Færsluflokkur: Dægurmál

Jónína Ben slær á kjaftasögurnar

Ein lífseigasta kjaftasagan að undanförnu er að Jónína Benediktsdóttir og Gunnar í Krossinum eigi í ástarsambandi, en trúarhöfðinginn er nýskilinn eins og öllum ætti að vera kunnugt. Jónína Ben slær á kjaftasögurnar á facebook-síðu sinni og segir söguna ættaða frá Gróu á Leiti. Vel gert hjá henni, enda held ég að margir hafi haft gaman af því að koma sögunni áfram, og ekki alltaf leitað eftir hinu sanna.

Jónína Ben hefur lengi verið vinsæl hjá Gróu á Leiti. Væntanlega er hún orðin þreytt á hinum ýmsu sögum gegnum tíðina og hefur leiðrétt sumar ansi mynduglega. Sumir láta Gróu á Leiti stjórna hugsunum sínum og hugleiðingum. Forvitnin oft of mikil til að bíða eftir sannri frásögn í hinum ýmsu málum.

Mér finnst það töff hjá Jónínu Ben að tækla umræðuna og tala tæpitungulaust. Facebook er þannig vettvangur að þar er auðvelt að ná til margra. Hvað varðar Gróu á Leiti fékk hún vænt högg frá Jónínu. Hún er eins og venjulega ófeimin að tala hreint út.

Siggi stormur rekinn af Stöð 2

Ég held að þeir á Stöð 2 geri mistök með því að reka Sigga storm, Sigurð Þ. Ragnarsson, veðurfréttamann. Hann er einn af þeim örfáu mönnum í íslenskri sjónvarpssögu sem hefur tekist að gera veðrið skemmtilegt sama hvernig það er.

Hann hefur getað gert leiðinlega veðurspá að skemmtiefni með útskýringum og tjáningu um lægðir og veðurkerfi. Man í seinni tíð aðeins eftir Þór Jakobssyni og Páli Bergþórssyni sem komast nærri Sigga stormi í þeim efnum.

Veður er þurrt og fræðilegt sjónvarpsefni í sjálfu sér, en allir fylgjast með því. Þeir sem geta gert það að skemmtilegum og fræðandi dagskrárlið með tjáningu sinni og fasi eiga hrós skilið.

mbl.is Siggi Stormur kominn á Kanann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóar á Akureyri

Hér á Akureyri hefur snjóað í nótt... fyrsti snjórinn á þessu hausti... og snjóar enn nú. Átti ekki von á þessu magni af snjó strax. Vetraríþróttakappar hljóta að gleðjast manna mest með þetta. Í fyrra kom fyrsti snjórinn 1. október að mig minnir... smá kuldahret en svo hlýnaði aftur og hélst gott í eitthvað um þrjár vikur áður en næsti kuldakafli skall á.

Vonandi mun sama gerast aftur nú... það hlýni aftur allavega í einhverjar vikur.

mbl.is Mikil hálka á Öxnadalsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott söfnun fyrir Grensás - frábært málefni

Íslendingar sýndu með myndarlegum hætti í kvöld að þeir standa vörð um það sem mestu skiptir með því að styðja við bakið á Grensás. Flott söfnun... frábært málefni... vönduð sjónvarpsútsending... samhugur þjóðarinnar eins og hann gerist bestur. Á þessum síðustu og verstu tímum sýnir þjóðin hvar hjartalagið er... þrátt fyrir stöðuna í samfélaginu styðjum við traust málefni alla leið. Alveg yndislegt.

Edda Heiðrún Backman er algjör hetja. Ég dáist að viljastyrk hennar og festu í baráttunni við sjúkdóminn... hún er glæsilegur fulltrúi í forystusveit þeirra sem berjast fyrir því að Grensás haldi velli í kreppunni og þar sé byggt upp en ekki rifið niður þegar mestu skiptir að verja grunngildin í þessu samfélagi. Ferfalt húrra fyrir Eddu og forystu hennar... sönn hvunndagshetja.


mbl.is Rúmlega 113 milljónir safnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notaleg saga

Ég vil óska milljónamæringnum nýja, hinni einstæðu móður, til hamingju með lottóvinninginn á laugardag. Vinningssaga hennar er eilítið notaleg - gott að vita að þessir peningar fara á stað þar sem þörf er fyrir þá til að byggja til framtíðar.

Hugarfar þeirra sem vinna hefur nefnilega áhrif... sumir hafa spilað stórum vinningi úr höndum sér fljótt og farið illa með auðinn. En það skiptir máli að peningarnir fari á réttan stað og þar verði byggt skynsamlega úr auðæfunum.

mbl.is Einstæð móðir fékk lottóvinninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lífið með lottóvinningi eintóm himnasæla?

Sterkar taugar þarf til að þola heppnina eins og óheppnina. Væntanlega breytir það lífi hvers einstaklings mjög að auðgast á einni nóttu, eins og t.d. lottómilljónamæringar. Sumir ná að höndla pressuna sem því fylgir en öðrum verður á og misstíga sig jafnvel svo mikið að þeir sólunda peningunum á skömmum tíma.

Hef heyrt sögur af báðum tilfellum og það mjög svæsna sögu um hið síðarnefnda þar sem stór lottóvinningur fór úr höndunum á vinningshafa á skömmum tíma. Auðvitað er ánægjulegt að fólk sé heppið og fái tækifæri til auðfengins gróða með því að spila upp á heppnina.

Vona að þeir sem hafa unnið væna fúlgu fylgi ekki algjörlega eftir lífsstandard Lýðs Oddssonar, lottóvinningshafa í túlkun Jóns Gnarr, í auglýsingunum. Þó það sé ýktur veruleiki eru sumir sem blindast af slíkum auðæfum.

Enda hlýtur að þurfa sterka undirstöðu til að lifa með svo stórum vinningi, enda sannarlega dæmi um að fólk hafi illa getað höndlað svo mikla gæfu.

mbl.is Vann 35 milljónir í Lottói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjör sveppi

Aumingja maðurinn sem tók sveppatrippið, í Hagkaup af öllum stöðum, í nótt. Væntanlega hefur hann fengið þungan skell þegar ferðinni á bleika skýinu lauk. Þessu trippi hefur verið lýst vel í kvikmyndinni Veggfóðri og Dagvaktinni þegar Daníel og Georg svifu um í ofskynjunarvímu. Aumingja strákurinn nær sér af þessu, vonandi helst með því að muna sem minnst eftir hlaupinu um Hagkaup.

mbl.is Nakinn og til vandræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanye West missir niður um sig á MTV



Rapparinn Kanye West fór yfir strikið með því að ræna Taylor Swift um augnablikið sitt á myndbandaverðlaunum MTV. Eflaust algjört career-sjálfsmorð fyrir rapparann að hafa stolið sviðsljósinu af Swift og úthúða henni. Enda er hann úthrópaður um öll Bandaríkin fyrir að vera ruddi og ekki húsum hæfur. Ætli þetta sé ekki í fyrsta skipti vestanhafs sem sigurvegari tónlistar- eða kvikmyndaverðlauna fær ekki að klára ræðuna sína vegna þess að einhver rústar augnablikinu?

mbl.is Kanye baðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegurð eða ljótleiki

Mjög misjafnt hvernig fegurð er mæld. Hver hefur sína skoðun á því. Fegurð getur þó snúist upp í ljótleika á augabragði. Mér finnst fátt fagurt við horrenglur eða þá sem eru svo horaðir að sést í beinabygginguna á þeim. Sumir reyna svo mikið á sig fyrir fegurðina að þeir gleyma að fegurð getur verið margskonar fyrirbæri, ekki aðeins útlitslega. Innri fegurð er miklu mikilvægari þáttur persónuleikans.

Vissulega vekur athygli að í bandarísku tímariti sé valin fyrirsæta sem er engin horrengla og hefur þrýstnar línur - nýr tónn í því fyrirsætusamfélagi þar sem konur eru litnar hornauga ef þær eru ekki í stöðluðu formi horrenglunnar. Ágætt er að fólk staldri við og hugleiði hugtakið fegurð og hvort hægt sé að svelta sig til að öðlast hana.

mbl.is Þrýstnar línur vekja fögnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjuóskir til Jóhannesar



Ég vil óska Jóhannesi Kristjánssyni, eftirhermu, til hamingju með nýja hjartað og vona að hann nái fullri heilsu sem allra fyrst. Jóhannes er besta eftirherman í sögu Íslands... hefur slegið eftirminnilega í gegn með túlkun sinni á Guðna Ágústssyni, Ólafi Ragnari, Steingrími Hermannssyni, Alfreð Þorsteinssyni og Halldóri Blöndal... svo nokkrir séu nefndir.

Þessi sena úr skaupinu 1988 er alltaf jafn góð.

mbl.is Jóhannes búinn að fá nýtt hjarta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband