Færsluflokkur: Dægurmál
4.1.2007 | 11:15
Kostuleg kaldhæðni í Hádegismóum

Í greininni segir Sigurður G. að Sigurjón M. Egilsson verðskuldi titilinn blaðamaður ársins. Orðrétt segir: "Afrek SME á árinu 2006 verða ekki öll tíunduð hér, heldur látið við það sitja að nefna, að SME réð sig í þrígang sem ritstjóra dagblaða á síðasta ári, nú síðast til nýrrar DV-útgáfu. Hvernig SME umgekkst sannleikann og gerða samninga á árinu 2006 lýsir betur en mörg orð andlegu atgervi, heiðarleika og endalausri leit þessa eftirsótta og dáða blaðamanns að sannleikanum. SME er stéttarsómi og verðskuldar sæmdarheitið ,,Blaðamaður ársins".
Beitt skot og kaldhæðnin sést vel á milli línanna. En já, brátt kemur út fyrsta DV undir stjórn Sigurjóns. Þegar að yfirmenn Blaðsins ráku SME á dyr var það með þeim orðum að lögbanns yrði krafist á verk hans fyrir fjölmiðla út umsaminn samningstíma fyrir Blaðið. Fróðlegt verður að sjá hvort muni reyna á lögbannið fyrrnefnda um að Sigurjón geti ekki starfað við fjölmiðla fyrr en seint sumars 2007.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007 | 12:09
Fallegur nýársdagsmorgunn á Akureyri

Nýársmorguninn er fallegur á Akureyri. Snjór er yfir og friðsæl og notaleg stemmning. Sr. Matthías Jochumsson, prestur og heiðursborgari okkar Akureyringa, var merkur maður. Ég lauk lestrinum á ævisögu hans endanlega núna í morgun í frið og ró hérna heima. Yndisleg bók sem ég mæli svo innilega með. Ég hef alla tíð metið Matthías mikils og virði ljóð hans og prestsverk hér. Akureyringar hafa alltaf metið þau mikils, enda er sóknarkirkjan okkar um leið kirkja byggð í minningu hans. Farið er vel yfir alla hápunkta ævi Matthíasar í þessari ævisögu, sem ég heillaðist mjög af. En ég er líka einn af þeim sem finnst þjóðsöngurinn fallegur og vil engu með hann breyta.
Kl. 12:15 ætla ég að horfa á áramótaávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæjarstjóra, á bæjarssjónvarpsstöðinni N4 (áður Aksjón). Ávarpið hefur verið hefð í bæjarstjóratíð Kristjáns Þórs. Nú er komið að leiðarlokum á bæjarstjóraferli Stjána og innan tíu daga hefur Sigrún Björk Jakobsdóttir tekið við lyklunum að hornskrifstofunni í Ráðhúsinu, sem flestir kalla bæjarstjóraskrifstofuna. Við bæjarbúar munum því horfa vel á ávarpið núna, sem um leið er kveðja Kristjáns til bæjarbúa á þessum tímamótum. En ekki fer hann langt, enda verður hann forseti bæjarstjórnar.
Fyrir okkur sem höfum unnið með Kristjáni Þór innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri eru það tímamót að hann láti af leiðtogahlutverkinu í bæjarmálahópnum. Það hafa verið hæðir og lægðir í samskiptum okkar en ég mun alltaf meta mikils framlag Kristjáns Þórs fyrir hönd Akureyrarbæjar á þessum áratug sem hann hefur verið sem bæjarstjóri hér. Hann hefur unnið farsælt verk, mikil uppbygging var á þessum tíma og bærinn efldist að flestu leyti. Kristján Þór er maður sem fer ekki troðnar slóðir og hefur því alla tíð verið umdeildur. En menn komast aldrei í gegnum stjórnmálin nema að það gusti af þeim. Það gildir um Kristján Þór.
Fyrir tæpri öld spurði séra Matthías um hvað nýárs blessuð sól boðaði. Enn í dag er þetta fagra ljóð hans ómissandi á nýársdag. Um leið og ég endurtek nýárskveðjur á fyrsta degi ársins sem ég verð þrítugur á vona ég að nýárið verði okkur Akureyringum farsælt og að þáttaskilin í bæjarmálunum gangi vel fyrir sig og Sigrúnu Björk farnist vel í sínu nýja verkefni.
Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.
Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.
Ó, sjá þú Drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.
Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.
Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.
Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið mikla djúp, hið litla tár.
Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin ystu höf.
Sr. Matthías Jochumsson (1835-1920)
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2006 | 18:06
Gleðilegt ár!

Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem ég kynnst í gegnum þennan vef minn, sem er eiginlega mitt líf og yndi, enda fæ ég hér útrás hér fyrir skoðanir mínar og pælingar. Vil ég þakka ykkur fyrir hollustu við vefinn og að lesa hann. Það er mér ómetanlegt að fá góðar kveðjur og skilaboð við skrif mín.
bestu nýárskveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.
Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.
Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.
Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.12.2006 | 19:57
Ríkið hættir greiðslum til Byrgisins

Það hefur verið deilt mikið á starfsemi Byrgisins undanfarnar vikur eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttar Stöðvar 2, Kompáss. Þar kom fram að Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hefði átt í kynferðislegu sambandi við kvenkyns skjólstæðinga Byrgisins og fjárhagsleg staða Byrgisins væri mjög ótrygg og í raun eftirliti þar ábótavant og ekki vitað í hvað ríkisstyrkir þangað færu. Var orð á móti orði á milli Guðmundar og fréttastofu Stöðvar 2.
Skömmu fyrir jól birti fréttastofa Stöðvar 2 viðtal við 24 ára gamla konu sem staðfesti frásögn Stöðar 2 og sagðist hafa átt í tveggja ára löngu ástarsambandi við Guðmund, meðan að hún var skjólstæðingur hans í Byrginu. Sakaði hún hann ennfremur um fjármálamisferli og kærði hann. Allt að nokkurra ára fangelsi er skv. lögum viðurlög fyrir því að ábyrgðarmaður meðferðarheimilis misnoti traus í sinn garð með þeim hætti.
Frá 2003 hefur Byrgið fengið um 200 milljónir króna úr ríkissjóði, eða allt að 32 milljónir á ári. Við öllum blasir að með öllu óviðunandi er að sætta sig við að ríkið greiði til þessarar starfsemi meðan að orðrómur af þessu tagi stendur yfir og því skiljanleg þessi niðurstaða Ríkisendurskoðunar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006 | 18:35
Verður gula slúðurblaðamennskan endurvakin?
Í lok ársins sem slúðurblaðamennskan á DV beið algjört skipbrot og var hafnað af íslensku þjóðinni með eftirminnilegum hætti virðist ljóst að byggja á ofan á rústir þess dagblaðs sem heitir DV, en kemur nú út aðeins í mýflugumynd þess sem áður var. Talað hefur verið um vikum saman að Sigurjón M. Egilsson og fleiri nátengdir honum myndu byggja aftur upp DV með einum eða öðrum hætti. Það er nú staðreynd, skömmu eftir að Sigurjón gekk út frá Blaðinu. Ekki er vitað um hvert formið er eða hvað gerist. Sigurjón verður ritstjóri DV og eignaformið með öðrum hætti. Fleiri breytingar verða á blaðabatteríi 365 miðla.
Í janúar hné sól DV til viðar í þeirri mynd sem hún hefur lengst af verið þekkt. Þá neyddust báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að segja af sér. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV viku eina í janúar. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Slúðurblaðamennskan með breskri fyrirmynd fékk svo hægt andlát í apríl, er DV var slegið af virka daga, en umskiptin urðu ekki þá að mínu mati, enda voru atburðir í janúar þáttaskilin.
Í kjölfar sorglegrar umfjöllunar DV í janúar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þar kom fram mjög breið samstaða landsmanna. Sú samstaða var afgerandi. Samfélagið logaði og blaðið féll í hitanum sem þeim tímum fylgdu. Þessir tímar gleymast ekki.
Hvað á að gerast nú? Verður slúðurblaðamennskan nú endurvakin. Getur Sigurjón M. Egilsson strax orðið ritstjóri á öðrum vettvangi eftir að hafa sagt skilið við Blaðið? Allir vita hvernig farið hefur fyrir sjónvarpsfólki sem skiptir um skútu. Það er allt að því falið mánuðum saman meðan að samningsmörk líða undir lok. Hvað gerist í tilfelli Sigurjóns? Hvernig blað á DV að verða nú? Á að fylgja eftir slóð gamla DV? Athyglisvert er annars að það eigi að heita DV eftir allt sem áður hefur gengið á.
Eru rústir gamals slúðurblaðs að vakna við? Stórt er spurt svosem. Fróðlegt verður að sjá framvindu mála.
![]() |
Útgáfufélag í eigu Baugs og 365 tekur við útgáfu DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006 | 14:36
Áramótaávarp útvarpsstjóra lagt af

Nú hefur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, markað þá hefð að leggja af áramótakveðju Ríkisútvarpsins. Hann flutti slíka kveðju ekki í fyrra. Nú er ætlað að sýna jólatónleika Frostrósa á þessari stundu en dagskrá verður rofin á miðnætti til að hleypa að laginu Nú árið er liðið í aldanna skaut og niðurtalningu síðustu sekúnda ársins 2006 og þeirra fyrstu á árinu 2007 og að því loknu flytur Páll örstutta áramótakveðju frá RÚV. Þetta eru miklar breytingar vissulega, en kannski tímanna tákn að mjög mörgu leyti.
Eins og fyrr segir var áramótakveðjan í ræðuformi í raun lögð af í útvarpsstjóratíð Markúsar Arnar Antonssonar um aldamótin. Þá breyttist dagskráin í menningarlegt tónlistarprógramm þar sem farið var um landið og kynnt tónlistarmenning og landslag landsbyggðarhluta. Markús Örn fór um Eyjafjörð, Vestfirði og Austfirði og kynnti þar tónlistarmenn og sögu tónskálda á svæðinu. Á milli flutti hann stuttar kynningar um höfundana og sögu þeirra þeirra og svæðisins. Úr varð menningarleg upprifjun og ræðuformið hvarf, sem var vissulega nokkuð þarft. Ekki er stefnt að slíkri dagskrá nú.
Frægar voru áramótaræður Heimis Steinssonar, útvarpsstjóra á árunum 1991-1996, en hann flutti þar langar og mjög háfleygar ræður sem lengi verða eflaust í minnum hafðar. Margir misstu af megninu af þeim, enda eru flestir landsmenn á þessum tíma að skjóta upp flugeldum og að fá sér gott í glas væntanlega og spáðu lítið í alvarlegum útvarpsstjóra. Það var gott mál að mínu mati að leggja af það form dagskrár en það er nokkuð eftirsjá af menningardagskránni sem Markús Örn lagði upp með finnst mér.
En þetta er stíll Páls og það er bara eins og það er. Það er ávallt í höndum útvarpsstjóra hvernig þetta verður gert og þetta er vissulega tímanna tákn sem vekur mikla athygli.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.12.2006 | 21:18
Kona ársins

Það er viðeigandi að hún sé valin Íslendingur ársins. Í huga mér er Ásta Lovísa kona ársins. Þvílíkur karakterstyrkur og einbeitni sem skín í gegn í baráttu hennar og framkomu við erfiðar aðstæður. Hún á virðingu okkar allra skilið. Í huga mér er hún maður ársins og ég mun velja hana í væntanlegri kosningu á Rás 2 á manni ársins í vikunni og hvet aðra til að gera slíkt hið sama.
![]() |
Ísafold velur Ástu Lovísu Íslending ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.12.2006 | 22:46
Notaleg jólakveðja frá Dominos

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins nú á öðrum degi jóla var Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, að kvarta yfir þessum SMS-sendingum á aðfangadag og var ekki ánægður. Taldi hann þarna fyrirtækið vera að misnota sér aðstöðu sína á aðfangadegi. Ég er ekki sammála Jóhannesi. Mér fannst þetta góð kveðja frá fyrirtæki til viðskiptavina sinna. Ég get allavega ekki sagt að mér hafi langað í Dominos Extra á sjötta tímanum á aðfangadegi allavega.
Þetta er merkileg umræða. Eflaust finnst sitt hverjum um þessar skilaboðasendingar. Hvað mig varðar finn ég ekki að þessu. Mér finnst eðlilegt að Dominos sendi viðskiptavinum sínum kveðju og þakki fyrir viðskiptin á árinu. Ekkert nema gott um það að segja að mínu mati. Ég er því ekki beint sammála formanni Neytendasamtakanna í þessum efnum.
Sárasaklaus SMS-skilaboð á aðfangadag hafa varla leitt til þess að fólk sem beið eftir jólasteikinni hafi langað frekar í pizzubita á þessum degi og varla hefur þetta skaðað dómgreind fólks sem þegar hafði pantað sér pizzu frá fyrirtækinu.
Ég vil því nota tækifærið og senda innilega jólakveðju til Dominos. Það eru 110% líkur á því að ég panti mér pizzu þaðan á næsta ári.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.12.2006 | 01:32
Sigurbjörn biskup og Vladimir Ashkenazy
Það var notalegt að horfa á sjónvarpið á þessu jóladagskvöldi. Þar var fremst í flokki tvenn góð viðtöl við Íslendinga sem sett hafa mark sitt á samtíð sína með ólíkum hætti síðustu áratugina. Báðir hafa fyrir löngu öðlast virðingu þjóðarinnar og öflugan sess í huga hennar.
Viðtal Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var eitt hið besta sem ég hef lengi séð. Vandað og vel gert og Jóhanna Vigdís spurði mjög vel. Sigurbjörn biskup er líklega áhrifaríkasti maður íslensku þjóðkirkjunnar í aldir, hreint út sagt. Hann er einn merkasti Íslendingur 20. aldarinnar og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi. Áhrif hans innan kirkjunnar eru óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.
Sigurbjörn biskup varð 95 ára fyrr á þessu ári. Hann er mjög vel ern miðað við aldurinn; enn að, predikar og ritar reglulega greinar og íhuganir um trúarleg málefni. Hann talaði í viðtalinu um trúarleg málefni, samtíð sína allt frá unglingsárunum í Meðallandi og til þess tíma að hann vann sem kennari í guðfræðideildinni og biskup þjóðkirkjunnar og um stöðu mála nú á dögum. Hann er einn þeirra manna sem hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo að fólk hlustar. Sigurbjörn biskup talaði fumlaust og af visku í þessu viðtali sem fyrr. Það er þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann.
Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, var ein trúaðasta kona sem ég hef nokkru sinni kynnst og mun nokkru sinni kynnast á minni ævi. Hún kenndi mér að meta og virða kristna trú og það sem felst í henni. Þann fjársjóð met ég alla ævi og virði. Hún kenndi mér líka að virða og meta Sigurbjörn Einarsson biskup. Hún bar alla tíð óttablandna virðingu fyrir honum og vitnaði oft í predikanir og trúarleg verk hans. Þau mat hún mjög og að hennar mati var Sigurbjörn besti leiðtogi þjóðkirkjunnar, hann var að hennar mati sá fulltrúi hennar sem mest áhrif hefði haft ef undan eru aðeins skildir þeir sem fyrst mörkuðu spor kristni á Íslandi.
Mér fannst ómetanlegt að horfa á þetta viðtal. Það var innihaldsríkt og heilsteypt. Sigurbjörn hefur markað sér þau áhrif sem mest má meta og hann mun njóta virðingar þjóðarinnar svo lengi sem menn minnast hans og trúarlegra starfa hans. Það er að ég tel leitun að þeim mönnum sem merkari skref munu skilja eftir sig eftir sinn dag. Þetta viðtal sannfærði mig og eflaust alla aðra sem á það horfðu hversu stór sess hans er og hversu stór hann muni verða í sögu þjóðarinnar. Það er ekki hægt annað en að þakka Ríkissjónvarpinu innilega fyrir þetta viðtal og að gefa okkur þessa kvöldstund með Sigurbirni.Síðla kvölds horfði ég á upptöku af viðtalsþætti Jóns Ársæls Þórðarsonar við meistara Vladimir Ashkenazy á Stöð 2. Þar var rætt við Ashkenazy og eiginkonu hans, frænku mína, Þórunni Jóhannsdóttur, sem ættuð er frá Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal. Það er óþarft að kynna hann fyrir landsmönnum. Í áratugi hefur hann verið einn litríkasti hljómsveitarstjóri og tónsnillingur okkar. Þetta var virkilega gott viðtal. Jón Ársæll hefur það til að bera að geta spurt réttra spurninga og fært okkur karakter og hugsanir viðmælandans fölskvalaust. Jón Ársæll er enda sálfræðingur að mennt og virkar oft á mann sem slíkur á viðtölunum sínum er hann ræðir við gesti sína í þáttunum. Minnir oft á Jónas Jónasson satt best að segja.
Vladimir hefur verið íslenskur ríkisborgari í yfir þrjá áratugi. Hann hefur gefið tónlistarmenningu okkar mikið og verið okkur Íslendingum mikils virði. Ég lít á Vladimir sem Íslending. Hann er Íslendingur og hefur verið glæsilegur fulltrúi okkar alla tíð eftir að hann giftist Þórunni og varð Íslendingur í hjartanu. Í viðtalinu talaði hann um viðskilnaðinn við Sovétríkin sálugu og vék að heimalandinu eins og það lítur út í dag handan einokunar og einræðis kommúnista. Er ég sammála honum í lýsingum hans um Pútín og stjórn hans. Þar er ekki á réttri leið farið til frelsis og því miður minna tilburðir þeirrar stjórnar oft á einræði. Það er sorglegt. Vladimir ræddi um fleiri mál með athyglisverðum hætti.
Þessi tvö viðtöl voru heilsteypt og vönduð - viðeigandi á jóladagskvöldi. Síðla kvölds var svo besta mynd hátíðanna til þessa sýnd - The Aviator í leikstjórn meistara Martin Scorsese (sem átti að hljóta óskarinn á sínum tíma). Yndisleg fimmföld óskarsverðlaunamynd og gríðarlega vel gerð, ramma fyrir ramma. Það var notalegt að sjá enn og aftur stórfenglega óskarsverðlaunaða túlkun Cate Blanchett á drottningu kvikmyndanna, Katharine Hepburn, og svipmikla túlkun Leo DiCaprio á sérvitringnum eftirminnilega, Howard Hughes.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2006 | 16:00
Gleðileg jól

Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund.
Ég færi öllum lesendum vefsins mínar innilegustu óskir um góða og gleðilega jólahátíð!
jólakveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætur svörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
oss Drottins birta kringum skín.
Oss öllum mikinn fögnuð flytur
sá friðarengill skær:
Sá Guð, er hæst á himni situr,
er hér á jörð oss nær.
Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.
Guðs lýður, vertu' ei lengur hræddur
og lát af harmi' og sorg.
Í dag er Kristur Drottinn fæddur
í Davíðs helgu borg.
Hann fjötrum reifa fast er vafinn,
í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn.
Hann þína tötra tók á sig,
að tign Guðs dýrðar skrýði þig.
Á himni næturljósin ljóma
svo ljúft og stillt og rótt,
og unaðsraddir engla hljóma
þar uppi' um helga nótt.
Ó, hvað mun dýrðin himins þýða,
og hvað mun syngja englaraustin blíða?
Um dýrð Guðs föður, frið á jörð
og föðurást á barnahjörð.
Ó, dýrð sé þér í hæstum hæðum,
er hingað komst á jörð.
Á meðan lifir líf í æðum,
þig lofar öll þín hjörð.
Á meðan tungan má sig hræra,
á meðan hjartað nokkuð kann sig bæra,
hvert andartak, hvert æðarslag
Guðs engla syngi dýrðarlag.
Valdimar Briem
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)