Færsluflokkur: Dægurmál
5.3.2008 | 00:07
Kuldatíðin - mildi að vel fór í Öxnadal

Það er mildi að vel fór í þessu umferðaróhappi í Öxnadal í dag. Bakkaselsbrekkan getur verið mikill farartálmi í vondum veðrum og erfið við að eiga, þó að hún hafi skánað eftir að breytingar urðu á veginum fyrir nokkrum árum, en áður var hún viðsjárverð þegar að kólnaði og þar urðu mörg slys. Kipptist við að sjá fyrirsögnina og átti von á að það hefði orðið stórslys en mikill er léttirinn að sjá að það fór í sjálfu sér allt mjög vel, miðað við aðstæður.
Vonandi fer annars að koma vor og heitari tíð, það er ekki laust við að maður sé búinn að fá leið á kuldanum og umhleypingunum.
![]() |
Umferðaróhapp í Öxnadal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2008 | 22:19
Endatafl í fjölmiðlasögunni um Önnu Nicole

Fyrir ári var deilt um það hver var faðir litlu stelpunnar, einkaerfingja Önnu Nicole. Enda skiljanlegt, þar sem mun frekar var deilt um peninga og auðæfi en einungis barnið. Enda deildu hið minnsta þrír menn um hver ætti stelpuna og auk þess vildi mamma hennar, sem Anna Nicole hataði eins og pestina í lifanda lífi, fá auðæfin með því að fá dótturina. Seint og um síðir, eftir ótrúleg fjölmiðlaréttarhöld var spurningunni svarað, en annars hefði varla þurft faðernispróf þar sem stelpan verður sífellt meira lík föður sínum, ljósmyndaranum Larry Birkhead.
Þar sem stelpan er aðeins eins og hálfs árs gömul verður hún undir yfirráðum föðurins í yfir sextán ár. Um mikla peninga er að ræða og varla við öðru að búast en að faðerninu fylgi mikil völd í öllum málarekstrinum, sem hefur þegar tekið tæpan einn og hálfan áratug, en Anna Nicole náði eins og fyrr segir aldrei fullnaðarsigri í málinu, sem er þegar orðið eitt hið mest áberandi síðustu áratugina.
Þessi mikla dramatík verður svolítið sérstakt í augum þeirra sem fylgjast með og munu aldrei sjá aðra eins peninga. Ekki er hægt að segja annað en að allt þetta mál líkist nokkuð dauða Christinu Onassis, einkadóttur skipakóngsins Aristotle Onassis, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1988, aðeins 38 ára gömul, og eftirmála þess. Christina lét aðeins eftir sig eina dóttur, Athinu. Hún erfði allt eftir móður sína og meginhluta þess sem eftir stóð af Onassis-ættarveldinu, sem afi hennar lét eftir sig er hann lést árið 1975.
Vandinn var hinsvegar sá að Athina var aðeins þriggja ára gömul. Faðir hennar, Thierry Roussel, sem hafði skilið við Christinu, hafði því full yfirráð yfir málefnum erfðaríkis Christinu og málefnum dóttur þeirra. Það stóð í rúm fjórtán ár. Enn í dag hefur Athina, sem vill lítið vita af föður sínum í dag, ekki fengið öll yfirráð yfir Onassis-arfleifðinni og standa meira að segja málaferli um að hún fái full yfirráð þó að hún hafi skv. erfðaskrá átt að erfa móður sína að öllu leyti og endanlega er hún varð 21 árs árið 2006.
Nei, það er ekki tekið út með sældinni að vera frægur...... er það ekki lokalexían af þessu öllu? Held það bara....
![]() |
Dóttir Önnu Nicole Smith erfir móður sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2008 | 18:09
Hver trúir á svona peningasvindl?
Það líður varla sá mánuður, stundum enn skemmra jafnvel, að maður fái ekki einhvers konar svona skilaboð um peningasvindl í tölvupósti. Það hvarflar ekki að manni að taka mark á þessu rugli en vonandi eru aðrir orðnir meðvitaðir um að það er bara verið að hafa það að fífli.
Skilaboðin eru giska einföld; föllum ekki flöt fyrir peningasvindlinu.
![]() |
Varað við vefsíðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2008 | 16:35
Sundlaugardóni í farbann - rafbönd tekin upp?

Þessi farbönn eru alls ekki öruggt úrræði til að halda mönnum hérlendis, sem bíða þess að mál þeirra fari áfram í kerfinu. Eðlilegast er að haft verði betra eftirlit með kynferðisafbrotamönnum á reynslulausn með rafrænum ökklaböndum. Það væri langeðlilegast í stöðunni og í raun hið eina sem getur tryggt vel að ekki sé reynt að flýja land.
Rafræn ökklabönd hafa verið í notkun erlendis með góðum árangri og engin ástæða til að bíða með að taka þau upp hér. Það eru fá úrræði betri allavega í stöðunni.
![]() |
Hæstiréttur staðfestir farbannsúrskurð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2008 | 15:35
Klaufaleg ummæli hjá Marion Cotillard

Það verður þó seint sagt svosem að Marion Cotillard sé fyrsti leikarinn í sögu óskarsverðlaunanna sem stuðar og hefur sagt margt miður gáfulegt, enda mörg dæmi um leikara sem hafa stuðað akademíuna. Þeirra eftirminnilegast hlýtur að teljast þegar að Marlon Brando afþakkaði óskarinn fyrir túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather á áttunda áratugnum og sendi þess í stað leikkonu í indíánabúningi til að taka við verðlaununum og senda út pólitísk skilaboð að hætti hans.
Það hefur löngum loðað við að Frakkar séu ófeimnir við að segja skoðanir sínar og stuða Bandaríkin á marga vegu. Það er reyndar mjög merkilegt að bandaríska kvikmyndaakademían hafi ákveðið að verðlauna franska leikkonu nú, svo skömmu eftir ólguna á milli Bandaríkjanna og Frakklands fyrr á þessum áratug, þar sem meira að segja frönskurnar voru nafngreindar upp á nýtt sem frelsiskartöflur, eða freedom fries í stað french fries. En Cotillard átti verðlaunin skilið, enda glansandi góð sem Piaf.
Það verður þó fróðlegt að sjá hvort að Bandaríkjamenn muni heillast meira af þessari frönsku heilladís eftir þessi pólitísku skilaboð.
![]() |
Segir ummæli Cotillard slitin úr samhengi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2008 | 19:43
Merkilegur sigur Smáís - áfall fyrir niðurhalarana
Niðurstaðan í DC plús málinu er stórmerkileg - fullnaðarsigur fyrir Smáís og rétthafa myndefnis og tónlistar. Eftir umdeilda lokun torrent.is var eðlilegast að dómstólar myndu skera úr um lögmæti þess sem síður á borð við það hafi verið að gera og tekið væri á þessum málum með þeim eina hætti sem fær er. Lagalegar hliðar málsins skipta einar máli og það eru þeir þættir sem þarf að koma almennilega á hreint. Það er ljóst að verði þessi dómur staðfestur í Hæstarétti er komið sterkt fordæmi í fleiri slíkum málum.
Þá fyrst verður hægt að vita almennilega hver áhrif niðurstöðunnar mun hafa. Bæði niðurhaldarar og Smáís hafa verið í vígahug. Í dag sigraði Smáís en enn er óljóst hvor trompar hinn endanlega. Eðlilega er eigendum efnis umhugað um að verk þeirra séu ekki fjölfölduð með ólöglegum hætti. Það gera allir sem selja afurðir sínar, þeir vilja ekki að þeirra sé notið án þess að greitt sé fyrir. Þannig að það þarf enginn að undrast um að þeir vilji taka á málinu og fá fram hvar valdið liggi með efni af þessu tagi.
Vandinn er hinsvegar sá að í því nútímasamfélagi sem við lifum í er nær ómögulegt að koma í veg fyrir að sjóræningjaútgáfur leki út á netið af kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlist. Þegar að einn er lagður að velli spretta tveir upp í staðinn. Það er þessi barátta sem er framundan fyrir Smáís eðlilega. Þegar að torrent.is var lagður að velli kom krafa um að annar tæki verkið á sig og fólk vildi halda sömu verkum áfram. Þegar að fólk var orðið vant því að geta hlaðið niður efni vildi það jú meira.
Þetta er því erfið barátta. Niðurstaða dagsins í dag markar hvorki upphaf og endi neins ferlis í þessu máli. Það er þó aðeins spurt um lagalegar hliðar. Niðurstaðan er 1-0 sigur rétthafanna, merkilegur sigur. En enn sér ekki fyrir endann á bardaganum sem slíkum. Hann er jú bara rétt að byrja.
![]() |
Fagna niðurstöðu dóms í DC++ máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.3.2008 | 18:57
Tæpt var það í Hamborg - merkileg upptaka

Oft höfum við séð flugslys og atvik af þessu tagi sviðsett í kvikmyndum og það virkað ansi raunverulegt og þetta myndbrot er ansi líkt og væri í kvikmynd en það verður varla raunverulegra en þetta. Flugmaðurinn er auðvitað mikil hetja, hann bjargaði því að ekki fór á versta veg.
En já, lítið á þessa klippu, þessi mun fara ansi nærri með það að verða valin sú besta á árinu.
![]() |
Lá við flugslysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.3.2008 | 12:16
Ánægjuleg tíðindi
Það er sætt að vinna svona stóran pott eftir að hafa átt miða í mörg ár og sérstaklega spilað upp á sömu tölurnar, happatölur fjölskyldunnar. Þarna sannast að oft er gott að vera einmitt með sömu tölurnar og láta lukkuna ráðast af happatölunum í fjölskyldunni.
Það hlýtur að þurfa sterk bein að lifa með svo stórum vinningi í sjálfu sér, enda sannarlega dæmi um að fólk hafi illa getað höndlað svo mikla gæfu.
![]() |
Einstæð móðir fékk lottóvinninginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2008 | 23:17
Kuldatíð fyrir sunnan - ekki farið eftir tilmælum

Það hlýtur að vera mikið hugsunarleysi í slíkum ákvörðunum og ekki gott að skilja hvers vegna fólk tekur slíkar áhættur. Það má vera að sumir telji að þetta hljóti að reddast og það sé alveg öruggt að það takist að komast heill á áfangastað. Í veðri af þessu tagi og ófærð sem því fylgir er þó teflt á tæpustu vöð algjörlega að óþörfu og óskiljanlegt að nokkur einstaklingur vilji virða tilmæli lögreglunnar að vettugi og halda sína leið vitandi um áhætturnar með því í snjóbyl og ófærð.
Annars er þetta einn kuldalegasti vetur fyrir sunnan í mörg herrans ár. Hef heyrt á þeim sem ég þekki fyrir sunnan að þeir séu orðnir langþreyttir á kuldatíðinni og bíði vorsins með óþreyju. Enda ekki furða að sólarlandaferðirnar um páskana séu uppseldar og vel það. Fólkið er farið að þrá sólina. Hér fyrir norðan þekkjum við snjóinn og þau vandamál sem fylgja honum mjög vel og efast um að hér myndi fólk fara út í óvissuna eins og fjallað er um í þessari frétt.
Við verðum að vita að það er ekki hægt að fara um í kuldatíð eins og gert er í góðu veðri. Það er því furðulegt að sjá fólk taka slíkar áhættur að óþörfu, fullorðið fólk sem ætti að vera vel meðvitað um hvernig aðstæður eru.
![]() |
Suðurlandsvegur ófær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2008 | 15:28
Vetrarríkið í Eyjum
Mér finnst Vestmannaeyjar einn fallegasti staður landsins og þangað er alltaf gaman að koma. Finnst fáir staðir fallegri á notalegu sumarkvöldi en Vestmannaeyjar og stemmningin á þjóðhátíð er engu lík. Hef aldrei komið þangað í vetrarveðri og óska mér svo sannarlega ekki að vera staddur þar í þessu aftakaveðri, þó það sé önnur upplifun en notalegt sumarkvöld.
En vonandi fer að birta yfir í Eyjum og veðrið að batna, allavega hið minnsta að hægt sé að koma á annarri vakt á sjúkrahúsinu.
![]() |
Innisnjóaðir Vestmannaeyingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)