Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Davíð Oddsson var alla tíð á móti aðkomu IMF

Mér finnst það undarlegt að það sé meðhöndlað sem einhver ný tíðindi að Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi verið á móti aðkomu IMF hérlendis eða unnið gegn henni. Þvert á móti var hann ötulastur í hópi þeirra sem vildu ekki fá þá að borðinu og margar sögur gengið um að andstaða hans hafi tafið málið lengi vel og því ekki undarlegt að gengið hafi á ýmsu í þeim efnum.

Í raun má segja að aðkoma IMF hafi tekið yfir ákvarðanir Seðlabankans eins og æ betur hefur sést á síðustu vikum og mánuðum. Annars finnst mér merkilegt að æ fleiri sjái að varnaðarorð Davíðs fyrir og eftir hrunið og fleiri ummæli hans voru þess eðlis að hann hafi haft rétt fyrir sér allan tímann.

mbl.is Davíð lét AGS heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna gerir einræðisvaldinu í Kína til góðs

Á fimmtudag eru tveir áratugir liðnir frá því einræðisstjórnin í Peking valtaði með skriðdrekum yfir námsmenn á torgi hins himneska friðar, kæfði mótmæli þeirra og baráttu fyrir mannréttindum. Forsætisráðherra Íslands þorir ekki á þeim tímamótum að hitta Dalai Lama og með fylgja utanríkisráðherrann, forsetinn og fjármálaráðherrann. Einræðisvaldið í Peking hlýtur að vera mjög ánægt með Jóhönnu Sigurðardóttur, Össur Skarphéðinsson, Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, og Steingrím J. Sigfússon. Eru einhverjir aðrir ánægðir með dugleysi þeirra?

Öll þora þau ekki að hitta Dalai Lama og reyna með því að þóknast einræðisvaldinu í Kína, gera kommunum í Peking til góða. Ekki hægt annað en hafa hreina skömm á þessum aumingjaskap þeirra sem fara með völd hér á Íslandi. Össur flúði úr landi í einhverja Evrópureisu til Möltu þar sem hann er að reyna að læra eitthvað af inngöngu þeirra í Evrópusambandið. Lítur þar út eins og Eiríkur Fjalar. Þvílíkur ræfilskapur í þessum manni.

Ólafur Ragnar sýndi svo smáborgarlegt eðli sitt með því að fara á Smáþjóðaleikana og snakka við forseta Kýpur. Og Jóhanna og Steingrímur segja auðvitað ekki múkk. Hvað hefði formaður VG sagt ef sá flokkur væri í stjórnarandstöðu núna? Mikið var víst reynt að koma á fundi Jóhönnu og Dalai Lama en í forsætisráðuneytinu er ekki þorað að taka skrefið. Hún þorir ekki að feta í fótspor Lars Løkke Rasmussen.

Katrín Júlíusdóttir og Ögmundur Jónasson reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá þessari sambandslausu ríkisstjórn og hitta Dalai Lama. En það dugar skammt. Fjarvera þeirra ráðherra sem mestu skipta og útrásarforsetans er hróplega áberandi og þeim til mikillar minnkunar. Þar er enn og aftur verið að hugsa um hag Kínverja, ekki megi styggja einræðisvaldið í Peking.

mbl.is Mótmæla fundum íslenskra ráðamanna með Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þorir Jóhanna ekki að hitta Dalai Lama?

Mér finnst það algjörlega til skammar fyrir íslensk stjórnvöld að enginn fulltrúi þeirra ætli að hitta Dalai Lama, trúarleiðtoga Tíbeta, í Íslandsför hans. Hvers vegna þorir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki að hitta Dalai Lama? Er hún hrædd við kínversku kommana í Kína og einræðisstjórn þeirra eða er hún bara gunga? Hennar vegna vona ég frekar að hún sé gunga, enda er ekki viðeigandi að stjórnvöld sem vilja láta taka sig alvarlega séu eins og sirkusdýr fyrir einræðisstjórn.

Mikill sómi væri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að fylgja í fótspor Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem hitti Dalai Lama í Danmerkurför hans. Løkke var djarfur og einbeittur í þessum efnum, rétt eins og forveri hans, Anders Fogh Rasmussen, sem hitti Dalai Lama árið 2003. Mikilvægt er að stjórnvöld tali fyrir mannréttindum bæði í orði og ekki síður verki, séu ekki huglausar gungur.

Ekki er að spyrja að því að forsetinn er flúinn úr landi á fjarlæga íþróttaleika þegar Dalai Lama kemur til Íslands í fyrsta skipti. Er ekki hissa á því enda hefur þessi forseti okkar Íslendinga fyrst og fremst verið að reyna að sleikja kínversku kommastjórnina í Peking og dekstrað þá, bæði tekið á móti Jiang Zemin og Li Peng á Bessastöðum.

En hvað með Steingrím J. Sigfússon? Ætlar hann að láta það spyrjast til sín að hann tali bara fyrir mannréttindum í orði en gufi svo upp eins og gunga þegar á reynir í verki. Hann sem leiðtogi flokks sem hefur skreytt sig með mannréttindaáherslum á tyllistundum ætti að vilja sýna það í verki nú en ekki líta út sem vildarvinur einræðisvalds.

Þögn íslenskra stjórnvalda þegar Dalai Lama kemur til landsins er æpandi hávær. Þetta fólk gengisfellur sig annars með hverjum deginum sem líður frá kosningum og þarf ekki þetta eitt til.

mbl.is Dalai Lama í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkeypt stefnumót á Manhattan

Michelle og Barack Obama
Mér finnst það nú frekar vanhugsað hjá Barack Obama að gera sér sérstaka ferð til New York til að fara á stefnumót með konunni sinni, út að borða og í show á Broadway, sérstaklega á þessum erfiðu tímum í efnahagsmálum. Hefði skilið þetta ef hann væri að fara til New York í einhverjum embættiserindum. Sérstök ferð á Manhattan til að njóta lífsins lítur því miður út eins og algjört snobb, elítuismi sem passar frekar illa sérstaklega nú.

Bandarískir kjósendur ákváðu að kjósa Obama á síðasta ári þrátt fyrir augljós einkenni elítuisma á honum og kosningamaskínu hans. Margoft var hann sakaður um snobb og að vera fjarlægur almúgafólki og skynja ekki vandamál þeirra; bæði af Hillary Rodham Clinton og John McCain. Sú gagnrýni var fjarri því bara frá repúblikunum heldur mun frekar frá demókrötum inni í gamla kjarnanum í flokknum.

Óneitanlega dettur manni fyrst í hug varnaðarorð gömlu demókratanna sem fannst Obama vera of fjarlægur til að skynja vanda almúgafólks. Þessi ferð til New York er eiginlega of snobbleg til að teljast innlegg inn í pólitíska umræðu en eflaust verður hún sett í pólitískt samhengi þrátt fyrir það.

mbl.is Obamahjónin á stefnumót á Broadway
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing Íslands á alþjóðavettvangi stórsköðuð

Ekki er hægt að neita því að virðing Íslands á alþjóðavettvangi er stórlega sködduð. Þegar Svíar vilja ekki setja íslenska fánann á sérstaka fánastöng er illa fyrir okkur komið og orðsporið ekki beinlínis upp á sitt besta. Þetta er það sem við höfum svosem óttast mest: að útrásarvíkingarnir og liðið sem fylgdi þeim hafi dregið okkur öll með sér í svaðið, ekki aðeins peningalega heldur sé orðspor okkar allra farið með þeim.

Óhjákvæmilega læðist að manni sú hugsun að það taki ár eða áratugi að koma málum svo fyrir að Ísland sé virt vörumerki á alþjóðavettvangi að nýju eftir allt útrásarsukkið. Eflaust þurfum við ný andlit til að geta verið andlit á nýrri uppbyggingu. Varla gengur fyrir okku t.d. að senda útrásarforsetann, sem var gestgjafi allra gjaldþrotapésanna sem spiluðu okkur út í horn, til að reisa við orðsporið. 

En kannski er staðan orðin sú að um allan heim vorkenni fólk hinum lánlausu Íslendingum. Ég finn t.d. að Bretar hugsa hlýrra til okkar en illhugur í Downingstræti ber vitni um. Vonum það besta, það takist að rífa sig út úr þessu ólukkans standi.

mbl.is Slepptu íslenska fánanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atlaga vinstriaflanna gegn fólkinu í landinu

Vinstristjórnin sýnir sitt innra eðli og ráðleysi með því að auka álögur á íslenskan almenning um tólf milljarða; 8 milljarða í gegnum hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána og rúma 4 milljarða í gegnum vörugjöld. Þvílíkt kjaftshögg framan í fólkið í landinu. Þetta veikir stöðu almennings og ekki óvarlegt að álíta að þeir Íslendingar sem eru ekki fastir í skuldafangelsi fari hreinlega að flýja land.

Fjölmargir sitja svo eftir í fangelsi heima hjá sér skuldum hlaðin og í fjötrum ástandsins. Þvílík framtíðarsýn í boði vinstriaflanna í landinu. Þetta eykur aðeins vanda fólksins í landinu og sligar heimilin, sem nógu illa voru stödd fyrir og í raun alveg á bjargbrúninni.

Þetta eru ekta vinstrisinnaðar lausnir, fyrst og fremst skólabókardæmi um hversu veruleikafirrt liðið er sem treyst var fyrir þjóðarskútunni. Gremja almennings er auðvitað mikil. Sumir töldu virkilega að vinstriöflin myndu bjarga heimilunum í landinu.

Ekki furða að varla var stafkrókur í stjórnarsáttmálanum um heimilin í landinu og aðgerðir til lausnar vandanum. Eina úrræðið er að auka vandann um allan helming. Þvílík vinnubrögð.

Nú sjáum við í raun hvað ríkisstjórnin meinti með skjaldborginni. Það voru auðvitað bara orðin tóm; frasi í kosningabaráttu og á fjölprentuð kosningaspjöld.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin veitir heimilum landsins náðarhöggið

Ég held að vinstristjórnin sé að fara langleiðina með að veita heimilum landsins náðarhöggið með hækkun gjalda á eldsneyti, tóbaki og áfengi. Þetta er eflaust bara byrjunin. Væntanlega bara fyrsti kaflinn þar sem reynt er að krafsa ofan í tóma vasa Jóns og Gunnu úti í bæ. En er eitthvað þar til skiptanna? Mun þetta gamalgróna úrræði vinstriflokkanna duga? Efast um það.

Verkefni fólksins í landinu núna mun á næstunni verða að borga óráðsíu útrásarvíkinganna, sem voru forðum daga í kampavínsboðum hjá forsetasvíninu á Bessastöðum, þeirra sem settu þjóðina á hausinn. Lánin þjóta nú upp úr öllu valdi og vandséð hvernig fólkið í landinu geti náð endum saman.

Á eftir að sjá að fólkið í landinu láti þetta þegjandi yfir sig ganga. Það er að koma sumar og væntanlega megum við eiga von á hitasumri og auknum mótmælum. Nú fer millistéttin í þessu landi að láta í sér heyra.

mbl.is Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. áttavilltur í Evrópuumræðunni

Ekki var mikið af hugsjónum og skoðunum í ræðu Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, þegar hann loksins fékkst í að mæta í þingsal í Evrópuumræðu, en hann hafði víst verið upptekinn í símanum þegar umræðan hófst í morgun. Ekki var mikið eftir af gamla Steingrími, sem við höfum séð á þingi í stjórnarandstöðu árum saman.

Ætli sé búið að afskrifa manninn með skoðanirnar, gamla Steingrím J, eins og gömlu bankana? Hvað varð um manninn sem hrópaði hátt og fór oft í ræðustól og talaði kjarnyrt - vildi að talað yrði hreint út um þjóðmál? Er hann gufaður upp eða kannski bara obbolítið áttavilltur í hjónasænginni með Samfylkingunni?

Svolítið raunalegt, ekki satt?

mbl.is Heimtuðu svör frá Steingrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ræða hjá Bjarna - skynsamleg tillaga

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stóð sig vel á Alþingi í morgun við að rekja lið fyrir lið gallana á þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra. Sú tillaga veitir Samfylkingunni í raun opið umboð til að fara til Brussel í Evrópuvegferðina sína og er algjörlega óviðunandi.

Ég tel að Bjarni og Sigmundur Davíð hafi gert rétt í því að koma með aðra tillögu; virkja utanríkismálanefnd til að fara í þá vinnu sem fylgir þessu ferli og reyna á samningsmarkmið fyrir aðild. Held að enginn geti kvartað yfir því að málið sé sett í slíkt ferli.

mbl.is Óskiljanlegt og illa undirbúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar VG flúnir úr Evrópuumræðunni

Mér finnst það táknrænt að ráðherrar VG séu flúnir úr ráðherrastólunum í þingsalnum þegar Evrópuumræðan fer þar fram. Staðan er núna þannig að þeir verða að styðja Evrópuvegferð Samfylkingarinnar eigi hún fram að ganga og svíkja þannig stefnu flokksins og hugsjónir sínar. Ekki er þingmeirihluti fyrir tillögu utanríkisráðherrans og Svarti Pétur kominn í þeirra hendur.

Nú ræðst hvort stjórnin stendur að baki tillögunni eða Samfylkingin ein. VG fær málið í sínar hendur. Fjarveran gefur til kynna að þeir hafi misreiknað taflið þegar þeir hétu Samfylkingunni að sitjá hjá og redda nægilega mörgum þingmönnum til stuðnings svo tillagan yrði samþykkt helst með atbeina stjórnarandstöðunnar. Það tafl er úr sögunni með tillögu stjórnarandstöðunnar.

VG situr uppi með örlög málsins í sínum höndum, þar á meðal ráðherrarnir sem flúðu úr ráðherrastólunum í þingsal í morgun.

mbl.is Ráðherrar VG ekki viðstaddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband