Færsluflokkur: Dægurmál

Kröftug mótmæli atvinnubílstjóra á Akureyri

Mótmæli á Akureyri Mótmæli atvinnubílstjóra á Akureyri í dag eru ein þau kröftugustu sem ég man eftir hér í bæ. Fylgdist með í tæpan klukkutíma við stofugluggann minn hér í Þórunnarstrætinu þegar að bílalestin fór niður götuna. Þetta er ein mesta umferðargata bæjarins, en það var vægast sagt ekið löturhægt um hana nú á sjötta tímanum.

Eins og ég sagði hér fyrr í dag eru bílstjórar hér á Akureyri að senda mjög sterk skilaboð, þeir fylgja félögum sínum fyrir sunnan. Finnst þetta flott hjá bílstjórunum. Það er kominn tími til að almenningur í þessu landi tjái sig hreint út um eldsneytisverðið og sendi skýr skilaboð til stjórnvalda. Það er flestöllum algjörlega nóg boðið.

mbl.is Bílstjórar mótmæla á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubílstjórar flauta - sterk skilaboð

Mótmæli atvinnubílstjóra Hér á Akureyri glymja flautur atvinnubílstjóra og bílaröðin sem ég sá áðan við Olís-bensínstöðina á leið upp Borgarbrautina var mjög löng. Skilaboðin eru sterk og greinilegt að það er mikil mótmælaalda framundan í samfélaginu ef stjórnvöld hlusta ekki á það sem bílstjórarnir eru að segja - mun meiri en það sem hefur gerst síðustu dagana. Bílstjórum er fúlasta alvara og ekkert að fara að gefa eftir.

Sé að samgöngu- og fjármálaráðherra hafa verið að bjóða bílstjórum í kaffispjall. Ef marka má það sem gerst hefur síðustu dagana eru þeir ekki að fiska eftir kaffi og kruðerí heldur að tekið verði af skarið og gert eitthvað.

Það má vera að eitthvað eigi að tala um hlutina en þessi mótmæli eru mjög samhent og sterk, virðast vera skilaboð um að í stað kaffispjalls taki stjórnvöld af skarið.

mbl.is Margra kílómetra bílaröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngvarinn Kalli Bjarni tekinn aftur með fíkniefni

Kalli Bjarni Söngvarinn Kalli Bjarni var handtekinn fyrir helgina með fíkniefni í fórum sínum, innan við ári eftir að hann tekinn með tvö kíló af fíkniefni í Leifsstöð. Fall Kalla Bjarna hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, en rúm fjögur ár eru liðin síðan að hann var kjörinn fyrsta Idol-stjarna Íslands og virtist vera að ná miklum frama sem söngvari. Fyrsta plata hans seldist illa og síðan hefur hann ekki gefið út efni en mun frekar verið þekktur fyrir dópneyslu sína.

Það er vissulega frekar dapurlegt að heyra af falli þessarar poppstjörnu, sem einhvern veginn náði aldrei að fóta sig eftir að vinna þessa keppni og höndla frægðina með þeirri óreglu sem hefur fylgt honum í mörg ár. Þegar að hann var tekinn fyrir tæpu ári var mikið fjallað um dópneyslu hans og ógöngur vegna neyslunnar. Mamma hans kom í viðtal í Kastljósinu og Bubbi Morthens talaði þá mikið um þá djöfla sem Kalli Bjarni rogaðist með.

Eins og frægt varð sýndi Kastljósið síðar langt viðtal Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur við Kalla Bjarna þar sem farið var með honum á sjóinn og hann sagði sögu sína og hún var dramatíseruð mikið upp af Kastljósi. Var mjög deilt á þáttinn, einkum framsetningu viðtalsins, sem virtist gera Kalla Bjarna að miklu fórnarlambi og reynt að fegra ímynd hans eftir margþekkt afbrot. Man ég t.d. mjög vel eftir bloggumræðu þá þar sem deilt var á hvernig þátturinn tók á málefnum Kalla Bjarna.

Nú hefur honum aftur orðið á og virðist vera í miklum vítahring. Enn hefur hann ekki hafið afplánun og greinilegt að það verður honum mjög erfitt að losna úr þessum vandræðum sem hann er í. Þetta er auðvitað mikil sorgarsaga og vonandi fær hann hjálp til að berjast við þá djöfla sem hafa sligað hann.

Mótmæli atvinnubílstjóra halda áfram

Mótmæli atvinnubílstjóra Ekki fer á milli mála að atvinnubílstjórum er fúlasta alvara með mótmælum sínum. Þeir stöðva umferð á mikilvægustu tímum og eru greinilega að senda þau skilaboð að þetta sé allt bara rétt að byrja. Það eru engin merki um að þeir séu að beygja af, heldur styrkjast í sínum boðskap.

Það eru sterk skilaboð að stöðva umferð á mánudagsmorgni fyrir klukkan átta - greinilegt að bílstjórarnir eru líka mjög samhentir og hafa fengið nóg af eldsneytisverðinu. Og það er greinilegt að þeir ætla ekki að bakka fyrr en stjórnvöld hafa lært sína lexíu.

Þegar að ég heyrði af þessum mótmælum fór ég reyndar að velta því fyrir mér hvenær þeir myndu fara að mótmæla við Alþingishúsið, en þing kemur saman að nýju í dag.

mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarklítill ræningi með hníf í sitt hvorri hendi

Select-stöðin í Öskjuhlíðinni Ekki er hægt að segja að kjarkurinn hafi verið mikill í konunni sem ætlaði að ræna Select-verslunina með hníf í sitt hvorri hendi. Hún reyndi ekki einu sinni að biðja um pylsu með öllu og kók þegar að enga peninga var að fá - eða eitthvað annað í versluninni. Þetta var illa skipulagt rán framið greinilega af neyð og von um einhverja peninga.

Veit varla hvað á orðið að segja um þessi rán í borginni. Þetta er að verða daglegur viðburður og því miður eru ekki lengur stórtíðindi í sjálfu sér að ógæfufólk fari inn í verslanir og ætli þar að ræna einhverjum þúsundköllum. Þetta er ólánsfólk sem svona gerir og neyðin er greinilega mikil. Ekki er mikið skipulagt því að ránin eru framin vegna þess að fólki vantar peninga til að fjármagna neyslu eða eitthvað af því tagi.

Það er eitthvað orðið stórlega að í samfélaginu þegar að staðan er orðin með þessum hætti. Fyrst og fremst er þetta sorglegt, í raun er þetta fólk að einhverju leyti að kalla á hjálp held ég með því að sjá ekkert annað í stöðunni en ræna verslanir til að fá pening. Það eru miklar ólánssögur á bakvið hverja svona ránstilraun.

mbl.is Ránstilraun í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullfaxi fer til Akureyrar - ánægjuleg tíðindi

Gullfaxi kemur til Íslands árið 1967 Það eru ánægjuleg tíðindi að það hafi tekist að kaupa stjórnklefa Gullfaxa, sem markaði þáttaskil í flugsögu Íslendinga sem fyrsta farþegaþota landsins, og hann sé á leiðinni á flugsafnið hér á Akureyri. Það hefði verið mikið slys ef ekki hefði tekist að bjarga einhverju af Gullfaxa og geyma á safni hérlendis.

Það hefði vissulega verið enn betra ef þotan hefði verið keypt öll en það er var of dýrt til að hægt væri að leggja út í, þrátt fyrir það er þetta góð niðurstaða fyrir áhugamenn um sögu flugsins að það tókst að bjarga einhverjum hluta þotunnar, en við blasti að brytja ætti hana alla niður á næstunni í Nýju-Mexíkó.

Sagan er mikilvæg - það má vel vera að Gullfaxi sé kominn til ára sinna og þjóni ekki lengur lykilhlutverki í samgöngusögu landsins. En hann lék þar sögulega rullu og það er mikilvægt að bjarga þotunni frá því að verða brytjuð niður.

Það verður mikill hátíðisdagur á flugsafninu hér á Akureyri þann 24. júní nk. þegar að stjórnklefi Gullfaxa mun bætast í veglegt safnið.

mbl.is Gullfaxi verður á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ránsalda í Breiðholti - ólánsfólkið í borginni

Kaskó í BreiðholtiÞað eru, því miður, ekki lengur stórtíðindi að ræningjar fari í verslanir á höfuðborgarsvæðinu í von um einhverja peninga - þetta er fjórða ránið í Breiðholtinu á örfáum dögum. Það vekur þó mesta athygli að ræningjarnir hylja ekki einu sinni andlit sitt við ránið og sé sama, svo fremi að þeir fái aðeins peninga.

Það sem er merkilegt líka er að vopnin sem ræningjarnir hafa í nýjustu ránunum eru fjarri því hefðbundin. Það verður seint sagt allavega að sprautunálar og garðklippur séu hefðbundin vopn. Það hefur ekkert verið gefið upp um ástæðu ránsins en þetta lítur þannig út hið minnsta að þarna fari ólánsmenn í leit að peningum, og gildi þá einu hversu mikið haft er upp úr krafsinu.

Það virðist vera sem að þarna sé um að ræða fólk sem vantar smá skotsilfur í vasann sem tekur þá ákvörðun að grípa til vopna og ráðast inn í næstu verslun til að reyna að fá sér einhvern pening. Þetta hefur verið svipað í fleiri ránum á síðustu mánuðum. Það hlýtur að vera orðin mikil örvænting hjá þeim sem fara inn í næstu verslun til að stela einhverjum seðlum og hylja ekki einu sinni andlit sitt í leiðinni. Í þessu grasklippuráni í Kaskó finnst mér aðallega standa eftir hversu mikið ólán þessara manna er.

Það virðist vera sem að ræningjunum sé orðið algjörlega sama um allt nema að það fái pening til að fjármagna neyslu sína eða almenna óreglu. Það er dapurleg þróun og mér finnst þessi rán öll sýna okkur vel hversu mikið ólán vofir yfir ungu fólki og það sé öllum ráðum beitt til að ná peningum. Ekki glæsilegt - en svona er víst Ísland í dag.


mbl.is Rændu búð með garðklippum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin óútreiknanlega Madonna

Madonna og Justin Timberlake Það er alltaf gaman að lesa fréttir um stjörnustælana í söngkonunni Madonnu, sem fyrr og nú hikar ekki við að stuða. Það að hún sprauti frægan söngvara í rassinn og viðurkenni að taka metgreiðslur fyrir að syngja tiltekin lög eru góð dæmi um hversu afgerandi Madonna er í tjáningu og framkomu. Og þetta vekur auðvitað athygli.

Fannst það reyndar skondið þegar að það kom fram fyrir nokkrum vikum að Madonna tæki kvíðaköst í hvert skipti áður en hún fer á svið og óttist jafnvel að deyja við að skemmta aðdáendum sínum, svo mikil sé paníkin innst inni. Madonna hefur verið þekkt fyrir að vera með ákveðnari stjörnum í sínum bransa og óhikað sýnt allt og verið áberandi við allt að því að glenna sig til að ná athygli fólks um allan heim.

Þeir sem muna eftir Madonnu í gegnum tíðina sjá ekki sviðshræddu stjörnuna, heldur þá sem hefur gaman af að stuða. Þegar að Madonna lék í Dick Tracy árið 1990 og átti í stuttu ástarsambandi við leikarann Warren Beatty, sem lék Tracy eins og flestir vita auðvitað, þótti hún vera á vissum hápunkti. Átti marga smelli undir lok níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda - var líka djörf á því skeiði og ófeimin við að syngja fáklædd á sviði og opinbera allt hið heilagasta í einkalífi sínu og karakter.

Það er því svolítið sérstakt að Madonna skuli viðurkenna, nú þegar að hún er orðin fimmtug, að hún sé paníkeruð fyrir hverja framkomu og óttist um að geta jafnvel ekki klárað prógrammið. Það er margþekkt að stjörnur setji á sig vissa grímu, fari í annan karakter, til að klára prógrammið sitt og nái vissum hæðum í túlkun sinni í leik og söng með því að vera allt annar en innsti kjarninn ætti að sýna í sjálfu sér. Þetta er sérstaklega frægt hjá gamanleikurum.

En ímynd Madonnu, sem sést í þessari frásögn, er mörkuð af sviðsöruggustu manneskju bransans, sem þorir að gera allt og sýna allt til að halda í frægðina. En kannski er það eitt stórt skuespil til að fela innsta kjarnann og þann viðkvæmasta. Og kannski er þetta allt vænn dassi af ýkjum til að ná athygli fjölmiðla.

mbl.is Sprautaði Timberlake í rassinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallins félaga minnst - slys í minningarathöfn

Frá minningarathöfninni Mér finnst það bera vitni góðum hug að bifhjólamenn komi saman og minnist fallins félaga síns. Það er þó leitt að heyra að slys hafi orðið í minningarathöfninni - vonandi heilsast bifhjólamanninum vel.

Mér hefur fundist mjög virðingarvert að sjá hversu vel bifhjólamenn minnast félaga sinna. Það var sérlega eftirminnilegt þegar að Heiddi, Heiðar Jóhannsson, var kvaddur hér á Akureyri fyrir tæpum tveim árum, en hann lést langt um aldur fram í bifhjólaslysi.

Heiðursvörður þeirra var án vafa sá glæsilegasti í jarðarför hér á Akureyri til þessa, röð mótorhjóla eftir götum bæjarins. Þar sást vel hversu mikinn sess Heiddi hafði í sínum hópi og það hefur alltaf verið mikill samhugur hjá þeim þegar að félagar láta lífið. Það sést vel af athöfninni í kvöld. Það er virðingarvert og gott að sjá samstöðu þessa hóps.

mbl.is Árekstur við minningarathöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldið í Breiðholtinu

Lögreglan Ofbeldið og lætin í Breiðholtinu eru að verða daglegt fréttaefni. Sprautunálaránin og Keilufellsmálið hafa vakið mikla athygli, einkum hið síðarnefnda fyrir grimmt ofbeldi, og nú virðist sem að eitt málið enn bætist við. Virðist þó vera týpískt rukkunarmál og dæmi um aðferðirnar í því hvernig menn sækja sér peninga.

Ætla ekkert að dæma um hvort að ofbeldi hafi verið beitt þarna eður ei. En þessi mál í Breiðholtinu eru að sýna okkur svolítið nýjan íslenskan veruleika. Finnst Keilufellsmálið sérstaklega brútalt mál og eflaust eru þau mörg rukkunarmálin sem rata ekki í fjölmiðla þó að þetta tiltekna mál virðist gera það.

Og við stefnum í bandarískan veruleika æ ofan í æ, eins og við sjáum í svo mörgum hasarmyndum.

mbl.is Þrír rændu manni í Breiðholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband