Færsluflokkur: Dægurmál
12.12.2006 | 13:47
Algjörlega til skammar

Það er ömurlegt að lesa að fólk sem er á vettvangi slyss af þessu tagi sýnir ekki fólkinu þá virðingu að bíða meðan að hlúð er að slösuðum. Sérstaklega athyglisvert er að lesa lýsingu Kristins Inga Péturssonar, sem kom að slysinu, á aðstæðum og því hvernig framkoma fólks á slysstað var. Ég sem sjálfur hef lent í alvarlegu slysi veit mjög vel að allt snýst þar um að sjúkrabíll geti komist á svæðið og læknar og sjúkralið geti hlúð að fólki. Það snýst allt um fyrstu viðbrögð og þeir sem starfa við þessi verk verða að geta athafnað sig án þess að fólk, sem greinilega er á kafi í eigin lífsgæðakapphlaupi og hugsar ekki um aðra, trufli það.
Fólk verður alvarlega að fara að hugsa sinn gang að mínu mati. Það er til marks hnignandi samfélagi að mínu mati að heyra af svona skítlegri framkomu fólks á slysstað, þar sem fólk hefur slasast alvarlega og þarf að aðhlynningu að halda. Geti fólk ekki sýnt slíkum störfum þá virðingu að bíða og eða að leggja því hjálparhönd er eitthvað mikið orðið að þessu samfélagi sem við lifum í. Við þurfum svo sannarlega að fara að horfa í spegil og spyrja okkur sjálf hvað skiptir mestu máli í lífinu.
![]() |
Framkoma á slysstað gekk fram af vegfaranda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2006 | 12:56
Kristján Þór og Sigrún Björk blogga

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að blogga og því er það ekkert nema hið besta mál að kjördæmaleiðtogi okkar hafi heimasíðu og skrifi milliliðalaust til kjósenda. Svona eiga stjórnmálamenn að vera og þeir mættu vera fleiri sem skrifa á vefi sína eftir prófkjörin, enda virðast þeir deyja of oft eftir prófkjör flokkanna, sem verður auðvitað táknmynd líflausra stjórnmálamanna.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri, er að fara að blogga líka, en hún opnar bráðlega bloggvef hér á blog.is og bætist við samfélagið okkar, sem er ört vaxandi. Við sjálfstæðismenn á Akureyri getum verið stoltir af því að þrír af fjórum bæjarfulltrúum okkar blogga, en Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar, hefur bloggað reglulega að undanförnu á vef sínum.
Þetta er mjög ánægjulegt og ég fagna því að bæjarfulltrúar séu með lifandi og hressilega vefi skoðana.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2006 | 21:16
Kofi Annan kveður sviðsljós fjölmiðlanna

Annan hefur gegnt embættinu í tíu ár nú um áramótin, en það er hámarkstími sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna getur setið í forsæti hjá SÞ. Afríka hefur átt seturétt í embættinu nú samtals í 15 ár, en forveri Annans, Egyptinn Boutros-Boutros Ghali, ríkti á framkvæmdastjórastóli árin 1992-1997 en hlaut ekki stuðning til að sitja lengur í embætti, en Bandaríkjastjórn (Clinton-stjórnin) beitti neitunarvaldi til að stöðva tilnefningu hans til endurkjörs haustið 1996, svo að hann gat ekki náð endurkjöri og hann féll í forkönnun svokallaðri. Það var í fyrsta skipti fram að því sem sitjandi yfirmaður fékk ekki endurkjör.
Það blasir við öllum að mikil breyting verður er Ban Ki-Moon tekur við embætti framkvæmdastjórans. Kofi Annan hefur verið einn af mest áberandi framkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna, lykilfriðarpostuli og holdgervingur fjölmiðlaathygli og fréttaumfjöllunar fyrir framkvæmdastjóraferilinn og auðvitað mun frekar á meðan honum stóð. Valið á Ban Ki-Moon í embættið í haust markaði þau þáttaskil að nú er valinn yfirmaður með öðru ívafi í Sameinuðu þjóðirnar, yfirmaður sem ekki er fjölmiðlastjarna og er diplómat sem lítið mun bera á miðað við hinn vinsæla Kofi Annan, sem hefur verið öflugur friðarpostuli og alheimsmálsvari friðar, en hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir fimm árum, árið 2001.
Annan var framan af farsæll í embætti sínu, en mjög hallaði á seinna tímabili hans. Árin 2004 og 2005 voru sérstaklega erfið fyrir hann, enda lá hann þá undir ámæli vegna málefna sonar síns, Kojo Annan. Var sérstaklega um það deilt hvort Annan hafi haft vitneskju um það að svissneskt fyrirtæki sem sonur hans starfaði hjá, hafði gert samninga í tengslum við áætlun Sameinuðu þjóðanna um olíusölu frá Írak meðan á viðskiptabanninu við landið stóð. Í formlegri úttekt á málinu kom fram að ekki væru nægar vísbendingar fyrir hendi um að Annan hefði vitað um málið en hann var þó gagnrýndur þar harkalega.
Í úttektinni í mars 2005 mátti finna mikinn áfellisdóm yfir Annan vegna þessa máls. Hafði verið talið fyrirfram að úttektin myndi hreinsa Annan af öllum grun, og því enginn vafi á að þetta var mesta áfall ferils hans, enda var hann ekki hreinsaður af málinu, enda þar m.a. sagt að hann hafi fyrirskipað eyðingu gagna eftir að rannsóknin hófst. Enginn vafi leikur á að orðspor Annans skaðaðist af öllu málinu. Fram að því hafði hann verið nær óumdeildur og talinn mr. clean innan Sameinuðu þjóðanna, en þetta mál skaðaði hann mjög og bar hann merki þessa hneykslismáls eftir það.
Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við yfirmannsskiptin um áramótin. Jafnframt verður mikið fylgst með því hvert hlutskipti Kofi Annans verður er hann hættir störfum; hvort að hann verði áfram sama fjölmiðlastjarnan og var á tíu ára framkvæmdastjóraferli eða muni draga sig mjög í hlé úr sviðsljósinu.
![]() |
Annan mun ávíta Bandaríkin í lokaræðu sinni sem framkvæmdastjóri SÞ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2006 | 17:13
Enn um andstöðu við neyslustýringu
Ég átti von á viðbrögðum þegar að ég ákvað að skrifa um neyslustýringu ríkisins en satt best að segja ekki eins miklum og reyndin varð. En það er gleðiefni. Mér fannst mikilvægt að skrifa um þetta og benda á skoðanir mínar. Mér fannst sum kommentin vissulega athyglisverðari en önnur. Þar fannst mér koma vel fram skoðanamunur til hægri og vinstri, þeirra sem vilja að ríkið hugsi fyrir sig og sína og þeirra sem gera það ekki. Einnig sá ég að Ingimundur Kjarval skrifaði athyglisvert innlegg um greinina á málefnin.com.
Ingimundur leggur þetta út með þeim hætti að ég sé að hvetja foreldra til að hella kók í börnin sín og eða að berjast á móti almennu heilbrigði. Það er alveg fjarri lagi að ég sé að hvetja fólk til að gefa skít í heilsu sína og hugsa ekki um hvað það lætur ofan í sig. Ég var aðeins að segja ofur einfaldlega að það er ekki verkefni ríkisins að stjórna því hvað við látum ofan í okkur. Ég vona að fólk sé ekki svo einfalt að telja að ég hafi með skrifum mínum að hvetja til þess að fólk horfði ekki gagnrýnið á eigin forsendum á það hvað það lætur ofan í sig. Ég er aðeins að segja að valið á að vera okkar, ekki ríkisins. Mjög einfalt mál það.
Finnst merkilegt að tala sérstaklega um börnin. Yfir skrifum Ingimundar og annarra hafði ég á tilfinningunni að þau teldu að ríkið ætti að ala upp börnin. Sé það vandamál að börn drekki of mikið af gosdrykkjum og hámar í sig skyndibitafæði og óhollustu er það vandamál foreldranna. Þeir bera ábyrgð á börnunum sínum og hvað þau borða. Sé heilsufarslegt vandamál að aukast í tilfelli barna er það heimatilbúinn vandi, sem ríkið getur minnt á vissulega en ekki lagað. Foreldrar og forráðamenn verða að horfa í spegil og viðurkenna þá að eitthvað sé bogið við stöðuna á heimavelli. Það verður enginn vandi til fyrir einskæra tilviljun. En þarna komum við að meginpunktinum. Ríkið getur ekki hugsað fyrir okkur.Mér finnst neyslustýring fáranleg og stend við þau orð. Er á hólminn kemur er það mitt mál hvað ég borða og ég get engum kennt um það nema sjálfum mér. Ég skal alveg taka undir að það er í lagi að benda á skaðsemi óhollra matvæla eða minna á að mikil sykurneysla getur verið hættuleg og skaðleg til lengri tíma litið. En þar eiga mörkin að liggja.
Það getur enginn lagt börnum lífsreglurnar nema foreldrarnir. Sé uppeldi ábótavant eða krakkinn kominn á kaf í kókþamb eða pizzuát er það engum um að kenna nema ástandinu á heimavelli. Það má vel vera að menn líti á Siv Friðleifsdóttur sem móðurímynd allra landsmanna, en mér finnst það of mikið verkefni fyrir hana að taka á sig uppeldi allra barna landsins. Það er líka hlægilegt verkefni finnst mér. En eru foreldrarnir þarna að kasta frá sér uppeldishlutverkinu?
Við eigum því að benda á meginþætti með áberandi hætti en þar liggja mörkin. Við eigum að treysta fullorðnu fólki til að taka eigin ákvarðanir og börnin verða að vera undir eftirliti foreldra sinna, enginn annar getur tekið við uppeldishlutverkinu. Miðstýring ríkisins er engin lausn. Ég hugsa ekki allavega um það úti í búð hvort ein vara sé skattlögð meira en aðrar, vilji ég kaupa eitthvað og finn innri freistingu myndast fyrir því að kaupa mér vöruna stöðvar varla nokkuð þá ákvörðun.
En þarna mætumst við augliti til augliti þeir sem vilja frelsi einstaklingsins og þeir sem vilja miðstýringu ríkisins í líf fólks. Þetta er skýrt dæmi þess að mínu mati. En mín skoðun er alveg ljós. Við verðum að hafa vit fyrir okkur sjálf, ekki ríkið og krumla "stóra bróður".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.12.2006 | 03:39
Verður gula slúðurblaðamennskan endurvakin?
Í lok ársins sem slúðurblaðamennskan á DV beið algjört skipbrot og var hafnað af íslensku þjóðinni með eftirminnilegum hætti stefnir margt í að byggt verði ofan á rústir þess dagblaðs sem heitir DV, en kemur nú út aðeins í mýflugumynd þess sem áður var. Talað er um að Sigurjón M. Egilsson og fleiri nátengdir honum muni byggja aftur upp DV með einum eða öðrum hætti, nú er Sigurjón hefur sagt skilið við Blaðið. Ekki er vitað um hvert formið er eða hvað gerist. Aðeins er um að ræða sögusagnir á Netinu, en þó sögusagnir sem fylgst er með, enda innanbúðarmenn víða sem þar skrifa um stöðu mála. Tekið er auðvitað mark á þeim skrifum. Með þeim skrifum er svo sannarlega vel fylgst.
Í janúar hné sól DV til viðar í þeirri mynd sem hún hefur lengst af verið þekkt. Þá neyddust báðir ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að segja af sér. Með því lauk miklum umhleypingatímum í samfélaginu - byltingu fólksins gegn DV og vinnubrögðum blaðsins seinustu árin. Óhætt er að segja að samfélagið hafi skekist vegna "fréttamennsku" DV viku eina í janúar. Hafði blaðið reyndar virkað sem ein tímasprengja allt frá því að gerðar voru breytingar á blaðinu og ritstjórnarstefnu þess um leið og nýir eigendur tóku við eftir gjaldþrot gamla DV árið 2003. Slúðurblaðamennskan með breskri fyrirmynd fékk svo hægt andlát í apríl, er DV var slegið af virka daga, en umskiptin urðu ekki þá að mínu mati, enda voru atburðir í janúar þáttaskilin.
Í kjölfar sorglegrar umfjöllunar DV í janúar var ákveðið að efna til undirskriftasöfnunar gegn ritstjórnarstefnu DV. Var hún samstarfsverkefni Deiglunnar, Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungra jafnaðarmanna, stúdentaráðs HÍ, Sambands ungra framsóknarmanna, Tíkarinnar, Múrsins, ungra frjálslyndra, ungra vinstrigrænna, Heimdallar, Vöku, Röskvu og H-listans. Söfnun undirskrifta stóð í nákvæmlega tvo sólarhringa. Alls skráðu 32.044 einstaklingar nafn sitt við áskorun þessara aðila um endurskoðun ritstjórnarstefnunnar. Þar kom fram mjög breið samstaða landsmanna. Sú samstaða var afgerandi. Samfélagið logaði og blaðið féll í hitanum sem þeim tímum fylgdu. Þessir tímar gleymast ekki.
Hvað á að gerast nú? Verður slúðurblaðamennskan nú endurvakin. Getur Sigurjón M. Egilsson strax orðið ritstjóri á öðrum vettvangi eftir að hafa sagt skilið við Blaðið? Allir vita hvernig farið hefur fyrir sjónvarpsfólki sem skiptir um skútu. Það er allt að því falið mánuðum saman meðan að samningsmörk líða undir lok. Hvað gerist í tilfelli Sigurjóns? Sé rétt að DV verði endurvakið hvernig blað verður nýtt síðdegisblað? Á að fylgja eftir slóð gamla DV? Mun það heita DV? Varla, enda er DV gjörsamlega ónýtur stimpill eftir þau þáttaskil sem fyrr er lýst. Er Gunnar Smári að koma frá Köben? Margar spurningar í stöðunni.
Eru rústir gamals slúðurblaðs að vakna við? Stórt er spurt svosem. Fróðlegt verður að sjá framvindu mála.
![]() |
Fyrrum ritstjórar DV dæmdir í sekt og Jónína fær miskabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.12.2006 | 11:37
Í minningu dr. Kristjáns Eldjárns

Kristján Eldjárn var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Hann var mitt á milli átakalínanna í samfélaginu, en valdatími hans var átakamikill í stjórnmálum landsins.
Kristján var ólíkur því sem við kynntumst síðar í embættinu. Hann fór í langa göngutúra á Álftanesi, ferðaðist lítið og þótti vera táknmynd alþýðleika hérlendis ásamt eiginkonu sinni, Halldóru Ingólfsdóttur Eldjárn. Deilt var meira að segja um það í kosningabaráttunni 1968 að Kristján væri litlaus og kona hans hefði sést í fatnaði frá Hagkaupsverslunum, svokölluðum Hagkaupssloppi. Lægra þótti háttsettum ekki hægt að komast en að sjást í slíkum alþýðufatnaði. En Kristjáni og Halldóru auðnaðist að tryggja samstöðu um embættið og eru metin með þeim hætti í sögubókunum, nú löngu eftir að hann lét af embætti.
Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður og rómaður fyrir innihaldsríkar og tilkomumiklar ræður sínar. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna - eitthvað sem við höfum svo sannarlega saknað frá því að Vigdís Finnbogadóttir hætti sem forseti.
Bók Gylfa Gröndals, sem kom út árið 1991, um Kristján er stórfengleg lýsing á þessum merka manni. Merkilegast af öllu við að kynna mér hann og verk hans í gegnum þessa bók var það að honum var alla tíð illa við Bessastaði og var alltaf stressaður vegna ræðuskrifa sinna - var aldrei sáttur við neinar ræður sínar. Hann var hinsvegar talinn þá og enn í dag besti ræðumaður sinnar kynslóðar að Gunnari Thoroddsen frátöldum. Hann er eini af þeim þrem forsetum landsins sem látnir eru sem hvílir ekki að Bessastöðum, heldur hvílir hann í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík.
Í fyrra kom út bók Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings, Völundarhús valdsins. Byggðist bókin á ítarlegum minnispunktum og dagbókum Kristjáns frá forsetaferli hans. Var þar sjónum einkum beint að stjórnarmyndunum í forsetatíð hans og því hvernig hann hélt á þeim málum á ferli sínum. Í ítarlegum pistli í nóvember 2005 fjallaði ég um forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárns og bendi á þau skrif hér með. Kristján leiddi átakamál á valdaferli sínum til lykta með farsælum hætti og er því farsæll í huga landsmanna í sínum verkum.
![]() |
Hátíðardagskrá á afmæli Kristjáns Eldjárns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2006 | 12:41
Suðurlandsveg verður að tvöfalda

Ég hvet alla til að smella á sudurlandsvegur.is og skrifa þar undir áskorun til samgönguráðherra um að tvöfalda Suðurlandsveg, án tafar. Árið 2006 er sorglegt í umferðinni. 27 hafa látist í umferðarslysum á árinu. Þeir voru 19 í september er átakið "Nú segjum við stopp" hófst.
Þetta er sorgleg þróun, sem okkur öllum ber skylda til að reyna að snúa við.
![]() |
2.000 undirskriftir frá laugardegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2006 | 17:38
Silfrið án Egils Helgasonar

Það var þar reyndar ágætisviðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var að reyna að útskýra orð sín á flokksfundi Samfylkingarinnar á Reykjanesi í gær og þar voru líflegar umræður um stjórnmálaviðhorfið við Sæunni, Össur, Ögmund og Ólaf F. sem voru svo sannarlega ekki sammála um allt.
En fjarvera Egils Helgasonar var mjög áberandi. Hann mætti ekki í Ísland í dag í vikunni vegna veikinda í fjarlægri borg, að því er sagt var. En það að hann vanti í þáttinn sinn, Silfur Egils, eru mikil tíðindi, enda man ég varla eftir þættinum Silfri Egils án sjálfs Egils. Það er reyndar liðónýtt prógramm án hans, svo maður tali hreint út.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2006 | 13:25
Barátta Lúðvíks fyrir sönnun á faðerni Hermanns

Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Það vakti athygli í sumar þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.
En þetta er vissulega fróðlegt mál og athyglisvert að sjá hvernig því muni ljúka, en nú fer það aftur fyrir Hæstarétt.
![]() |
Fer aftur til Hæstaréttar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 00:32
Styttist í jólin

Jólaljósin eru komin upp í miðbænum og jólastjarnan er komin upp á sinn stað í Kaupvangsstræti. Aðventa hefst á sunnudag - á laugardag verður kveikt á jólatrénu á Ráðhústorgi sem er gjöf frá vinabæ Akureyringa, Randers í Danmörku. Þá hefst jólaundirbúningur flestra Akureyringa með almennum hætti. Flestir telja óhætt að hefja helsta undirbúninginn þann dag. Þessi stund á Ráðhústorginu er jafnan mikil hátíðarstund í bænum og fólk mætir þar og ræðir saman og á notalega stund.
Hefð er fyrir því að bæjarstjórinn á Akureyri tendri ljósin á jólatrénu. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri, mun í síðasta skipti tendra ljósin á jólatrénu á laugardaginn, enda mun hann láta af störfum sem bæjarstjóri þann 9. janúar nk. Ávörp við þetta tilefni munu flytja þeir Kristján Þór og Helgi Jóhannesson, konsúll Dana á Akureyri. Óskar Pétursson mun syngja nokkur lög við þetta tilefni auk þess sem Lúðrasveit Akureyrar og stúlknakór Akureyrarkirkju verða með atriði.
Þessi athöfn á torginu er alltaf jafn hátíðleg og fjölmennt er á hana ár hvert. Aðventan er alltaf jafn heillandi og skemmtilegur tími og ekki síður gefandi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)