Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Aðför að lögreglu - haldið uppi lögum og reglu

Eftir aðfarir félaga í Saving Iceland til mótmælabaráttu, sérstaklega á Austurlandi, síðustu ár trúi ég mátulega þeim boðskap sem þaðan kemur. Lögreglan vinnur bara sína vinnu við að taka á þeim vanda sem fylgir mótmælaaðferðum þeirra. Við hverju er annars að búast af lögreglunni gagnvart þeim sem streitist á móti handtöku. Eiga þeir bara að fá að fara? Varla.

Lögreglan hefur skyldum að gegna - hún þarf að halda uppi lögum og reglum í þessu landi. Ef brotið er af sér verður það hlutverk lögreglunnar að taka á því. Ef harka færist í leikinn verður lögreglan að beita þeim vörnum sem hún hefur yfir að ráða. Lögreglan verður að hafa svigrúm til að sinna sínumv verkum.

Ég get ekki betur séð á þessu máli og fleirum tengdum Saving Iceland en lögreglan sé að sinna sínum skyldum. Ekkert samfélag á eða getur sætt sig við að opinberir starfsmenn séu ekki verndaðir til að sinna sínum störfum.


mbl.is Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarleysi fyrir lögreglu

Enn og aftur berast fregnir af því að mótmælendur, aðgerðarsinnar, eða hvað þeir vilja kalla sig láti skap sitt bitna á lögreglunni. Í nýlegri tölfræði kom fram að árásir á lögreglumenn hefðu sjaldan eða aldrei verið fleiri en síðasta árið. Virðingarleysið fyrir lögreglunni virðist stundum algjört. Aðförin að henni í mótmælunum í janúar var lágkúruleg og engum til sóma, enda var augljóst að samhugur með lögreglunni jókst í kjölfarið.

Þeir sem þar starfa eru aðeins að sinna sinni vinnu og hafa ekkert af sér gert til að verðskulda slíka lágkúru. Ég vona að flestir sjái að lögreglan vinnur fyrir okkur öll og á að njóta virðingar landsmanna.

mbl.is Sparkað í höfuð lögreglumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar gefa ekki eftir - samningur úr sögunni

Æ augljósara verður að Icesave-samningurinn hefur ekki stuðning á Alþingi. Hann hefur í raun verið sleginn út af borðinu með öllu tali um fyrirvara og breytingar. Illa var haldið á málum af samninganefnd Svavars Gestssonar - mörg alvarleg mistök gerð í samningsferlinu sem verða Íslandi dýrkeypt.

Enn verra er að hlusta á fjármálaráðherra neita að viðurkenna mistökin og þess í stað verja þau, vinna þar með gegn hagsmunum Íslands. Enn undarlegra er að sá maður kenni öðrum um samninginn sem er á pólitískri ábyrgð hans. Kastljósviðtalið við Steingrím J. var hálfgerð tragedía.

Nú er ljóst að Bretar munu ekki breyta samningnum. Varla furða svosem. Þeir höfðu fullnaðarsigur í baráttunni við lélega samninganefnd frá Íslandi og munu ekki beygja sig. Íslensk mistök í þessu samningsferli eru dýrkeypt og hafa mikil áhrif á framtíð málsins.

Ef einhver bógur væri í íslenskum stjórnvöldum myndu þau fara eftir heillaráðum Evu Joly og reyna að landa þessu máli með diplómatískum aðferðum þegar ljóst er að Icesave-samningurinn hefur ekki stuðning á Alþingi.


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin splundrast á mettíma

Á örfáum mánuðum hefur Borgarahreyfingin koðnað niður í innri ólgu og átök - hefur sett Íslandsmet í sundrungu og ósamstöðu. Þetta eru pínleg örlög hreyfingar sem ætlaði eflaust að vera þekkt fyrir eitthvað annað en innri klofning - gat ekki enst sumarþingið einu sinni án þess að splundrast upp á Alþingi. Illa er komið fyrir fjögurra manna þingliði sem getur ekki haldið saman lengur en hálft ár.

En varla kemur þetta samt að óvörum. Þegar varð ljóst í maímánuði að innri mein voru undir niðri í hreyfingunni. Þau hafa samt sligað hreyfinguna og þinghópinn sérstaklega mun fyrr en flestum óraði fyrir.

Þegar ég skrifaði þessa grein í maí sá ég fyrir að Borgarahreyfingin lifði ekki kjörtímabilið... en átti varla von á að þetta yrði orðið svona súrt fyrir sumarlok.

En við hverju var að búast af hreyfingu sem myndaðist utan um óánægju og fá stefnumál, almennt orðuð.

mbl.is Enginn þingmaður mætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. vinnur gegn hagsmunum Íslands

Mér finnst raunalegt að sjá Steingrím J. Sigfússon vinna gegn hagsmunum Íslands með því að taka frekar málstað Bretlands og Hollands en okkar. Ef hann væri einlægur talsmaður íslenskra hagsmuna myndi hann taka undir með Ragnari Hall og reyna að berjast fyrir því að borga minna en okkur er ætlað. Illa er komið fyrir Íslandi þegar stjórnvöld taka frekar málstað þeirra sem ráðast harkalega gegn íslenskum hagsmunum.

Ég verð að viðurkenna að ég taldi að einhver bógur væri í Steingrími J. Sigfússyni - hann væri hugsjónamaður og einlægur baráttumaður sinna stefnumála. Þegar á reyndi var það rangt mat. Hann var aumur bógur og seldi allar hugsjónir fyrir völd. Og nú vinnur hann gegn hagsmunum Íslands.

Þeir hljóta að vera sárir sem kusu þennan mann vegna hugsjóna hans.... hugsjónanna sem hann sveik.


mbl.is Svigrúm til að setja skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sköllóttur frakkaklæddur málari á Opel Corsa

Mér finnst nú lýsingin á málaranum merkilegust við fréttina um skemmdarverk á húsi Hreiðars Kaupþingsstjóra. Þar er talað um sköllóttan frakkaklæddan mann á Opel Corsa.... varla er þetta hópur ungra einstaklinga sem stóð fyrir þessu sé þetta rétt né heldur er þetta einhver sem tilheyrir órólegu hópunum sem málaði hús Rannveigar Rist. Óánægjan í garð bankamannanna er mikil og vissulega skiljanleg.

Samt sem áður er þetta árás á fleiri en þann sem ráðist er á. Þetta er árás á einkalíf viðkomandi, fjölskyldu hans sérstaklega. Oftast nær fólk sem hefur ekkert til saka unnið. En þetta er viðkvæmt mál.

mbl.is Sást skvetta málningu á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn Kaupþings snuprar Finn bankastjóra

Mér finnst það merkilegt að stjórn Nýja Kaupþings snupri Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra, með yfirlýsingu um beina andstöðu við lögbannsbeiðni á fréttaflutning RÚV - hann hafi í raun verið einn að verki. Eðlilegt er að spyrja sig að því hvort Finni sé sætt sem bankastjóra Kaupþings eftir þetta fíaskó.

Reyndar er orðið tímabært að skipta út öllum stjórnendum bankanna, auglýsa stöður bankastjóra og skipa nýtt fólk til verka. Fyrir trúverðugleikann, fyrst og fremst.


mbl.is Stjórn Kaupþings harmar skaðann af lögbanninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðlaus verknaður - aðför að einkalífi fólks

Árásin á hús Rannveigar Rist og annars fólks að undanförnu er siðlaus verknaður. Aðför að einkalífi fólks ber að fordæma. Hafi einhverjir eitthvað að athuga við verk Rannveigar er miklu betra að mótmæla við vinnustað hennar eða skrifa greinar gegn því sem þeir telja athugavert. Árás á húsnæði Rannveigar er árás á einkalíf hennar, eiginmann og börn hennar. Þar er ekki bara ráðist að einni manneskju.

Þeir hafa veikan málstað fram að færa sem ráðast svona að fólki. Þetta er algjör aumingjaskapur... árás í skjóli nætur, árás frá fólki sem þorir ekki að standa við skoðanir sínar.

mbl.is Skrifuðu illvirki á húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfellisdómur yfir ríkisstjórn og Seðlabanka

Álit Hagfræðistofnunar um Icesave-málið er risastór áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands. Skýrsla Seðlabankans er reyndar alveg hökkuð í spað og kemur í ljós að hún var pólitískt pantað álit fyrir forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann til að reyna að koma þessu Icesave-máli gegnum þingið. Æ betur verður augljós sú staðreynd að Íslendingar munu ekki geta staðið undir skuldbindingum vegna Icesave.

Auðvitað er það rétt hjá Hagfræðistofnun að hér verður fólksflótti að óbreyttu. Þetta er það sama og Eva Joly sagði í góðri grein sinni um helgina.... grein sem varð til þess að hún var rökkuð niður af spunameistara og upplýsingafulltrúa Jóhönnu Sigurðardóttur. Enn hefur forsætisráðherrann ekki komið fram og sett ofan í við aðstoðarmann sinn. Ekki er einu sinni reynt að lágmarka skaðann hjá þessu liði.

Þetta var reyndar vondur dagur fyrir þessa arfaslöku vinstristjórn, sem virðist endanlega að spila út. Fyrir utan að vinnubrögð Jóhönnu og Steingríms eru tætt niður lið fyrir lið í skýrslunni ræður viðskiptaráðherrann sér aðstoðarmann úr Landsbanka Björgólfsfeðga sem hjalaði útrásartóninn allt þar til hrundi yfir hann og félagsmálaráðherrann staðfestir loks að skjaldborgin fyrir almenning er engin.

Þetta er ekki beysið. Þessi vinstristjórn er að fjara út hraðar en jafnvel svartsýnustu menn spáðu fyrirfram.


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonlaust að stöðva lekann í Kaupþingsmálinu

Auðvitað var vita vonlaust fyrir veruleikafirrta stjórnendur Kaupþings að ætla að stöðva lekann í Kaupþingsmálinu með því að þagga niður í fréttastofunni í Efstaleiti. Vonlaust var að ætla að stöðva umræðuna á veraldarvefnum eftir að lánabókin var opinberuð þar. Nú er kominn tími til að hreinsað verði til í þessum bönkum, nýjir bankastjórar settir yfir þá alla og tekið til.

Bankastjórinn í Kaupþingi núllaði sig út með vinnubrögðum sínum og barnalegum tilraunum til að stöðva umræðuna. Hún er auðvitað alþjóðleg, enda ekki bara bundin við litla Ísland. Þetta er of stórt mál til að vera lókal issue á Íslandi.

Hvernig er það annars... á ekki að fara að taka til í þessu bankakerfi og láta vörslumenn siðlausu tímanna fyrir hrun fjúka?

mbl.is Danir æfir yfir lekanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband