynir að semur upp á nýtt eða málið verður fellt í þinginu.... þá væntanlega eru örlög ríkisstjórnarinnar undir. Illa virðist ganga fyrir Jóhönnu og Steingrím að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna að þeim varð á við gerð samningsins og þau hafa ekki þingmeirihlutann sinn með sér í málinu.

Enn undarlegra er að stjórnarþingmenn á borð við Björn Val Gíslason ráðist að stjórnarandstöðunni fyrir að neita að styðja þennan handónýta samning Svavars Gestssonar, samning á pólitískri ábyrgð vinstri grænna, á meðan þeir hafa ekki einu sinni þingmeirihlutann með sér. Algjör veruleikafirring.

Held að þetta lið ætti að fara að vakna og viðurkenna orðinn hlut... þetta mál er dautt í höndunum á þeim.


mbl.is Ekki öll nótt úti enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er seigt í Íslendingum

Vandamálin hafa hrannast upp í íslensku samfélagi eftir hrunið. En vandamálin eru til að takast á við þau. Þó íslenska þjóðin hafi kannski eitthvað bognað er ég viss um að hún brotnar ekki eða sættir sig ekki við að gefast upp. Það er seigt í íslensku þjóðinni. Þó einhver uppgjafatónn sé í einhverjum er ég viss um að þjóðin stendur saman um að sigrast á þessum vandamálum og horfa fram á veginn, reyna að skapa sér framtíð og tækifæri í þessum vanda.

Þannig er Íslendingum best lýst og ekki þeim líkt að láta vandann sigra sig.

mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórþjóðahroki og þekkingarleysi Önnu Sibert

Ekki fannst mér grein Önnu Sibert viturlegt innlegg í íslenska þjóðmálaumræðu eða góð skilaboð til Íslendinga. Stórþjóðahroki er mjög áberandi í orðavali og greiningu hennar á vandamálum Íslands. Ekki mun hún fá marga til að taka stöðu með ESB-aðild með þessum skrifum. Auk þess finnst mér hún skrifa af lítilli yfirsýn um málin.

Hún nefnir ekki viðskiptaráðherra eða utanríkisráðherra Samfylkingarinnar (sem voru áberandi í aðdraganda og eftirmála hrunsins) í upptalningu yfir þá sem hún telur bera ábyrgð auk þess sem hún nefnir Davíð Oddsson einan sem fulltrúa Seðlabankans. Ekki er það heiðarlegt mat.

Voru ekki tveir hagfræðingar á vaktinni með Davíð? Hvað með aðalhagfræðing bankans sem nú er orðinn aðstoðarbankastjóri Seðlabankans? Hver er ábyrgð þeirra á vandanum að mati Önnu Sibert. Hún virðist þekkja lítið eða illa til fyrst hún skrifar með þessum hætti.

Stóra niðurstaða greinar Önnu Sibert er sú að við höfum verið of smá til að geta haldið velli og við séum of smá í heimsmyndinni. Svona stórþjóðahroki á ekki að vera vel fallinn til vinsælda á Íslandi, þó eflaust sé Samfylkingin ánægð með þessi skrif.

mbl.is Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjörsbomba frá rannsóknarnefndinni

Páll Hreinsson undirbýr okkur nú fyrir algjöra bombu frá rannsóknarnefnd um bankahrunið. Ég tel reyndar að allir hafi búist við mjög svartri skýrslu, enda er öllum ljóst að stjórnkerfið á flestum sviðum brást í aðdraganda hrunsins.

Þetta þarf allt að gera upp - fyrst og fremst til að skapa trúverðugleika til framtíðar. Fólkið í landinu mun ekki sætta sig við neinn hvítþvott.... heiðarlegt uppgjör er mikilvægt.

Ég hef haft mikla trú á þessari rannsóknarnefnd frá því að hún var skipuð. Þar er fólk sem ég treysti til að koma með heiðarlegt uppgjör, í allar áttir.

Eflaust verður þetta bomba... veit ekki hvort hægt er að búast við öðru þegar annað eins hrun hefur sligað heila þjóð.


mbl.is Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband