Færsluflokkur: Dægurmál

Guðmundur Sesar er maður ársins 2009

Frásögn séra Jónu Hrannar Bolladóttur um hinstu stundir Guðmundar Sesars Magnússonar, sem fórst í sjóslysi fyrir austan, fyrr í þessum mánuði hefur vakið mikla athygli og lætur engan ósnortinn. Þvílík hetja og þvílík fórnfýsi. Þetta er traust saga af hinni íslensku hvunndagshetju sem fórnar sér til að aðrir megi njóta betra lífs.

Að mínu mati er Guðmundur Sesar maður ársins. Þessi hetjusaga er samt aðeins ein viðbótin í frásögnina um hetjuna Sesar. Þegar ég las bókina um baráttu hans fyrir að bjarga dótturinni úr klóm eiturlyfjadjöfulsins var ég hugsi yfir krafti og baráttuþreki þessa manns. Baráttan var háð af hugsjón og sannri atorku.

Hinsta baráttan er samt þess eðlis að hún varpar enn nýju ljósi á þessa hvunndagshetju - íslensku hetjuna á örlagastundu. Þessi leiðarlok eru sorglegur endir á merkilegri ævi, en hann fórnaði sér fyrir aðra þá sem áður. Ég votta fjölskyldu Sesars innilega samúð mína.


Stjörnufall í englaborginni

Alltaf er sviplegt þegar ungstirni í blóma lífsins kveðja snögglega - stjörnufallið í englaborginni að þessu sinni vekur því heimsathygli. Oftast nær er slíkar andlátsfregnir tengdar óreglu eða sukklífi af einhverju tagi. Allir muna eftir fréttaflutningi af andláti Heath Ledger og Önnu Nicole - ekki var talað um annað vikum saman vestan hafs.

Fráfall leikkonunnar Brittany Murphy mun eflaust vekja slíka umræðu - enda var þess ekki langt að bíða eftir andlátsfregnina að farið væri að gaspra á blogginu og í spjallþáttum að pilluneysla hafi leitt til dauða hennar eða anorexía. Eflaust koma fleiri sögur.

Öðru hverju erum við minnt á hverfulleika frægðarinnar þegar að ungar stjörnur missa fótanna, sumar ná að byggja sig upp aftur en aðrar falla í valinn. Brittany Murphy var ein af ungstjörnum síðustu ára sem var mikið í sviðsljósinu og var umdeild.

Strax farið að gera um hana aðdáendaklippur til minningar á YouTube, myndneti nútímans og framtíðarinnar eflaust. Þarna eru líka klippur þar sem aðdáendur tala um hana, alltaf spes þessar klippur. En kannski er frægðin hverful og kómísk.

mbl.is Brittany Murphy látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatíkin um Tiger

Held að allir séu orðnir fullsaddir af dramatíkinni um golfarann Tiger Woods og líflegt einkalíf hans. Athygli fjölmiðla á því að rústa dýrlingsmynd Woods sem íþróttamanns hefur verið botnlaus og hann klúðraði sínum málum með því að aftengja ekki sprengjurnar þegar í upphafi.

Engu að síður hefur þessi fjölmiðlaumfjöllun farið yfir öll eðlileg mannleg mörk. Engu er líkara en þetta sé það merkilegasta sem gerist í Bandaríkjunum og kylfingurinn virðist undir meiri smásjá en Obama forseti.

Bandaríska pressan er óvægin og hefur sýnt það í þessu máli. Tiger virðist vera nýja eftirlæti þeirra eftir að Britney hætti að skandalísera.

mbl.is Tiger hættir keppni ótímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er umburðarlyndið og kærleikurinn?

Að mínu mati á umburðarlyndi og kærleikur að vera leiðarstef kristinnar trúar. Hana á að boða bæði í orði, og mun frekar þó, í verki. Hví er það óeðlilegt á árinu 2009 að samkynhneigðir söngvarar komi fram í jólaskemmtun? Í ljósi þess að fjölmörgum gestum hefur verið boðið til að syngja með kór Fíladelfíu er eðlilegt að velta fyrir sér hvort það skipti máli hver kynhneigð söngvarans er. Á þetta ekki að vera notaleg og hugljúf stemmning þar sem tónlistin leikur aðalhlutverkið?

Vissulega er hægt að hafa ólíkar skoðanir á einkalífi fólks - í þeim efnum gildir þó að hver og einn ræður sínu lífi. Við eigum að virða frelsi fólks til að hafa skoðanir og móta líf sitt sjálft. Forræðishyggja í þeim efnum boðar aldrei gott, heldur ekki öfgar og einstrengingsháttur.

Því finnst mér leitt að við séum ekki komin lengra en þetta - að tekist sé á um hvort söngvarinn sé gagn- eða samkynhneigður. Þetta rýrir aðeins þessa jólaskemmtun, enda hef ég talið hingað til að sú skemmtun sé kærleiksrík samkoma þar sem gleðin nýtur sín.

Svo má deila um hvort þessi mótmæli séu rétt skilaboð á móti þeirri ákvörðun að vísa Friðriki Ómari og öðrum vinsælum samkynhneigðum söngvurum á dyr. Hver og einn verður að hafa sína skoðun.

En það er leitt að trúin snúist ekki um umburðarlyndi og kærleika heldur öfgar - slíkt boðar aldrei gott.


mbl.is Samkynhneigðir kyssast í Fíladelfíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga Maríu - vönduð bók um slysið í Héðinsfirði

Oft er sagt að ekki verði feigum forðað né ófeigum í hel komið. Saga Maríu Jóhannsdóttur, sem á líf sitt að þakka því að hafa ekki getað borgað flugferð norður í land fyrir 62 árum, er gott dæmi um það. Röð tilviljana björguðu henni frá því að farast í flugslysinu í Héðinsfirði. Þetta er merkileg saga og ég vissi ekki um hana fyrr en bókin um flugslysið kom út. Þetta er ein af þessum hvunndagssögum sem vekja alltaf athygli.

Ég vil hrósa Margréti Þóru Þórsdóttur fyrir góða bók um flugslysið í Héðinsfirði. Las hana með miklum áhuga fyrir nokkrum dögum. Eins og Margrétar er von og vísa er bókin vel rituð og yfirgripsmikil samantekt um þennan dapurlega atburð. Hvet alla til að kaupa sér bókina og lesa hana fyrir þessi jól.

Ennfremur er ástæða til að gleðjast yfir því að fréttirnar á N4 séu komnar inn í Moggafréttirnar og fréttaumfjöllun á Skjá einum. Allir fundu illilega fyrir því hér þegar N4 stoppaði í ársbyrjun - mikilvægt að það sé komið allt í fullan gang þar aftur. Megi stöðin eflast og dafna.


mbl.is Flaug yfir slysstaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegur Marteinn á kjörtíma í sjónvarpi

Gamanþátturinn Marteinn, sem er sýndur á kjörtíma í sjónvarpi á föstudagskvöldi er því miður óttalegt flopp. Horfði á þáttinn fyrir viku og fannst hann hundleiðinlegur og gaf honum aftur séns í kvöld - mikil mistök.

Er til of mikils mælst að búa til íslenskan gamanþátt í íslenskum veruleika en ekki eftiröpun á frægum bandarískum þáttum eða svo yfirborðskennda að þeir drukkna í klisjunum?

Svo finnst mér hláturinn á milli atriða óttalega leiðinleg viðbót og glamursleg. Hversvegna þurfum við að búa til íslenskt sitcom sem apar upp allt hið bandaríska?

Held að sjónvarpsáhorfendur eigi skilið betri leikið efni, sem er ekki yfirborðslegt og klisjulegt - alvöru íslenskan veruleika.


Eldfim sýning

Segja má með sanni að sýningin um Harry og Heimi sé ein heitasta sýningin um þessar mundir, burtséð frá því hvort kviknað hafi í henni. Karl Ágúst, Örn og Siggi Sigurjóns fara þar alveg á kostum og tekst að gera flottustu brandara úr magnaðri aulafyndni og húmor sem alltaf slær í gegn.

Alla tíð síðan Harry og Heimir urðu karakterar á Bylgjunni í útvarpsþáttum um miðjan níunda áratuginn hef ég haft gaman af þeim, einfaldur og traustur húmor sem er alveg tímalaus.

Hvet alla til að sjá þessa sýningu, hún er klárlega sú heitasta í dag.

mbl.is Í hita leiksins kviknaði í
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuldurinn á Fangavaktinni

Rétt eins og með Næturvaktina og Dagvaktina er deilt um stuld á Fangavaktinni á netinu. Eðlilega er aðstandendum þáttanna umhugað um að efni þeirra sé ekki fjölfaldað með ólöglegum hætti. Vandinn er hinsvegar sá að í því nútímasamfélagi sem við lifum í er nær ómögulegt að koma í veg fyrir að sjóræningjaútgáfur leki út á netið af kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlist. Þegar að einn er lagður að velli spretta tveir upp í staðinn.

Þessi barátta kom vel fram áður með Torrent-síðuna. Þegar að fólk er orðið vant því að geta hlaðið niður efni vill það meira, þannig er það víst bara. Þetta er því erfið barátta, sumpart vonlaus. En nú reynir á málið fyrir dómstólum. Ekki fyrsta málið það tengt niðurhali á netinu. Þessi rimma verður varla minna spennandi en hinar.

En hvað varðar Fangavaktina sjálfa hefur hún allavega hlotið verðskuldaða athygli, hvort sem er meðal þeirra sem hala þáttunum af netinu, eða borga fyrir það með áskrift að Stöð 2. Fangavaktin er eins og fyrri Vaktarseríur vönduð og góð þáttaröð sem fylgir vel eftir fyrri ævintýrum Georgs, Ólafs Ragnars og Daníels.

Stjarna seríunnar er þó að mínu mati enginn þremenninganna heldur Björn Thors, sem á sannkallaðan stórleik í hlutverki Kenneths Mána, eða Ketils Mána eins og kommúnistinn sannkristni Georg Bjarnfreðarson kallar hann og hefur afskrifað hann sem Bandaríkjamann í ofanálag. Brill frammistaða.

Samt er ekki annað hægt en njóta snilldar Jóns Gnarr sem slær ekki feilnótu í túlkun sinni. Georg verður sífellt aumari tragedíupersóna eftir því sem kafað er dýpra í hann. Þessi karakter er einn af þeim sem allir elska að pirrast á, en er samt meistaralega skrifaður og Jón Gnarr fer á kostum.

mbl.is Fangavaktinni stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nokkur eftirsjá af McDonalds?

Ég er einn þeirra sem hef aldrei orðið sérstaklega hrifinn af McDonalds-hamborgurum og mun því sjá lítið eftir þeim. Er miklu meira fyrir gamla góða týpíska sveitta borgarann, þennan eina og sanna íslenska þjóðvegaborgara með frönskum og helst tómatsósu frekar en kokteilsósu. Þeir eru auðvitað í sérflokki og ég held að flestir séu mér sammála.

En auðvitað fór ég stundum í McDonalds, en fannst borgararnir þar ekki spennandi. Einna helst að ég fékk mér Big Mac þegar farið var í McDonalds. Síðustu dagana hefur fjöldi fólks flykkst til að smakka herlegheitin áður en öllu er skellt í lás. Væri viðeigandi að Jóhanna Sigurðardóttir fengi sér síðasta Big Mac seint í kvöld, sé hugsað til sögunnar.

Auðvitað hefur það vakið heimsathygli að skellt sé í lás á McDonalds á þessum tímum. Sumir fjölmiðlar sýnt því meiri áhuga en aðrir, sumir vitnað í að Davíð Oddsson hafi borðað fyrsta íslenska Big Mac. Ágætt að þeir fjalli um þessi litlu þáttaskil.

Eitt kom mér reyndar meira á óvart en annað þegar tíðindin voru kynnt: það að allt hráefnið væri flutt að utan. Taldi alltaf að kjötið væri íslenskt, en það er varla undrunarefni að erfitt sé að reka sjoppuna þegar allt er innflutt.

McDonalds kveður með hvelli. Í staðinn kemur Metro. Stóra spurningin er hvort nokkur eftirsjá sé af sjoppunni. Hana er altént ekki að finna hjá mér.


mbl.is Davíð fær ókeypis borgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flosi Ólafsson látinn



Við andlát Flosa Ólafssonar, leikara, minnist þjóðin eins besta grínista síns, föður Áramótaskaupsins og einstaks gleðigjafa, sem alltaf átti auðvelt með að létta lund þjóðarinnar. Flosi naut mikilla vinsælda og hann átti vísan sess í þjóðarsálinni. Hann var alltaf einlægur og traustur í húmor sínum og aldrei að þykjast vera eitthvað annað en hann var. Einn af þeim húmoristum sem var fyndinn bæði prívat og á sviði.

Tengsl Flosa við Akureyri eru órjúfanleg, tel ég, þó hann hafi reyndar ort einn kaldhæðnasta brag um bæinn fyrr og síðar. Hann nam hér og tók oft þátt í leiklistarstarfinu hér og var tíður gestur á leiksýningum hér. Hann var snillingur bæði í tjáningu og skrifum, hafði þá miklu náðargáfu að tala á mannamáli og vera sannur sagnamaður sem alltaf náði til fólks. Gamansögur hans í ræðu og riti urðu ógleymanlegar.

Hver mun nokkru sinni gleyma laginu um að það sé svo geggjað að geta hneggjað, húsverðinum Sigurjóni Digra, Eiríki hinum digra í Hrafninum flýgur (sem er veginn af eigin fóstbróður eftir mikil klækjabrögð gestsins), Varða varðstjóra í Löggulífi og rulluna í Hvítum mávum, svo og öllum hlutverkum hans og skrifum í Skaupinu, sem hann skapaði í kringum 1970 og gerði ódauðlegan hlut í áramótagleðinni.

Sjónvarpið ætti að taka sig til og heiðra nú minningu þessa meistara íslenska grínsins með því að gera þátt honum til minningar með öllum brotunum þar sem hann hefur farið á kostum bæði í eigin hlutverki sem og við að tjá allar hinar eftirminnilegu rullur sem hans verður minnst fyrir. Skaupið er 40 ára um þessar mundir og það er við hæfi að minnast þess um leið og Flosi er kvaddur.



Já, og að lokum: hver getur nokkru sinni gleymt auglýsingunni sem Flosi lék í fyrir Hreyfil við símanúmerabreytinguna árið 1996 um númerið í miðjunni: 5 88 55 22.... pjúra klassík.

Blessuð sé minning meistara Flosa.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband