Færsluflokkur: Dægurmál

Eftirlýsti Pólverjinn í Keilufellsmálinu handtekinn

Það er gott að lögreglan hafi handtekið pólska manninn sem lýst var eftir í Keilufellsmálinu. Það er alveg ljóst að ekki er lýst eftir manni beint í þessu sambandi nema að þar sé rökstuddur grunur um aðild að málinu og að viðkomandi sé einn lykilmanna í þessari grimmdarlegu árás. Þetta var hrottaleg árás - þegar að menn berja á öðrum með steypustyrktarjárnum, gaddakylfum og rörbútum er eitthvað stórlega að og það þarf að upplýsa hvað bjó þarna að baki.

Held að flestum hafi fundist nóg um lýsingarnar á ofbeldinu sem grasserar í samfélaginu og hvernig viss hópur Pólverja kúgar samlanda sína hérlendis, eins og virðist hafa verið í þessu máli. Þessi afbrot innflytjenda eru alvarleg og það verður að taka á þeim. Keilufellsmálið er dæmi um gróft ofbeldisverk sem ber að fordæma og uppræta. Við lifum ekki í saklausu samfélagi lengur og ofbeldið er að verða meira og grimmara en við höfum áður upplifað.

mbl.is Eftirlýstur Pólverji fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flýja úr leikskólanum

Leikskólalífið Það er gott að heyra að drengurinn sem vildi flýja leikskólalífið slapp ómeiddur frá flóttatilrauninni áhættusömu. Eins og segir í kvæðinu margfræga er skemmtilegt að vera í leikskólanum, en samt eru það margir krakkar sem horfa á grindverkið sem farartálma sem þurfi að komast yfir, helst til að komast heim aftur.

Þegar að ég var á gæsluvellinum í Norðurbyggðinni í æsku var það heitasta ósk mín að ná að strjúka þaðan, allavega ná að gera það einu sinni. Gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess á fyrstu dögunum. Samdi meira að segja flóttaáætlun í huganum (sem virkar ekkert síður spennandi en aðrar fangelsisflóttatilraunir) og var nokkuð líklegur með að taka það plan alla leið.

Hætti þó við það þegar að ég komst að því að þetta fangelsi var ekkert svo leiðinlegt og að það var eiginlega ekkert síður skemmtilegra að vera þarna en heima hjá sér. En fyrsta hugsun mín á þessu blessaða svæði var hvernig að ég kæmist í burtu og eflaust var ég ekki einn um það.

En þetta er einn af þessum sérstöku fréttamolum sem koma minninu á flug og eflaust erum við mörg sem sömdum flóttaplan í huganum af gæsluvelli eða leikskóla og vildum losna úr þessu víggirta krakkafangelsi. En það er auðvitað best að halda kyrru fyrir og sætta sig við það sem maður ræður ekki við.

En í minningunni var þetta ekkert svo voðalegur staður. Þarna eignaðist ég nefnilega marga trausta vini, suma hef ég ekki hitt árum saman en rekst stundum á einn og einn sem man eftir mér og þessu gæsluvallarlífi sem er einhvern veginn í minningunni svolítið sérstakt.

mbl.is Flótti úr leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iðnir páskaþjófar gripnir í Leifsstöð fyrir brottför

Money, money, money....
Það er lögreglunni tókst að handsama hinu iðnu páskaþjófa, rúmenska og þýska að uppruna, sem tókst að ræna milljónum króna úr hraðbönkum um hátíðina. Það hlýtur að teljast ein víðtækustu kortasvik hér á Íslandi og virðast þeir hafa náð að vinna skipulega og einbeitt að sínum þjófnaði á meðan að bankarnir voru í páskablóma.

Frásögnin af þessu minnir reyndar á erlenda spennumynd frekar en íslenskan veruleika. Hasar og spenna í Leifsstöð og mennirnir með töskur smekkfullar af seðlum. Þeir fara nú væntanlega beint á Hraunið og geta hugleitt hvernig þeir segja þessa mergjuðu sögu.

Það hefði verið svakalegt ef löggan hefði misst þessa menn úr landi og gott að það tókst að stoppa þá í tæka tíð. Það væri gaman að vita nákvæma tölu varðandi ránsfenginn og eins hvort að þessir menn eigi sér sögu sem svo voldugir hraðbankanotendur.


mbl.is Sviku út milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vænlegast að veðja á afmælisdagana í Lottó?

Lottóseðill Man ekki hversu oft ég hef hlegið að þeim sem hafa veðjað á afmælisdagana sína sem lottótölur og sagt við þá að þetta væri hjátrú og stjarnfræðilegar líkur á vinningi. Það er svolítið sérstakt að heyra af því að fólk sé að vinna út á afmælisdagana sína vænar fúlgur og bara mjög gott ef að lukkutölurnar standa undir nafni.

Það er reyndar orðið sjaldgæft að ég spili í Lottóinu. Veit ekki hvað ég hafði spilað þar oft án þess að vinna ekki neitt. Hef stundum keypt lottómiða þegar að vinningur hefur verið margfaldur. Neita því svo ekki að eftir að lottóvinningarnir fóru að koma hingað til Akureyrar í vænum skammti á síðustu mánuðum hefur maður velt því fyrir sér hvort Akureyringar séu að verða heppnari en annað fólk.

En það er svosem gott að vita að það er enn von fyrir þá sem enn nenna því að kaupa lottómiða helgi eftir helgi með sömu tölunum.

mbl.is Afmælisdagar í áskrift skila milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breskur prófessor heldur uppi vörnum fyrir Ísland

Richard Portes Í miðri krísutíð íslensks efnahagslífs er áhugavert að breski prófessorinn Richard Portes haldi uppi vörnum fyrir Ísland og fari gegn straumnum í þeim efnum, enda hefur lítið heyrst að utan nema efasemdir um aðstæður hér. Íslenskt efnahagslíf hefur fengið frekar vonda einkunn í erlendu pressunni og frá sérfræðingum síðustu misserin.

Það er gott að heyra eitthvað annað en barlóm og neikvæðni að utan yfir stöðu okkar og sérlega fróðlegt að breskur fræðimaður við London Business School sé svo einlægur talsmaður Íslands og að okkur eigi eftir að vegna vel. Kemur þetta sér vel fyrir okkur og mun vonandi ná að byggja að einhverju leyti upp vonir um að íslenskt efnahagslíf sé ekki komið að fótum fram.

Ákvörðun Seðlabankans hefur verið mjög umdeild í gær og í dag, eins og við var að búast. En það þurfti eitthvað að gera og miðað við aðstæður var fátt í stöðunni annað en hækka stýrivextina. Það verður að láta það ráðast næstu dagana hvort að þetta hafi einhver áhrif á stöðuna önnur en næstu 48 klukkustundirnar.

Að þeim tíma liðnum ræðst hvert framhaldið verði að einhverju leyti. En vonandi verður Portes hinn breski sannspár um stöðu íslensks efnahagslífs.

mbl.is Segir Ísland afar vel rekið land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasar í Reykjanesbæ - handtaka á Röstinni

Röstin Það er gott að heyra að lögreglan hafi handtekið einn þeirra sem grunaður er um hina fólskulegu árás í Keilufellinu um síðustu helgi. Það er mikilvægt að þeir verði allir handteknir og svari til saka. Held að flestum hafi fundist nóg um lýsingarnar á ofbeldinu sem grasserar í samfélaginu og hvernig viss hópur Pólverja kúgar samlanda sína hérlendis.

Það hefur merkilega lítið verið fjallað um þessa klíku í fjölmiðlum áður en kom að þessari árás. Það er vissulega til of mikils ætlast að allir þeir innflytjendur sem hingað koma séu hvítþvegnir englar en það verður að taka á málum þeirra sem ráðast að öðru fólki og standa að klíkumyndun til að vega að öðrum innflytjendum eins og er í þessu tilfelli. Mér finnst þetta mjög dapurleg þróun og á henni verður að taka með öllum tiltækum ráðum.

Það er sjálfsagt að bjóða innflytjendur velkomna til landsins og það ber að varast að dæma þá alla eftir svörtu sauðunum í hópi þeirra. En því er ekki að neita að þetta er ekki góð þróun - það er að verða einum of mikið af ofbeldisverkum sem tengja má við innflytjendur. Oftast nær er þetta mjög gróft og brútalt ofbeldi og kynferðisafbrot. Þetta eru einum of mörg mál til að þau gleymist og um fátt er meira talað en þessa vondu þróun.

Keilufellsmálið er dæmi um gróft ofbeldisverk sem ber að fordæma og uppræta. Við lifum ekki í saklausu samfélagi lengur og ofbeldið er að verða meira og grimmara en við höfum áður upplifað. Á því verður að taka og mér finnst lögreglan vera að standa sig vel í sínum verkum.

mbl.is Einn handtekinn eftir húsleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannaveiðar lofa góðu - leikið efni á dagskrá

Úr Mannaveiðum Það var virkilega gaman að horfa á fyrsta þáttinn af Mannaveiðum, nýrri leikinni spennuþáttaröð, í Sjónvarpinu. Upphafið lofar góðu og vel er vandað til verka. Handritið er byggt á góðri spennusögu, þetta er fínt persónugallerí, myndatakan vönduð og tónlistin passar vel inn í stemmninguna. Leikurinn er svo algjörlega fyrsta flokks.

Mér fannst kynning á persónum mjög góð og sérstaklega stóð þar upp hversu vel starfssambandi þeirra Gunnars (Ólafs Darra) og Hinriks (Gísla Arnar) er lýst. Báðir standa sig súpervel - sérstaklega Ólafur Darri. Svo fannst mér lögreglufulltrúinn, leikin af Halldóru Björnsdóttur, ansi reffileg og stýra sínum hópi vel með orðum og skipunum með augnaráðinu einu. Það verður áhugavert hversu mikið verður skyggnst inn í brothætt einkalíf hennar og hvort hún sé jafnmikill einfari og margir lögreglufulltrúar, oftast nær karlkyns. Skemmtilegt að sjá konu fronta rannsóknahóp í morðmáli allavega.

Þorsteinn Gunnarsson er alveg virkilega fínn leikari og það var gaman að sjá hann eitt augnablik í hlutverki auðmannsins Ólafs sem mætir örlögum sínum á gæsaskytteríinu í Dölunum. Hann lék eins og flestir muna Holberg í Mýrinni og var þar drepinn líka. Mér finnst Þorsteinn einn af þessum leikurum sem er fágaður og vandar vel til sinna verka og hefur í raun sést of lítið. Það er greinilega að breytast með nýjum tækifærum í framleiðslu leikins efnis, en hann lék föður Láru í Pressunni fyrir nokkrum mánuðum. Margrét Helga, sem lék mömmu Gunnars, klikkar ekki heldur og er alltaf traust í sínu.

Fannst mjög skemmtilegt að sjá Gunnar Eyjólfsson, þarna í hlutverki bóndans sem missti jörðina sína og virkar bæði önugur og einbeittur. Sé einhvern veginn samt ekki týpuna Gunnar fyrir mér sem bónda á þessari jörð, en Gunnar er samt sem áður einn af bestu leikurum síðustu áratuga og í sérflokki. Verður gaman að sjá meira til hans í næstu þáttum. Svo má auðvitað ekki gleyma Hilmi Snæ sem kom vel út í hlutverki bissness-mannsins og hafði akkúrat réttu taktana í það hlutverk. Svo var Charlotte fín sem danski réttarmeinafræðingurinn.

Elva Ósk Ólafsdóttir er að gera góða hluti í hlutverki Katrínar, dóttur bóndans. Fannst reyndar fyndið að dóttir karakters Gunnars Eyjólfssonar héti Katrín, ef út í það er farið allavega, af skiljanlegum ástæðum. Elva Ósk er ein af þessum leikkonum sem aldrei klikkar og stendur sig vel. Hún var góð í kvikmynd Björns Brynjúlfs, Köld slóð, árið 2006, og átti þar góða takta og er ekki síðri þarna. Þórunn Lárusdóttir náði hinni syrgjandi ekkju mjög vel og grét mikið. Það verður gaman að vita hvort að tárin séu ekta er yfir lýkur eða algjör uppgerð.

Mannaveiðar boðar upphaf nýrra tíma hjá Sjónvarpinu, sem sumir kalla sjónvarp allra landsmanna á tyllidögum. Þar hefur íslenskt leikið efni varla sést og ekki heldur verið endursýnt gamalt klassaefni. Undir stjórn Páls og Þórhalls á greinilega að taka til hendinni, fara að endursýna eftir samning við leikara og framleiða nýtt efni. Það var umdeilt þegar að samið var við Björgólf Guðmundsson um framleiðslu leikins efnis. Leist vel á þann díl, enda munum við öll njóta vel þessa efnis og ekkert nema gott um það að segja.

Í vetur hefur Ríkissjónvarpið bætt sig svo eftir hefur verið tekið í dagskrárgerð en enn vantar talsvert upp á að leikið íslenskt efni sé meira áberandi á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Á dagskrá Sjónvarpsins er fjöldi ágætra þátta en leikna efnið hefur setið á hakanum og ekki verið nógu stór hluti af sjónvarpsdagskránni. Hefur Stöð 2 sýnt vel með gerð Næturvaktarinnar og Pressu að fólk kallar á svona efni, en þeir þættir voru með því vinsælasta í imbakassanum í vetur - þetta er efni sem fólk vill sjá.

Enda hefur það sést vel með leiknu íslensku efni á borð við Undir sama þaki, Sigla himinfley, Heilsubælið í Gervahverfi, Fastir liðir eins og venjulega og Allir litir hafsins eru kaldir að þetta er efni sem vekur áhuga sjónvarpsáhorfenda. Það er kallað eftir meira af leiknu efni á skjánum. Ríkisstöðin hefur ekki verið í fararbroddi í þessum efnum. Eftir því hefur verið kallað til að hægt sé að réttlæta að ríkið reki sérstaka sjónvarpsstöð. Þar á megináhersla ekki að vera á erlent afþreyingarefni sem getur allt eins verið á einkareknu stöðvunum.

Þetta er því jákvætt skref og áhugaverðir tímar framundan tel ég hjá Ríkissjónvarpinu. Það er kominn tími til að ríkisstöðin standi undir nafni eigi að réttlæta tilvist ríkisrekins fjölmiðils á annað borð fyrir landsmönnum.

Dulúðlegt hauskúpumál í Kjósinni

HauskúpaPúslin á bakvið hauskúpumálið í Kjósinni raðast saman hægt og hljótt. Það verður þó æ dulúðlegra. Spurningunum fækkar ekki. Undarlegust þykir mér sú útskýring mannsins sem átti hjólhýsið að hauskúpan hafi verið af dýri. Hvernig getur það farið framhjá einhverjum að hann sé með hauskúpu af manneskju í sínum fórum?

Það er eitthvað í þessu máli sem er meira en lítið skrítið og mikilvægt að reyna að upplýsa hver uppruni konunnar er sem þarna ber beinin. Mér finnst enn eins og ég sé að lesa krimma eftir Arnald Indriða, eins og ég sagði í morgun. Fannst þetta mjög sérstakar fréttir og auðvitað eru flestir sem vilja vita meira um málið og helst fá að vita söguna á bakvið þessi bein - hver var þessi kona?


Það er gott að lögreglan sé komin á sporið, en stóra spurningin er hvernig viðkomandi taldi sig vera með bein af dýri og áttaði sig ekki á því að þetta var manneskja, sem ætti varla að fara framhjá neinum. Það verður að rekja sögu þessa hjólhýsis. Ef þessi maður veit ekki eitthvað um málið þarf að rekja sig áfram eftir sögunni á bakvið málið.

Ætla að vona að það gangi jafnvel að leysa söguna sem fylgja þessum beinum og er í sögum Arnaldar Indriðasonar. Einhvers staðar er sannleikann í málinu að finna.


mbl.is Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hauskúpa finnst í Kjós - leyndarmál fortíðar

Hauskúpa Mér leið eins og ég væri að lesa krimma eftir Arnald Indriðason þegar að ég las um beinafundinn í Kjós og beið eiginlega eftir viðbrögðum Erlendar Sveinssonar við þessum fregnum og auðvitað því að hann myndi leysa ráðgátuna. En þetta er víst ekki svo einfalt, enda blákaldur raunveruleiki og mikilvægt að úr því verði skorið hver beri beinin í Kjós.

Þar sem enginn kirkjugarður er nálægt þeim stað er beinin fundust er ekki nema von að spurningum fjölgi. Frumrannsókn gefur til kynna að þetta séu bein af konu eða barni og séu tíu til þrjátíu ár gömul. Það hafa ekki margar konur horfið á þessu tímabili og greinilega er mikil saga á bakvið þessi bein og viðbúið að lögreglan verði að leita að gamalli sögu fortíðarinnar við að leysa þetta mál, rétt eins og Erlendur hefur gert í sögum Arnaldar.

Það hafa mjög margir Íslendingar horfið sporlaust síðustu áratugina. Mörg þessi mál hafa orðið fræg og hjúpuð leyndardómsfullum spurningum - talað um öðru hverju - en hin hafa fallið í gleymskunnar dá. Þegar að ég las bók um mannshvörf fyrir nokkrum árum kom það mér einmitt mest að óvörum hvað það voru margir sem hafa horfið og ekkert spurst til meira.

Því er svo mikilvægt að reyna að rekja uppruna þessara beina og söguna á bakvið persónuna sem þarna ber beinin.


mbl.is Mannabein fundust á víðavangi í Kjósarhreppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólsk glæpagengi - ofbeldisfull páskahelgi

Það var fróðlegt að sjá fréttina um pólsku glæpagengin hér á Íslandi í kjölfar hinnar hrottalegu árásar í Breiðholtinu í gær. Pólskir bófar virðast kúga landa sína hér á Íslandi og var árásin í gær dæmi um vinnubrögðin, fólskulegt ofbeldið, sem virðist vera á milli pólverja hér. Það væri gott að vita hvað gekk á í þessu tilfelli, en greinilegt er að ofbeldið er mjög harkalegt og um að ræða harðsvíraðar glæpaklíkur.

Þessi páskahelgi hefur verið frekar ofbeldisfull, en um fátt hefur verið fjallað meira í fjölmiðlum en árásirnar í tveim húsum í Reykjavík auk sprautunálaránanna þriggja. Árásin í Breiðholti var sérlega ofbeldisfull og hrottalegur verknaðurinn lýsir sér best í því að barið var á mönnunum þar með öxum og kylfum. Sem betur fer náðust nokkrir af þessum ofbeldismönnum, en enn er þó leitað sex manna sem tóku þátt í þessari árás.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með netumræðunni um þetta mál. Það er greinilegt að margir velta því fyrir sér almennt hvort að innflytjendur séu ofbeldisfullt ógæfufólk og auðvitað er talað þar um þann fjölda alvarlegra afbrota sem tengist innflytjendum á síðustu mánuðum. Það er alveg rétt að fjöldi þeirra mála er allnokkur og því miður er þar ofbeldið mjög brútalt.

Skrifaði aðeins um þetta í gærkvöldi og fékk ágætisviðbrögð á það. Er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að dæma alla innflytjendur af svörtu sauðunum. Það verður að taka á málum þeirra sem brjóta af sér en vara sig á því að dæma aðra sem hingað koma eftir þeim. En það er heiðarlegt og rétt að velta þessum málum fyrir sér og tjá sig um þau.

Það eru svartir sauðir í hópi innflytjenda eins og mörgum öðrum. Það er ekki hægt að neita því að ofbeldið um þessa helgi hefur farið yfir mörkin og hver hefur sína skoðun á því hvernig megi taka á þessum vanda og hver vandinn nákvæmlega sé.

mbl.is Pólsk glæpagengi herja á aðra Pólverja hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband