Færsluflokkur: Dægurmál

Jólahugleiðingar

Jólatré Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. Skammdegið er lýst upp með fallegum ljósum og skreytingum í tilefni hátíðarinnar. Jólin eru kjörið tækifæri til að slappa af; lesa góðar bækur, borða góðan mat og njóta lífsins. Jólin eru ánægjulegasti tími ársins.

En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með.

Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Það er þó almenn skoðun að jólaljósin og jólaandinn lýsi upp mannlífið - gleði hátíðarinnar marki jákvætt andrúmsloft.

Það er megininntak hátíðar kristinna manna að þau færa okkur hamingju og ánægju - færa okkur tækifæri til að njóta gleði. Jólahátíðin lýsir upp hvunndaginn og færir okkur hið gullna tækifæri að njóta gleðistunda með ástvinum og gleyma daglegu amstri. Víða þurfum við því miður að horfa í fjölmiðlum á fréttir af eymd og fátækt um heiminn. Gott dæmi er örbirgðin víða í þróunarlöndunum og slæm staða blasir t.d. víða við í vanþróuðum löndum í kjölfar náttúruhamfara eða annarra vandamála sem setur mark sitt á þjáð samfélagið. Vonandi hafa margir gefið sitt af mörkum í söfnun Hjálpastarfs kirkjunnar - stuðlað að velferð annarra í aðdraganda jólahátíðar.

Það hlýjar um hjartaræturnar að gleðja vini og ættingja með notalegum kveðjum í jólakortum, fallegum gjöfum og njóta gleðistunda saman nú um hátíðirnar. Við megum þó ekki gleyma þeim sem eiga um sárt að binda, þeim sem minna mega sín. Besta gjöfin sem við getum gefið okkar nánustu er kærleikur og ástúð. Hinn sanni jólaandi er jú umfram allt fólginn í því að stuðla að velferð annarra - tryggja að allir njóti gleði í hjarta á þessum heilaga tíma - á trúarhátíð kristinna manna.

Lestur jólakveðjanna hafinn á Rás 1

Jólabjalla Í yfir sjö áratugi hefur lestur á jólakveðjum á Rás 1 verið órjúfanlegur hluti þessara lokadaga jólaundirbúningsins. Nú kl. 13:00 hófst lesturinn á Rás 1. Í dag eru sjö áratugir síðan að lestur jólakveðjanna hófst á Þorláksmessu en í þrjú ár þar á undan voru kveðjurnar lesnar á aðfangadegi.

Mér finnst það algjörlega ómissandi þáttur í lokahluta jólaundirbúningsins að hlusta á lestur jólakveðjanna, sem berast af öllu landinu og erlendis og skreyttar með fallegum jólalögum.

Afmæli

Stefán Fr. Jæja, ég á víst afmæli í dag. Ætla að vona að 29 sé ekki ógæfutala í mínu lífi. Held í vonina svo lengi sem mögulegt er allavega. :) Annars, árin líða orðið helst til of hratt að mínu mati, eflaust erum við fleiri sammála um þetta. En svona er víst lífsins gangur bara. Að ári þarf ég að huga að almennilegri afmælisveislu, enda mun ég þá fylla tug. En að því síðar. 

Það eru margir sem hafa sent mér kveðjur með ýmsu móti í dag. Gott að vita til þess að ættingjar, vinir og kunningjar á kafi í jólastressinu hafi munað eftir manni. Það verður seint sagt að ég hafi valið þennan afmælisdag sjálfur, en það er skemmtileg nostalgía við að halda upp á afmæli á þessum tíma, rétt áður en menn minnast Jesú Krists Jósefssonar.

Ég vil þakka allavega öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum - eru sannir vinir. Annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum. Kærar þakkir!

Sterk fjölmiðlaframkoma

Byrgið Það er ekki hægt að meta viðtalið á Stöð 2 við konuna sem segist hafa átt í ástarsambandi við Guðmund Jónsson öðruvísi en sem sterka fjölmiðlaframkomu. Þar var talað hispurslaust og án alls hiks. Það er alveg ljóst að sé allt sem kom fram í þessu viðtali satt, sem flest virðist óneitanlega benda til, er Guðmundur í mjög vondum málum og þá allt staðfest sem kom fram í hinum umdeilda Kompásþætti á Stöð 2 fyrir tæpri viku. Það er ljóst að þessi kona talar með öruggum hætti og segist hafa óyggjandi gögn til stuðnings málflutningi sínum.

Það er að ég tel alveg ljóst að enginn myndi þora að koma fram í svona viðtal og leggja í svona nokkuð nema vera með nokkuð öruggt og traust bakland, hafa sannleikann nokkurnveginn örugglega sín megin. Eiginlega verður sjálfsagt sláandi að sjá hvað tekur við eftir þetta viðtal. Þessi kona segist hafa fullan síma af SMS-skilaboðum, myndefni og fullt af tölvupóstum í tölvu sinni. Eitt sem vakti meiri athygli en annað er að konan segist ætla að kæra Guðmund fyrir fjársvik. Það var athyglisvert sem vikið var að í þeim efnum og óneitanlega stóralvarlegt mál.

Það er alveg ljóst að segi þessi kona satt frá málum hefur Guðmundur Jónsson varla sagt eitt satt orð í Kastljósviðtali á þriðjudagskvöldið. Það er alvarlegt mál. Það sem er auðvitað alvarlegast ef allt er satt sem fram kom í Íslandi í dag í kvöld um þetta tveggja ára langa ástarsamband er að forstöðumaður meðferðarstofnunar hafi átt í ástarsambandi við skjólstæðing sinn og misnotað það traust sem til staðar var með ýmsum hætti. Það er alvarlegt mál og greinilegt að enn á margt eftir að koma fram í öllum þessum málum. Ef marka má fréttir Stöðvar 2 stefnir allt í að fleiri konur komi fram.

Það er ekki hægt annað en að dást að hugrekki þessarar konu að koma fram fyrir alþjóð og rjúfa þögnina um meginhluta málsins, sem margir höfðu skoðun á en hristi upp í þjóðinni svo um munaði. Það sem mér finnst mest sláandi er hvernig Guðmundur hefur notað trúna til að ná yfirtökum á þessari konu og trúarlegt tal sem er auðvitað mjög skelfilegt. Það er allavega ljóst að varla getur Byrgið starfað lengur með óbreyttum hætti sé allt sem kom þarna fram í sjónvarpsviðtalinu hið sanna í málinu.

mbl.is Segist hafa átt í sambandi við Guðmund Jónsson í Byrginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný hlið á umræðunni um Guðmund og Byrgið

Byrgið Umræða um málefni Byrgisins virðist vera að taka nýja stefnu. Í kvöldfréttum Stöðvar fyrir stundu var viðtal við 24 ára gamla konu sem segist hafa átt í tveggja ára kynferðislegu ástarsambandi við Guðmund Jónsson, forstöðumann Byrgisins, á meðan að hún var þar í meðferð. Segist hún ætla að höfða mál gegn Guðmundi.

Kemur þetta viðtal í kjölfar umfjöllunar Stöðvar 2 í Kompási um Guðmund og starfshætti hans í Byrginu. Sá þáttur var vægast sagt umdeildur. Eftir þáttinn hafa gengið ávirðingar milli Guðmundar og fréttastofu Stöðvar 2 og er þetta mál orðið ótrúlega flókið og undarlegt.

Mun verða ítarlegt viðtal við þessa konu í Íslandi í dag á næstu mínútum.

Jólaafmæli

Jólakúla Ég er einn þeirra fjöldamörgu Íslendinga (við erum mörg, er viss um það :) sem á afmæli í aðdraganda jólahátíðarinnar. Lengst af hefur mér mislíkað þetta mjög, enda verður þetta seint talinn hinn fullkomni tími afmælishalds. Það hefur enda verið svo að ég hef lítið sem ekkert haldið upp á afmælið nú í seinni tíð, ef frá er talið öflugt og gott tvítugsafmæli fyrir tæplega áratug og 25 ára afmælið fyrir nokkrum árum.

Hinsvegar hef ég oft verið með rólegheitaafmælishald heima nær alltaf fyrir vini og nánustu ættingja, en það er svosem ekkert stórt afmælishald. Ég hef ákveðið að halda vel upp á þetta að ári, en þá verður um merkisafmæli að ræða. Ein af vinsælustu spurningunum sem ég hef fengið í áranna rás er hvort ég hafi fengið afmælis- og jólagjöf saman. Góð spurning. Svarið er oft ansi augljóst, en það hefur allavega ekki gert mig ríkan, nema þá kannski andlega, að eiga afmæli á þessum tíma.

Að sumu leyti er afmæli á þessum tíma notalegt. Ég hef lært að sleppa jólastressinu á þessum tíma og klára jólaundirbúninginn tiltölulega snemma og njóta þessa tíma eins mikið og mögulega hægt er. Þetta á að vera notalegur og góður tími. Við eigum enda að meta boðskap jólanna og hugsa vel um hann; ekki að drekkja okkur sjálfum í stressi og ergju þess sem fylgir því að vera fastur í búðum fram til hádegis á aðfangadaginn.

Snjólaust á Akureyri - brjálað rok og hláka

Akureyri Nær snjólaust er orðið á Akureyri, fjórum dögum fyrir jól, eftir mikla hláku og brjálað rok síðustu dagana. Það stefnir því í rauð jól hér á Akureyri þetta árið, rétt eins og í fyrra. Hér hefur verið leiðindaveður síðustu dagana. Rokið hér aðfararnótt þriðjudags er sennilega eitt mesta rokveður sem yfir bæinn hefur dunið síðasta áratuginn og m.a. rifnuðu tré með rótum og hurðir fuku upp á íbúðarhúsum.

Skv. fréttum nú er Akureyrarflugvöllur orðinn umflotinn vatni. Mikið vatnsveður og leysingu hefur gert hér í bænum enda var hér talsverður snjór kominn áður en veðurhamurinn hófst. Hefur vatn flætt í kjallara á íbúðarhúsum. Holræsakerfi bæjarins hefur ekki haft undan í þessu veðri og hefur slökkvilið Akureyrar þurft í verstu tilfellunum að leggja slöngur til að dæla vatni í burtu. Hlíðarbraut grófst í sundur við Glerárbrú og einnig fór Súluvegur ofan bæjarins í sundur. Veður hefur lagast mikið í dag en rok er þó enn talsvert, en mesta hættan á vatnsleka virðist frá. Skarð kom svo í Hlíðarbraut, við Glerárbrú.

Fram í Eyjafirði féll aurskriða við bæinn Grænuhlíð og á veginn við bæinn Kolgrímustaði. Um tíma var svo talið að íbúar sveitabæjarins Melbrekku væri komið í sjálfheldu vegna vatnsflaums, en þeim tókst að komast í burtu áður en þyrla Landhelgisgæslunnar hélt af stað til bjargar þeim. Jarðvegsstífla brast svo við uppistöðulón ofan við rafstöð í Djúpadal. Flóðið rauf veginn beggja megin við brú á Eyjafjarðarbraut yfir Djúpadalsá. Mikill vöxtur hefur verið í Eyjafjarðará og svo má heyra í fréttum af því að hækki mjög í Þjórsá og Hvítá fyrir sunnan.

Þetta er merkilegt veður á þessum árstíma og við hér fyrir norðan eigum svo sannarlega ekki að venjast því að fá svona asahláku rétt fyrir jólahátíðina, sem betur fer má eiginlega segja.


mbl.is Ekki talin sérstök hætta á frekari aurskriðum í Eyjafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í jólin

JólabjallaÞað styttist í jólin. Eftir nákvæmlega fjóra sólarhringa, á slaginu 18:00, hefst þessi mikla hátíð ljóss og friðar. Ég kláraði það síðasta tengt jólunum í gærkvöldi er ég keypti síðustu jólagjafirnar, en ég átti bara tvær eftir. Jólakortin eru svo komin í póst, en þau skrifaði ég fyrir mánuði síðan. Finnst alltaf gott að vera búinn að þessu fyrir afmælið mitt sem er í blábyrjun sjálfra jólanna, eins og þeir vita sem þekkja mig.

Ég var að koma áðan úr jarðarför Snæborgar, frænku minnar, sem var jarðsungin frá Akureyrarkirkju nú eftir hádegið. Það er óhætt að segja að hún hafi dáið södd lífdaga og verið fyrir löngu farin í huganum frá ættingjum sínum en það er alltaf eftirsjá þegar að nánir ættingjar hverfa úr þessum heimi auðvitað. Annars byrjaði þetta ár erfiðlega fyrir mig með andláti Kidda, ömmubróður míns. Það dauðsfall kom á vondum tíma fyrir mig og ég var nokkurn tíma að vinna mig frá því. Það er bara eins og það er.

En jólin koma auðvitað. Ég settist niður seint í gærkvöldi og hlustaði á fallega jólatónlist og hugsaði með mér hversu yndislegt það sé að vera búinn að öllu fyrir jólin og vera ekki partur af þessu skelfilega jólastressi sem mætti mér í búðunum seint í gærkvöldi. Það er notalegt að byrja þennan undirbúning snemma og klára hann snemma líka.


Byrgið hefur skilað einum ársreikningi frá 2003

Byrgið Um fátt hefur verið meira rætt síðustu daga en málefni Byrgisins. Sitt sýnist hverjum. Það er athyglisvert að sjá að Byrgið hefur aðeins skilað einum ársreikning til ríkisskattstjóra frá árinu 2003. Það vekur athygli í ljósi þess að meðtöldum þeim greiðslum sem ætlað er að Byrgið fái á næsta ári hefur það fengið tæplega 230 milljónir króna frá ríkinu. Þetta gerist þrátt fyrir að ekki sé skilað ársreikningum eða í ljósi hinnar svörtu skýrslu á árinu 2001.

Það er með ólíkindum að félagsmálaráðuneytið hafi ekki fyrr en nú beðið Ríkisendurskoðun um að taka út rekstur Byrgisins. Er það vel að það sé gert nú, en hefði átt að gera áður en samningur var gerður árið 2003 sem fjallað hefur verið um. Finnst mér þetta aðalatriði málsins. Það hlýtur að vera áfellisdómur yfir ríkinu að þar hafi verið greitt til fjölda ára án þess að peningaleg staða meðferðarheimilisins væri könnuð til fulls. Er þetta með algjörum ólíkindum og hlýtur að vekja margar spurningar. Þeim verður að svara, tel ég, og bíða menn nú eftir athugun ríkisendurskoðanda.

Frítt í strætó á Akureyri frá áramótum

Strætó Frítt verður í strætó Akureyringa frá og með 1. janúar nk. skv. fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og tillögum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem liggja fyrir bæjarstjórnarfundi í dag. Samhliða þessu munu Hríseyingar fá frítt í ferjuna, en Akureyrarbær og Hríseyjarhreppur sameinuðust 1. ágúst 2004. 

Það var ein af helstu lykiláherslum Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni í vor að frítt yrði í strætó innanbæjar og aðrir flokkar voru með svipaðar áherslur. Það eru viss tímamót fólgin í því að frítt verði í strætó hér innanbæjar og hlýtur að teljast metnaðarfullt verkefni hjá bæjaryfirvöldum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband