Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Andstaða eykst við ESB-aðild

Ég er ekki undrandi á því að andstaða aukist við aðild Ísland að ESB. Eftir atburðarás undanfarinna mánaða er ekki við því að búast að áhugi Íslendinga á að tilheyra Brussel-valdinu hafi aukist. Merkilegasta niðurstaðan í þessari könnun er einmitt sú að Íslendingar telja hag sínum ekki betur borgið innan ESB.

Forðum sögðu mestu stuðningsmenn aðildar að aðildarviðræður einar og sér myndu styrkja krónuna og efla trú á henni. Auk þess myndu Íslendingar eiga auðveldar með að vinna úr sínum málum. Slíkt gerðist ekki og ekki líkur á því að það muni gerast.

mbl.is Fleiri andvígir aðild að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk stjórnvöld ósammála Íslandsvörn Joly

Greinilegt er á viðbrögðum úr forsætisráðuneytinu við greinaskrifum Evu Joly að einlæg vörn hennar fyrir Ísland á alþjóðavettvangi er litin hornauga. Á þeim bænum er ekki samhljómur með því sem Joly segir og því er pirringur aðstoðarmanns forsætisráðherra augljóst merki um að þessi ríkisstjórn hefur aldrei verið heiðarleg í að tala máli Íslands og reyna að ná viðunandi samningum af okkar hálfu.

Auðvitað er þetta sorgleg staðreynd. Enda ættu íslensk stjórnvöld að fagna þeim mikla bandamanni sem Eva Joly er. Leitun er að sterkari málsvara fyrir Ísland á alþjóðavettvangi, sem fær birta grein í fjórum blöðum í fjórum löndum, manneskja með sambönd og getur leikið lykilhlutverk í endurreisn Íslands.

Ekki virðist vera vilji fyrir því að nýta sér þau sambönd heldur er ráðist að henni. Ráðist að henni fyrir að verja Ísland. Þeim sem ráða för er ekki treystandi.

mbl.is Joly tókst það sem öðrum tekst ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið lagt á sig fyrir nokkra þúsundkalla

Svei mér þá ef ránin í verslunum á höfuðborgarsvæðinu eru ekki hætt að verða stórfréttir. Þetta er að verða reglulegt fréttaefni. Það hlýtur að vera mjög aðframkomið fólk sem leggur á sig verknað af þessu tagi. Það er allavega mikið lagt á sig fyrir nokkra þúsundkalla.

Virðist jafnan vera um að ræða ræða unglinga sem vantar smá skotsilfur í vasann sem tekur þá ákvörðun að grípa til vopna og ráðast inn í næstu verslun til að reyna að fá pening, oftast til að kaupa sér dóp.

En svona er þetta víst; við erum að verða eins og 300.000 manna úthverfi í bandarískri stórborg, þar sem ráðist er á fólk án tilefnis úti á götu, verslanir rændar og eigur fólks skemmdar.

mbl.is Vopnað rán í 11-11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnuð helgi á Akureyri

Full ástæða er til að hrósa Margréti Blöndal fyrir að hafa breytt verslunarmannahelginni á Akureyri í jákvæða og skemmtilega útihátíð, þar sem lífsgleði og notalegheit fá notið sín. Jákvæðnin og hlýjan í Margréti hefur mikið um að segja hvernig tekist hefur að breyta andrúmsloftinu í bænum þessa helgi og gera bæði bæjarbúa sem og gesti sátta við helgina. Mikið hafði verið deilt hér í bænum á umgjörð verslunarmannahelgarinnar - óánægjan sligaði hátíðina og skapaði ósætti meðal bæjarbúa.

Þetta er allt gleymt og grafið. Möggu hefur tekist að skapa notalega umgjörð um hátíðina, hefur leitað í sögulegar rætur tónlistarmenningar á Akureyri, reynt að skapa notalega stemmningu gömlu góðu Akureyrar með því að bjóða upp á pylsur með öllu plús rauðkál, endurvakti Valash-stemmninguna á Akureyri og hefur verið með lífleg þemu á helginni. Abba-þemað að þessu sinni var vægast sagt vel heppnað.

Þetta er umgjörð sem mér líst vel á. Magga á hrós skilið.... góður og glæsilegur árangur.


mbl.is Hjartans þakkir á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaleg viðbrögð Hrannars við góðri grein Joly

Mér finnst viðbrögð Hrannars B. Arnarssonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, við góðri grein Evu Joly vægast sagt mjög barnaleg. Hún talar heiðarlega um málin, kemur málstað Íslands á framfæri á alþjóðavettvangi. Þakka á Evu frekar en skamma hana fyrir að vera einlægur og traustur málsvari Íslands.

Greinilegt er að það fer í taugarnar á málpípu Jóhönnu Sigurðardóttur og áróðursmeistara hennar að Eva hafi skoðanir og verji Ísland.

Enn og aftur sannast að Samfylkingin er algjörlega ófær um að verja hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi.

mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbann á veikum grunni

Ekki var mikil reisn yfir fréttatilkynningu Kaupþings í kvöld þar sem aðrir fjölmiðlar en Ríkisútvarpið voru hvattir til að fara eftir lögbanni sem þeir fengu á fréttaflutning RÚV. Kaupþing verður að gera sér grein fyrir að ekki er hægt að stöðva frjálsa umræðu í landinu og vangaveltur almennings um þau myrkraverk sem gerð voru í bönkunum skömmu fyrir hrun þeirra.

Þetta er umræða sem grasserar og eðlilega vill fólkið í landinu fá að heyra alla söguna. Fylla þarf upp í heildarmynd hrunsins og nauðsynlegt er að afhjúpa algjörlega hvernig unnið var í bönkunum fyrir fall þeirra. Ekkert verður uppgjörið á þessu hruni án þess.

Vonandi verður þessu lögbanni hnekkt. Þar er frjáls umræða og fjölmiðlun í landinu undir... sjálft fjórða valdið.

mbl.is Lögbanni mögulega hnekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför að fjölmiðlum með Kaupþingslögbanni

Lögbann á umfjöllun um lánafyrirgreiðslur Kaupþings er alvarleg aðför að fjölmiðlun á Íslandi. Eðlilegt er að fjölmiðlar segi frá slíkum stórfréttum. Þegar lánabók verður aðgengileg á netinu, birt þar opinberlega, kemur það öllum landsmönnum við og eðlilegt að það sé fjallað um það.

Fólkið í landinu á rétt á að vita hverslags ósómi og siðleysi viðgekkst í bönkunum sérstaklega síðustu dagana fyrir hrunið.

Aldrei mun nást sátt um það að þagga niður í fjölmiðlum með þessum hætti.


mbl.is Kaupþing fékk lögbann á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsvinurinn Eva - dugleysi íslenskra stjórnvalda

Eva Joly á heiður skilið fyrir að tjá máli Íslands á alþjóðavettvangi á þessum erfiðu tímum. Hún talar tæpitungulaust og stendur sig betur en þeir sem ráða för í ríkisstjórn Íslands, þeir sem ættu að vera að berjast fyrir því að Ísland sé ekki sparkað í svaðið. Aumingjaskapur íslenskra stjórnvalda, bæði þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og þeirrar sem áður sat, verður lengi í minnum hafður. Þar hefur verið setið hjá og horft á miskunnarlaust einelti gegn Íslandi, árás vestrænna þjóða á varnarlaust land.

Mér finnst það gott að Eva tali hreint út, segi sem allir vita að við stöndum ekki undir öllum skuldbindingum sem settar eru á íslensku þjóðina með valdi. Mér finnst það henni til sóma að tjá sig með þessum hætti. Þeir sem setið hafa í ríkisstjórn síðasta árið og gert hver mistökin á eftir öðrum ættu að taka boðskapinn til sín og viðurkenna fyrir sjálfum sér og íslensku þjóðinni að illa hafi verið að verki staðið og við sætt okkur við meira ofbeldi en við eigum að láta bjóða okkur orðalaust. 

Þau einu sem hafa talað hreint út til þjóðarinnar, peppað hana upp og talað kjark og kraft til þjóðarinnar eru Eva Joly og Davíð Oddsson. Þau segja bæði að við stöndum ekki undir þessum þunga, fólk muni flýja og Ísland verða eitt fátækasta land í heimi.

Skilaboðin eru einföld en þau tala bæði heiðarlega... tala þjóðarinnar á mannamáli. Þau standa sig betur en þeir sem eiga að vera að stjórna landinu.

Eðlilega er spurt hvar fólkið sé sem eigi að vera í þessu hlutverki? Eru þau kannski upptekin við að komast til Brussel?

Þau ættu að skammast til að fara nú til þeirra sem véla um þessi mál og reyna á hvort Ísland eigi einhverja vini.

Þau ættu að hlusta á Evu!


mbl.is Stöndum ekki undir skuldabyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konan í gulu dragtinni deyr

Með andláti Corazon Aquino lýkur merkilegu tímabili í sögu Filippseyja og í stjórnmálasögu Asíu sem kenna má við Marcos og Aquino - valdaátökin miklu sem enduðu með falli Marcos-stjórnarinnar árið 1986 og er konan í gulu dragtinni náði völdum. Eftir að eiginmaður hennar, Ninoy, var myrtur við heimkomuna til Filippseyja árið 1983 varð Cory Aquino andlit byltingarinnar gegn stjórnvöldum í Filippseyjum, gulu byltingarinnar fyrir nýju og breyttu samfélagi.

Fall Marcos-stjórnarinnar, þegar Reagan-stjórnin sneri baki við Marcos og pólitískum fantabrögðum hans, var táknrænt í meira lagi fyrir nýja tíma í stjórnmálum í Asíu. Með gulu og léttu yfirbragði, sem táknuðu bjartari og betri tíma, komst hún til valda. Frægt var að gerðar voru um tuttugu tilraunir til að steypa henni af stóli. En kjörtímabilið kláraði hún. Síðan varð hún einskonar táknmynd umbrotatímanna í stjórnmálasögu landsins.

Nú er hún fallin frá. Skömmu fyrir endalokin kom hún úr sjálfskipaðri þögn eftir starfslokin til að reyna að fella Gloriu Arroyo að velli, annan kvenforseta landsins. Sú barátta vakti athygli og varanleg vinslit milli þessara kvenrisa í pólitískri sögu landsins. Cory Aquino þorði í pólitík. Hennar verður minnst fyrir sumpart umbrotatíma en líka að vera andlit breytinga til að binda enda á grimmd og einræði.


mbl.is Corazon Aquino látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk endalok hjá Björgólfi

Gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar er dramatískur endapunktur á brösóttum viðskiptaferli. Innan við ári eftir fall Landsbankans er veldi hans fallið og stendur ekki steinn yfir steini. Vissulega er Björgólfur einlægur og vandaður maður að mörgu leyti. En ég hef miklar efasemdir um hann sem bissnessmann eftir alla þessa hringekju sem við höfum verið í og fylgst með síðustu árin. Enda ekki óeðlilegt að hugleitt sé hvort leiðsögn hans hafi verið farsæl.

Þar var gamblað langt um efni fram og þeir sem tóku þar mestan þátt fóru langt fram úr sjálfum sér. Björgólfur er einn þeirra sem bera þar mikla ábyrgð. Björgólfur birtist eftir sem hinn einlægi baráttumaður gegn ósómanum, einum of seint. Afneitun hans var ekki trúverðug þá og ég efast um að margir vorkenni honum, þó fallið sé hátt. Hann talaði mikið um ábyrgð í Kastljósviðtali fyrir nokkrum mánuðum en bar hana ekki.

Í sannleika sagt trúi ég ekki Björgólfi - ímynd hans, sem hann reyndi að endurreisa, er í algjörri rúst og verður ekki púslað saman svo trúverðugt sé. Svo er það bara öllum öðrum en honum að kenna hvernig fór. Bara ef Seðlabankinn hefði látið hann fá meiri pening, þá hefði allt gengið - svo sagði Björgólfur.

Eitt er víst: Björgólfur, hinn iðrandi syndari, lenti í móðu, algjörum villigötum, og týndi sjálfum sér í græðginni. Hann hefði getað gert margt til að snúa málum á annan veg fyrir þónokkru en gerði ekki neitt, sukkaði í botn og iðraðist yfir falli sínu.

Ekki veit ég hvort Björgólfur eða aðrir yfirstjórnendur hrunsins muni rétta sinn hlut eða rísa upp úr öskustónni. En þeir eru ærulausir í þessu samfélagi. Svo mikið er ljóst.

mbl.is Björgólfur gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband