Færsluflokkur: Dægurmál

Stjórn Byrgisins finnst ekki - leynd aflétt af skýrslu

Byrgið Það er um fátt meira rætt núna en málefni Byrgisins. Fróðlegt var að heyra af því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að stjórn Byrgisins finnist ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir félagsmálaráðuneytisins og að leynd hefði verið aflétt af fimm ára gamalli svartri skýrslu um Byrgið. Nú hefur Guðmundur Jónsson ákveðið að fara frá tímabundið sem forstöðumaður Byrgisins. Í ljósi stöðu málsins og allra hliða þess kemur það ekki að óvörum.

Það er stóralvarlegt mál að ekkert finnist sem heitir stjórn Byrgisins. Það er með hreinum ólíkindum að mínu mati að ekki hefði verið gert neitt af viti eftir þessa kolsvörtu skýrslu um fjármál og rekstur Byrgisins sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið árið 2001. Til dæmis hefur verið upplýst nú að hún hefur aldrei komið formlega fyrir sjónir fjárlaganefndar Alþingis. Meðal þeirra sem komu að skýrslugerðinni þá var Birkir Jón Jónsson, þáv. aðstoðarmaður Páls Péturssonar, sem var félagsmálaráðherra 1995-2003. Birkir Jón er nú alþingismaður og formaður fjárlaganefndar.

Merkilegt viðtal var við Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Það er í raun raunalegt hið mesta að ráðast að Magnúsi vegna þessa máls. Hann hefur tiltölulega skamman tíma setið sem félagsmálaráðherra. Nær væri að ganga að Páli Péturssyni sem var félagsmálaráðherra á tímum skýrslunnar og Árna Magnússyni, sem var félagsmálaráðherra í tæp þrjú ár, frá vorinu 2003 til marsmánaðar á þessu ári. Mér finnst Magnús hafa gert rétt í því að krefjast rannsóknar á stöðu mála í Byrginu.

Leynd var aflétt af skýrslunni í dag og til hennar vitnað í kvöldfréttum Stöðvar 2, auk þess sem hún var tilvitnuð í margfrægum Kompásþætti. Byrgið hefur skv. fréttum fengið samtals yfir 200 milljónir króna frá árinu 1999 og í nýlegu fjárlagafrumvarpi er að finna fjárframlag til Byrgisins. Mér finnst ekki réttlætanlegt að meira ríkisfé fari í Byrgið fyrr en þessi athugun hefur farið fram og undrast mjög sofandagang síðustu félagsmálaráðherra í þessu máli.

Eðlileg yfirlýsing frá Götusmiðjunni

Götusmiðjan Það er mjög vel skiljanlegt að Guðmundur Týr Þórarinsson og þau hjá Götusmiðjunni hafi sent út yfirlýsingu til að benda á að Götusmiðjan og Byrgið er ekki hið sama. Það er ekki hægt að segja annað en að orðspor Byrgisins hafi beðið mikinn skaða að orðrómi um ósæmilegt athæfi Guðmundar Jónssonar, sem stofnaði Byrgið fyrir áratug sem kom fram í þættinum Kompás í gærkvöldi.

Í dag hef ég fengið nokkra tölvupósta sem eru með og á móti skrifum mínum. Ég sé ekki eftir neinu í þeim skrifum sem hér hafa komið fram. Mér finnst það algjörlega óásættanlegt að forstöðumaðurinn komi fram með þeim hætti sem augljóslega er til staðar og staðfestist í þessum þætti í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Það er algjörlega óverjandi, að mínu mati, að segja annað um stöðu mála.

Ég endurtek að mér finnst með öllu óeðlilegt að ríkið haldi áfram að styrkja Byrgið með fjárframlögum í ljósi stöðunnar sem upp er komin.

mbl.is Segir ekki mega rugla saman Götusmiðjunni og Byrginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deilt á Netinu um Byrgið og forstöðumanninn

ByrgiðÞað er heldur betur lífleg umræða á Netinu um umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 um Byrgið og forstöðumanninn Guðmund Jónsson. Sitt sýnist hverjum. Ég hef sagt mína skoðun. Sumir deila á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Mér finnst það undarlegt, enda þótti mér nauðsynlegt að fjallað væri um þessi mál. Umfjöllunin var ekki einhliða, enda fékk sá sem deilt var um og málið snýst um tækifæri til að verja sig og svara þessum ásökunum. Mér fannst sú vörn ekki trúverðug, þó eflaust eigi hann eftir að fá betri færi á að svara fyrir sig. Það er enn mörgum spurningum ósvarað.

Það er merkilegt að sjá suma segja að okkur komi einkalíf Guðmundar ekki við og að þetta mál sé þess eðlis að um það eigi ekki að fjalla. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að um það sé fjallað í ljósi þess að ríkisfé hefur farið til Byrgisins. Þeim spurningum er ósvarað hvað var gert við þessa peninga. Á meðan að sú óvissa er uppi skil ég vel að landsmenn efist í þessum efnum og það verður að fjalla um það. Samlíkingar við umfjöllun DV í janúar finnast mér ekki eðlilegar. Það var einhliða umfjöllun án þess að viðkomandi gæti borið hönd fyrir höfuð sér. Það var ekki í þessu tilfelli.

Auk þess er mjög ámælisvert að sjá það sem virðist staðreynd, ef marka má öll gögn, þ.á.m. athyglisvert myndskilaboð, að viðkomandi maður nýti sér skjólstæðinga sína til kynferðislegra athafna í ljósi þess trausts sem hann hefur til þess að "lækna fólk". Allavega verður seint sagt að myndskilaboðin séu fölsuð. Í mínum huga eru þetta afgerandi og áberandi gögn um hver staða málsins sé. Það var enda mjög erfitt fyrir Guðmund að svara fyrir þessi gögn.

Til dæmis féll hann í sömu gildru og barnaperranir í umfjöllun á NFS, þegar hann sagðist þurfa að kynna sér ýmis málefni. Þá var einmitt tekið fram að um væri að ræða algengustu afsökunina sem menn nýttu sér að þeir væru í sjálfskipaðri könnun á stöðu mála. Það er allavega ljóst að þetta mál verður að kanna frá grunni. Ekki virðist málið fagurt ef marka má gögn. Reyndar má deila harkalega á félagsmálaráðherra fyrri ára að hafa ekki fyrirskipað athugun á Byrginu.

Byrgið var stofnað af Guðmundi Jónssyni og er hans hugarfóstur. Það er vandséð hvernig það geti starfað áfram séu þessar ásakanir allar réttar. Í ljósi stöðu mála finnst mér útilokað að ríkisfé renni þar áfram til starfseminnar. Það blasir við.


Alvarlegt ástand í Byrginu

Byrgið Það var sláandi að horfa á fréttaskýringaþáttinn Kompás nú fyrr í kvöld. Það er greinilegt að pottur er svo sannarlega mjög brotinn hvað varðar málefni Byrgisins. Mér fannst gögnin og allt sem þar var borið á borð stóralvarlegt mál og það verður að rannsaka Byrgið og öll mál þar tengd Guðmundi Jónssyni. Staða mála er of óviss eins og er í ljósi þessara háalvarlegu gagna til að hægt sé að horfa framhjá því.

Í ljósi þess að Byrgið á að reka sem meðferðarheimili fyrir langt leidda fikla og drykksjúklinga og rekið á kristilegum grunni er þessi orðrómur mjög slæmur og skaðandi fyrir allt starf þar. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þessa alls að félagsmálaráðuneytið hafi fyrirskipað rannsókn á öllum hliðum mála í Byrginu, enda ekki við öðru að búast en að þetta verklag leiði til þess að ríkið hætti að greiða til starfseminnar þar, ef rétt reynist.

Mér finnst staða mála með þeim hætti að ríkið verði að öllu leyti að hætta að koma að rekstri Byrgisins og setja þar peninga í.

Hvað er í gangi í Byrginu?

Byrgið Það var sláandi að sjá umfjöllun í kvöldfréttum Stöðvar 2 um Byrgið og Guðmund Jónsson, forstöðumann meðferðarheimilisins. Þar var opinberað það sem þar gerist greinilega bakvið tjöldin og fullyrt að Guðmundur hefði ítrekað tælt skjólstæðinga sína til kynlífsathafna. Þetta mál er mjög alvarlegt og einkum og sér í lagi vegna þess að Byrgið hefur fengið hundruð milljóna króna í opinberum framlögum. Um þessi mál verður fjallað í Kompás, en vegna eðlis gagnanna sem munu sanna athæfi Guðmundar er þátturinn á dagskrá kl. 22:25.

Í ljósi þess að Byrgið á að reka sem meðferðarheimili fyrir langt leidda fikla og drykksjúklinga og rekið á kristilegum grunni er þessi orðrómur mjög slæmur og skaðandi fyrir allt starf þar. Byrgið hefur um árabil rekið meðferðarheimili fyrir langt leidda fíkla og alkóhólista en starfið er allt unnið á kristilegum grunni. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þessa alls að félagsmálaráðuneytið hafi fyrirskipað rannsókn á öllum hliðum mála í Byrginu, enda ekki við öðru að búast en að þetta verklag leiði til þess að ríkið hætti að greiða til starfseminnar þar, ef rétt reynist.

Í frétt á vísi.is er fullyrt að umsjónarmenn fréttaskýringaþáttarins Kompás hafi undir höndum gögn sem sanni að Guðmundur hefði tekið ítrekað þátt í kynlífsathöfnum með ungum konum, skjólstæðingum sínum í meðferðarstarfinu í Byrginu. Orðrétt segir á visir.is "Í þættinum í kvöld vitna konur um hvernig hann tældi þær til kynlífsathafna sem vægast sagt verða taldar óhefðbundnar. Þar er um svokallað BDSM kynlíf þar sem valdbeiting og drottnun er grunnþema. Viðmælandi Kompáss segir Guðmund halda því fram að Guð lækni í gegnum hann. Hann geti fyrirgefið syndir fyrir hönd Guðs og að sæði hans lækni."

Athygli vekur að Guðmundur þverneitar öllum gögnum þrátt fyrir myndefni sem vægast sagt er sjokkerandi. Það verður fróðlegt að sjá Kompás í kvöld.

Dorrit Moussaieff kona ársins

Dorrit og Ólafur Ragnar Það kom mér ekki mjög á óvart að Dorrit Moussaieff, forsetafrú, skyldi verða valin kona ársins. Hún hefur vissulega verið áberandi kona á þessu ári, rétt eins og öll þau ár sem hún hefur verið við hlið Ólafs Ragnars Grímssonar af hálfu forsetaembættisins frá árinu 1999, allt í senn sem framandi kona sem fáir þekktu, unnusta forsetans eftir frægan blaðamannafund og giftinguna á sextugsafmæli forsetans.

Ég skal fúslega viðurkenna að mér finnst það sorglegt að Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, forsetafrú, fyrri eiginkona Ólafs Ragnars, var aldrei valin kona ársins af Nýju lífi. Fannst mér það með ólíkindum að hún skyldi ekki vera valin kona ársins 1996, eftir glæsilegan sigur Ólafs Ragnars í forsetakjörinu, sem margir hafa, þ.á.m. ég, eignað henni með mjög áberandi hætti, eða árið 1997 í kjölfar erfiðrar baráttu við hvítblæði sem síðar leiddi hana til dauða. Guðrún Katrín vann sinn stærsta persónulega sigur í þeirri erfiðu baráttu.

Ég verð að viðurkenna að ég var einn þeirra landsmanna sem syrgði Guðrúnu Katrínu mjög. Hún var okkur öllum harmdauði. Það var sorglegt að henni gafst ekki lengri tími til verka af hálfu þjóðarinnar. Það er og hefur alla tíð verið mín skoðun að Guðrún Katrín hafi verið hinn stóri sigurvegari forsetakosninganna 1996. Hún heillaði þjóðina, hún kom, sá og sigraði. Ólafur Ragnar var með henni, eins og við segjum. Það er mitt mat. Með því kasta ég ekki rýrð á Ólaf Ragnar, hann hefur sjálfur margoft sagt hver hlutur Guðrúnar Katrínar var. Hinsvegar deili ég ekki um það að Ólafur Ragnar á sína kosti, t.d. er hann góður ræðumaður.

Guðrún Katrín Persónulega gleymi ég aldrei því þegar að Guðrún Katrín kom hingað norður á listviðburð skömmu eftir að hún veiktist fyrra sinni af sjúkdómnum sem felldi hana að lokum. Þá bar hún túrban á höfði til að hylja ummerki sjúkdómsins í kjölfar erfiðrar lyfjameðferðar, sem reyndi mjög á hana og fjölskyldu hennar. Síðar um þetta vor hætti hún að ganga með hann og var fyrirmynd annars fólks um að veikindi eru ekki feimnismál og ég veit sem er að hún hafði áhrif á marga sem þurfa að berjast við erfið veikindi af þessu tagi.

Framlag Guðrúnar Katrínar í þessari erfiðu baráttu skiptu því fleira máli en þá sem næst henni stóðu. Ég skal því fúslega viðurkenna að ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir þessari konu. Guðrún Katrín var alþýðuhetja, það var bara þannig. Hún heillaði þjóðina sem slík. Því hef ég aldrei skilið af hverju Nýtt líf valdi hana aldrei sem konu ársins, eflaust bjóst fólk að hún hefði sigur í glímunni við sjúkdóminn. Margir vildu ekki trúa því undir lokin að hún væri að deyja.

Guðrún Katrín var þjóðinni allri mikill harmdauði og sorg landsmanna var mikil á sínum tíma þegar að hún dó og þjóðarsorg er rétta orðið yfir það þegar að komið var með kistu hennar heim frá Seattle og við jarðarförina í október 1998. Dorrit Moussaieff er kona annarrar gerðar og úr öðrum menningarheimum. Ég ber vissulega mikla virðingu fyrir Dorrit, hún er stórglæsilegur fulltrúi þjóðarinnar. Ég skil vel af hverju hún er valin og mér finnst hún eiga þennan titil skilið og óska henni til hamingju með hann.

mbl.is Dorrit Moussaieff valin kona ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúar flytja í tvíburablokkirnar í Þórunnarstræti

TvíburablokkirnarFyrstu íbúarnir fluttu um helgina inn í tvíburablokkirnar hér neðar í Þórunnarstrætinu. Blokkirnar standa á hinum svokallaða Baldurshagareit, rétt við styttu landnámshjónanna Helga magra og Þórunnar Hyrnu á Hamarkotsklöppum og er ská á móti verslunarmiðstöðinni Glerártorgi, sem bráðlega stækkar um helming.

Bygging blokkanna var gríðarlega umdeild og var eitt mesta hitamál í bænum á síðasta kjörtímabili. Mest voru átökin á árinu 2004 og stóðu fram á árið 2005, en framkvæmdir hófust í júlí 2005. Tvíburaturnarnir hafa fengið nöfnin Baldurshagi og Myllan. Hef ég frá upphafi verið hlynntur því að byggja þessar blokkir og get því ekki annað en verið ánægður með það að byggingu þeirra sé lokið, en þær munu setja mikið mark hér á götuna hér eftir.

40 íbúðir eru í blokkunum tveim og eru þær ætlaðar eldri borgurum fyrst og fremst, eða 60+ eins og sagt er. Skv. fréttum hefur vinna við hverja íbúð tekið 14,2 daga að meðaltali. Hefur semsagt heldur betur gengið vel.


mbl.is Voru 14,2 daga með hverja íbúð!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar Það er sorglegt að heyra af enn einu banaslysinu í umferðinni, nú aðeins rúmri viku fyrir jólin. Árið 2006 er að verða sorglegasta árið í umferðinni hérlendis. 30 hafa nú látist í umferðarslysum hérlendis. Það er nístandi sársauki sem fylgir því að heyra fréttir af öllum þessum umferðarslysum, þau eru orðin svo mörg á þessu ári að maður veit að margar fjölskyldur verða í sárum þessi jólin, sem senn hefjast.

Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.

mbl.is Banaslys á Álftanesvegi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík í Hádegismóum

Sigurjón M. Egilsson Það hefði verið fróðlegt að vera fluga á vegg á ritstjórnarskrifstofum Blaðsins í Hádegismóum í morgun þegar að yfirstjórnin rak Sigurjón M. Egilsson, ritstjóra, á dyr og tilkynnti honum að lögbanns yrði krafist á hann og verk hans á vettvangi fjölmiðla færi hann að starfa fyrir aðra slíka næstu sjö mánuðina. Þetta eru harkalegar aðgerðir. Brigsl ganga á báða bóga um svik á samningum og kuldalegt viðmót blasir við Sigurjóni þegar að hann yfirgefur Blaðið, sem hann var ráðinn til ritstjórastarfa fyrir í sumar.

Er búið að vera fróðlegt að taka netrúntinn í dag og skoða umfjöllun um þetta. Fjölmiðlaspekúlantarnir á netvellinum voru ekki lengi að skúbba þessu og koma með sína sýn á stöðu mála eftir dramatík morgunsins í Hádegismóum. Sigurjón sjálfur, sem er bloggari hér í samfélaginu okkar, hefur sagt sína hlið mála og kemur þar með það innlegg að leiðaraskrif hans í dag hafi getað verið ástæða uppsagnarinnar með þessum hætti. Mun líklegra er þó að þar hafi ráðið orðrómur um að Sigurjón horfði í aðrar áttir starfslega séð við fjölmiðla.

Uppsagnarbréfið er mjög kuldalegt, svo ekki sé nú meira sagt, og greinilegt að milli aðila var algjör trúnaðarbrestur orðinn. Það er varla undrunarefni að Blaðið horfi í smáa letur samnings síns við Sigurjón og vilji taka hann úr umferð meðan samningsmörkin ganga yfir. Það er alþekkt að fólk á t.d. ljósvakafjölmiðlum getur ekki labbað milli stöðva einn, tveir og þrír. Gott dæmi hafa verið Sirrý, Helgi og Svansí sem voru neydd til að bíða af sér uppsagnarfrestinn og eða voru sett í hrein skítverk á bakvið tjöldin meðan að mörk samnings kláruðust eða hreinlega neydd til að bíða utan sviðsljóssins eftir því.

Það er greinilegt að bitur og beitt deila er framundan milli Sigurjóns og Blaðsins til að reyna á lögbannið fyrrnefnda um að Sigurjón geti ekki starfað við fjölmiðla fyrr en seint sumars 2007. Fróðlegt verður að fylgjast með því og ekki síður frekari kjaftasögum af Sigurjóni og því hvað hann hyggst gera nú við þessi kuldalegu útgöngu hans í Hádegismóum á þessum föstudegi.

mbl.is Sigurjóni M. Egilssyni hótað lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntasetur Samfylkingarinnar á Bifröst

Ágúst Einarsson Það eru nokkuð merkileg tíðindi að Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands og fyrrum alþingismaður, hafi verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst. Ekki er nema von að gárungarnir séu farnir að nefna skólann á Bifröst menntasetur Samfylkingarinnar, enda ekki hægt að segja annað en að þar séu fyrrum stjórnmálamenn Samfylkingarinnar og forvera hennar mjög áberandi.

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Ágúst var með öfluga baráttu fyrir rektorsembættinu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum mikið áfall, en hann hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000.

Ágúst var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.

Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst þann 15. janúar nk. en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka frá 15. janúar. Þau þekkjast allavega mjög vel.

Runólfur Ágústsson og Ágúst Einarsson eiga margt fleira sameiginlegt en að hafa verið valdir til rektorsstarfa á Bifröst. Þeir leiddu báðir framboðslista hjá Þjóðvaka, skammlífum stjórnmálaflokki Jóhönnu Sigurðardóttur, í þingkosningunum 1995; Ágúst í Reykjaneskjördæmi en Runólfur í Vesturlandskjördæmi. Ágúst komst á þing en Runólfur ekki, en sá síðarnefndi fór síðar til starfa á Bifröst. Forveri Bryndísar sem aðstoðarrektor var Magnús Árni Magnússon, sem tók sæti á Alþingi eftir andlát Ástu B. Þorsteinsdóttur árið 1998. Ágúst, Bryndís og Magnús Árni voru því öll saman á þingi á sama tíma og í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar.

Ekki má gleyma að á Bifröst vinna einnig þau Hólmfríður Sveinsdóttir, fyrrum varaþingmaður Alþýðuflokks og Samfylkingar, Eiríkur Bergmann Einarsson, varaþingmaður Samfylkingar, og Birgir Hermannsson, þekktur analíser Samfylkingarinnar í stjórnmálapælingum og fyrrum aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í umhverfisráðuneytinu 1993-1995. Merkilegt mjög.

Miklar sögur ganga um digran starfslokasamning Runólfs á Bifröst og talað um 30-40 milljónir í því samhengi. Fróðlegt hvort eitthvað verði fjallað um þau mál.

mbl.is Ágúst Einarsson ráðinn rektor Háskólans á Bifröst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband